Þannig er nú það

Í gær talaði ég um gott fólk sem ég hefði hitt á flakki mínu þann daginn. Frá því á sunnudaginn hef ég velt mikið fyrir mér hvernig menn þroskast. Við horfðum á sjónvarpsmessu á sunnudagsmorguninn og Valdís meira að segja raulaði með. Þar predikaði prestur sem heitir Tomas og þennan Tomas hef ég talað um áður í fleiri en einu bloggi. Tveir synir hans hafa veikst sem unglingar og dáið sem unglingar úr einhverjum sjúkdómi sem hægt og rólega rýrir líkamann þangað til ekki er nógu mikið eftir til að halda lífinu í honum. Í þessu sambandi hef ég líka talað um fyrrverandi biskupinn Martin sem á soninn Jonas sem er þroskaheftur. Foreldrarnir vita eiginlega ekki hvernig hann hefur það, en þegar hann stendur við vegg og slær enninu í vegginn þangað til það fer að blæða, þá eru þau viss um að Jónasi líður illa. Þetta hefur tengt Tomas og Martin sterkum vináttuböndum og þeir hafa gjarnan skrifast á til að ræða sín erfiðu mál.

Tomas predikaði í sjónvarpsmessunni á sunnudaginn var. Síðast þegar við sáum hann á sjónvarpsskjánum var hann gamall maður með djúpar rúnir ristar í andlitið og seinni sonurinn var þá orðinn mikið veikur. Við Valdís töluðum um það þá hversu voðalega mikið hann hafði elst síðan við sáum hann næst þar á undan. Nú þegar við sáum hann við messuna á sunnudaginn var kom þar fram maður trúlega að nálgast fimmtugt, afslappaður í andliti, myndarlegur, reffilegur, þægilegur og bara röddin fékk okkur til að líta upp og hlusta. Seinni sonurinn var dáinn vissum við og staðfest hefur verið að þriðji sonurinn er ekki haldinn þessum voðalega sjúkdómi sem dregur unglinga til dauða.

Hann var ekki bitur, hann var ekki reiður þrátt fyrir svo kröftugt mótlæti til fjölmargra ára. Hann talaði um kærleikann og að það væri kærleikur að skilja ekki við fólk í vanda. Þjáningin í öll þau ár sem synir hans voru á leiðinni frá því að vera hraustir strákar til að verða liðin lík hafði þroskað hann andlega, svo mikið að bara að heyra röddina álengdar í sjónvarpi fær mann til að líta upp. Svo lagði hann áherslu á kærleikann. Á einhvern hátt var hægt að skynja það að sorgin var nærri, að sorgin bjó undir þunnri slæju sem auðvelt var að rjúfa, en hún hafði mótað hann til manns með andlegan styrkleika.

Kjell vinur minn sagði fyrir mörgum árum að draumur hans væri að þroskast svo andlega að það kæmi honum að liði sem ráðgjafi á meðferðarheimilinu þar sem við unnum, að fólk skynjaði að þar færi maður sem byggi yfir svo miklum andlegum styrk að það hrifi fólk til að ganga sömu leið og hann. Kjell var á góðri leið móti draumi sínum, en kannski var það þess vegna sem skaparinn greip í taumana og vildi fá hann til sín. Það var bara merkilegt hvað sá hluti leiðarinnar var þungur og langdrægur sjúkdómsferill.

En Tomas prestur lítur fram á við og hann veit að það er þörf fyrir menn eins og hann í heimi sem hungrar eftir góðum mönnum sem hafa styrk og þor til að gera vel. Heimurinn lítur kannski ekki út fyrir þetta hungur en ef vel er að gáð er það nú stóri meiri hlutinn sem í hjarta sínu óskar hins besta og þráir að finna trygga hendi til að leggja sína eigin leitandi hönd í.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0