Víst er sumarið betra

Það birtir yfir myndunum eftir því sem neðar dregur og sú neðsta er sýnu best.
 
Ég gekk út í Sólvallaskóg í gær til að finna það jákvæðasta í náttúrunni miðað við árstímann. Miðað við þessa mynd er það ekki svo mikið að heillast af. Að vísu sá augað þetta allt öðruvísi en myndavélin. Það var eins og myndavélin sæi best kræklóttu eikargreinarnar sem blasa svo mikið við. Augað sá hins vegar mikið betur háu grenitrén sem eru lengra burtu. Og þessi grenitré eru há. Það var bara ekki nokkur leið að ná mynd af þeim nema hafa þessar nöktu greinar með. Ferðin út í skóg í gær var góð og ég gladdist yfir skóginum. Nú er komið kvöld og mér finnst búið að vera dimmt svo ótrúlega lengi dags. Þegar ég horfi á myndina sé ég alls ekki það sem ég heillaðist af í gær.
 
Þessi regnbogi var upplyfting á gærdeginum. Hann var heill alveg yfir himinhvolfið og mér fannst sem hinn endi hans kæmi niður við flugvöllinn. Ég gerði mér hins vegar grein fyrir að ef ég væri á flugvellinum mundi hvorugur endi regnbogans vera nálægur þar. En hvað um það; regnboginn þessi var upplyfting meðan ég lét eftir mér að virða hann fyrir mér.
 
Hér hins vegar blasir eitthvað allt annað við. Þetta er hægt að kalla síðsumarmynd eða kannski haustmynd. Það er alla vega bjart og það sjást skuggar sem staðfesta síðdegissól. Þarna er Hannes Guðjón að hlaupa við vatnsturninn Sveppinn í norðanverðri Örebro sem aðeins sést í til vinstri á myndinni. Þá vorum við að koma þaðan eftir að hafa verið þar uppi í síðdegiskaffi og þau voru að leggja af strað til Stokkhólms eftir tveggja sólarhringa dvöl á Sólvöllum. Þessi mynd táknar allt aðra árstíð og allt aðra stemmingu en hinar myndirnar sem eru af náttúrunni eins og hún er í dag. Og það er svo bjart yfir litla manninum sem hleypur þarna að það lýsir upp kvöldið.

Í óþekktum heimsálfum

Þegar ég gekk frá aðalinnganginum í Vornesi í morgun og að bílnum var ég ekki alveg heima. Hugur minn var í einhverjum óþekktum heimsálfum. Áður en ég komst hálfa leið fann ég að ég hafði fyrirtækissíma í vasanum og þá þreifaði ég líka eftir lyklunum og þá hafði ég í öðrum vasa. Ég lagði töskuna frá mér og með síma í annarri hendinni og lykla í hinni sneri ég við. Upp einn stiga gekk ég og inn í ákveðið herbergi þar sem ég setti símann í sæti sitt á hleðslutækinu. Svo lagði ég af stað aftur, enn með hugann í annarri heimsálfu. Ég gekk að töskunni, tók hana upp og gekk eina tíu metra til viðbótar þegar ég tók eftir því að ég hafði lyklana ennþá í hinni hendinni. Ég lagði töskuna aftur frá mér og sneri við. Aftur gekk ég eina tröppu upp og hengdi lyklana upp í skáp í öðru herbergi.
 
Á leiðinni að bílnum áttaði ég mig á því að ég hafði lagt töskuna frá mér mitt á veginn þannig að ég bauð upp á að næsti vegfarandi æki yfir hana. Það slapp og nú komst ég heilu og höldnu í bílinn og í bílstjórasætið. Ætli ég sé ekki orðinn of tilfinningasamur fyrir þessa vinnu hugsaði ég. En ef ég vil hafa einhverja vinnu er þetta það eina sem ég kann. Það er mín sterka tilfinning og hefur verið í ein sautján ár.
 
Þegar ég var kominn út á malbikaða veginn sunnan við Vingåker hugsaði ég út í hvað ég þyrfti að kaupa í kaupfélaginu þar. Það voru fáein atriði. Svo þegar ég nálgaðist Vingåker vildi ég bara komast heim. Ég var nógu birgur af öllu fannst mér og ég hélt áfram án þess að versla. Svo þegar ég kom að síðasta hringtorginu á leiðinni heim, þá var ég í þann veginn að halda beint áfram í stað þess að taka fyrsta veg til hægri. Ég gerði eins og stundum áður, ég tók heilan hring og náði svo veginum til hægri.
 
Þegar ég kom heim vantaði ekkert. Ég fékk mér vel að borða. Það var kannski ekkert að bjóða gestum upp á ef þá hefði borði að garði, en það hreinlega vantaði ekkert fyrir mig. Svo hitaði ég mér kaffi. Þá var dyrabjöllunni hringt. Þar var kominn hann Lennart nágranni með barnabvarnið sitt hana Angelika. Angelika getur verið sjö eða átta ára. Hún var í söluátaki fyrir skólann sinn og var að selja barnaefni í tilefni jólanna. Ne-ei hugsaði ég fyrst. En svo; ég finn eitthvað handa Hannesi að skoða. Svo pantaði ég tvær barnabækur og Angelika var mikið glöð. Svo fannst henni svo gaman að heyra hvað ég talaði skrýtna sænsku.
 
Hún horfði á mig og afa sinn til skiptis og svo fór hún að ganga um húsið. Hún horfði mest í loftið sem er öðruvísi í laginu en í flestum húsum. Svo horfði hún mikið upp á sjálft loftið þar sem er hægt að vera og leika sér. Hvernig er farið þarna upp? spurði hún. Í stiga svöruðum við einum rómi, ég og afinn. Og ég bætti við að það væri ekki búið að smíða stigann. Svo gekk hún inn í herbergi í hinum enda hússins og skoðaði það gaumgæfilega. Sólvallahúsið er öðruvísi hús og ábúandinn þar er öðruvísi. Hann talar líka öðruvísi. Honum finnst líka bara gaman að vera svona. Svo fóru þau Angelika og afi og hún hafði alveg örugglega eitthvað til að tala um eftir þessa heimsókn. Það fannst mér gaman.
 
Ég þyrfti að komast til kennara til að ná betri framburði í sænskunni sagði ég einu sinn við Bengt hjúkrunarfræðing sem áður vann í Vornesi. Hann horfði fyrst hljóður á mig eins og hann gerði svo oft. Svo sagði hann; vertu bara eins og þú ert. Þú nærð betur athygli sjúklinganna þannig. Þetta var alveg rétt hjá honum. Ég hef nú ávinning af því að tala öðruvísi. Ég þarf ekki að tala illa þrátt fyrir það. Svo þegar sjúklingunum finnst ég hafa augnaráð sem sjái leyndarmál þeirra óhindrað þrátt fyrir tilraunir þeirra til að dylja þau, þá finnst þeim best að sleppa takinu. Þegar þau að lokum uppgötva að ég er bara góður kall, þá verður allt þetta samspil ósköp einfalt og gott.
 
*          *          *
 
Núna ætla ég að fara í gönguskó og taka eins og tvo hringi um Sólvallaskóginn. Ég þarf ekki að leggjast undir húsvegg núna, ég er frjálsari maður en svo. Ég er búinn að vinna fyrir því frelsi að undanförnu. Svo þarf ég að fara alveg sérstaklega snemma að sofa í kvöld því að ég þarf að vakna vel úthvíldur eldsnemma í fyrramálið. Síðan er það Vornes á ný. Þessi vika verður mest bara Vornes.

Kannski verð ég afi ljósmóður

Mig langar að verða ljósmóðir sagði Guðdís barnabarn við mig um daginn þegar við töluðum saman á skæp. Í fyrra eða svo kom þetta líka fram á feisbókinni og ég sagði í umsögn eitthvað á þá leið að hún yrði örugglega góð ljósmóðir. En þá var það einhver í skólanum hafði komist inn á fb-síðuna hennar og skrifað þetta um ljósmóðurina. Svo þegar ég fór að hæla barnabarninu mínu hafði orðið voða gaman hjá hrekkjalómunum í skólanum og málið varð viðkvæmt fyrir Guðdísi. Ég fjarlægði umsögnina samstundis og ég frétti af þessu. Eftir þetta hélt ég að þetta með ljósmóðurina væri bara gamanmál. En svo horfði ég á þessa ungu konu fyrir framan mig á tölvuskjánum þegar við skæpuðum um daginn og hún bara segir þetta við mig í fullri alvöru. Gaman.
 
Guðdís dótturdóttir mín er ekki lengur barn, krakki eða táningur, hún er orðin ung kona. Ég sá hana í fyrsta skipti þegar við Valdís bjuggum á Vallaveginum í Falun. Ég var að vinna í Vornesi þegar þær komu mæðgurnar, Valgerður og Guðdís. Á leiðinni heim eftir vinnuvikuna lék ég mér með þá hugsun að hún mundi líklega verða fljót að hænast að honum afa sínum. Svo þegar ég kom heim hringdi ég fyrst dyrabjöllunni og opnaði svo. Hún kom fram að dyrunum til að forvitnast um hvað væri að ske, en þegar hún sá mig hljóp hún á mikilli ferð til mömmu sinnar, teygði upp hendurnar og bað hana um vernd. Ég þurfti að vinna fyrir vináttu hennar. Þá var hún um eins og hálfs árs þessi unga kona sem nú er hún skiptinemi í Danmörku.
 
Og eins og ég sagði þá skæpuðum við um daginn. Þá sagði hún mér frá því að hún hefði verið í heimsókn nýlega hjá honum Kristni bróður sínum á Bergensvæðinu. Þangað kom þá í heimsókn vinkona fjölskyldunnar og var hún ófrísk. Þá barst þetta í tal að Guðdísi langaði að verða ljósmóðir og að hún heillaðist af meðgöngu. Hún heillaðist einnig af því að kvenlíkaminn gæti borði annað líf inni í sér og borið það í heiminn. Daginn eftir fæddist þessi litla stúlka sem vinkonan gekk með þegar þessar heimspekilegu umræður áttu sér stað kvöldið áður. Verðandi ljósmóðirin fór þá auðvitað í heimsókn til mömmu og barns og fékk þá þessa mynd tekna.
 
Hún Guðdís dótturdóttir mín sagði mér frá þessu gegnum skæp. Hún var yfirveguð og þroskuð þar sem ég horfði á hana á tölvuskjánum og hún er eins og ég sagði skiptinemi í Danmörku. Kristinn bróðir hennar býr á Osterö norðan við Bergen, Rósa móðursystir býr í Stokkhólmi og afi býr í skógunum utan við Örebro. Það er nú meiri tætingurinn á þessu fólki. Hvar ætli Erla systir setji sig svo niður þegar hún leggur land undir fót.

Það má alls ekki skrökva

Tveimur dögum áður en ég fór upp í Dali til að halda upp á stóran áfanga birti ég blogg sem ég nefndi Leyndarmálið margnefnda. Ég var búinn að gefa í skyn nokkrum sinnum að það væri eitthvað stórmerkilegt í gangi á Sólvöllum. En þetta merkilega var einfaldlega að ég hafði byggt lokaðan grunn undir húsið. Það er mun einfaldara að byggja grunn áður en húsið er byggt en atburðarásin hér á Sólvöllum var sú að það varð þveröfugt. Fyrst var húsið byggt á opnum grunni, á steinstöplum, og mér fannst það ekki nógu fínt. Þess vegna fór ég út í það undir haustið að loka grunninum. Ég ætla ekki að vera með neinar orðalengingar um það eða að lýsa því hvernig ég framkvæmdi það, en það var árans mikið bauk og seinlegt. Stundum á minn mælikvarða hreinlega púl.
 
Áður en ég fór upp í Dali bloggaði ég sem sagt um þetta og sagðist vera búinn og eiginlega fannst mér það. En það var ekki satt. Það er einn gafl austan á húsinu, móti skóginum, og ég ætlaði ekki að ganga frá grunninum undir hann fyrr en að vori. Það voru ýmsar ástæður til þess sem ég fer ekki út í að lýsa, en alla vega þá var þetta ekki búið, ég bara skrökvaði því.
 
Þetta er austurgaflinn og svona lítur hann út núna. Kragann á brunninum brýt ég svo niður, kannski ekki fyrr en í vor, og mölin á plastinu til hægri verður hluti af fyllingunni í brunninn.
 
Himinninn er sakleysislega blár sagði Tedd Färjestad í ljóði sínu (Himlen är oskyldigt blå). Þetta lítur líka svo sakleysislega og einfalt út. Þannig verður það líka með svo margt þegar það er búið. Meðan á því stóð var það ekki alveg svo saklaust og einfalt fyrir mér. Þess vegna er hrein nautn að horfa yfir það núna.
 
Það eru komnar svona hellur umhverfis allt Sólallahúsið, alls 167 stykki. Það var löngu ákveðið að gera þetta svona, líka áður en ákveðið var að fara út í verandasmíði. Valdís sá það sem hlutverk sitt að slá og hirða lóðina og þetta átti að gera henni verkið auðveldara og skemmtilegra. Mikið leiðinlegt að hún fékk ekki að upplifa muninn, þó ekki hefði verið nema eitt sumar.
 
 
Það er alveg spurning að kaupa nýjar byggare bobb buxur í tilefni áfangans og að ég þarf ekki að vera að skrökva neinu um gang mála.
 
Það er ekki alveg grín að ég er að tala um þetta að skrökva. Ég var farinn að hálf skammast mín fyrir allt mitt skriðdýrslíferni hér á Sólvöllum, að hámark þess sem ég léti eftir mér væri að skríða kringum húsið á fjórum fótum milli þess sem ég lá undir útveggjunum. Sjötíu og eins árs gamall maður á ekki að þurfa að vera að ljúga um svona hluti. Ég vel þetta allt saman sjálfur og á bara að standa fyrir því. Og svo get ég alveg lofað að það er gaman að horfa á þetta þegar það er búið. Það verður líka að reiknast til lífsgleði.
 
Einn af máttarstólpunum í tólfspora kerfinu er heiðarleiki. Einn af máttarstólpunum í heiðarleikanum er að skrökva ekki. Um hálftíu leytið á morgun fer ég í Vornes og vinn annað kvöld og fram á þriðjudagsmorgun. Ég vinn þar sem fulltrúi tólfspora kerfisins. Oft spurja sjúklingarnir hvort hvít lýgi sé ekki leyfileg. Þá hristi ég höfuðið. Að segja ekki frá því að bakvið húsið leyndist nokkuð sem eftir var að framkvæma -það var hvít lýgi. Hlægilegt, eða hvað? Nei, það er reyndar ekki hlægilegt fyrir þann sem vill gera allt sitt besta til að hlú að edrúmennskunni sinni. Ég var búinn að hringja í hana Kristínu sem fór með mér upp í Dali og segja henni að ég hefði logið í hana. Rósa og fjölskylda vissu að þetta var eftir þannig að þau vissu að ég hafði notfært mér hvítu lygina. Hversu kannski hlægilegt sem einhverjum kann að virðast þetta, þá er best að taka hlutina alvarlega. Þá verður lífið gott.
 
Þegar ég var raunverulega búinn með verkið þarna úti og að ganga frá klukkann að ganga fjögur í dag fór ég í sturtu. Síðan fékk ég mér gríðarlega vel útilátið síðdegiskaffi þar sem ég hafði ekkert borðað frá morgunverði stuttu fyrir sjónvarpsmessuna. Annars byrjaði ég úti klukkan átta í morgun. Eftir þetta síðdegiskaffi kveikti ég á sjónvarpinu og sá þá viðtal Skavlan við pakistönsku stúlkuna Malala og pabba hennar. Þá skildi ég að raunveruleikinn sem ég hafði haft að félaga við austurvegginn í eina viku var býsna, býsna lítilfjörlegur miðað við raunveruleika svo margra heimsins barna. Samt fór ég tvisvar út eftir það til að athuga hvort það væri ekki alveg örugglega rétt að ég væri búinn.

Súkkulaðiskúffan

Ég fylgdist með sjónvarpsfréttum frá hálf átta til átta og svo klikkaði ég milli SVT 1, 2 og 4 nokkrum sinnum en slökkti svo bara á sjónvarpinu. Svo las ég pínulítið, borðaði síðan tvö lítil, sænsk epli og svo kveikti ég á sjónvarpinu aftur. Þá lenti ég á auglýsingu á einum átta efnum sem öll áttu að gera mig ungan, það er að segja að húðin átti að verða yngri, hrukkur að hverfa, ég átti að verða glaðari og svo man ég ekki meira.
 
Ég áttaði mig þar með á því að það væri enginn vandi fyrir mig að verða þrjátíu og fjögurra ára aftur, bara ef ég eignaðist öll þessi efni. Í lok auglýsingarinnar kom svo fram að þessi efni voru fyrir konur og þá slökkti ég aftur á sjónvarpinu. Og nú sit ég hérna eftir að hafa væflast svolítið fram og tilbaka í allt að klukkutíma og yngingarefni kvöldsins voru bara fyrir konur. Fyrir aftan mig bíður rúmið með ullarfeldinum mínum og lokkar mig til sín. Í nótt verður klukkunni seinkað um klukkutíma þannig að það verður einn auka hvíldartími fyrir þá sem þurfa.
 
Það var fólk á Sólvöllum í dag. Það komu tveir læknar í heimsókn og einn læknaritari þannig að ég fann mig mjög öruggan. Þetta fólk var búið að boða komu sína og með þeim ummælum að ég mætti alls ekki vera með neinn undirbúning. Ég var því úti við og baukaði við mitt þar til á síðustu stundu að ég setti á könnuna, kveikti upp í kamínunni og ryksugaði mest áberandi staðina. Mér var sagt að ég mætti eiga von á tertu, þá frekar tveimur en einni. Þau vissu að ég sæti ekki auðum höndum og vildu mér vel.
 
En viti menn. Þegar ég heyrði um tertu fann ég ljúft bragðið af mjúkri súkkulaðitertu sem bráðnaði upp í mér og súkkulaðihungrið gagntók mig. Ég var úti að bauka eins og ég sagði en svo stóðst ég ekki mátið, fór inn og með hendina niður í súkkulaðiskúffuna -en umbúðirnar voru tómar. Ég átti því bara um eitt að velja, að bíða kræsinganna. Svo var það eins og mig grunaði, gestirnir mínir komu með stóra, stóra, mjúka og ilmandi súkkulaðitertu sem saddi svo um munaði súkkulaðihungur mitt.
 
En hvers vegna ætli það hafi verið tómar súkkulaðiumbúðir í súkkulaðiskúffunni. Alveg merkilegt! Jú, það var þannig að ég hafði ekki keypt nein sætindi af neinu tag í vikur. Svo fáeinum dögum áður en við fórum upp í Dali keypti ég þrjár blokkir af súkkulaði til að hafa með. Það var auðvelt að snerta það ekki áður en við lögðum af stað þar sem það var keypt í þessum ákveðna tilgangi. Svo gleymdi ég súkkulaðinu heima. Ég held hreinlega að það hafi verið það eina sem ég gleymdi en mér fannst það hundleiðinlegt.
 
En þegar ég kom heim! Hugur minn leitaði stöðugt niður í súkkulaðiskúffuna og þegar hugurinn var kominn þangað fylgdi hendin fljótlega á eftir. Ég vil bara ekki segja frá því hvað súkkulaðið kláraðist fljótt. En það kláraðist. Ég vissi það en þegar það hafði verið minnst á tertu við mig í dag fannst mér sem ég gæti nú athugað hvort það væri ekki smá horn eftir. Nei, svo var ekki. Hins vegar eru tvö væn stykki af tertum í ísskápnum núna. Þau freista mín ekki sem stendur og ég er að hugsa um að frysta þau bæði.
 
Þannig er nú það. Nú er súkkulaði og sætindaáti mínu lokið í bili. Að vísu er sagt að dökkt súkkulaði sé bara hollt eða alla vega ekki skaðlegt. Brátt kemst sætinda og súkkulaðihungrið í jafnvægi aftur. Það er merkilegt hvað einn biti af einhverju af þessu getur sett hungrið af stað, til og með að gruna að súkkulaðiterta sé á leiðinni á Sólvelli. Eða þá ef það finnst eitthvað í súkkulaðiskúffunni. Ef ekkert er til af því heima er allt í lagi en ef ég kaupi það til að breyta aðeins til losnar um hömlurnar.
 
Ég hef stundum heyrt útundan mér að ég sé ekki alveg einn um þetta.

Snemmvetrarrugl í Guðjóni á Sólvöllum

Þegar ég var að gera matinn áðan hugsaði ég mér til gamans að enginn mundi vilja vera í fæði hjá mér. Samt finnst mér maturinn sem ég geri bara góður, góður fyrir mig, en að bjóða einhverjum öðrum upp á það! Nei. Síld steikt í rúgmjöli -hafið þið heyrt um það? Ég talaði við hana Rósamundu Káradóttur í Hrísey í gær eða fyrradag. Hún sagði að það væri hægt að finna allt um matargerð á netinu þannig að matargerð væri ekkert vandamál fyrir neinn lengur. Ég var svo sammála. En það er samt smá vandamál fyrir mig af gefnu tilefni. Ég vil nefnilega kunna að laga matinn áður en ég les um matargerðina. Hins vegar googlaði ég fyrir kvöldmatinn og var þá að athuga hvað það væri skynsamlegt að nota mikinn hvítlauk. Það er eins og með allt annað að það er best að hafa það í nokkru hófi. En alla vega, ég googlaði.
 
Heyriði, veit nokkur um fjarstýringuna að sjónvarpinu mínu? Ég óskaði þess svo sannarlega áðan að ég gæti hringt í einhvern og spurt. Ég meira að segja leit inn í uppþvottavélina en hætti eiginlega við það á miðri leið. En ég leitaði á baðinu. Ég leitaði bara um allt. Mikið langaði mig að geta hringt í fjarstýringuna eins og ég geri þegar ég finn ekki annan hvorn símann minn. Svo ákvað ég að sækja sprittkerti inn í neðri skáp, alveg óviðkomandi fjarstýringunni. Ætli þetta verði ekki til að ég finni fjarstýringuna hugsaði ég samt. Svo tók ég kertið út úr skápnum og rétti úr mér. Þarna lá fjarstýringin við stólfót og ég var viss um að ég væri búinn að líta á staðinn hvað eftir annað.
 
Síðustu vikurnar er ég búinn að kaupa tvö granatepli en þau hafa þornað upp hjá mér. Samt keypti ég enn eitt granatepli í gær og íslenskt skyr, þetta sem er selt hérna á gríðarlegu verði. Svo þegar ég var púinn að borða fisk og mikið af rauðmeti tók ég granateplið, skar það í tvennt og setti annan helgminginn í plastfolie og svo inn í ísskáp. Svo tók ég tekseið og stakk henni langt inn í eplið. Þá fékk ég gusu af rauðum legi á gleraugun mín. Já, einmitt. Ég var búinn að gleyma því að það er best að halda á granatepli neðst í eldhúsvaskinum og hreinsa það þar. Svo fékk ég að þurrka rauðar slettur sem voru út um allan eldhúsbekk og auðvitað á glerugunum mínum líka. Síðan plokkaði ég steinana úr neðst í eldhúsvaskinum eins og í gamla daga þegar við Valdís vorum oft með granatepli. Granatepli og skyr. Hlýtur það ekki að vera með því hollara sem völ er á?
 
Þetta er nú meira endemis bullið í mér. Mér er varla sjálfrátt ef ég birti þessi ósköp. En það blés óvenju mikið af suðvestri í gær. Það var orðið mikil lauf á allri lóðinni og ég hugsaði mér gott til glóðarinnar og byrja í næstu viku að raka saman laufið og flytja að beykitrjánum mínum. Strá eins og hálfu kílói af hænsnaskít kringum hvert tré og dreifa svo laufinu yfir hænsnaskítinn. Þetta hef ég gert í sjö haust og reynst mér vel. Hænsnaskíturinn er þá orðinn meyr og ljúfmeltur að vori, enda hafa beykitrén vaxið framar öllum vonum. En ég þarf ekki að verða bvakveikur við raksturinn þetta haustið því að laufið er nokkurn veginn allt horfið. Talsvert af því er á lóð nágrannanna norðan við en annað er komið langt inn í skóg. En hænsnaskítinn mun ég bera á hvað sem öðru líður.
 
Nú ætla ég að hætta þessu bulli. Kannski er ekki gott fyrir mig að vera svona mikið einn. Ég get sjálfsagt orðið skrýtinn á því ef ég er þá ekki þegar orðinn það. En kannski það rætist úr mér á mánudag. Þá fer ég í vinnu og vinn nóttina milli mánudags og þriðjudags. Svo vinn ég eina tvo daga í dagvinnu líka í vikunni. Það verður nú best þannig. Eins og áttræði læknirinn sagði við mig fyrr í haust; hófleg vinna hvetur til góðrar heilsu og hindrar synd.
 
Þar með ætla ég að hætta þessu og ég mun birta þetta eintal við sjálfan mig. Hafið ekki áhyggjur af mér því að ég er í býsna góðum málum þrátt fyrir allt.

Susanna í Falun

Susanna var eitt sinn á Íslandi og lærði býsna góða íslensku. Þegar ég kom allra fyrst í Svartnes, þá hitti ég þessa færeysk ættuðu konu í fyrsta sinni. Ég man enn í dag það sem skeði 1994. Ég gekk móti svæðinu á meðferðarheimilinu í Svartnesi þar sem sjúkravaktin hafði aðsetur sitt. Þar sat Susanna við skrifborð og var að færa eitthvað inn í bók. Ég horfði á hana nokkur augnablik og hugsaði; falleg kona hún Susanna.
 
Á þriðjudaginn í fyrri viku sat ég við matarborðið heima hjá henni í Falun, það er að segja nítján árum seinna, og hugsaði; Súsanna hefur ekkert breytst. Og þannig fannst mér það svo sannarlega vera. Ég sagði henni það og hvaða hugsun hefði slegið mig upp í Svartnesi árið 1994. Hún tók því vel og launaði fyrir sig með því að segja að ég héldi mér líka vel. Þar með vorum við búin að slá hvort öðru gullhamra í góðu og það fór vel á því.
 
Hún býr í sama húsi við Vallavegen í Falun og við Valdís bjuggum í frá haustinu 1995 og þar til í janúarlok 1997. Ekki nóg með það, heldur bjuggum við á sömu hæð og það er aðeins einn veggur á milli íbúðanna. Þaðan höfðum við Valdís svo ótrúlega fallegt útsýni yfir vatnið Runn með öllum sínum skógi vöxnu nesjum og eyjum. Okkur var vel ljóst að annað eins útsýni yrði vandfundið þegar við flyttum þaðan og þó að ég leitaði með logandi ljósi vítt og breitt um Södermanland og einnig vítt og breitt í og kringum Örebro -þá fannst enginn staður sem hafði nokkuð í líkingu við útsýnið frá Vallaveginum í Falun, þriðju hæð. Ég minnist þess enn í dag að ég yfirgaf þetta með sorg. Valdís átti léttara með það þar sem hún vissi að sunnar í Svíþjóð væri meira af laufskógum og þeir heilluðu hana.
 
Þennan dag sem við Kristín skólasystir mín komum til Susanna vorum við búin að vera í Svartnesi og síðan niður í gömlu koparnámunni í Falun. Hvort tveggja hef ég bloggað um áður og hvort tveggja varð þáttur í spjalli okkar meðan á þessari heimsókn stóð. Susanna og Kristín höfðu jú aldrei hittst áður en það var mikið gaman að sjá hvað það fór vel á með þessum tveimur konum nánast á sama augnabliki og þær heilsuðust. Við fengum þessa líka þykku, mjúku, ilmandi, volgu og bragðgóðu eplaköku hjá henni Susanna og vanilusósu út á. Ég er ekkert vanur að tala um það sem fólk ber á borð fyrir mig en þessi eplakaka var í alla staði svo góð og borin fram af slíkum vingjarnlegheitum að það var ekki hægt annað en geta þess.
 
Já, færeyska konan Susanna vann sem sagt í Svartnesi nánast þar til yfir lauk þar. Þegar hún hætti var vitað hvernig færi með Svartnes og mín kona skellti sér í hjúkrunarnám og er nú hjúkrunarfræðingur. Þegar hún var búin að lesa í um það bil hálft ár man ég að ég sagði við hana að hún væri líklega farin að vera svolítið fróðari í greininni. Hógvær svaraði hún því að hún væri búin að læra það mikið að hún vissi meira um það hvað hún vissi lítið. Það eru nú mörg ár síðan en ég tel mig muna það að mér fannst sem ég hefði spurt mjög aulalega.
 
Tíminn leið hratt heima hjá Susanna og það var svo margt að tala um. En hún þurfti í vinnu og við Kristín komum full seint miðað við það sem talað hafði verið um. Náman tók meira af tíma okkar en við reiknuðum með. En ég er svo ánægður með að það varð af þessari heimsókn og þakklátur er ég fyrir móttökurnar Susanna mín. Þegar þær kvöddust, Kristín og Susanna, sá ég að þær hreinlega höfðu tengst vináttuböndum á þessari stuttu stund. Ég er búinn að tala um þetta við þær báðar og þær segja einfaldlega að þeim hafi fallið svo vel hvorri við aðra samstundis og þær hittust og þær útskýrðu það báðar á fallegan hátt. Mikið er gaman að þessu. Vinátta er falleg.
 
Ég ætlaði svo sannarlega að birta mynd af henni Susanna með þessu bloggi en það eru smá tæknivandamál sem valda því að það er ekki hægt. Mér finnst því trúlegt að síðar á árinu komi eitt blogg enn og þá endanlega bloggið um ferðina í Dalina. Það er talsvert mikið bloggað eftir um það bil 260 km ferð norður í land, en það er á að giska vegalengdin frá Sólvöllum og í Svartnes. Hvað ættu þeir þá að blogga mikið sem fara í heimsreisurnar eins og ég sagði um daginn. En sannleikurinn er bara að þessi ferð, ekki lengri en hún var, var mér mjög mikils virði. Það er kannski ekki stærðin sem skiptir máli, heldur verðmætin í stærðinni.

Bíllinn hans Þórarins á Seljalandi

Í morgun var eins og sagt var í gamla daga -alveg mígandi rigning. Mig vantaði þrjá litla borðabolta til að geta lokið ákveðnu verki útivið svo að mér fannst best að fara til Fjugesta meðan rigndi og sækja þá. Þá gæti ég unnið gott verk þegar upp stytti. Svo héldum við af stað, ég og Fordinn, og komumst klakklaust gegnum regnið. Síðasta verslunin áður en komið er að járnvöruversluninni í Fjugesta er bensínstöð. Þegar ég fór þar framhjá tók ég eftir einhverju kunnuglegu á planinu og hugsaði mig varla um, ég bara fór umsvifalaust inn á bensínstöðvarplanið og kom aftan að svörtum bil sem þar stóð. Jú, það var tilfellið. Aftan á bílnum stóð frekar litlum, gyltum stöfum: Packart.
 
Ég steig út úr Fordinum og gekk með lotningu kringum þennan bíl. Það eru orðin milli 55 og 60 ár síðan ég ferðaðist í svona bíl og það var bílinn hans Þórarins heitins móðurbróður míns á Seljalandi. Ég gekk hvern hringinn eftir annan kringum þennan bíl og mér fannst ég kannast svo mikið við allt mögulegt í sambandi við hann. Þrátt fyrir marga áratugi fannst mér sem ég minntist bílsins hans Þórarins frænda alveg nákvæmlega og á þessum bílum væri engin munur. Undir stýri sat ungur maður sem þóttist vart taka eftir mér. Átt þú bílinn? sagði ég við liðlega miðaldra mann sem var líka mættur þarna. Nei, svaraði hann, hann er að koma þarna út úr versluninni. Ég sneri mér að manninum sem kom út úr versluninni og honum þótti ekki leiðinlegt að bíllinn hans hefði fengið athygli.
 
Fordinn minn varð bara hallærislegur við hliðina á þessum eðalvagni, enda þorði ég ekki að leggja honum við hliðina á Packartinum. Ég stoppaði aðeins aftar. Sjáið grillið. Alveg eins og á bílnum hans Þórarins frænda míns. Eða svo fannst mér í hrifningunni.
 
Viltu ekki líka taka mynd af innréttingunni sagði eigandinn. Jú, ég vildi það. Ungi maðurinn sem setið hafði undir stýri gerði ég að syni eigandans. Honum tókst ekki lengur að láta sem hann tæki ekki eftir neinu og varð ögn stoltur eins og eigandinn. Hann er notalegur að sitja í, sagði eigandinn. Ég man það líka vel hvað mér fannst bíllinn hans Þórarins vera mikil "drossía". Alger lúxusdrossía sem gott var að sitja í. Og þessi drossía var svo dugleg að henni tókst að rúlla æði lengi á grýttum vegunum í Fljósthverfinu. Takið eftir gírstönginni.
 
Ég hafði gert mennina að feðgum og bað þá að stilla sér upp við bílinn. Það var þeim ljúft að gera. Ársmódel 1937 var bíllinn sögðu þeir mér. Hjólabrettin, ljósin, grillið, stuðarinn, framrúðan, allt eins og á bílnum hans Þórarins. Þannig blasti það við mér. Þokuljósin mundi ég þó vilja undanskilja. Það getur vel verið að raunveruleikinn hafi verið nokkuð annar en ég er viss um að þeir eru mjög líkir. Ég er ekki vanur að hrífast svona af bílum en þegar það snerti bílinn hans Þórarins frænda míns á Seljalandi, þá auðvitað gegndi öðru máli. :)
 
*          *          *
 
Svo kom ég í járnvöruverslunina. Eitt sinn þegar ég var að koma þangað og það fyrir all mörgum árum, þá var táningsstelpa útan við verslunina að reyna að snúa eitthvað á hann Per, eiganda verslunarinnar. Hún var honum greinilega svolítið erfið. Ég sá að þetta mundi örugglega vera dóttir hans. Ég gekk að þeim og sagði við táninginn: Þú átt mikið góðan pabba. Hún leit mjög undrandi á mig, stórskrýtinn kallinn, og sagðist vita það. Per hins vegar roðnaði.
 
Í versluninni vinnur í dag meðal annarra ung kona en þó fullorðin. Í dag vissi hún ekki hvernig hún ætti að svara spurningu sem ég beindi til hennar og hún sneri sér við og kallaði: pabbi! Þá skildi ég. Stelpan sem forðum reyndi utan við búðargluggann að plata pabba sinn til að gera eitthvað fyrir sig var orðin fullorðin. Ég sagði henni söguna og síðan fór ég með mína þrjá borðabolta. Hvort henni finnst ég skrýtinn kall enn í dag veit ég ekki en hún er lipur og hjálpleg þegar hún liðsinnir mér í verslunarferðum mínum.
 
*          *          *
 
Ég þarf ekki að spyrja hvort þetta sé gott því að það er gott. En hlýtur þetta ekki að vera mikið hollt? Flökin eru síldarflök og á brettinu er paprika, chilipaprika, rauðlaukur, tómatar og kaldar kartöflur. Ég hef fengið að heyra að upphitaðar kartöflur séu hollari en nýsoðnar. Þess vegna sauð ég kartöflurnar um miðjan dag og hitaði þær svo á pönnu í kvöldmatinn ásamt rauðmetinu.

Að gráta yfir morgunverðinum

Ég vaknaði í morgun var klukkan hálf átta. Eftir eina baðherbergisferð lagði ég mig aftur og lét hugann reika. Ég pantaði bók á netinu um daginn og fékk hana í hendurnar í fyrradag. Í gærkvöldi byrjaði ég að kíkja í þessa bók. Það litla sem ég las fjallaði um það að vera utan við sig, að hvílast og komast í ró til að safna sjálfum sér saman.
 
Eitthvað þekki ég sjálfan mig á því sviði að vera utan við mig. Bókin heitir "Það skeður þegar þú hvílist" og er eftir mann sem heitir Tomas Sjödin. Hann er prestur. Ég hef minnst nokkrum sinnum á hann áður í bloggum, en fyrir all löngu síðan. Hans stóra lífsreynsla liggur í fyrsta lagi í því að hafa horft á tvo unga syni sína verða að engu, rýrna og deyja. Nokkru eftir andlát seinni sonarins sáum við hann í Sjónvarpi, þá gamlan mann. Í dag er hann aftur orðinn yngri maður og hefur unnið sig í gegnum sorgina og komið þaðan sem mjög þroskaður maður sem hefur mikið að segja.
 
Tomas fæddist árið 1959, árið sem ég skrifaðist út úr Skógaskóla og hélt að ég væri orðinn fullorðinn maður. Ég kallaði hann ungan mann og ég er sautján árum eldri. Ekki svo mikið. Stundum er ég barnalegur, stundum finnst mér að ég sé þokkalega þroskaður, stundum að ég sé óttalega lélegur. Stundum finnst mér að ég sé þokkalega góður eða bara býsna góður og svo er ég bara miðlungs maður. Það rak margt á fjörur mínar í rúminu mínu í morgun eftir að ég lagði mig aftur og svo leit ég á klukkuna. Úff! Hún var orðin hálf tíu. Það var ekki að sökum að spyrja. Ég varð að drífa mig á fætur til að elda hafragraut, hita kaffi og til að sjá sjónvarpsmessuna.
 
Á leiðinni fram í eldhúsið kom ég við hjá tölvunni og skrifaði fyrstu línurnar af þessu bloggi. Svo hugsaði ég sem svo að ég vildi óska þess að þessi sjónvarpsmessa yrði góð messa. Og einmitt þá minntist ég orða prestsins Nisse, mannsins sem annaðist útför Valdísar, að þær væru góðar sjónvarpsmessurnar þegar fólk væri ekki að reyna að slá öllum öðrum messum við. Þetta var nefnilega svo satt hjá honum. Stundum er eins og það þurfi að vera heiftarlegra en nokkru sinni fyrr með fleiri hljóðfærum, hærra tropmetspili og magnaðri frásögnum. En það voru kaflaskilin, það að muna eftir Nisse. Hann heimsótti okkur nokkrum mánuðum áður en Valdís dó og hún bað hann að annast útför sína.
 
Það skipast fljótt veður í lofti, hefur gert lengi, og gerði það líka þarna á því augnabliki sem Nisse kom upp í huga mér. "Nisse, viltu jarða mig?" Ein hugsunin af annarri rúllaði fram og hljóðlát sorgin gekk í hús á Sólvöllum. Svo byrjaði ég á að kveikja á sjónvarpinu og síðan að elda hafragrautinn. Fljótlega eftir að vingjarnleg, þeldökk, ung kona hafði opnað messuna var sunginn sálmur. Í þeim kór var saman komið fólk sem ég þekkti samstundis. Þessi kór var samansettur af fólki sem var nákvæmlega eins og þau systkin mín sem komið hafa í Vornes í leit að nýju lífi og hafa fundið það. Og svo var það líka.
 
Maður steig fram og sagði frá lífi sínu. Hann reyndi ekki að hafa verið verstur, hann var ekki stoltur yfir ævi sinni, en hann sagði af einlægni og sannleika frá því hversu illa fór fyrir honum og hvernig hann fann sitt nýja líf. Hann var ekki í þörf fyrir að slá öllu öðru við en hann var þakklátur. Saga hans var eins og svo margar sögur sem ég hef heyrt í tuttugu ár. Hann sagði í sannleika og af einlægni frá lífi sínu og það er þegar fólk byrjar að segja sannleikann og sækir hann djúpt inn i hjarta sitt sem líf þess fer að breytast til hins betra. Svo verður lífið gott.
 
Ég sé það á myndunum af Tomas Sjödin að hann er hættur að gráta yfir morgunverðinum. Ég vil komast þangað líka áður en ég verð sóttur. Þá veit ég að ég get af meiri sannfæringu rétt út hendi til þeirra systkina minna sem eru í leit að nýju lífi. Hann Kjell vinur minn, einhver besti vinur sem ég hef eignast, sagði eitt sinn við mig nokkurn veginn á þessa leið: "Mig langar að ná það andlegum þroska að fólk sjái að ég hafi fengið eitthvað sem er vert að sækjast eftir. Þannig held ég að það sé best að hjálpa fólki sem vill ná sér upp úr eymd neyslunnar." Hann hafði líka sjálfur verið í eymd neyslunnar. Ég er Kjell svo sannarlega sammála.
 
Kjell var á leiðinni þangað, að ná þessum þroska. En örlög hans urðu þau að á leiðinni að markmiðinu tóku ótrúlegir sjúkdómar völdin í lífi hans og að lokum neyddist hann til að leggja augun aftur. Minn góði vinur fékk hvíldina. En með orð hans að leiðarsjósi ásamt svo mörgu öðru lifi ég áfram og reyni að nálgast markmiðið sem Kjell stefndi að. Valdís sagði oft sögur af framliðnu fólki sem hefði komið þeim skilaboðum til sinna nánustu að hætta að gráta. Það bara truflaði lífið fyrir handan. Ég er ekki svo viss um hvernig Valdísi hefði sjálfri tekist það. Ég veit heldur ekki hvort það hefur truflað hana að ég grét yfir morgunverðinum í morgun.
 
 
Ég finn að ég þarf meiri kjark til að birta þetta blogg en flest blogg mín áður. Ég var byrjaður á því áður en ég fór fram að elda hafragrautinn og áður en mér datt Nisse í hug. Allt skeði svo hratt þarna í morgun eftir að ég reisti mig upp úr rúminu. Mín blogg geta ekki bara verið sólskinsblogg, þá er ég ekki sannur. Þess vegna ætla ég að birta það. Saga mannsins sem sagði frá lífi sínu í sjónvarpsmessunni var ekki sólskinssaga en hún varð að sólskinssögu. Sólin skín ekki af heiðum himni í dag en ég veit að hún er þarna uppi ofar skýjum. Eftir svolitla stund ætla ég út að sýsla við mitt, að smíða svolítið. Ég ætla að lokka fram sólina í hjarta mínu og þá verður lífið bjart. Það lifir á kerti við stóru myndina af Valdísi. Þessi morgun hefur verið morgun mikillar innri hreinsunar.
 
Guð, gefðu mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.

Svartnes í Dölunum

Í Svartnesferð okkar Kristínar heimsóttum við húsnæði gamla meðferðarheimilisins Saga Svartnes þar sem ég hafði unnið. Ég fann vel fyrir eftirvæntingu, mjög vel. Við spáðum í það hvort það væri nokkra snyrtingu að finna í Svartnesi og þegar við komum að gamla meðferðarheimilinu voru þar nokkrir bílar og opnar hurðir. Við gengum inn og ég var mjög svo forvitinn. Í andyrrinu hafði miklu verið breytt og bakvið afgreiðsluborð sat maður sem var dökkur á hörund og skreyttur að hætti fornra indíána eða eða einhverra annarra ættbálka. Að vísu var hann ekki með fjaðrir. Við heilsuðum honum og spurðum hvort möguleiki væri að fá að nota snytringu.
 
Hann svaraði mjög kurteislega að þarna til vinstri væru tvær snyrtingar en inn á ganginum til hægri væri líka snyrting sem væri snyrtilegri. Það var í áttina að matsalnum. Kristín byrjaði á snyrtingunni, þeirri snyrtilegri, en ég gekk í rólegheitum móti gamla matsalnum og virti fyrir mér veggi sem höfðu fengið upplyftingu með panel upp að miðju og nýrri málningu. Allt leit mjög snyrtilega út. Ég gekk að lokum til hægri fyrir horn og sá þá yfir allan gamla matsalinn endilangann og að eldhúsdyrunum í hinum enda hans. Gamlir svartnesingar sem lesa þetta fara nú að kannast vel við sig.
 
Við eldhúsdyrnar innst í matsalnum var kona á miðjum aldri að vinna. Hún var myndarleg, viðkunaleg, frekar ljóshærð og með hálfsítt hár. Hún gekk fáein skref á móti mér og gaf mér kost á að ávarpa sig sem ég líka gerði. Ég heilsaði með handabandi, kynnti mig og sagði að ég hefði unnið þarna á árunum 1994-1995. Hún tók mér mjög vel og sagði að ég væri þá trúlega einn Íslendinganna sem hefðu verið þarna. Hún sagði að Svartnes væri búið að vera ýmislegt gegnum árin en væri nú aðsetur fólks sem hefði misst tök á lífi sínu og engin lausn hefði fundist fyrir. Við vorum þá sammála um að þarna væri þetta húsnæði að nálgast sitt upprunalega markmið, að hjálpa fólki sem hefði misst tök á lífi sínu. Það var IOGT sem var með þennan rekstur núna tjáði hún okkur.
 
Þessi kona tók okkur afar vingjarnlega eins og ég sagði þó að hún byði okkur ekki upp á kaffibolla að íslenskum hætti. Mér fannst svo notalegt að koma þarna og finna fyrir þessum vingjarnlegheitum, einmitt þarna, og mér fannst sem eitthvað gott væri að eiga sér stað með þennan gamla vinnustað minn. Ég leit inn í eldhúsið og mér fannst sem margir hlutir væru ennþá þar sem þeir voru 1995. Við kvöddum konuna og héldum af stað.
 
Þegar við gengum aftur fyrir hornið frá matsalnum komum við að dyrunum á gamla grúppuherberginu sem ég hafði um tíma meðan ég hafi grúppu á sjúkradeildinni. Þar inni var margt búið að segja og margt búið að ske. Einn atburður var mér þó langefst í minni þaðan. Það höfðu komið samdægurs margir þungir drykkjumenn frá stað einum í Gästrikland og ég fékk eina þrjá þeirra í grúppuna til mín. Þetta var á fyrsta árinu mínu í Svíþjóð og með þá málakunnáttu sem ég hafði var staðan alveg óskaplega erfið. Læknir einn úr Dölunum var einnig í meðferð og líka hann var í minni grúppu.
 
Eftir eina grúppuna beið hann meðan aðrir fóru út, síðan gekk hann að hurðinni og lokaði. Svo sneri hann sér að mér og sagðist vilja láta mig vita um góðan eiginleika sem ég hefði til að bera og hann hélt áfram eitthvað á þessa leið: "Hvað sem fólk er illa á sig komið og á bágt hér inni, þá tekst þér alltaf að finna eitthvað jákvætt í manneskjunni og láta hana vita af því. Það er mikill og góður eiginleiki." Síðan sneri hann sér að hurðinni, opnaði og gekk út. Svo var hann sjúklingur minn á ný. Hann var sjúklingur minn en hann var líka læknir sem enn hafði vinnu. Ég hlaut að hlusta á það sem maðurinn sagði.
 
Þetta eru uppbyggilegustu og mikilvægustu orð sem ég hef fengið að heyra í vinnu minni með alkohólista í 20 ár og þau hafa fylgt mér alla tíð síðan. Ég hafði heyrt Þórarin Tyrfingsson segja að það væri nauðsynlegt að segja jákvæða hluti við sjúklingana, en þarna fékk ég að vita að mér tækist það í reynd. Þvílík uppörvun. Ég og þessi læknir hittumst oft síðar í Falun 0og það fór alltaf mjög vel á með okkur.
 
Þegar við komum út á hlaðið mættum við tveimur mönnum sem heilsuðu. Annar þeirra gekk strax inn og það var greinilega matarími. Hinn, stæðilegur kall sem talaði Dalamál eins og það gerist fallegast, sagðist vera húsvörður með öllum verkefnum sem því fylgdu bæði varðandi viðhald og framkvæmdir. Ég nefni hann hér vegna þess að hann talaði þetta fallega Dalamál eins og það gerist best og svo var hann mjög þægilegur í viðmóti. Ég var aldeilis himinlifandi yfir þessari heimsókn.
 
Í Svartnesi ókum við líka framhjá gamla prestsbústaðnum og ég benti Kristínu á litla húsið við vatnsbakkan sem mig langaði svo mikið að kaupa á sínum tíma og gera upp sem sumarhús. Valdís var kannski ekki svo hrifin af þeirri hugmynd, enda með báða fæturna á jörðinni sem betur fer þegar ég sveif í loftinu og jarðsambandið var mjög lauslegt. Ég hef verið seinþroska en held að jarðsamband mitt sé í sæmilegu lagi nú orðið. Svartnestíminn og tengslin við Dalafólk og ótrúlega víðfeðmar skógi vaxnar óbyggðirnar þarna uppfrá er einn af mörgum þáttum sem hafa komið mér á legg.
 
 
Åsgatan í Falun. Kristín ferðafélagi minn er á bláum jakka þarna mitt í göngugötunni. Henni er ekki vel við myndatökur og það er kannski þess vegna sem hún er þetta langt í burtu og bíður þess að ég komi og við getum haldið áfram. Dyrnar sem standa opnar þarna vinstra megin og manneskja kemur út um með drif á öllum að því er virðist, það eru dyrnar inn til gamla AA fundarstaðarins í Falun. Eftir að ég var farinn að vinna í Vornesi fluttum við fundarstaðinn í næstnæstu götu ofan við þessa. Þessa göngugötu vorum við Valdís oft búin að rölta, bæði saman eða sitt í hvoru lagi. Ég sakna Falun og ég sakna Dalanna eins og ég segi svo oft, en örlögin færðu okkur þaðan, það var ekki hægt að standa á móti því. Það er ekki lengur um það að fást og Sólvellir eru góður staður líka. Hitt er svo annað mál að áður en við Kristín fórum í þessa ferð hlakkaði ég mikið til, en nú eftir ferðina finnst mér nauðsynlegra en nokkru sinni að fara þangað aftur.
 
Ég skrifa of langt mál. Þess vegna kom ég ekki fyrir frásögn um heimsóknina til hennar Súsönnu í þessu bloggi. Það er líka þannig að myndir af þeirri heimsókn eru á myndavél Kristínar og vegna tæknilegra örðugleika milli Västerås og Örebro hefur ekki tekist að koma myndunum þaðan og til mín. Því verður umfjöllun um þessa heimsókn að bíða næstu helgar. Ég ætla þó að skrifa það mikilvægasta fyrir þann tíma þar sem ég vil ekki koma of langt frá upplifuninni sem þessi heimsókn skildi eftir sig.
 
Svo má kannski segja að hvernig í ósköpunum mér detti í hug að skrifa svo mikið um ferð á milli landshluta í Svíþjóð. Sumir fara í ferðalag umhverfis jörðina, á óvenjulega staði eða á hæstu fjöll, og svo finnst ekkert skrifað um það. Ég skrifa þetta niður fyrir mig og bloggið er dagbókin mín og heimildabanki síðan í desember 2006. Það er einfaldast fyrir mig að birta allt sem ég skrifa annars fer skipulagið út um þúfur. Það er líka þannig að ef ég skrifa til að birta ekki verður frágangurinn allt öðruvísi og handvömmin meiri. Og svo er málið að það eru ótrúlega margir sem sem ég sé að lesa bloggin mín, meira að segja þessa löngu lýsingu af ferð upp í Dali. Minn skilningur er sá að fólk sækist ekki endilega eftir hetjudáðum og spennulýsingum, það er eins og mörgum líki vel að lesa um einfalt líf, líf sem í raun er eins og líf flestra, en samt vill fólk lesa um það.
 
Indæla og virkilega minnisstæða heimsóknin til Susönnu dregst einhverja daga, en þegar ég birti hana verður þessi Dalaferð orðin að hluta þess geymslubanka sem bloggið mitt er.
 
Frá Främby Udde resort
Veitingahús sem tilheyrir sumarhúsasvæðinu þar sem við vorum.

Dalirnir eru góðir heim að sækja

Að koma upp í Dali var fyrir mig mikið annað og meira en að gista í góðu húsi með góðum félaga og sjá landslag og haustliti. Minningarnar eiga sér sæti þar vítt og breitt þar sem við fórum um. Eitt sinn sem oftar fyrsta árið okkar hér var ég með grúppu í bæ sem heitir Borlänge. Á leiðinni heim til Svärdsjö þar sem við bjuggum þá lá leiðin gegnum Falun. Það var desemberkvöld og kalt var það og fyrstu jólin okkar erlendis voru að bresta á. Ég hlakkaði til að koma heim í hlýja og bjarta íbúðina og vissi að Valdís væri að vinna við jólaundirbúning og kannski væri lykt af bakstri.
 
Þegar ég kom að bensínstöð Stadoil við Korsnäsvägen í Falun var þar allt upplýst af ólituðum jólaljósum, jólatré og öðrum skreytingum margskonar. Þetta leit allt öðru vísi út en ég hafði nokkru sinni séð áður fyrir jól og það greip mig svo sterk tilfinning þess efnis að ég væri staddur í útlöndum og að líf okkar Valdísar væri farið að hafa sinn gang hér mitt á meðal alls hins óþekkta. Ég var svolítið stoltur af því man ég og þar að auki var ég að koma heim frá að vinna í bæ sem var eina 50 kílómetra að heiman. Þarna vorum við búin að vera í Svíþjóð í tíu mánuði en það komu oft upp atvik þar sem það var eins og ég áttaði mig ekki á því að við værum virkilega búsett í þessu landi. Nú í þessari Dalaferð fórum við þarna framhjá í dagsbirtu og þá allt í einu eins og upplifði ég ferð mína um kvöldið í desember 1994.
 
Falun koparnáma hefur alltaf heillað mig og þegar ég var í sænskunámi, þá í Örebro, skrifaði ég ritgerð um námuna. Ég var búinn að heimsækja námuna mjög oft, fara niður í hana einu sinni og lesa mikið um hana. Þegar ég var að skrifa þessa ritgerð og leggja mig fram um að skilja þá menn sem unnu þar fyrir mörg hundruð árum og dóu ungir af þrældómi og slæmu umhverfi, þá fann ég til með þeim. Falun og Falunáman eru á heimsminjaskrá, meðal annars vegna þess að sérstaklega Svíþjóð varð ríkara land vegna námunnar og ekki bara Svíþjóð, náman hafði áhrif á fjárhag Evrópu. Svo er það líka staðreynd að þarna var farið að vinna málma fyrir 1300 árum. Þegar við Valdís fluttum út átti fyrirtækið Stora námuna og þá var Stora 700 ára gamalt fyrirtæki.
 
Við fórum niður í námuna á ferð okkar núna um daginn og mér fannst sem ég kæmist nær mönnunum sem unnu þar, dóu ungir, gerðu Svíþjóð og Evrópu ríkari og urðu til þess að Falun komst á heimsminjaskrá. Fjöldi hinna fallegu koparþaka í Svíþjóð og væntanlega svo víða annars staðar koma úr Falunkoparnámu. En hvílíkt erfitt vinnuumhverfi sem þeir hafa búið við. Leiðsögumaðurinn í þessari námuferð, ung kona, slökkti ljósin þegar við vorum lengst niðri og viti menn; myrkrið var fullkomið og kyrrðin var algjör. Ferðin niður í námuna var mjög áhugaverð og áhrifamikil. Að lokum vil ég geta þess að Valdís fór niður í námuna ásamt skóla sem hún var þá í og það var löngu áður en ég fór þangað niður. Það var margt sem hún gerði á undan mér í Svíþjóð eins og að fara í skóla, niður í Falunámuna, ferðast til Álandseyja og Finnlands. Og svo er ég ekki enn í dag búinn að koma því í verk að fara til nágrannalandsins Finnlands.
 
Fyrir nokkru minntist ég á hann Asbjörn í Svartnesi, norska manninn sem var átján ára 1944 þegar hann vann Þjóðverjunum mein með einhvers konar spellvirki. Ég bar virðingu fyrir honum og hitti hann all oft, en okkar fundir voru reyndar bestir þegar ég kom í Svartnes eftir að ég hætti að vinna þar. Ég vissi að Asbjörn hafði orðið ekkjumaður fyrir allmörgum árum og var í miklum vafa um það hvort hann væri sjálfur á lífi. Ég talaði um það við Kristínu að mig langaði að hitta þennan mann en það væri vafi í mér hvort ég ætti að banka upp á. Hún sagði mér mjög ákveðin að hika ekki við það og það reið nú baggamuninn. Við stoppuðum utan við húsið hjá honum og ég steig út. Þar með fóru tilfinningar mínar á fulla ferð. Ég sá snyrtilega skrifað á lítinn kupp sem var festur við hliðina á útihurðinni þessi tvö nöfn: "Asbjörn och Ingrid". Ég fékk gæsahúð.
 
Svo bankaði ég á hurðina og strax heyrði ég fótatak inni. Andartaki síðar opnaðist hurðin og Asbjörn stóð þar og horfði á mig. Ég fékk algerlega kökk í hálsinn þar sem ég stóð þarna og horfði á þennan 89 ára gamla mann. Hann gat vel verið faðir minn. Hann þekkti mig ekki en tók mér afar vel og sagði mér af högum sínum. Fyrst stóðum við á dyrapallinum. Ég benti honum á hvar við hefðum staðið við girðinguna forðum og talast við. Ég veit ekki hvort hann minntist neins frekar en hann treysti mér fullkomlega og talaði svo afslappaður en líflega við mig. Hann sagði mér að Ingrid væri dáinn fyrir ellefu árum og þá dró aðeins niður í röddinni. Það sagði hann mér líka síðast þegar ég kom til hans og þá var hann sorgmæddur maður. Svo töluðum við um myndir af húsinu hans og af Svartnesvatninu. Þá sagði hann mér að koma inn. Þar sýndi hann mér myndir á veggjum.
 
Svo sagði hann mér frá því að sjónvarpið hefði haft samband við hann fyrir nokkrum árum og beðið um viðtal. Hann féllst á það. Svo komu tveir stórir sendiferðabílar merktir sjónvarpinu sagði hann, og fjöldi manns hóf að bera áhöld út úr bílnum og stilla upp út um allt. Hvað er eiginlega í gangi hafði hann spurt fólkið og honum var svarað því að þarna ætti að fara fram sjónvarpsupptaka. Svo fór upptakan fram og þátturinn var sýndur í sjónvarpi.
 
Asbjörn sagðist langa að eignast þennan þátt og gefa börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum. Hann velti upp spurningunni hvort það væri hægt að fá svona þætti. Þarna var ég orðinn svo tilfinninganæmur að ég lofaði honum að athuga það. Ég er hreinlega til í að fara sérstaka ferð upp í Svartnes og færa honum upptökur af þættinum ef mér gengur vel. Það er einkennilegt hversu djúp áhrif þessi rólyndi skýrleiksmaður með sitt hreina hugarfar hefur alla tíð haft á mig. Maðurinn sem kom átján ára í Svartnes til að fela sig vegna hetjudáða sem hann hafði drýgt, hitti unglingsstúlkuna Ingrid og flutti aldrei aftur til Noregs. Þau hittust fyrst árið 1944 og leiðir þeirra skildu 2002.
 
Væntanlega munum við dvelja um stund í Svartnesi á morgun líka.
 
Þessi kirkja stendur við Stóra torgið i miðbænum í Falun og er þess verð að litið sé inn. Falleg er hún og hljótt er þar inni. Hún var tekin í notkun 1655. Predikunarstóllinn er einkar fagur og er gerður á árunum 1655 og 1656. Það leynir sér ekki að menn gátu byggt og smíðað á þessum árum. Hvort það var og er Guði þókknanlegt að leggja svona mikið í Guðshúsin læt ég ósvarað, en ég held að það sé ekki hægt að sýna mönnunum meiri virðingu, þeim sem þræluðu og þeim sem blæddi við að reisa slíkar byggingar, en að staldra við og finna áhrifin sem verk þeirra hafa á fólk enn í dag.
 
Úr brekkunum austan við Siljan. Rättvik leynist bakvið skóginn til hægri.

Dalirnir í haustlitum

Ekki svo marga kílómetra norðan við Örebro fer landslag að breytast þannig að það verða meira afgerandi hæðir, til og með hálfgerðar brekkur, og smám saman koma í ljós lág fjöll með skóginn upp á efstu toppa. Eina 80 kílómetra norðan við Örebro, við Kopparberg, hækkar landið og við tekur alvöru skógur og út úr honum er ekki komið fyrr en enn öðrum 80 kílómetrum norðar, skammt sunnan við Borlänge. Svo kemur Borlänge í ljós með hina virkilega stóru verslunarmiðstöð, Kupolen, í forgrunni.
 
Það var þetta sem ég og Kristín ferðafélagi minn og skólasystir upplifðum og fengum að sjá á sunnudaginn var. Fyrir hana var það algerlega nýtt en fyrir mig langþráð endurnýjun á kynnum við svæði sem ég hef mjög oft farið um en þó ekki á nokkrum síðustu árum. Mér fannst ég hafa næstum því barnalegar væntingar í tilefni þessara endurfunda við gömlu heimaslóðirnar og það er hverju orði sannara að upplifunin fyllti væntingarnar svo sannarlega.
 
Fyrsta myndin sem ég tók var af húsinu sem við höfðum tekið á leigu til þriggja nátta. Það var notalegt að koma að því og virða það fyrir sér og það var ennþá notalegra að opna og líta inn. Þvílíkt fínt hús, tvö herbergi, lítil stofa ásamt eldhúskrók og þetta líka fína baðherbergi. Gólfin fín, allt var fínt.
 
Svo var að athuga útsýnið. Það var nú það fyrsta eftir að hafa rennt auga í skyndi yfir húsið. Það var að vísu orðið of skuggsýnt til myndatöku en nákvæmlega það sem sést á þessari mynd litum við augum þó að myndavélarnar réðu ekki við það fyrr en daginn eftir.
 
Þetta vatn, Runn, með öllum sínum 365 eyjum var mér ekki ókunnugt þar sem við Valdís vorum búin að búa í íbúð með útsýni yfir það nákvæmlega frá vinstri á þessari mynd. En litirnir, þeir komu mér á óvart. Ég vil ekki kalla það skrautsýningu, það þarf að vera eitthvað mikið meira viðeigandi heiti sem ég nota ef ég á að vera ánægður með það. Litadýrð dugir eiginlega ekki heldur. Og ekki var óróleikinn á vatninu. Það var hægt að fara aftur og aftur þessa fáeinu metra sem þurfti til að líta yfir þetta.
 
Þær fara nú að verða hver annarri líkar þessar myndir, en á þessari leyfði ég mér að draga skóginn nær til að ná litunum betur.
 
Þessi gæti svo sem alveg verið frá Akureyri ef það væri fjöllóttara í bakgrunninum. Eftir þessari byggð endilangri höfðum við Valdís oft farið, bæði einsömul og með fólk sem kom til okkar. Og svo gengum við fram eiðið sem er lengst til hægri með trjánum á strjálningi. Svo tók við baðströnd sem er hægra megin við myndina. Þegar við fórum þetta í gærmorgun var búið að læsa slánni sem lokar leiðinni þangað og það var ekki beinlínis freistandi þá að leggja land undir fót.
 
Það var líka litadýrð við Siljan. Það var alveg endalaus litadýrð þar og það var ekki svo slæmt að fá þessi eldri hús með, hús sem eru orðin hluti af umhverfinu vegna aldurs síns. Og ekki er óræktin eða draslið á lóðunum þarna.
 
Ég er ekkert ókunnugur á þeim slóðum sem myndirnar eru frá, svæðum þar sem við Valdís hrærðumst í þrjú ár. Það er erfitt að fullyrða, en ég gat ekki látið mér detta í hug áður en við lögðum af stað í þessa ferð að þessi náttúrufegurð mundi blasa við okkur á þessum árstíma. Þar með verð ég að segja; fallegra en ég hef nokkru sinni séð það áður.
 
Eftir þessum myndum að dæma er eins og það hafi enginn verið heima í Dölunum, að ekki ein einasta mannvera hafi verið þar á ferli, heldur hafi myndavélin svifið þarna um og tekið myndir á eigin sýtur. En ég bara valdi að hafa þetta svona og svo set ég fleiri myndir og annað efni í blogg á morgun ef allt gengur eftir. Það er nefnilega hægt að segja margt um þessa ferð og þá fundi sem við áttum með fólki. Við hittum gott fólk og áttum frábærar spjallstundir með því. Ég hitti mann sem mig óraði ekki fyrir að ég mundi hitta og ég held að við höfum báðir orðið all vel hrærðir yfir óvæntum fundi okkar. Við hittum líka konu sem ég vonaðist til að hitta. Það var líka frábær fundur. Þetta efni ætla ég að eiga í blogg á morgun. Bloggið núna er bara inngangurinn í alvöru blogg um Dalaferðina sem ég hef talað lengi um.
 
Nú að húsinu aftur. Þegar við vorum búin að bera farangur okkar inn og sjá útsýnið eins og hægt var að sjá það þarna um dimmumótin þegar við komum heiman að, þá tókum við eftir því að það var kalt í húsinu. Þrátt fyrir miklar tilraunir til að bæta úr því tókst okkur það ekki. Það var ekki fyrr en að morgni sem eigendurnir komu hitanum í lag, en það þurfti að breyta einhverri stillingu frá sumarhita til hausthita. Við fengum lítils háttar afslátt og afsökunarbeiðni og eftir á kynntumst við því hversu mjög vingjarnleiki húss breytist þegar það hlýnar vel í því.
 
Hittumst væntanlega á morgun.

Minningartónleikar

Ég kom til Örebro úr ferðinni til Falun upp úr klukkan sex og það var orðið dimmt. Ég lagði bílnum utan við Kapellu Meistara Ólafs nyrst í Örebro og gekk móti innganginum að kapellunni, sömu leið og ég gekk þegar ég sótti ösku Valdísar þann 31. maí í vor. Síðustu 30 metrana eða svo að innganginum gekk ég milli tveggja þéttra raða af kertum sem búið var að kveikja á. Þegar ég kom inn í andyrrið var enginn þar fyrir en inni í kapellunni sjáfri var fólk að æfa söng. Ég var fyrstur til að mæta á minningartónleika sem útfararstofan sem annaðist útför Valdísar hér í Örebro hafði boðið mér bréflega að vera viðstaddur í kvöld. Innan tíðar var komið þarna fullt af fólki.
 
Ég veit ekki alveg hvernig ég á að orða það, en kannski einhvern veginn á þá leið að ég hafði engar stærri væntingar til þessara tónleika en enga fordóma heldur. Eða kannski vildi ég bara ekki hugsa um þá fyrr en ég væri kominn þangað. Ég alla vega talaði mjög lítið um þá. Klukkan sjö hófust tónleikarnir með því að maður og kona sem störfuðu á útfararstofunni léku ótrúlega fallega á píanó og klarinett þrjú alveg frábær, þekkt lög. Síðan kom það í ljós að fólkið sem við höfðum séð að störfum á útfararstofunni í þau skipti sem við komum þangað síðastliðið vor, það söng og lék á alls konar hljóðfæri. Þetta fólk hafði þá búið yfir hæfileikum sem það bar alls ekki utan á sér.
 
Þarna voru líka til aðstoðar maður og kona frá Örebro sem eru þekkt í tónlistarlífinu. Það voru sextán lög á dagskránni, ýmist leikin eða leikin og sungin. Níu af þessum lögum voru lög sem Valdís hafði mjög miklar mætur á og þetta gerði mig svo sannarlega undarandi og ekki slapp ég óhrærður frá því. Ekki á ég von á því að konan hans Evert Taube, ljóða og lagasnillingsins mikla, hafi unað alveg glöð við sitt þegar hann drakk gullin vín og skemmti sér meðal fagurra kvenna. En einhvers staðar innra með honum hefur alvaran þrátt fyrir allt borið sigur úr bítum. Þarna var sungið ljóð eftir eftir Taube við lag eftir hann sjálfan, ljóð sem lauk með þessum línum:
 
Stríði þínu er lokið.
Máninn lýsir.
Vornæturvindur svalar þér.
Sofðu á armi mínum.
 
 
Nú er haust og það eru engir vorvindar, máninn lýsir ekki á Sólvöllum. Laufverkið frá í vor hefur gulnað og fellur ört til jarðar. Í dag er nákvæmlega hálft ár síðan ákveðnu stríði lauk. Það var vor þá, þann 16. apríl. Á hálfs árs deginum voru þessir minningartónleikar haldnir sem voru til minningar um alla þá sem hafa kvatt síðan eitt ár til baka. Ég hafði engar stærri væntingar en enga fordóma heldur sagði ég í upphafi. Nú í kvöld hef ég verið mikið þakklátur fyrir þessa tónleika þó að þeir hafi komið af stað miklu, miklu róti. Þeir komu af stað hugsanaferli sem nú hefur að mestu hjaðnað því það er komin nótt. Nokkrir klukkutímar hafa liðið og hugsanaferlið var mikilvægt fyrir mig sem fullorðinn mann að ganga í gegnum.
 
Það var mikið af kertum á tónleikunum í kvöld og meðan á þeim stóð var kveikt á þremur kertum til viðbótar. Síðasta kertið sem kveikt var á var fyrir framtíðinni. Á morgun er framtíðin, nýr dagur með nýjar væntingar, nýja atburði og nýjar athafnir. Í kvöld, þann 16. október, var staldrað við á minningartónleikunum en svo heldur lífið áfram.

Ferðafélaginn

Kristín Guðmundsdóttir var ein af 1959 útskriftarárganginum í Skógum. Hún kom víða við í lífinu eftir það og rak meðal annars verslun á Laugaveginum í Reykjavík um tíma. Einhvern tíma upp úr 1980 hittumst við á gangstétt í Reykjavík og hún sagði að við Valdís skyldum endilega líta við í versluninni og hún gæti boðið upp á kaffibolla. Svo gerðum við og mér er minnisstætt hvað hún var almennileg gagnvart Valdísi. Mér þótti alla tíð vænt um það þegar mínir vinir og kunningjar hittu hana og hún fékk líka að njóta vingjarnlegheita þeirra.
 
Á Hríseyjarárunum vantaði mig peninga fyrir húsbyggingu. Þá hringdi ég í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins til að ræða lánamöguleika. Mér var svarað af hjálplegri konu sem gaf mér samband við rétta deild. En áður en af því varð áttaði ég mig allt í einu á kunnuglegri röddinni og spurði hvort þetta væri ekki Kiddý. Jú, það var Kiddý. Þessu var ég alveg búinn að gleyma. Hún minnti mig á þetta þegar hún heimsótti okkur á Sólvöllum í sumar, en þá voru Rósa og fjölskylda líka stödd hér. Þegar hún talaði um þetta rann minningin upp fyrir mér.
 
Þegar við Skógaskólaliðið sem útskrifuðumst 1959 hittumst í skógum 2009, nokkrum mánuðum áður en ég fékk nýja mjaðmarliðinn, þótti mér svo óttalega hallærislegt að vera haltrandi og í gönguferð að Kvernufossi austan við skólann hafði ég ekki alveg við liðinu. Og ég segi það aftur að mér fannst þetta ástand mitt svo óttalega hallærislegt innan um þetta annars hressa fólk. Ég var Kiddý þakklátur fyrir að dragast líka aftur úr á leiðinni til baka og nenna að ganga með mér á mínum hraða. Það var eins og það væri aðeins uppreisn æru.
 
Þegar þessi lágvaxna, unga, fallega kona gekk um gangana í Skógum haldandi báðum höndum um bækurnar sínar og pennaveskið framan á maganum fannst mér alltaf, feiminn og hlédrægur sem ég var, að hún væri bæði þroskaðri og eldri en ég. Samt var hún yngri. Þetta gerði mig ennþá feimnari við hana. Hún var líka þroskaðri en ég og er enn í dag. Sína tryggu hönd hefur hún rétt út til margra þar sem veikindi eða erfiðleikar hafa lagst af þunga á fólk eða þar sem ellin hefur gert öldungum lífið mótsnúið. Og dætrum sínum fylgdi hún vel úr hlaði og kom þeim efnilegum út í lífið. Fyrrum sveitungar mínir og síðar nágrannar hennar hafa líka dáðst að elju hennar og góðum eiginleikum. Samt hefur lífið ekki farið neinum silfurhönskum um hana.
 
Nokkrum sinnum þegar Kiddý hefur dvalið hjá dóttur sinni í Västerås hefur hún komið í heimsókn til okkar. Þegar við gengum út að bílnum hennar í lok einnar heimsóknarinnar sagði hún; mér fellur vel við konuna þína. Í öll skiptin talaði hún um að við Valdís ættum að koma við hjá henni líka þegar við værum í Stokkhólmsferðum. Svo gerðum við þó aldrei þegar við fórum í heimsókn til Rósu og fjölskyldu þó að við færum alltaf í gegnum Västerås að minnsta kosti í annarri leiðinni.
 
Aldrei heimsóttum við sem sagt Kiddý en hún gafst ekki upp á okkur fyrir það. Hún er eins og ég sagði trygglynd kona með afbrigðum. Eftir öll mín góðu kynni af henni spurði ég hana hvort hún vildi ekki koma með mér upp í Dali þegar ég kæmi því í verk að fara þá ferð. Og á morgun, sunnudag, leggjum við af stað í þriggja eða fjögurra daga ferð þangað. Við höfum leigt minna sumarhús á mjög fallegum stað við hið fallega stöðuvatn Runn sem liggur inn að hjarta Falun.
 
Ég hef valið mér góðan ferðafélaga
 
Það eru engir sumarhitar lengur en það eru haustlitir og ef ég þekki Dalina rétt munum við ekki verða svikin af náttúrufegurðinni þar uppi og spáin er góð miðað við árstímann. Ég tel mig vel að því kominn að hvílast eftir strit mitt undanfarið og ég veit að Kiddý hefur að vnda ekki slegið slöku við heldur í þeim verkefnum sem hafa fallið henni í skaut.
 
Þessi mynd var tekin af Kiddý eftir gönguferð um Sólvallaskóginn í júlí í sumar.

Leyndarmálið margnefnda

Þegar við keyptum Sólvelli var húsið jú bara sumarbústaður og stóð á steinstöplum sem sem við köllum plinta hér í landi. Mér finnst það bara alveg ágætt orð. Svo stækkuðum við sumarbústaðinn og höfðum viðbygginguna líka á plintum, það samsvaraði sér best þannig. Mörgum finnst þetta mjög góður byggingarmáti fyrir sumarhús þar sem þau halda sér þá vel þurr. En svo kom að því að við breyttum sumarhúsinu í heils árs íðbúðarhús og byggðum aftur við það. Þá var ekkert tal um hlutina, viðbyggingin var byggð á grunni hlöðnum úr múrsteinum sem hér er góð og gild aðferð líka. Nú fór svo að mér leiddist alveg hræðilega að hluti hússins skyldi standa á plintum og ég hreint út sagt hálf skammaðist mín fyrir það og var mjög ákveðinn í að lagfæra það. Það eru til margar góðar myndir af húsinu frá þessu sjónarhorni en ég hef alltaf forðast að nota þær þar sem ég vildi ekki hampa plintagrunninum of mikið.
 
Ég var ákveðinn í að laga það sagði ég. Menn vissu að þetta hefði verið framkvæmt en engan fann ég sem hafði gert það eða hafði nokkra reynslu af því. Það varð því minn höfuðverkur að finna út úr því. Mín heilabrot stóðu þrjú ár og þá taldi ég mig tilbúinn til að takast á við lagfæringuna. Ég talaði við byggingarfulltrúann og spurði hann hvort hús á plintum væri jafn traust hús og hús á öðrum grunni. Hann fullyrti að svo væri. Það var því sjálfgefið að ráðast í framkvæmdina en ég skal viðurkenna að ég hlakkaði ekki til vegna þess að ég vissi að þetta yrði óttaleg skítavinna.
 
Já, þetta er ekki björgulegt undir íbúðarhúsinu Sólvöllum. Hann Jónas nágranni minn sagði fyrir ekki svo löngu síðan að það hefði kannski verið best í upphafi að rífa gamla húsið niður og byrja frá grunni. Auðvitað hafði ég hugleitt það. En þó að það sé í raun lítið eftir af því elsta í Sólvallahúsinu, þá er það nú svo einkennilegt að þetta íbúðarhús ásamt Bjargi er líklega einni sænskri miljón ódýrara en það hefði orðið ef byrjað hefði verið frá grunni. Ég veit hvað ný hús kosta og ég veit nokkuð hvað Sólvallahúsin kosta í dag. Sólvellir og Bjarg eru mjög vel byggð hús, látlaus og einföld, en vel byggð. Snobbið sem hefði fylgt því að byrja frá grunni hefði samkvæmt mínum skilningi kostað eina sænska miljón. Vinnan mín er að vísu líka stór þáttur í þessum mun. Ég hefði aldrei farið út í slíkan kostnað. Sólvellir er hús með persónuleika og góðan anda þrátt fyrir látleysið. En íbúðarhús á plintum! Oj hvað mér leiddist það.
 
Ég var ekki tilbúinn fyrr en við sólsetur í kvöld að taka þessa mynd. Skítavinnunni var þá lokið. Alla vega þarf ég ekki lengur að liggja í skurðinum sem ég gróf meðfram húsinu til að geta gert þetta. Mikið var notalegt fyrir mig að virða fyrir mér húsið um hálf sjö leytið í kvöld þegar ég var kominn svona langt og hægt var að taka myndina.
 
Leyndarmálið var ekki merkilegra en þetta en fyrir mig var þetta mjög merkilegur áfangi. Ég held að ég fari rétt með það að nú er lokið vondum verkum á Sólvöllum. Eftir eru mörg verk en þau er flest hægt að vinna með fæturna nokkurn veginn niður og höfuðið upp. Það er mun notalegra þannig. Ég þarf við tækifæri að mála lokaumferð á fimm gluggum, að ljúka við baðherbergið á Bjargi, að raða viði inn í geymslu, að grisja í skóginum og allt mögulegt í þessum dúr. Þetta má allt bíða í eina viku, tvær eða þrjár og það er hægt að taka hlé í miðju verki og lesa, eða blogga um miðjan dag, eða að skreppa inn í Örebro án þess að hafa ögn á tilfinningunni að ég megi ekki vera að því.
 
Á morgun þegar ég verð búinn að borða morgunverð og setja rúgbrauð í bakarofninn ætla ég út og snyrta kringum húsið. Það verður bara skemmtiverk og ég er búinn að finna góða staði fyrir þessa afganga sem eru þarna. Verkfærin fara svo á sinn stað og eftir þetta geng ég svolítið fram og til baka til að virða fyrir mér og njóta þess sem ég hef gert. Svo fer ég inn og fæ mér kaffi og í skúffu er til súkkulaði til að hafa með kaffinu. Ef það verður sól og gott veður fer ég kannski út með kaffið og súkkulaðiblokkina. Og ef ég sit þá framan við húsið munu þeir sem ganga hjá segja; fint det har blivit. Svo sagði hann Ívar nágranni í dag. Moldina undir gaflinum sái ég ekki í fyrr en að vori. Á sunnudaginn fer ég svo upp til Falun til að halda upp á áfangann og hvíla mig.
 

Að gleðjast yfir litlu

Það er einkennilegt aðdráttarafl sem það hefur að setja orð á blað (eða á skjá). Ég var svo fullkomlega ákveðinn í því að það yrði ekkert bloggandi í kvöld, en svo er ég tilbúinn í bólið og búinn að bursta og pissa og þá sest ég hérna og set í gang. Ég var seint fyrir, fór á AA fund, og þegar ég kom heim klukkan hálf níu byrjaði ég á matargerð og var ekki búinn að borða fyrr en á tíunda tímanum. Kannski ekki alveg það besta fyrir þann sem segist hafa heilsuna í fyrirrúmi. En nú verður það ekki aftur tekið.
 
Það gengur vel með leyndarmálið sem ég er búinn að segja að ég afhjúpi seinni part vikunnar. Annað kvöld, fimmtudagskvöld, var líklegur tími, en það er spáð rigningu allan morgundaginn þannig að ég get kannski ekki gert það sem til stóð. En á eftir fimmtudeginum kemur föstudagur og þá er ekki spáð rigningu. Kannski get ég þá gert það sem ef til vill verður ekki hægt að gera á morgun. En alla vega; eftir annan hvorn daginn verður afhjúpun.
 
Ég fékk óvæntan glaðning í dag. Svoleiðis var að fyrir tæpum þremur vikum sáði ég grasfræi í dálítið svæði, nokkuð sem hefði þurft að ske einni og helst tveimur vikum fyrr. Ég gerði þetta með algerri óvissu eða þannig að ég taldi jafn miklar líkur á að það tækist og að það mistækist. Svo varð bæði kaldara og þurrara en ég hélt að yrði þannig að ég afskrifaði þetta með öllu núna undir síðustu helgi og var hættur að fylgjast með spíruninni. Ég var reiðubúinn að taka þessa áhættu. Grasfræið kostaði nokkur hundruð krónur og það yrðu þá bara ný innkaup að vori.
 
Svo var ég að störfum hér úti í dag og var eitthvað litið yfir moldarsvæðin með nýsáningunni. Mér sýndist einhver breyting vera á ferðinni, eins og einhver grænleit slæða hefði lagst yfir moldina. Ég lagðist á hnén, lagði vangann næstum á jörðina til að sjá nógu flatt á svæðið því að þannig sést best hvort það er byrjað að spíra. Og hvað haldið þið? Það voru komin mörg, mörg, mörg græn strá svo sem tveggja sentimetra há. En ef einhver hefur séð mig í þessari stellingu er spurning hvort sá hinn sami hafi verið alveg viss um að það væri allt í lagi með þennan undarlega krjúpandi mann.
 
Ég þarf ekki meira en þetta. Þetta var svo gaman og ég hringsnerist þarna og næstum hoppaði upp úr stígvélunum af kæti. Ekki peninganna vegna, heldur vegna þess að eitthvað hafði tekist. Og þó! Ég fór inn, kveikti á sjónvarpinu og leit á veðrið á textavarpinu. Ágætis spá. Svo fór ég í tölvuna og leit á tíu daga spána. Sama þar. Ágætis spá í heila viku að minnsta kosti og rigning á morgun. Það var í lagi að vera glaður. Síðan er gras að vaxa hér alveg fram í nóvember þannig að það eru mestar líkur að þetta takist vel.
 
Það er ríkidómur að gleðjast yfir litlu, gleðjast yfir að eitthvað hafi tekist þó að það sé ekki endilega stórt.

Hugsanir tengdar verönd

Hér um daginn gekk ég með stunguspaðann að þremur alparósum, stakk þær upp og henti í hjólbörur. Svo fór ég með þær út í skóg og henti ofarlega í greinahaug sem Pétur tengdasonur hlóð upp í sumar þegar hann tók höndum um fimm birkitré sem voru felld bakvið húsið. Þarna var ég að jafna og móta lóðina kringum nýju veröndina og þá var tími alparósanna runninn upp.
 
Valdísi langaði svo að hafa fleiri alparósir og svo keyptum við þær fyrir fáeinum árum. Við fórum kannski öfuga röð með þetta. Fyrst hefðum við átt að velja þeim stað en það gerðum við ekki. Við gerðum það eftir að við höfðum keypt þá liti sem Valdísi langaði í. Svo fundum við enga góða staði fyrir þær en gróðursettum þær samt. Í fyrra sagði Valdís að það væri best að taka þær bara burtu því að staðsetningin væri ómöguleg. Það var rétt hjá henni en það var ekki fyrr en þennan dag fyrir stuttu sem ég lét þær hverfa.
 
Í fyrra stóð til að byggja þessa verönd en svo varð ekki af því. Því var slegið á frest um óákveðinn tíma. Síðan stakk Rósa upp á því á ný, eða dæturnar báðar, að byggja pallinn. Þar gæti Valdís svo væntanlega haft sæmilega tilveru í sumar. Svo varð það þó ekki en pallurinn byggðist eigi að síður, nokkrum mánuðum seinna en til stóð. Sumir segja að Valdís sé hér meira og minna og hafi auga með mér. Um það verð ég samt að segja að ef það er hlutverk Valdísar nú í framhaldslífinu að hafa auga með mér, sérvitrum og misjafnlega leiðinlegum, þá er framhaldslífið ekki svo magnað að koma til. Ég ætla bara rétt að vona að hún fái stærri umbun en svo eftir að hafa af mikilli tryggð annast sitt hlutverk mjög svo samviskusamlega í jarðlífinu.
 
Í nokkur ár vann Valdís á heimili fyrir aldraða í Örebro í bæjarhluta sem heitir Vadköping. Þar var líka fólk sem var ekki svo gamalt en hreinlega glímdi við mikla erfiðleika. Þar var meðal annarra maður sunnan úr Evrópu, maður á góðum aldri en fatlaður og sat í hjólastól. Hann gat heldur ekki tjáð sig í tali. Valdísi var mjög í mun að aðstoða svona fólk og það var kannski vegna þess að hún lagði hart að sér við það að hún varð að hætta að vinna fyrr en ella.
 
All löngu eftir að Valdís hætti að vinna í Vadköping var hringt til hennar þaðan og henni boðið að koma á samkomu sem haldin var fyrir íbúa heimilisins og starfsfólk. Það vildi hún svo gjarnan og eftir á sagði hún mér þessa sögu: Það var söngatriði og hún stóð ásamt starfsfólkinu aftan við vistfólkið og fylgdist með. Allt í einu fann hún eitthvað koma upp að hlið sér og það var tekið var í hendina á henni. Þar var þá kominn maðurinn sunnan úr Evrópu og svo var hann þarna við hlið Valdísar þar til öllum atriðum var lokið og hann sleppti ekki hendi hennar allan tímann.
 
Eitthvað vildi þessi maður segja henni og eitthvað var það væntanlega sem hann vildi þakka fyrir. Ég ætla að vona að herrann sem ræður á himni háum eigi í fórum sínum betri verðlaun til handa Valdísi fyrir vel unnin verk í jarðlífinu en að hún þurfi að dvelja hér hjá mér langtímum saman. Óski ég þess er ég afar sjálfselskur og vanþakklátur fyrir það sem hún gerði fyrir mig á þeim fimmtíu og þremur árum sem hún dvaldi með mér. Ég óska henni oft velfarnaðar og bið þess innilega að það sé vel hlúð að henni.
 
En mikið væri hún velkomin að Sólvöllum og gjarnan að hún settist við hlið mér í hengirólunni á veröndinni bakvið húsið eitthvað kvöldið þegar ég sit þar. Og mest af öllu þætti mér vænt um ef ég fynndi að tekið væri í hönd mína á þann hátt að ég væri viss um að hún hefði eitthvað að þakka mér fyrir eins og Evrópumaðurinn forðum vildi þakka henni á heimilinu í Vadköping.
 
Valdís talaði oft um Evrópumanninn í Vadköping og þótti sem örlögin sem féllu honum í skaut væru afar þung og að ekki væri réttlátt að slíkt þyrfti nokkur maður að lifa við.
 
*          *          *
 
Fyrir nokkrum dögum steig ég út úr þvottahúsinu út á veröndina og hugsaði um leið að þessi verönd átti að vera fyrir Valdísi, mjög hugsanlega síðasta sumarið hennar og hún átti að geta gert það besta mögulega úr lífinu þarna utan við austurhliðina þar sem heldur væri hlé fyrir sólinni. Smiðurinn Anders ætlaði að vinna þetta að stórum hluta og meira að segja að grafa fyrir stöplunum undir veröndina með mér. Hann vildi svo sannarlega vera hjálplegur. Svo skiptust veður í lofti fyrr en nokkurn óraði og þessari byggingu var slegið á frest.
 
Hugsunin um þetta kemur upp alltaf öðru hvoru en núna í þetta skipti var það einhvern veginn sterkara en venjulega. Þarna rétt innan við gluggann sem ég stóð nú utan við sat Valdís oft og ég var hingað og þangað og sýslaði við mitt. Skrapp alltaf öðru hvoru inn og við töluðum saman litla stund. Allt í einu var sem ég heyrði Valdísi segja; farðu nú bara og haltu áfram, ég ætla að reyna að hvíla mig, "ég verð að hvíla mig svo að mér geti batnað". Þessi orð gerðu mig svo leiðan "ég verð að hvíla mig svo að mér geti batnað". Hún virtist alla vega oft trúa því fram á það síðasta, eða hugsanlega allan tímann, og ég reyndi að trúa því. Það var eins og hennar bestu stundir væru í þessum stól og að henni gengi betur að hvíla sig þar en í rúminu sínu.
 
Óskaplega varð þessi dagur sorglegur um tíma. Hver hugsunin af annarri rann gegnum huga minn og hver setningin af annarri ómaði í eyrum mínum.
 
Ég hélt áfram, gekk út af veröndinni, sneri mér við og virti hana fyrir mér og það varð svo mikið "ef" í kringum svo mikið. Ef ég hefði, ef eitthvað annað og ef eitthvað hitt. Þetta "ef" hefði engu breytt en á vissum stundum kemur það aftur og aftur.
 
Það er búið að gera allmiklar skúrir í kvöld eftir að það varð dimmt og rigningarhljóðið berst inn. Þetta er eins og það á að vera og þrátt fyrir skúrirnar og rigningarhljóðið er góð kyrrð ríkjandi á Sólvöllum. Sólvellir er góður staður og hefur fengið alla umönnun til að vera það.

Munn- og fótmálarar

Valdís var áskrifandi að jólakortum hjá Félagi munn- og fótmálara og jólakortin fékk hún á haustin. Í dag kom jólakortaumslagið frá þeim, vel í tíma eins og venjulega, og á Valdísar nafni. Þar er nokkuð sem ég þarf að breyta. Ég vil ekki hætta að fá þessi kort en það er nú best að framvegis komi þau á mínu nafni. Ég ber mikla virðingu fyrir þessu fólki sem getur gert svo ótrúlega hluti með munni, fótum eða bara einum fæti.
 
Kortunum fylgir alltaf bréf og gíróseðill en það er engin upphæð á gíróseðlinum. Það segir hins vegar í bréfinu að kortin kosti 99 sænskar krónur, en við höfum alltaf sett hærri upphæð á gíróseðilinn. Út á það hefur Valdís stundum fengið aukasendingu af einhverju forvitnilegu frá þessu fólki. Konan þarna á myndinni er Lena Maria Klingvall sem fæddist handa og handleggjalaus og aðeins með annan fótinn í lagi. Hinn er mjög stuttur. Lena Maria skrifaði þetta bréf með fætinum. Beinar og jafnar eru línurnar og fallegt form á stöfunum og ekki er fýlusvipur á andlitinu þrátt fyrir fötlunina. Hún hefur margsinnis keppt í sundi fatlaðra og hún hefur einnig haldið mjög marga tónleika í Japan. Hún kemur líka oft fram í sænskum tónlistar- og söngþáttum.
 
Þegar ég opnaði bréfið með ótrúlega fallegu jólakortunum í dag ákvað ég að segja eitthvað um þetta duglega fólk. Ég veit að ég hef gert þetta áður en mér fannst ekki skaða að gera það aftur. Hér með er ég búinn að því.

Hljóðláta sinfónían

Uppistaðan í því besta sem ég hef alltaf fyrir augum mínum út um austurgluggann þegar ég stit við tölvuna eru tveir hlynir. Einhvern tíma síðsumars lýsti ég því að sitji ég úti á litlu veröndinni utan við herbergið mitt í hægum vestan andvara, láti augun nema staðar á einhverjum punkti mitt í grænu laufhafi þessara hlyna, horfi ekki á neitt en slappi af og láti hugann reika, þá verði iðandi laufhaf þeirra eins og tónverk þar sem heil sinfóníuhljómsveit leikur af mildi á fína strengi, blásturshljóðfærin óma mjúklega við varir snillinganna og burstarnir líða fimlega yfir trommuskinnið.
 
Með orðum síðsumarsins lýsti ég þessu þá, orðum sem ég man ekki lengur, en með orðum haustsins lýsi ég því núna. Léttleikinn í leik sinfóníuhljómsveitarinnar er ekki sá sami, tónar hennar eru meira í skyldleika við kvöldið, hún leikur í öðrum dúr og treginn hefur lagt milda nærveru sína yfir sviðið. Það eru aðeins trommurnar sem hafa styrkt nærverun sína, með þyngri slögum sem burstarnir ráða ekki við og það er eitthvað kraftmeira sem hefur leyst þá af.
 
Haustlaufin falla þýðlega til jarðar og vekja í mér trega, vindurinn er skarpari og bærir ekki lengur laufið eitt, hann setur allt tréð á hreyfingu, hugur minn reynir að sameinast nýrri árstíð og ég sakna sumarsins. Hlynirnir eru eins og þeir hafi allt í einu orðið eldri, en við hlið þeirra eru aðrir hlynir, minni, en að vori ætla þeir að sameinast laufverki þeirra stóru og skapa nýja fyllingu í tónaflóð sinfóníuhljómsveitarinnar.
 
Þannig byrjar dagurinn í dag hjá mér hér á Sólvöllum. Svo ætla ég að vera þátttakandi í lífinu í dag og njóta þeirra tóna sem árstíðin býður mér upp á.
 
 
Hlynirnir mínir mitt í hafinu.

Einbúi rétt einu sinni enn

Um kvöldmatarleytið var smá vindbelginur og hiti um tíu stig. Það var eins og það væri kalt en samt var ekki kalt. Auðvitað, ef mið er tekið af sumarhitanum sem stóð næstum mánuðum saman, er þetta árans kuldi en eftir á að hyggja var besta veður allan daginn. Samkvæmt veðurspánni var mesti hiti í dag hér í suðurhluta Svíþjóðar nítján stig. Spáin á morgun gerir ráð fyrir að mesti hiti geti aftur komist upp í þessi nítján stig en væntanlega þó ekki á mínum slóðum. Ég er búinn að kveikja upp í kamínunni fyrir nokkru og það er notalegt hér á Sólvöllum.
 
Helgargestirnir héldu heim á leið upp úr hádegi og ég fylgdi þeim úr hlaði. Við komim við í Svampinum í Örebro og fengum okkur hressingu, til dæmis kaffi og væna rækjubrauðsneið. Síðan héldu þau austur á bóginn áleiðis til höfuðborgarinnar en ég hélt heim til Sólvalla og minna athafna hér heima. Athafnirnar fyrir og eftir brottför þeirra voru ansi ólíkar.
 
Svona var það fyrir brottförina. Hér gefur að líta tvo unga menn með fjarstýrða rafmagnsbíla. Þeir óku þvers og krus kringum veröndina, mættust dálítið djarft og fóru í kappakstur sem sá á rauða jakkanum með græna bílinn vann jafnan. Afi kenndi því um að barnabarnið hefði fengið betri bíl til umráða, en hins vegar getur afi ekki sagt mikið vegna þess að það var hann sem valdi rauða bílinn í verslun inn í Marieberg og gaf barnabarninu í afmælisgjöf. Afi getur bara átt um þetta við sjálfan sig.
 
Og ég sem auðvitað er afinn get ekki séð þegar ég horfi á þessa mynd að ég líti svo þunglyndislega út þrátt fyrir allt. Ég er með ráðagerðir um að byggja brýr á veröndina þannig að það sé hægt að aka þessum viðbragðssnöggu bílum upp og niður af veröndinni. Það yrði góð einbeitingaræfing fyrir alla að taka þátt í þeirri íþrótt.
 
Þarna var ekið í návígi en samkomulagið var gott og það var ekki tiltökumál þó að ég æki stöku sinnum yfir litlu tærnar á barnabarninu mínu. En aftur að þessu með brýrnar. Ég sá í versluninni þar sem ég keypti rauða bílinn að það er líka hægt að kaupa þyrlur með sama útbúnaði. Ég met það svo að ef ég mundi ekki ná tökum á að aka upp og niður brýrnar, þá mundi ég ekki ná tökum á þyrlunni og mundi þá líklega alveg sleppa að kaupa hana. Eða hvað?  :)
 
Þegar við komum efst upp í Svampinn lyfti ég Hannesi og sýndi honum útfyrir brjóstvörnina sem umlykur útivistarsvæðið þar. Þegar hann leit þarna suðvestur yfir Örebro varð honum að orði: mörg hús. Svo var ekkert meria um það.
 
Ég nefni oft Kilsbergen. Þau eru þarna úti við sjóndeildarhringinn og væru kannski frekar kölluð hæðir á Íslandi en fjöll. En vissulega ekur maður upp dálitlar brekkur þegar ekið er upp í Kilsbergen og þar er víða mjög fallegt. Þessi mynd er líka tekin úr Svampinum, tekin móti vestri.
 
Hversu vel sem okkur Hannesi kemur saman, þá snýr hann mjög oft upp á sig þegar ég beini að honum myndavélinni. Þarna fékk ég þó að taka eina mynd af Stokkhólmsfjölskyldunni allri þar sem þau horfðu til suðvesturs í átt til Sólvalla. Eftir myndatökuna fórum við inn og völdum okkur meðlæti með kaffinu. Síðan skildu leiðir.
 
Vírnetið þarna var sett upp í fyrra og það best ég veit á að fjarlaægja það aftur að vori. Það er líka mikil sjónmengun að því.
 
Nú er aðeins glóðin eftir í kamínunni og ég var að slökkva á viftunni sem dreifir hitanum frá henni. Viftan var búin að vera í gangi smá stund, en þegar hún þagnaði varð svo undur hljótt. Innan skamms er það bara að bursta og pissa og draga svo ullarfeldinn upp að eyrum. Golukaldi duflar við loftventilinn á vesturveggnum en ég læt það ekki á mig fá og minnist bara veðurspárinnar frá klukkan átta í kvöld. Verkin sem ég ætla að fást við í vikunni eru öll einföld og létt miðað við þau verk sem ég hef haft með höndum síðustu dagana núna fyrir helgina. Ég á bjarta daga í vændum í vaxandi skammdegi.

Spurningin er

Spurningin er: Hvað getur þetta verið? Svarið er ósköp einfalt; þetta er súpa. En þetta er ekki hvaða súpa sem helst. Efnið í hana óx úti við skógarjaðarinn á Sólvöllum og heitir grasker. Rósa og fjölskylda komu í gær, meðal annars til að fylgjast með á Sólvöllum og einnig til að undirbúa og ganga frá varðandi matjurtaræktina sem þau sáu um. Graskerið sem fór í þessa súpu og annað grasker til tók ég inn fyrir viku eða svo þegar næturfrost gengu í garð. Ef ég hefði verið einn með matjurtarækt hér hefði mér aldrei dottið grasker í hug, en sannleikurinn er sá að það hefur verið gaman að fylgjast með þessu, fyrir mér framandi fyrirbæri, og mér var annt um að vökva í þurrkunum seinni hluta sumars.
 
Það var næstum viðhöfn í Sólvallaeldhúsinu seinni partinn í dag þegar Pétur opnaði stóra graskerið. Rósa og Pétur hlógu og Hannes fylgdist broshýr og áhugasamur með. Ég var líka stór forvitinn enda hafði ég ekki hugmynd um hvað mundi birtast þegar þessi uppskurður átti sér stað. En það sem birtist var einhver aragrúi af fræjum og þráðum og ég var fljótur að ímynda mér eitthvað varðandi þræðin; þeir voru auðvitað flókið taugakerfi, ekki nema hvað? En það var líka mikið af kjöti, heil 4,75 kg af hreinu graskerskjöti. Þetta var nú spennandi.
 
Svo var mér stillt upp við eldhúsbekkinn -nei, reyndar var það ekki svo, ég var mjög fús til að fylgjast með súpugerðinni vegna þess að þrjú og hálft kíló af þessu kjöti er nú í frosti hér heima, sem er jú mikið og gott hráefni handa mér ásamt mörgu öðru sem leynist í frostinu. Ég er ekki matarlaus og það er býsna fjölbreyttur forðinn og kokkamennsku minni vex óðum ásmegin eftir því sem skammdegið eykst. Góð var súpan og saðsöm og þennan dýrindismat hef ég aldrei smakkað áður. Þau fara svo með minna graskerið með sér heim á morgun og annað af svipaðri stærð eru þau þegar komin með heim.
 
Ég hef verið ódrjúgur til verka í dag, enda hefur ekki beinlínis staðið til af minni hálfu að afkasta miklu. Þau hin voru duglegri. Ég að vísu gerði eina uppskrift af rúgbrauði sem ég skellti í ofn og var mikið ánægður. Nokkrum klukkutímum síðar var ég að undirbúa pönnukökubakstur og þegar ég fók fram lyftiduftið til að setja í pönnukökudeigið uppgötvaði ég hræðilegan hlut. Ég hafði sett lyftiduft í rúgbrauðið í staðinn fyrir natron. Ég var nálægt því að slökkva á ofninum og henda bakstrinum án frekari orðalenginga.
 
En þar sem Pétur er nú bakarasonur googlaði hann um þessi efni og komst að því að þau væru ekki svo ólík að öllu leyti. Rúgbrauðið fékk því að vera áfram í ofninum og klukktíma lengur en venjulega. Nú eru nokkrar mjólkurfernur af ágætu rúgbrauði að kólna á eldhúsbekknum og ef eitthvað er, er það heldur þéttara en það á að vera. En ég er búinn að taka prufu og borða og brauðið er herramannsmatur. Þó það nú væri að mér mætti verða aðeins á mistök, það fer ekki allt á annan endan fyrir því.

Loksins var komið svolítið lag á mig

Mikið ótrúlega var ég skipulagslaus maður í morgun. Ég sem bloggaði um það í gærkvöldi að ég ætlaði að byrja sæmilega tímanlega að þrífa og taka til hér heima vegna væntanlegrar gestakomu. Svo komst ég ekki í gang með neitt og þegar ég ætlaði að byrja á einu sá ég að fyrst þyrfti ég að gera eitthvað annað og þegar ég var að snúa mér að því sá ég eitthvað sem einfaldast væri að gera fyrst af öllu. Svona hringlaði ég kringum skottið á sjálfum mér en tókst þó að lokum að bera eitt og annað út á veröndina sem ég ætlaði með út á Bjarg og geyma þar. Við það lagaðist aðeins í þvottahúsinu og reyndar í eldhúsinu líka.
 
Svo tók ég ruslapoka með lífrænum afgöngum sem ég ætlaði með í moltukassann úti í skógi. Þegar ég kom  út fyrir dyrnar með pokann var ég næstum dottinn um það sem ég var búinn að leggja frá mér á veröndina. Þá loksins gerði ég val. Ég ákvað að fara fyrst með lífræna pokann út í skóg og við það sat. Þegar ég kom þaðan tókst mér með smá úturdúrum að koma því út á Bjarg sem þangað átti að fara. Þar með var komið að því að fara til Fjugesta og skila brettaskífunni sem ég leigði í gær. Um leið gerði ég helgarinnkaup og innkaup vegna gestakomunnar. Loksins var komið svolítið lag á mig.
 
Eftir að hafa ryksugað það mesta tókst mér að þrífa baðherbergið afbragðs vel, og þvottahúsið nokkurn veginn líka. Rétt þegar ég hafði svo tekið fram lax og annað í kvöldmatinn renndi bíll í hlað. Stokkhólmsfjölskyldan var komin. Hann nafni minn hafði sofið á leiðinni og var svo mjúkur og fínn á manninn við komuna hingað að það var ekki hægt annað en gleðjast mikið yfir nærveru hans. Og hvílíkur munur að geta nú gengið í kringum húsið með öðrum og gert úttekt á því sem ég hef verið að gera. Að geta svo borðað með öðrum og rætt saman var eitthvað annað en einveran yfir matardiskinum mínum og þau einkasamtöl sem ég hef haft við sjálfan mig undanfarið.
 
Ég kvarta ekki en að fá heimsókn sem þessa eftir einveru í vikur eykur verðmætamatið og þakklætið vegna gestakomunnar. Hann nafni minn var svo ljúfur allan tímann þangað honum var sagt að nú væri háttatími og jafn ljúfur tók hann því, háttaði og bauð afa góða nótt. Svo bað hann um að það væri lesið fyrir hann.
 
Nú er kyrrðin á Sólvöllum jafn mikil og þegar ég er hér einn. Nafni minn er hljóðnaður og lestrinum er lokið. Líklega er hann kominn í umsjá Óla Lokbrá. Ég er uppi með þá hugmynd að hann nafni minn hjálpi mér við rúgbrauðsgerð í fyrramálið meðan foreldrar hans gróðursetja hvítlauk og fleira sem á að skila afrakstri næsta sumar. Það getur orðið býsna góður dagur á morgun og ég hef grun um að ég verði skipulegri í athöfnum mínum en ég hef veri í dag. Ég er óðum að koma niður á jörðina eftir þær framkvæmdir og annir sem hafa verið í gangi hér undanfarið.

Barnalegur get ég verið

Ég á það til að vera óttalega barnalegur, stundum óvart og stundum til að hafa gaman af því. Stundum er ég líka klaufalegur í orðum eða háttarlagi en það geri ég ekki viljandi. Hins vegar held ég að mér takist yfirleitt að leggja klaufaskapinn til hliðar þegar það er áríðandi að mér takast vel til.
 
Í gær og í dag, jafnvel lengur, er ég búinn að vera órólegur og stressaður vegna þess að mér var svo mikið í mun að ljúka ákveðnu verki. Ég hafði löngu sett mér það að vera kominn með þetta verk á ákveðið stig áður en Rósa og fjölskylda koma núna um helgina. Svo er það búið að vera á dagskránni að ljúka þessu verki snyrtilega og ganga vel frá í kringum það áður en ég fer upp í Dali um næstu helgi. Þá get ég haldið upp á það að gamall draumur hafi rætst. Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta margnefnda verk eða geta neins hvað það snýst um fyrr en í næstu viku, einmitt þegar ég verð búinn að ganga endanlega og snyrtilega frá.
 
Ég sagði að ég hefði verið orðinn stressaður. Það er hverju orði sannara og er ekki svo venjulegt. Ég held að þetta stress hafi verið af tvennum toga. Annars vegar það að ég var farinn að halda að ég næði ekki markmiðinu á fyrirfram tilsettum tíma og svo hitt að ég hreinlega var oðinn dauðþreyttur. Í gærkvöldi fann ég vel fyrir stressinu og ég var hreinlega óöruggur og órólegur. Svo svaf ég vel í nótt en var ekki alveg laus við óróleikann þegar ég fór á stjá í morgun. En með hafragrautinn sem veganesti inn í daginn ásamt rúsínum, apríkósum og hvönn, og til og með einum banana, þá er nú bara að bíta á jaxlinn.
 
Svo gekk mér ágætlega um tíma en þegar leið að hádegi fann ég verulega fyrir stressinu, en ég beið með matinn sem var alrangt en mér fannst sem ég hefði varla tíma og það var líka alrangt. Að lokum áttaði ég mig á því að nú var það maturinn sem gilti. Ég vatt mér inn og setti egg í pott og meðan suðan kom upp tók ég tvö þessi gríðarlega vænu síldarflök upp úr kryddlegi. Þá er ég að tala um ærleg flök, þétt, safarík og gómsæt. Þá tók ég 750 gramma saltkjötspoka út úr frystinum og lagði í bleyti. Það skyldi verða kvöldmaturinn og það sem yrði umfram yrði til hádegismatar á morgun. Síðan borðaði ég egg og síld ásamt bollasúpu og eitthvað hollustubrauð hafði ég með. Nokkru síðar fann ég að mér óx heldur betur ásmegin.
 
Þegar ég tók fram brettaskífuna mína virkaði hún ekki. Það var farinn þráður í leiðslunni þar sem hún kemur inn í vélina. Venjulega er það létt verk að laga svona en nú var það alls ekki á mínu færi. Ég til Fjugesta og lagði vélina inn hjá rafvirkjanum og leigði aðra í rafvélaversluninni. Svo vann ég markvisst og hratt, drakk mikið vatn og allt gekk að óskum. Það gekk meira að segja mun hraðar en ég átti von á og ég þakkaði það síldinni.
 
Og svo þetta með barnaskapinn. Það var korter fyrir sjö sem ég reisti mig upp og horfði með barnslegri gleði á áfangalokin sem ég var búinn að stefna að marga síðustu daga og dreyma um í nokkur ár. Já, ég fann að ég gladdist eins og barn. Svona einföld augnablik gera lífið mikils virði -meira að segja fyrir strák á áttræðis aldri.
 
Þegar ég hafði tekið saman eftir mig í stórum dráttum var komið að því að sjóða saltkjöt. Ég nýtti tímann til fullnustu og fór í sturtu meðan á suðunni stóð. Gleðin yfir unnu verki fylgdi mér í gegnum sturtuna og saltkjötsmáltíðina og ekkert umfram kjöt verður borðað í hádeginu á morgun vegna þess að kjötið er búið. Ég sem hef einungis borðað fisk marga daga undanfarið lagði nú að velli 750 grömm af saltkjöti. Líkami minn segir mér núna að það hafi alveg verið kominn tími fyrir væna kjötmáltíð. Stressið og óróleikinn eru að baki og í fyrramálið ætla ég að byrja þokkalega snemma á tiltekt, afþurrkun og skúringu í tilefni heimsóknarinnar sem ég verð aðnjótandi um helgina. Fram að næstu helgi hef ég góðan tíma til að laga til, snyrta og snurfusa eftir vel unna áfangann í vikunni sem brátt er að líða. Síðan bíða mín Dalirnir og Falun.
 
Mikið hlakka ég til.
RSS 2.0