Það var einhver að bauka bak við húsið mitt!

Jæja, það er kominn tími til að fara að gera eitthvað. Það er sunnudagur, ég er einn heima, og þegar ég skrifa þessi fyrstu orð er klukkan hálf þrjú að verða og eiginlega hef ég ekkert gert. Og þó. Þegar ég hafði verið á ferli í morgun, gert nokkrar æfingar sem er gott fyrir menn á mínum aldri að gera, þvo mér og gá til veðurs, þá lagði ég mig aftur. Svo las ég langa grein um rússneskar konur, gjarnan há mentaðar og meira mentaðar en kallarnir þeirra. Þær bara hætta að vinna og leggja alúð við heimili sín og fjölskyldu. Þarna lá ég og las og reyndi að setja mig inn í það sem ég var að lesa og velti fyrir mér hugtakinu verðmætamat.
 
Ég lá með höfuðið hátt upp við höfðagaflinn og þegar ég hætti að lesa horfði ég beint fram. Ég sá út úr svefnherberginu, yfir stofuna og áfram gegnum herbergi þar inn af. Með öðrum orðum, eftir endilöngu húsinu, hátt í 17 metra. Mér fannst þegar ég lagði mig í gær að það væri árans óreiða hjá mér en þar sem ég nú horfði yfir þetta tók ég þá hugsun til baka. Þetta leit ágætlega út og ég hafði alla möguleika á að láta fara vel um mig hér, -og þannig er það. Ég hef alveg fengið að vinna fyrir því, virkilega finnst mér, en ég sé ekki eftir því. Það finnast atriði sem ég hefði viljað að hefðu verið öðru vísi á því tímabili, en sú umræða verður að koma síðar. Mér eru alla vega gefnir góðir dagar um þessar mundir og svo hefur verið lengi.
 
 
 
 
 
 
En nú um allt annað. Klukkan aldeilis um tvö í nótt vaknaði ég við eitthvað sem ég áttaði mig ekki á. En fyrst ég var vaknaður þótti mér best að heimsækja snyrtinguna. Þegar ég sá út um þvottahúsgluggann sem ég fer hjá á þeirri leið, þá sá ég að ljósið á gaflinum þar utan við lýsti langt út í skóg. Þetta ljós kviknar við hreyfingu. Heyrðu nú! Hver er að snuðra bakvið húsið mitt?!
 
 
 
 
Eitt það fyrsta sem ég geri þegar ég kem upp á morgnana er að líta einmitt svona út um þennan glugga. Þá sé ég hvernig verðrið er og ég sé að ég bý mitt í grænni náttúrunni við skógarjaðarinn. Eiginlega er sáralítið sameiginlegt í þessu útsýni milli sumars og vetrar, svo lítið að sá sem ekki þekkir til hér mundi varla þekkja þetta fyrir sama stað á sumarmynd og vetrarmynd.
 
 
 
 
En þegar ég leit út klukkan tvö í nótt var þetta útsýnið. Dádyrin eru falleg dýr og þau geta líka kveikt á ljósinu á þvottahúsgaflinum með hreyfingu sinni. Ég fór gætilega og náði nothæfri mynd. Þarna er dádýrið að gæða sér á rósablöðum af rósunum hennar Valdísar. Fyrir nokkrum árum voru fimm dádýr þarna úti nótt eina þegar ljósið hafði kviknað. Já, ég er virkilega nágranni náttúrunnar.
 
Ja hérna. Það fór öðru vísi en til stóð. Tvö fyrstu stykkin í þessu bloggi áttu alls ekki að vera hér með en þau bara komu. Það er heiðskýrt en skýjabakki  á vesturhimni og vægt frost. Það blikkar með einnar sekúndu millibili trúi ég á vindmyllunum 16 á Kilsbergen, vindmyllunum sem framleiða rafmagn fyrir 40 000 heimili.
 
 


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0