Að gera lífið skemmtilegt

 
Ég er við sama heygarðshornið og nudda við mitt. Ég held að hún muni vera orðin rétt rúmlega tveggja vikna gömul þessi mynd. Þá voru áfangalok, dekkið komið á veröndina. Í tilefni af áfanganum fékk ég nágrannann til að taka þessa mynd. Ég vildi ekki láta hann vita af því, en þegar ég bað hann að koma til að setja hengiróluna upp á pallinn með mér var ég jafn mikið að biðja hann að koma til að taka mynd af mér. Þetta síðasta var bæði gaman og alvara.
 
Það er ekki svo mikill munur á þessum myndum en samt eru æði margar vinnustundir sem aðskilja þær. Það erum komnir ákveðnir kubbar undir kantinn og það er komin malarrönd meðfram pallinum. Undir malarröndinni er skurður og efnið úr skurðinum flutti ég í hæfilega fjarlægð þar sem það var mér ekki til ama. Svo fyllti ég skurðinn af möl því að þarna ætla ég að helluleggja og svo þurfti ég að hækka allt upp en mest þarna við hornið. Það fóru margar hjólbörur burtu og mikið fleiri hjólbörur komu í staðinn. Víst hefði ég getað fengið gröfu til að gera þetta og ég hugleiddi það. Grafan hefði skemmt talsvert af gróinni flöt og svo hefði efni verið sturtað hér og þar og svo hefði þurft að flytja það til aftur.
 
Nei. Hluti af svona verkum hjá mér er að njóta þeirra. Mér þykir vænt um að gera snyrtilega, fara ekki illa með það sem er gróið, og eiginlega er hluti af að njóta verkanna að geta verið lengi að framkvæma þau. Ég er búinn að troða malarröndina með því að ganga hana fram og til baka og fram og til baka og taka afar stutt skref. Ég valdi að gera þetta svona og svo þarf ég ekki að borga fyrir gröfu eða víbrator sem ég var þó búinn að festa fyrir mánudaginn. Sum verk eru samt þannig að það er ekkert annað til umræðu en að fá þau unnin með þeim tækjum sem við eiga. En ég segi bara aftur að sumt er þess eðlis að ég vil njóta þess að vinna það á minn sérvitra hátt.
 
Í dag skrapp ég inn í Marieberg til að panta 255 gangstéttarhellur af þremur stærðum. Það er merkilegt með þessa helluverslun að bílastæðið er afar holótt malarplan. En vörurnar sem þeir selja eru margbreytilegar og fínar og fólkið sem afgreiðir þar er og hefur alltaf verið afburða hjálplegt. Ljóshærð stuttklipt kona um þrítugt var við afgreiðsluna í dag. Hún var alveg sérstaklega þægileg í viðmóti og glaðvær. Ég hafði velt fyrir mér að fá lánaða kerru nágrannans til að flytja hellurnar og þess vegna spurði ég eftir þyngd á hellunum. Hún varð svolítið hissa og þurfti að fara í bók til að gá að því. Svo sagði hún að fólk spyrði hreint aldrei eftir þessu og það væri ekki fyrr en að það væri búið að sliga kerrurnar með ofhleðslu sem fólk áttaði sig á því að þær hefðu þyngd.
 
Þegar ég var búinn að átta mig á því að 190 stykki af pöntuninni vógu 14,5 kg stykkið sleppti ég alveg hugmyndinni að flytja á kerru. Flutningurinn heim átti að kosta 800 krónur og ég var fljótur að þiggja það. Svo þegar hún var að skrifa nótuna skrifaði hún flutninginn á 700 krónur. Ég gladdist yfir því og þá sagði hún að það væri alltaf gott þegar fólk væri ekki á móti óvæntum afslætti. Það sagði hún í gamni ásamt mörgu öðru. Hvað heitirðu spurði hún. Guðjón svaraði ég og hún skrifaði það án hiks á nótuna. Það er ekki svo venjulegt að fólk geti það en hún gaf þá skýringu að hún hefði hlustað á það sem ég sagði. Einfalt! Þegar ég settist út í bílinn hugsaði ég að þetta hefði verið skemmtileg verslunarferð. Þessari konu virtist eiginlegt að gera lifið skemmtilegt.
 
*          *          *
 
Í kvöldmat var aðalrétturinn vesturstrandarsúpa ásamt heimabökuðu rúgbrauði með eggjum. Vesturstrandarsúpa er kjarnmikil fiskiréttarsúpa. Ég vil helst ekki segja frá því en geri það samt; þessa súpu kaupi ég í pakka og svo hræri ég hana út í vatni og sýð. Svo bæti ég í mjólk, að vísu rjóma líka, og súpan er mjög góð sé hún ekki borðuð of oft. Í eftirrétt á eftir kvöldmatnum hafði ég tvö epli af Sólvallaeplatré. Sem annan efrtirrétt hafði ég bláber í rjóma og pínulitlu af sykri. Bláberin voru þessi stóru og girnilegu af bláberjarunnanum úti í Sólvallaskóginum. Ég gef þessa skýrslu af kvöldmatnum til að fólk geti séð að ég næri mig.
 
Söng ekki Stebbi Jóns "Í bláberjalaut" hérna á árunum frá 1960 til 1970?
 
Nokkru fyrir hádegi á morgun fer ég í vinnu og kem heim aftur eftir hádegi á sunnudag. Eftir tvær vikur í meira en fullri vinnu verð ég svo í viku fríi. Að öllu óbreyttu verður það sæluvika.


Kommentarer
björkin

Gott að græða á smá sérvisku kæri mágur.Gangi þér vel í vinnunni og góða nótt.Falleg eplauppskeran.

Svar: Góða nótt.
Gudjon

2013-08-30 @ 23:17:44
Anonym

Jú, jú það voru Stebbi og Lúdó. Ég var í aðalberjatínslu á miðvikudag og fimmtudag búin að punda vel á mig berjum og rjóma. Þín hafa nú líklega verið stærri

Svar: Verði þér að góðu Dísa, stærðin skiptir ekki máli, þau eru góð fyrir fólk á okkar aldri, alla hina líka.
Gudjon

2013-09-01 @ 00:04:15


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0