Aðfangadagur 2018, líkleg kaldasti dagur vetrarins

Við Susanne ókum heiman að móti Örebro klukkan tíu í morgun. Ég að leggja af stað til Stokkhólms en hún til að fara í vinnuna. Mér fannst þetta óréttlátt en hún sagðist glöð að fara í vinnuna þennan mesta hátíðadag ársins, þar mundi hún gleðja aðra. Hitamælirinn í bílnum sýndi -12 gráður.
 
Þegar hlý lestin rúllaði af stað og framhjá bílnum mínum beið hún þar til að vinka í kveðjuskini. Hlý lestin sagði ég og það minnti mig á aðra lestarferð til Stokkhólms. Það var fyrir fjórum árum og þá var líka kaldasti dagur þess vetrar, mun kaldari en dagurinn í dag. Ég skrifaði blogg um þá ferð og nú ætla ég að lesa það blogg yfir snyrta til og birta síðan.
 
 
 
Síðdegis, eða klukkan fjögur á aðfangadag 2014, tók ég lest til Stokkhólms frá Vingåker, litlum bæ stutt frá Vornesi þar sem ég hafði unnið stærstan hluta dagsins. Ég fékk far til vingåker með henni Malin í eldhúsinu  en bílinn skildi ég eftir í bílageymslu í Vornesi. Ég var mættur i Vingåker heilum klukkutíma áður en lestin kom þangað, en ég varð gera svo þar sem vinnu Malin var lokið þann daginn.
 
Vingåker er eins og ég sagði lítill bær og biðsalurinn við lestarstöðina er lítill og ómannaður og mér brá mjög þegar ég uppgötvaði að hann var læstur. Það var vetur og jafnframt mesta frost sem þessi vetur hafði boðið upp á. Heill klukkutími, hvernig mundi það ganga. Ég þekki vel til í Vingåker en þeir sem ég þekki þar er stórfjölskyldufólk sem fær marga í heimsókn á aðfangadag og að hringja og biðja um aðstoð krafðist þess að ég væri í nauðum staddur. Ég hefði að sjálfsögðu gert það en ekki fyrr en það hefði verið farið að sverfa rækilega að mér.
 
Brautarpallurinn er um 200 metra langur. Ég lagði frá mér farangurinn og hóf rösklega göngu fram og til baka, aldeilis án afláts. Einn maður kom á hjóli og heilsaði en hann tilheyrði þeim sem hefðu þurft að vera innskrifaðir í Vornesi. Þrátt fyrir rösklega gönguna og góð föt sem ég var í, fann ég hvernig frostið leitaði án miskunnar inn í brjóstholið og ég skynjaði að þetta mundi enda með ósköpum. Mér fannst ég vera bæði of gamall og lífsreyndur til að lenda í þessari hremmingu. Einhverjar mínútur varð ég reiður út í þetta bæjarfélag með læsta biðsalinn og gaf staðnum nafnið -og lesið nú með smáu letri- ég gaf Vingåker nafnið "helvítis hundhola", sagt nákvæmlega eins og ég hef skrifað það.
 
En mjög fljótt dró ég það til baka. Það voru jól og dagurinn hafði verið aldeilis frábær í vinnunni og jólahelgin hafði virkilega verið hluti af lífi mínu þennan dag.
 
Hún Árný mágkona mín í Garðabænum er kona með trygga lund. Þær voru til skamms tíma þrjár systurnar sem voru svo ríkar af þessu trygglyndi og þær tvær sem nú lifa búa yfir því áfram. Ég fæ oft að njóta þess. Kaldur á lestarstöðinni í Vingåker varð mér hugsað til systurinnar sem hefur verið kölluð heim. Nei, það sæmdi mér ekki að láta niðrandi reiði fá mig til að gefa litlu bæjarfélagi ljótt nafn, bæjarfélagi sem bara hafði reynst nér vel í nítján ár.
 
Á síðustu stundu áður en ég hafði farið í vinnuna fyrir þessi jól hafði ég fengið pakka frá annarri systurinni, þeirri sem býr í Garðabænum. Ég tók þann pakka strax upp og ákvað að taka innihaldið með mér í ferðalag mitt sem nú stendur yfir. Það var grá rúllukragapeysa og mjög fallega prjónaðir vetlingar. Ég tók ákvörðun. Ég gekk að farangri mínum og fór úr vetrarjakkanum, síðan úr jakkanum og síðast tók ég af mér húfuna. Þar sem ég nú stóð þarna á skyrtunni og góðum nærbol tók ég rúllukragapeysuna yfir höfuðið og síðan fljótt á með húfuna. Síðan á mig með jakka og vetrarjakka og svo að síðustu fallega prjónuðu vetlingana frá henni Árnýju mágkonu minni.
 
 
 
 Þegar ég hóf göngu mína á ný um lestarpallinn og fann ískuldann hverfa út úr brjóstholi mínu, þá ákvað ég að segja henni mágkonu minni frá þessu á viðeigandi hátt og geri það nú með þessu bloggi. Hún hefur glímt við erfið veikindi í hendi um lengri tíma og er nýkomin úr mikilli aðgerð varðandi það. Við slíkar aðstæður er fólk í mestri þörf fyrir þann kraft sem hvorki verður mældur eða veginn. Það er krafturinn sem aðeins er hægt að veita með hlýlegum orðum og með hlýjum hugsunum. Mágkona mín, þakka þér svo mikið fyrir jólapakkann sem þú sendir mér þrátt fyrir að þú gengir ekki heil til skógar.
 
Þegar hlý lestin rúllaði að lokum af stað frá Vingåker var ég í góðu jólaskapi. Vingåker var fyrir mér góður og fallegur bær og aldraða, ókunnuga konan sem settist á móti mér á næstu lestarstöð borðaði með mér konfekt sem jólasveinninn í Vornesi gaf mér fyrr um daginn. Áður en við Malin lögðum af stað frá Vornesi spurði ég þessa tuttugu og tveggja ára gömlu ráðskonu í eldhúsinu hvernihg það hefði verið að vinna við það að gefa rúmlega þrjátíu alkohólistum og fíkniefnaneytendum jólamat að borða. Hún sagði að þetta væri í annað skiptið sem hún fengi að gera það og hún sagði einnig: "Ég verð svo hrærð." Ég sá vel að hún varð hrærð við að segja þetta og svo urðum við bæði hrærð og ekki í fyrsta skipti þennan dag. Það voru nú einu sinni jól.
 
Öllum sem lessa þetta óska ég innilega gleðilegra jóla.
 
Að lokum; jólasveinninn í Vornesi sem gaf mér konfektpakkann var leikinn af mér sjálfum.
RSS 2.0