31. desember 2019

Það er gamlársdagur, þriðjudagur, og á sunnudaginn var sat ég við matarborðið og skrifaði áramótablogg. Ég hafði hugsað allt út og það fannst svo ljós lifandi í huganum. Andinn var yfir mér.
 
Svo leiddist mér að hlusta á uppþvottavélina sem hafði murrað tímunum saman og ég skildi að það var ekki allt með felldu. En þetta var ekki í fyrsta skiptið á seinni árum sem hún hagaði sér svona. Svo tókst mér að stoppa hana en eitthvað var einkennilegt við þetta allt saman. Svo hélt ég áfram að skrifa. Eftir nokkra stund langaði mig í kaffi sem var tilbúið á könnunni þannig að ég gekk inní eldhúskrókinn og teygði mig eftir kaffinu. En heyrðu mig! Það var vatnspollur á gólfinu sem breiddist út. Þarna fékk ég óvænt verkefni sem að lokum leystist þannig að uppþvottavélin fór út á veröndina og ég þurrkaði upp mikið vatn. Ég skildi að nú lágu fyrir ný innkaup sem ég þyrfti að leysa daginn eftir, það er að segja í gær.
 
Andinn sem var yfir mér vék fyrir þessum jarðneska veruleika og ég hafði ekki lengur hugmynd um hvað ég hafði verið að skrifa og skildi ekki lengur það sem ég hafði þegar skrifað. Hefði þetta verið fyrir mörgum árum eða áratugum hefði ég bölvað og hreyfingar mínar hefðu bent til að nú væri mér nóg boðið. En þarna bara nennti ég ekki að standa í svoleiðis. Þegar Susanne kom heim úr vinnu rúmlega tíu um kvöldið var ég í rólegheitum að ljúka við að ganga frá.
 
 
 
 
 
Nú er sem sagt gamlársdagur og klukkan er að halla í fimm á þessu augnabliki. Ég er enn einu sinni einn heima. Það er orðið dimmt en birturönd við sjóndeildarhringinn mót vestri. Veturinn hefur eiginlega gleymt að koma og það er alauð jörð en blaut, það er nánast logn og hiti yfir frostmark. Það er kyrrð hér í sveitinni sem ég kann altaf jafn vel að meta og það logar á ljósum í gluggum.
 
Í gær lagði ég fram tillögu að hátíðamatnum í dag og það voru fallegar lambasneiðar sem áttu að vera uppistaðan í matnum. Þett var umsvifalaust samþykkt af Susanne. Það féll líka í minn hlut að sjá um þennan hátíðamat. Stundum gerir hún matinn en ég þó oftar og stundum við bæði. Ég geri matinn oftar vegna þess að hún er vinnandi en ég er bara kall sem er heima. Studnum kalla ég mig heimamann.
 
Matargerðin byrjaði rólega en svo smá jókst hraðinn og að lokum var mikið að gera hjá mér við eldhúsbekkinn. Taka tímann á þessu og einhverju öðru líka, gleyma ekki þessu og gleyma ekki hinu. En að lokum var maturinn tilbúinn og í tíma líka. Það besta var að hann var mjög góður og ég fékk lof fyrir það. En af því að það var orðinn mikill hraði á mér við matargerðina tókst mér ekki að hægja nóg á áður en ég borðaði þannig að ég borðaði góðan mat of hratt.
 
En það er merkilegt hvað ég verð þreyttur af að gera mat og þess meira sem hann er flóknari. Í haust komst ég að því að mér gengur mjög vel við að rækta ólíka berjarunna og því ákvað ég að auka þá ræktun sem mér gengur best við. Ég bætti við þrettán runnum og gekk mjög vel frá þeim. Hér er erfitt að grafa en ef grafið er hressilega fyrir hverjum runna verður árangurinn líka afar góður.
 
Svo gróf ég upp kannski ein 400 kg af möl og grjóti fyrir hverjum runna og þá gerir það yfir fimm tonn samtals. Svo er að flytja það grófasta á hjólbörum á valinn stað út í skógi. Það virðist alveg galið að segja það, en mér finnst sem ég verði minna þreyttur við þennan gröft en að laga mat. Og þá get ég bara sagt; aumingja mamma sem gerði mat handa öðrum í sjötíu ár, mörgum öðrum, og kvartaði aldrei. Í framhaldi af því vil ég segja að lífið er gott hér í sveitinni og heilsuna sem mér er gefin get ég seint metið að verðleikum.
 
Susanne sem hefur þá köllun að ósérhlífið létta gömlum, þreyttum, einmana og veikum byrðina á kvöldi lífsins, hún sleppur ekki eins vel heilsufarslega. Þess vegna sótti hún um störf sem eru léttari fyrir bæði líkama og sál á þeim tíma sem ég gerði matinn. Leitið og þér munuð finna. Við treystum því og svo fer allt vel.
 
Gleðilegt ár óskum við öllum sem við þekkjum og hinum líka. Hlúið að runnum ykkar og gleymið svo ekki að borða af þeim berin.
 
Það er hægt að segja svo mikið meira frá árinu 2019 en það er ekki hægt að segja allt í einum áfanga.
 
 
 
 

Það var einhver að bauka bak við húsið mitt!

Jæja, það er kominn tími til að fara að gera eitthvað. Það er sunnudagur, ég er einn heima, og þegar ég skrifa þessi fyrstu orð er klukkan hálf þrjú að verða og eiginlega hef ég ekkert gert. Og þó. Þegar ég hafði verið á ferli í morgun, gert nokkrar æfingar sem er gott fyrir menn á mínum aldri að gera, þvo mér og gá til veðurs, þá lagði ég mig aftur. Svo las ég langa grein um rússneskar konur, gjarnan há mentaðar og meira mentaðar en kallarnir þeirra. Þær bara hætta að vinna og leggja alúð við heimili sín og fjölskyldu. Þarna lá ég og las og reyndi að setja mig inn í það sem ég var að lesa og velti fyrir mér hugtakinu verðmætamat.
 
Ég lá með höfuðið hátt upp við höfðagaflinn og þegar ég hætti að lesa horfði ég beint fram. Ég sá út úr svefnherberginu, yfir stofuna og áfram gegnum herbergi þar inn af. Með öðrum orðum, eftir endilöngu húsinu, hátt í 17 metra. Mér fannst þegar ég lagði mig í gær að það væri árans óreiða hjá mér en þar sem ég nú horfði yfir þetta tók ég þá hugsun til baka. Þetta leit ágætlega út og ég hafði alla möguleika á að láta fara vel um mig hér, -og þannig er það. Ég hef alveg fengið að vinna fyrir því, virkilega finnst mér, en ég sé ekki eftir því. Það finnast atriði sem ég hefði viljað að hefðu verið öðru vísi á því tímabili, en sú umræða verður að koma síðar. Mér eru alla vega gefnir góðir dagar um þessar mundir og svo hefur verið lengi.
 
 
 
 
 
 
En nú um allt annað. Klukkan aldeilis um tvö í nótt vaknaði ég við eitthvað sem ég áttaði mig ekki á. En fyrst ég var vaknaður þótti mér best að heimsækja snyrtinguna. Þegar ég sá út um þvottahúsgluggann sem ég fer hjá á þeirri leið, þá sá ég að ljósið á gaflinum þar utan við lýsti langt út í skóg. Þetta ljós kviknar við hreyfingu. Heyrðu nú! Hver er að snuðra bakvið húsið mitt?!
 
 
 
 
Eitt það fyrsta sem ég geri þegar ég kem upp á morgnana er að líta einmitt svona út um þennan glugga. Þá sé ég hvernig verðrið er og ég sé að ég bý mitt í grænni náttúrunni við skógarjaðarinn. Eiginlega er sáralítið sameiginlegt í þessu útsýni milli sumars og vetrar, svo lítið að sá sem ekki þekkir til hér mundi varla þekkja þetta fyrir sama stað á sumarmynd og vetrarmynd.
 
 
 
 
En þegar ég leit út klukkan tvö í nótt var þetta útsýnið. Dádyrin eru falleg dýr og þau geta líka kveikt á ljósinu á þvottahúsgaflinum með hreyfingu sinni. Ég fór gætilega og náði nothæfri mynd. Þarna er dádýrið að gæða sér á rósablöðum af rósunum hennar Valdísar. Fyrir nokkrum árum voru fimm dádýr þarna úti nótt eina þegar ljósið hafði kviknað. Já, ég er virkilega nágranni náttúrunnar.
 
Ja hérna. Það fór öðru vísi en til stóð. Tvö fyrstu stykkin í þessu bloggi áttu alls ekki að vera hér með en þau bara komu. Það er heiðskýrt en skýjabakki  á vesturhimni og vægt frost. Það blikkar með einnar sekúndu millibili trúi ég á vindmyllunum 16 á Kilsbergen, vindmyllunum sem framleiða rafmagn fyrir 40 000 heimili.
 
 
RSS 2.0