Hirðusemi

Þegar ég hef birt myndir frá Sólvöllum hef ég verið ögn óheiðarlegur. Ég hef yfir höfuð forðast að birta myndir af því sem er miður eða er merki um óhirðu. Stundum er erfitt að komast hjá því og athugul augu hafa túlega séð þetta af og til. Ég hef alltaf vitað af þessu og ég get ekki sagt að það hafi gert lífið léttara, eða með öðrum orðum; það minnkar lífsgæðin. Þannig fer óhiðran með manninn.
 
 
 
Þetta er eitt af þeim sjónarhornum sem voru mér ekki til fyrirmyndar og það var oft erfitt að taka myndir án þess að þetta sæist. Oft þegar ég gekk þarna hjá leit ég í aðra átt til að reyna að láta ósómann ekki trufla mig. Um tíma á síðasta ári hugsaði ég mér að fá verktaka til að framkvæma ákveðið verk, það er að segja að undirbúa og vinna við að leggja milli 400 og 500 gangstéttarhellur. Verktakinn hefði væntanlega komið með litla gröfu, traktor, vagn, þjöppu og sendiferðabíl eða lítinn vörubíl, ásamt örugglega einhverju fleiru. Að biðja aðra að setja sökkul undir hús sem þegar er byggt hefði ég aldrei fengið mig til að biðja nokkurn annann að gera.
 
 
 
Svo var það að einn nóvemberdag að ég gekk þarna hjá og ákvað að næsta verk sem ég ynni við hér á fasteigninni undir skógarjaðrinum yrði fyrst sökkullinn undir þessa litlu geymslu og síðan hellulögnin. Þetta bara birtist innra með mér á svo einfaldan og eðlilegan hátt, bara eins og það hefði alltaf staðið til. Fáeinum dögum síðar byrjaði ég og svo mundi ég helluleggja þar til vetur gengi í garð. Ég byrjaði með sökkulinn götumegin og árangurinn af svona verki er svo stórkostlegur að það drífur, alla vega mig, áfram til frekari dáða.
 
 
 
Það þarf jú ýmislegt að hugsa þegar svona er gert og ég fann vel að það sem finnst í mínu gamla höfði hafði mjög gott af því að ákveða þetta, þetta, það og hitt. Að leggja leiðara og rétta af, nota mikið hallamál, tommustokk, hjólbörur, réttskeið, skóflu, garðhrífu og ennþá meira réttskeið. Troða oft og mikið, svo mikið að það getur nálgast tíu þúsund skref yfir daginn og fleiri kílómetra göngu. Leggjast oft á hné og standa jafn oft upp. Það kom enginn með vélar og tól en flutningafyrirtæki í nágrenninu færði mér 16 tonn af vegamöl og þrjú tonn af sandi.
 
 
 
Svo þegar árangurinn fór að sýna sig urðu hellurnar bara léttari og léttari. Þetta var nefnilega gaman.
 
 
 
Ekki var framhliðin falleg, en bakhliðin. Ég þarf ekki fleiri orð um það því að myndin sýnir raunveruleikann eins og hann var. Svo var bra að byrja á að grafa burt mold og óþverra, koma með malarfyllingu og ganga frá sökkli. Troða mikið og leggjast á hné og smíða. Ég er smásmugulega vandvirkur og verkin mín fljúga ekki áfram.
 
 
 
Mold burt og koma með 25 hjólbörur af möl í staðinn. Það var aldeilis um dimmumótin kvöld eitt snemma í janúar sem þetta var tilbúið og ég vissi að um nóttina mundi frjósa. Og þannig fór það. Fyrsta verkið þegar klaki fer úr jörð verður að rétta nákvæmlega þetta svæði af með sandi og ljúka við að helluleggja við bakgaflinn á litlu geymslunni og síðan bætist við frekari hellulögn. Leirflekkirnir á veggjunum koma til vegna þess að það er auðveldara fyrir mig að standa upp með því að styðja mig við veggi þegar þeir eru nógu nærri. Með vorinu verður utanhússþvottur.
 
 
 
 
Eftir kvöldmat þetta kvöld í byrjun janúar fór ég út með nýja ennislampöann minn til að láta þá ánægju eftir mér að líta yfir verkið.
 
Ég er dálítið líkur hundunum að því leyti að ég hef þörf fyrir að hreyfa mig flesta daga vikunnar og aðhafast eitthvað sem getur kallast vinna. Annars verð ég stirður bæði líkamlega og inni í höfðinu og fer að þurfa lyf til að hafa það þokkalegt.
 
Það er komið kvöld þann 23 janúar og á morgun les ég þetta yfir og ákveð hvort ég birti það.
 
Og ég birti það. Eigið góðan sunnudag.
RSS 2.0