Að gráta yfir morgunverðinum

Ég vaknaði í morgun var klukkan hálf átta. Eftir eina baðherbergisferð lagði ég mig aftur og lét hugann reika. Ég pantaði bók á netinu um daginn og fékk hana í hendurnar í fyrradag. Í gærkvöldi byrjaði ég að kíkja í þessa bók. Það litla sem ég las fjallaði um það að vera utan við sig, að hvílast og komast í ró til að safna sjálfum sér saman.
 
Eitthvað þekki ég sjálfan mig á því sviði að vera utan við mig. Bókin heitir "Það skeður þegar þú hvílist" og er eftir mann sem heitir Tomas Sjödin. Hann er prestur. Ég hef minnst nokkrum sinnum á hann áður í bloggum, en fyrir all löngu síðan. Hans stóra lífsreynsla liggur í fyrsta lagi í því að hafa horft á tvo unga syni sína verða að engu, rýrna og deyja. Nokkru eftir andlát seinni sonarins sáum við hann í Sjónvarpi, þá gamlan mann. Í dag er hann aftur orðinn yngri maður og hefur unnið sig í gegnum sorgina og komið þaðan sem mjög þroskaður maður sem hefur mikið að segja.
 
Tomas fæddist árið 1959, árið sem ég skrifaðist út úr Skógaskóla og hélt að ég væri orðinn fullorðinn maður. Ég kallaði hann ungan mann og ég er sautján árum eldri. Ekki svo mikið. Stundum er ég barnalegur, stundum finnst mér að ég sé þokkalega þroskaður, stundum að ég sé óttalega lélegur. Stundum finnst mér að ég sé þokkalega góður eða bara býsna góður og svo er ég bara miðlungs maður. Það rak margt á fjörur mínar í rúminu mínu í morgun eftir að ég lagði mig aftur og svo leit ég á klukkuna. Úff! Hún var orðin hálf tíu. Það var ekki að sökum að spyrja. Ég varð að drífa mig á fætur til að elda hafragraut, hita kaffi og til að sjá sjónvarpsmessuna.
 
Á leiðinni fram í eldhúsið kom ég við hjá tölvunni og skrifaði fyrstu línurnar af þessu bloggi. Svo hugsaði ég sem svo að ég vildi óska þess að þessi sjónvarpsmessa yrði góð messa. Og einmitt þá minntist ég orða prestsins Nisse, mannsins sem annaðist útför Valdísar, að þær væru góðar sjónvarpsmessurnar þegar fólk væri ekki að reyna að slá öllum öðrum messum við. Þetta var nefnilega svo satt hjá honum. Stundum er eins og það þurfi að vera heiftarlegra en nokkru sinni fyrr með fleiri hljóðfærum, hærra tropmetspili og magnaðri frásögnum. En það voru kaflaskilin, það að muna eftir Nisse. Hann heimsótti okkur nokkrum mánuðum áður en Valdís dó og hún bað hann að annast útför sína.
 
Það skipast fljótt veður í lofti, hefur gert lengi, og gerði það líka þarna á því augnabliki sem Nisse kom upp í huga mér. "Nisse, viltu jarða mig?" Ein hugsunin af annarri rúllaði fram og hljóðlát sorgin gekk í hús á Sólvöllum. Svo byrjaði ég á að kveikja á sjónvarpinu og síðan að elda hafragrautinn. Fljótlega eftir að vingjarnleg, þeldökk, ung kona hafði opnað messuna var sunginn sálmur. Í þeim kór var saman komið fólk sem ég þekkti samstundis. Þessi kór var samansettur af fólki sem var nákvæmlega eins og þau systkin mín sem komið hafa í Vornes í leit að nýju lífi og hafa fundið það. Og svo var það líka.
 
Maður steig fram og sagði frá lífi sínu. Hann reyndi ekki að hafa verið verstur, hann var ekki stoltur yfir ævi sinni, en hann sagði af einlægni og sannleika frá því hversu illa fór fyrir honum og hvernig hann fann sitt nýja líf. Hann var ekki í þörf fyrir að slá öllu öðru við en hann var þakklátur. Saga hans var eins og svo margar sögur sem ég hef heyrt í tuttugu ár. Hann sagði í sannleika og af einlægni frá lífi sínu og það er þegar fólk byrjar að segja sannleikann og sækir hann djúpt inn i hjarta sitt sem líf þess fer að breytast til hins betra. Svo verður lífið gott.
 
Ég sé það á myndunum af Tomas Sjödin að hann er hættur að gráta yfir morgunverðinum. Ég vil komast þangað líka áður en ég verð sóttur. Þá veit ég að ég get af meiri sannfæringu rétt út hendi til þeirra systkina minna sem eru í leit að nýju lífi. Hann Kjell vinur minn, einhver besti vinur sem ég hef eignast, sagði eitt sinn við mig nokkurn veginn á þessa leið: "Mig langar að ná það andlegum þroska að fólk sjái að ég hafi fengið eitthvað sem er vert að sækjast eftir. Þannig held ég að það sé best að hjálpa fólki sem vill ná sér upp úr eymd neyslunnar." Hann hafði líka sjálfur verið í eymd neyslunnar. Ég er Kjell svo sannarlega sammála.
 
Kjell var á leiðinni þangað, að ná þessum þroska. En örlög hans urðu þau að á leiðinni að markmiðinu tóku ótrúlegir sjúkdómar völdin í lífi hans og að lokum neyddist hann til að leggja augun aftur. Minn góði vinur fékk hvíldina. En með orð hans að leiðarsjósi ásamt svo mörgu öðru lifi ég áfram og reyni að nálgast markmiðið sem Kjell stefndi að. Valdís sagði oft sögur af framliðnu fólki sem hefði komið þeim skilaboðum til sinna nánustu að hætta að gráta. Það bara truflaði lífið fyrir handan. Ég er ekki svo viss um hvernig Valdísi hefði sjálfri tekist það. Ég veit heldur ekki hvort það hefur truflað hana að ég grét yfir morgunverðinum í morgun.
 
 
Ég finn að ég þarf meiri kjark til að birta þetta blogg en flest blogg mín áður. Ég var byrjaður á því áður en ég fór fram að elda hafragrautinn og áður en mér datt Nisse í hug. Allt skeði svo hratt þarna í morgun eftir að ég reisti mig upp úr rúminu. Mín blogg geta ekki bara verið sólskinsblogg, þá er ég ekki sannur. Þess vegna ætla ég að birta það. Saga mannsins sem sagði frá lífi sínu í sjónvarpsmessunni var ekki sólskinssaga en hún varð að sólskinssögu. Sólin skín ekki af heiðum himni í dag en ég veit að hún er þarna uppi ofar skýjum. Eftir svolitla stund ætla ég út að sýsla við mitt, að smíða svolítið. Ég ætla að lokka fram sólina í hjarta mínu og þá verður lífið bjart. Það lifir á kerti við stóru myndina af Valdísi. Þessi morgun hefur verið morgun mikillar innri hreinsunar.
 
Guð, gefðu mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0