Að gera lífið skemmtilegt

 
Ég er við sama heygarðshornið og nudda við mitt. Ég held að hún muni vera orðin rétt rúmlega tveggja vikna gömul þessi mynd. Þá voru áfangalok, dekkið komið á veröndina. Í tilefni af áfanganum fékk ég nágrannann til að taka þessa mynd. Ég vildi ekki láta hann vita af því, en þegar ég bað hann að koma til að setja hengiróluna upp á pallinn með mér var ég jafn mikið að biðja hann að koma til að taka mynd af mér. Þetta síðasta var bæði gaman og alvara.
 
Það er ekki svo mikill munur á þessum myndum en samt eru æði margar vinnustundir sem aðskilja þær. Það erum komnir ákveðnir kubbar undir kantinn og það er komin malarrönd meðfram pallinum. Undir malarröndinni er skurður og efnið úr skurðinum flutti ég í hæfilega fjarlægð þar sem það var mér ekki til ama. Svo fyllti ég skurðinn af möl því að þarna ætla ég að helluleggja og svo þurfti ég að hækka allt upp en mest þarna við hornið. Það fóru margar hjólbörur burtu og mikið fleiri hjólbörur komu í staðinn. Víst hefði ég getað fengið gröfu til að gera þetta og ég hugleiddi það. Grafan hefði skemmt talsvert af gróinni flöt og svo hefði efni verið sturtað hér og þar og svo hefði þurft að flytja það til aftur.
 
Nei. Hluti af svona verkum hjá mér er að njóta þeirra. Mér þykir vænt um að gera snyrtilega, fara ekki illa með það sem er gróið, og eiginlega er hluti af að njóta verkanna að geta verið lengi að framkvæma þau. Ég er búinn að troða malarröndina með því að ganga hana fram og til baka og fram og til baka og taka afar stutt skref. Ég valdi að gera þetta svona og svo þarf ég ekki að borga fyrir gröfu eða víbrator sem ég var þó búinn að festa fyrir mánudaginn. Sum verk eru samt þannig að það er ekkert annað til umræðu en að fá þau unnin með þeim tækjum sem við eiga. En ég segi bara aftur að sumt er þess eðlis að ég vil njóta þess að vinna það á minn sérvitra hátt.
 
Í dag skrapp ég inn í Marieberg til að panta 255 gangstéttarhellur af þremur stærðum. Það er merkilegt með þessa helluverslun að bílastæðið er afar holótt malarplan. En vörurnar sem þeir selja eru margbreytilegar og fínar og fólkið sem afgreiðir þar er og hefur alltaf verið afburða hjálplegt. Ljóshærð stuttklipt kona um þrítugt var við afgreiðsluna í dag. Hún var alveg sérstaklega þægileg í viðmóti og glaðvær. Ég hafði velt fyrir mér að fá lánaða kerru nágrannans til að flytja hellurnar og þess vegna spurði ég eftir þyngd á hellunum. Hún varð svolítið hissa og þurfti að fara í bók til að gá að því. Svo sagði hún að fólk spyrði hreint aldrei eftir þessu og það væri ekki fyrr en að það væri búið að sliga kerrurnar með ofhleðslu sem fólk áttaði sig á því að þær hefðu þyngd.
 
Þegar ég var búinn að átta mig á því að 190 stykki af pöntuninni vógu 14,5 kg stykkið sleppti ég alveg hugmyndinni að flytja á kerru. Flutningurinn heim átti að kosta 800 krónur og ég var fljótur að þiggja það. Svo þegar hún var að skrifa nótuna skrifaði hún flutninginn á 700 krónur. Ég gladdist yfir því og þá sagði hún að það væri alltaf gott þegar fólk væri ekki á móti óvæntum afslætti. Það sagði hún í gamni ásamt mörgu öðru. Hvað heitirðu spurði hún. Guðjón svaraði ég og hún skrifaði það án hiks á nótuna. Það er ekki svo venjulegt að fólk geti það en hún gaf þá skýringu að hún hefði hlustað á það sem ég sagði. Einfalt! Þegar ég settist út í bílinn hugsaði ég að þetta hefði verið skemmtileg verslunarferð. Þessari konu virtist eiginlegt að gera lifið skemmtilegt.
 
*          *          *
 
Í kvöldmat var aðalrétturinn vesturstrandarsúpa ásamt heimabökuðu rúgbrauði með eggjum. Vesturstrandarsúpa er kjarnmikil fiskiréttarsúpa. Ég vil helst ekki segja frá því en geri það samt; þessa súpu kaupi ég í pakka og svo hræri ég hana út í vatni og sýð. Svo bæti ég í mjólk, að vísu rjóma líka, og súpan er mjög góð sé hún ekki borðuð of oft. Í eftirrétt á eftir kvöldmatnum hafði ég tvö epli af Sólvallaeplatré. Sem annan efrtirrétt hafði ég bláber í rjóma og pínulitlu af sykri. Bláberin voru þessi stóru og girnilegu af bláberjarunnanum úti í Sólvallaskóginum. Ég gef þessa skýrslu af kvöldmatnum til að fólk geti séð að ég næri mig.
 
Söng ekki Stebbi Jóns "Í bláberjalaut" hérna á árunum frá 1960 til 1970?
 
Nokkru fyrir hádegi á morgun fer ég í vinnu og kem heim aftur eftir hádegi á sunnudag. Eftir tvær vikur í meira en fullri vinnu verð ég svo í viku fríi. Að öllu óbreyttu verður það sæluvika.

Blóm, lítið lag, fiðrildi sem sest á hönd þér

Ég veit ekki alveg hvenær ég ákvað að skrifa "blogg af þessu tagi" en einhvern tíma upp úr miðjum degi í gær var ég farin að semja línurnar í huga mér. Kannski var það þegar ég stóð upp eftir vinnuna stuttu fyrir klukkan fimm þegar hafði lokið öllu samviskusamlega. Svo kom kvöld og ég var heima og var orðinn syfjaður. Þá byrjaði ég að skrifa. Þegar ég er orðinn syfjaður verður orðalagið öðru vísi, stafsetningin brestur svolítið meira en ella og ég segi stundum eitthvað sem ég ekki mundi segja við aðrar aðstæður.
 
"Blogg af þessu tagi" var bloggið sem ég skrifaði í gærkvöldi, bloggið hér næst fyrir neðan. Ég átti frekar von á því að einhver mundi senda mér vísdómsorð af einhverju tagi en svo varð ekki. Ég var ekki með neina kröfu í huga en það hefði vissulega verið gaman að lesa eitt og annað heilræði. Hins vegar er það nú svo að ég er býsna duglegur við að finna heilræði sjálfur og ég velti þeim oft fyrir mér og þykir það uppbyggjandi. Ég finn líka oft að þau eru mjög í samræmi við hugmyndir mínar um lífið og tilveruna.
 
Stundum finnst mér líka heilræðin eða vísdómsorðin vera hreina "bla ha". Það er þess vegna sem ég leita oft eftir höfundum þeirra til að sjá hverjir þeir voru eða áorkuðu. Það getur haft áhrif á hvort ég er reiðubúinn að tileinka mér vísdóminn. Ég las eitt sinn ótrúlega falleg orð um fegurð tilverunnar og hversu hljóðar stundir í þeirri fegurð geta verið mikilvægar. Ég leitaði uppi höfundinn og ég man ekki hvort hann var uppi fyrir 1500 árum frekar en 3000 árum. En hann lét þannig lífið að lokum að hann var drukkinn á siglingu á báti á lygnu fljóti og sá mánann speglast svo fagurlega í vatninu að hann henti sér fyrir borð til að fanga hann. Þar dó hann, kannski með mánann í fanginu, hver veit?
 
Ég hló alls ekki þegar ég las þetta. Vogur eða Vornes fundust ekki fyrir hann á þessum tíma en væntanlega hefur hann verið í mikilli þörf fyrir hjálp af slíku tagi. En hann sá fegurðina og gat sett hana í orð. Ég hef lesið nokkur af vísdómsorðum hans og þau eru svo sönn, svo ótrúlega sönn. Þó að ég muni ekki nafn þessa manns, en um hann finnst heil mikið skrifað, og geti heldur ekki á þessu augnabliki sagt frá vísdómsorðum hans frá orði til orðs, þá hafa þau áhrif á mig. Þegar ég lít núna út í laufþykknið sem iðar í suðvestan golunni, þá finnst mér sem hann hafi hjálpað mér að sjá verðmæti sem ég þarf ekki að borga fyrir. Þau bara eru þarna þar sem ég er hverju sinni.
 
En nú er kannski best að ég komi heim aftur áður en ég drukkna í vísdómsorðum og mánaskini. Ég hef hér flogið úr einu í annað og er svo til baka aftur. En það liggur ljóst fyrir að ég er að gera upp við mig hvað ég eigi að vera lengi á vinnumarkjaði þó að ég sé ekki að tala um að fara í fastráðna, fulla vinnu. Ég talaði um einn fimmta í gær. Þessar pælingar mínar um hversu lengi ég eigi að vinna virðast kannski alveg snarruglaðar. En þá kem ég að því að maðurinn á myndinni fyrir neðan er alls ekki snarruglaður. Hann er snjall kall.
 
Og hann er líka alveg snarlifandi. Sjáið bara andlitið og augnaráðið. Hann er 77 ára og er enn í vinnu. Ef ég gæti verið eins og hann þegar ég verð 77 ára, þá verð ég einhver hamingjusamasti maður á norðurhveli jarðar ásamt honum. Svo er bara að sjá hverju skaparinn úthlutar mér af tíma.
 
Ég er reyndar búinn að gera þessi vinnumál upp við mig en það er mitt mál hvaða ákvörðun ég hef tekið. Tíminn fær að leiða það í ljós.
 
Í kyrrð dagsins segir þann 25. ágúst: Ég vona að merkisatburðir lífsins verði þér til gleði -en ekki síður allt hið smávgilega: blóm, lítið lag, fiðrildi sem sest á hönd þér.
 
 Ellen Levine
 
Ég hef haft þetta allt við hendina í dag og talsvert mikið meira. Þessi orð eru höfð eftir konu að nafni Ellen Levine, en hún skrifaði fyrir börn, unga lesendur og fullorðna sem helga sig samfélagslegum málefnum og sögu. Hún lést á síðasta ári.
 
Ég að vísu hlustaði ekki á neitt lítið lag í dag en ég tíndi þess í stað þessi stóru bláber af runna sem er hérna skammt út í skógi. Svo sótti ég tómata út í garðinn hennar Rósu sem er úti við skógarjaðarinn og ætla að hafa þá með rauðsprettunni sem ég var að enda við að steikja í ofninum.

Skal eða skal ekki

Klukkan tæplega fimm í dag stóð ég upp frá tölvunni í Vornesi. Þá var ég búinn að vera með á tveimur starfsmannafundum, hafa morgunfund með sjúklingum, fyrirlestur, grúppu, hafa tvö viðtöl og enda vinnudaginn með að skrifa inn fjögur samtöl. Þar sem ég stóð þarna upp frá tölvunni renndi ég yfir þetta í huganum og var hissa. Mér fannst ég enn vera hress en vissi að þegar ég kæmi heim yrði ég ekki alveg eins brattur. Ég hef mitt kontó inn á sjúkraskýrslurnar, geri ekki minna en þeir sem eru tíu til þrjátíu árum yngri en ég og eru fastráðnir, og ég virka almennt ekki síður en þeir.
 
Að ég var að velta þessu fyrir mér í dag og að skrifa um það núna kemur til af því að ég hef verið í vangaveltum og samningagerðum við sjálfan mig undanfarið. Skal eða skal ekki. Vinna eða vinna ekki. Ég er búinn að vinna fyrir allt of miklu á árinu til að geta fengið eina einustu krónu af íslenskum ellilífeyri frá tryggingastofnun, jafnvel þó að lögunum hafi verið breytt. Svo fjallar þetta alls ekki eingöngu um peninga. Ég veit líka að ég geri gagn. Sagt og skrifað: Ég veit að ég geri gagn. Vinni ég einn fimmta af starfi ynni ég einn dag í viku og hefði frí í sex daga.
 
Þegar ungt fólk, miðaldra fólk og eldra fólk spyr mig hvernig ég endist til að gera þetta get ég með góðri samvisku svarað því til að þegar maður er edrú er það mesta hægt. Það er spurning hvort það yfirleitt er hægt að vera betri fulltrúi fyrir edrúmennskuna en með því að geta sagt þetta með góðri samvisku og af sannfæringu. Þau urðu dálítið undrandi þegar þau sáu mig koma snemma í morgun líka eftir að hafa unnið hálfa helgina. Ég hafði sofið minn eðlilega tíma og var vel úthvíldur og ég hafði gaman af að vinna í dag.
 
*          *          *
 
Ég var ákveðinn í því á leiðnni heim að fá mér léttan kvöldverð þegar heim kæmi og fara svo út að vökva nýræktina mína. Ég var svolítið hissa á því hversu snemma fór að bregða birtu og dreif mig út þegar ég var búinn að borða. Þetta með birtuna gerði mig enn meira undrandi þegar út kom. En öll él styttir upp um síðir. Ég var með sólgleraugun á mér, þau sem ég nota þegar ég ek bílnum. Þau eru alveg eins og hin gleraugun mín nema hvað glerin eru lituð. Svo skipti ég um gleraugu og eftir það var kvöldið fallega bjart lengi frameftir. Svo segist ég virka vel í vinnunni!
 
Það er merkilegt hvað mér finnst ég vera að gera mikið gang með því að standa úti með slöngu og dreifa vatni yfir gras. Svo fell ég fyrir því morguninn eftir að fara út og gá hvort það hafi ekki sprottið aðeins frá því í gær. Að vísu sér oft mun frá kvöldinu áður. En ég held að það sé þessi fína afslöppun sem ég sæki í. Það er nefnilega afslöppun í þvi að dreifa út vatnsúða yfir nýgresi. Og varla verður sagt um þetta að það skaði neinn eða taki neitt frá neinum. Ekki fylgir því hávaðinn eða mengunin. Meðan ég stóð þarna og vökvaði heyrði ég í þreskivélunum sem voru dreifðar um akrana í nágrenninu. Vélarhljóðið er mjúkt og þægilegt í þessum tækjum og vitneskjan um að þarna fer fram mikil matvælaöflun réttlætir þessar athafnir síðsumarsins.
 
Og akkúrat i þessum orðum skrifuðum kom Óli Lokbrá og kastaði fíngerðum sandi í augu mín. Ég skil sendinguna. Ég á að fara aðleggja mig. Í fyrramálið rekur ekkert á eftir mér. Ég verð heima allan morgundaginn og þarf ekki eldsnemma á fætur morguninn þar á eftir heldur. Ég legg mig á eftir ánægður með minn skerf í dag en ekki alveg ákveðinn í því sem ég byrjaði að skrifa um -skal eða skal ekki.

Kæru vinirnir mínir

 22. mars síðastliðinn komu þau til Örebro með lest frá Arlandaflugvelli og má heita beint frá lestinni komu þau í heimsókn til Valdísar á sjúkrahúsið í Örebro. Þau glöddu Valdísi afar mikið með því og ég segi bara aftur; þau glöddu Valdísi afar mikið. Seinni hluta apríl sögðu þau við mig; við höldum sambandi, við fylgjumst með þér. Það hafa þau svo sannarlega gert og þau hafa verið duglegri við að halda sambandi við mig en ég við þau. Hér er ég að tala um mér alveg óskyldar manneskjur.
 
Í dag komu Auður og Þórir í heimsókn til mín á Sólvelli eins og svo oft, oft áður. Það var rætt á netinu þegar í gærkvöldi. Ég kom heim úr vinnu upp úr klukkan tvö og gekk beina leið í eldhúsið. Ég tók rúgbrauð úr frystinum, hrærði í pönnukökur, gerði kaffikönnuna klára, þeytti rjóma og svo byrjaði ég að baka. Það minnsta sem ég get gert er að reyna að taka vel á móti þeim sem vilja mér svo vel. Ég vil líka gera það vegna þess að ég get ekki annað en látið mér þykja vænt um þessar frábæru manneskjur.
 
Við settumst út i sólina með það sem ég tjaldaði til á borðinu, rúgbrauðið og pönnukökurnar með tilheyrandi. Við spjölluðum um hitt og þetta og þau sögðu mér frá ferð til Póllands. Auður meira að segja sýndi mér myndir frá ferðinni sem hún hafði í farsímanum sínum. Eftir kaffið færðum við okkur í skuggann og þau héldu áfram að tala um Póllandsferðina. Ég vildi bara ekki láta þau vita hreint út hvað ég smitaðist rosalega mikið af þessari ferðalýsingu en viðurkenndi þó að ég væri að bralla eitt og annað um ferðir í hálfgerðu laumi.
 
Hvort þau hvöttu mig til að halda því áfram. Eiginlega er það bara fornafnið að segja svo. Ég hef unnið full mikið undanfarið og ég get bara sagt það með réttu að þessi heimsókn var afar upplífgandi. Í gærkvöldi varð ég afar þreyttur að lokum eftir langan vinnudag en eftir góðan svefn var ég eiginlega hversu hress sem helst í morgun. Núna er ég líka orðinn dauðþreyttur en ég veit að eftir þessa heimsókn mun ég líka vakna vel úthvíldur í fyrramálið.
 
Þegar þau voru farin fór ég í að vökva. Það er mikið að vökva á Sólvöllum núna. Eftir viku lýkur þessari vinnuskorpu sem ég er mitt í núna, eða þannig að ég hef alla vega viku frí þá og minni vinna þar á eftir. Ég þrái að geta þá sinnt betur því sem þarf að sinna með alúð hér á Sólvöllum. Svo þarf ég líka að gefa mér tíma til að hugsa um smá ferðalög til að gera tilveruna enn ljúfari.
 

Þegar hjartalagið er gott og kærleikurinn ræður ríkjum

Ég er í Vornesi ásamt 19 innskrifuðum sem við köllum sjúklinga. Það eru óvenju fáir í húsinu eins og stendur. Núna milli klukkan sjö og átta að kvöldi sitja þau öll með sína fundi sem þau leiða sjálf. Ég er einn strafsfólks á staðnum og einmitt þessi tími er tími sem ég get haft fyrir sjálfan mig í flestum tilfellum og í dag er einmitt svona tilfelli sem ég þarf ekki að skipta mér af neinu af því að allt er í góðu lagi í húsinu.
 
Í morgun fann ég fyrir svolitlu mótlæti yfir því að þurfa að fara hingað í Vornes. Ég fann á tímabili að ég nennti því hreinlega ekki og ég vildi bara vera ellilífeyrisþegi í næði heima í dag og sýsla við mitt þar. Ég reiknaði með að þetta mundi breytast áður en langt um liði. Svo þegar ég vr búinn að fara í sturtu og borða hafragrautinn minn fann ég að eitthvað gott var að fæðast. Svo ók ég af stað í tíma en þó fyrr en venjulega. Sá sem vinnur helgina á móti mér þurfti að komast fyrr heim til sín í dag en stundaskráin gerir ráð fyrir og ég brást auðvitað við því og mætti fyrr sem þeim tíma nemur.
 
Þegar ég var kominn fyrstu fimm kílómetrana tók ég eftir því að farsíminn var ekki í vasa mínum og af gömlum vana fann ég mig knúinn til að snúa við og sækja hann. Svo gerði ég. Þegar ég var búinn að setja hann í vasa minn og gekk út að bílnum á ný sá ég að þetta var alls ekki svo nauðsynlegt. Það var nauðsynlegt meðan Valdís var ein heima og þá mátti það að mínu mati bara alls ekki bregðast. Þetta situr í mér ennþá.
 
Þegar allt var nú örugglegsa klappað og klárt og ég kominn vel af stað fór ég að taka eftir því hversu landið er ótrúlega grænt og fallegt með alla sína fallegu og hraustlegu skóga eftir sólríkt sumar og mátulegar rigningar upp á síðkastið. Svo inn á milli birtust slétturnar sem sums staðar voru akurlönd með fullþroskuðu korni sem beið bara þreskivélarinnar og annars staðar biðu þeir plógsins. Á vissum stöðum var þegar búið að plægja og á öðrum stöðum var verið að plægja. Svo birtist Hjälmaren með sínum skógi vöxnu eyjum og sólin baðaði þetta allt saman með sínum óþrjótandi, hlýju geislum. Það var alls ekki svo fráleitt að vera á leið í Vornes.
 
Þetta fólk sem ég hef verið með í dag er með afbrigðum góður hópur. Fyrir löngu, löngu síðan var ég spurður hvort ég væri nógu frakkur í munninum tiil að ráða við þetta stjórnlausa fólk. Ekki man ég hverju ég svaraði en það er ekki að vera frakkur í munninum sem styður við bakið á þessu fólki. Ef því finnst að ég sé sannur verður vinna mín létt. Svo hefur það verið í dag. Ef allir heimsins leiðtogar gætu talað í sannleika frá hjartanu eins og fólkið mitt í Vornesi hefur gert í dag, þá væri ekki barist á banaspjótum.
 
Það er mikil gæfa fyrir mig að geta unnið við þetta við og við og finna fyrir þeim kærleika sem finnst á einu meðferðarheimili fyrir alkohólista og eiturlyfjaneytendur þegar stemmingin er góð og atburðarásin jákvæð.

Blogg númer eittþúsund

Það var ekkert annað. Ég var heppinn þann 16. ágúst að fara inn á skjalasafnið á blogginu mínu, af algerri tilviljun. Þá sá ég að bloggin mín nálguðust eitt þúsund. Ég ákvað að halda upp á það með bloggi sem ég mundi gefa fyrirsögnina "Blogg númer eittþúsund". Í morgun birti ég blogg og gáði svo hversu nærri ég var þessu marki. Bloggið í morgun var númer 999 og því var ekki seinna vænna.
 
24 desember 2006 birti ég fyrsta bloggið. Ég hef nokkrum sinnum farið inn á fyrstu bloggin og þá sé ég að ég hreinlega kunni ekki á þetta kerfi. Mér tókst til dæmis ekki að birta nema eina mynd í hverju bloggi, svo tapaði ég nokkrum myndum og þetta bagaði mig mjög. Svo af tilviljun leystist það og af þeirri tilviljun lærði ég það að ef ég grúska og leita fyrir mér finn ég einhvern nýjan möguleika. Í þessu þúsundasta bloggi finnst mér sem ég þurfi ekki að kunna fleiri möguleika.
 
Upphaflega byrjarð þetta á því að ég vildi gefa nánum skyldmennum og gömlum nágrönnum möguleika á að fylgjast með lífi okkar Valdísar hér úti. Síðan jókst þetta og fleiri og fleiri fundu bloggið og fleiri og fleiri fréttu af því. Ég er ekki með í neinum bloggklúbb eða hvað nú á að kalla það og geri ekkert til að auglýsa það. Ég er ekki í þörf fyrir það.
 
Smám saman fór ég að finna að ég hafði gott af þessum skrifum mínum. Með því að skrifa hvað ég hugsa eða er með um í lífinu og gef öðrum kost á að lesa það, þá veit ég að ég hef gott af því. Það er eins og með AA félagsskapinn. Hann leysir mikið fyrir fólk. Flestir alkohólistar reyna á eigin spýtur að bjarga sér fyrir horn. Þeir vona að sem fæstir viti hvernig málum er háttað og þeir taka í laumi hverja ákvörðunina á fætur annarri um að hætta allri þessari vitleysu. Og enginn skal vita. En málið er bara það að þetta hjálpar ekki. Að lokum þegar alkohólistarnir gefast endanlega upp og fara að hitta aðra aklohólista og segja þeim sannleikann, þá fer eitthvað merkilegt að ske.
 
Ég gæti líka skrifað mín blogg og látið vera að birta þau, til dæmis af því að ég þyrði ekki að láta aðra sjá hvernig minn stíll við að tjá mig með pennanum er, eða af því að ég þori ekki að láta aðra sjá hvernig ég hugsa, hvað mér finnst og hvað ég er með um í lífinu. En ef ég gerði það, væri í feluleik með allt sem ég skrifa, hefðu bloggin mín 999 ekki gert mér mikið gagn og ég hefði verið betur settur með að nota frístundir mínar á annan hátt.
 
Ég hef fengið að upplifa margt við þessi skrif mín. Ég hef oft grátið yfir þeim, líka þegar ég les yfir eldri blogg, ég hef hlegið aleinn yfir þeim á stundum, en ekki eins oft. Ég hef hrifist og það er án efa sú tilfinning sem hefur verið lang algengust. Oft þegar ég hef verið önnum kafinn við að skrifa blogg hef ég oft áttað mig á einhverju sem ég hef ekki skilið áður. Ég hef líka orðið reiður, mjög sorgmæddur, vonsvikinn og jafnvel hræddur. En það eru jákvæðu tilfinningarnar sem hafa algera yfirburði. Ég hef aldrei skammast mín fyrir að birta blogg og aldrei eytt bloggi vegna þess að ég skammist mín fyrir það.
 
*
 
Dagurinn í dag er góður dagur. Það er sólskin og um tuttugu stiga hiti að vanda. Ég skrapp inn til Örebro fyrir hádegi til að láta klippa mig. Ég stoppaði við póstkassann til að taka blaðið. Þá sá ég að hann Lars eldri í næst næsta húsi sunnan við sat úti á stutterma skyrtu og leysti krossgátu. Hann er jafnaldri minn. Ég bara varð að ganga til hans og heilsa upp á hann. Lars hefur glímt við langvarandi veikindi en hann hefur ekki gefið sig og gengur þrjá og hálfan kílómeter flesta morgna. Mjög lengi gekk hann með göngugrind og ég hef nokkrum sinnum hrósað honum fyrir það hversu jákvætt hann taki á þessu alvarlega máli og sagt honum að það muni bjarga honum frá ennþá alvarlegri veikindum.
 
Fyrir nokkru sleppti hann svo göngugrindinni og fór að ganga léttari skrefum. Þegar ég nálgaðist hann í morgun sá ég að þessi maður hafði tekið ótrúlegum framförum. Hrjáð andlitið var orðið slétt og fellt, það var létt yfir augnaráðinu og hann heilsaði með bros á vör. Ég talaði um að það væri gaman að sjá hann svona hressan. Hann átti svolítið erfitt með að svara því. Eftir nokkra stund vildi ég halda áfram. Ég reisti mig upp og sagði um leið að ég hefði bara ekki getað annað en komið við til að gleðjast aðeins með honum yfir því hvernig dugnaður hans hefði hjálpað honum.
 
Nú lenti Lars í svolitlum vanda en svo svaraði hann. Ég gleðst líka alltaf þegar ég sé að þú hefur náð einum áfanganum enn heima hjá þér. Ég þori að segja að nú vorum við báðir orðnir svolítið hrærðir. Það er gott að tala öðru hvoru saman af alvöru og víkja hlýju orði að þeim sem þurfa á því að halda.
 
Víst er dagur þúsundasta bloggsins góður.
 
 

Að vakna heilbrigður

Í morgun vaknaði ég eftir mikið góðan og endurnærandi nætursvefn. Ég lagði mig á bakið og horfði upp í loftið og hafði það notalegt. Ég er búinn að vinna helling í vikunni og svo verður næstu dagana líka. Ég var því ákveðinn í að flýta mér ekkert um of á fætur, enda var klukkan ekki nema tæplega hálf átta. Eins og svo oft hugsaði ég til þess að ég var við góða heilsu og hafði yfir höfuð ekkert að kvarta undan.
 
Allt i einu datt mér í hug síðasta ferð mín inn til Marieberg, bara fyrir nokkrum dögum. Ég gekk þar suður eftir einum stóru ganganna þar í átt að apótekinu. Ég var ekki á leið þangað til að kaupa lyf. Ég ætlaði að leita að sjampói og mýkjandi, lyktarlausu húðkremi. Þar sem ég var þarna á göngunni heyrði ég allt í einu hljóð í rafmagnsstól hægra meginn við mig. Ég leit þangað.
 
Í stólnum sat maður og ég gat ekki gert mér neina grein fyrir aldri hans. Stóllinn var einn af þessum þungu hjólastólum og með margs konar að því er virtist þungum og flóknum útbúnaði. Á höfði mannsins og kringum það var mikill búnaður og ég gerði mér ekki grein fyrir hvernig hann stýrði stólnum. Hann virtist ekki horfa framfyrir sig, heldur skáhalt upp í loftið, og ferð hans gekk í rykkjum. Hann virtist velja leið næstu metrana og fara þá leið á enda, hægja þá á eða stoppa og velja síðan leið aftur og aka hana.
 
Mér fannst næstum ógnvekjandi að sjá þetta. Þarna var maður sem ég taldi mikið yngri en ég var, kannski á aldur við barnabarn mitt eða svo, og ég var ekki viss um að ég mundi einu sinni hafa kunnáttu til að hafa nokkuð samband við hann í tali eða neinni annarri tjáningu. Svo gekk ég þarna rúmlega sjötugur kall, nokkuð beinn í baki, og var á leiðinni á apótek til að kaupa mýkjandi húðkrem. Ég vildi gera hendurnar á mér svolítið fínni og kannski setja smá slettu af kreminu í andlitið líka. Svo dettur mér stundum í hug að ég þurfi að hafa það aðeins betra en ég hef. Hvers vegna er okkur mismunað svo mikið manneskjunum á þessari jörð!?
 
Ég sagðist ekki hafa verið á leiðinni í apótekið til að kaupa lyf. Ekkert keypti ég þar sjampóið en húðkremið keypti ég. Þeldökk kona á hvítum slopp sem gat verið barnabarnið mitt hjálpaði mér mjög vingjarnlega. Svo keypti ég rúmlega miðlungs stóra túbu á 61 krónu, en ég gat líka fengið flókið og margslungið krem í næstu verslun sem kostaði einhver hundruð hver túba. Ah, nú varð ég gamaldags. Sjampóið fékk ég í annarri verslun. Nú er ég hér heima með nægjanlegt af fegrunarefnum fram að jólum.
 
Í kommóðuskúffu hér frammi eru reyndar lyf. Þar er pakki af nokkru sem heitir ipren sem er vægt verkjalyf sem líka á að standa á móti bólgum. Ég hef ekki notað þetta lyf í viku eða svo, en ég nota það þegar ég þarf að gera eitthvað þar sem ég þarf að vera í vondum stellingum við, skríða eða bogra til dæmis. Þá verð ég óneitanlega liprari við verkin mín og fljótari að standa upp. Svo ætla ég á næstu dögum að kaupa D-vítamín. Þar með eru lyfin mín upp talin. Þegar ég var búinn að hugsa um þetta allt saman í morgun þakkaði ég fyrir þá heilsu sem ég hef og fyrir allar þær gjafir sem mér eru gefnar.
 
Hverjum get ég svo þakkað fyrir? Ég skil það eftir sem gátu.

Uppskerutíð

Framarlega í skóginum eru nokkrir bláberjarunnar og þar eru ber sem eru tilbúin til átu eða hvers konar sultu-, saft- eða hlaupgerðar. Ég veit satt best að segja ekki hvað ég á að gera við þau. Ég get vel borðað þau eins og þau eru, úr hnefa eða saman við skyr eða jógúrt. Sennilega verður það svo að ég borða þau óunnin og bara eins og þau koma af skepnunni. Svo þarf bara að setja niður þó nokkra runna í viðbót í haust eða að vori. Sennilegast af öllu að vori.
 
Það eru fleiri að sinna uppskerunni sinni. Hann Mikki á Suðurbæ til dæmis. En það er svo um þessar mundir að á ökrum og vegum vítt og breitt um sveitirnar eru stórar dráttarvélar á ferðinni með tvo aftanívagna hver vél. Yfirleitt má sjá í kúfinn af korni kíkja upp yfir hliðarnar á vögnunum. Einstaka er með vagna á stærð við vörubílspall en þá eru þeir líka bara með einn vagn. Á þessari mynd er Mikki að slá akurinn sinn, þann sem liggur næstur Sólvöllum, bara í nokkur hundruð metra fjarlægð..
Hér er hann búinn að fylla vélina og er nú að losa hana yfir í annan vagninn. Ég sá til hans þegar ég var á leiðinni heim og þá var bara að sækja myndavélina og taka nokkrar myndir.
 
Þegar Mikki var búinn að losa vélina á vagninn benti hann mér að koma. Ég held að stiginn upp í klefann til hans hafi verið fimm þrep og þegar ég var kominn þangað upp bauð hann mér far. Farþegasæti hafði hann þar líka.
 
Mér skildist á honum að svona vél kosti ekki minna en 36 miljónir íslenskar enda er hún vel hlaðin tækjum. GPS tækið er þarna efst næstum fyrir miðju. Mikki hafði fingurinn á gula tækinu neðst til hægri, annars sá GPS tækið um að stjórna vélinni þegar hún var komin í stefnu á nýja ferð.
 
Svo verður auðvitað að birta mynd af höfðingjanum sjálfum og enn hefur hann fingurinn á hnöppunum á gula tækinu. Aftan við okkur var rúða og þar gaf að líta kornið sem komið var um borð, svo hreinlegt og fínt. Menn hafa verið að lýsa fyrir mér hvernig þessi stjórnstöð líti út og nú er ég búinn að sjá það með eigin augum. Ég veti að það eru til svona vélar á Íslandi en ég veit ekki hversu vel þær eru tækjum búnar. Það kostaði mig ekkert að birta þessar myndir ef einhver skyldi hafa áhuga á að skoða.
 
Ég er í notalegu fríi núna og fram á laugardag. Svo fer ég aftur í Vornes og verð þar einn sólarhring. Það er ekki langt eftir af þessari vinnuskorpu minni. Við Mikki töluðum um þessa vinnu mína og hann taldi að án efa mundi það skila mér betri heilsu. Það eru margir á þeirri skoðun.
 
Að lokum er svo spurning hvort þessi mynd af berjunum er ekki betri en sú fyrsta. Stærðin á þeim er alla vega nær lagi á þessari mynd.

Grænn vangadans

Ég kom heim úr sólarhrings vinnu rétt fyrir hádegi í dag og gekk nokkurn veginn raka leið gegnum húsið, inn í herbergið mitt, út um dyrnar á því skógarmegin og út á nýja pallinn. Svo tók ég stólinn með rauðbleika segldúkslíka efninu sem er strengt milli hliðanna í stólnum og fékk mér sæti. Svo mjakaði ég mér til þangað mér fannst stellingin og hallinn á stólbakinu uppfylla óskir mínar um þægilegheit á þessari stundu. Svo slappaði ég af og horfði nokkurn veginn út í mitt laufþykknið fyrir framan mig. Eiginlega horfði ég ekki á neinn ákveðinn stað í laufþykkninu, heldur langt út í eilífðina þar sem skóginn bar á milli.
 
Síðan lét ég hugan reika og velti fyrir mér tilvist minni á þessari stundu. Ég var sáttur, forvitinn, fann fyrir einskonar mildri eftirvæntingu til lífsins eins og það blasti við mér í dag. Ef til vill var mér ekki alveg ljóst hvernig það blasti við mér. Kannski var ég eins og unglingur sem var að byrja að leggja land undir fót þegar hann kvaddi foreldrahús. Kannski var ég bara voða lítill þó að fólkinu sem ég vann með síðasta sólarhringinn þyki oft að ég sé gríðarlega stór. Þá á ég ekki við vinnufélaga mína, heldur skjólstæðinga mína sem ég reyni að rétta út hendina til í tilraun þeirra til að finna nýjan flöt á lífi sínu.
 
Þar sem ég sat þarna í notalegri stellingu og horfði út í eilífðina gegnum einhvern punkt í iðandi skóginum, þá byrjaði ég smám saman að skynja hvernig allt laufverkið iðaði í suðvestan golunni. Ég horfði ekki beint á það en skynjaði að utan punktsins sem ég horfði í gegnum var allt á notalegu iði. Græn ásýnd heimsins dansaði hægan vangadans þarna allt í kring og ég forðaðist að sleppa auga af græna punktinum sem ég horfði út í gegnum til eilífðarinnar. Ég vildi framlengja eins og mögulegt var þessa stund, andartak eftir andartak, helst hversu legni sem helst, láta lifandi og iðandi blaðgrænuna láta blítt að sjáöldrum mínum eins og tónlistarunnandinn óskar sér þess að tónar sínfóníunnar sem hefur svo undursamleg áhrif á hljóðhimnur hans taki ekki enda. Svo tók stundin enda. Ég hafði fengið minn skerf í þetta sinn.
 
 
*          *          *
 
 
Það var spurning hvernig mér tókst þetta. Ég veit að ég ætti að geyma það og lesa yfir og lagfæra eftir nokkra daga, þá yrði ég mun ánægðari með það. En ég reyndi eftir bestu getu að lýsa því hvernig stuttur dagdraumur getur litið út þegar allt er í góðu lagi og amstur heimsins er ekki alveg inn á gafli. Fyrri hlutinn er skrifaður um hádegisbil en nú er komið kvöld og ég ætla að enda þetta blogg og birta það svo.
 
Ég borðaði síðbúinn hádegisverð, tók mér svo skóflu og haka í hönd, sótti hjólbörurnar og ákvað að grafa fyrir hellurönd sem ég ætla að setja framan við útipallinn áður en trappan verður smíðuð. Ég ætlaði að vísu bara að byrja til að sanna fyrir mér að þessi gröftur væri ekki svo alvarlega mikill. Svo þurfti ég að grafa dýpra en ég hafði reiknað með en ég var líka duglegri en mig óraði fyrir. Svo gróf ég mikið meira en til stóð og fann eins og oft áður að það er gott að taka til við líkamlega vinnu eftir vinnuna í Vornesi.
 
Svo fór ég inn til að taka til kvöldmat handa mér. Frosna rauðsprettu hafði ég lagt á disk þar sem hún skyldi þiðna. Þegar ég ætlaði að fara að matreiða hana sá ég að stór hluti af henni hafði verið vatn. Ég tók því upp meiri rauðsprettu til að ég yrði þokkalega mettur eftir kvöldmatinn. Meðan þessi viðbót þiðnaði fór ég að tölvunni og þá var hún afar hægvirk, minnst sagt. Ég reyndi ýmsar vísar leiðir til fá ferð á tölvuna en ekkert gekk. Að lokum varð ég að slökkva á henni með valdi og svo taldi ég að hún yrði fljótari eftir það. Ekki get ég sagt að svo yrði en hún varð þó alla vega nokkurn veginn nothæf.
 
Ég tók fiskinn út úr ofninum eftir sjö og hálfa mínútu þar og þegar ég leit á fatið sá ég að fiskurinn hafði enn rýrnað. Ég borðaði slatta af rúgbrauði með til að máltíðin yrði meira mettandi. Það var ýmislegt fleira sem reyndi á mig og ég fann að ef ég ekki reyndi að gæta stillingar gæti þetta endað með því að ég færi í fýlu. Ég hins vegar aftók ég það með öllu þar sem dagurinn í heild hafði verið svo góður. Ekkert skyldi fá mig á fall. Nú sit ég með nýju fartölvuna og lýk þessu bloggi. Því næst ætla ég að útbua mér engiferte og setjast með að í hengiróluna úti á palli. Hver veit nema að hann Broddi eða jafnvel Broddarnir gleðji mig með nærveru sinni.
 
Því næst skal ég kúra mig snemma undir ullarfeldinn minn þar sem ég þarf að vakan mjög snemma til að taka þátt í venjulegum dagvinnudegi í Vornesi á morgun, Ég þarf að vera vel úthvíldur til að ég geti beinn í baki mætt skjólstæðingum mínum. Ég á líka að halda fyrirlestur um bata og þá má ég ekki vera þreyttur og illa haldinn, þá væri ég ekki góður fulltrúi edrúmennskunnar. Svo halda margir að ég sjái í gegnum fólk og sá sem sér í gegnum fólk verður auðvitað að vera í góðu formi.

Hannes og fjölskylda eru farin en Broddi kominn til baka

Upp úr hádegi í dag, sunnudag, lögðu þau af stað heim Hannes og fjölskylda. Hann var mikið ljúfur drengur og þau öll mikið velviljuð með heimsókn sinni. Þeim líður vel hér, það fer ekki milli mála, og þau meta mikils þá kyrrð og náttúruna sem umvefur þennan stað. Það er misjafnt hverju fólk sækist eftir í fríum og á ferðalögum og þeir sem vilja koma á Sólvelli og njóta þess einfaldleika sem staðurinn býður upp á, já hvað á ég nú að segja? Þeir eru nú ríkir á sinn hátt. Kannski lætur þetta hrokafullt af minni hálfu að segja svona, en ég þori þó að segja um sjálfan mig að þó að ég hafi mína annmarka, þá er ég ekki hrokafullur. Sólvellir eru bara einfaldur og mjög góður staður og hér tala ég af alvöru.
 
Það var nokkuð undarlegt sem Hannesi tókst með mig. Hann fékk mig til að dansa, alla vega hálfdansa. Og hann fékk mig til að leika ófreskju og ýmislegt fleira. Svo settum við saman magnaðan legóvörubíl. Reyndar tókum við öll þátt í því. Ýmsir af þeim leikjum sem hann tælir mig út í gera mig móðan og eins og hann hljóp í gær hér úti á nýja pallinum við Sólvallahúsið, þá fær það mig til að langa að eiga svolítið af þeirri orku sem hann getur leyst úr læðingi. Þá mundu mörg af mínum verkum ganga hraðar en þau gera.
 
*          *          *
 
Það var hérna um daginn að ég átti ekkert avakadó og engin egg. Hvað á þá að gefa honum Brodda? Jú, ég reyndi að gefa honum epli. Ég sá fljótt að það fannst honum léleg framkoma gagnvart sér. Svo fór ég og vann einn sólarhring í Vornesi svo að ekkert fékk hann þann daginn heldur. Svo hvarf Broddi og félagi hans, sá sem var skaddaður undir auga. Nokkrum dögum síðar frétti ég frá nágrannna í húsinu suðvestur í brekkunni í svo sem tvöhundruð metra fjalægð að þeir félagar hefðu setst þar að.
 
Ég varð alveg eyðilagður yfir þessu, Broddi og Broddi farnir að halda framhjá mér. Svo gafst ég upp á að gefa þeim félögum þar sem maturinn bara rotnaði niður í grasið. Í dag var ég að vinna úti og datt þá í hug að það væri kannski mál að gera nú eina tilraun og ég sótti avakadó og losaði það í grasið bakvið húsið. Svo þegar ég var að borða þorskinn minn í kvöld datt mér allt í einu í hug að skreppa út og gá hvort þeir félagar hefðu gert matnum skil. Nei, svo var ekki.
 
Þar sem ég var að snúa mér við úti á lóðinni sá ég hreyfingu út undan mér. Og hvað haldið þið? Rétt innan við hliðið í grjótgarðinum í svo sem fimmtíu m fjarlægð sá ég hvar Broddi, sá stærri, kom kjagandi og stefndi beint á gamla matarstaðinn. Ég dreif mig inn og fylgdist með. Jú, hann kom þarna rakleiðis, þefaði og snuðraði og svo fann hann sitt avakadó og át upp til agna. Ég er búinn að fyrirgefa honum framhjáhaldið.
 
*          *          *
 
Ég fékk heimsókn í dag eftir að Hannes og fjölskylda fóru. Hann Lennart sem á heima neðst suðvestur í brekkunni kom með plastpoka. Forvitinn bauð ég honum upp á molakaffi sem hann þáði. Yfir kaffinu tók hann upp innihald pokans og lagði á borðið. Þarna kom hann með eina krukku af títuberjasultu og aðra af moltuberjasultu. Namm, namm. Þau reynast mér mjög vel Anni og Lennart. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þau gauka að mér sultu. Þau voru líka dugleg við að heimsækja Valdísi síðustu mánuðina og fyrir það met ég þau að verðleikum sem aldrei verða frá þeim teknir.
 
Eftir þessa afhendingu byrjaði Lennart að spila á fíngerða og aldeilis frábæra en ósýnilega strengi. Hann fór að lýsa fyrir mér stöðum langt, langt norður í landi, stöðum sem mig hefur lengi dreymt um að sækja heim vegna þess að svo margir hafa talað um þessa staði sem aldeilis einstaklega fallega. Hann lýsti fyrir mér fjöllum sem ganga í sjó fram með breið fljót við fjallsræturnar og skóga sem tengja saman fjallsrætur og fljót. Hann lýsti fyrir mér veitingastað uppi á fjalli einu með útsýni inn yfir norðlenska fjallaveröld, skóga, vötn, fljót, og svo sjálft Eystrasaltið í gagnstæðri átt. Margt fleira talaði hann um og hann gerði það á þann hátt að það gekk mér beint í hjartastað.
 
Ja Lennart, hvað mig þyrsti í ferðalag, ferðalag sem mig hefur lengi dreymt um og nú er lag fyrir mig að undirbúa. Ég mun ekki rasa um ráð fram og æða af stað. Ég hef veturinn fyrir mér til að undirbúa þetta, panta stugu og svo kannski aðra stugu, velja leiðir, lesa um þær, og verða vel undir þetta búinn. Ég byrjaði að blogga um svona lagað fyrir nokkrum árum. Nú er ég alveg að verða búinn að ganga frá mér á Sólvöllum og nú get ég farið að neyta ávaxtanna. Því miður var ekki hægt að fara svona ferð á allra síðustu árum. Við Valdís vorum oft búin að tala um það en kraftinn vantaði, því miður. Þannig var það bara.
 
Lífið heldur áfram og það er ekki um svo mikið annað að ræða en að taka þátt í því.

Laugardagur í sveitinni

Það var nú lag á mér í morgun. Ég sem sofnaði fyrir miðnætti svaf nánast í einum dúr til klukkan tæplega níu í morgun. Þetta heyrir hreint ekki hversdagsleikanum til hjá mér, en ég hlýt að hafa verið þreyttur eftir gærdaginn. Þegar ég kom fram höfðu gestirnir mínir lagt járnbrautarspor í stórum stíl og iðkuðu alls konar flutninga með lest. Eftir morgunverðinn hringdi hún Annelie.
 
Annelie, þessi góða vinkona Valdísar, vill svo gjarnan líta hér við öðru hvoru. Hannes tekur henni líka ljómandi vel og fær það svolítið endurgoldið á einn og annan hátt. Í dag eignaðist hann nokkra litla bíla út á vinskapinn sem hann sýnir henni. Og hvað haldið þið? Auðvitað bakaði húsbóndinn pönnukökur og svo var farið út á nýja pallinn til að borða góðgætið. Hann er magnaður þessi pallur og áður en hann var orðinn að veruleika datt mér í hug að þetta væri eins og heil bryggja. Það leiddi aftur hugann til þess að það væri hægt að dansa þarna þó að ég geti ekki hælt mér af dansfimi minni. Og í framhaldi af því kom upp í huga mér "Det är dans på Brennöbrygga" eða "Það er dans á Brenneyjarbryggju". Svo hef ég talað um þetta aftur og aftur, dansinn á Brenneyjarbryggju.
 
Þegar Annelie var farin settist Rósa út í hengiróluna, hafði sett útvarp út í glugga og með farsímanum lokkaði hún fram músik í útvarpinu. Og hvað annað en að byrja á þessu:
 
Svo ómaði danstónlistin frá nýja útipallinum á Sólvöllum sem með öðru orðinu kallaðist Brennöbrygga.
 
En lífið er ekki bara dans og leikur. Það þarf að borða líka. Ég reyni lítið við matargerð þegar ég hef gestina sem ég hef um helgina núna. Gestirnir fá líka að hafa fyrir því að taka upp kartöflur í matinn. Rósa fylgist þarna áhugasöm með Pétri róta í moldinni og leita eftir kartöflunum. Mitt hlutverk verður svo að ganga frá eftir matinn.
 
Meðan þau tóku upp fór ég út í skóg og tók myndir af flóknu göngustígakerfinu mínu í skóginum næst húsinu. Hannes er ekki alveg kominn upp á lag með að hafa gaman að þesum stígum mínum sem ég gerði með hann í huga. Hann er hreinlega ekki orðinn nóku gamall til að hafa gaman að þeim, eða það er mín kenning.
 
Eftir matinn sem var þorskur frá henni Kiddý skólasystur minni og kartöflur úr heimagarðinum, þá gat ég boðið gestunum mínum upp á afslöppun í hengirólunni -auðvitað á nýja útipallinum. Hann virðist hafa það huggulegt þarna hann nafni minn og þau öll. En Hannes sýndi ekki gleði sína einvörðungu með því að brosa í hengirólunni.
 
Hann breikaði líka fyrir foreldra sína og afa. Nokkru síðar bauð hann afa sínum upp í dans og hvað gerir ekki afi þegar barnabarnið býður upp í dans. Ég dubbaði mig upp og reyndi að brjóta mig í gegnum hlédrægnismúrinn og leika við barnið. Það voru alls konar kúnstir sem við fundum upp á og að ósk nafna míns hljóp ég líka um þarna leikandi vondan dreka. Þó að ég leiki vondan dreka er hann ekki hræddur við mig, hann hlær mikið og veit að afi verður ekki vondur í alvöru.
 
Nú er dóttursonurinn sofnaður og ég vona að hann vakni ekki af vondum draumi í nótt við það að ég sé vondur dreki sem læsi í hann klónum eða spúi eldi.
 
Nú er mál að linni og ég þarf að ganga fyrr til fundar við Óla Lokbrá en ég gerði í gær. Ég þarf að leggja mig fyrr og koma mér fyrr á fætur í fyrramálið. Eigi ég að leika vondan dreka verð ég að vera vel úthvíldur svo að ég fari ekki að verða vondur í leiknum. Alvöruvondir drekar hljóta jú að vera alvöru hættulegir.
 
Dans på Brennöbrygga hefur verið viðloðandi hér mest allan daginn.

Kvöldsólin lýsti upp Sólvelli

Ég efa ekki að ég er ögn skrýtinn en mér líður ágætlega með það og meðan ég geri engum mein með því er ekkert við því að segja. Ég var að úti fram til klukkan hálf átta og þegar mér þóknaðist að hætta settist ég í henguróluna úti á palli móti skóginum og lét fara vel um mig. Ég hélt rólunni á afslappandi hreyfingu og lét hugann reika. Upp úr klukkan átta fór ég inn og fékk mér kvöldmat.
 
Svo þegar ég var búinn að koma átta fernum af rúgbrauði í bakarofninn og ganga frá fór ég nefnilega aftur út í hengiróluna. Það var orðið dimmt en mátulega sterkt útiljós skein út frá gaflinum handan við suðaustur hornið, kyrrðin var bókstaflega fullkomin og lofthitinn notalegur. Það var alls ekki kalt en það var svo svalandi að sitja þarna á stutterma skyrtunni. Það amaði ekkert að. Ég var hvorki lasinn eða veikur, hafði engar áhyggjur, samviskan var í lagi og ég sáttur við alla.
 
Þarna sat ég eins og einn hálftíma og hugurinn reikaði mjög víða.  Ég hlakkaði til að Hannes kæmi með fólkið sitt í heimsókn til mín á morgun, ég var ánægður með daginn og ég var líka ánægður með að það hyllir undir að öll stærri verk eru að verða búin hjá mér á Sólvöllum. Eftir einar fimm vikur reikna ég með að ég sé orðinn frjáls maður og það sem eftir það þurfi að gera megi gera hvort heldur vikunni fyrr eða seinna eða kannski bara hálfum mánuði fyrr eða seinna. Það kalla ég að vera frjáls maður.
 
Ég ákvað líka að fá hann Anders til að hjálpa mér með ákveðna hluti í einn eða tvo daga. Að gera það þegar ég er tilbúinn með mitt sparar mér eins og eina viku hið minnsta. Og þarna sat ég aleinn í kvöldrökkrinu og var ánægður með lífið. Allt mögulegt annað fór gegnum huga mér. Það er ótrúlegt hvað hugurinn getur farið víða um heim á stuttum tíma. Það er bara notalegt fyrir þann sem er sjötíu og eins árs að dilla sér svolítið í hengirólu.
 
Þessa heimsókn fékk ég í dag. Hann var búinn að losa farminn og var í þann veginn að hoppa út úr bílnum þegar ég tók myndina. Hann virtist kunna betur við að heilsa. Þegar bílar hafa komið með efni hef ég nær undantekningarlaust ekki verið heima. Þegar við höfðum heilsast spurði ég hann hvort það væri hann sem alltaf kæmi með efnið þegar ég bæði Martin að panta. Ja, árlega hef ég komið hingað all lengi svo að ég er farinn að rata svaraði hann. Svo höfðum við ekkert meira að segja og hann hélt af stað. Vissulega fannst mér bíllinn fínn, það verð ég að segja. Ég þarf að finna einn svona handa Hannesi. Hannes er svo lítillátur að bílar þurfa ekki að vera svo voðalega stórir. Hann er ánægður með þá samt.
 
Svo er orðið grænt í kringum Bjarg. Alla vega þegar horft er á grasið úr þessari fjarlægð. Þvílík breyting kringum eitt hús frá því í vor. Þessi malarhaugur upp á einar sextíu hjólbörur á að fara í allt mögulegt hingað og þangað. Ég er býsna seigur við að finna mér verkefnin en það byggist á því að ég vil að vel sé frá öllu gengið á Sólvöllum svo lengi sem ég hef með það að gera. Þar með get ég líka haft gaman af að flytja sextíu hjólbörur af vegamöl hingað og þangað á staðnum. Mér sýnist að mér muni takast að klára svona verk áður en ég verð búinn að fá yfir mig nóg af þeim.
 
Að grafa fyrir stöplunum undir æði stóra veröndina, já og það tvær, steypa, fá heim efni og að smíða úr þessu efni, það kostaði að það var orðið rusl og drasl hingað og þangað. Og það voru steinar og stórir steinar og bara grjót út um allt. Spýtur, járnkall, haki, skóflur, einangrunarplast, jarðvegsdúkur og gersamlega allt mögulegt. Ég ákvað í morgun að gera staðinn Sólvelli að fínum stað aftur og taka daginn í það. Nú er það búið og ég er líka búinn að slá alla flekki sem urðu eftir þegar verið var að slá kringum þetta drasl allt saman. Alveg er þetta dásamlegt og svo lýsir kvöldsólinn upp sveitina á sinn sértaka og fallega hátt. Grasið er líka að ná sér eftir heita og þurra hásumartímann.
 
Rúgbrauðið er orðið heitt í ofninum þar sem hann malar hógvær þarna frammi í eldhúsi. Það er ekki komin lykt ennþá en hún verður búin að fylla húsið einhvern tíma á bilinu sex til sjö í fyrramálið. Sjálfsagt fyrr, en þá verð ég bara ennþá með honum Óla í draumalandinu þar sem við hugsanlega verðum að borða volgt rúgbrauð með helling af kúasmjöri ofaná. Mér væri nær að fara að sofa núna en hætt er við að það dragist fram yfir miðnætti. Ég er greinilega orðin dálítil kvöldmanneskja sem ég var þó ekki áður. Smáskrýtinn eins og ég sagði í upphafi. Góða nótt.

Skýfall

Mikið er fallegt útsýnið út um austurgluggann á herberginu mínu. Eftir talsverða rigningu í gær og talsverða vætu undanfarið virðist náttúran svo sæl með sig, safarík, afslöppuð og í góðu formi. Það er eins og sólin lýsi upp nokkra græna, óreglulega sali þarna út í skóginum og þó að ég sé búinn að vera þarna úti í einhver þúsund skipti get ég spurt mig að því hér og nú; hvernig ætli það líti út að vera þarna og þarna já og þarna. Ég veit það alveg upp á hár en samt verður það svona á þessum frábærilega fallegu morgnum að hugmyndaflugið fer á flug. Það er eins og það sé endalaust hægt að fara í eina og eina sólarlandaferðina enn út um þennan austurglugga minn.
 
Rósa og fjölskylda koma í heimsókn um helgina. Ég þarf að tala um það við hann Pétur að ná mynd af þessu ef veðrið býður upp á það. Hann á mikið betri myndavél en ég. Samkvæmt tíu daga spánni gæti vel orðið svona morgun á sunnudag. Að ég sé að reyna að glíma við þetta með minni vél og birta síðan mynd af því er eiginlega rangt. Það verður aldrei sönn mynd.
 
Rósa, Pétur og Hannes Guðjón koma á morgun til að skoða framkvæmdir síðustu tveggja vikna. Eins og venjulega hefði ég viljað hafa gert meira en það verður bara að duga eins og það er. Þessi mynd er að vísu næstum viku gömul en það er ekki svo mikill munur á, þá og nú, annað en að það er mun þrifalegra í dag en það er á myndinni.
 
Í gær kom skýfall sem stóð ekki nema eins og í tíu mínútur. Ég hef séð vera skýfall en þetta en það var alveg nóg samt. Þrumurnar möluðu látlaust hér í kring og um stund beint yfir að því er virtist. Ég stóð undir þakskegginu austan við húsið, þarna inn í horninu við dyrnar sem við sjáum á myndinni, og horfði á hvernig ég þarf að hækka með jarðvegi kringum pallinn. Það var alveg í samræmi við það sem ég hafði gert mér í hugarlund en það er bara fínt að fá það staðfest svona beint frá raunveruleikanum.
 
Á fyrstu tíu mínútunum rigndi eina tólf millimetra. Það athugaði ég með því að setja þvottabala yfir mig og hlaupa svo að mælinum og verða blautur í fæturna. Síðan rigndi samtals 23 mm á um það bil hálftíma. Í fyrradag sáði ég nokkrum lítrum af grasfræi á bletti kringum Bjarg, bletti sem enn voru sköllóttir eftir sáningu frá því fyrr i sumar. Þegar fór aðeins að þorna til fór ég og hugaði að grasfræinu. Það sást ekki tangur eða tetur af því. Kannski hefur eitthvað af því grafist í rennblauta moldina en ég efa það. Líklegast þykir mér að það muni fara að vaxa mikið af fallegu grasi í lok næstu viku í skurðinum út í skógi. Ég hef alveg efni á að kaupa annan svona fræpoka. Ég er tilbúinn að leggja nokkrar krónur í þann efa, það fer best á því.
 
Sólin er að heita má komin upp yfir skóginn, veðrið er alveg stórkostlegt, allt er mjög fallegt og líka út um gluggann fyrir aftan mig. Eftir þungan dag í gær er gott að fá einn svona alveg frábæran dag í dag. Það er virkilega kominn tími á hafragraut með tilheyrandi og svo þarf ég að láta hendur standa fram úr ermum svo að ég geti orðið aðeins meira stoltur á morgun þegar gestirnir mínir koma til að gera úttektina.
 
Oj, klukkan er orðin níu!

Usha


 
 
 
 
Usha fæddist 1961 á Indlandi en í fjölda ára hefur hún búið í Svíþjóð. Hún ætlaði að koma til Örebro á útfararathöfn Valdísar þann 26. apríl. Nokkuð snemma þá um morguninn sendi hún Rósu skilaboð og sagði að hún hefði svo mikla verki í kviðarholi að hún væri á leið á sjúkrahús. Ekki svo löngu síðar greindist hún með krabbamein á þremur stöðum í líkamanum.
 
Usha dó í morgun.
 
Usha og Rósa dóttir mín voru vinnufélagar og síðar með sjálfstæðan atvinnurekstur báðar tvær þar sem þær höfðu all mikla samvinnu. Góðar vinkonur voru þær og Pétur var einnig meðal vinanna. Rósa og fjölskylda sleppur því ekki sársaukalaust frá þessu og ég verð að viðurkenna að ég slepp ekki heldur ósnertur frá því. Usha var ljúf kona að hitta, tók vel á móti fólki og vildi fólki vel. Þegar nokkuð sýnt var að það yrði ekki aftur snúið frá sjúkdómnum, eða þann 19. maí, kom Rósa með hana í dagsferð hingað á Sólvelli. Hún skoðaði hér allt í krók og kring, ráðlagði í sambandi við matjurtir og ýmislegt annað. Þá stráði hún kringum sig velviljanum sem hún var svo rík af. Fyrir all nokkrum árum fóru þær saman í ferðalag til Indlands vinkonurnar og þá kynntist Rósa fjölskyldu hennar þar. Tvisvar sinnum var hún hjá Valgerði í Vestmannaeyjum með námskeið í indverskri matargerð. Hún hreifst af Vestmannaeyjum og Íslandi almennt. Á fimmtugasta og öðru aldursári hvarf hún héðan og ég verð að segja að ég finn fyrir sterkri ósk þess efnis að hún hefi fengið að lifa lengur. Andlát hennar dregur sterkt fram minnngarnar frá í apríl síðastliðnum.
 
Usha, þakka þér fyrir allt það góða viðmót sem þú sýndir okkur Valdísi.

Morgunstund gefur gull í mund

Það voru engin vettlingatök hér á Sólvöllum í dag eins og það var í gær þegar ég tók nýjar og nýjar ákvarðanirn og breytti ákvörðunum fram undir hádegi og enginn gangur var á neinu. Dagurinn í dag byrjaði svalur en svo fór hitinn í 20 stig þannig að það var ekki yfir neinu að skæla.
 
Klukkan átta í morgun stóð ég þarna með myndavélina og tók heimildarmynd í morgunsólinni. Kerran mín og þessir tveir haugar þarna eru á lóð ungu nágrannanna. Það var gert með leyfi þeirra og þau sögðu að mér lægi ekkert á að taka þetta því að það bagaði þau alls ekki. En mér fannst þetta mjög óskemmtilegt og þó að ég vildi mikið heldur fara að smíða ákvað ég að drolla ekki lengur og setti í gang. Þó að haugarnir virtust ekki stórir voru þetta einar tuttugu ferðir út í skóg berandi eða dragandi greinar svo mikið sem ég komst með í hverri ferð.
 
En þar með var útlitið orðið heldur betur allt annað. Viðurinn sem liggur eftir á balanum er nágrannanna. Þetta eru aspir sem ég felldi á þeirra lóð áður en gröfumaðurinn kom um daginn til að ganga frá lóðinni við Bjarg.
 
Á bakvið Bjarg leyndist svo þetta. Þessi haugur er ógnar flækja og ég segi aftur flækja. Þarna liggja nokkrar minni aspir og hlutar af tveimur eikum. Gröfumaðurinn kom með kló og dró þetta saman, lagði það bakvið Bjarg og þjappaði því vel niður. Þegar ég leit yfir hauginn um hádegi í dag fannst mér sem frágangurinn þarna yrði aldrei búinn.
 
En eftir nokkra klukkutíma var hann þó búinn. Þá var ég líka búinn að fara einhverja tugi ferða út í skóg með greinar. Eftir er að raka saman laufi ef ég þá læt það ekki vera og hugsa það sem fæðubótaefni fyrir jarðveginn. Ég er sjálfsagt ógnar einfeldingur en bæði þessi verk eru svo skemmtileg þegar þau eru búin. Það verður svo mikil breyting til bóta. Gamla gönguleiðin út í skóg er nú opin á ný.
 
*          *          *
 
Þetta er blóm á graskersjurtinni hennar Rósu. Inni í blóminu er einhver ógnar fjöldi af smá kvikindum. Kannski
það sé þessu blómi nauðsynlegt, hver veit.
 
 
Svo setti ég farsímann minn hjá einu graskerinu, því sama og ég birti mynd af fyrir stuttu. Það hefur stækkað gríðar mikið á fáeinum dögum.
 
Graskersjurtin er þarna að nálgast tré sem er aldeilis til hægri á myndinni. Það verður gaman að sjá hvort hún reyni að klifra upp það.
 
Nú er ég mikið syfjaður og þreyttur eftir annasaman dag, en ég er líka harð ánægður með daginn. Nokkrum lítrum af grasfræi sáði ég líka í skalla sem eru í sáningunni kringum Bjarg og ekki var verra að komast yfir það líka. Ég er ónýskur á grasfræið og vil láta það ganga fyrir að grasrótin verði sterk svo fljótt sem auðið er.

Sumar/síðsumar

Í morgun átti ég í erfileikum með sjálfan mig. Eins og venjulega svaf ég mjög lengi eftir að hafa unnið kvöld eða nótt eða hvað það á nú að kallast. Ég er alltaf dauðþreyttur eftir svoleiðis sólarhrings törn þó að ég nái að sofa allt að fimm tíma. En það var ekki það sem bagaði mig í morgun. Vandamálið var hvað ég ætti að gera í dag. Það lágu fyrir tvö megin verkefni. Annað var að vinna við að loka köntunum á nýju veröndunum við Sólvallahúsið og þar sem það er dálítil "að skríða vinna" vildi ég svo lifandi feginn geta klárað það. Hitt verkefnið var að taka til eftir undangengna törn og þar var af all nokkru að taka.
 
Svo fór ég í eina rannsóknarferð kringum vetvanginn og tók ákvörðun. Síðan fór ég inn, leit út um glugga og tók nýja ákvörðun. Svo fékk ég mér morgunverð og var eins og óöruggur táningskrakki og breytti um ákvörðun nokkrum sinnum. Svo skoðaði ég veðrið í tölvunni og til öryggis á textavarpinu líka og væflaðist enn um stund. Síðan tók ég sorteringardallana fjóra sem voru orðnir vel fullir og bar þá út í bíl. Ég fer nefnilega til Fjugesta eftir hádegið til að hitta fólk og ætla að fara á endurvinnslustöðina um leið. Síðan byrjaði ég að taka til því að nú var endanlega ákvörðunin tekin. Taka til kringum húsið og svo kom ausandi rigning. Ég rétt náði að taka inn ullarfeldina mína sem voru til veðrunar á snúrunni.
 
Já, það er ekki alltaf einfalt að vera sveitamaður.
 
Í dag fór hann upp í 30 mm þessi mælir. Ég birti þessa mynd af úrkomumælinum á feisbókinni í gær. Þar talaði ég um úrkomuna, en þessi mynd sýnir meira en úrkomu. Það mætti halda að hún sýni haustlauf líka. Svo var nú reyndar ekki en hins vegar voru stórar bjarkir orðnar mjög vatns þurfi og vissir laufklasar orðnir gulir af þurrki. Svo hreyfði vind og laufið féll til jarðar. Ef ekki verður of þurrt og heitt aftur hverfur þetta lauf bæði af trjánum og af jörðinni og svo verður laufskrúðið fallegt á ný. Þetta hefur gerst áður. Grasflötin grænkar líka óðum og allt er að taka á sig hraustlegan blæ á ný. Það tekur á að vera með Miðjarðarhafshita vikum saman og fá enga rigningu. 
 
Ég skrifaði þetta að mestu í morgun en nú er komið kvöld. Heimsóknin í Fjugesta tókst vel og tiltektin gekk vonum framar. Ég er búinn að horfa á kvikmynd sem mér var gefin fyrir nokkrum vikum, kvikmynd sem er búin að fara sigurför um heiminn meira en flestar aðrar myndir hafa gert. Það var því kominn tími til að ég sæi hana líka og það varð að gefa mér hana svo að ég kæmi því í verk. Það var ekki alveg í gær sem ég gerði þetta síðast og ég ætti nú bara að endurtaka það og líta á þær myndir sem til eru hér á bæ. Ég veit að ég er ekki búinn að sjá allar þær myndir sem til eru. Nú ætla ég að enda þetta kyrrláta kvöld með því að útbúa mér engiferte og fara síðan undir ný viðraðan ullarfeldinn minn. Óli vinur minn mun þá ekki láta mig bíða lengi eftir sér. Það er nú meira hvað hann er tryggur þessi Óli Lokbrá.

Lífið er þess virði að taka þátt í því.

Í dag fór ég í bankann til hennar Helenu. Helena þessi seldi okkur íbúðina sem við áttum í tíu ár í Örebro og sjálf keypti hún stærri íbúð í sama hverfi og það voru aðeins um 50 metrar á milli útihurðanna hjá okkur. Þar með varð Helena kunningi okkar og vinur. Við fengum aðstoð við kaupin í bankanum okkar í Örebro og Helena vann hjá sama banka en bara á öðrum stað, í Kumla. Þegar ég var orðinn illa haldinn af sumarbústaðadellunni, skömmu áður en Sólvellir komu á dagskrá, þá sagði ég við Helenu eitt sinn þegar við mættumst á bílastæðinu að ég væri að hugsa um að kaupa sumarbústað. Það líst mér vel á sagði hún og þegar þið eruð tilbúin getið þið bara komið og talað við mig. Þar með var hún orðin bankafulltrúi okkar og enn í dag er hún fulltrúi minn.
 
Ég fór til Helenu í dag til að ganga frá ýmsum málum. Til dæmis að færa á mitt nafn allt það sem við Valdís áttum saman. Sólvelli og vissa sameiginlega bankareikninga og svo framvegis. Ég hélt að ég mundi verða þarna einhvern hálftíma en ég var hjá henni í bankanum í rúma tvo tíma. Það var styttri tími sem það tók síðast þegar ég leitaði til hennar.
 
Það var í maí þegar Valgerður var stödd hér. Ég hafði aldrei slíku vant fengið útborgað frá Vornesi með ávísun og sú ávísun hafði legið all lengi hjá mér. Svo var það á fimmtudegi að við Valgerður fórum til Kumla og ég ætlaði þá meðal annars að koma við í bankanum og leggja ávísunina inn á reikninginn minn. Við gengum eins og venjulega eftir gangstéttinni heim að bankanum en allt í einu gerði ég mér grein fyrir því að ég þekkti mig ekki í þessari götu og bankann fann ég bara alls ekki. Ég var að gefast upp þegar Helena kom allt í einu út um sléttann glervegg, sneri sér svo við og læsti.
 
Við gengum til móts við hana og hún sá okkur á all nokkru færi og síðan heilsaði hún afar vingjarnlega. Ég sagði henni frá ferðum okkar og þá útskýrði hún hvað var á seiði. Bankanum var lokað um hádegi þennan dag af sérstökum ástæðum og hún hafði bara verið að ganga frá. Láttu mig hafa ávísunina sagði hún. Síðan þurfti ég að skrifa undir á tveimur stöðum og hún rétti mér penna og sagði að ég gæti notað rúðuna til að skrifa á. Síðan stakk hún ávísuninni í tösku sína og svo ætlaði hún að leggja inn á reikninginn minn næsta mánudag. Valgerður varð all undrandi á þessum bankaviðskiptum og þótti atvikið mikið sniðugt ef ég man rétt. Ástæðan til að ég hafði ekki fundið bankann var sú að stór glerflykki eru látin loka annars stórum inngangi og þá hverfur líka nafn bankans. Þetta sá ég í dag og þótti sniðugt.
 
*          *          *
 
Í dag fékk ég nágrannann hann Lars til að bera með mér hengiróluna upp á nýju veröndina. Hún sex ára Alma dóttir hans var með honum. Ég bað þau að setjast í róluna og fór inn til að sækja myndavélina. Þegar ég kom til baka höfðu þau lagt sig og þannig tók ég mynd af þeim. Ölmu þótti afar skemmtilegt að taka þátt í þessu.
 
Svo auðvitað vildi ég fá mynd af mér og stillti mér upp til myndatöku. Þetta er mjög notalegur staður og nú er svo undursamlega snyrtilegt við bakdyrnar á Sólvöllum. Að sitja þarna með skóginn svo stutt frá er alveg frábært.
 
Svo er það litli pallurinn fyrir litla mig, utan við svefnherbergisdyrnar mínar. Ég stillti þar upp bráðabirgðastól til að geta tekið raunverulega mynd. Ég er líka búinn að sitja þarna og það sveik mig ekki. Þetta er mjög góður staður og eiginlega ennþá nær skógnium en á hinum pallinum, þá í fyrsta lagi nokkrum eikum.
 
*          *          *
 
Og svo af allt öðrum toga.
 
Þarna var suðann ekki komin upp á kvöldmatnum mínum og þess vegna sást augað svo vel í sviðahausnum. Ég er ekki hissa á því að Svíum bjóði við þessu áti okkar Íslendinga. Þeir hafa nefnilega spurt mig sérstaklega hvort við virkilega borðum augun líka. Þegar ég játa því eiga sumir ekki orð. Með þessum sviðakjamma hafði ég kartöflur úr heimagarðinum.
 
*          *          *
 
Þannig er nú það. Um hálf ellefu á morgun legg ég af stað í Vornes og verð þar í rúmlega sólarhring. Vissulega kemur það fyrir að ég styn þegar ég hugsa til þess að ég eigi svona sólarhring framundan. En það er ekki svo oft. Þegar ég svo er kominn af stað svo ég tali ekki um þegar ég er kominn á staðinn, þá er þetta allt í lagi. Ég veit að ég geri gagn og flestum stundum hef ég gaman að þessu. Svo sem bónus fæ ég borgað fyrir það. Þessi vinna hefur haft jákvæð áhrif á persónuleika minn og vinnan sem ég innti þar af hendi frá miðvikudegi til fimmtudags hafði venju fremur jákvæð áhrif á mig.
 
Að vísu hafði ég samtal við mann á sextugs aldri sem átti erfitt með að taka ofan hattinn og lúta höfði fyrir raunveruleikanum. Sjálfur gerði ég það í janúar 1991 og ég reyndi að fá þennan mann til að skilja að það væri ekki um annað að velja. Hann skrifaði sig út og staðarhaldarinn skutlaði honum á næstu járnbrautarstöð. Á leiðinni þangað tókst honum þetta; að taka ofan hattinn og lúta höfði. Hann ætlar að koma aftur og ég veit að hann verður vinur minn þrátt fyrir að það fór ekki svo vel á með okkur í gærmorgun. Að lúta höfði í þessu samhengi er með erfiðari ákvörðunum sem menn taka en launin eru hundraðföld eða eitthvað ennþá meira.
 
Lífið er þess virði að taka þátt í því.

Grænt grænt grænt

 
Þetta grænmeti er úr grænmetisgarði Rósu. Hún kom þessu í gang í vor og svo voru þau öll í því einhverja daga Rósa, Pétur og Valgerður. Síðan lá græmnmetisræktunin á herðum Rósu. Ég taldi mig upptekinn af öðru. En sannleikurinn er sá að þetta er sáralítil vinna ef búið er að útbúa aðstöðuna. Svo þegar salatið er komið í góða skál eru það hrein auðævi að sjá það á matarborðinu.
 
Berjavinnsla var í gangi hjá Pétri og Rósu um mánaðamótin júlí-ágúst. Þarna eru þau að setja sultu á litlar, fínar krukkur sem eru góðar til margs. Til dæmis til að rétta að fólki í kveðjuskini sem hefur komið í skemmtilega heimsókn. Bláber úr Sólvallaskóginum bíða í lítilli fötu á borðinu og squash eða hvað það nú heitir bíður þarna líka þess að verða borðað.
 
Svo þegar íshafsþorskur var lagður við hliðina á fínum salatblöðum varð hann matarlegri en annars. Það var ekki kokkurinn ég sem var þarna að verki, það voru Rósa og Pétur.
 
Og með þorskinum höfðu þau steikt squash. Fyrir all nokkrum árum steikti Valdís squash í raspi og það var herramannsmatur. En þá var það ekki ræktað í garðinum bakvið húsið eins og þetta squash sem kom frá Rósugarði og gott var það.
 
Þannig lítur squash út í ræktuninni. Kannski eru margir með þetta og þykir ekkert merkilegt við að sjá það en ég tek þó áhættuna og birti myndirnar af því.
 
Það er engin smá planta sem Rósa togar þarna í. Myndin er viku gömul og er af graskeri. Í dag er plantan eða jurtin eða hvað ég á nú að segja orðin gríðar mikið stærri. Hinu megin við graskersplöntuna er squash plantan og á henni er fullt af blómum. Í gærmorgun var mikið af stórum gulum blómum á graskersplöntunni en í rigningunni í dag voru þau lokuð.
 
Hér er svo eitt af mörgum graskerjum sem enn eru á bernskuskeiði. Mér skilst að grasker séu ekki tilbúin fyrr en í september eða alla vega seint á sumri. Ég tók þessa mynd í rigningunni í dag og ánamaðkur neðst á myndinni virðist hafa orðið rigningunni að bráð.
 
Fyrir viku eða svo vistaði ég þessar myndir inn á bloggið. Ég var svo að skoða þetta áðan og man alls ekki hvað ég ætlaði að gera við myndirnar eða segja um þær. Ég hugsaði mig aðeins um áðan hvort ég ætti að henda þeim eða ekki. Ég ákvað að henda þeim ekki og reyna að segja eitthvað um þær. Allt á þessum myndum utan þorskinn og berin sem fóru í sultuna er frá Sólvöllum. Það er hægt að gera betur og mig grunar að ég hafi smitast aðeins og að ég muni leggja grænni ræktum meira lið að vori.
 
Eins og Ottó í Hrísey sagði svo oft í gamla daga þá er ég búinn að "dingla mér" síðan ég kom heim frá vinnunni. Það er vel mögulegt að Ottó segi þetta enn í dag. Á morgun ætla ég að hætta að dingla mér og dunda mér við þörf verkefni sem bíða mín.
 

Langþráð væta á Sólvöllum

Klukkan hálf eitt í dag lagði ég af stað heim frá Vornesi eftir nákvæmlega sólarhrings veru þar. Við vorum að vinna þar fjórir ellilífeyrisþegar. Sumir hinna fastráðnu voru í sumarfríi og sumir voru veikir. Mér finnst gott að vera gamall og ellilífeyrisþegi því að þá er ég svo sjaldan veikur. Þá get ég líka farið hóflega oft í vinnu og unnið mér til svolítillar ánægju og jafnframt fengið nokkrar krónur í vasann líka. Svo er það kannski þetta mikilvægasta og það er að ég held nú hreinlega að ég haldi betri heilsu með því að gera þetta. Suma hluti segi ég býsna oft og kannski er ég búinn að segja þetta síðasta full oft. En svona er það; stundum held ég að speki mín sé svo einstök að ég verði að hamra á henni aftur og aftur. Þrátt fyrir þetta allt saman þá neitaði ég vinnu í gær og meðferðarheimilið riðlaði þó ekki til falls. Ég er ekki svo algerlega ómissandi.
 
Þegar ég var að leggja af stað heim féllu fyrstu regndroparnir í Vornesi. Svo fjölgaði dropunum eftir því sem á ferðina leið og þegar ég kom heim var komin drjúg rigning. Ég veit ekki hvenær byrjaði að rigna hér og þess vegna byrjaði ég á því að líta á regnmælinn. Hann hékk þá út á hlið með á að giska 60 gráðu halla en svo undarlegt var það þó að það voru þrír millimetrar í honum. Þar til klukkan átta í fyrramálið er spáð 15 mm rigningu og minna má það ekki vera. Náttúran er orðin afar þyrst og mun taka lengi við. Mér þykir afar vænt um náttúruna og eftir því sem henni líður betur er veröldin kringum mig fallegri og ómótstæðilegri. Vellíðan mín vex í samræmi við það.
 
Vellíðan já. Við vorum í Marieberg ég, Rósa, Pétur og Hannes. Þau fóru í stórmarkaðinn til að kaupa til heimilisins en ég fór í byggingarvöruverslunina K-rauta til að athuga með efni. Þau ætluðu svo að koma þangað til að taka mig og mín innkaup þar. Ég beið nokkra stund eftir þeim og settist á vöruhillu utanhúss og á þessari hillu var gerfigras þannig að hún var notalegt sæti þó að hún væri full lág.
 
Þarna sat ég svo á hillunni með tommustokk í annarri hendinni og starði niður í malbikið við fætur mér. Eiginlega má þó segja að ég starði langt út í óendanleikann í einhverjum afslöppuðum, notalegum draumaheimi. Sólin var hátt á lofti og hitinn sennilega um eða yfir 25 stig eins og svo marga daga undanfarið. Skammt frá var slæðingur af fólki að skoða eitt og annað og þar á meðal maður og kona sem væntanlega voru hjón. Svo allt í einu fann ég hvernig konan stóð rétt hjá mér, virti mig fyrir sér og sagði: Er ekki allt í lagi? Þar með var ég vakinn upp frá dagdraumi mínum, ég leit snöggt upp og hélt nú það, það væri allt í lagi með mig, ég hefði bara verið upptekinn á fjarlægum slóðum. Hún brosti þægilega og gekk svo yfir til mannsins þar sem þau héldu áfram að spekúlera í vöruinnkaupum sínum.
 
Er ekki dásamlegt að fólk skuli bera svona mikla umhyggju fyrir náunganum? Ég er ekki að gera grín þegar ég segi að mér finnst svo vera.
 
Og í þessum línum skrifuðum um að bera umhyggju fyrir náunganum fór póstbílinn hjá. Þá ákvað ég að fara og sækja póstinn fyrir daginn í gær og í dag. Á leiðinni suður götuna hugsaði ég að nú yrði einu sinni eitthvað skemmtilegt í póstinum og mér fannst hugsunin svo skemmtileg að ég held hreinlega að ég hafi verið farinn að trúa því. Svo tók ég upp póstinn sem voru þrír reikningar sem eiga að borgast um mánaðamótin, eitt bréf um að ég væri búinn að breyta samningnum varðandi farsímann sem ég vissi jú þegar um, og svo var bréf um ferð í septemberlok til Kaumannahafnar.
 
Þá fór úr mér sá vindurinn -ekkert skemmtilegt í póstinum. En þá var það spurningin hvort eitthvað skemmtilegt væri í úrkomumælinum. Það var jú búið að rigna viðstöðulaust hátt í fimm tíma. Og viti menn; það voru átta millimetrar í mælinum utan við það sem ekki komst í hann fyrr í dag þar sem hann hallaði svo mikið. Um leið fór ég í kartöflugarðinn til að taka upp kartöflur til að hafa með köldum, reyktum makríl í kvöldmatinn. Það var að sjá á moldinni í kartöflugarðinum að það væri farið að muna um rigninguna.
 
Svo er í gangi svolítið leyndarmál hér á bæ, leyndarmál sem er að finna í kartöflugarðinum. Þegar við Rósa settum niður í vor urðu útsæðiskartöflur eftir. Þegar búið var að taka upp helminginn af fyrstu kartöfluuppskeru, þá setti Rósa niður kartöflurnar sem urðu eftir í vor. Þær eru komnar upp og grasið orðið á að giska 25 sm hátt. Það verður gaman að fygjast með uppskerunni frá þessari seinni sáningu.
 
Enn rignir og eykst heldur. Mér líður mjög vel með þetta hér innanhúss á stuttbuxunum. Þegar ég kom heim setti ég nokkra plankabúta inn í bílageymsluna og á morgun ætla ég að smíða úr þeim þá sæmilega þurrum eftir inniveruna. Svo verð ég í vinnu milli laugardags og sunnudags.

Verönd

Ég hef ekki alveg komist í gang í dag eins og ég hefði þó viljað. Ekki get ég sagt neitt um hvað stóð í vegi fyrir framgangi mínum enda kannski best fyrir mig að vera ekki að velta mér upp úr því. Eldingarnar, þrumurnar og rigningin komu heldur ekki eins og spáð var og það þótti mér miður. Ég hefði þurft að vökva en treysti á rigningu sem kom svo ekki. Ég var að líta á veðurspána á næstu veðurstöð við Sólvelli sem er í fimm kílómetra fjarlægð og þar er spáð þrumum og rigningu eftir 27 mínútur þannig að ekki er öll von úti. Nú hef ég á tilfinningunni án þess að lesa yfir þessar fyrstu línur að þær séu mettaðar af hógværri neikvæðni. En málið er þó að það er mikið búið að ske á Sólvöllum bæði í gær og í dag þannig að ég má vera harðánægður með minn hluta þennan fyrsta þriðjudag í ágúst.
 
Ég á ekkert stolt vegna þessarar austurhliðar á Sólvöllum. Hún er löng og kannski svolitið innantóm eins og ég finn mig líka á þessu augnabliki. Það er hægt að hressa upp á þessa austurhlið með ýmsu móti en það er bara að velja einhvern þeirra möguleika sem fyrir hendi eru. Sama er það með mig. Ég er búinn að skora á mig í bloggi og ef ég er ekki með neitt væl veit ég að innan tíðar verð ég kominn á flug og svo uppgötva ég allt í einu að það er kominn háttatími fyrir mig. En aftur að austurhliðinni. Það er ósnyrtilegt þarna. Grjót á dreif, stór moldarblettur, steypusívalningar standandi upp úr jörðinni og vatnsslanga liggur þarna í óreiðu. Svona leit það út i gærmorgun áður en framkvæmdir við stóra verönd fór af stað, það er að segja sá hluti framkvæmdanna sem sneri að smíðum.
 
En einmitt í gærmorgun kom hann Anders smiður á svarta sendiferðabílnum sínum og það fyrsta sem hann gerði var að koma til móts við mig með kaffibolla í hendinni og svo skeggræddum við smá stund. Svo fór Anders í gang. Á ótrúlega stuttum tíma hafði mikið skeð. Hann sagaði í lengdir með vélsöginni sinni, raðaði upp, sagði til og ég negldi svo að það næstum rauk af hamrinum. Alla vega úr svitaholum mínum í 26 stiga hitanum sem þá var. Jarðvegsdúk höfðum við nú lagt á perlumölina sem áður var komin á svæðið undir veröndinni. Síðan fór ég í að setja perlumöl ofan á jarðvegsdúkinn líka. Þetta fór að líta huggulega út.
 
Og ennþá huggulegra varð það þegar perlumölin huldi allan jarðvegsdúkinn. Þetta á ekki að verða neinum manni sýnilegt í mörg ár, hlest ekki í mörg, mörg ár, en mér finnst bráðnauðsynlegt að skilja snyrtilega við áður en hlutirnir eru látnir hverfa. Mér líður betur með það og finnst það vera mikilvæg sönnun þess að verkið hafi verið unnið að ummhyggju. Mannabústaður á að vera byggður og gerður úr garði af umhyggju. Þá verður hann góður bústaður með góða sál ef svo er hægt að segja um mannabústað. Að mínu mati er hægt að segja svo.
 
Ég verð að birta mynd af Anders líka. Hann ber mér vel söguna og ég ber honum líka vel söguna. Ég ræð hvernær í verkinu hann kemur og hann kemur þegar leiðinlegu verkin eru búin, verk þar sem það þarf til dæmis að skriða mikið, fá sand í skóna og sokkana, í hárið og niður um hálsmálið á skyrtunni eða bolnum, og svo ég tali ekki um sandinn sem smígur undir nærbuxurnar líka. Eða þar sem þarf að nota haka, skóflu og járnkall, þar sem þarf að sýsla við að ná einhverju hallalausu og réttu. Þegar þetta allt er búið segi ég við Anders að nú sé allt tilbúið.
 
Kannski dylst einhver sjálfsvorkunn í þessu af minni hálfu en að öllu gríni slepptu, þá á Anders bara ekki að koma fyrr en svona verk eru búin. Svo þegar hann kemur, þá gengur svoleiðis alveg ótrúlega vel. Svíar segja stundum þegar mikið er að gera og vel gengur að það rjúki úr skósólunum. Það má kannski segja að það rjúki úr skósólunum hjá Anders þegar hann kemur -akkúrat þegar það passar og þá tala verkin svo um munar.
 
Málið er nefnilega það að á tveimur dögum hefur þetta áunnist. Og austurhliðin sem á fyrstu myndinni var svo auðnuleg og löng hefur skánað svo um munar. Þrátt fyrir það verða gerðar ráðstafanir til að gera hana ennþá ljúfari ásýndum, en það er ekki það fyrsta sem þarf að framkvæma. Það er til dæmis mikilvægara að ganga frá köntunum á veröndinni og fá þrep á ákveðnum stöðum. Að það er bleyta á nýju veröndinni kemur til af því að það gerði örlitla skúr sem strax tók enda og varð ekkert annað en látalætin. En svo kemur ein mynd enn.
 
Vinstra megin á myndinni sér undir húsið á milli stöplanna. Þar er eftir að byggja undir gamla húsið og loka. Það eru til dæmis svona verk sem ég mundi ekki vilja fá Anders til að vinna. Ég vil gera þetta sérstaklega vel, gera það án þess að það þurfi að hugsa um tíma eða vinnulaun og án þess að þurfa að hugsa um að verkið sé leiðinlegt.
 
Þessi litla verönd er fyrir utan svefnherbergið mitt og er fyrir litla mig að fara út á á morgnana þegar sólin er að vinna sig upp yfir skóginn beint á móti í austri. Þá get ég fengið mér þarna sæti, léttklæddur án þess að nokkur sjái mig og með nýju tölvuna á hnjánum get ég sem hluti af náttúrunni lýst í ljóðrænum bloggum því sem er að ske hjá sólinni, skóginum, fuglunum og í kollnum á mér. Að hugsa sér hvað það verður mikið og mettað af andríki hugans á hljóðlátu litlu veröndinni utan við herbergið mitt. :-)
 
Svei mér þá ef ég er ekki búinn að ná úr mér sjálfvorkuninni og hálfeymdinni sem hrærðist í mér í dag og alveg þangað til ég byrjaði á þessu bloggi. Ekki veit ég í hvaða línu það breyttist, en ég bara veit að það breyttist. Eins gott líka þar sem ég fer að vinna á morgun sem meðal annars krefst þess að ég sé talandi dæmi þess að það sé til gott líf án áfengis og annarra vímuefna.
 
Maður að nafni Þórir kom í heimsókn um fimmleytið. Hann sagðist vera í þörf fyrir hreyfingu og sló þann hluta lóðarinnar sem hægt var að komast að vegna yfirstandandi framkvæmda. Kann ég honum bestu þakkir fyrir. Á meðan gat ég sýslað við aðra hluti.
 
Núna prísa ég mig sælan. Gangi ykkur hinum allt í haginn líka.
 
 Ps. Rigningin sem átti að koma eftir 27 mínútur er ekki enn komin klukkutíma seinna.

Ögn meira en í meðallagi

Ég er búinn að setja haframjölið í pott með rúsínum og apríkósum þannig að það er ekkert annað en að setja vatnið í pottinn og kvekja á plötunni. Smiðurinn kemur svo snemma að ég verð að hafa mig allan við til að vera tilbúinn þegar hann kemur. Það er dálítið mikið núna, en svona er það bara. Ég get hvílt mig seinna. Ég fékk líka hjálp í dag frá góðu fólki. Þegar ég kom heim um hálf sex leytið í kvöld með skápaefni og ísskáp frá Stokkhólmi beið mín fólk í sólinni sem bar allt inn með mér. Þórir og Auður eru söm við sig, koma gjarnan á réttum tíma í heimsókn.
 
Ég get ekki sagt að það sé vel tekið til hjá mér þetta kvöld, hvorki úti eða inni. Stundum er bara of mikið að gera en ég get auðvitað tekið til þó að það dragist um einhvern dag eða daga. Eftir að ég kom heim úr Stokkhólmsferðinni og búið var að ganga frá því sem ég flutti heim með mér þaðan, lét ég ganga fyrir öllu að vökva nýræktina kringum Bjarg og auðvitað að gefa Broddunum mínum matinn sinn. Meðan ég var að því var dádýrsmamma á beit á gamla túninu vestan við Sólevelli og með henni var kiðið hennar. Það var svo skrýtið að þegar ég byrjaði að horfa á þau var eins og þau hefðu fengið að vita um það. Þau litu bæði upp og horfðu á mig á móti. Það er ekki í fyrsta skipti sem ég tek eftir þessu.,
 
Jú, svo ætla ég að vinna tvö kvöld/nætur í komandi viku. Mér er varla við bjargandi. Það verður greinilega ekki fyrr en í næstu viku sem ég fer í tiltektina. Hér heima, bæði úti og inni. En hvað er ég nú að sýsla. Ég þarf að fara að sofa og sofa vel og svo er ég bara að leika mér við tölvuna. Það er áríðandi fyrir mig að sofa mikið þegar annir eru miklar. Því verður þetta blogg bæði stutt og endasleppt. Ég veit varla hvers vegna ég byrjaði á því.

Óli Lokbrá er hér

Ég er of syfjaður til að blogga en hins vegar er ég að æfa mig á tölvu sem er ný í mínum höndum. Ég freistast því til að skora sjálfan mig að gera eitthvað til að geta spurt mig áfram ef ég þarf á því að halda. Ég er í Stokkhólmi hjá Rósu og fjölskyldu og verð hér í nótt. Á morgun fer ég hins vegar heim á leið með kerru og hluta úr eldhúsinnréttingu sem ég ætla að hagnýta mér í bílageymslu/vinnustofu heima á Bjargi.
 
Ef ég hefði ekki þessi hjón til að leiðbeina mér í tölvuheiminum veit ég ekki hvernig ég væri staddur í tölvumálunum. Víst þekki ég fólk sem gæti vel hjálpað en það yrði aldrei á sama hátt. Ég gæti líka keypt mér hellings hjálp en það yrði bara eins og dropi í hafið af allri þeirri þörf sem ég hef fyrir aðstoð ef ég ætla að nýta mér tölvuheiminn eins og ég geri.
 
Líklega var það 1985 sem ég eignaðist fyrstu tölvuna og þá var ég æði mikið sjáfum mér nógur. Þá fannst mér líka að ég væri maður að meiri ef ég væri tölvufróður. Svo skal ég viðurkenna að ég reyndi að taka þátt í umræðum um þessi mál og reyni þá að leyna því hversu lítið ég vissi. Víst var ég barnalegur þá. Í dag þykir mér mörg önnur gildi verðmætari lí lífinu en svo kem ég þó aftur að því að ég er í þörf fyrir að einhverjir hjálpi mér.
 

Einbúalífið byrjar nú aftur. Það verður fróðlegt að sjá hvernig það gengur. Það gekk ágætlega áður en ég fékk gestina á Sólvelli en nú er ég orðinn ofdekraður þannig að ég verð að byrja upp á nýtt. Á mánudaginn kemur hann Anders smiður til að stilla upp veröndinni. Hann ætlaði að koma á miðvikudag í þessari viku en svo varð ekki. Svo vildi hann koma á fimmtudag eða föstudag en þá sagði ég að það væri best að hann kæmi á mánudag og þá mundi það líka þýða að koma á mánudag og engan annan dag.
 
Anders er besti kall og velviljaður maður. Ég verð að baka pönnukökur svo sem einu sinni handa honum. Í fyrra vantaði mig gröfumann til að grafa fyrir Bjargi og undirbúa fyrir sökkulinn. Svo kom hann að kvöldi til, til að líta á verkið og ræða það. Þegar við höfðum lokið vetvangskönnun settumst við við borð úti og drukkum sódavatn og borðuðum einhverja köku með. Svo sagði gröfumaðurinn allt í einu: Anders segir að það sé gott að vinna hérna.
 
Það var auðvitað gaman að heyra það. Ég vil að þeir sem koma til að vinna finni það að þeir séu einhvers metnir. Ekki að þeir séu bara einhverjir einhverjir sem svo bara drulli sér í burtu þegar þeir eru búnir með sitt. Valdís gerði oftast eitthvað til tilbreytingar þegar ég var búinn með einhvern áfanga af einhverju tagi. Hún gerði það líka þegar hún hafði lokið við eitthvað og svo gerði hún líka við þá ókunnu menn sem komu til að aðstoða okkur. Ég finn mér eitthvað jákvætt til að segja við þá, en þá verður það líka að vera byggt á sannleika. Annars heyra þeir að ég er að smjaðra fyrir þeim.
 
Nú er það bara þannig að mér hefur gengið ágætlega við að skrifa þetta. Ég hef spurt Rósu einnar spurningar og ég fékk greiðlegt svar við því. Ég get ekki ennþá sótt nýjar myndir til að birta á blogginu en ég get sótt einhverja gamla mynd. Ég ætla að gera það að lokum. Það verður hluti af æfingaprógrammi kvöldsins.
 
Ég er þakklátur öllum sem rétta til mín hjálplega hönd og ég er þakklátur öllum sem víkja að mér vinalegu orði, hlýlegu orði eða vilja vera vinir mínir. Ég veit ekki hvers vegna þetta kom upp í huga mér meðan ég var að skrifa þetta, en það var eins og þetta þakklæti styrktist eftir því sem línurnar í blogginu urðu fleiri. Þegar ég er að enda við að ganga frá þessu bloggi er klukkan á Íslandi að verða hálf níu. Það er því mál að ég segi góða nótt og ég er ánægður yfir því hversu vel mér gekk með þetta blogg á mína nýju fartölvu. Innsláttarvillurnar eru sjálfsagt nokkuð margar núna en það er ekki bara nýju tölvunni að kenna, það er líka Óla Lokbrá að kenna. Hann vill fá völdin yfir mér ekki seinna en núna.
 
 
Hér er svo æfingamynd kvöldsins tekin fyrir nokkrum árum þegar við Valdís fórum í hópferð til Stokkhólms og í siglingu út í Stokkhólmsskerjagarð. Þarna var verið að sigla undir eina af afar mörgum brúm sem byggðar hafa verið yfir hin mörgu sund sem prýða sænska höfuðstaðinn.

Vatnakráin og rifsberin áttu daginn í gær

Eins og í gærmorgun er sólin á leið sinni upp á himinhvolfið í austri. Hingað og þangað í skóginum eru upplýstir flekkir þar sem sólin nær að senda geisla sína í gegnum lauf- og barrþykknið. Svo færast þessir flekkir til og skapa nýjar og nýjar myndir héðan frá glugganum mínum séð. Eftir klukkutíma eða svo verður sólin orðin svo óhindruð af skóginum að ég verð að lækka gardínuna til að sterk birtan stingi ekki í augun. Í gær reyndi ég að ná góðum myndum af þessu en ég verð bara að taka ofan hatt minn og viðurkenna að ég ræð ekki við það. Trúlega er þar bæði um kunnáttuleysi að ræða og að myndavélin ræður ekki við það. Nú verð ég að láta mér nægja að láta sólstafina mála sínar fallegu myndir þarna úti og eiga þær myndir sem fallega og verðmæta minningu.
 
Í gær skruppum við Sólvallafólk af bæ og skruppum á veitingastað sem ég uppgötvaði við Hjälmaren fyrir nokkrum vikum og kallaði hann einhverju skrýtnu nafni þegar ég bloggaði um hann þá. Nú er ég búinn að finna þessum stað íslenskt nafn sem ég sætti mig við. Ég er búinn að breyta sænska nafninu Sjökrogen í íslenska nafnið Vatnakráin. Rósa, Pétur og Hannes Guðjón eru þarna við næsta borð og við bíðum veitinganna sem við vorum búin að panta. Við vorum löngu búin að skipuleggja þessa ferð og svo gekk allt samkvæmt áætlun.
 
Þessi staður er ekkert ókeypis og eins og ég sagði um daginn, en í góðum félagsskap er hann í mínum huga mikið ódýrari. Þarna í seilingar fjarlægð frá stólunum gutlar vatnið Hjälmaren við bryggjustólpana, eða nánar til tekið vík frá Hjälmaren. Það er bara hægt að segja það að þessi staður býður upp á mikil notalegheit og ekki dregur það úr að stúklurnar sem þarna vinna eru viðmótsþýðar og viljugar að gera dvölina sem besta. Svo er sá matur sem ég hef smakkað þarna bara hreina lostætið.
 
Í baksýn á myndinni sér í lítinn hluta af litlu íbúðarhverfi. Við fórum i stutta gönguferð þangað eftir matinn og hittum einn íbúanna. Þar komumst við að því að hann er að selja húsið sitt og flytja upp í Dali og við komumst einnig að því að þessi hús eru alls ekki seld á neinu gjafaverði. Hann er að flytja upp í Dali vegna þess að dóttir konunnar hans býr þar og þau vilja komast nær henni og barnabörnunum. Ég spurði hann hvers vegna dóttirin hefði flutt upp í Dali, hvort hún hefði hitt myndarlegan mann. Hann svaraði því til að hún hefði alla vega hitt mann. Svo er hægt að spá í hvað það svar gaf til kynna.
 
Vatn og skógur fara vel saman og minn draumur í mörg ár var að eignast hús þar sem vatn væri í sjónmáli. Nú er ekkert vatn í sjónmáli frá Sólvöllum en ég er afar sáttur við Sólvelli eigi að síður. Vötnin eru fyrir hendi til að heimsækja eins og þarna í gær að borða við strönd þessa fjórða stærsta vatns Svíþjóðar.
 
Eftir tveggja mínútna gönguferð frá Vatnakránni blasir þetta útsýni við. Breytileikinn er mikill á örstuttri vegalengd.
 
Hinu megin við Vatnakrána stendur þessi eik. Hún er ekki fædd í gær þessi eik þar sem heil fjölskylda getur stillt sér upp fyrir framan hana og samt sést í tréð báðu megin við fjölskylduna. Það er nýbúið að saga gríðarlega stórar greinar af henni og eitt sárið eftir þá aðgerð sést þarna aðeins ofan við Rósu til hægri.
 
Einhvers staðar á þessu svæði býr systir hennar Elísabetar Eir Corters, vinkonu Rósu og Péturs. Elísabet, eða Dúdda eins og hún er kölluð, er mikil sómakona og málvísindamaður. Dóttir Dúddu er Embla sem bakar alveg ótrúlega góðar kladdkökur. (Eða heita þær kannski klessukökur? Nei, það getur ekki verið, þær eru svo góðar.)
 
*          *          *
 
En heima beið verkefni. Hann Ívar nágranni í þriðja húsinu norðan við brá sér hér inn á lóðina hjá okkur um daginn. Hann sneri sér að Rósu og spurði hana hvort hún vildi ekki tína ber heima hjá sér, nóg væri til af þeim þar. Rósa gerði það þá strax og kom heim með einhvern slatta af berjum sem hún gerði eitthvað úr. Svo var hún búin að fara þangað aftur og í gær fórum við Rósa til Ívars til að tína ljós rifsber. Þessi bláu ber, ja hvað á ég að segja. Blá rifsber, ég eiginlega veit það ekki. Rauð rifsber voru þarna líka. Nú baukuðu þau við að gera ýmislegt úr þessu langt fram á kvöld en ég hélt mig í mátulegri fjarlægð. Ég var líka orðinn dauðþreyttur snemma í gær þar sem ég byrjaði minn dag mjög snemma í gærmorgun.
 
En ég tók þó alla vega myndir af berjavinnslunni. Þarna er mikið af krukkum, berjum, berjasíu og einbeittri konu við sultu- hlaup- og saftgerð. Þegar ég tók þessa mynd voru Pétur og Hannes að munda sig til fundar við Óla lokbrá í herberginu þeirra.
 
*          *          *
 
Enn hefur skógurinn fengið á sig nýjar birtumyndir. Ekki veit ég hvernig á því getur staðið, en mér finnst þessar myndir í dag vera allt öðruvísi en í gær. Nú er sólin komin svo hátt að ég er búinn að lækka gardínuna. Það liggja fyrir ýmis verkefni í dag og svo liggur fyrir Stokkhólmsferð á morgun. Þá fer fjölskyldan sem hefur nú dvalið hér í tæpar fimm vikur. Við förum á bílnum mínum og svo tek ég til baka hluta af eldhúsinnréttingu sem féll til þegar þau skiptu um eldhúsinnréttingu í vetur.
 
Hann Ívar sem bauð upp á berin á lóðinni sinni gengur ekki heill til skógar. Hann uppgötvaðist með krabbamein í andlitinu í vor og síðar kringum skjaldkirtilinn. Ég vonaði það besta fyrir Valdísar hönd alveg fram á það síðasta. Ég vona það líka fyrir Ívars hönd. Hann hefur oft stoppað hér framan við á göngu sinni framhjá Sólvöllum. Hann býr einn. Hann hefur oft sagt að hann vilji vera hjálplegur og að hann vilji reynast fólki vel. Hann sýnir það oft í verki.
 
Verðmætin sem lífið býður upp á finnast víða en það er líka töluvert af erfiðleikum að takast á við. Megi þér vegna vel í þínum átökum Ívar.
 

Morgunhugleiðingar á Sólvöllum

Ég vaknaði snemma í morgun, rétt fyrir klukkan fimm. Eftir eina ferð fram í þetta litla herbergi sem ég, og við flest líklega, heimsæki í byrjun hvers dags, þá lagði ég mig aftur í þeirri von að sofna. Aðeins slumraði ég til en það varð enginn svefn. Klukkan sex kveikti ég á lampanum á náttborðinu og tók bók upp úr náttborðsskúffunni og fór að lesa. Það var eins gott fannst mér. Annars mundi ég bara safna stærri baugum undir augun sem mundu svo hanga á mér langt fram eftir degi. Þessir venjulegu baugar nægja mér alveg þó að ég liggi ekki á mig ennþá stærri bauga.
 
Ég sló upp bókinni þar sem nöglin á þumalfingri hitti á hana. Ég geri oft svoleiðis að ég loka augunum og set svo þumalfingurinn að bókinni og opna þar sem nöglin hittir milli blaðanna. Efnið sem ég hitti á í þetta skipti fjallaði um að dæma ekki, þá skyldi ég ekki verða dæmdur heldur. Ég varð svolítið hugsi. Af hverju hitti ég á þetta efni þennan fyrsta ágústmorgun. Ég get ekki sagt að ég hafi fundið mig sekan um neitt sérstakt akkúrat núna en almennt séð var kannski rétt fyrir mig að hugleiða þetta. Það var ýmislegt fleira sem efnið í þessum texta varaði mig við, ýmislegt fleira sem myndi koma niður á mér sjálfum mér að lokum. Koma til baka til mín eins og bergmálið frá fjallinu.
 
Ég hef ekki lesið neitt á kvöldin eða á morgnana undanfarið. Ég hef fundið mig of önnum kafinn fyrir það, en þó veit ég að það er ekki rétt af mér. Ég veit ekki hversu langur tími er ætlaður mér hér á jörðu og kannski er það mikilvægara fyrir mig að sinna mínum innri manni en að hamast við að byggja upp fasteignina Sólvelli. En það er einmitt þetta sem togast oft á í mér, minn innri maður og hið veraldlega. Ég skal hrinskilnislega viðurkenna að ég vonast til að fá þann tíma að ég komist yfir hvort tveggja.
 
Ég vil ekki að neinn eftirkomandi taki við Sólvöllum eins og þeir eru. Það er ýmislegt ógert hér sem bara ég veit hvernig stendur. Svo er ýmislegt í mér sjálfum sem einungis ég get tekið höndum um að annast. Samviskan segir mér að ég skuli ljúka þessu hvoru tveggja á þeim tíma sem mér er gefinn. Þessi veraldlega uppbygging mín ætti að vera löngu frágengin en ég er á eftir mínum jafnöldrum á því sviði. Ég er ekki tilbúinn að fjalla frekar um það að sinni, en sá dagur kemur að ég geri það. Ég er nokkuð undir það búinn þó að ég sé ekki tilbúinn.
 
Ég talaði um bauga áðan. Stundum var það þannig að þegar ég hafði fengið mér afréttara á morgnana, sem var allt of algengt, að þá leit ég heldur hressari út. En oft varð það þveröfugt og þá fann ég án þess að líta í spegil hvernig baugarnir hrönnuðust upp undir augunum og mér fannst ég verða að illa gerðum skítahaug. Eitt svoleiðis tilfelli var í gangi þegar ég var á leið heim til Íslands frá Kaupmannahöfn. Þá fannst mér sem allir þeir sem litu framan í mig í þeirri ferð sæu að þarna var á ferðinni reglulegur skítahaugur. Ég sat við ganginn í vélinni og Valdís við hliðina á mér, einu sæti nær glugganum.
 
Flugrfreyjurnar voru búnar að ljúka störfum sínum og þar á eftir gekk ein þeirra aftur eftir vélinni og virtrist einfaldlega vera að athuga hvort ekki væri allt eins og það ætti að vera. Hún brosti ótilgerðarlegu brosi þar sem hún kom og nálgaðist nú sætið mitt. Hún horfði vingjarnlega á mig, svo vingjarnlega að mér er það minnisstætt enn í dag, og þarna sat ég og leið eins og ég væri ekkert. Þegar hún kom að sætinu mínu beygði hún sig svolítið niður og hvíslaði: Við seljum gel sem hjálpar til að minnka bauga undir augum. Þú getur komið aftur í til mín núna og keypt það ef þú vilt.
 
Hún sagði þetta svo ótrúlega vingjarnlega og ég var ekki í neinum vafa um að hún gerði það af einlægum vilja til að vera hjálpleg. Stundum kemur það fyrir þegar slíkt á sér stað að ég hugsa snögglega; ég elska þessa manneskju. Svo var það líka þarna upp í háloftunum yfir norðanverðu Atlantshafinu að ég hugsaði; ég elska þessa konu. Svo stóð ég upp og fylgdi henni eftir og keypti gelið. Því næst fór ég beint á snyrtinguna og bar gelið á baugana mína samkvæmt leiðbeiningum flugfreyjunnar.
 
Ekki sá ég breytinguna umsvifalaust og svo fór ég í sæti mitt. Ég hafði þó alla vega gert eitthvað og fannst það sem eftir lifði ferðarinnar að þetta væri líklega að lagast. Ekki svo mjög mörgum mánuðum síðar stóð ég í andyrrinu á Vogi og beið eftir því að hjúkrunarfræðingur kæmi þangað og tæki á móti mér. Þar fékk ég gelið sem dugði best, ekki bara á baugana, heldur fyrir minn innri mann líka. En minningin um flugfreyjuna sem ég hef líklega bara hitt einu sinni á ævinni lifir enn með mér og iðulega enn í dag nota ég svona gel til að hressa mig svolítið upp, en þá er ástæðan allt önnur en í flugvélinni forðum.
 
*          *          *
 
Hér fyrir neðan eru svo myndir af skóginum og sólaruppkomunni í morgun. Myndirnar voru teknar með svo sem hálftíma millibili. Ég tók margar myndir en fékk þó ekki fram neina sem sýndi einmitt það sem ég sá. Stundum held ég að myndavélin mín sé göldrótt en það er hún bara ekki. Ég læt myndirnar fara þrátt fyrir ófullkomleikann. Þetta hafði ég fyrir augum mér meðan ég skrifaði bloggið.
 
 
 
 
 
RSS 2.0