Það er eins og eitthvað sé að verða tilbúið

Þegar hægt er að taka svona mynd í nýbyggingu er nýbyggingin langt komin. Það er Sebastian frá Karlsskoga sem er að taka klósettið rétt með rúmlega 40 ára gamla hallamálinu mínu. Það er hins vegar lærlingurinn Hampus frá Örebro sem er að tengja handlaugina. Duglegir og prúðir strákar og engin gerðu þeir mistökin af neinu tagi. Hampus var bara í dag en Sebastian var að hluta í gær og í fyrradag líka. Hinu megin við vegginn sem er á móti þeim er bílageymslan.
 
Og hér skreppum við inn í bílageymsluna. Vinnu við röralagnir er lokið. Réttast hefið verið að mála bílageymsluna fyrst en það er verk sem ég get gert í áföngum og mér liggur ekkert á með það. Það má taka eitt ár ef vill. Ég er búinn að sparsla og mála  niður að innréttingu vegginn sem hitadunkurinn er á. Góður litur. Gamla eldhúsinnréttingin frá Rósu og Pétri er í pörtum þarna til hægri þar sem hún sést ekki og hún á að koma í stórum dráttum í bílageymsluna. Það liggur ekkert á með það heldur.
 
Já, svona lítur út á Bjargi núna. Fleiri myndir verða ekki birtar að sinni. Einhver leyndarmál verð ég að fá að hafa. Helst hefði ég viljað fara í það á morgun að taka til, skúra og pússa og gera tilbúið til gestamóttöku. En í staðinn fer ég í vinnu. Í miðri næstu viku fer ég í hreingerninguna og k a n n s k i  birti ég mynd eftir það. Ég hálf sé eftir því að fara í vinnu á morgun en ég hef auðvitað gott af því og ekki get ég neitað því að það sem ég hef verið að kaupa síðustu dagana og vikurnar hef ég valið af heldur betri sortinni vegna þess að ég er að vinna. Það verður fínt á Bjargi
 
Síðan verð ég frjáls eins og fuglinn. Ég sá mynd af mér fyrir nokkrum dögum sem var tekinn í Dalaferðinni í október í fyrra. Þar lítur út fyrir að ég sé frjáls eins og fuglinn en ég finn mig ekki alveg frjálsan eins og fuglinn þar sem ég sit núna og skrifa þetta. Ég hef ekki gefið mér tíma til þess upp á síðkastið en það er kominn tími til að ég geri það aftur, að ég nýti mér réttindi ellilífeyrisþegans.
 
 
 
I gær barst mér bók sem heitir Viður og er um allt sem snýr að því að vinna góðan eldivið, allt frá því að tré eru felld og þangað búið er að stafla viðnum eins og sést á myndinni. Ég tók þessa mynd af einni opnu í bókinni og það er ekki ég sem er þarna á myndinni. Framan á bókinni stendur: Allt um að höggva við, stöflun og þurrkun - og um sál viðarkyndingarinnar.

Þetta með sálina er mjög skemmtilegt orðalag. Að setja góðan og vel þurrkaðan við í kamínuna og horfa á eldinn breiðast um hann og að horfa svo að lokum á þegar glóðin dansar í koluðum viðnum bakvið glerið þegar hann er við það að vera útbrunninn, það er góð tilfinning. Að finna svo hitann fá kamínunni umlykja kroppinn, jú það er eitthvað þokkafullt og notalegt við það. Sál viðarkyndingarinnar á þar vel við. Til að sú sál verði sem allra best er líka mikilvægt að allt vinnuferlið við viðinn sé unnið af alúð.
 
Fljótlega þarf að fella þrjár strórar bjarkir skammt austan við húsið. Á svæðið sem þá myndast á að koma kálgarður með öllu mögulegu hollu og góðu. Til dæmis verður þar hvítlaukur, grasker, salat, baunir, og margt fleira. Það verður ekki liðið langt á sumarið þegar hægt verður að fara þangað og sækja eftir þörfum í matinn. Kryddjurtirnar verða væntanlega vestan við húsvegginn eins og í fyrra og kartölfurnar undir skógarjaðrinum þar sem þær voru í fyrra og væntanlega svolítið horn í viðbót. Þannig er áætlunin.
 
En þessar þrjár bjarkir koma til með að skaffa talsverðan eldivið og fimm bjarkir sem felldar voru í fyrrasumar bíða þess niðurbrytjaðar að verða klofnar og staflaðar í skýli. Núna eru þær undir þaki en það er eftir að kljúfa þær. Það er margt svona sem bíður á Sólvöllum og ég verð að viðurkenna að þegar ég skrifa þetta er eins og ég finni að það verði notalegt og hollt að sinna þessu. Svo vinn ég smávegis með þessum verkum og ég ætla að leika mér svolítið inn á milli.
 
Útlitið er gott.
 


Kommentarer
Rósa

Mikið var Fanney sæt að senda þér þessa bók!

Svar: Ég vissi að það var pakki á leiðinni frá henni en ég var ekki viss um að það væri frá henni, grunaði það en nú veit ég.
Gudjon

2014-02-15 @ 17:52:20


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0