Annar í sveitasælu

Á þessari stundu geysar söngvakeppni sjónvarpsstöðva í gervöllu landinu og þar með líka á litla sveitasetrinu Sólvöllum. Ef ég hefði infrarauða sýn gæti ég sjálfsagt séð dansandi héra, hnarreist dádýr og daðrandi ungelgi úti í náttmyrkrinu alveg dáleidda af þessum tónlistarviðburði sem heyrist vel út í skógarjaðarinn. Í gær var meiningin að vera bara eina nótt á Sólvöllum að þessu sinni. En í dag ákváðum við að taka því bara rólega hér í nótt líka. Um miðjan daginn þurfti ég út úr verðandi svefnherbergi til að sækja mér spýtu og hvað haldið þið? Þegar ég kom út undir bert loft angaði af pönnukökulykt. Svo var miðdegiskaffið heitar pönnukökur. Og Valdís er búkona. Einhvers staðar lumaði hún á lambakótilettum og nú vitið þið líka hvað var í kvöldmat. Það er ekki innangengt ennþá í þetta verðandi svefnherbergi þannig að ef ég vil athuga með matarlykt frá eldhúsi Valdísar, þá er bara að reka út nefið í dyragættina. Upp úr þakinu kemur nefnilega sérstakur skorsteinn sem sér um að koma matarlykt hússins á framfæri.

Vinnuáætlun helgarinnar kemur að vanda ekki til með að ganga eftir. Nú kenni ég því um að það eru svo margar rafmagnsdósir í herberginu að það tekur tíma að saga úr fyrir þeim öllum (þetta er brandarinn sem ég sagði Valdísi áðan). Það gengur nógu vel og það er gaman að vinna þetta allt saman. Valdís spurði mig nefnilega áðan hvort ég væri ekkert orðinn leiður á þessu. Ég brá fyrir mig heiðarleika og svaraði svo neitandi. Ég er nefnilega ekki leiður á smíðunum en hins vegar mundi ég gjarnan vilja geta lagt mig í nýja svefnherberginu í kvöld. Því svara ég líka af heiðarleika.

Í morgun ætlaði ég að fara út í dyr og sjá notalegan dag í fæðingu. Í gær talaði ég nefnilega svo mikið um að hlýindi væru að taka yfir eftir langan frostakafla. En viti menn; áður en ég opnaði útihurðina leit ég á hitamælinn og hann sýndi nær tíu stiga frost. Því verður hins vegar ekki mótmælt að það var fallegur morgun og í dag var mikill sólskinsdagur. Smáfuglarnir hennar Valdísar virðast bara verða fleiri og fleiri og tólgarboltarnir hverfa hver á fætur öðrum. Því keyptum við skammtara í dag sem skammtar fræ í samræmi við magnið sem fuglarnir éta. Það er nefnilega ekki hægt að gefa þeim beint á jörðina því að þá fer allt fræið í þá sem eru stærri, sterkari og frekari. Svo keyptum við líka fræpoka og sumt af þessum fræum eru voða góð í brauð eins og til dæmis sólrósarfræ. Og aftur minni ég mig á að fara að kaupa fyglahólkana sem við ætlum að hengja upp í skóginum. Þegar hægist um við húsasmíðar verð ég svo að smíða fuglahólkana sjálfur.

Og svo kemur vorið

Það var sólskin á Sólvöllum þegar við loks komum þangað um hádegisbil. Það var líka tveggja stiga hiti, allur snjór var horfinn af þakinu og það voru komnir smá auðir blettir á nokkrum stöðum. Smáfuglarnir voru líflegir og tíst þeirra og smá spjall barst að úr öllum áttum. Tólgarboltarnir sem Valdís býður fuglunum upp á höfðu minnkað hraðar en áður og það bar vitni um vaxandi fjölda fugla. Það virtist vera vor á næsta leyti. Þetta vakti góða tilfinningu og það var eitthvað nýtt við að ganga frá bílnum og heim að bústaðnum. Það styttist í gönguferðir út í skóg til að fylgjast með brumum og sjá þau fara að bústna og búa sig undir nýtt vaxtartímabil. Það styttist líka í ferð til Vingåker til að sækja ein fjögur beykitré til viðbótar þeim 20 sem þegar eru orðin rótföst í Sólvallaskóginum. Síðan verður væntanlega hlé á þessum beykiflutningum á næstu árum. En í fyrsta lagi er farið að bráðliggja á að fara út í skóg og fella nokkur tré, bæði til að grisja og fá í eldiviðarforðann. Annars verður öll áhersla lögð á svefnherbergið þar sem búið er að ákveða að það verði opnað með pomp og prakt um páska.

Í nótt ætlum við að sofa hér á sólvöllumm í fyrsta skipti í langan tíma. Það verður tilbreyting og þá verður tíminn líka drýgri við smíðarnar. Það verður líka gaman að opna útihurðina í fyrramálið, líta út og sjá að við erum í sveit. Það var mikið af hérasporum í snjónum þegar við komum hingað í dag og um dimmumótin þegar við vorum að borða kvöldmatinn hljóp héri yfir lóðina, stoppaði við bílinn, en hélt svo áfram leiðar sinnar niður á gamalt tún vestan við húsið. Það hefur líka verið mikið af dádýraslóðum kringum húsið en þau hafa verið sparsöm á að sýna sig þegar við erum hérna. Ég hef líka oft verið einn hérna og er þá mest inni við smíðar og sé ekki þó að það einhver umferð ferfætlinga eigi sér stað.

Klukkan er að nálgast tíu og á morgun ætla ég að taka daginn snemma. Því er mál að bursta og pissa. Valdís er að horfa á samtalsþátt í sjónvarpi en mig grunar að hún muni koma fljótlega á eftir mér til að funda með Óla lokbrá. En áður en ég lýk þessu ætla ég að útskýra við hvað ég á þegar ég tala um tólgarboltana hennar Valdísar. Orðið tólgarbolti er bara bein þýðing og það er raunverulega tólg í þessum boltum, en í hana er blandað ríkulegu magni af fræjum og þetta er veislumatur smáfuglanna yfir vetrartímann. Valdís er minnugri á að hengja þessa bolta upp en ég er. Og að þessum orðum sögðum man ég eftir því að við höfum talað um að kaupa nokkra fuglahólka og festa upp í tré. Það er nokkuð sem þarf að fara að koma í verk. Það er bara fullt að gera í sveitinni.

Útlendingar

Þegar við komum til Svíþjóðar var hér mikið af útlendingum. Ekki vorum við Valdís útlendingar! alla vega engir útlendingar miðað við kolsvart fólk, brúnt fólk, fólk sem virtist tyrkneskt, skáeygt eða arabiskt svo eitthvað sé nefnt. Sannleikurinn er sá að það liggur mikið í því sem ég segi, þetta var raunverulega tilfinningin. En auðvitað vorum við líka útlendingar. Ég heillaðist af manneskju í gær sem er af erlendu bergi brotin en ég ætlaði að láta duga það sem ég bloggaði um heimsóknina til Kjell í gær. Nú get ég þó ekki orða bundist.

Stuttu eftir að ég settist inn í sjúkrastofuna til Kjell hringdi hann bjöllu þar sem hann þurfti aðstoð með eitthvað. Inn kom kona eitthvað undir þrítugu og heilsaði. Þegar hún hafði aðstoðað Kjell leit hún á mig og spurði hvort ég vildi kaffibolla. Já, endilega vildi ég það, fallega boðið. Alveg sjálfsagt svaraði hún og gekk út. Stuttu síðar kom hún inn með kaffið og rétti mér það glaðlega. Þegar hún var farin í þetta skiptið spurði ég Kjell hvort hann vissi hvaðan hún kæmi. Nei, svaraði hann, ég hef reyndar aldrei spurt hana eftir því, en hann sagði hana afar þægilega við sig. Nú vildi Kjell fá hjálp við að snúa sér í rúminu og hringdi bjöllunni aftur. Inn kom sama kona. Áður en hann bar fram erindið spurði hann hana hvaðan hún kæmi. Ég kem nú frá Eþíópíu sagði hún. Síðan fékk hún að vita hvað Kjell vantaði og hún fór fram til að sækja frekari hjálp. Innan skamms var búið að snúa Kjell í rúminu og aðstoðarfólkið farið út. Þá fórum við að tala um fólk frá Eþíópíu og Sómalíu sem við höfðum kynnst í Vornesi, þó nokkrar manneskjur bæði menn og konur en mest menn. Kaffið mitt var búið og Kjell bað um hjálp líklega tvisvar sinnum til og alltaf voru það sömu gæðin frá þessari broshýru konu frá Eþíópíu. Þolinmæði, hjálpsemi og vingjarnlegheit er einkunnin sem ég gef henni. Mikið er gott að það finnst fólk sem vill veita svona hjálp.

Fyrir mörgum árum kom um það bil tvítugur maður frá Írak í meðferð í Vornesi. Hann var við afar slæma heilsu þegar hann kom og það þurfti að líta mikið eftir honum fyrstu dagana á sjúkradeildinni. Mín vinna var þá í fyrsta lagi á sjúkradeildinni og það varð því oft mitt hlutverk að líta inn í herbergið til hans. Eitt sinn þegar ég var búinn að sjá að allt var í lagi og var að fara og loka hurðinni kallaði hann nafnið mitt. Ég færði mig aftur inni dyragættina og þá sagði hann; Guðjón, ég elska þig. Allt í lagi með það. Ég vissi vel hvað hann meinti. Hann meinti; þakka þér fyrir að líta eftir mér svo að ég geti verið öruggur. Margir gleyma að þakka fyrir þetta, en þetta var hans háttur á að segja það.

Fyrir nokkrum árum kom afburða prúður maður í meðferð, maður milli fimmtugs og sextugs. Það var eitthvað sérstaklega þægilegt við manninn og mig grunaði líka að hann væri ekki sænskur. Ekki það að svíar séu ekki þægilegir líka. Við tækifæri spurði ég hvort hann væri ekki sænskur. Jahá, það var góð spurning. Afar mínir og ömmur í báðar ættir komu frá Rússlandi útskýrði hann en foreldrar mínir eru báðir fæddir í Svíþjóð. Finnurðu virkilega að ég er ekki sænskur langt aftur í ættir? spurði hann einnig.

Margar svona frásagnir á ég í fórum mínum en nú er mál að spjalla svolítið við Valdísi. Á morgun um hádegi fer ég í vinnuna í Vornesi og kem heim á þriðjudagsmorgun. Ég vinn þrjár nætur í komandi viku. Valdís er ennþá með fyrirferðarmiklar umbúðir á hægri hendi eftir aðgerð sem ég sagði frá nýlega, en hún segist spjara sig fiskimannsdóttirin.

Ferðasaga

Þar sem ég fer aldrei úr landi nema þá til allra nánasta nágrennis get ég ekki sagt frá neinu merkilegu af þeim vetvangi og verð að grípa til einhvers sem skeður heima fyrir. Í gær sagði ég að ég ætlaði jafnvel að heimsækja hann Kjell vin minn á sjúkrahúsið í Eskilstuna. Í Eskilstuna hafa íslenskir læknar gjarnan lokið námi sínu. Þar er sjúkrahús sem kallast Mälarsjúkrahúsið og þar liggur Kjell og hefur gert í fleiri vikur.

Þegar ég kom á bílastæðið við sjúkrahúsið virkaði ekki stöðumælaboxið á kort. Það var hreinlega um bilun að ræða. 15 krónur fann ég í bílnum og það nægði til eins klukkutíma og 15 mínútna og ég hélt jafnvel að það mundi nægja. Síðan hraðaði ég mér upp til Kjell á áttundu hæð og viti menn; hann hálf sat uppi í rúminu og leit næstum snaggaralega til dyranna þegar ég opnaði. Það var fullt að spjalla og tíminn leið fljótt. Allt í einu var klukkan orðin þrjú og ég vissi að miðinn í bílnum væri útgenginn. Ég spurði Kjell hvort það væri nokkur hætta á að stöðumælavaktin væri á ferðinni svona um helgi. Jú, sagði Kjell. Hún Kristina fór illa út úr því hérna um daginn. Hún fékk sekt og hún varð fjúkandi reið, sérstaklega vegna þess að hún þekkti þann sem skrifaði sektina og hann vissi hvað hún gerði þegar hún kom á þetta bílastæði. Þá er hún að heimsækja mig, sagði Kjell.

Ég kvaddi Kjell en sagðist koma aftur þegar ég væri búinn að fá mér kaffi og borga meira í stöðumælinn. Ég fór beina leið niður á jarðhæð og á kaffiteríuna þar. Þar sátu tveir menn við borð og annar þeirra virtist eitthvað einkennisbúinn en svo veitti ég því ekki frekari athygli. Afgreiðslustúlkan gat verið svo sem 25 ára, lágvaxin, svolítið þybbin, dökkhærð með tagl sem byrjaði hátt upp í hnakkanum, ögn breið í andliti og mér fannst hún ekkert sérstaklega aðlaðandi við vinnu sína. Ég fékk mér þykka rækjubrauðsneið og kaffi og tók upp kortið. Geturðu ekki bætt við tíu krónum spurði ég starfsstúlkuna svo að ég fái pening í stöðumælinn. Nei, sagði hún, ég get bara tekið akkúrat fyrir því sem þú kaupir. Vesen, sagði ég, ég sem þarf að borga í stöðumælinn en hann tekur ekki kort vegna bilunar. Leiðinlegt svaraði hún með taglið og svo var ekkert meir. Vaktin er kannski ekki á ferðinni um helgar svo að ég kannski slepp, sagði ég. Ha ha, jú jú, svaraði stúlkan með taglið, hann stendur þarna og ég sá þá að einkennisklæddi maðurinn sem hafði setið við borðið stóð nú við hlið mér og hlustaði. Þetta var einkennisklæddur sekúrítasmaður. Það finnst annað box aðeins þarna neðar sagði hann og það virkar. Annars getur þú bara tekið því rólega. Drekktu kaffið þitt. Já gerðu það sagði hún með taglið og taktu þann tíma sem þú vilt. Ég er nefnilega að loka en þér er velkomið að sitja áfram. Svo þurrkaði hún af borðum, gekk frá kaffivélinni og ítrekaði við mig að ég skyldi sko ekki stressa mig. En hvað hún var þægileg við gamla manninn. Notalegt að fá svona móttökur.

Hvað hafði skeð? Ég sem hélt að hún væri þurrpumpa en hún vildi þvert á móti að ég vissi að ég mætti láta fara vel um mig. Ég hélt áfram með væna rækjusneiðina og velti fyrir mér hvort henni fyndist kallinn bara þægilegur -eða var það mögulegt að sekúrítasmaðurinn hefði heillað hana svo að ég hefði fengið að njóta þess líka. Einmitt þá birtist nýr maður sem setti í gang nýja atburðarás. Svo sem tæplega fertugur maður stikaði inn um hliðið sem beið eftir að sleppa mér út. Það stafaði af honum kulda og hann vildi fá að borða. Hún með taglið sagði að það væri búið að loka og hún gæti því miður ekki hjálpað honum. Þá jókst kuldinn og hann kom með tillögur um hvernig þau gætu afgreitt þetta mál en framkoman var alls ekki til að lokka fram samvinnuþýðu. Svo var hann farinn að hækka röddina og vildi leggja hundraðkall á afgreiðsludiskinn og láta liggja þar til morguns ef hann bara fengi góða brauðsneið. Hún með taglið hætti nú að segja nei og lauk verkum sínum hljóðlát og enga fékk maðurinn brauðsneiðina. Þá settist hann við eitt af borðunum, tók vatnsflösku upp úr bakpoka sínum og fór að drekka vatn. Afsíðis karlmaður einn á báti fær oft aðstoð en það fékk hann þó ekki. Ég hef nú grun um að ef hann hefði sýnt ögn meiri hlýleika, þá hefði hann fengið brauðsneið.

Svo kom ég aftur upp til Kjell. Það var gaman að þú skyldir koma sagði hann. Svo teygði hann sig með óstyrkri hendi eftir gemsanum sínum og hringdi til Bernt. Hann vildi nefnilega að við Bernt hittumst. Bernt er eitthvað yngri en ég og við eigum það sameiginlegt að eiga báðir stugur (lítið hús, sumarbústaður) en hans stuga er bara um 800 km norðan við Örebro. Við skiptumst öðru hvoru á fréttum af hvors annars stuguvinnu og sendum myndir en hann kemur ekki til með að smíða í sinni stugu fyrr en í vor. Við eigum það líka sameiginlegt að vera með lélega mjöðm -en þó ekki lengur. Bernt er búinn að fá nýjan lið og segir það undur notalegt. Áður en Bernt kom spurði Kjell hvort ég gæti ekki komið svolítið oftar. Ég velti þessu fyrir mér á leiðinni heim og áttaði mig smám saman á því að þeir ættingjar og vinir sem næstir eru eru búnir að heimsækja hann á sjúkrabeð í tvö ár, ýmist á Huddingesjúkrahúsinu í Stokkhólmi, Mälarsjúkrahúsinu og heima hjá honum í Eskilstuna. Það væntanlega dregur smám saman úr þessum heimsóknum og mér finnst það á vissan hátt skiljanlegt en ekki nógu skemmtilegt. Hér var ég í góðum bíl á góðum vegi og enn þægilega mettur af rækjusneiðinni og minningu um góðar viðtökur á kaffiteríunni á Mälarsjúkrahúsinu. Það var mikill munur á mínum högum og Kjells og mikil þörf fyrir mig að sjá það og endurnýja þakklætistilfinningu mína.

Vetur

Hér um daginn var tveggja daga frost sem flakkaði frá 15 til 20 stig en þessa dagana er þessi fína vetrarveðrátta með frosti frá þrjú til 14 stig og logn fyrir utan einn dag sem ég man eftir, en þá var golukaldi einn dagpart. Í morgun var ellefu stiga frost og sól að hækka á lofti þegar ég fór á Sólvelli skömmu fyrir hádegi. Þá var fínt, kristallað hrím á lauftrjám og sólin var byrjuð að lýsa það upp svo að veröldin skartaði silfri og kristöllum. Valdís var ekki með í ferð. Hún fór í smá aðgerð í fyrradag þar sem gerðar voru einhverjar ráðstafanir neðan við úlnliðinn til að koma í veg fyrir dofna fingur. Hún valdi því að vera heima og fara varlega. En hvað um það; ég vonaði að ég kæmi í tæka tíð á Sólvelli til að taka myndir áður en sólin næði að bræða burtu dýrðina. Það getur gerst á fáeinum mínútum ef svo ber undir. Myndin hér fyrir neðan sýnir svo hvernig bar í veiði þegar þangað vara komið.

Vetrarmorgun einn 1994 til 95 fórum við frá Svärdsjö í Dölunum niður til Falun. Þá var einn svona morgunn með hörku frosti og sólin rétt komin upp. Það var mikið meiri skrautsýning en þetta í dag og okkur fannst sem við hefðum allt í einu komið inn í veröld sem var af öðrum heimi. Svo upplifðum við það alla vega þá og ég á þá upplifun einhvers staðar skrifaða niður. Þessari vetrarblíðu er spáð áfram svo langt sem veðurfræðingsaugað eygir.


Svo smíðaði ég auðvitað á Sólvöllum í dag, setti spónaplötur á einn vegg. Að vísu kalla sumir afgreiðslumenn þessar plötur krossvið, aðrir nota einhverja skammstöfun, en þær eru aðallega notaðar undir gipsónett. Sjálfsagt er það gert á Íslandi líka. Við ætlum líka að setja gipsónett yfir þessar plötur.

Það er eins og ég hafi gert meira í dag en marga aðra daga þar sem þessar plötur eru loksins komnar upp á vegginn. En þannig er það þó ekki. En að þær eru komnar upp staðfestir hins vegar að það sem þarf að gera við sjálfan vegginn áður enn hægt er að klæða hann, það er búið. Svo auðvitað breytast húsakynnin voða skemmtilega þegar heill veggur er klæddur. Rósa og Pétur voru hér í heimsókn í fyrra og þá hjálpuðu þau okkur að rífa utanhússpanel af þessum vegg. Hann var nefnilega einu sinni útveggur. Ég man ekki í augnablikinu hvenær þetta var. Ef Rósa og Pétur lesa þetta geta þau kannski kommenterað og upplýst hvenær þetta var. Ég ætla hins vegar að fara að bursta og pissa og leggja mig. Ég er jafnvel að hugsa um að heimsækja hann Kjell vin minn á sjúkrahús í Eskilstuna á morgun. Við tölum oft saman í síma og hann spyr mig alltaf hvenær ég komi að heimsækja hann. Og á leiðinni heim eftir hvert skipti sem ég heimsæki hann skil ég hversu mikið ég hef að vera þakklátur fyrir.

Þannig lítur Suðurbæjarbrekkan út í dag


Það var ekki slæmt að líta út í morgun og sjá hverjum breytingum veröldin hafði tekið í nótt. Verst að myndavélin gat ekki náð fínustu dýptinni og birtunni. Það verður gaman að sjá hvernig það verður á Sólvöllum í dag þegar ég kem þangað.
RSS 2.0