Þannig er nú það

Í gær talaði ég um gott fólk sem ég hefði hitt á flakki mínu þann daginn. Frá því á sunnudaginn hef ég velt mikið fyrir mér hvernig menn þroskast. Við horfðum á sjónvarpsmessu á sunnudagsmorguninn og Valdís meira að segja raulaði með. Þar predikaði prestur sem heitir Tomas og þennan Tomas hef ég talað um áður í fleiri en einu bloggi. Tveir synir hans hafa veikst sem unglingar og dáið sem unglingar úr einhverjum sjúkdómi sem hægt og rólega rýrir líkamann þangað til ekki er nógu mikið eftir til að halda lífinu í honum. Í þessu sambandi hef ég líka talað um fyrrverandi biskupinn Martin sem á soninn Jonas sem er þroskaheftur. Foreldrarnir vita eiginlega ekki hvernig hann hefur það, en þegar hann stendur við vegg og slær enninu í vegginn þangað til það fer að blæða, þá eru þau viss um að Jónasi líður illa. Þetta hefur tengt Tomas og Martin sterkum vináttuböndum og þeir hafa gjarnan skrifast á til að ræða sín erfiðu mál.

Tomas predikaði í sjónvarpsmessunni á sunnudaginn var. Síðast þegar við sáum hann á sjónvarpsskjánum var hann gamall maður með djúpar rúnir ristar í andlitið og seinni sonurinn var þá orðinn mikið veikur. Við Valdís töluðum um það þá hversu voðalega mikið hann hafði elst síðan við sáum hann næst þar á undan. Nú þegar við sáum hann við messuna á sunnudaginn var kom þar fram maður trúlega að nálgast fimmtugt, afslappaður í andliti, myndarlegur, reffilegur, þægilegur og bara röddin fékk okkur til að líta upp og hlusta. Seinni sonurinn var dáinn vissum við og staðfest hefur verið að þriðji sonurinn er ekki haldinn þessum voðalega sjúkdómi sem dregur unglinga til dauða.

Hann var ekki bitur, hann var ekki reiður þrátt fyrir svo kröftugt mótlæti til fjölmargra ára. Hann talaði um kærleikann og að það væri kærleikur að skilja ekki við fólk í vanda. Þjáningin í öll þau ár sem synir hans voru á leiðinni frá því að vera hraustir strákar til að verða liðin lík hafði þroskað hann andlega, svo mikið að bara að heyra röddina álengdar í sjónvarpi fær mann til að líta upp. Svo lagði hann áherslu á kærleikann. Á einhvern hátt var hægt að skynja það að sorgin var nærri, að sorgin bjó undir þunnri slæju sem auðvelt var að rjúfa, en hún hafði mótað hann til manns með andlegan styrkleika.

Kjell vinur minn sagði fyrir mörgum árum að draumur hans væri að þroskast svo andlega að það kæmi honum að liði sem ráðgjafi á meðferðarheimilinu þar sem við unnum, að fólk skynjaði að þar færi maður sem byggi yfir svo miklum andlegum styrk að það hrifi fólk til að ganga sömu leið og hann. Kjell var á góðri leið móti draumi sínum, en kannski var það þess vegna sem skaparinn greip í taumana og vildi fá hann til sín. Það var bara merkilegt hvað sá hluti leiðarinnar var þungur og langdrægur sjúkdómsferill.

En Tomas prestur lítur fram á við og hann veit að það er þörf fyrir menn eins og hann í heimi sem hungrar eftir góðum mönnum sem hafa styrk og þor til að gera vel. Heimurinn lítur kannski ekki út fyrir þetta hungur en ef vel er að gáð er það nú stóri meiri hlutinn sem í hjarta sínu óskar hins besta og þráir að finna trygga hendi til að leggja sína eigin leitandi hönd í.

Gott fólk

Ég ætlaði ekki að nenna á fætur um sjöleytið í morgun en ég vissi svo vel að ég mundi sjá eftir því að drolla legnur í rúminu. Svo fékk ég mér morgunverð í skyndi og hélt því næst á sjúkrahúsið í Örebro. Þar átti að taka röntgenmynd af hálsinum og ég freistaðist til að komast að á röntgendeild þar sem maður fer í biðröð og svo getur það tekið hvort heldur stuttan eða langan tíma að komast að. Og hvers vegna röntgen? Jú, ég fór til læknis á heilsugæslustöðinni í Fjugesta um daginn og bað um almennt heilsueftirlit. Þegar ég sagði að það væri orðið mikið erfiðara að líta til hliðar eða til baka þegar ég ek bíl tók Eva læknir á höfðinu á mér og sneri því og vaggaði. Svo sagði hún að ég væri voða stirður í hálsinum og vildi fá að sjá af þessu röntgenmynd. Svo leit hún líka inn í eyrun og sagði að ég ætti að láta skola þau út. Því fór ég beint frá henni til Lísu hjúkrunarfræðings sem leit í eyrun. Hún sendi mig heim með dropa sem ég átti að setja í eyrun í þrjú kvöld í röð og koma svo aftur klukkan ellefu í dag.

Þannig fór það eftir þessa læknisathugun sem ég hef verið á leiðinni í síðasta hálfa árið eða svo. Og nú sat ég á sjúkrahúsinu í Örebro og vonaði að ég kæmist fljótt að svo að ég kæmi í tíma til Lísu. Næsta mann á undan mér að afgreiðslunni hafði ég séð, trúlega í einhverja tugi skipta, en ég hafði aldrei talað við hann. Við ákváðum að setjast saman á biðstofunni og ég fékk að vita um nokkra af nánustu ættingjum hans, allt fólk sem ég þekkti. Hann vissi þá þegar að ég væri Íslendingur svo að það var honum ekkert nýtt. Hann átti pantaðan tíma og svo hvarf hann á undan mér. Hann ætlaði síðan að fara eina hæð upp á sjúkrahúsinu og heimsækja pabba sinn sem undanfarin ár hefur gengið í gegnum rosalegri sjúkrasögu en ég held bara að ég hafi heyrt um áður. Hann ætlaði að skila kveðju til pabba.

Ég sá nú að ég yrði of seinn til Lísu og þótti það miður. En ég var búinn að bíða í meira en tvo tíma og konan í afgreiðslunni hvatti mig líka til að bíða áfram. Þegar ég ætlaði að hringja á heilsugæsluna til að tilkynna Lísu að ég yrði of seinn komst ég að því að ég næði ekki sambandi þangað fyrr en löngu eftir að ég kæmi þangað. En eftir myndatöku af mér í mörgum stellingum tók ég stefnuna móti Fjugesta. Í afgreiðslunni þar sagði ég konu sem var svo ung að ég hefði vel getað verið afi hennar, að ég væri hálftíma of seinn í heimsókn til Lísu. Við reynum nú að bjarga því sagði hún hin stilltasta. Biðstofan var aldeilis troðfull af fólki. Eftir svolitla stund kom Lísa og sagðist ætla að bjarga þessu en hún yrði þó að gera það í áföngum.

Og svo gerði Lísa. Hún tók mig inn í eyrnaþvottahúsið og byrjaði að hreinsa og svo sagði hún að hún yrði að taka höndum um aðra sjúklinga og svo kom hún á ný. Tvisvar þurfti hún að fara og gera annað og ég sofnaði í stólnum í annað skiptið. Einhvern veginn með svo góðri lund hjálpaði hún mér þó að ég hefði komið hálftíma of seint og svo kíkti hún inn í bæði eyrun og sagði: Hreint og fínt. Kannski var hún 25 ára og ég dáðist að hjálpsemi hennar. Það var einfaldast fyrir hana að segja að ég yrði bara að koma seinna og reyna þá að koma í tíma. Ég var henni þakklátur og ég fann stóran mun á eyrunum og því sagði ég við hana: Þú ert afar hjálpleg kona Lísa. Hún einhvern veginn stoppaði öll eitt augnablik en sagði svo: Guð hvað ég varð glöð að heyra þetta. Svo töluðum við um Ísland eitt augnablik og hvernig það er að læra tungumál eftir miðjan aldur.

Mikið óskaplega var ég orðinn svangur þegar ég kom heim. Valdís kom með mat á borð og ég fór í köldu geymsluna undir gólfinu og sótti stór síldarflök sem þar eru í geymslu. Svo borðaði ég allt of mikið og sofnaði á eftir sem ég geri mikið, mikið sjaldan. En þrátt fyrir allt tókst okkur að gera heil mikið núna síðdegis og nýjar hugmyndir litu dagsins ljós. Ég er að lokum mjög ánægður með þennan dag og finnst að ég hafi hitt svo mikið af góðu fólki og þó að Lísa fái mesta umfjöllun hjá mér var allt viðmót þeirra sem ég leitaði til í dag litað af góðu viðmóti og hjálpsemi.

Ég er hissa á því hversu mikið er af ljótum fréttum miðað við allt það góða fólk sem ég hitti.

Biðjum fyrir þeim sem gráta

Tunglið er enn svo mikið í austri að það skín gegnum skóginn og hvort það virðist stærra en venjulega get ég ekki dæmt um fyrr en seinna í kvöld. Hins vegar er eins og margar trjágreinar séu að gæla við bjartan mánann og aðrar teygja sig áleiðis en ná ekki. Í sjónvarinu stendur yfir þátturinn Kóraslagurinn (Körslaget) sem er keppni sjö kóra þar sem einn kór fellur út á hverjum laugardegi. Í dag er fyrsti slagurinn og þess vegna á enginn að falla  út í kvöld. Á laugardeaginn kemur verður það hins vegar engin miskunn, þá verður fyrsti kórinn sendur heim. En sem sagt, það er ómurinn frá þessari keppni sem fyllir eyru mín þar sem sjónvarpið er ennþá tvo metra frá hægra eyranu þegar ég sit við tölvuna.

En ég er að reyna að breyta þessu ástandi með því að halda áfram í byggingarvinnunni eftir því sem kraftar mínir leyfa. Þetta lætur að vísu eins og ég sé á barmi uppgjafar en svo er ekki. Nú er ég búinn að vera einn með Valdísi í kotinu síðustu þrjá dagana. Smiðurinn er farinn í bili. Þegar ég er einn að smíða geri ég það sem er erfitt að láta aðra gera. Í fyrsta lagi eru sum verk þannig að það er erfitt að biðja aðra að framkvæma þau nema því aðeins að það sé hreinlega allt fullt af peningum. Því gerum við suma hluti hreinlega vegna þess að heimilisfaðirinn á þessum bæ hefur titilinn smiður. Svo er annað og það er að hér í landi gerir fólk vissa hluti, oftast kannski við aðalinnganginn, sem eru ætlaðir sérstaklega til skrauts, til að gera fallegt. Þetta heitir, þýtt á íslensku, smíðagleði. Hver ætti því að vera höfundur smíðagleðinnar á þessum bæ ef ekki smiðurinn í samráði við konu sína. Það liggur því beint við að smiðurinn á þessum bæ framkvæmi slík verk.

Nú eru ákveðnar hugmyndir um einfalda smíðalgeði við aðalinnganginn en það er ekki á dagskrá ennþá. Því hef ég verið að vinna við smíðagleði innanhúss í dag og ég er undrandi yfir því sem hefur áunnist og hversu vel hönnunin hefur tekist. En myndir af þessari smíðagleði verða þó ekki tilbúnar fyrr en eftir Íslandsferð. En ég nefndi áðan "titilinn smiður" og það gerði ég vegna þess að. . . nei, það verður að bíða þangað til ég verð fullorðinn. En ég er ekki einn við iðju hér heima. Valdís hefur verið að pakka niður í töskur fyrir Íslandsferð. Ég skal bara viðurkenna að það er mér ofviða að taka þátt í því. Ég vil ljúka byggingarvinnu hér hið fyrsta. Svo þegar við komum til Íslands kem ég til með að kalla: Valdís, hvar finn ég? . . . þetta og hitt

Það var verið sð segja fréttir frá Líbíu. Ég er ekki stríðsæsingamaður en ég er búinn að bíða óþreyjufullur eftir því að þjóðir komi sér saman um aðgerðir gegn því voðalega ástandi sem ríkt hefur í þessu landi þarna sunnan við Miðjarðarhaf. Mér létti því í dag þegar fréttir bárust af því að búið væri að samþykkja að hefja aðgerðir. Eftir fréttirnar frá Líbíu kom svo Anders veðurfræðingur á skjáinn og hann lofaði alveg sérstaklega fallegu veðri á morgun, sunnudag. Því miður eru samt allt of margir íbúar Jarðarinnar okkar svo uppteknir við að þurrka tárin sín að þeir taka ekki einu sinni eftir fallegu veðri. Svo sitjum við Valdís í öryggi hér heima og veltum fyrir okkur hvernig við getum gert heimilið okkar sem huggulegast. Við sem ekki þurfum að þurrka tár skulum muna eftir þessu grátandi fólki í bænunum okkar.

Góða nótt.

Dularfullir menn kringum Sólvelli

Nokkuð snemma í morgun fórum við Valdís til Örebro. Hún ætlaði að eyða deginum þar, meðal annars að hitta vinkonur sínar fjórar sem hún borðar með mánaðarlega. Þegar við vorum að leggja af stað urðum við vör við tvo dularfulla náunga sem voru að svingla hér í kring en við létum okkur hafa það og fórum af stað.


Þegar við fórum af stað leit aðal hitunartækið í húsinu okkar svona út. Við köllum þetta arinkasettu og kasettan er mikið hitunartæki og hefur látið okkur í té mikinn hita hér á Sólvöllum gegnum árin. Við létum setja hana upp þegar fyrsta árið okkar hér. En sannleikurinn er þó sá að hún hefur haft einn galla og það er að skorsteinninn er ekki svo vel gerður fyrir hana. Þessum galla ætla ég ekki að eyða mörgum orðum að lýsa en hann hefur valdíð því að það hefur öðru hvoru slegið niður í skorsteininum og þá einfaldlega kemur reykur inn. Ekki svo gaman það.

En nóg um það og þegar ég var búinn að skila Valdísi af mér inn í Örebro og erinda lítillega þar sjálfur sneri ég heim á leið. Ég velti mönnunum fyrir mér og var nokkuð eftirvæntingarfullur um snudd þeirra þegar við vorum að leggja af stað að heiman.


Og málið var einfaldlega það að þegar ég kom inn var arinkasettan horfin. Var virkilega búið að stela henni? Var það meining þessara manna að stela kasettunni meðan við vorum í Örebro? Svo fór ég að leita að þeim.


Þegar ég var búinn að æða umhverfis húsið og kíkja í geymslurnar úti kom ég til baka inn og þá hitti ég þessa vinalegu náunga. Og hvað haldið þið? Þeir voru að skipta kasettunni móti einhverju mikið fínna og betra tæki. Þessir náungar voru þá bara góðir strákar. Þetta voru Róland skorsteinsviðgerðarmaður og sonur hans Jóhann sem var  honum til aðstoðar. Þeir unnu hraustlega eins og allir aðrir sem hafa unnið hér á Sólvöllum í öllu þessu byggingarbrambolti okkar. En svo er það bara spurningin hvort vinnan þeirra var til einhverra bóta. Við skulum líta á næstu mynd.


Hér eru þeir búnir að ganga frá því sem við köllum viðarkamínu og er mikið snoturt tæki. Róland lofaði því að hún muni hita mikið betur en kasettan og svo er kannski það besta að kamínan er tengd skorsteininum á annan hátt en kasettan, ofar og þá er skorsteinsrásin bein upp eftir það. Maður verður líka fljótt var við hitann sagði hann. Svo fengum við okkur kaffi og kanellengju sem Valdís hafði skilið eftir á matarborðinu því að auðvitað vissum við vel hvað dularfullu mennirnir voru að snudda hér úti þegar við lögðum af stað. Svo fóru þeir og allir voru glaðir ég fór að sækja Valdísi.


Hvernig kemur kaminan út? spurði Valdís þegar við hittumst inn í Örebro. Ég sagðist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum. Ha ha ha sagði Valdís langdregið, nú ertu að skrökva. Já ég var að skrökva því að ég var alveg rosalegsa ánægður með þetta allt saman. Ég er oft ánægður með hlutina hugsaði ég. Svo þegar við komum heim tók ég auðvitað mynd af þeim saman, Valdísi og kamínunni, og ég bæði sá og heyrði að Valdís var himinlifandi líka. Eiginlega taka þær sig vel út þarna saman, þær eru báðar hlýlegar.


Hér er svo hægt að bera þetta saman frá öðru sjónarhorni, fyrri útbúnað hér og þann nýja fyrir ofan. Það fer ekki milli mála að þetta er mikil framför fyrir Sólvelli. Enn einn gleðilegur áfangi.

Þess má geta að Róland þessi er 56 ára og því er erfitt að trúa. Jóhann sonur hans er heyrnarlaus og mállaus og ég hef aldrei fyrr verið svo mikið í návígi við slíkan mann.

Stokkhólmsferð

Upp úr klukkan fimm í dag, sunnudag, komum við heim úr Stokkhólmsferð og skömmu eftir heimkomuna þegar við vorum að borða steikta ýsu fundum við að það var svolítið lágt á okkur risið -við vorum lúin. En ég talaði um það í fyrradag eða svo að ég ætlaði að taka myndir af henni Valdísi ömmu með yngsta barnabarninu sínu og nú ætla ég að standa við það. Það verður ekki mikill texti núna en þeim um meiri einhvern tíma seinna.


Hannes Guðjón þekkti okkur strax þegar við komum heim til þeirra og amma var mjög fljót að ná góðu sambandi við hann. Hér ræða þau málin og eru kát.


Það virðist ljóst að ungi maðurinn verður fljótur að læra á tölvur og hér nýtur hann aðstoðar ömmu sinnar.


Þarna eru þau að hlusta á líflega músik, Hannes, amma og mamma og það fær lítinn dreng til að veifa örmunum og dilla sér. Gaman, gaman og amma tekur þátt í leiknum og þá er ennþá meira gaman. Það er nefnilega meira gaman að dansa þegar maður er ekki einn.


Svo var spilað meira og skoðaðar myndir og bara gaman.


Pabbi, í annarri hendinni hef ég kú og gettu hvað er í hinni hendinni.


Svo fórum við öll út að ganga og skoðuðum vinnustofuna mömmu og pabba. Amma og afi, þið megið leiða mig, við hittumst ekki svo oft.


Það er nú ekki skrýtið að ég þurfi að hvíla mig aðeins. Fæturnir mínir eru svo mikið styttri en ykkar. Gott að það eru svona fínar gluggasyllur til að hvíla sig á og ekki er verra að það er fullt af englum þarna innan við rúðuna.


Nú er komið kvöld og best að fara alveg sérstaklega snemma að sofa. Við þurfum á því að halda og í fyrramálið kemur galvaskur smiður og það er best að við reynum að vakna vel í stakk búinn. Góða nótt.

Að vinna fyrir sínu

Ég ætlaði nú aldeilis ekki að eyða tíma í að blogga í kvöld en þegar ég svo skoðaði myndirnar sem Valdís hafði vistað inn á harða diskinn varð mér mál. Hús hrynja á einum stað í dag en nálgast all hratt að verða tilbúin íbúðarhús á öðrum. Það er munur á örlögum manna og mér ber að færa fram nokkur þakkarorð með kvöldbæninni eða morgunbæninni ef ég skyldi sofna of snöggt þegar eyrað finnur fyrir koddanum. Ég las það nýlega á FB að hamingja væri að vera þakklátur í hjarta fyrir það sem ég hef og þrá ekkert meira.

Þar liggur vandinn; að þrá ekkert meira. Fyrir nokkrum árum var ég á leið heim til Örebro eftir að hafa verið eitthvað að bardúsa á Sólvöllum. Ég tók bensín og keypti svo lottómiða á besnínstöðinni og á leiðinni út í bíl hugsaði ég sem svo að eina miljón væri nú alveg frábært að fá á svo auðveldan hátt og þá væri hægt að gera allt á Sólvöllum sem hugurinn girntist ásamt mörgu öðru. En svo sló mig hugsunin að það væri allt of auðvelt og þá mundum við ekki eiga það sem við hefðum þar sem við hefðum ekki unnið fyrir því. En ég fann mig klofinn þar sem ég vissi að ég mundi taka við miljón ef ég ynni hana einhvern tíma.


En ég fékk enga miljón og það er nú líklega best þannig og ég reyni að vinna að okkar þannig að við eigum það. Þegar þessi mynd var tekin í dag var smiður að vinna rétt hjá en ég valdi að fara á þann staðinn þar sem erfiðara var að vinna. Ég gat alls ekki hugsað mér að velja betra verkið og láta smiðinn skríða á loftinu.


En smiðurinn jafnaldri minn afkastaði svo ótrúlega miklu í dag og vann einnig af mikilli alúð og nákvæmni. Ég sagði frá því um daginn að hann ætti bústað upp í Jämtland. Í dag kom hann með myndaalbúm með myndum af bústaðnum sínum og myndunum var raðað þannig að þær sýndu byggingarsöguna. Hann var svo glaður yfir bústaðnum sínum þarna á bernskuslóðunum með útsýni til Jämtlandafjallanna að það var ekki hægt annað en gleðjast með honum. Meðan ég skoðaði myndirnar með honum hugsaði ég sem svo að hann hefði unnið fyrir sínu og því væri hann svo glaður með það sem hann hefði. Á einni mynd var hann að vinna með skóflu niður í þriggja metra djúpum frárennslisskurði og á annarri var hann að vinna við grunninn undir húsið. Mér fannst við eiga nokkuð sameiginlegt. Svo fór ég að smíða og hann fór aðra umferð gegnum albúmið og sýndi Valdísi myndirnar.


Fet fyrir fet kemst lag á húsið og að fá klætt loft eftir að allt hefur verið í rúst um tíma er alveg dásamlegt þó að það þurfi að vinna töluvert fyrir því. Loftið er bara einn gleðiáfanginn af svo mörgum.


Svo þegar ég hætti tók ég mynd af dagsverkinu mínu og var harla glaður. Mig langaði að vísu að halda svolítið lengur áfram en það var komið kvöld og ég á að vera búinn að afla mér svolítillar skynsemi á 68 árum.


Við Lennart smiður ákváðum áður en hann fór að við skyldum hafa loftið fullgert á mánudagskvöld. Hans flötur var mikið stærri en minn og mikið stærri en sést á myndinni en það er í góðu lagi. Þó að ég hefði unnið verkið hans hefði ég alls ekki komist svo langt sem hann gerði á nokkrum klukkutímum. Næsti áfangi sem hægt verður að gleðjast yfir sést aðeins í þarna til vinstri, en það er gaflinn frá gamla húsinu sem nú er orðinn inn í miðju húsi. Hann lítur afar ritjulega út sem stendur en það er allt samkvæmt skipulagi eigi að síður.

Nú hef ég skrifað þetta eins og Valdís hafi hvergi verið nálæg en samt tók hún flestar myndirnar. Eldhúsaðstaðan sem hún hefur til afnota sem stendur er ekki upp á marga fiska. Það er kannski þess vegna sem ég hef verið lélegur við að taka myndir af henni. Það eru skörp hlutverksaskipti okkar á milli þessi misserin en ég hef oft sagt að hún hefur séð mér fyrir orku með þeirri fæðu sem hún hefur borði á borð fyrir mig. En á morgun förum við til Stokkhólms og þá ætla ég að vera duglegur við að taka myndir af henni í ömmuhlutverkinu. Við ætlum að heimsækja Hannes Guðjón og fjölskyldu og vera þar næstu nótt og halda svo aftur heim á sunnudag.

En við erum amma og afi fleiri barnabarna en Hannesar Guðjóns og þess vegna förum við til Íslands þann 26. mars til að vera við fermingu hennar Erlu í Vestmannaeyjum. Við förum svo aftur til baka þann 14.apríl

Rafvirki, smiður og sótari

Ég hef held ég ekkert bloggað um húsbyggingu lengi sem auðvitað bara gengur ekki. En þó að ég hafi verið hljóður á blogginu varðandi þetta hefur húsbyggingin ekki staðið í stað, hreint alls ekki. Og eins og venjulega eru allir áfangar til ánægju. Til dæmis þegar rafvirkinn var búinn að koma og ganga frá öllum rafmagnsslögnum sem hringuðust út um allt eins og svínsrófur og við gengum á þær, fengum þær í andlitið og gleraugun. Svo þegar sótarinn var búinn að koma og hreinsa skorsteininn var ekki annað en veikja upp í kamínunni og svo var hlýtt í heilan dag. Vel einangrað hús er gott hús. En að vera sótari, það hlýtur að vera skítavinna. Svo er hann Lennart nágranni, smiður og ellilífeyrisþegi farinn að vinna hjá okkur. Já, hjól atvinnulífsins snúast á Sólvöllum í Krekklingesókn.


Ef ég skildi nú hvað rafmagn er. En ég þarf ekki að skilja það, það gerir það mesta sem maður óskar sér þó að ég skilji það ekki. Ekki veit ég hversu margir metrar af rafmagnsrörum og leiðslum eru komin í þetta hús sem var auglýst sem einfaldur sumarbústaður árið 2003, en það hljóta að vera nokkur hundruð metrar. Getum við ekki gert svona segjum við við rafvirkjann og þá er það ekkert vandamál. Svo er bara lagt eitt rör í viðbót eða þræði bætt í eitthvert röranna. Það sem við sjáum á þessari mynd eru bara smámunir af öllu saman. Rörin tvö vinstra megin í loftinu er bara vararör ef framtíðin skyldi bjóða upp á einhverja galdra sem þyrfti að leiða milli enda í húsinu með leiðslum.


En það var í gær sem rafvirkinn kom og í dag kom hann Lennart smiður. Lennart kemur frá Jämtland, nánar tiltekið í nágrenni Östersund, en Östersund er nánast í miðri Svíþjóð bæði frá norðri til suðurs og frá austri til vesturs. Konan hans er frá þessum slóðum líka og þau eiga bústað þarna norðurfrá og Lennart fær stjörnur í augun þegar við tölum um bústaðinn hans. Hann er mjög fínn nágranni og góður kall og þarna er hann að einangra.


En svo hófst nýr áfangi, að setja í loftið í gmla hlutanum. Að vísu settum við bara tvær svona umferðir hvoru megin og svo ætlum við að klára að klæða veggina í gamla hlutanum, fyrst með krossvið og síðan með gipsónetti eins og alla aðra veggi á Sólvöllum. Meðan Lennart vinnur við veggina ætla ég að vinna við að innrétta litla loftið sem á að verða krúttlegur góður staður. Það verður sko enginn skammarkrókur þar uppi skulið þið vita, enda yrði það bara ég sem yrði sendur í skammarkrókinn því að það er ég sem er prakkarinn á bænum. Valdís er betri helmingurinn.

En svo er það þetta með sótara, hvort það er ekki bansett skítavinna. Það var hressilegur og skemmtilegur kall, sótarinn sem kom í dag, og vegna breytinganna hér þurftum við á því að halda að ræða vissa hluti við hann. En eigum við ekki að líta á mynd af kallinum.


Þetta er hann Hasse Olsson skorstensfejarmästare sem þýðir einfaldlega sótarameistari. Og það verður ekki sagt með sanni að Hasse líti út fyrir að vera skítugur eða sóðalegur -eða hvað segið þið um það í fullri alvöru? Það var verst að ég tók ekki mynd af honum þegar hann var upp á þaki að pota niður í skorsteininn. Það hefði verið svo fínt að sjá hann þar uppi bera við himinn með hattinn. Svo setti hann meira að segja myndavél þar niður til að athuga hvort ekki væri allt í lagi í reykrörinu. Slíkt á að gera með nokkurra ára millibili. Það er alveg ótrúlegt hvað þessir menn vinna verkið þrifalega og eins og sjá má er stór ryksuga þarna við hliðina á honum og hún er í gangi allan tímann sem þeir vinna við þetta innanhúss. Allt í einu tók hann lítið vasaljós og svo stakk hann höfðinu á bólakaf inn í kamínuna til að sjá upp móti skorsteininum. Þá reyndat tók hann ofan hattinn á meðan.


Svo þurftum við að fá fræðslu um hvernig við ættum að innrétta kringum skorsteininn og þarna er hann að fræða okkur um það og talar með öllum líkamanum þó að hann liggi á hnjánum á gólfinu.

Hvað er ég að gera

Mér þykir afar vænt um kyrrð og ég sagði einhvers staðar um daginn að ég aðhyltist hljóða tóninn í söngnum. Ég býst við að það sé uppeldisatriði að ég syng ekki en ég hef hins vegar mjög gaman af að hlusta á góðan sön, en ég vil ekki alltaf hafa hann dynjandi á hljóðhimnum mínum. Þegar ég talaði um hljóða tóninn um daginn datt mér í hug saga sem fólk hefur lesið líklega í hartnær 3000 ár. Mér finnst sagan mjög falleg og því ætla ég að endursegja hana hér.

Elía spámaður dvaldi í helli í fjallinu Hóreb. Menn sátu um líf hans og hann var hræddur. Drottinn kom til hans og ræddi við hann og að endingu bað Drottinn hann að ganga út og nema staðar á fjallinu frammi fyrir sér.

"Og sjá, Drottinn gekk fram hjá, og mikill og sterkur stormur, er tætti fjöllin og molaði klettana, fór fyrir Drottni, en Drottinn var ekki í storminum. Og eftir storminn kom landskjálfti, en drottinn var ekki í landskjálftanum. Og eftir landskjálftan kom eldur, en Drottinn var ekki í eldinum. En eftir eldinn heryrðist blíður vindblær hvísla. Og er Elía heyrði það, huldi hann andlit sitt með skikkju sinni, gekk út og nam staðar við hellisdyrnar. Sjá, þá barst rödd að eyrum honum og mælti: "Hvað ert þú hér að gjöra, Elía?""

Blíði vinblærinn hvíslaði. Mér finnst ég skynja vor þegar ég skrifa það. Hlýr morgunn og laufið skrjáfar næstum hljóðlaust upp í safaríkum trjákrónunum, fuglar sinna sínu og jörðin angar af jörð og gróðri. Þá talar Drottinn til okkar með því að láta sköpunarverk sitt umlykja okkur og þá skynjum við eitthvað sem er okkur æðra, einmitt í hljóða tóninum. Á slíku augnabliki elskum við kyrrðina og viljum gjarnan láta eitthvað gott af okkur leiða.

En mitt kostar aðeins minna

Seinni hlutann í dag hef ég verið uppi í litlu risi hér á Sólvöllum að einangra með meiru. Þetta er alveg út við útvegginn þannig að það er lágt pláss að vinna í og það er ekkert um annað að gera fyrir mig en að liggja á loftinu og velta mér þar í einangrun sem ég setti á loftið fyrir nokkrum árum. Svo vill einangrunin upp fara upp í ermarnar, upp í skálmarnar, niður með skyrtukraganum, í nefið og helst niður í lungu. Þarna uppi verður hins vegar hið skemmtilegata pláss þannig að það er til nokkurs að vinna. Þegar smiðirnir enduðu vinnu sína hér fyrir síðustu helgi var komið að því að vinna þetta en þá þurftu þeir allt í einu að skreppa til Örebro og spurðu hvort þeir ættu að koma aftur. Ég skildi þá alveg og þeir þurftu ekki að koma aftur. Þeir voru búnir að gera mikið og vinna mjög, mjög óstöðvandi hratt.

Klukkan hálf átta var komið að þáttaskilum, allt það versta var búið, og þá hætti ég og fór hið bráðasta í sturtu. Þarna stóð ég undir sturtunni og fannst sem það hefði verið óhemju gaman að þessu, og þá alveg sérstaklega var gaman að þetta var búið. Þá þurfti ég ekki að böglast þarna á morgun líka og þá lítur út fyrir að ég sé ekki sjálfum mér samkvæmur að segja að þetta hafið verið gaman. En svona var þetta samt sem áður. Og svo er annað sem gerði mig hissa. Ég var að velta fyrir mér hlutum sem voru svo í órafjarlægð frá því sem ég var að gera.

Mér fannst það gaman að vera að ljúka einum áfanganum enn við húsið okkar. Suður í Evrópu eru hins vegar menn að vinna við allt annað. Þeir eru að vinna í einhverjum stærstu eða langstærstu jarðgöngum í heimi. Þeir ætla að komast að því hvernig heimurinn varð til með því að skjóta einhverjum örlitlum ögnum hverri á aðra með búnaði sem kostar mikið meira en ég get áttað mig á. Ég velti því fyrir mér upp í risinu hvort það væri það nauðsynlegasta í heimi að komast að því. Og þó að menn komist að því held ég að menn verði aldrei vissir um að það hafi verið einmitt þannig. Svo kom ég oft niður úr risinu og þá leit ég stundum á fréttir í sjónvarpi og þar var mikið talað um stríð niður í Líbíu þar sem menn skjóta með drápsvopnum hverjir á aðra.

Ekki er ég alveg viss um að Guði almáttugum sé nokkur þóknun í því að menn reyni að komast að því hvernig heimurinn varð til. Ég held hins vegar að honum væri mun meiri þóknun í því að menn eyddu einhverju af þeim ógnar peningum sem rannsóknin suður í Evrópu kostar til að rannsaka hvernig hægt væri að fá fólk til að skilja það að það er afar mikilvægt að við mannsekjurnar elskum hver aðra meira en við gerum. Þó að vísindamenn komist að niðurstöðu um sköpun heimsins munum við væntanlega ekki elska hvert annað meira þrátt fyrir það. Ég held að þeir geri þetta bara ánægjunnar vegna og til að seðja forvitni sína en ég einangra uppi í risi ánægjunnar vegna. Þar með erum við að gera svipað en mitt kostar aðeins minna.

Ég er ekki að vanmeta kunnáttu og vísindi með ofanrituðu. Þegar ég spurðu Rósu um daginn hvað námskeiðið fjallaði um sem þau hafa unnið með í vetur og fékk að vita að það var liður í að mennta fólk sem hjálpar heyrnardaufum, þá fannst mér kunnátta og vísindi mikilvæg.

Vasagangan

Það er spurningaþáttur í sjónvarpinu núna og þar var mikið um íslenska hestinn áðan og gangtegundir hans. Það voru líka sýndir margir fallegir íslenskir hestar, vel kembdir og glansandi. Og það var meðal annars sagt frá því að þó að íslenski hesturinn væri lítill gæti hann auðveldlega borði fullorðinn mann.

Dagur er að kvöldi kominn og í dag hefur verið óttalegt flakk á okkur Valdísi. Eftir einhverra stunda smíðar í morgun drifum við hjólsögina inn í farangursrýmið í bílnum og héldum með hana til Fjugesta. Ég hafði hringt í málningarvöruverslunina þar sem ég keypti sögina fyrir þremur árum og spurði hvar mundi vera hægt að fá gert við slík verkfæri. Sögin nefnilega neitaði algerlega að snúast og eitthvað þungt og mér óskiljanlegt hélt á móti þótt motorinn rembdist af öllum mætti. Per, sem rekur þessa verslun, sagðist ekki hafa hugmynd um hverjir gerðu við hjólsagir en sagði mér bara að koma með sögina og svo skyldum við sjá hvað skeði.

Nú, auðvitað. Ég sló nú ekki hendinni á móti því að gera þetta svona einfalt. Ég vissi jú að Per er upphaflega rafvirki og í versluninni hjá honum vinnur líka ungur maður sem er til í að reyna það mesta sem er í boði. Það er nefnilega þannig með þessa verslun að þar er alveg frá bært fólk og hjálplegt. Það er reyndar fullt af svona fólki ef maður bara vill taka eftir því og ég held að ég tali oft um það. Við erum dyggir viðskiptavinir þarna og okkur er líka mætt sem slíkum eins og dæmið um sögina gefur til kynna. Svo vonum við bara að sögin verði brátt heima aftur því að það er ómetanleg hjálp í því að hafa hjólsög þegar verið er að byggja.

Valdís átti tíma hjá heyrnasérfræðingi sem ætlaði að prufa heyrn hennar og því vorum við í Örebro næst á eftir Fjugesta. Eftir heyrnarkönnunina drifum við okkur í verslun þar sem einnig er matsölustaður. Og hvað með það. Það er líklega ekkert merkilegt við það. Og þó. Við fengum okkur mat þarna og ef eitthvað er til frásagnar sf því, þá er það bara það að ég hef bara aldrei held ég séð aðra eins rosalega skammta á diskum. Við urðum næstum södd af að horfa á haugana sem við höfðum framan við okkur þegar við vorum setst.

Eftir mikið matarát alllanga stund var það þó svo merkiklegt að það var ekki svo mikið eftir á diskunum. Þvílíkt og annað eins. Það lá við að við værum farin að líta í kringum okkur en sannleikurinn var þó sá að enginn var að velta þessu fyrir sér. En eitthvað gott virtist þetta hafa í för með sér því að þegar við komum heim fór ég í vinnugallann, dreif mig upp í ris og skreið þar við verstu aðstæður. Og viti menn! Ég var búinn að hálf kvíða fyrir þessu verki í marga daga en þegar ég var byrjaður með allan þennan mat í maganum uppgötvaði ég að verkið var bæði einfalt og auðvelt að framkvæma. Þetta hlýtur að hafa verið alveg sérstakur matur.

Nú er ég búinn að bulla um stund með sjónvarpið í gangi tvo metra frá hægra eyranu og þá er komið að því að vekja athygli á einu. Klukkan hálf átta að sænskum tíma á sunnudagsmorguninn hefst útsending frá Vasagöngunni og klukkan átta leggja af stað yfir 15000 manns í þessa 90 km löngu göngu. Það best ég veit er þetta lengsta og fjölmennasta skíðakeppni í heiminum og athugið; hún á sér stað í einu af Norðurlöndunum. Ég veit að það er ekki farið svo mörgum orðum um þessa göngu á Íslandi. Fyrir tveimur árum sendi ég Boga Ágústssyni tölvupóst og vakti athygli á þessu og alla vega það ár voru fréttir af Vasagöngunni. Ef fólk sem hefur aðgang að sænsku sjónvarpi þá hefst sjálf gangan klukkan sjö að íslenskum tíma á sunnudagsmorgun. Einhverjir tugir Íslendinga taka þátt í göngunni.

Það er upplifun að sjá þennan ógtrúlega mannfjölda leggja af stað. Það er eins og startið ætli aldrei að taka enda. Valdís horfir mikið á skíðaíþróttir í sjónvarpi og kann þar nöfn og þjóðerni en ég er alger auli á þessu sviði. Ég er hins vegar ákveðinn í því að sjá Vasagönguna hefjast.


Ps. Ég var búinn að stela mjög fallegri mynd af manni á íslenska hestinum en svo sá ég að fólk var beðið að stela ekki myndinni. Og hvað geri ég þá? Ég virði beiðnina og fæ í staðinn betri stund með Óla Lokbrá í nótt,

Að þroskast af lífinu

Ég hef lengi, eða alltaf, litið svo á að ein höfuðmeiningin með lífinu sé að þroskast sem manneskja. Í gær bloggaði ég svolítið um fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar og formann sænska Alþýðuflokksins, Ingvar Carlsson. Ég hélt áfram núna eftir kvöldmatinn að hlusta á samtalið við hann frá í fyrradag og ekki síður að horfa á hann. Ég spáði í það hvernig hann brást við spurningum, hvernig raddblærinn var, hvernig hann bar sig þar sem hann sat í stólnum í sjónvarpssal, hvernig viðmótið var og svo margt fleira. Ég gat ekki látið vera að hugsa sem svo að þessum manni hefði tekist að þroskast af lífinu og þeim uppákomum sem hann hafnaði í. Það var mikið langt frá því að hann hefði orðið uppkjöftugur atvinnupólitíkus af lífsverki sínu  -heldur sem þroskuð manneskja sem hefur áhrif á umhverfi sitt bara með því að vera nærverandi.

Ingvar var upphringdur af aðstoðarmanni Olofs Palme forsætisráðherra þremur korterum eftir að Palme var myrtur og aðstoðarmaðurinn tilkynnti honum að Palme hefði verið skotinn. Ingvar og Palme höfðu verið miklir vinir, ekki bara flokksbræður og vinnufélagar, heldur miklir vinir. Það var ákveðið á fimmtán mínútum að Ingvar tæki við störfum Palme -"og það var mikið langt frá því að ég fynndi fyrir hinni minnstu gleði yfir að verða forsætisráðherra landsins og leiðtogi sænskra Socialdemokrata" sagði Ingvar. Ég grét mikið þessa daga en landinu varð að stjórna og það var ekkert annað gera en að bíta á jaxlinn og vinna. Hið fullkomlega óhugsandi hafði skeð í þessu landi, forsætisráðherra þess hafði verið skotinn.

Já, þannig var það. Ingvar var afar hógvær og sannfærandi þegar hann sagði frá þessu. Öðru hvoru virtist hann verða all hrærður. Þetta er önnur mynd en margt fólk annars hefur af stjórnmálamönnum býst ég við og ég á afar erfitt með að sjá margan stjórnmálamanninn sem er í slagnum í dag verða að slíkum yfirveguðum, þægilega virðulegum eldri manni, manni sem hefur að mínu mati þroskast sem manneskja með mikinn persónuleika af ferli sínum. Sagan leggur sinn dóm að lokum. Það er þá sem margt kemur upp í dagsljósið og það er þá sem margir sjá eftir að hafa sagt það sem þeir sögðu og vona bara að allir hafi gleymt því. Svo eru aðrir sem þola smásjá sögunnar vegna þess að þeir hafa verið ábyrgir, hugaðir og sannir. Nöfn þeirra verða stór í sögunni. Ingvar Carlsson er einn slíkur maður þó að hann hafi grátið af sorg á fyrstu vikunum sem æðsti maður þjóðar sinnar sem taldi einar átta miljónir.

Þegar ég byrjaði að skrifa þetta í gær var tilgangurinn einn, núna kvöldið eftir er mér allt annað í huga. Ég hef litið í íslensk blöð í dag og merkt að haldið er áfram að sækjast að Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra. Ég ætla ekki að rökstyðja neitt og ég ætla hér að segja hlutina í sem fæstum orðum. Ég er algerlega sannfærður um að Svandís er að gera mjög þarfa hluti fyrir land sitt, nýja hluti líka, og til að gera það þarf mikinn kjark. Þegar sagnfræðingar framtíðarinnar, og þá á ég við þá sem enn eru í vöggu og á leikskóla, skrifa að svo sem þrjátíu árum liðnum sögu þeirra atburða sem eiga sér stað þessa dagana, þá verður nafn Svandísar hátt skrifað. Þá verða hins vegar nöfn þeirra sem veitast af hörku að henni á skipulagðan hátt ekki skrifuð með svo stórum stöfum vegna þess að þau verða falin í skugga illa hugsaðra og illa valinna  orða og margur mun þá óska þess heitt að hafa aldrei látið þau orð frá sér fara.

Svandís er hugaður brautryðjandi og framtíðin mun verða henni þakklát. Hún kastar ekki stóryrðunum kringum sig en hún tekst á við hlutina. Árið 1905 þegar landsmenn fréttu af því að það ætti að fara að leggja símalínur um landið riðu þeir í fylkingum til Reykjavíkur til að mótmæla. Hvað hefur ekki verið hlegið oft að þessu gegnum árin? Snjósleðamenn, jeppamenn, og þeir sem vilja geta gert hvaðeina sem þeim dettur í hug við Ísland ef það getur orðið þeim til fjárhagslegs ábata um stundarsakir, verða aðhlátursefni seinna á sama hátt og mótmælendur síma árið 1905. Svandís mun vaxa af verkum sínum, þroskast sem manneskja. Hún er kona og ég er alveg öruggur með það að þeir sem eru með typpin mundu sækja öðru vísi að umhverfisráðherra ef það væri maður.

Áfram Svandís!
RSS 2.0