Ætli það sé allt í lagi með hann þennan

Á mánudaginn var var ég hjá sjúkraþjálfara, á þriðjudaginn var ég drag haltur, á miðvikudaginn var ég með hann Kjell í Stokkhólmi, á fimmtudaginn var ég í nuddi og í dag, föstudag, er ég eins og unglamb og leik við hvern minn fingur. Haltur er ég ekki og þetta er einn af þeim dögum sem mér getur fundist að það hafi aldrei verið neitt að mér í mjöðminni. Sjúkraþjálfinn spurði mig hvort þetta væri í lagi þegar hann var eitthvað að teygja á mér vinstri löppina. Já, ég hélt það nú, og hann tók meira á. Raunar hefði ég átt að segja að nú væri nóg komið en ég vildi prufa hvort ég lagaðist ekki við að skrökva svolítið að honum. Það var kannski þetta sem gerði hvað ég var slæmur á þriðjudaginn. Á miðvikudag þegar ég skrapp með hann Kjell til Stokkhólms hafði ég talsverðan hita á bílstjórastólnum og ég hafði nú gott af því. Svo var það nuddið á fimmtudaginn hjá honum Per. Per er smávaxinn maður en hann er sterkur í höndunum. Ég bað hann að snúa sér í fyrsta lagi að fótunum og það gerði hann. Þegar hann nuddaði kálfana var það vægast sagt óþægilegt. Kálfarnir geta verið aumir þó að maður hafi ekki verk í þeim sagði hann. Það virtist vera orð að sönnu. Og í dag er ég eins og unglamb.

Mér dettur í hug þegar ég var fyrstu mánuðina í Svartnesi, febrúar og fram í apríl 1994. Síðustu tvær vikurnar var ég í algeru fríi og þessa daga notaði ég til að ganga mikið um nágrennið og kynnast þessu skógi vaxna landi sem ég hreifst svo mjög af. Mikið af gönguleiðum mínum voru malbikaðir, fáfarnir vegir. Það var eins og ég gengi yfir mig því að ég varð afskaplega slæmur í báðum hnjánum og verst var það á nóttunni. Mér fannst nokkrar síðsutu næturnar sem ég svæfi bara nokkrar mínútur í einu. Svo kom ég til Stokkhólms á leið minni heim til Íslands til að sækja Valdísi og búslóðina og gisti hjá Rósu og Pétri. Þaðan hringdi ég í Kristján Ívar sjúkranuddara og pantaði tíma hjá honum og sagði ég honum að ég væri svo slæmur í hnjánum. Ég hafði oft verið hjá Kristjáni seinni hluta ársins 1993. Kristján tók mér vel í símtalinu, gaf mér tíma og sagði svo í gríni að það væri ekki hægt að láta mig draga á eftir mér lappirnar. Nóttina eftir að ég pantaði tímann hjá Kristjáni svaf ég í einni lotu frá kvöldi og fram á næsta dag og ég var þar með algóður í hnjánum í það skiptið. Kröftugt símtal það og þvílíkur munur.

Í dag vorum við á Sólvöllum og ég vann við að innrétta svefnherbergið. Akkúrat þegar ég var búinn með ákveðinn áfanga kallaði Valdís á mig í mat. Það gat ekki hittst betur á. Eftir matinn fór ég aftur yfir í herbergið til að hugleiða svolítið hvað ég ætlaði að gera á morgun. Ég flaug í huganum yfir allt mögulegt og meðal annars hina ólíku áfanga. Sumir hafa verið erfiðari en aðrir og því sótti ég þessa mynd sem er af þvim áfanganum sem ekki var hvað auðveldastur.

Þegar ég horfi á þessa mynd kemur upp í huga mér; ætli það sé allt í lagi með hann þennan. Þessi mynd er tekin snemmsumars 2006 þegar ég var að grafa fyrir stöplunum undir viðbyggingarnar. Ég taldi það versta áfangann þetta niðri í jörðinni. Síðan komst ég að því að erfiðast áfanginn var þakið. Um daginn komst ég að því að erfiðasti áfanginn var að styrkja sperrurnar í gömlu byggingunni, skipta um einangrun og fleira þar uppi skríðandi fram og til baka uppi á þakbitunum. Litið til baka hafa allir áfangar verið skemmtilegir.

Á morgun fer Valdís út í kirkju klukkan hálf tíu. Þar á að byrja á morgunkaffi. Síðan ætlar kórinn að æfa fram til klukkan að ganga sex. Síðan á að vera gospelmessa. Ég ætla á Sólvelli þegar Valdís fer í kirkjuna og vinna við einn skemmtilega áfangann enn. Það verður að sjálfsögðu gaman. Svo ætla ég að koma heim í tíma og fara í messu.

Mikið er af fjúkandi laufum fram og til baka þegar hreyfir vind. Mikið er þó eftir af laufum á trjánum ennþá en þau eru í álíka miklum haustlitum og þau sem blása til og frá. Haust hefur alltaf fengið mig til að verða tregablandinn en þó hefur það lagast nokkuð með árunum. Haustið 1998 var ég á göngu á mjög skemmtilegri gönguleið í suðaustanverðri Örebro. Þegar ég var langt kominn heim var mér orðið illa illt í mjöðminni og varð ég að setjast á einn af bekkjunum við gönguleiðina og hvíla mig. Einmitt þar í kring var mikið af burkna sem hafði verið mjög hár um sumarið, en nú voru þessir burkar orðnir haustbrúnir og farnir að lúta höfði. Þar sem ég sat þarna á bekknum og virti þetta fyrir mér varð ég var við tregann og fann haustliti í sjálfum mér, að minn hausttími væri líka kominn. Síðan er ég búinn að vinna mikið, fara í margar gönguferðirnar og gera mikið af öllu mögulegu skemmtilegu. Ég hlakka til þess sem ég ætla að gera á morgun og það er enginn hausttregi á ferðinni á þessu kvöldi. Annars er treginn ekki slæmur. Hann gefur tilefni til að hugsa gegnum lífið.

Góða nótt,

Guðjón


Kommentarer
Brynja

já árstíðirnar innra með manni eru aðeins minna fyrirsjáanlegar en eðlieg röðun í raunheimi. Allar hafa þær sinn sjarma sem betur fer. Hjá mér er vor, nokkuð hráslagalegt í prófatíð en fyrirheit um sólaryl handan við hornið. Hafið það gott skötuhjú.

2008-10-26 @ 21:39:40
Guðjón

Já Brynja, vorregn á Skáni. Það gæti maður lika haldið hér ef ekki það væru svo miklir haustlitir ennþá í Suðurbæjarskóginum.

Kveðja,Guðjón

2008-10-27 @ 09:39:27
URL: http://www.gudjon.blogg.net


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0