Útlendingar

Þegar við komum til Svíþjóðar var hér mikið af útlendingum. Ekki vorum við Valdís útlendingar! alla vega engir útlendingar miðað við kolsvart fólk, brúnt fólk, fólk sem virtist tyrkneskt, skáeygt eða arabiskt svo eitthvað sé nefnt. Sannleikurinn er sá að það liggur mikið í því sem ég segi, þetta var raunverulega tilfinningin. En auðvitað vorum við líka útlendingar. Ég heillaðist af manneskju í gær sem er af erlendu bergi brotin en ég ætlaði að láta duga það sem ég bloggaði um heimsóknina til Kjell í gær. Nú get ég þó ekki orða bundist.

Stuttu eftir að ég settist inn í sjúkrastofuna til Kjell hringdi hann bjöllu þar sem hann þurfti aðstoð með eitthvað. Inn kom kona eitthvað undir þrítugu og heilsaði. Þegar hún hafði aðstoðað Kjell leit hún á mig og spurði hvort ég vildi kaffibolla. Já, endilega vildi ég það, fallega boðið. Alveg sjálfsagt svaraði hún og gekk út. Stuttu síðar kom hún inn með kaffið og rétti mér það glaðlega. Þegar hún var farin í þetta skiptið spurði ég Kjell hvort hann vissi hvaðan hún kæmi. Nei, svaraði hann, ég hef reyndar aldrei spurt hana eftir því, en hann sagði hana afar þægilega við sig. Nú vildi Kjell fá hjálp við að snúa sér í rúminu og hringdi bjöllunni aftur. Inn kom sama kona. Áður en hann bar fram erindið spurði hann hana hvaðan hún kæmi. Ég kem nú frá Eþíópíu sagði hún. Síðan fékk hún að vita hvað Kjell vantaði og hún fór fram til að sækja frekari hjálp. Innan skamms var búið að snúa Kjell í rúminu og aðstoðarfólkið farið út. Þá fórum við að tala um fólk frá Eþíópíu og Sómalíu sem við höfðum kynnst í Vornesi, þó nokkrar manneskjur bæði menn og konur en mest menn. Kaffið mitt var búið og Kjell bað um hjálp líklega tvisvar sinnum til og alltaf voru það sömu gæðin frá þessari broshýru konu frá Eþíópíu. Þolinmæði, hjálpsemi og vingjarnlegheit er einkunnin sem ég gef henni. Mikið er gott að það finnst fólk sem vill veita svona hjálp.

Fyrir mörgum árum kom um það bil tvítugur maður frá Írak í meðferð í Vornesi. Hann var við afar slæma heilsu þegar hann kom og það þurfti að líta mikið eftir honum fyrstu dagana á sjúkradeildinni. Mín vinna var þá í fyrsta lagi á sjúkradeildinni og það varð því oft mitt hlutverk að líta inn í herbergið til hans. Eitt sinn þegar ég var búinn að sjá að allt var í lagi og var að fara og loka hurðinni kallaði hann nafnið mitt. Ég færði mig aftur inni dyragættina og þá sagði hann; Guðjón, ég elska þig. Allt í lagi með það. Ég vissi vel hvað hann meinti. Hann meinti; þakka þér fyrir að líta eftir mér svo að ég geti verið öruggur. Margir gleyma að þakka fyrir þetta, en þetta var hans háttur á að segja það.

Fyrir nokkrum árum kom afburða prúður maður í meðferð, maður milli fimmtugs og sextugs. Það var eitthvað sérstaklega þægilegt við manninn og mig grunaði líka að hann væri ekki sænskur. Ekki það að svíar séu ekki þægilegir líka. Við tækifæri spurði ég hvort hann væri ekki sænskur. Jahá, það var góð spurning. Afar mínir og ömmur í báðar ættir komu frá Rússlandi útskýrði hann en foreldrar mínir eru báðir fæddir í Svíþjóð. Finnurðu virkilega að ég er ekki sænskur langt aftur í ættir? spurði hann einnig.

Margar svona frásagnir á ég í fórum mínum en nú er mál að spjalla svolítið við Valdísi. Á morgun um hádegi fer ég í vinnuna í Vornesi og kem heim á þriðjudagsmorgun. Ég vinn þrjár nætur í komandi viku. Valdís er ennþá með fyrirferðarmiklar umbúðir á hægri hendi eftir aðgerð sem ég sagði frá nýlega, en hún segist spjara sig fiskimannsdóttirin.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0