Fimmtudagskvöld

Áður en ég fór í vinnu í gær las ég um það á textavarpinu að Norðurlöndin myndu sameinast um að koma Íslandi til aðstoðar og sú vinna sem framundan væri vegna þessa yrði leidd af svíum. Ekki var farið einu einasta niðrandi orði um stöðu Íslands og hvað það varðaði varð ég glaður og þakklátur. Hins vegar var mikil alvara fólgin í þessari ákvörðun og hvað það varðar varð ég leiður. Þetta kallast víst að tilfinningarnar séu blandaðar. Svo lagði ég af stað í Vornes, vel í tíma, og gaf mér því góðan tíma til að líta í kringum mig. Áður en ég fór í vinnuna hafði ég farið með Valdísi að einhverju húsi í vesturbænum þar sem fram átti að fara einhver handa- og fótaleikfimi.

Haustlaufin lágu í sköflum á vissum stöðum og nú var það mesta af stórum skógarsvæðum algerlega lauflaus og barrtrén inn á milli og á bakvið höfðu eins og styrkt stöðu sína. Ég kom að suðurströnd Hjälmaren og þá, sem oft áður, fór ég að reikna út hversu oft ég hefði komið að Hjälmaren úr þessari átt. Útkoman var bara í samræmi við fyrri útreikninga; ég hafði líklega farið í þessa átt um það bil 2000 sinnum og jafn oft hafði ég komið til baka. Þetta jafngilti næstum vegalengdinni til tunglsins eða allt að sjö sinnum umhverfis jörðina. Þvílíkt bruðl á eldsneyti í allar þessar ferðir í öll þessi ár. Ekki hafði ég verið umhverfisvænn þó að ég hefði lengst af verið á sparneytnum bílum. Nú var ég að reyna að bæta svolítið fyrir bensínbruðl mitt með því að eiga etanolbíl. 

Viðskipti hafa átt sér stað. Hér stendur Valdís við nýja etanolbílinn og Nikulás
bílasali við gamla bílinn. Stóri og litli. Rauði gamli bílinn er minni og Nikulás
bílasali sem hefur tekið við honum er líka minni.

Svo þegar við vorum búin að kaupa etanolbíl ruddust einhverjir sérfræðingar fram á sjónvarpsskjánum og sögðu að etanol væri bara ennþá verra en bensín, bara bölvaður óþverri. Ég varð stórsvektur en dæmdi svo þessa menn sem rugludalla sem fengu tilefni til að koma fram fyrir alþjóð í sjónvarpi. En hvað skeði? Raddir þessara manna hljóðnuðu og því trúi ég því bara að þeir hafi verið rugludallar.

Í svona hugleiðingum gengur ferðin vel og allt í einu var ég frammi í Vornesi. Oft í svona tilfellum hef ég hugsað eftir á; keyrði ég aldrei gegnum Hampetorp, eða, á hvaða hraða keyrði ég eiginlega gegnum Läppe. En alla vega, ég hef alltaf komið fram í þessum 2000 ferðum mínum svo að ég hef kannski ekki verið sem verstur bílstjóri þó að ég hafi ekki alltaf munað eftir að ég hafi keyrt vissa hluta leiðarinnar.

Þeir fyrstu sem ég mætti í Vornesi þennan dag voru nokkrir innskrifaðir sjúklingar. Þeir tóku mér vel eins og í hér um bil öllum tilfellum áður. Ótrúlegt hvað þessar manneskjur eru þægilegar í viðmóti og fullar af vináttu. Nágranni okkar við Sólvelli spurði eitt sinn við hvað ég ynni. Þegar ég svaraði að ég ynni á meðferðarheimili fyrir alkohólista og eiturlyfjaneytendur hörfaði hann ögn aftur á bak með skelfingu í svipnum og spurði óttablandinni röddu: Eru þeir ekki erfiðir? Það er sú mynd sem margir hafa af þessu fólki, en þegar það hefur tekið ákvörðun og beðið um hjálp til að breyta lífi sínu verður myndin allt önnur.

Góða nótt,
Guðjón

Nú má hann koma

Já, nú má hann koma. Allt er tilbúið til að taka á móti honum en það er engin hætta, hann kemur nú ekki næstu vikurnar. Það er bara svona að það er best að vera tilbúinn í tíma. Að vera alltaf á síðasta snúningi er svo aulalegt og svo verður það bara stress á síðustu stundu, en ef ég er tilbúinn í tíma get ég blöskrast yfir þeim sem eru á síðustu stundu eða allt of seinir. Það er mikið betra að hafa það þannig. En eitt skal ég viðurkenna; svo hefur það ekki verið á mínum vetvangi alla tíð. Ég var einn af þeim sem var alltaf á síðustu stundu og hafnaði í stressinu og kannski hreinlega í vandræðum. Vetrarhjólin eru komin undir bílinn og því er ekkert að vanbúnaði að vetur komi og það falli snjóföl. Fyrst fórum vi til sjúkraþjálfarans, síðan í byggingarvöruverslunina okkar og keyptum kerruna fulla af einangrun. Svo héldum við til Sólvalla og fengum okkur kakó og splunkunýtt brauð með þykkum ostasneiðum. Þegar við vorum að enda við að háma í okkur brauðið kom hún Annelie sem er stórvinkona Valdísar til margra ára. Hún á synina Adam 11 ára og Samúel 13 ára og það er eins og þessi mamma hreyfi sig aldrei án þess að drengirnir séu með henni. Ég held að þeir viti að þeir eiga góða mömmu og þeir muni aldrei gleyma því. En skömmu eftir að þau komu fór ég út til að skipta frá sumarhjólum til vetrarhjóla. Nokkru síðar komu þeir bræður út og buðu mér aðstoð sína. Nú vorum við orðnir þrír karlmenn sem unnum við að skipta um hjól. Þeir rúlluðu hverju hjóli á sinn stað við hliðina á bílnum fyrir utan það fyrsta sem ég var þegar búinn með. Síðan tóku þeir miða sem ég einmitt var að búa til þegar þau komu, miða sem á stóð VF, HF, VB, HB og miðana settu þeir hvern á sinn stað svo að ég gæti bundið þá á hjólin jafn óðum og ég tók þau undan bílnum. Síðan slógust þeir í góðu um stund en að lokum kom Valdís og bað þá að rúlla dekkjunum á ákveðinn stað þar sem hún ætlar að þvo þau um helgina. Þar með var komið að brottför hjá þessari fjölskyldu og á leiðinni að bílnum kölluðu þeir til okkar: Ha det bra.

Nú vinn ég í Vornesi næstu fjóra dagana og svo vinn ég tvö kvöld og nætur í næstu viku. Ljóta klandrið; bara enginn tími til að vinna á Sólvöllum. En það verður nú gott að fá lagt inn á bankareikninginn og þurfa ekki að flytja eins margar verðlitlar íslenskar krónur af lífeyrisgreiðslunum á þessum krepputímum. Reyndar hefur sænska krónan fallið líka og ef ekki mundi íslenska krónan standa ennþá verr móti þeirri sænsku, og nóg er nú samt.

Eftir að hafa talað um þetta með dekkin og svolítið um peninga má ég til með að segja frá miklum veikleika sem ég barðist lengi við. Þessi veikleiki gerði mér lífið oft erfitt og eiginlega meira en það, hann hafði áhrif á allt lífið. Þegar við komum til Svíþjóðar varð það eindregin regla að borga alla reikninga skömmu fyrir mánaðamót. Daginn sem ég framkvæmdi þetta fór ég alltaf í fýlu eða jafnvel meira en það. Ég varð nýskur og reiður og svo leið mér ILLA. Svo gekk það allt of lengi. Einhvern tíma þegar ég var í vinnunni að halda fyrirlestur um heiðarleika áttaði ég mig á því að þetta gæti ekki gengið lengur. Ég heyrði að fyrirlesturinn var falskur og myndi verða þar til ég hefði unnið bót á vandamálinu. Nú byrjaði ströng vinna við að breyta afstöðu minni til þessa að borga reikninga. Ég notaði mikið tímann á leið úr og í vinnu og talaði við sjálfan mig um það hvað það væri tryggt þegar ég væri búinn að borga reikningana, hvað það væri góð regla að borga reikningana á réttum tíma, að eftir að ég hefði borgað reikningana væri ég frjáls maður í heilan mánuð og svo framvegis. Eftir nokkurra mánaða þjálfum fann ég hvernig þetta breyttist og ég hætti að fara í mánaðarmótafýluna. Það varð að lokum gaman að borga reikningana og svo er það enn í dag. En getur ykkur dottið í hug hver hinn raunlegi ávöxtur varð af þessu annar en að fýlan hvarf? Nei, ég er ekki viss um það. Og nú skulið þið setjast ef þið ekki sitjið þegar. Það fór að verða afgangur af launagreiðslunum.

Góða nótt

Ætli það sé allt í lagi með hann þennan

Á mánudaginn var var ég hjá sjúkraþjálfara, á þriðjudaginn var ég drag haltur, á miðvikudaginn var ég með hann Kjell í Stokkhólmi, á fimmtudaginn var ég í nuddi og í dag, föstudag, er ég eins og unglamb og leik við hvern minn fingur. Haltur er ég ekki og þetta er einn af þeim dögum sem mér getur fundist að það hafi aldrei verið neitt að mér í mjöðminni. Sjúkraþjálfinn spurði mig hvort þetta væri í lagi þegar hann var eitthvað að teygja á mér vinstri löppina. Já, ég hélt það nú, og hann tók meira á. Raunar hefði ég átt að segja að nú væri nóg komið en ég vildi prufa hvort ég lagaðist ekki við að skrökva svolítið að honum. Það var kannski þetta sem gerði hvað ég var slæmur á þriðjudaginn. Á miðvikudag þegar ég skrapp með hann Kjell til Stokkhólms hafði ég talsverðan hita á bílstjórastólnum og ég hafði nú gott af því. Svo var það nuddið á fimmtudaginn hjá honum Per. Per er smávaxinn maður en hann er sterkur í höndunum. Ég bað hann að snúa sér í fyrsta lagi að fótunum og það gerði hann. Þegar hann nuddaði kálfana var það vægast sagt óþægilegt. Kálfarnir geta verið aumir þó að maður hafi ekki verk í þeim sagði hann. Það virtist vera orð að sönnu. Og í dag er ég eins og unglamb.

Mér dettur í hug þegar ég var fyrstu mánuðina í Svartnesi, febrúar og fram í apríl 1994. Síðustu tvær vikurnar var ég í algeru fríi og þessa daga notaði ég til að ganga mikið um nágrennið og kynnast þessu skógi vaxna landi sem ég hreifst svo mjög af. Mikið af gönguleiðum mínum voru malbikaðir, fáfarnir vegir. Það var eins og ég gengi yfir mig því að ég varð afskaplega slæmur í báðum hnjánum og verst var það á nóttunni. Mér fannst nokkrar síðsutu næturnar sem ég svæfi bara nokkrar mínútur í einu. Svo kom ég til Stokkhólms á leið minni heim til Íslands til að sækja Valdísi og búslóðina og gisti hjá Rósu og Pétri. Þaðan hringdi ég í Kristján Ívar sjúkranuddara og pantaði tíma hjá honum og sagði ég honum að ég væri svo slæmur í hnjánum. Ég hafði oft verið hjá Kristjáni seinni hluta ársins 1993. Kristján tók mér vel í símtalinu, gaf mér tíma og sagði svo í gríni að það væri ekki hægt að láta mig draga á eftir mér lappirnar. Nóttina eftir að ég pantaði tímann hjá Kristjáni svaf ég í einni lotu frá kvöldi og fram á næsta dag og ég var þar með algóður í hnjánum í það skiptið. Kröftugt símtal það og þvílíkur munur.

Í dag vorum við á Sólvöllum og ég vann við að innrétta svefnherbergið. Akkúrat þegar ég var búinn með ákveðinn áfanga kallaði Valdís á mig í mat. Það gat ekki hittst betur á. Eftir matinn fór ég aftur yfir í herbergið til að hugleiða svolítið hvað ég ætlaði að gera á morgun. Ég flaug í huganum yfir allt mögulegt og meðal annars hina ólíku áfanga. Sumir hafa verið erfiðari en aðrir og því sótti ég þessa mynd sem er af þvim áfanganum sem ekki var hvað auðveldastur.

Þegar ég horfi á þessa mynd kemur upp í huga mér; ætli það sé allt í lagi með hann þennan. Þessi mynd er tekin snemmsumars 2006 þegar ég var að grafa fyrir stöplunum undir viðbyggingarnar. Ég taldi það versta áfangann þetta niðri í jörðinni. Síðan komst ég að því að erfiðast áfanginn var þakið. Um daginn komst ég að því að erfiðasti áfanginn var að styrkja sperrurnar í gömlu byggingunni, skipta um einangrun og fleira þar uppi skríðandi fram og til baka uppi á þakbitunum. Litið til baka hafa allir áfangar verið skemmtilegir.

Á morgun fer Valdís út í kirkju klukkan hálf tíu. Þar á að byrja á morgunkaffi. Síðan ætlar kórinn að æfa fram til klukkan að ganga sex. Síðan á að vera gospelmessa. Ég ætla á Sólvelli þegar Valdís fer í kirkjuna og vinna við einn skemmtilega áfangann enn. Það verður að sjálfsögðu gaman. Svo ætla ég að koma heim í tíma og fara í messu.

Mikið er af fjúkandi laufum fram og til baka þegar hreyfir vind. Mikið er þó eftir af laufum á trjánum ennþá en þau eru í álíka miklum haustlitum og þau sem blása til og frá. Haust hefur alltaf fengið mig til að verða tregablandinn en þó hefur það lagast nokkuð með árunum. Haustið 1998 var ég á göngu á mjög skemmtilegri gönguleið í suðaustanverðri Örebro. Þegar ég var langt kominn heim var mér orðið illa illt í mjöðminni og varð ég að setjast á einn af bekkjunum við gönguleiðina og hvíla mig. Einmitt þar í kring var mikið af burkna sem hafði verið mjög hár um sumarið, en nú voru þessir burkar orðnir haustbrúnir og farnir að lúta höfði. Þar sem ég sat þarna á bekknum og virti þetta fyrir mér varð ég var við tregann og fann haustliti í sjálfum mér, að minn hausttími væri líka kominn. Síðan er ég búinn að vinna mikið, fara í margar gönguferðirnar og gera mikið af öllu mögulegu skemmtilegu. Ég hlakka til þess sem ég ætla að gera á morgun og það er enginn hausttregi á ferðinni á þessu kvöldi. Annars er treginn ekki slæmur. Hann gefur tilefni til að hugsa gegnum lífið.

Góða nótt,

Guðjón

Mig hálf langar að blogga

Já, mig hálf langar að blogga en samt nenni ég því ekki almennilega. Ég veit þó að ef ég byrja er eins víst að ég komist á flug. Við skulum sjá.

Mér hefur oft dottið í hug að undanförnu hvað ég hef getað eitt mörgum orðum um Sólvelli og það sem við erum að gera þar. Samt er þetta bara lítill sumarbústaður sem við stækkum um nær helming og samtals verður byggingin rúmlega 70 ferm. Hvað er það? Það er eflaust í margra augum bara ekkert að tala um og svo hefur mér stundum fundist sjálfum. En svo er það nú samt að mér sjálfum, og okkur báðum, finnst þetta bara heil mikið. Við höfum líka stóra lóð og 6000 ferm skóg að annast og markmiðið er að innan nokkurra ára verði hægt að sjá skóginn sem vel hirtan laufskóg og eðallaufskóg. Flest sem gert er á Sólvöllum tekur langan tíma. Í fyrsta lagi er ég lengi að smíða og í öðru lagi nota ég vandvirkni sem kannski er ekki alltaf nauðsynlegt að nota. Einu sinni tókum við lán en nú um langan tíma höfum við bara keypt byggingarefni þegar það hefur vantað og borgað það jafnóðum. Svo hefur eigin vinna verið látin duga með hjálp Rósu og Péturs í nokkrum tilfellum nema hvað varðar raflagnir og fleira sem fagmenn verða að framkvæma.  Áfangar hafa verið margir og margsinnis hef ég, og oft við bæði, gengið nokkur skref aftur á bak til að sjá síðasta áfanga tilbúinn og gleðjast yfir því.

Stundum kaupum við lottómiða þar sem maður skrapar af reitum og fær fram tölur og ef þrjár eins tölur koma fram er það vinningur. Sumir segja að þeir kaupi svona miða til að styrkja góðan málsstað en það tek ég mátulega trúanlegt. Þegar ég kaupi svona miða geri ég það vegna þess að ég veit að það getur líka komið vinningur. Einhvern tíma þegar ég hafði keypt svona miða í hálfgerðu laumi, hafði stungið honum í brjóstvasann og gekk út í bílinn varð már á að hugsa að 
ef ég fengi vinning mundi það hjálpa mikið til við framkvæmdir á Sólvöllum. En þá komst ég líka að þeirri niðurstöðu að eftir á ættum við eiginlega ekki eins mikið í eigninni þar sem peningarnir hefðu komið svo auðveldlega upp í hendurnar á okkur.

Við höfum heyrt fréttir af fólki sem hefur byggt hundruða fermetra hús á stuttum tíma, glæsihallir með bílskúrum og öllu tilheyrandi, og bara eins og ekkert hefði í skorist. Við höfum líka heyrt frásagnir af miklum fjármálamönnum sem hafa keypt verslanakeðjur í útlöndum, stofnað banka í frægum borgum sem hafa velt miljörðum og aftur miljörðum. Svo hef ég setið við tölvuna mörg kvöldin og bloggað enn og aftur um nokkurra fermetra viðbyggingu á Sólvöllum eða flutning á nokkrum beykitrjám úr skógi í næstu sýslu sem við svo höfum gróðursett í Sólvallaskóginum. Þetta eru tré sem kölluð eru eðallauftré og verða kannski upp undir 10 metra há sum hver þegar við verðum 75 ára. Ósköp er þetta lítið í samanburði við það áðurnefnda.

Ég hef verið að vinna í Vornesi þrjá daga í þessari viku. Ég verð líka að vinna fyrir byggingarefni til að geta haldið áfram á Sólvöllum. Í dag hafði ég fyrirlestur fyrir 20 manns, menn og konur á aldrinum frá 21 árs til um 60 ára. Eftir fyrirlesturinn gengu þau rólega út og skröfuðu saman. Ég þurrkaði af töflunni og lagði svo af stað út sjálfur. Þegar ég kom fram í stóra forstofu þar sem þessi hópur fólks hafði gengið um svo sem einni mínútu áður, sá ég agnar litla lífveru bærast á gólfinu. Lífveran sjálf var kannski tveir og hálfur sentimetri á lengd en þegar hún hreyfði sig komu í ljós langir afturfætur. Þetta var froskur, ungi, sem hafði vilst þarna inn. Þegar fólkið gekk út hafa þau ekki tekið eftir frosknum þar sem þau gengu þétt og voru í samræðum. Nú var allt kyrrt og við vorum þarna bara tveir, ég og froskurinn. Eitthvað leit hann undarlega út þessi froskur. Það var eitthvað sem fylgdi honum eftir þegar hann hreyfði sig og þar að auki gekk hann rólega en annars hoppa froskar og þá svo langt í hverju stökki að það getur verið óþægilegt að ná taki á svona smá veru. Hér var það ekkert vandamál að ná honum og þegar ég hafði tekið upp froskinn sá ég að hann hafði flækt á sína löngu afturfætur einhverjum hellingi af lóhnoðrum sem höfði eins og spunnist í breitt band. Froskurinn var eiginlega í hafti. Hann hefur eflaust verið búinn að vera lengi þarna inni og fara víða.

Þegar ég lagði froskinn í grasið utan við sá ég að hann var hreinlega í hafti og gat alls ekki um frjálst höfuð strokið. Ég reyndi því eftir bestu getu að plokka af honum lóhnoðrana svo að hann gæti komist til frelsinins aftur. Svo studdi ég höndunum á hné mér og horfði á þennan litla ræfil sem bara lá í röku grasinu og virtist í einhverju sjokki. Fyrir einni mínútu var hann ófrjáls og bjargarlsus og þurfti eðlilega á hjálp að halda til að verða sjálfbjarga aftur. Og einmitt þarna þar sem ég horfði á froskinn datt mér í hug samlíking. Margir hafa hafnað í hafti að undanförnu og koma til með að eiga erfitt með að losna úr því. Ég fann fyrir þakklæti að hafa ekki spennt bogann of hátt á Sólvöllum og tapað frelsinu, nógu margir hafa gert það samt. Margir sem hafa hafnað með afturlappirnar í hafti að undanförnu hafa skapað það sjálfir. Froskurinn hins vegar viltist af leið og gat ekkert að þessu gert og nú er hann frjáls svo framarlega sem engin svöng froskaæta náði taki á honum. Ég vona ekki, þar sem mér þygir vænt um froskinn sem fékk mig til að hugsa svolítið. Ég ætla að halda áfram að gleðjast yfir hinum smáu áföngum á Sólvöllum og kannski að blogga um það líka. Ég er ennþá frjáls maður.

Ég held bara að ég hafi virkilega komist í gang með að blogga. Góða nótt.

Guðjón

Úr einu í annað

Í fyrradag vorum við bæðu hjá sjúkraþjálfara, síðan keyptum við smávegis byggingarefni og svo héldum við til Sólvalla. Í einhverjum asnagangi kveiktum við á tölvunni og litum á spenntar fréttir af íslensku efnahagsmálunum. Það auðvitað gerir fólki illt að fara að horfa á svona lagað og eftir að hafa litið nokkrum sinnum á gengi íslensku krónunnar móti þeirri sænsku sýndist okkur sem ekki yrði hægt að flytja mánaðargreiðslur okkar frá Íslandi margar næstu vikurnar. Allt í einu tókum við mikilvæga ákvörðun. Við slökktum á tölvunni og gengum til okkar verka. Valdís fór að slá lóðina,
Stokkhólmsferð Kjell 004
ekki bara til að slá hana, en líka til að kurla hluta af því laufi sem hafði fallið af trjánum síðan eftir síðasta rakstur. Ég fór hins vegar að smíða og byrjaði á því að saga nokkra lista með á að giska 40 gráðu sniði. Síðan fór ég inn með þessa lista og miklar neglingar hósfust.
Stokkhólmsferð Kjell 005
Allt í einu datt mér í hug að líta á farsímann og sá að hann Kjell hafði hringt meðan ég var að saga. Ég ákvað að klára neglinguna og hringja svo í Kjell.

Þegar Kjell kom í símann sagði hann að hann hefði verið að horfa á fréttir frá Íslandi og sér hefði dottið í hug að ég væri áhyggjufullur. Því hefði hann hringt. Ég sagði honum að ég hefði verið í þann veginn að verða áhyggjufullur svo lengi sem ég hefði horft á fréttirnar en um leið og ég hefði byrjað að smíða og sjá árangur af því hefði ég orðið var við að ég gladdist yfir því að gera þarfa hluti. Ég sagðist líka telja að sanma væri með Valdísi, að hún hefði fundið fyrir því sama þegar hún byrjaði að slá. Svo ræddum við sman um daginn og veginn og allt mögulegt og ég var Kjell þakklátur fyrir að hafa viljað sýna nmér vinsemd.

Núna er miðvikudagskvöld og við Valdís vorum að koma heim frá Stokkhólmi. Við skruppum þangað með hann Kjell. Hann þurfti að fara í undirbúningsathugun fyrir stóra aðgerð. Vorið 2006 var hann skorinn upp við magakrabba og var það gríðar stór aðgerð. Kjell reiddi vel af fyrstu dagana en á þriðja eða fjórða degi varð hann allt í einu afskaplega veikur og var svæfður og áköf leit gerð að því sem olli þessum snöggu veikindum. Niðurstaðan var sú að magasýra hafði lekið inn í brjóstholið og brennt þar sundur vefi og líffæri á svo svakalegan hátt að ég ætla ekki að reyna að lýsa því. Næstu fáeina dagana gekkst Kjell undir einar fjórar aðgerðir og var svo haldið sofandi í tvo mánuði í öndunar- og hjartavél, annarri eða báðum til skiptis. Vélindað hafði verið tekið úr sambandi við það litla sem eftir var af maganum og var geymt upprúllað efst í brjóstholinu eða hálsinum. Eftir svefninn langa byrjaði löng endurhæfing og síðan var Kjell sendur heim til að ná sér svo vel að hann þyldi aðgerðina sem nú er framundan, að tengja vélindað við magann aftur. Þrátt fyrir allt þetta hringdi hann til mín á mánudaginn var til að athuga hvort ég væri áhyggjufullur.

Við auðvitað notuðum ferðina líka til að hitta hana Rósu dóttur okkar og færa henni eldivið fyrir veturinn.
Stokkhólmsferð Kjell 017
Sólvallaskógurinn gefur ekki bara af sér smíðavið til að stækka bústaðinn. Hann gefur líka af sér meiri eldivið en við komumst yfir að nota. Rósa var í vinnu þegar við komum heim til hennar og við byrjuðum á að ganga frá eldiviðnum í geymslu. En fyrr en varði var geymslan orðin full. Þau áttu eftir heil mikinn eldivið frá fyrri ferðum. Meðan við vorum að ganga frá eldiviðnum gekk hún Ulla nágranni Rósu framhjá okkur í ganginum. Hún er hjálpsöm kona Hún Ulla og hefur vikið góðu bæði að okkur og Rósu. Hún fékk því eldiviðinn sem við komum ekki í geymsluna. Reyndar stóð alltaf til að hún fengi eitthvað af honum en það varð meira en til stóð vegna plássleysins. Við fengum kaffi og súkkulaði í staðinn en samt finnst Úllu að hún verði að gera eitthvað meira. Rósa og Pétur eiga skilið mikinn eldivið frá okkur því að þau hafa hjálpað okkur mjög mikið á Sólvöllum.

Nú er mál að linni. Mynd af Kjell birti ég þegar hann er búinn að fá magann í lag og getur fengið sér kaffibolla með okkur. Förum vel með okkur á umbrotatímum.

Kveðja,

Guðjón
RSS 2.0