Vorteikn

 
Ég var á leið út í viðarskýli í gær til að sækja mér í eldinn og allt í einu stakk ég við fæti. Hvað var nú þetta? Hvítlaukurinn kominn upp! Ég geng nefnilega akkúrat frmhjá þessu á leið út i viðarskýlið. Það var ekki að eigin frumkvæði að ég setti hann niður í fyrra. Það var að fyrirmælum konu einnar í Stokkhólmi. Ég setti hann líka niður að minnsta kosti mánuði seinna en leiðbeiningar segja til um og það var fyrir minn trassaskap. Þegar ég sá að hvítlaukurinn var kominn upp var ég afar feginn að hafa fengið fyrirmæli um að gera svo. Ég nota hvítlauk nánast á hverjum degi nú orðið. Þess vegna hef ég líka spurt nokkrum sinnum hvort ég lykti af hvítlauk. Fólk segir svo ekki vera sem þýðir að ekki er um ofneyslu að ræða. Að geta sótt hvítlaukinn út að skógarjaðrinum heima þýðir að maður veit að það eru engin eiturefni í þeirri matvöru. Það er líka sagt að hann fæli frá óæskilega gesti í matarlandinu.
 
Þessa mynd tók ég frá veröndinni austan við húsið í morgun. Hún er af sáningunni sem ég framkvæmdi að minnsta tveimur vikum seinna en Ingemar skrúðgarðafræðingur hafði sagt að gæti gengið. Tvær vikur seint að hausti er mjög seint. Tveimur vikum fyrr eða seinna um mitt sumar er ekkert. En ég er feginn að ég gerði þetta og þurfi ekki að horfa á moldarflagið núna og eiga eftir að hræra í moldinni fram og til baka með reku og garðhrífu og spígspora með valtarann. Þetta kom grænt undan snjónum og nú er flötin tilbúin að halda áfram að vaxa. Kannski bæti ég fræi í eftir eins og mánuð en útlitið er gott. Fjærst á myndinni sér í fæturna á dádýrinu hennar Valdísar.
 
Ef þetta er virkilega vorkoman er ekkert annað að gera en taka henni fagnandi og láta vera að hugsa svartsýnn um páskahret. Ég gáði að skógarsóleyjum áðan en sá ekki. Bellisa, eða dvergfífla, sá ég ekki heldur en þeir voru hér á vappi fram á vetur og heilsuðu mér alltaf glaðlega. Ég er viss um að það er eitt og annað farið að brosa móti veðurblíðunni en ég hef ekki rekist á það ennþá. Ég er viss með að láta vita.
 
Í morgun er ég búinn að gera æfingarnar mínar og teygja, gá að vorinu, tala við rafvirkjann, borða samviskusamlega hafragrautinn minn, hugsa og komast að frábærri niðurstöðu. Svo er ég búinn að lifa lífinu þó að ekkert sjáist eftir mig enn svo lengi. Nú ætla ég að fá mér heitan og ilmandi kaffisopa og með því ætla ég að hafa saltkex með osti og persimónusultu. Ef þið viljið koma sem snöggvast og fá líka þá er þetta tilbúið á eldhúsbekknum.
 
Vorkoman er farin að kitla mig bakvið bringubeinið.
 

Þegar eldurinn verður að glóð

Ég var búinn að setja mér það markmið að vera kominn í rúmið fyrir hálf ellefu. En fyrst ég er byrjaður á bloggi er það hæpið. Ég hef þá bara 10 mínútur til stefnu.
 
Ég kveikti upp í kamínunni eftir frekar síðbúinn kvöldmat. Síðan var ég á röltinu svona fram og til baka eins og oft gerist hjá mér. Ég þurfti að leita að orði í orðabókinni, að mæla smávegis út á Bjargi, var að hugsa um að senda málaranum tölvupóst, fékk mér granatepli í jógúrt og fór í ferðalag á netinu. Svo var auðvitað þetta að bursta og pissa og ég velti fyrir mér á meðan hvað það var í morgun sem var svo mikilvægt að ég hafði hugsað mér að blogga um það. Nú man ég það ekki.
 
Þannig er kvöldið farið. Annars hittumst við fimm Íslendingar heim hjá Auði og Þóri sí svona til að fá okkur eftirmiðdagskaffi. En viti menn, það varð ekkert sí svona því að Auður var búinn að baka tvær þessar líka góðu og orkumiklu kökur. Eplakakan var með miklu af eplum alveg eins og mér finnst að eplakökur eigi að vera. Og súkkulaðikakan var með miklu súkkulaði, líka alveg eins og súkkulaðikökur eiga að vera.
 
Þegar Auður bauð mér að taka tertusneiðar með mér heim sagði ég nei takk með munnvatnið takandi boðaföll upp í munni mér. Svo þegar ég var búinn að borða kvöldmatinn heima hjá mér sá ég eftir að hafa ekki tekið með tertusneið til að hafa í eftirrétt. En nokkuð ánægður lét ég svo granatepli í 15 % feitu kremfres duga.
 
En nú er ég kominn inn að rúmi þar sem tölvan mín er. Eftir smá stund ætla ég að leggjast á koddann og lesa í bók þangað Óli L hefur tíma til að vagga mér í svefn. Á meðan ég les ætla ég að gera eins og svo oft áður; ég ætla að líta öðru hvoru fram að kamínunni þar sem ég hef hurðina þangað fram opna. Þannig ætla ég að fylgjast með eldinum smá hjaðna og þegar ég sé að hann er orðinn að kyrrlátri glóð veit ég að nóttin er líka að taka yfir í kamínunni.
 
Bókin sem ég ætla að lesa heitir á sænsku Ved, viður. Bók sem hún Fanney Antonsdóttir, búsett í Ósló en er ein af dætrum Hríseyjar, bara sendi mér fyrirvaralaust og án þess að það væru jól eða stórafmæli. Hún er búin að gefa mér skýringu á nafninu sem með hennar eigin orðum er á þessa leið: "Orginaltitillinn á bókinni er "Hel ved" sem er líka lýsing á manneskju sem er heil, ekta, hægt að treysta. Fannst það svo fínt." Svo sagði Fanney.
 
Og víst var þetta fínt hjá Fanneyju. Við getum einfaldlega sagt að þess betur unninn og verkaður sem viðurinn er, þeim mun auðveldara er að fá upp góðan eld í kamínunni, hann brennur með fallegri loga, hitar betur, glóðin dansar með meiri þokka í lokin og reykurinn sem kemur upp úr skorsteininum er hreinni, næstum ósýnilegur. Hann sem sagt er vistvænn og sótarinn hefur minna að hreinsa. Það er "hel ved".
 
En hvað er þá heil manneskja? Jú, Fanney sagði það, hún er ekta og hægt að treysta. Og hver ræður því hvort við erum ekta eða hægt að treysta? Hver getur verið meira ábyrgur fyrir því að ávaxta mína góðu eiginleika en ég sjálfur? Enginn. Ég hef með mína eigin verkun að gera en ég verka líka viðinn sem er nú að brenna út í kamínunni.
 
Svo horfði ég á sjónvarpsmessu í morgun og presturinn sem predikaði var ekki svo mikið meirta en tuttugu og fimm ára kona. Hún talaði um að þó að við séum trúuð geti efinn sótt okkur heim, vafið okkur um fingur sér, en að okkur beri að óttast ekki. Svo víkur efinn og trúin verður einlæg á ný. Hún talaði um að vera heil manneskja. Mér þótti afar notalegt að hlusta á hugleiðingar þessarar ungu konu. Svo þegar ég stóð upp úr stólnum að messu lokinnni datt mér í hug bókin frá henni Fanneyju og þar með er ég aftur kominn að því sem ég hugsaði í morgun en var búinn að gelyma. Orðin sem ég lindaði hugsanir mínar inn í í morgun hafa hins vegar ekki komið til baka, þau eru önnur núna.
 
Ég þarf ekki að flygjast lengur með því frá koddanum að eldurinn í kaminunni verða að glóð. Hann er þegar orðinn að glóð og dansinum er lokið. Aðeins örlítil kyrrlát glóð er eftir. Ég kem til með að leggja mig 70 mínútum seinna en ég hafði lofað sjálfum mér.
 
Pastor Eleonore Gustafsson, sú sem predikaði í messunni í morgun. Myndin er tekin við predikunina og blómaskreytingin er sú sama. Þegar ég horfi nú á myndina af þessri konu hugsa ég; hún var ótrúlega flott og áheyrileg í messunni

Að tapa fé

Ég var í Coloramaversluninni í Fjugesta í morgun, sama sem Málning og járnvörur, og var að borga sparslfötu sem ég keypti. Ég spurði Ing-Marie hversu mikið ég ætti inn á bónusreikningnum mínum. Hún fletti upp á kennitölunni minni og sagði að ég ætti inni 100 krónur. Svo bætti hún við að 31. október hefðu 289 krónur fallið út af því að tíminn var útrunninn. Jahá! Ég fann hvernig það var í þann veginn að þykkna í mér þegar mér tókst þó að segja; og þá fer ég á hausinn. 289 krónur sænskar eru nefnilega 5020 krónur íslenskar og svoleiðis hendi ég bara ekki frá mér sí svona. En leiðinlegt sagði Ing-Marie með hluttekningu. En því var ekki hægt að breyta þar sem Colorama er verslunarkeðja um alla Svíþjóð og það eru höfuðstöðvarnar sem hafa með þetta að gera.
 
Það eru orðin félagskort um allt og það kemur svo mikið af bréfum og tölvupósti út af þessu að það er orðinn hreinn frumskógur. Í fyrra var ég í TheBodyShop í Marieberg að kaupa birgðir af baðsápu og sjampói sem átti að kosta upp undir 1000 krónur. Viltu vera félagsmaður? spurði táningskona. Þá kostar þetta 650 krónur og þú færð þar að auki eina flösku í viðbót af baðsápunni. Og hvað gerir ellilífeyrisþegi? Nú, gerist félagsmaður og ég á ennþá nóg af baðsápu en sjampóið er að verða búið.
 
Svo var ég seint í haust að kaupa í Blomsterland og var með kort upp á bónus sem nam nokkur hundruð krónum. Þá rétti ég fram öfugt kort og afgreiðslustúlka sem var nánast á táningsaldri leit á kortið og sagði að þetta væri TheBodyShop kort. Fyrirgefðu sagði ég og ég sagði ennfremur að ég hefði fengið sms frá TheBodyShop daginn áður þar sem mér hefði verið boðið að koma á snyrtivörukynningu. Heldur þú að það hefði ekki verið skemmtilegt að sjá mig þar meðal smástelpna sem voru að láta mála á sér augabrúnirnar. Konan leit á mig samúðarfullu augnaráði og sagði að það hefði að vísu orðið svolítið neyðarlegt. Mér fannst það hógvært svar.
 
Og heima nú. Ég var að vinna út á Bjargi í gær. Nokkrar gipsplötur voru óvart 10 sm styttri en til stóð og það var mín eigin yfirsjón. Þetta horn kemur til með að lenda bakvið fasta skápa og er þar að auki í bílageymslunni. Eitt augnablik hugsaði ég sem svo að það sæi enginn að plöturnar næðu ekki niður í gólf. En sú hugsun varði ekki lengi. Síðan setti ég renninga í bilið.
 
Svo kem ég trúlega til með að renna málningarrúllunni yfir þetta líka. Ég kannski sparsla ekki vandlega þarna niður við gólfið bakvið skápana, en mér líður ekki vel með að kasta hendinni til þess sem lendir á bakvið -jafnvel þó að það lendi á bakvið. Svoleiðis er ekki að hafa hreint hús. Ég veit líka um konu eina í Stokkhólmi sem horfði á smiði  sem ætluðu að leggja eldhúsbekk á fastan sökkul án þess að ryksuga fyrst bakvið sökkulinn. Hún bað þá að hinkra við og gera hreint fyrir sínum dyrum; ryksuga fyrst. Svoleiðis geri ég líka. Ég vil gera hreint fyrir mínum dyrum eftir bestu getu. Ég var líka að vinna á Bjargi í dag.
 
Fyrstu helgi í mars fæ ég heimsókn. Kannski vinnum við líka saman þá nafnarnir eins og við gerðum í fyrra og þessi mynd sannar. Það er enginn kæruleysissvipður á okkur nafna mínum þarna. Það skal vanda til verksins og þá verða pönnukökurnar góðar. Það eru alltaf góðar pönnukökur á Sólvöllum. Kannski ég taki hálfrar uppskriftar æfingabakstur á morgun eða sunnudag til að vera í þjálfun þegar gestirnir koma. Ég get sjálfsagt rennt niður nokkrum pönnukökum hjálparlaust um þessa helgi en ekki væri verra ef einhver birtist til að sitja á móti mér við matarborðið.
 
Að lokum. Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur flutti nokkur eða mörg af lögum Everts Taube til Íslands og gerði texta við þau. Ég birti hér eitt kunnuglegt sem Taube syngur sjálfur, fyrir meira en hálfri öld vænti ég. Þetta lag er til hér í afar mörgum útgáfum og mjög fallegum en þetta er vafalaust elsta útgáfan.    Vorkvöld

Íslenskt þjóðlag - sænskt þjóðlag og barnaskólaár

Það var hérna í fyrradag að ég vitnaði í íslenska vorvísu og sagði; "sóleyjarnar vaxa -sunnan við garð."
 
Ég var ekki viss hvort þetta væri rétt og þegar ég gáði að því í morgun komst ég að því að svo væri ekki, heldur væri það "sóleyjar spretta". Ég svo sem svitnaði ekki út af því en komst við þessa athugun að því að vorvísan væri eftir Þorstein Gíslason, en á öðrum stað sagði þó að höfundur væri óþekktur, en að lagið væri þjóðlag. Litlu neðar á sama lista var svo þekkt íslensk söngvísa og þar var sagt að lagið við hana væri sænskt þjóðlag. Ég leitaði þetta uppi á sænsku og árangurinn varð þessi:      Vårvindar      Mér fannst þetta svolítið sniðugt og það eru ófá kvöld sem ég hef dundað mér við svona, að leita uppi í sænskum flutningi sænsk lög sem eru notuð við íslenska söngtexta, suma mjög þekkta.
 
Þessar vísu- og ljóðahugleiðingar minntu mig á ljóðalærdóm minn þegar ég var í barnaskóla hjá Kristjönu Jónsdóttur á sláturhúsloftinu á Kirkjubæjarklaustri. Ég man vel eftir því þegar Kristjana horfði með ánægju á mig og fleiri ryðja úr okkur í einum áfanga Gunnarshólma, Skúlaskeiði eða Fjallinu Skjaldbreiði, öll ljóð upp á einhverjar síður í skólaljóðunum ef ég man rétt. Löng voru þau alla vega og það var keppni milli okkar nokkurra að læra sem lengst ljóð í frívikunni heima. Í skóla vorum við aðra hverja viku eða annanhvern hálfan mánuð, líklega breytilegt frá ári til árs.
 
Einn morgun þegar ég vaknaði heima, daginn sem ég átti að fara með honum Ingólfi Magnússyni á kaupfélagsbílnum í skólann, þá áttaði ég mig á því að ég hafði ekki lært neitt ljóð heima. Hvert í hoppandi! Ekki sagði ég neinum frá þessu en tók skólaljóððin og lærði í flýti lítið ljóð sem heitir "Voða bágt á veslings Rútur". Þegar ég átti svo að fara með stórljóðið mitt fyrsta daginn í skólanum í það skiptið, stundi ég upp þessum þremur smá vísum. Kristjana horfði ekki á mig með neinni velþóknun í það skiptið en þau Ditti í Mörk, Gyða Siggeirsdóttir og líklega einhverjir fleiri nutu þeim mun meiri hylli. Ég man vel hvað ég skammaðist mín innilega fyrir þetta.
 
En það var hann Ingólfur Magnússon, sá prúði maður úr Meðalandi, sem við frá Kálfafelli fórum svo oft með í og úr skóla. Hann bjó í kjallaranum í sama húsi og ég svaf í vikurnar sem ég var í skólanum og einn veturinn þurfti ég að fara gegnum eldhúsið hjá honum til að komast úr og í herbergið mitt. Ég varð fyrir töluverðu einelti eins náunga þessi barnaskólaár mín og eitt sinn þegar ég var að fara úr eða í herbergið og var afar lítill og raunamæddur, þá tók Maggý kona Ingólfs eftir ástandi mínu.
 
Hún lét það ekki framhjá sér fara og talaði hlýlega við mig, tók létt um handlegg minn og gaf mér svo köku og mjólkurglas. Mér hafði fundist Maggý vera fáskiptin kona en eftir þetta vissi ég að hún átti sína hlýju og góðu hlið. Þetta hefur ekki komið upp í huga mér í kannski allt að sextíu ár, en í vísna og ljóðahugleiðingum mínum í morgun var sem þessi atburður birtist mér ljóslifandi. Ég sá fyrir mér litla matarborðið þeirra í einu horni eldhússins og ég sá fyrir mér Maggý, þessa konu sem átti hlýju til að deila til lítils grátandi stráks sem þá var væntanlega tíu eða ellefu ára. Mikið var ég henni þakklátur þá og ég finn til hlýju í hennar garð þegar ég skrifa þetta mörgum áratugum seinna.
 

Voða bágt á veslings Rútur.
Viljið þið heyra hvernig fór?
Hann var lítill labbakútur
en langaði til að verða stór.

 

Oftraustið er oft að meini,
um það sagan vitni ber:
Hræðilega stórum steini
steypti’ hann niður á tána’ á sér.

 

Flest má stærðarlögum lúta,
lítið þýða mun því enn
fyrir litla labbakúta
að langa til að sýnast menn.

 

                Stefán Jónsson

Rugludallur

Ég kom hálf ringlaður heim undir hádegið í dag eftir all skarpa vinnutörn. Þrjár nætur nánast í röð breytir aðeins tímaskyninu. Ekki það að ég sef þegar ég vinn svona en bæði fer ég þá seint í bólið og snemma upp. Nú er törnin á enda og engin vinna aftur fyrr en eftir þrjár vikur. Það væri berta heldur jafnara en ég tek því sem að höndum ber í þessu sambandi.
 
Tími stutterma nærskyrtunnar virðist vera liðinn. Það er bara orðið of hlýtt til að ég geti klætt mig þannig, alla vega ef ég fer í vinnu. Á kaldasta tímanum var það hins vegar nauðsynlegt. Ég byrjaði á að líta á tíu daga veðurspá sænsku veðurstofunnar á netinu þegar ég kom heim. Einhverjar tvær nætur af þessum níu sem sjást í spánni er spáð eins og tveggja stiga frosti. Síðan leit ég á fimm daga spána á textavarpinu og hún bara staðfesti hina spána. Þetta eru hreinu hlýindin miðað við árstíma.
 
Það var gott að koma heim. Ég byrjaði á smá yfirlitsferð hér heima og varð harla glaður. Mig langaði að skipta strax um föt og drífa mig svo út til að vinna að nauðsynlegum hlutum. Svo glímdi ég við mig í fáeinar mínútur og ákvað svo að vera skynsamur og ganga frá þvotti sunnudagsins. Ég þarf að strauja fimmm skyrtur og einar buxur og brjóta saman öðrum þvotti. Ég er svolítið gjarn á að finna út að annað sé mikilvægara "akkúrat núna" en þá verður útlitið ekki svo skemmtilegt á heimilinu mínu. Í dag verður það því þvottur og innanhúsverk. Ég er búinn að fá mér léttan hádegisverð, öfugt við það sem ég á að gera. Síðan verður það þyngri kvöldverður, líka öfugt við það sem ég á að gera.
 
Ég gerði sultu á sunnudaginn var. Svo smakkaði ég á sultunni aðeins volgri og mér fannst þetta bara vera sykurleðja. Þá varð ég svolítið svekktur og trúði því að mér hefði mistekist. Þegar ég var að leggja af stað í vinnuna í gær sneri ég við í útidyrunum og sótti pínulitla krukku með sultu og tók með mér. Í morgun þegar ég var búinn að skila af mér húsinu leit ég inn í eldhúsið til að athuga hvernig stæði á. Jú, það stóð vel á.
 
Ég fór í töskuna mína, sótti litlu sultukrukkuna og með hendur fyrir aftan bak gekk ég inn í eldhðúsið og sagðist eiga leyndarmál. Þær þrjár í eldhúsinu urðu forvitnar. Ein þeirra var 22 ára, önnur 45 ára og sú þriðja 66 ára. Svo rétti ég fram krukkuna og spurði hvað hægt væri að gera þegar sulta væri of sæt. Sú elsta sagði að það væri ekki svo mikið að gera annað en láta sig hafa það. Svo vildu þær smakka en spurðu fyrst hvort sultan hefði ekki verið köld þegar ég smakkaði á henni. Nei, hún var volg.
 
Ég sótti þrjár teskeiðar og fyrst smakkaði sú yngsta. Þetta er fínt sagði hún. Þetta verður sko fínt ofan á ristað brauð með osti. Svo smakkaði sú elsta og sagði, Guðjón, láttu ekki svona, þetta er fín sulta. Að lokum smakkaði hún sem er 45 ára og hún var hinum tveimur sammála. Svo vildu þær vita hvað væri í sultunni og það voru jú persimónur, mandarínur, sykur, engifer og sítrónusafi.
 
Mér fannst þetta svolítið sniðugt. Ég smakkaði sultuna líka eftir að hún kólnaði og fannst hún allt of sæt þá líka og svo fékk ég að heyra þetta hjá þaulvönu starfsfólki í eldhúsi. Nú kemur rúsínan í pylsuendanum. Létta hádegisverðinum mínum lauk ég með ristaðri brauðsneið með osti og sultunni minni ofan á. Og viti menn; sultan er fín! Ætti kannski frekar að kallast marmelaði.
 
Ég var búinn að bíta í mig að hún væri of sæt og eftir það sagði heilinn að hún væri of sæt. Nú er ég harðánægður með sultuna mína. Í staðinn báðu svo Vorneskonurnar um rúgbrauðsuppskriftina sem ég nota. Mín var ánægjan
 
Hér með er ég tilbúinn í innanhúsverkin.
 
Litla sultukrukkan. Rósa og Pétur eiga krukkuna EN ÉG Á SULTUNA!

Sóeyjarnar vaxa, sunnan við garð

Sóleyjarnar vaxa, sunnan við garð. Stendur það ekki svona í ljóðinu? mig minnir það alla vega.
 
Í morgun vaknaði ég eftir svefn í níu og hálfan tíma, en það er svefninn sem ég þarf eftir að hafa unnið kvöld og nótt. Svo gekk ég röskum skrefum undir sturtuna og síðan með hafragrautarpottinn á helluna. Meðan ég borðaði grautinn kveikti ég á sjónvarpinu til að sjá veðurspána á textavarpinu. En þá var einmitt í undirbúningi að flytja nýjustu veðurspá og þá hafði fréttamaðurinn orð á því að við austurströndina eða á eyju við austurströndina hefði ein sóley þegar fundist sem brosti móti komandi vori. Mér fannst það óþarflega snemmt. Svo kom veðurfræðingurinn á skjáinn og talaði um vorveður.
 
Stuttu síðar var ég á leið í vinnu til að vinna enn eina nótt. Sólin skein frá hálfskýjuðum himni og viti menn; það var vorlegt. Svo hélt áfram að vera vorlegt alla leið í vinnuna og þegar ég steig út úr bílnum þar hélt þessi tilfinning áfram.
 
Ég veit að það er allt of snemmt ef satt reynist en ég get heldur ekki neitað því að þessi vortilfinning var undur góð. Vetrarhörkurnar hafa verið víðs fjarri en hins vegar hefur veturinn verið dimmur. Á móti því finnst mér sem skammdegismyrkrið hafi ekki verið svo svart í huga mér. En hver veit hvernig það var í raun og veru.
 
Á leiðinni út að bílnum í morgun horfði ég á lélegt lítið tré sem ég þarf að skipta út á móti sterklegu og hraustu tré. Á leiðinni í vinnuna komu nokkur svona verkefni upp í huga mér. Ég er ekki frá því að ég komi til með að skipta trénu út í vikulokin. Ég þarf líka að fara út í skóg með runnaklippur og snyrta til litlar eikur. Það eru góðir tímar í vændum og ég ætla að lifa mig inn í þennan tíma.

Dagný

Dagný er gamalt sænskt sönglag, vinsælt og er gjarnan sungið í fjöldasöng. En svo er önnur sænsk Dagný og það er kona sem verður 102 ára í ár.
 
Það hvarflaði ekki að mér að blogga í kvöld en ég fór inn á bloggið til að taka til. Það er að segja að ég fór inn á það sem heitir uppkast og ætlaði að henda nokkrum síðum sem ég veit að ég kem ekki til með að nota. Þá rakst ég á uppkast um hana Dagnýju og þar sem mér finnst hún mjög merkileg kona, þá ákvað ég að nota þetta uppkast, fara yfir það og birta það.
 
Svona lítur Dagný Carlsson út um þessar mundir.
 
Dag einn í byrjun mánaðarins horfði ég ekki einu sinni á fréttir en opnaði sjónvarpið tvisvar sinnum til að líta á textavarpið. Þegar ég var búinn að borða morgunverðinn þennan dag álpaðist ég til að opna sjónvarpið og ætlaði að sjá veðurspána á textavarpinu, en þá stóð yfir þátturinn "Spyrja lækninn" sem er þáttur þar sem vinna saman stjórnandi og læknir. Þær fá bréf sem þær svara og fólk fær jafnvel að hringja og svo er oft talaði við fólk sem hefur eitthvað að segja.
 
Þennan morgun var talað við hana Dagnýju. Hún hitti seinni manninn sinn þegar ég var tíu ára og hann lést árið 2002. Þá fór Dagnýju að finnast sem hún hefði of lítið fyrir stafni og hún kom í heimsókn til systur sinnar sem er mun yngri. Sú sat við tölvuna sína og þegar Dagný sagði að hún ætti líklega að fá sér tölvu líka, þá sagði unga systirin að hún væri nú allt of gömul til þess. En Dagný fékk sér tölvu og lærði á hana árið sem hún varð 93 ára.
 
Seinna, það er að segja í fyrra þegar Dagný var 101 árs gömul, söfnuðust saman ellilífeyrisþegar sem ætluðu að fara að læra á tölvu. En allt í einu var það ljóst að kennarinn hafði brugðist. Þá sagði einhver stjórnandi þessu tengdur; en Dagný, getur hún ekki kennt ykkur? Ne-hei! var svarið. Hún er allt of gömul. En svo kenndi Dagný hópnum á tölvu þrátt fyrir aldurinn. Það var margt fleira merkilegt sem hún hafði að segja. Hress var hún með afbrigðum og vílaði ekkert fyrir sér. Hún lét eymdina ekki ná tökum á sér.
 
Dagný bloggar og er jafnvel sögð elsti bloggari í heimi.
 
Þetta um svipað leyti og ég sá fréttina um Bússa og Hallveigu sem voru 92 og 94 ára og opnuðu trúlofun sína fyrir stuttu síðan.
 
 
 
Ég kom heim frá Vornesi á þriðja tímanum í dag. Ég hefði átt að fara í gönguferð þó að það sé leir á veginum kringum Sólvelli. En í stað þess álpaðist ég til að fara að sjóða sultu úr persimónum og mandarínum. Síðan var það bara matargerð og vissulega var maturinn mjög hollur og góður. Nú sit ég hérna og er búinn að bursta og pissa og þarf að fara að leggja mig. Síðan fer ég í vinnu aftur á morgun til að vinna næstu nótt.
 
Það er í lagi með vinnuna ef ég geri vissa hluti rétt. Hefði ég farið út að ganga eða gera eitthvað annað úti við hefði ég gert rétt. Þá hefði ég unnið að því að fá góða elli. Ef ég verð gamall verð ég ekki eins lifandi og hún Dagý nema ég geri marga hluti rétt. Ég gæti til dæmis ákveðið að ég fái alls ekki að nota persimónusultu ofan á ost eða út í vanilluís nema að ég geri marga hluti rétt fyrst. Spyrjið mig í vor hvernig mér hafi gengið að lifa í samræmi við það.
 
Eftir vinnuna næsta sólarhring er engin vinna á dagskrá í nokkrar vikur. Á þeim tíma verður hægt að gera margt þarft og skemmtilegt á Sólvöllum.

Það er eins og eitthvað sé að verða tilbúið

Þegar hægt er að taka svona mynd í nýbyggingu er nýbyggingin langt komin. Það er Sebastian frá Karlsskoga sem er að taka klósettið rétt með rúmlega 40 ára gamla hallamálinu mínu. Það er hins vegar lærlingurinn Hampus frá Örebro sem er að tengja handlaugina. Duglegir og prúðir strákar og engin gerðu þeir mistökin af neinu tagi. Hampus var bara í dag en Sebastian var að hluta í gær og í fyrradag líka. Hinu megin við vegginn sem er á móti þeim er bílageymslan.
 
Og hér skreppum við inn í bílageymsluna. Vinnu við röralagnir er lokið. Réttast hefið verið að mála bílageymsluna fyrst en það er verk sem ég get gert í áföngum og mér liggur ekkert á með það. Það má taka eitt ár ef vill. Ég er búinn að sparsla og mála  niður að innréttingu vegginn sem hitadunkurinn er á. Góður litur. Gamla eldhúsinnréttingin frá Rósu og Pétri er í pörtum þarna til hægri þar sem hún sést ekki og hún á að koma í stórum dráttum í bílageymsluna. Það liggur ekkert á með það heldur.
 
Já, svona lítur út á Bjargi núna. Fleiri myndir verða ekki birtar að sinni. Einhver leyndarmál verð ég að fá að hafa. Helst hefði ég viljað fara í það á morgun að taka til, skúra og pússa og gera tilbúið til gestamóttöku. En í staðinn fer ég í vinnu. Í miðri næstu viku fer ég í hreingerninguna og k a n n s k i  birti ég mynd eftir það. Ég hálf sé eftir því að fara í vinnu á morgun en ég hef auðvitað gott af því og ekki get ég neitað því að það sem ég hef verið að kaupa síðustu dagana og vikurnar hef ég valið af heldur betri sortinni vegna þess að ég er að vinna. Það verður fínt á Bjargi
 
Síðan verð ég frjáls eins og fuglinn. Ég sá mynd af mér fyrir nokkrum dögum sem var tekinn í Dalaferðinni í október í fyrra. Þar lítur út fyrir að ég sé frjáls eins og fuglinn en ég finn mig ekki alveg frjálsan eins og fuglinn þar sem ég sit núna og skrifa þetta. Ég hef ekki gefið mér tíma til þess upp á síðkastið en það er kominn tími til að ég geri það aftur, að ég nýti mér réttindi ellilífeyrisþegans.
 
 
 
I gær barst mér bók sem heitir Viður og er um allt sem snýr að því að vinna góðan eldivið, allt frá því að tré eru felld og þangað búið er að stafla viðnum eins og sést á myndinni. Ég tók þessa mynd af einni opnu í bókinni og það er ekki ég sem er þarna á myndinni. Framan á bókinni stendur: Allt um að höggva við, stöflun og þurrkun - og um sál viðarkyndingarinnar.

Þetta með sálina er mjög skemmtilegt orðalag. Að setja góðan og vel þurrkaðan við í kamínuna og horfa á eldinn breiðast um hann og að horfa svo að lokum á þegar glóðin dansar í koluðum viðnum bakvið glerið þegar hann er við það að vera útbrunninn, það er góð tilfinning. Að finna svo hitann fá kamínunni umlykja kroppinn, jú það er eitthvað þokkafullt og notalegt við það. Sál viðarkyndingarinnar á þar vel við. Til að sú sál verði sem allra best er líka mikilvægt að allt vinnuferlið við viðinn sé unnið af alúð.
 
Fljótlega þarf að fella þrjár strórar bjarkir skammt austan við húsið. Á svæðið sem þá myndast á að koma kálgarður með öllu mögulegu hollu og góðu. Til dæmis verður þar hvítlaukur, grasker, salat, baunir, og margt fleira. Það verður ekki liðið langt á sumarið þegar hægt verður að fara þangað og sækja eftir þörfum í matinn. Kryddjurtirnar verða væntanlega vestan við húsvegginn eins og í fyrra og kartölfurnar undir skógarjaðrinum þar sem þær voru í fyrra og væntanlega svolítið horn í viðbót. Þannig er áætlunin.
 
En þessar þrjár bjarkir koma til með að skaffa talsverðan eldivið og fimm bjarkir sem felldar voru í fyrrasumar bíða þess niðurbrytjaðar að verða klofnar og staflaðar í skýli. Núna eru þær undir þaki en það er eftir að kljúfa þær. Það er margt svona sem bíður á Sólvöllum og ég verð að viðurkenna að þegar ég skrifa þetta er eins og ég finni að það verði notalegt og hollt að sinna þessu. Svo vinn ég smávegis með þessum verkum og ég ætla að leika mér svolítið inn á milli.
 
Útlitið er gott.
 

Vafasamt fyrir viðkvæma

Ég var á fótum fyrir klukkan sjö í gærmorgun þar sem pípulangingamaðurinn ætlaði að koma klukkan sjö eða fljótlega þar á eftir. Ég reyndi að gera það mesta tilbúið sem ég hafði ekki gert þegar og grauturinn beið mín heitur á matarborðinu. Svo nálgaðist klukkan átta og þá kom pípulagningmaðurinn að bakdyrunum og bankaði. Á sama augnabliki hringdi Ove frá Vornesi og spurði hvort ég gæti unnið kvöldið. Með annan manninn í útidyrunum og hinn í símanum tók ég þá ákvörðun að biðja um að fá að hringja upp þann sem var á línunni.
 
Og hafragrauturinn var farinn að kólna á matarborðinu.
 
Því næst afgreiddi ég pípulagningamanninn og hugsaði minn gang varðandi vinnuna. Svo hringdi ég í Maríu sveitunga minn til að athuga hvort hún gæti opnað AA fundinn í kvöld þar sem ég yrði í Vornesi. Hún svaraði ekki þannig að ég hringdi víðar en án árangurs. Svo gekk ég á næsta bæ til að skrúfa fyrir vatnið. Píparinn ætlaði að byrja á því að ganga frá stoppkrananum inni á Bjargi. Í bakaleiðinni sá ég Lennart nágranna vera aðeins á undan mér á leiðinni heim til mín með sínu jafna taktfasta göngulagi. Hann gekk beina leið inn til píparans og ég var því feginn. Ég var í spreng!
 
Ég sem er vanur að gera eins og konurnar og setja mig á klósettið þegar ég pissa sleppti því í þetta sinn þar sem mér lá svolítið á. Ég, einbúinn, lokaði ekki heldur hurðinni á eftir mér þannig að ég stóð þarna býsna óvarinn. Svo var bankað á þvottahúshurðina og ég merkti samstundis að Lennart gekk inn örstutt fyrir aftan mig og ég blasti við honum. Hann bauð góðan dag og byrjaði að tala við mig, en hann sagðist geta beðið og hélt svo áfram að tala. Píparinn kom líka og stillti sér í röðina á eftir Lennart því að hann vildi líka hafa tal af mér. Það var mikið að tala í gær og þetta var svo sannarlega að verða spaugilegt.
 
Þar sem ég rembdist við að hitta í klósettið undir þessu ónæði byrjaði svo síminn að hringja í vasa mínum. Þá byrjaði ég að telja og var reiðubúinn að telja upp til hundrað ef á þyrfti að halda. Allt gekk þetta svo upp að lokum og ég svaraði í símann. Það var María sem var reiðubúin að opna fyrir fundinn. Þar með var allt klappað og klárt fyrir mig að fara í Vornes þegar ég væri búinn með ákveðin verkefni sem sköpuðust af vinnu pípulagningamannsins.
 
Svo helgaði ég mig þeim verkefnum eftir bestu getu, flýtti mér mikið, og dagurinn hélt áfram að vera margir hlutir í einu alveg þangað til ég varð að fara í sturtu og drífa mig af stað. Mín reynsla er að sumir dagar eru bara svona. Þegar ég fór var ég orðinn hundþreyttur en það var ögn seigt í gamla. Að koma í Vornes var eins og ég hef svo oft sagt áður eins og að koma í aðra tilveru. Ég vann þar mín verk fumlaust og kom svo heim um hádegi í dag.
 
Nánast um leið og ég steig út úr bílnum heima byrjuðu umræður og ráðagerðir með píparanum og mér, og áður en mér tókst að skipta um föt var ég kominn í byggingarvinnu á Vornesfötunum mínum, með hamar og sög og skrúfur og tól. En nú er pípulagningamaðurinn farinn fyrir fjórum tímum og kyrrðin ríkir ein á Sólvöllum ef ég nota orð Kiljans. Ég er þreyttur en nokkuð notalega þreyttur og ég ætla að láta kyrrðina ráða áfram á Sólvöllum.
 
Á næstu fimm dögum kem ég til með að vinna tvær nætur og hvor nótt tekur mig rúmlega sólarhring. Eftir það ætla ég um skeið að helga mig ýmis konar tiltekt, þrifum og endurskipulagningu á Sólvallaheimilinu. Það verður fróðlegt fyrir mig að vera mitt í þeirri þróun.
 
Það er greinilega einfaldast fyrir mig framvegis að loka baðhurðinni þegar ég er þar inni, jafnvel þó að ég sé einbúi.

Fyrst smá grín að sjálfum mér og svo rammasta alvara

 Á sunnudaginn sneri ég heim frá Stokkhólmi vegna þess að ég átti að vinna mánudag og þriðjudag þann 10. og 11. febrúar. Klukkan eitt var ég frammi í Vornesi og gekk inn þar sem ráðgjafagrúppan og dagskrárstjórinn sátu og réðu ráðum sínum. Jahá, svo þú ert hér, sagði dagskrárstjórinn. Ég leit á vinnuskemann og sá að það var ekki reiknað með mér í vinnu. Mín fyrsta hugsun var að þarna hefði dagskrárstjórinn bleytt buxurnar sínar. Ég fór inn á tölvu og skoðaði meilið frá honum. Ég hafði verið beðinn að vinna mánudag og þriðjudag þann 10. og 11. mars. Það munaði mánuði og það voru sem sagt mínar buxur sem voru blautar.
 
Ég gerði mitt besta úr ferðinni og hitti marga í Vornesi og við spjölluðum um allt mögulegt og ég tafði fyrir. Síðan fór ég inn í Vingåker og gerði innkaup í kaupfélaginu. Meðan ég var þar inni datt mér töfrakonan í Vingåker í hug. Ég hringdi til hennar, en hún er smávinnandi ellilífeyrisþegi eins og ég. Komdu eftir hálftíma sagði hún og svo gerði ég. Svo nuddaði hún bakið á mér, stakk í mig mörgum nálum og nuddaði svo á mér fæturna. Síðan velti hún mér við, stakk nálum í mig frá hvirfli til ylja, fitlaði við hnakkan á mér og svo sofnaði ég.
 
Síðan fór ég heim, bara harð ánægður með daginn þrátt fyrir allt og í morgun var ég með harðsperrur. Hún virkaði sem sagt að vanda töfrakonan í Vingåker.
 
 
 
Í gærkvöldi ætlaði ég að fara snemma að sofa og hvíla mig vel eftir meðferðina hjá töfrakonunni. Ég svo sem lagði mig snemma undir ullarfeldinn og tók mér bók í hönd til að lesa smá stund. Ég var að lesa um þann raunveruleika sem finnst þarna langt út í heimi, svo langt í burtu að ég er mörg þúsund kílómetra frá því að heyra neyðarópin þeirra sem verða fyrir nauðgunum, barsmíðum, snörum um hálsinn, svipuhöggum á bak og bringu eða eru sprengdir meira og minna í tætlur.
 
Ég var svo spenntur vegna hugsanlegrar velferðar þeirra sem efnið snerist um -en trúlegra þó vaxandi þjáninga- að ég var að hugsa um að setjast á rúmstokkinn, en nei ég gerði það ekki því að ég var hræddur um að renna fram af rúmstokknum af æsingi. En að setjast frekar fremst á stólbrún? Nei, það var best að reyna að tolla undir ullarfeldinum.
 
Af hverju verkaði þetta svona sterkt á mig. Ég var bara að lesa skálsdögu. Fallbyssurnar af Navaróne var líka skáldsaga og þó að ég yrði spenntur við að lesa þær bækur, þá komst það ekki í líkingu við þetta. Nei, ég var ekki að lesa skáldsögu heldur skáldsögu um svo dagsannan raunveruleika. Nöfnin voru væntanlega flest eða öll ekki til en atburðirnir höfðu samt átt sér stað, ópin og þjáningarnar höfðu átt sér stað, óttinn og lömuð andlit barna sem upplifa brjálsemi hins fullorðna heims, á svo skelfilegan hátt að þau munu aldrei bera þess bætur. Konur sem eru barðar ef þær hafa skoðun, fólk sem missir hendur ef það er að ganga í öfuga átt.
 
Þar sem brjálsemin ríkir er tilveran svo sannarlega brjáluð.
 
Svo ligg ég hér undir ullarfeldinum mínum og les um þennan ógnarlega sannleika, undir ullarfeldinum sem kostaði mig fleiri krónur en þetta fólk vinnur fyrir á mörgum árum. Svo á ég bágt, mig langar að upplifa sólskinið, fegurðina, vináttuna, fjölskyldusamveruna á sama tíma og hitt fólkið á sér bara þá ósk að drápunum, barsmíðunum og þjáningunum linni. Ég var að lesa um það sem fréttirnar segja frá en það er búið að segja þessar fréttir svo oft að það er komið upp í vana.
 
Svo tekur rithöfundur sig til og færir mér þennan heim upp í rúm til mín og gerir hann svo lifandi að ég er kominn í þungamiðju brjálseminnar og er á mörkunum að brjálast sjálfur af því að upplifa þetta með aumingjans fólkinu.
 
Ég talaði við Pál bróður minn í síma áðan. Ég sagði honum að ég færi nánast í fýlu ef það væri ekki til granatepli heima. Ég valdi skáp undir handlaug um daginn. Svo vann ég óvænt eina nótt og þá tók ég dýrari skáp sem nam næstum laununum fyrir nóttina. Ég valdi sturtuhurðir nokkrum döngum seinna og svo vann ég óvænt aðra nótt og þá valdi ég dýrari sturtuhurðir, næstum því sem nam laununum fyrir þá nótt. Ég sem sagt velti mér upp úr vellystingunum.
 
Þegar klukkan var orðin hálf tólf var ég að lesa um brjálæðiskast í heimahúsi þar sem eiginmaður var að berja konur sínar tvær. Hann var 30 árum eldri en önnur þeirra og 45 árum eldri en hin. Þær voru ekki nákvæmlega eins og hann vildi og þess vegna voru þær barðar þetta kvöld -af sömu ástæðu og öll hin kvöldin. Það stefndi í manndráp og þess vegna var ég næstum að velta út úr rúminu af skelfingu. Klukkkan var rúmlega tólf þegar annarri þeirra tókst að drepa manninn með skóflu og þá komst á kyrrð, ekki bara í ákveðnu húsi út í Kapúl, það komst líka á kyrrð hér heima og stuttu síðar sofnaði ég, löngu seinna en til stóð.
 
I fallbyssunum af Navaróne var sagan upplogin til að vera afþreying fyrir mig. Í gærkvöldi var ég að lesa um lífið eins og það er á ákveðnum stað út í heimi.
 
 

Aldursforsetinn, en samt finnst mér sem ég sé ekki elstur

Síðasta blogg skrifaði ég á fimmtudagskvöldið var þann 6. febrúar. Ég var í dálítilli tímaþröng og birti bloggið óvenju lítið yfirfarið. Þá var kannski ónauðsynlegt að birta það en ef ég hef kjark til að blogga verð ég bara að standa undir því. Klukkan hálf eitt um nóttina var ég svo að strauja þvott í tilefni þess að ég ætlaði til Stokkhólms daginn eftir. Þegar ég lagði mig svo um eitt leytið datt mér bloggið í hug í svefnrofunum og velti því fyrir mér hver ósköpin ég hefði verið að birta þarna. Svo sofnaði ég og svaf vel.
 
Ég vaknaði ekki út frá neinum draum morguninn eftir, eða ekki fannst mér svo. En bókstaflega áður en ég opnaði augun var eins og örlög vinnufélaga minna í ráðgjafahópnum í Vornesi þegar ég byrjaði að vinna þar í ársbyrjun 1996 blöstu við mér og mér varð talsvert um. Mikið hafði verið á flesta lagt og þó að ég hafi fengið minn skerf var það ekkert annað en það sem má alveg búast við fyrir mann á mínum aldri. Ég þakka fyrir að þau örlög sem urðu hlutskipti allt of margra í þessum hópiu urðu ekki örlög mín. Mér fannst eins og einhver dulin tengsl væru milli bloggsins frá kvöldinu áður og þessarar upplifunar. Svo datt mér í hug að lesa bloggið en þorði ekki að horfast í augu við bullið í mér og ákvað að fresta því þar til ég kæmi heim úr Stokkhólmsferði minni.
 
 
Á leiðinni til Stokkhólms kom ég við í Västerås hjá henni Kristínu skólasystur minni. Af mikilli þolinmæði gaf hún mér nokkrar klukkustundir af tíma sínum. Ég segi svo vegna þess að mér fannst þegar ég fór þaðan sem ég hefði talað bróðurpartinn af tímanum. En hún kvartaði ekki og af hlýju fylgdi hún mér til dyra þegar ég loks ákvað að halda ferð minni áfram. Þá var komið svartamyrkur og það rigndi. Það sem eftir var af ferð minni til Stokkhólms gekk á með kröftugum rigningarskúrum og slydduéljum og ekki eina mínútu var alveg þurrt. Mér fannst samt að þessi notalegi tími með Kristínu réttlætti að ferðast við þessar aðstæður. Hefði ég ekki komið þar við hefði ég komið í björtu á leiðarenda.
 
Ég var að vona að þegar ég nálgaðist Stokkhólm mundi þorna heldur en svo varð ekki. Stórir regndropar og slydduslettur á bílrúðunum endurköstuðu götuljósunum og í myrkrinu og regninu, þrátt fyrir götulýsingu, þá bókstaflega þekkti ég mig ekki í Stokkhólmi. Staðir sem höfðu verið mér viðmiðun í öllum ferðum áður voru ósýnilegir, vegaframkvæmdir breyttu leiðinni og áður en ég fann Celsíusgötuna hafði ég ekið nokkra aukakílómetra og krókaleiðir á staði sem ég kannaðist alls ekki við að hafa sótt heim áður. Ég var mikið feginn þegar ég gat stoppað í Celsíusgötunni, hringt upp og sagt að ég væri kominn. Svo kom öll fjölskyldan og við hjálpuðumst við að bera inn fullfermi af eldivið.
 
Stokkhólmsferðin var góð og þarna heima hjá Rósu, Pétri og Hannesi hittust all margir Íslendingar eins og gjarnan gerist þegar ég er þar á ferðinni. Þá er líka það mesta íslenskt sem borið er á borð. Ég ætlaði ekki að nefna að ég hefði farið með við, en ég er búinn að sjá að Rósa er þegar búinn að segja frá því á feisbókinni. Svo þurftu þau að losna við þennan fína skáp sem eiginlega varð innlyksa hjá þeim þegar þau létu endurgera eldhúsið í fyrra. Þetta er mjög vel smíðaður og all stór skápur og nú er hann kominn hingað heim á Sólvelli og fer á alveg frábæran stað í dagstofunni.
 
Bílferð til Stokkhólms var því vel verð mæðunnar í þetta skiptið. Það var verðmætur farmur bæði fram og til baka. En ég er búinn að lofa mér því að koma ekki oftar akandi á bíl mínum til Stoklkhólms í myrkri og allra síst í rigningu. Næst ætla ég að fara með lest og njóta hvíldar á leiðinni.
 
Ég kom heim upp úr klukkan sex nú á sunnudagskvöldinu. Eftir að hafa kveikt upp í kamínunni og litið aðeins í kringum mig hér heima vogaði ég mér að lesa bloggið frá því á fimmtudaginn var. Mér fannst það ekki eins mikið rugl og ég átti von á og það er sterkt samband milli bloggsins og þess sem flaug gegnum huga minn í svefnrofunum morguninn eftir. Í fyrramálið fer ég í vinnu og ég er alltaf aldursforsetinn á þessum góða vinnustað. Aldursforsetinn, en samt finnst mér sem ég sé ekki elstur.
 
Mikið kvaddi Hannes mig vel áður en ég lagði af stað heim.

Þegar liljurnar og sóleyjarnar byrja að vaxa inn í slóðina

Fyrir nokkru átti ég símtal við konu sem hefur fengið það að veganesti frá örlögunum að fá að takast á við mikið af því sem fólk vill komast undan að takast á við, miklar sorgir og erfiðleika. Liljunum og sóleyjunum hefur ekki alltaf verið stráð í slóðina hennar.  Nú sagðist hún vera orðin svo meir, hún táraðist út af svo mörgu þegar minnst varði. Þegar hún sagði þetta þekkti ég sjálfan mig í því að vera einmitt orðinn meirari en forðum tíð.
 
Tilfinningaskalinn hefur orðið breiðari og þegar þessar tilfinningar eru gengnar í garð hafa þær líka orðið sterkari í hina áttina, það er að segja að það verður auðveldara að gleðjast, að vera þakklátur, að byrja að meta hið smáa að verðleikum og fleira og fleira verður sem dýrmætur skattur sem áður var ekki svo mikils virði. Þá fara liljurnar og sóleyjarnar að vaxa inn í götuna og ekki bara það, við förum líka að taka eftir þeim.
 
Talandi um auðmýkt inn á meðferðarheimili er gott að nota lýsinguna á því hvernig axið lifir af storminn í lengstu lög. Það beygir sig undan vindinum og tekst þannig að lifa af storma lífsins. Öðrum kosti mundi það brotna og deyja. Þannig er það líka með auðmýktina að þegar lítill maður verður reiðubúinn að taka ofan hattinn og lúta höfði, þá verður það mesta mikið auðveldara, þá verður auðveldara að lifa af.
 
Ég las ágrip úr grein eftir Séra Hildi Eir bolladóttur hérna um daginn og þá datt mér í hug þetta með axið og setti það sem minnispunkt inn á bloggið. Niðurlagsorð greinarinnar eru þessi: „Að koma fram í veikleika mínum skiptir mig miklu máli. Fólki finnst auðveldara að koma fram og segja frá ef það upplifir að þarna sé manneskja sem er ekki lýtalaus í sínu lífi og þannig fær fólk greiðari aðgang að manni.“
 
Ég hef reynt að lifa og vinna eftir þessu í tuttugu ár og það er skilyrðið fyrir að ég geti unnið vinnuna mína af auðmýkt og sannleika. Fyrst ég enn í dag lifi við þokkalega heilsu og get enn tekist á við vinnuna mína, þá hlýtur mér að hafa tekist nokkuð vel. Það er líklega þess vegna sem ég varð einu sinni enn hrærður við að lesa ágripin úr grein Séra Hildar Eir. Ef ég hefði reynt í tuttugu ár að vinna vinnuna mína sem styrkleikans maður, þá hefði ég fengið að gjalda fyrir það. Eiginleikar axins eru mildir og lífgefandi.
 
Það er enginn löstur að vera svona, að klökkna vegna þess fagra, að fella tár vegna saknaðar. Ég þori að segja að það telst til styrkleika og lífsgæða.

Ef hann verður vandvirkur fær hann rúgbrauð með smjöri og osti.

Í dag og undir kvöldið var ég svo sannarlega ákveðinn í því að það yrði ekkert blogg í kvöld og kannski ekki næstu daga. En hér sit ég nú og er byrjaður. Píparinn sem átti að koma í morgun kemur ekki fyrr en á morgun. Svo var samið um í gær og það var eftir beiðni pípulagningafyrirtækisins. Þá fékk ég hugmynd; að mála hornið í bílageymslunni áður en hitadúnkurinn verður settur upp. Það hafði ég ekki hugsað út í áður sem mér þótti allt í einu býsna skrýtið.
 
Svo sparslaði ég hornið tvisvar sinnum í gær, og slípaði og málaði í morgun. Síðan fór ég að taka ærlega til. Það var öðru vísi að taka til núna. Ég leit á lista og hugsaði með mér að nú þyrfti ég ekki lengur á svona að halda því að allt væri að verða búið. Listinn fór því í eldinn. Svo tók ég plötuafganga og sama með þá. Ég nota ekki svona meira hugsaði ég og þá sagaði ég litlu krossviðarafgangana í eldinn. Gipsónettplöturnar fóru í stóran pappakassa úti í horni sem síðan fer í endurvinnsluna. Svona gekk tiltektin mín í dag, að ég var að velja milli þess að henda eða nota í eldinn, núna vegna þess að allt er að verða búið. Áður lagði ég það mesta til hliðar því að ég er þokkalega nýtinn. Það er í fyrsta skipti í nokkur ár sem ég get hugsað svona, allt er að verða búið. Mikið er það notalegt.
 
Meðan ég var að snurfusa þarna úti hugsaði ég aðeins um það að ég gæti orðið sérvitur og einrænn í einverunni. En stundum ske hlutirnir í svo undarlegu samhengi. Ég rölti með fyrra móti inn til að fara í sturtu og síðan að útbúa mat. Svo ætlaði ég á AA fund og ég er með lykilinn þannig að ég þarf að mæta fyrr en venjulega til að renna á könnuna þar. Þegar ég kom inn gekk ég fyrst að tölvunni og kíkti á skjáinn. Jú, það var eitt bréf til mín. Það var frá Vornesi þar sem ég var spurður hvort ég væri tilbúinn að leysa af á sumarleyfatímabilinu. Svo fór ég í sturtu í ánægjulegum hugleiðingum
 
Þá sá ég fram á það að ég væri ekki orðinn einrænni eða skrýtnari en svo að ég væri spurður eftir þessu. Ég upplifði spurninguna sem heiður því að með henni sá ég að yfirfólk í Vornesi sæi mig ennþá sem fullgildan starfsmann þrátt fyrir að í sumar verði ég sjötíu og tveggja ára. (Þetta með aldurinn hlýtur að vísu að vera misskilningur :) Ég var líka spurður eftir þvi hvenær ég ætlaði að njóta sumarsins sjálfur og það var tillitssamt. Ég mun svara spurningunni um afleysinguna játandi.
 
Þegar ég kom heim af AA fundinum skipti ég um föt og fór út til að mála aðra umferð í hornið bakvið hitadúnkinn. Þegar ég sá vegginn þarna í bílageymslunni fá á sig þessa fallegu áferð var eins og ég áttaði mig ennþá betur á því hverskonar stórkostleg eign þetta hús er. Allir hlutir eru vel úthugsaðir, vel frágengnir og útlitið eftir því. Ég fann mig verulega ánægðan með lífið og árangur erfiðis míns undanfarið skilaði sér í hreinni vellíðan.
 
Ég er sem sagt búinn að ljúka góðu dagsverki, kominn inn aftur og úr rykugum vinnubuxunum, búinn að smakka á rúgbrauðinu sem mallað hefur í ofninum í dag og það var gott að vanda. Og nú er ég búinn að blogga. AA fundinum má ég heldur ekki gleyma. Ég er ábyrgur og stend undir því, þess vegna fer ég á þessa fundi aftur, aftur og aftur. Nú er að bursta og pissa og fara snemma á fundinn með Óla lokbrá. Píparinn, ungur maður að nafni Sebastian, kemur snemma í fyrramálið og ég ætla að vera ungur líka og taka þátt í athöfnum morgundagsins með honum. Ef hann verður vandvirkur fær hann rúgbrauð með smjöri og osti.

Þolinmæðin þrautir vinnur allar

Það er gamalt þetta máltæki, þolinmæðin þrautir vinnur allar, og getur við einstaka tilfelli, alla vega hvað mig áhrærir, látið dálítið kjánalega. En sannleikurinn er sá að það liggur svo mikið í þessu og í raun er það líka í samræmi við það sem við tölum um í Vornesi; farðu þér hægt, eitt í einu, gerðu það einfalt, og svo framvegis.
 
Ég hef þurft á þolinmæðinni að halda undanfrið. Ég er búinn að skemma af vangá eða bara hreinum klaufaskap, ég er búinn að mæla vitlaust og það mun sjást um ókomin ár (að vísu hægt að laga), mér hefur gengið allt mjög hægt og ég hef ekki fundið í verslunum það sem ég hef leitað að.
 
Í morgun hrundi í fyrsta skipti á þessum vetri af húsþakinu og einmitt þá var ég að borða minn sígilda hafragraut. Fyrst fannst mér þetta vera eins og fjarlægar drunur, eins og þegar það var að koma jarðskjálfti í Hrísey, en á svo sem sekúndu áttaði ég mig á því hvað það var. Svo varð allt svo rólegt og undurhljótt. Eitthvað svipað skeði með sjálfan mig. Ég borðaði hafragrautinn og fékk mér kaffisopa. Síðan var það svo sjðálfsagður hlutur að ég væri að fsra út á bjarg til að gera góða hluti þennan dag. Allt gekk svo undur vel og fór svo hljótt fram.
 
Ég einangraði einn tveggja og hálfs metrers breiðan vegg sem var fullur af rafmagnsrörum, frárennslisrörum, rafmagnstöflu og lúgum. Það var eins og einangrunin leitaði á sína staði, milli röra, bakvið rör, meðfram listum og lúgum, bakvið töflu og bara hvert sem hún átti að fara. Þetta er innveggur sem ég einangra næstum því eins og útvegg. Krossviðarplöturnar voru liprar á hendi, auðvelt að taka göt fyrir rafmagnstöflu lúgum og rafmagnsdósunum. Stingsögin rann eins og sjálfkrafa eftir strikunum og svo gekk ennþá betur með gipsónettplöturnar sem koma yfir krossviðarplöturnar.
 
Svo vantaði fleiri rafmagnsdósir og ég fór í K-rauta í Marieberg til að sækja þær. Það ákvað ég þegar í morgun því að ég ætlaði að skoða fleira þar. Ég leit á þetta fleira sem ég er búinn að leita að í þremur ferðum undanfarið og ekki fundið. Þarna blasti það við mér og það var bara að velja um hvort ég vildi borga 1000 kr eða 3000 kr. Ég veit að það er til þarna og tek það þegar ég fer að setja það upp. Ég á þarna við spegil yfir handlaug með ljósi og innstungu. Jahérnanahér.
 
Svo fór ég heim með rafmagnsdósirnar og allt féll á sinn stað. Í dag er ég búinn að gera meira en á þremur eða fjórum síðustu dögum. Ég þurfti á því að halda því að á miðvikudaginn kemur pípari. Þá tek ég niður plöturnar sem ég sneið til og setti upp í dag. Svo þegar píparinn er búinn með sitt í veggnum fer hann í annað verk meðan ég set plöturnar upp aftur. Allt þaulhugsað.
 
Maður sem ég leitaði til í K-rauta var á þeim aldri að hann hefði getað verið sonur minn, á aldri milli Rósu og Valgerðar. Ég bar upp spurningu og hann vildi svara. Hann leitaði í tölvu og meðan hann var að því hringdu tveir símar viðstöðulaust til skiptis, sitt hvoru megin við hann. Hann gaf sig ekki og svo kom svarið. Síðan gengum við að einum speglanna sem ég hafði loksins fundið og sem alltaf höfðu verið þarna. Ég vil nefnilega ekki hafa skáp sagði ég, ég vil bara hafa spegil því að annars þarf handlaugin að vera breiðari. Já, veistu, sagði hann, ég reif niður skápinn á baðinu heima og setti einfaldan spegil, einmitt út af þessu. Ég raka alltaf hausinn í spegilinn.
 
Og svo skiptumst við aðeins á skoðunum um baðinnréttingar. Svo sagðist ég ekki skyldi trufla hann lengur og kvaddi. Hann klappaði mér á öxlina og óskaði mér góðs gengis og velkominn aftur þegar ég kæmi til að taka spegilinn. Eftir nokkur skref leit hann við og vinkaði. Þarna var ég orðinn svolítið hissa á allri breytingunni. Var það kannski vegna þess að snjórinn var farinn að falla af þakinu? Eða vegna þess að það lá vel á manni í K-rauta? Nei aldeilis ekki. Ég vissi að öll þessi breyting var vegna breytts ástands innra með mér. Ég hafði gegnum allt saman sýnt af mér nokkuð góða þolinmæði síðustu dagana. Annars hefði allt farið í ennþá verra.
 
Svona leit það út hjá Sólvallamér um miðjan dag. Ég var eiginlega farinn að sætta mig svo vel við veturinn. Varla er hann búinn!

Ringlaður ellilífeyrisþegi og matargerð hans

Það er ekki alltaf auðvelt lífið í höfuðstöðvum Mammons í Marieberg, ekki fyrir ráðviltan ellilífeyrisþega. Þar var ég í dag og ætlaði að velja spegil eða skáp yfir handlaugina á nýja baðinu. Ég byrjaði í K-rauta og tók hitadunkinn en skoðaði ekki skápinn þar, ég hafði gert það áður. Svo fór ég í Bauhaus og eftir frekar stutta stund þar var ég orðinn alveg kol ringlaður. Það var um allt of margt að velja.
 
Hvað skyldi það eiga að vera? Skápur með spegli og ljósi ekki innstungu eða bara spegill með ljósi yfir og innstungu við hliðina . . . . og innan skamms voru möguleikarnir orðnir fleiri en mér hafði með nokkru móti getað dottið í hug áður en ég kom þarna inn. Svo var verðið frá einhverju aðgengilegu og upp í alveg svimandi upphæðir. Þarna þótti mér erfitt að vera einn og ég varð dauðþreyttur. Ég yfirgaf Bauhaus og fór yfir í IKEA.
 
Ekki lagaðist það í IKEA og ég varð ennþá ringlaðri. Svo leit ég í spegil á skáp sem hafði ekki áfast ljós og enga innstungu og leit allt í einu á sjálfan mig. Mér fannst ég vera orðinn gamall maður! Mér féllust hendur og fór beina leið yfir í stóru verslunarmiðstöðina, Galleríuna, og leit á matinn í veitingahúsinu við innganginn á neðri hæðinni. Nei, ég var ekki ánægður. Ég fór upp einn stiga og leit inn á veitingahúsið beint fyrir ofan það fyrra. Við Valdís borðuðum stundum þar og á móti mér kom veitingamaðurinn og það var eins og hann kannaðist við mig.
 
Svo keypti ég mig inn á hlaðborðið og fékk alveg dúndur máltíð. Ég hefði getað borðað meira en ég var bara búinn að borða svo mikið að mér fannst ekki koma til greina að halda áfram. Á leiðinni út gekk ég til veitingamannsins þar sem hann stóð meðal starfsfólks síns og spjallaði. Ég sagði honum að þetta hefði verið alveg meiri háttar máltíð. Hann sagði að ég mætti alveg koma aftur. Meðan ég var að borða hugsaði ég mér einmitt að gera það.
 
 
 
Í gærkvöldi var veisla á Sólvöllum. Fyrst brytjaði ég einn og hálfan hvítlauksfleyg, engifer á stærð við tvær sveskjur, einn rauðlauk, einn gulan lauk, einn charlottenlauk. Steikti þetta á pönnu í hreinu smjöri við frekar vægan hita. Meðan þetta var að steikjast brytjaði ég einn vænan tómat og tvö epli og setti á pönnuna þegar laukurinn hafði steikst í svo sem tvær til þrjár mínútur. Reif piparrót yfir allt saman. Lét allt hitna og helti svo á smávegis rjóma, þremur teskeiðum af creme fraiche með parmesan og hvítlauk og tvær kúfaðar teskeiðar af kaldhrærðri týtuberjasultu (lingonsultu). Þegar ég byrjaði að steikja þetta setti ég norskan lax í 170 gráðu heitan ofninn með mæli í fiskinum. Lét laxinn hitna upp í 65 gráður. Þá var veislumaturinn tilbúinn. Þó að ég ætti ekki í ísskápnum það sem ég hefði viljað eiga var pönnurétturinn alveg frábærilega góður, mikið betri en ég átti von á.
 
Fyrr í vikunni var það sem hér segir: Fyrst brytjaði ég einn og hálfan hvítlauksfleyg, engifer á stærð við tvær sveskjur, einn rauðlauk, einn gulan lauk, einn charlottenlauk. Steikti þetta á pönnu í rapsolíu við frekar vægan hita. Meðan þetta var að steikjast brytjaði ég niður einn tómat, eina rauða papriku, eina kalda kartöflu, eina frekar stóra palsternaka, hálft brokkólíhöfuð, setti þetta á pönnuna og reif piparrót yfir. Þegar allt var orðið heitt bætti ég á smávegis tómatsósu, ennþá minna af sinnepi, og þrjár teskeiðar af creme fraich með sólþurrkuðum tómötum og fetaosti. Þegar þetta var tilbúið sótti ég tvö væn kryddsíldarflök niður í kjallara og svo borðaði ég virkilega nægju mína.
 
Þegar ég fæ mér miðdegiskaffi sýð ég oft fáeinar kartöflur, brokkóli, rósakál og palsternaka og á þetta svo kalt í ísskápnum til að nota í pönnuréttinn. Einn og hálfur hvítlauksfleygur, engifer á stærð við tvær sveskjur, einn rauðlaukur, einn gulur laukur, einn charlottenlaukur er eiginlega fasti upphafspunkturinn í þessa pönnurétti sem ég borða með því mesta. Ef ég ætla að hafa ýsu eða þorsk með nota ég meiri tómatsósu. Það er eins og týtuberjasultan sé alltaf góð til að blanda í þennan pönnurétt. Rjómann nota ég eftir lundarfarinu.
 
Svo er það stundum svo einfalt að ég sýð þorsk eða ýsu og kartöflur. Svo stappa ég það saman með gaffli og set væna flís af ekta smjöri saman við. Svo gerði ég þegar ég man fyrst eftir mér og mér finnst þetta stórgott enn í dag. Svo er það margt fleira en heita kjötmáltíð hef ég ekki útbúið í marga mánuði.
 
Af hverju er ég svo að birta þetta? Jú, ég er ekki að kenna matargerð en ég svara öðru hvoru spurningum um hvort ég borði nægjanlega. Meira að segja presturinn Nisse vildi vita þegar hann kom í húsvitjun hvort ég hirti um að borða góðan mat. Væri ég kona mundi fólk ekki spyrja eftir þessu, en ég er einfaldlega ánægður yfir að fólk lætur sér annt um mig. Þakka ykkur fyrir það.
 
Sá sem getur giskað á hvað þetta er mun við heimsóln á Sólvelli fá að smakka granatepli í íslensku skyri sem framleitt er í Svíþjóð. Svona leit síðbúinn eftirrétturinn út á Sólvöllum þetta laugardagskvöld, það er að segja áður en ég blandaði skyrinu í hann.
RSS 2.0