Ellikallar

Það var í fyrri viku sem ég fór með Valdísi á heilsugæsluna í Fjugesta, höfðuðstaðarins í Lekebergshreppi. Hún fór þar í biðröð til blóðsýnatöku. Ég fór hins vegar til að sinna erindum og kom að því búnu til baka til að vera henni selskapur. Þegar ég sá inn á biðstofuna sá ég herðarnar á manni sem sat þar og talaði við Valdísi. Það var ekki erfitt að sjá hver þar var á ferð -Anders rafvirki.
 
Hann vann hjá okkur þangað til hann varð ellilífeyrisþegi og þá varð okkar maður Patrik sonur hans, litli yfirmaðurinn sem Anders kallaði hann stundum. Áður en Anders hætti að vinna sagði hann okkur að hann ætlaði eitthvað frameftir árum að sjá um lagerinn, að telja það sem færi út til kúnnanna og það sem síðan kæmi til baka. Það var líka hægt að heyra það milli orðanna að honum fannst best að einhver eldri og rólegri sæi um þá hlið málsins. Einnig að hann óskaði að fá að vera með í starfsseminni eitthvað áfram.
 
Þegar ég birtist aftur þarna á heilsugæslunni benti Valdís á mig og Anders leit við. Ég sá samstundis að hann var unglegri nú en þegar hann var hjá okkur fyrir rúmum fjórum árum. Hann lét vel af ellilífeyrisþegalífinu, sagðist frjáls eins og fuglinn og gera skemmtilega hluti. Þú ert að byggja, sagði hann svo. Já.
 
Svo hélt Anders áfram nokkurn veginn svona: Ég kom á verkstæðið um daginn og þá voru Robin og Jonas að búa sig til að fara út að vinna. Ég spurði hvert þeir væru að fara og þeir sögðust vera að fara til Guðjóns. Ég spurði hvað hann væri að gera og þeir svöruðu því til að hann væri að byggja bílskúr.
 
Þar með kom í ljós að Anders er dyggur vinnustaðnum og kemur þanga til að telja rafmagnsdósirnar og metrana af rafmagnsrörum. Einnig til að sýna sig og sjá aðra og fá fréttir úr byggðinni. Hann virkjar hugann um leið og finnst hann vera svolítið virkur ennþá sem starfsmaður fyrirtækisins sem hann hafði rekið í áratugi.
 
Síðan um áramót hef ég unnið tvær nætur í Vornesi. Þegar ég vann fyrri nóttina voru Rósa og Hannes stödd hér þannig að Valdís var ekki ein. En þegar ég vann seinni nóttina var hún ein. Ég var búinn að segja dagskrárstjóranum að ég gæti ekki unnið þessa nótt en það aftók Valdís og það endaði með því að ég hringdi aftur og sagðist geta unnið. Valdís vill fá að taka ákvarðanir sínar á eigin spýtur og hún vill ekki að ég umgangist hana eins og hún sé orðin ósjálfbjarga. Sannleikurinn er sá að hún er í svo andlegu jafnvægi að hún getur verið ein.
 
Þegar ég svo kom í Vornes til að vinna þessa nótt var klukkan ellefu fyrir hádegi. Þannig byrja dagarnir þegar við vinnum nótt. Ég veit afar vel eftir 17 ár hvað fyrir mér liggur þegar ég kem þangað á þessum tíma og ég fer beint inn á sjúkradeildina þegar ég er búinn að ná mér í lykla. Þegar ég kom þangað inn var þar einn ráðgjafi sem stóð í ströngu og var feginn að fá liðsinni. Á svo sem fimmtán mínútum var ég komin með ein fimm verkefni. Ari þurfti að hringja í félagsmálastofnun, Jón vildi hringja heim til að sættast við fjölskylduna, Kalli þurfti að fá fötin sín þar sem hann átti að fá að fara út í gönguferð. Ég þurfti að hafa uppflutningssamtal með Benna því að hann  átti að fá að flytja af sjúkradeilinni og hjúkrunarfræðingarnir þurftu aðstoð við að búa um rúm fyrir tvo sem verið var að skrifa inn.
 
Svo er það ekki svo einfalt að einhver fái bara símann til að hringja eitthvað og eitthvað. Fyrst verður að tala við hlutaðeigandi hvort það virkilega sé skynsamlegt að hringja svona samtal akkúrat núna. Svo fara fram samningaumleitanir. En einmitt vegna þess að þarna varð mjög mikið á stuttum tíma fann ég hvernig ein stjórnstöðin af annarri fóru hratt í gang upp í höfðinu á mér. Þegar það var svo komið að hádegi hringdi ég heim og þá fann ég hvernig ég hafði fyllst af atorku sem gerði mig ótrúlega hressann. Við Anders eigum því láni að fagna að eiga kost á þessum möguleika, að vera með í drífandi samfélaginu og örvast hugarfarslega. Það eru alls ekki allir sem eiga þessa kost en mundu óska sér og hafa gott af.
 
Ég sagðist hafa hringt í Valdísi þegar kom að hádegi. Ég byrjaði líka að segja frá því daginn eftir á morgunfundi starfsfólks. Þá sagði ég líka sem satt var að Valdís hefði verið svo hress þegar hún kom í símann að ég hefði velt því fyrir mér hvað ég væri alltaf að gera heima fyrst hún yrði svo hress þegar ég væri kominn að heiman. Það var hlegið að þessu, enda var það meiningin af minni hálfu. En þó, það er nauðsynlegt fyrir okkur að vera með í drífandi samfélaginu að því marki sem skynsamlegt getur talist. Ef ekki bæði, þá annað okkar. Það færir líf inn á heimilið. Að örva hugann bætir líka líkamann.
 
Í dag fór Valdís í fótsnyrtingu í Örebro. Það var kominn tími til að hún gæti farið eitthvað til að hafa það huggulegt. Nóg hefur verið af öðru þessa vikuna. Svo var innkaupaferð og að lokum fengum við okkur kaffi á kaffihúsi og býsna góða rabbarbaraköku með. Svo var kakan auðvitað með góðri slettu af vanillusósu. Við erum orðin svolítið kaffihúsafólk og finnst það góð tilbreyting frá kaffinu við matarborðið hér heima.

Að taka stund með Óla lokbrá

Vikan byrjaði á því að á mánudag fórum við til Fjugesta þar sem Valdís fór í blóðrannsókn. Í gær fórum við svo til Örebro þar sem hún fór í sneiðmyndatöku. Í dag, miðvikudag, fórum við svo aftur til Örebro þar sem Valdís fékk viðtal við krabbameinslæknirinn. Allt varðandi blóðrannsóknina leit vel út. Æxlið í vinstra lunga hafði minnkað verulega en ógreinilegir punktar í hægra lunga höfðu ef eitthvað var stækkað lítillega. Þetta var niðurstaðan eftir óvissubið í nokkra daga.
 
Og hvað svo? Jú, María vildi halda áfram með sömu lyf í fjórar vikur í viðbót og gera þá svipaða athugun og gerð var núna í vikunni. Ég mundi ekki stinga upp á því ef ég teldi það þýðingarlaust, sagði hún. Hún er mikill ljúflingur við sína sjúklinga og það met ég út frá því hvernig hún mætir Valdísi. Þegar hún segir að hún mundi ekki reyna þessi lyf áfram ef hún tryði ekki á það, segir hún það af þeirri ákveðni að það er ekki annað hægt en trúa á að hún meini það virkilega. Hún er yfirlæknir á sinni deild, en samt tekst KiddaVillasysturinni frá Hrísey að koma því á framfæri við hana að hún hafi mannkosti sem hjálpi fólki. Það tekst Valdísi á einhvern þann hátt sem er svo ekta.
 
Þegar við vorum tilbúin spurði María hvort við ætluðum að fá okkur kaffi áður en við yfirgæfum sjúkrahúsið. Það var svolítið sniðug spurning því að við gerum það alltaf áður en við leggjum af stað heim. Það eru nokkur veitingahús á sjúkrahúsinu sem hægt er að velja um. Rækjusneiðarnar á þessum veitingahúsum eru vel útilátnar með miklu af rækjum og heilu eggjunum. Kladdkökurnar eru góðar líka. Í dag urðu rækjusneiðar fyrir valinu. Svo héldum við heim á leið með viðkomu í verslun þar sem Valdís keypti handavinnuefni.
 
Valdís hefur eitthvað jafnvægi í þessu öllu saman sem virðist hjálpa henni afar mikið. Ég er ekki alveg búinn að sjá að ég mundi geta sýnt þetta jafnaðargeð. Hins vegar er hún með samviskubit yfir að gera ekki meira en hún gerir hér heima. Þetta var rætt á sjúkrahúsinu í dag og María gaf Valdísi þau ráð að hreinlega leggja sig á daginn sem hún hefur ekki verið svo iðin við að gera. Ég hef trú á því að eftir þessa læknisheimsókn byrji fjallkonan mín að leggja sig. Ekki bara að setjast í stólinn og prjóna eða sauma út, heldur að leggja sig og jafnvel hitta Óla lokbrá svolitla stund eftir hádegið.

Máninn hátt á himni skín

Klukkan átta í kvöld var þáttur í sjónvarpi sem ég nefndi líka í gær, þátturinn sem ég kallaði þá Veröld vísindanna. Þátturinn í kvöld var um mánann og þá meðal annars þýðingu hans fyrir okkur jarðarbúa. Ekki ætla ég að reyna að flytja það áfram sem við horfðum á í þessum þætti, en vissulega var hann afar forvitnilegur. Hvort hann gerði mig svo að meiri eða þroskaðri manneskju ætla ég ekkert að fullyrða um, en ég þori að fullyrða að margt efni sem sýnt er í sjónvarpi gæti skaðað mig, en þættir af þessu tagi gera það örugglega ekki.
 
Ég veit ekki hvort dagskrárstjórinn valdi kvöldið í kvöld fyrir þennan þátt af neinum ásetningi, en nokkru áður en þátturinn byrjaði horfði ég á mánann senda geisla sína gegnum skóginn í austri þar sem hann var þá að koma upp. Það leyndi sér ekki að það var fullt tungl. Þegar svo þættinum lauk var máninn kominn all hátt á loft og kringum hann voru lýsandi þokukenndir hringir í ólíkum litum. Eftir að ég byrjaði að skrifa þetta fórum við fram til að huga að þessum hringjum. Þeir eru í fjórum litum rétt eins og regnbogi væri tekinn og honum vafið utan um mánaljósið. Það er frostþoka í lofti, mátulega þunn til að sleppa ljósinu í gegn og til að mynda þessa fallegu hringlaga umgjörð. Okkur Valdísi rekur ekki minni til að hafa séð þetta áður, alla vega ekki svo afgerandi litskrúðugt og fallegt.
 
Það er frostþoka sagði ég. Frostið er upp undir 10 stig. Nú er orðin mikil breyting á öllu loftslagi. Það er um það bil frostlaust á daginn og spáð hægri hlýnun á daginn í langtímaspám. Hins vegar er spáð nokkru frosti á nóttunni. Það er einmitt kominn sá tími að þetta skeði og á þennan hátt nálgast vorið, hægt en örugglega. Það er spáð dálítilli snjókomu einhvern næstu daga, en svo fer það minnkandi líka. Það er mikill munur að vakna í birtu, og eins og pípulangingamaðurinn sem heimsótti okkur í dag sagði; nú er kominn sá tími að maður vill fara á fætur á morgnana.
 
Og það er hægt að vinna við birtu úti fram til klukkan milli fimm og sex, nokkuð eftir veðurfari. Fuglarnir eru orðnir líflegri og þessi leyndardómsfulla breyting á skóginum er sýnileg. Ég veit eiginlega ekki hvað það er, en það er bara eins og lífið í skóginum vilji líka fara að fara á fætur á morgnana. Að draga djúpt andann úti við núna er mikið meiri nautn en það var í svartasta skammdeginu. Svo er kominn tími til að ég labbi nokkrar ferðir út í skóg á degi hverjum og pissi á beykitrén okkar. Þau þakka fyrir sig með örari vexti. Þar með get ég sagt að ég eigi meira í þeim. Svo er líka að koma réttur tími til að klippa til eikartré ef ég á annað borð á að skipta mér af vexti þeirra.
 
Nú er mál að ég leggi mig, en fyrst vil ég birta tvær myndir. Önnur er frá því í dag þegar sólin skein glatt á snævi þakta jörð og hrímþoka í vestri lagði hulu dulúðarinnar yfir akurlönd og skóga. Hina tók ég rétt áðan þegar máninn hafði komið svo hátt á loft að engin tré voru í veginum.
 
Séð mót Kilsbergen með aðdráttarlinsuna á hálfu.
 
Myndavélin gerði svo gott hún gat til að fanga litróf tunglsljóssins.

Á Kálfafelli fyrir 60 árum

Það var í morgun sem tveggja og hálfs árs gamalt barn, frekar lítið klætt, hvarf að heiman langt norður í Svíþjóðarlandi. Foreldrarnir og lögregla höfðu leitað í tvo tíma þegar tveir lögregluþjóðnar festu bílinn sinn. Þeir stigu út og spáðu í hvernig þeir gætu losað hann en meðan þær vangaveltur stóðu yfir heyrðu þeir kvein utan frá akri skammt frá. Þeir flýttu sér þangað og þar lá barnið í snjóskafli og var þá búið að tapa skónum sínum. Kalt og sorgmætt var barnið en nú er það aftur í ylnum heima hjá foreldrum sínum. Heima er best.
 
Það er mikilvægt þegar lögreglubilar festast að þeir festist á réttum stað.
 
þegar ég kom fram í morgun, líklega um það leyti sem barnið hverf upp í Norðurlandi, kveikti ég á sjónvarpinu til að sjá veðurspána á textavarpinu. En það varð hindrun á vegi mínum. Það var athyglisverður þáttur í sjónvarpinu, þáttur sem kannski gæti heitið á íslensku Veröld vísindanna. Þar sem ég kom inn í þennan hátt var kona að tala um það hvort nútíma lífshættir okkar væri hindrun milli okkar og tilverunnar, stöðvuðu eðlilega þróun. Þetta varð ég einfaldlega að hlusta á.
 
Eftir nokkra stund lá leiðin til Himalayafjallanna þar sem fólk býr í 3500 metra hæð. Þar gekk rannsókn út á að skilja hvernig fólkið þar fær nógu mikið súrefni til að geta unnið verk sín og haldið lífi. Súrefni loftsins þar er aðeins 60 eða 65 % af því súrefni sem við höfum í loftinu og dæmi eru um að vesturlandabúar hafi hreinlega dáið þarna af súrefnisleysi. Ekki var hægt að sjá á þessu fólki að það væri öðru vísi úr garði gert en fólk hvar sem er annars staðar á Jörðinni. En þegar flókin og nákvæm tæki voru notuð í rannsókninni kom í ljós að það var munur, það sem konan kallaði að það fannst munur á "djúpinu".
 
Meðan ég var að horfa á þetta skrapp ég 60 ár eða meira aftur í tímann. Pabbi var að bjástra úti við og með ensku derhúfuna sína, þessa með smellu sem hægt var að festa húfukollinn niður á derið með. Að öllu jöfnu hafði pabbi húfukollinn smelltan niður á derið og þá var húfan ekki eins há á kollinum, eða að húfan var þá ekki dregin eins mikið niður á ennið. En nú þegar ég sá pabba fyrir mér var húfukollurinn ósmelltur og derið dregið langt niður á ennið. Það setti að mér ugg. Þetta var ekki góður fyrirboði.
 
Framhaldið á þessu var hvassviðri þar sem hrikti í húsum, sandur og ryk barðist með vindinum á gluggarúður og ef maður var úti við var málið að halla sér vel upp í vindinn ef gengið var á móti. Svo næddi vindurinn bókstaflega inn á allsbera húðina þar sem klæði þeirra daga voru ekki 66 gráður norður. Ef gengið var undan vindi mátti alls ekki fara að hlaupa því að þá var svo erfitt að stoppa. Væri vetur var kalt bæði utan sem innan dyra. Þegar vindinn lægði, hvort það var eftir einn eða fleiri daga, þá setti pabbi smelluna aftur á. Svo var smellan á þangað til nýr vindur var í aðsigi.
 
Ég er mjög sannfærður um að ég hef rétt fyrir mér en ég mun aldrei geta sannað það. Ég er líka viss um að pabbi var ekki meðvitaður um þetta, þetta var bara eitt af mörgu sem var innbyggt í að vera til á Kálfafelli fyrir 60 árum. Pabbi var eins og annað fullorðið fólk þeirra ára fæddur með ómengað grjótið í útveggjum hýbýlanna mjög nærri líkamanum, einnig torfið og moldina. Hann  fór ekki á bíl yfir lækinn eða ána á brú, hann varð að vaða eða fara á hesti, finna vatnið renna um fæturna eða heyra straumhljóð þess upp á hestbakið.
 
Hann fór ekki í smalamennsku á fjórhjóli, traktor eða bíl og hann hafði ekki Útvarp Reykjavík í hnappi í eyranu þegar hann gekk til gegninganna. Hann fór ferða sinna undir berum himni en ekki undir bílþaki og hann fann ilm árstíðanna í stað ilmsins af gerfileðri á bílsætum. Ég hætti þessari upptalningu um pabba og hans samferðafólk og kynslóðir í aldir á undan, upptalningu sem ég gæti þó haldið áfram niður margar síður.
 
Ég er ekki að mæla með þessum lifnaðarháttum eða óska þeirra til baka. Ég er hins vegar að velta því fyrir mér hvort við höfum glatað hæfileika til að lesa á tilveruna, veðrabreytingu, gestakomu, hamfarir. Fílarnir slitu sig lausa og flúðu til fjalla í flóðunum í Tælandi þegar 225 000 manns dóu eða týndust. Af hverju skyldu fílar hafa fyrirboðahæfileika framyfir manninn? Hvað ætli ég þyrfti að vera lengi einn í fjallakofa til að endurheimta þessa hæfileika ef til eru? Mánuð, ár eða kannski tiu ár? Ég hef ekki rætt það við Valdísi hvort ég fái leyfi til þessarar tilraunar.
 
Ef til vill ætti ég frekar að fara í háskóla og lesa "djúpa" mannfræði.
 
Valdís er að horfa á söngvaþáttinn Så skall det låta. Við fórum eins og um var talað á sveitahótelið og borðuðum konudagsmat. Þar hitti Valdís vinnufélaga frá því fyrir 12 árum. Ég hef aldrei hitt hann svo ég muni en ég hef keypt af honum bók og nafnið hans er skrifað á spásíuna. Þessi bók er um andlegheit og er eftir finnska prestinn Harry Månsus. Sú bók gaf mér mikið við leit mína á víðáttum andlegheitanna. Valdís kunni vel við þennan mann og það gladdi hana að hitta hann.
 
Val Valdísar á konudaginn var gæða-hamborgari.

Ekki er mannkynið alvont

Ég fór nokkuð snemma út á Bjarg í morgun  til að smíða. Um hálf tíu kom ég inn aftur og þá var Valdís búin að kveikja á sjónvarpinu og horfði á Vasagöngu kvenna sem er styttri ganga en sjálf aðal Vasagangan. Hún fer fram á sunnudaginn í næstu viku. Ég gat ekki annað en fengið mér gott sæti til að horfa á tvær fyrstu konurnar koma í mark. Þær voru langt á undan þeim næstu og þær höfðu greinilega samvinnu í keppninni þó að þær væru líka að keppa sín á milli um fyrsta sætið. Sú fyrsta átti að fá það sem samsvarar einni miljón ísl kr í verðlaun og hin 600 000. Þær höfðu sem sagt samvinnu og á þann hátt að þær skiptust á að vera á undan. Að því er mér skilst er léttara fyrir þann sem er á eftir í sömu slóð og því hvíld í því að skiptast á. En í síðasta sprettinum var það engin miskunn og þær voru nálægt því að vera hlið við hlið. Þó varð sú fyrsta vel á undan hinni. Þegar þær voru komnar yfir stirkið fleygðu þær sér niður til að kasta allra mestu mæðinni. Þarna lágu þær í snjónum með höfuðin saman, þær sem kepptu af fullri hörku einhverrjum sekúndum áður, og í stólnum hér heima sat ég og var sannarlega hrærður. Önnur þeirra var norsk og hin sænsk.
 
Ég sagði í bloggi í fyrradag að ég hefði séð svo ógeðslega frétt í sjónvarpi og það fékk mig til að finnast mannkynið vont. Ég veit samt sem áður að það skeður meira gott í þessum heimi en vont. Þegar ég sá konurnar upp í Dölum liggja í snjónum höfuð við höfuð eftir grjótharða keppni sín á milli var ekki hægt að telja mannkynið bara af illum toga. Það sem er að ske þarna uppfrá er af hinu góða. Á sunnudaginn í næstu viku fer eins og sagt var Vasagangan fram og þar verða þátttakendur væntanlega rétt yfir 15 000 talsins. Í dag og fram að sjálfri aðalkeppninni verða margs konar minni Vasagöngur eins og til dæmis í dag. Samtals verða það 65 000 manns sem taka þátt í þessum keppnum. Aðeins fáir fara til að vinna. Flestir fara einfaldlega til að vera með. Er þetta ekki frábært? Ég ber stóra virðingu fyrir þeim sem mæta upp í Dölum til að ganga 90 km á skíðum á nokkrum klukkutímum. Það er mikil hátíð í árdegissjónvarpinu þann dag.
 
 Ég get heldur ekki látið mér detta í hug að heimurinn sé vondur þegar Hannes Guðjón kemur hlaupandi á móti mér á járnbrautarstöðinni í Kumla. Eða þegar ég horfi á fólkið á sjúkrahúsinu í Örebro sýna Valdísi sitt besta viðmót og gera allt sitt besta til að hjálpa henni. Fyrir all nokkrum árum valt rúta, skólabíll með börn í fyrstu bekkjum grunnskóla, hjá litlu þorpi skammt sunnan við Örebro. Stuttu áður hafði verið námskeið í hjálp í viðlögum í skólanum. Þegar fjölmennt björgunarlið kom á vetvang voru börnin komin út úr bílnum þar sem þau höfðu hjálpað hvert öðru og sérstaklega þeim sem verst urðu úti. Þau héldu áfram að taka höndum hvert um annað þar til björgunarliðið kom og leysti hetjurnar af. Ég man svo vel enn í dag hversu hrærður ég varð þegar björgunarliðar lýstu þessu í kvöldfréttum dagsins þegar þetta skeði.
 
Það hefur verið drjúgur og skemmtilegur smíðadagur á Bjargi í dag. Svo kom öll nágrannafjölskyldan í heimsókn, þau sem eiga heima í næsta húsi sunnan við okkur, foreldrar og tvær dætur. Þau fara upp í fjöllin á morgun og verða þar í viku á skíðum og að gera margt skemmtilegt. Valdís leysti þau öll út með sokkum sem hún hefur prjónað. Svo fékk hún sms frá þeim nokkru eftir að þau komu heim með mynd þar sem þau sátu hlið við hlið í nýju sokkunum og eitt þeirra hafði tekið myndina niður á fæturna alla átta. Það er gaman að þessu og góður hugur sem býr að baki hjá Valdísi.
 
Í síðasta bloggi talaði ég um að ég kæmi oft inn þegar ég er úti við. Í tilefni af þessu sagði Valdís í dag að ég þyrfti ekki að koma svona oft inn hennar vegna. En mér finnst það eiginlega réttindi tveggja ellilífeyrisþega að geta hittst oft þegar báðir eru heima við. Það fer bara vel á því og það gerir heiminn örugglega fallegri og lífið betra fyrir okkur sem hlut eigum að máli. Það eru að fara í hönd tímar nýrra verkefna. Við þurfum að fá hann Arnold í heimsókn og ég að fara með honum um skóginn. Það er gott að hafa vanan skógarbónda með í ráðum þegar við veljum tré til grisjunar. Annars eigum við góðar byrgðir af eldivið þannig að það þarf ekki að fella mörg tré þess vagna, en grisjunin þarf alla vega enn sem komið er að vera árlegur viðburður. Það gerir skóginn fallegri. Hvað er fallegra í skógi en veltigrænar, frískar og breiðar trjákrónur? Þannig verða þær í vel hirtum skógi.
 
Valdís hefur verið að hlusta á enn eina sænska undankeppni í söngvakeppni sjónvarpsstöðva. Ég hef heyrt lögin útundan mér þar sem ég hef setið hér við tölvuna og öðru hvoru hef ég farið fram að sjónvarpi til að fylgjast með. Á morgun er konudagurinn og þá förum við að fá okkur að borða á ágætu veitingahúsi í sveit hér nærri. Það var fyrir mörgum árum að við vorum að enda við að borða kvöldmatinn að Sólvallagötu 3 í Hrísey að Valdís sagði daginn fyrir konudaginn að á morgun væri það mitt hlutverk að laga matinn. Þetta var á föstudegi. Þorsteinn dýralæknir var þá hjá okkur og hlustaði á þetta. Eftir stutta stund sagði hann að við skyldum halda okkur í rúminu þangað til að hann léti okkur vita að maturinn væri tilbúinn. Hann skyldi laga matinn. Þorsteinn var vel kunnugur heima og rataði í frystikistuna og kryddskápinn ásamt öðru sem fylgir góðu eldhúsi.
 
Svo kallaði hann á okkur í matinn á konudaginn eftir mjög langa hvíld hjá okkur Valdísi. Hann hafði lagað góðan mat, eitthvað sem var okkur framandi, eitthvað sem ég gæti trúað að hann hafi kynnst í Noregi á námsárunum. Ég var honum mjög þakklátur fyrir þennan greiða, það skalt þú vita Þorsteinn vinur minn.

Nú urðu mér næstum á mistök

Í morgun sáum við svo ógeðslegar fréttir í sjónvarpi að ég hef ekki alveg getað sleppt hugsuninni um það í allan dag. Jafnframt kom upp í huga mér í dag ýmislegt sem er svo ótrúlega ógeðslegt og það var einfaldlega framhald fréttarinnar í morgun. Svo settist ég við tölvuna og skrifaði á bloggið mitt með ótrúlegum hraða og það hreinlega flæddi fram með slíkum krafti að ég hafði alls ekki undan að skrifa. Svo þegar þetta var orðið að meðallengd blogga minna stoppaði ég og las yfir. Þá sá ég að þetta var svo ógeðslegt að það ætti alls ekki heima á blogginu mínu. Það var bara ekki mín tegund. Ég var nærri búinn að eyða því en á síðustu stundu vistaði ég það án þess að birta og ég get því í rólegheitum tekið ákvörðun um hvað ég geri við það, en það á ekki heima sem "mitt" blogg. Hér kemur svo punktur á eftir því efninu.
 
Annars var þessi dagur góður dagur í mörgum skilningi. Mér gekk vel við það sem ég tók mér fyrir hendur og Valdís sýslaði við sitt. Ég kom inn og fór, kom inn og fór, en í stórum dráttum var byggingarvinna á Bjargi mín iðja í dag ásamt því að sækja svolítið efni. Dagurinn var með afbrigðum skemmtilegur þrátt fyrir fréttina í morgun. Í gær stóð líka til að svo væri, en gærdagurinn varð dagur afturfótanna hjá mér og dagur þumalfingursins í miðjum lófanum. Ég hálf datt þegar ég steig niður af tröppunni, týndi verkfærunum, mældi vitlaust, gleymdi hvað ég var að sækja, sótti annað en ég ætlaði að sækja, gat ekki hugsað, var þungur í sinni og dapur í bragði. Svona dag get meira að segja "ég" átt. Svo var ég á AA fundi í Fjugesta í gærkvöldi og það var það sem kallað er opinn fundur og prestur einn frá kirkju í mið Svíþjóð kom á fundinn til að vita hvað við aðhöfumst þar. Hann gekk ekki óhrærður af þessum fundi. Á fundinnum fékk ég minn rétta Guðjón til baka. Svo svaf ég með afbrigðum vel þangað til Anders smiður kom í heimsókn snemma í morgun. Meira um það seinna.
 
Hér um daginn spurði ég Valdísi hvað henni fyndist, hvort ég ætti að stoppa við með vinnuna á Bjargi eða halda áfram. Það voru þáttaskil í framkvæmdunum þá og kominn tími til að taka þessa ákvörðun. Svar Valdísar var innvafið slíkum klókindum að það var ekkert meira að ræða um. Það var bara að halda áfram og mér ber að láta það ganga vel og reyna að vinna það þannig að hugur okkar beggja verði virkur við framkvæmdina. Því verður dagur eins og gærdagurinn svo fullkomlega máttlaus og tilgangslaus en dagur eins og dagurinn í dag svo mikils virði og ríkur af lífi. Ég er með það í kollinum hvað ég ætla að gera á morgun og í hvaða röð. Allt efni er til staðar og svo er bara að sjá til þess að ég annist sjálfan mig þannig að ég verði einnig til staðar. Hugsa gott, drekka vatn, borða hollan morgunverð, hóflega mikið kaffi og ekkert sætt með kaffinu. Meðal annars þannig get ég annast sjálfan mig vel. Þá verður álíka gaman á morgun og það hefur verið í dag.

Dagur eins og hver annar dagur

Mitt fyrsta verk í morgun var að líta á veðurspána og þar sem það var hálfgerð kuldaspá fyrir næstu daga ákvað ég að bera inn eldivið. Ég ætlaði að vera fljótur að þessu og því klæddi ég mig ekkert sérstaklega vel og fór til dæmis berfættur í gönguskóna mína. En satt best að segja fannst mér eftir bara fáeinar mínútur að það væri napurt og þegar ég fór svo og sótti blaðið fann ég að það andaði norðan, aldrei slíku vant þar sem norðanátt nær sér sjaldan niður hér á Sólvöllum. Við erum vel varin fyrir þeirri átt af skógi. Það hefur sjálfsagt andað eina fjóra metra á sekúndu og það nægði til að færa kuldann alla leið inn á skinnið. Eftir þetta stúss mitt var heitur hafrarúsínugrauturinn minn alveg afbragðs góður. Þannig getur morgunstund litið út hjá ellilífeyrisþegum.
 
Við Valdís fórum á sjúkrashúsið í Örebro í gær þar sem hjúkrunarfræðingur ætlaði að sjá hvernig krabbameinslyfin færu í hana, hvort það væri hægt að merkja einhverjar aukaverkanir. Þegar við vorum komin inn á stofuna til hennar leit hún á Valdísi og sagði eftir fáein andartök að þetta virtist bara vera allt í fína lagi sem henni fannst líka alveg afbragðs gott. Hún virtist geta séð þetta svona í sjónhendingu. Svo skoðaði hún húðina þar sem birta reynir mest á og ítrekaði að þetta liti vel út. Þetta verkaði eitthvað svo frábært þar sem um er að ræða lyf sem ekkert er að leika sér með.
 
Svo í morgun þegar við borðuðum morgunverðinn horfði ég á Valdísi og fannst hún ekki eins hress í útliti og ég hafði vænst eftir ferð okkar í gær. Ekki ræddi ég það við hana en fylgdist með henni. Svo fór ég út á Bjarg að smíða og tilkynnti að ég kæmi fljótlega inn aftur sem ég og gerði. Ég er aldrei lengi þarna úti í einu og mínar ferðir inn í bæ eru tíðar, bara svona til að spjalla aðeins og kannski til að taka pínu kaffitár eða vatn í leiðinni. Það var fljótlega eftir hádegið sem ég kom inn og þá ilmaði af bakstri. Ég varð dálítið hissa og hafði orð á því. Nú, ég fann bara á mér að ég þurfti endilega að gera eitthvað sagði sú stutta og hnykkti á með báðum haldleggjum með kreppta hnefa og handarbökin fram, svona eins og fólk gerir oft þegar eitthvað hefur gengið upp.
 
Ja hérna. Ég hafði aldeilis haft rangt fyrir mér með heilsu hennar í morgun því að þarna var haugur af bolludagsbollum sem hún var að skera sundur með snöggu handbragi til að geta fyllt í þær með góðgæti. Ég fór út aftur og svo var kallað á mig í kaffi og ekki lét ég bíða eftir mér. Svo "fíkuðum" við. Orðið að fíka á einmitt mjög vel við þetta, að fá sér kaffi og góða bollu með. Ég kalla þetta bolludagsbollur því að það er lagt meira í þær en svona alveg hversdagslegar bollur.
 
Valdís segir oft að hún geri ekki neitt og hjálpi ekkert til. Þó að ég geri meira innanhúss en áður er það hún sem heldur heilsu minni gangandi með matnum sem hún útbýr. Og það finnst henni vera að gera ekkert. Hún talaði í síma við vinkonu sína í Fjugesta núna seinni partinn og ég var áheyrandi að því samtali. Vinkonan á mann sem er orðinn heilsulítill og er nú á sjúkrahúsi. Hann á að koma heim á morgun. Vinkonan kvartaði undan því að maðurinn skipti sér aldrei af því hvað hún keypti í matinn og vildi ekki hafa neitt með það að gera. Ég seig aðeins niður í stólnum þegar ég vað þess áskynja hvað þeim fór má milli. Það má mikið vera ef við erum ekki að einhverju leyti líkir, ég og kallinn hennar.
 
En nú vildi ég koma svolítið til móts við Valdísi fyrst hún var svona hress. Því fékk ég hana til að koma með mér út á Bjarg og standa á plönkum sem ég var að festa niður í gólfið með múrboltum. Það er svo gott að láta einhvern standa á þeim svo að þeir skríði ekki vítt um gólfið þegar borað er fyrir boltunum. Þetta er nánast í fyrsta skipti sem Valdís kemur mér til hjálpar þarna úti síðan hún málaði all mörg panelborð stuttu eftir að krabbameinsmeðferðinni lauk í september síðastliðnum. Henni líkaði vel að geta gert þetta og brá á smá glens sem ég tók mynd af, en einhverjar agnir höfðu setst á linsuna sem eyðilögðu myndirnar.
 
Það er orðið all áliðið en ég er vel á mig kominn, enda var að engin lélegur matur sem var hér á borðum í kvöld. Það var það sem við stundum köllum allsherjarsúpu. Það er kjötsúpa með litlu kjöti en afar miklu af grænmeti og rótarávöxtum af mörgum sortum. Ég sá um gulrófurnar og smávegis af káli en að öðru leyti sá konan um þetta, konan sem finnst að hún geri svo lítið gagn. Mér fannst það ekki svo lítið þegar ég borðaði fleiri diska af þessu mikla góðgæti. Nú er hún lögst útaf hér fyrir aftan mig og les í bók. Innan skamms skal ætla ég að verða henni selskapur með mína bók. Munurinn er þó bara sá að ég sofna afar fljótt með mína bók. En það fer vel á því og innan skamms munum við bæði sameinast kyrrðinni hér undir skógarjaðrinum að öðru leyti en því að ef ég legst á öfugu hliðina mun ég spilla kyrrðinni með hrotum mínum. Þá mun ég fá hjálp við að vakna nógu mikið til þess að ég velti mér yfir á hina hliðina. Góða nótt.

Ég fékk gæsahúð

Við vorum ekki snemma á stjái í morgun get ég lofað og ekki fór mikið fyrir morgunleikfiminni. Samkvæmt veðurspánni á textavarpinu er þessi dagur þremur tímum og 28 mínútum lengri en um vetrarsólstöður. Ekki lélegt það. Það voru rólegheit við morgunverðinn og svo byrjaði sjónvarpsmessan. Þegar organistinn sló á fyrstu nótuna þekktum við byrjunarsálminn, O store Gud  . Það er nú meira hvað þessi sálmur er alltaf grípandi og sagan kringum hann líka, sálmurinn sem sunginn er meira út um allan heim en nokkur annar. Ég fékk gæsahúð og kórinn og kirkjugestirnir skiluðu flutningnum svo fallega. Valdís söng óvenju mikið með messunni í dag og mér fannst það góðs viti.
 
Presturinn talaði um að lifa á líðandi stundu en ekki langt inn í framtíðinni. Hann talaði svo ótrtúlega rökrétt um það, rökrétt samkvæmt skilningi mínum á því sem hann sagði, að þeir sem lifa á líðandi stundu koma mikið meiru í verk af góðum málum en hinir sem reyna að lifa á undan sjálfum sér og tilverunni. Mig langaði þarna í morgun að gera þessu meiri skil en þá hefði ég þurft að taka langan tíma í það, tíma sem ég var ekki reiðubúinn að leggja af mörkum í dag. Hins vegar þetta með að lifa á líðandi stundu, þá finnst mér þegar ég er að framkvæma hlutina hér heima með mínum hraða og njóta þess, þá er ég að lifa á líðandi stundu. Ég var mjög ákveðinn í morgun hverju ég ætlaði að koma í verk í dag og þó að ég kæmi mér seint af stað, þá lauk ég nákvæmlega því sem til stóð.
 
Við Valdís höfum talstöðvar þar sem ég hef aðra úti þegar ég er að vinna en hún hina inni. Í dag gleymdi ég að taka mína með og því kallaði Valdís út um dyrnar að það væri komið kaffi. Það var hreina veislan. Og nákvæmlega þegar ég skrifaði þetta þreifaði ég óvart yfir magann, en sannleikurinn er þó sá að ég hef ekki bætt á mig lengi, lengi. Hann sagði við mig bæklunarlæknirinn skömmu áður en hann skipti um mjaðmarlið í mér að hvert kíló sem ég bætti á mig mundi flýta fyrir því að slíta upp liðnum. Um leið og hann sagði þetta stakk hann fingri í magann á mér. Það er holt fyrir mig að muna þetta.
 
Einmitt meðan kaffitíminn stóð yfir hringdi Páll bróðir til okkar á skype. Svo töluðum við fjögur saman á skype og horfðum hvert á annað á meðan. Jón Sveinsson fór út með haustskipinu upp úr 1880 og sendi bréf heim til mömmu sinnar með vorskipinu árið eftir og lét hana vita að hann hefði komist heilu og höldnu til Kaupmannahafnar. Fyrir nokkrum árum flaug Rósa dóttir okkar til Indlands og af flugvellinum þar sendi hún sms til okkar mömmu og pabba til að láta okkur vita að hún væri komin fram heilu og höldnu. Svo töluðum við bróðir minn saman í dag ásamt konum okkar og við horfðum hvert á annað á meðan. Það var líka sími með sveif á Kálfafelli þegar ég var barn og síminn heima var þrjár stuttar en ekki sex eða sjö stafa tala. Svo hlustuðu allir á alla og fréttirnar bárust um sveitina sem vera bar.
 
Þegar ég var búinn út á Bjargi með það sem ég ætlaði mér lét ég Valdísi vita gegnum talstöðina að nú væri tími kominn fyrir hana að koma til að spekúlera með mér.
 
Ég var búinn að leggja út fótstykkin undir veggina kringum baðherbergið í þessu nýja húsi. Við vildum ræða málið og fara yfir hvort við værum ekki sammála um allt. Einnig hvort ekki væri allt rétt hugsað og munað eftir því sem þurfti að muna eftir. Valdís er þarna í stígvélunum hans Péturs sem eru nokkrum númerum of stór á hana en hér á Sólvöllum látum við okkur ekki fyrir brjósti brenna svona smáhluti. Við vorum sammála um framkvæmdirnar. Það er gott að virða álit hvers annars í þessu sem svo mörgu öðru. Svo sést þarna kaffibolli. Ég tók henn með mér út eftir miðdegiskaffið og það er í fyrsta skipti sem kaffi er drukkið á Bjargi.
 
Frá vinstri sturta, þá klósett og svo handlaug. Gott að teikna allt á gólfið til að sjá svo öruggt sé að skipulagið standist.
 
Svo velti ég fyrir mér hvað lægi fyrir að gera á morgun og þá tók Valdís þessa mynd. Eiginlega kom það mér á óvart að sjá hana. Ég bara vissi ekki að Valdís hefði tekið hana. Ég þarf að kaupa eina 15 viðeigandi nagla þegar við förum í bæinn á morgun og svo þarf ég að fá lánaða góða höggborvél í Fjugesta til að bora fyrir þeim í gólfið. Svo get ég fest fótstykkjunum. Nú -svo er bara að halda áfram.
 
Dagur á Sólvöllum er að kvöldi kominn. Valdís horfði á músikprógrammið Så skall det låta meðan ég skrifaði þetta. Á morgun á hún að koma til skoðunar á sjúkrahúsinu í Örebro og þar á að athuga hvort hún hafi fengið aukaverkanir af krabbameinslyfjunum sem hún tekur núna. Satt best að segja er eiginlega ekki hægt að segja að svo sé, er þó af all nokkru að taka í þeim efnum. Fjallkonan mín hefur staðið mikið af sér en það er gott að sérfræðingarnir athugi þetta. Það eru margir sem vilja Valdísi vel sem segir jú að það er margt að vera þakklátur fyrir nú til dags þrátt fyrir allt.

Þá brosti konan mín oft

Í fyrrinótt svaf ég ekki átta tíma í einni lotu eins og ég geri stundum. Ég vaknaði nefnilega klukkan hálffjögur vegna þess að mér var nauðugur einn kostur að fara minna erinda fram á bað. Í fljótu bragði virðist þetta kannski óþarfa skýrslugerð. En það var reyndar framhald á atvikum næturinnar. Þegar ég kom til baka reIsti Valdís sig upp og sagði að það væri best fyrir sig að fara líka fyrst hún væri vöknuð. Þegar hún kom til baka sagði hún að það hefði aldeilis verið létt í þetta skiptið að fara þetta fram og til baka. Ég ætla bara rétt að segja að þetta gladdi mig afar mikið. Bjartsýnin lagði sínar mildu hendur yfir rúmið okkar og svo sofnaði ég aftur. Valdís líklega eitthvað seinna.
 
Rúmlega sjö hringdi vekjaraklukkan hjá Valdísi því að við þurftum að fara á heilsugæsluna í Fjugesta. Heilsugæslulæknir Valdísar hafi hringt og ráðlagt henni að koma þangað til að láta taka blóðsýni. Við vorum nokkuð snögg í hreyfingum þarna um morguninn og drifum okkur af stað. Eftir all nokkra bið komst Valdís að og svo fórum við heim til að borða morgunverðinn. Ég áttaði mig ekki á að það lægi neitt sérstakt fyrir hér innan húss og fór því út á Bjarg að bauka svolítið, en síðan ætluðum við til Örebro. Þegar ég var farinn út fór Valdís að fást við þvott en að því loknu settist hún í djúpa stólinn til að slappa af áður en við færum af stað aftur.
 
Valdís fór til Örebro til að hitta vinkonur sínar fjórar, þessar sem hún borðar með einu sinni í mánuði. Ég athugaði hins vegar með efni á meðan, verð og gæði, og svo fór ég með myndir til hans Berts í byggingarvöruversluninni, manns sem ég minnist stundum á. Hann varð svo glaður yfir að sjá þessar myndir og svo gaf það okkur kost á að tala líflega saman í einn hálftíma. Svo fór ég niður í Krämaren og þar fengum við Hans okkur kaffi og kladdkökur. Hans er Örebroari sem ég hitti fyrst 1995 og við höfum ræktað vinskap með okkur síðan. Svo hringdi Valdís og kvaðst tilbúin til heimferðar. Þá höfðu þær vinkonurnar haft rúma þrjá tíma saman.
 
Þegar Valdís settist inn í bílinn fann ég að gleðin geislaði ekki beinlínis af henni. Hún var treg til að segja nokkuð um það en sagði þó að tvær af konunum hefðu haft það mesta á hornum sér. Ég velti fyrir mér þeim framförum sem gerðu vart við sig nóttina áður, en nú var sem sá bati væri allur á braut. Þegar við komum heim var Valdís í fyrsta lagi þreytt og lífið virtist vera á móti henni. Mér stóð ekki á sama og braut heilann um hvað væri eiginlega á seiði. Dagurinn leið sem fremur daufur dagur og við lögðum okkur frekar snemma.
 
Í morgun tókum við lífinu með meiri ró, eða með öðrum orðum á hefðbundinn hátt. Batinn frá því í fyrrinótt bærði ekki á sér. Ég greip ryksuguna eftir morgunverðinn og byrjaði á hreingerningu. Þá auðvitað tók Valdís klút og fór að þurrka af og lagfæra eitt og annað sem ekki var í réttum skorðum á bænum. Upp úr hádegi færði ég í tal við hana hvort heilsa hennar væri lakari. Nei, svaraði hún, ég er bara þreytt eftir gærdaginn. Við höfðum verið snemma á ferðinni og hinn hefðbundni dagur brenglaðist. Það lætur kannski ólíkindalega, en sannleikurinn er bara sá að það sem við venjulegar aðstæður er minni háttar frávik, getur við erfiðari aðstæður verið meiri háttar frávik.
 
Svo tóku þær frá mér kraft í gær konurnar þegar þær voru í ólund að nudda, önnur út af biluðum ísskáp og fyrirtækinu sem leigði henni íbúðina, og hin út af lélegu herbergi á Majorka þar sem hún dvaldi fyrr í vikunni. Þær nudduðu út af þessu allan tímann sem við vorum þarna sagði Valdís. Og Valdís, sem var kannski sú eina úr hópnum sem hefði getað borið sig illa, hún lét sér nægja að vera hljóður áheyrandi. Stundum er ekkert annað að gera en bara að lána eyra. Þetta var í fyrsta skipti sem Valdís hefur orðað að það hafi ekki verið gott að hitta þessar konur. Við bara vonum að þetta hafi verið frávik sem ekki hendi aftur. Væri ég að skrifa á sænsku mundi ég ekki fara inn á þessa umræðu eða alla vega orða frásögnina öðru vísi. En hvað um það; eftir þessar skýringar fann ég fyrir því að mildar hendur bjartsýninnar komu til baka og gáfu heimilinu blíðan andvara miskunnseminnar á ný.
 
Valdís hefur verið að sortera myndir, taka myndir úr römmum og færa yfir í sérstakar möppur. Einnig að henda römmum og ganga frá öðrum til geymslu í kassa sem nú er á loftinu á Bjargi. Þetta hefur verið lengi í umræðunni og er nú komið vel á veg. Við skoðuðum möppu með myndum sem eru teknar frá tíma okkar í Falun. Það leynir sér ekki að tíminn í Falun var góður tími. Það sést á þessum myndum að þá brosti konan mín oft og bjó við aðra heilsu en í dag. Að skoða þessar myndir var eins og að lesa vel færða dagbók og fallega skrifaðar góðar minningar. Mikið varð ég glaður við að sjá þetta. Það er ekki skrýtið þó að mér finnist eitthvað sérstaklega mikið til um Dalina.
 
Upp á lofti, yfir hluta af svefnherberginu og hluta af eldhúsinu, eru svo sem tveir plastkassar með svona myndamöppum. Það eru margar dagbókarfærslur get ég látið ykkur vita. Þegar ég gef mér tíma til að verða ellilífeyrisþegi á þann hátt að ég læt það ekki skipta máli hvort ég skoða myndir í hálftíma eða þrjár vikur, þá þarf ég að hafa myndaskanna til umráða. Svo á ég hundruð metra af svarthvítum filmum til að fara í gegnum. Mikið verður hlutverk mitt í framtíðinni.
 

Þegar ég var unglingur í Reykjavík var ég magur

Í gær byggði ég upp í huga mér nokkuð sem ég ætlaði að segja á blogginu í gærkvöldi. Jafnframt sá ég fyrir mér myndir sem búið var að taka og ég ætlaði að nota. Þegar ég var búinn að ganga frá eftir kvöldmatinn fór ég inn að tölvu, vistaði nokkrar myndir inn á bloggið mitt og lagði svo hendurnar á lyklaborðið. Ekkert kom. Byggingin sem ég hafði reist var ekki bara hrunin, hún var horfin með öllu. Ég gafst upp.
 
Ein venjuleg ástæða fyrir svona hruni er skortur á vatni. Það er svo merkilegt að enn í dag skeður það að ég gleymi að drekka vatn og drungi nær yfirhöndinni. Ég fór fram og drakk upp undir líter af vatni. Svo hreinsaði ég utan af skringilegum lim af engifer sem Valdís keypti í fyrradag og beið síðan eftir því að uppþvottavélin lyki verkefni sínu. Þar var tepotturinn innilokaður. Meðan ég beið settist ég við hliðina á Valdísi og horfði svolitla stund á þátt þar sem verið var að velja lag til söngvakeppninnar. Ekki get ég sagt að mér hafi fundist ég vaxa að visku og vexti við að horfa á þetta, en smám saman fann ég hvernig vatnið byrjaði að gera gagn. Svo var uppþvottavélin búin að þvo tepottinn, ég drakk minn krassandi engiferdrykk og svo var háttatími kominn.
 
Eftir órofinn svefn í tæpa átta tíma vaknaði ég við kyrrðina. Þessi kyrrð gladdi mig mjög og gott ef ég hreinlega vaknaði ekki við hversu hljóðlátur andardráttur Valdísar var. Andardráttur hennar stýrir mikið hugsunum mínum um nætur og nú þegar hann var hljóðlátur eins og í litlu barni, þá bara boðaði það góðan dag. Eftir að hafa kveikt upp í kamínunni lagði ég mig aftur, en datt svo í hug að það sem ég tapaði svo gersamlega niður í gær mundi koma upp aftur ef ég opnaði bloggið mitt. Svo er ég sestur hér og fingurnir sem ekki vildu bærast á lyklaborðinu í gærkvöldi eru nú farnir að leita bókstafanna.
 
Ég birti mynd af mér í peysu á feisbókinni í gær. Þá peysu prjónaði Valgerður dóttir mín eitthvað fyrsta árið sem við bjuggum í Örebro. Hún er búin að koma sér vel í vetur. En ég hef líka lengi haft í huga aðra peysu. Það er ullarpeysa sem Valdís prjónaði áður en Rósa dóttir okkar fæddist, sú sem ég er í á myndinni. Hún er prjónuð fyrir 1969 og er þá jafnframt prjónuð á Bjargi í Hrísey. Peysan gæti verið 45 ára. Hún er oft gegnum öll ár skýlt mér fyrir kulda og vetrarveðrum.
 
Nú þegar ég horfi á mig í þessari peysu minnist ég þess að þegar ég var unglingur í Reykjavík var ég magur mjög. Þá drakk ég stundum rjóma úr þríhyrndri pappahyrnu til að fá á mig svolítil hold en ekkert skeði. Í dag þarf ég ekki að drekka rjóma til að fá á mig hold, þau koma samt.
 
 Um hádegisbil í gær fór ég út á Bjarg til að bauka við minn nostursama gluggafrágang. Að vanda kíkti ég inn í bæ á svo sem klukkutíma fresti og þegar ég kíkti inn í gær sá ég hvað kona mín aðhafðist. Bollur! Það voru ekki þessar hveitihrúgur sem fást hér í verslunum nú til dags, það voru ærlegar bollur. Þær voru eins og bollurnar sem hún bakaði þegar á árunum okkar á Bjargi í Hrísey. Þær voru líka eins léttar, loftkenndar og eins bragðgóðar og í þá gömlu daga. Núna voru þær þó bragðbættar með týtuberjasultu í staðinn fyrir einhver önnur efni áður. Það var um þrjú leytið sem ég heyrði kallað: Guðjón! - kaffi! Ég var fljótur inn og svo var bollukaffi.
 
Svo vil ég færa talið að kaffikönnunni sem Valdís er að hella úr. Enga kaffikönnu höfum við átt í okkar rúmlega hálfrar aldar búskap sem er eins treg á að slefa og þessi kanna. Hvernig sem við reynum, þá er bara ekki hægt að fá dropa til að renna niður könnuna þegar búið er að hella úr henni. Síðasta kanna sem við áttum slefaði niður dropum í hvert einasta skipti sem hellt var úr henni og hún var aldrei hrein. Nú er öldin önnur. Nú vil ég færa talið að konunni minni þarna á myndinni og segja að hún er ekki veikindaleg þar sem hún er að fá sér kaffið.
 
Klukkan er nú hálf tíu á sunnudagsmorgni og ég hef verið að skrifa um gærdaginn. Nú er kominn tími til að leggja á borð fyrir morgunverð og svo elda ég minn endalausa rúsínuhafragraut. Svo verður það sjónvarpsmessa.
 
*
 
Ég sagði við næstu mynd fyrir ofan að konan mín væri ekki veikindaleg þar. Hún lítur eiginlega ekki eins frísklega út á þessari mynd. En ástæðan er held ég sú að hún er búin að raða á sig mörgum treflum. Ég bað hana að setja á sig einn af þessum treflum sem hún er svo dugleg við að prjóna því að ég ætlaði að taka mynd. En að lokum setti hún á sig fleiri trefla til að sýna litaúrvalið. Ég bauka oft úti á Bjargi en hún fæst við sitt hér inni. Hún prjónar líka mikið af sokkum og enn sem komið er hafa þeir gengið út. Henni hefur líka verið bent á að prjóna sokka á þá sem eru heimilislausir og fáklæddir og henni líst vel á það. Kannski fá einhverjir af þeim sokkana sem eru í pokanum við hliðina á henni núna. Hún er líka búin að sauma út í afar marga dúka á síðustu árum. Ef að er gáð sést í sauma og prjónakörfuna hægra megin við hana þar sem hún situr.
 
 
Það sem ég ætlaði að skrifa í gær hefur ekki skilað sér og það sem ég ætlaði að skrifa með þessari mynd er víðs fjarri. Merkilegt. En alla vega; þetta er gluggagerefti, yfirstykki að utanverðu.
 
Mér er heldur ekki alveg ljóst hvað ég ætlaði að segja hér, en þetta er vatnsbretti frá glugga. Ég útbjó átta svona stykki í gær. Það er reyndar stór gaman að vinna með blikk og með svolítilli þolinmæði er hægt að fá hluti úr blikki til að líta mjög vel út. Að fá ekki fram það sem ég ætlaði að skrifa í gær veldur mér ekki áhyggjum, það eru ekki elliglöp. Ég hef langa reysnslu af því að það sem ég ætla að skrifa á ég að skrifa þá þegar í stað. Að ætla að skrifa það seinna eða bara við tækifæri, það tekst ekki og hefur aldrei gert hvað mig áhrærir.

Hálfrar aldar afmæli dóttur okkar

Það eru eflaust yfir 30 ár síðan ég var á gangi á götu í Reykjavík og mætti skólasystur minni frá Skógum. Þá var ég búsettur í Hrísey og hún í Reykjavík. Hún var þarna á gangi með dóttur sinni og þegar ég leit á dótturina og sá að þarna var á ferðinni ung kona á þeim aldri sem ég var á þegar ég taldi mig vera orðinn fullorðinn mann. Þá greip mig að ég væri orðinn gamall, alla vega að það hefðu liðið afar mörg ár. Mér hreinlega brá. Samt var þetta all einkennilegt þar sem elsta dóttir mín var á svipuðum aldri og þessi unga kona var sem ég hafði fyrir framan mig. Ég þurfti að sjá dóttur einhvers annars sem ég þekkti til að átta mig á því að árin hefðu liðið.
 
Í dag er dóttir mín 50 ára sem segir jú að það er liðin hálf öld síðan ég varð pabbi. Með öðrum orðum, hún fæddist 8. febrúar 1963. Ég var montinn pabbi og þótti mitt barn alveg sérstakt barn. Ég held að það eigi líka mjög vel við mömmu Valdísi. Auðvitað var hún alveg sérstakt barn þar sem hún var hún sjálf og engin önnur. Það var hún Valgerður. Við keyptum mjög fínan barnavagn fyrir hana og ef ég man rétt hafði hann svipaðan stíl og Chevrolet fólksbíll ársmódel 1955, en ég lærði einmitt að keyra á þannig bíl í Reykjavík hjá Gísla nokkrum Sesselíussyni. En alla vega, mér fannst barnavagn Valgerðar alltaf líkjast Chevrolet 1955 sem á þeim árum var toppur allra bíla í mínum augum. Við Valdís vorum bæði stolt af vagninum.
 
Dag einn fórum við Valdís í heimsókn til Guðrúnar frænku minnar frá Fagurhólsmýri sem bjó í áratugi í  Skaftahlíð 16 og ferðin var gagngert gerð til að sýna henni frumburðinn. Ég hafði áður leigt herbergi hjá Guðrúnu og hún er kona sem alltaf hefur verið nærri hjarta mínu. Hjá henni var staddur frændi minn einn ættaður úr Öræfunum og stoltur tók ég Valgerði upp úr vagninum og lagði hana í kjöltu hans. Það stóð ekki lengi því að frændinn spratt skjótt á fætur, rétti mér dótturina og niður aðra buxnaskálm hans rann eitthvað vott. Hún hafði gert sér hægt um hönd og pissað á frænda sinn úr Öræfum.
 
Stuttu seinna hringdi þó þessi maður og sagðist vera að fara austur á bíl sínum. Hann ætlaði að vera samferða fjölda fólks sem þá fór í árlega páskaferð í Öræfin, en skilja bílinn eftir á Kálfafelli, mínu barnsdómsheimili. Hann bauð okkur far austur ef við skyldum vilja heimsækja fólkið mitt á Kálfafelli. Við þágum það með þökkum og þar sem barnastólar voru óþekktir í þá tíð og enga áttum við körfuna, þá fórum við með Valgerði í pappakassa þar sem mamma hennar sat við hlið hennar í aftursætinu.
 
Þá var þegar ákveðið hvað hún skyldi heita og við páskamessu á Kálfafelli skírði séra Gísli Brynjólfsson hana og móðir mín hélt á henni undir skírn. Ég hef grun um að eftir það hafi mömmu fundist sem hún ætti svolítið í þessu barni, henni nöfnu sinni, enda var Valgerður þar í sveit síðar árum saman ásamt frændum sínum úr Reykjavík og fleiri ungmennum sem voru í sveit á Kálfafelli.
 
Það var í árdaga. Stúlkan óx og óx og varð með tímanum mjög ákveðinn unglingur og síðar ung kona. Eftir skyldunámið sem hún lauk á Dalvík ákvað hún að lesa til stúdents við kvennaskólann í Reykjavík. Ef ég man rétt var það ekkert að semja um, þannig bara skyldi það vera. Þar með má segja að Valgerður væri flutt að heiman sem var ungt á þeim árum. Hún hélt áfram að vera ákveðin og er það enn í dag.
 
Hún varð stúdent frá kvennaskólanum og síðar kennari frá kennaraháskólanum ásamt fleiru sem hún hefur lagt stund á. Hún hitti Jónatan og eignaðist Kristinn. Svo eignaðist hún Guðdísi og Erlu. Hún kom í heimsókn til okkar til Falun með Guðdísi og ég var ekki heima þegar þær mæðgur komu. Ég var í vinnu og kom heim þaðan á föstudagskvöldi. Þegar ég kom inn um dyrnar heima í Falun ætlaði ég að heilla Guðdísi við fyrsta tillit, en þetta var í fyrsta skipti sem ég sá hana. Ekki virtist henni lítast á kallinn sem var að koma heim, hljóp til mömmu sinnar og leitaði athvarfs í fangi hennar. Þá varð ég svo glögglega vitni að því að litla stelpan sem forðum leitaði athvarfs hjá okkur mömmu sinni og pabba á erfiðum stundum, hún var fullorðin kona sem var athvarf fyrir aðra.
 
Það var á Bjargi í Hrísey sem lögguhúfurnar voru búnar til. Á þessum árum lékum við mikið við börnin, meira en við gerðum síðar. Eitt sinn útbjó ég það sem við kölluðum lögguhúfurnar og þær urðu að lokum tilbúnar seint um kvöld. Þeim eldri systkinunum fannst þetta mjög spennandi og vöktu fram eftir til að geta státað sig af húfunum. Það sést á þeim að þau eru orðin þreytt en systirin Rósa var þá búin að sofa dágóða stund en vaknaði aftur. Hún er því hressust á myndinni. Hún þótti of lítil fyrir lögguhúfu.
 
Fjölskyldan í heimsókn hjá afa og ömmu í Hrísey, trúlega á sunnudegi. Myndin er tekin á lóðinni hjá þeim og Valgerður er í miðjunni. Nei, ég þarf ekki að taka það fram.
 
Þegar ég varð sextugur kom Valgerður í heimsókn til Svíþjóðar. Þarna erum við á skemmtilegum og fallegum veitingastað við suðurströnd Hjälmaren. Frá vinstri Valgerður, þá Rósa og svo Valdís og Guðjón.
 
Innilega til hamingju með áfangann Valgerður og með bestu kveðju frá mömmu og pabba.

Martina og Martina og þeir sem geta boðið birginn

Það var svolítið ævintýri þegar við seldum íbúðina í Örebro á sínum tíma. Við vorum ákveðin í því að ef ekki kæmi boð upp á ákveðna fjárhæð mundum við hætta við söluna. Kannski var það ekki vel sæmandi en þannig leyfðum við okkur alla vega að hugsa. Svo á ákveðnum tíma fyrri hluta dags var farið að bjóða í og við fengum sms með tilboðsupphæðinni um leið og tilboðin bárust. Tveir buðu í og þegar komið var eitt tilboð frá hvorum aðila gerðist ekkert klukkutímum saman. Bæði voru tilboðin undir þeirri tölu sem við ætluðum að sætta okkur við.
 
Þegar farið var að líða á eftirmiðdaginn lifnaði yfir viðskiptunum og svo bara jókst hraðinn allt hvað af tók og ég hafði ekki tíma til að lesa öll smsin. Upphæðin var á stuttum tíma komin upp fyrir viðmiðunartölu okkar. Svo voru viðskiptin komin í einhvern ótrúlega spennandi farveg og það var eins og tilboðahrinan ætlaði aldrei að enda. Svo kom lokatalan og annar aðilinn játaði sig sigraðan.
 
Nokkrum dögum seinna kom fasteignasalinn og fjölskyldan sem hafði borið sigur úr bítum og kaupsamningur var undirritaður heima hjá okkur. Þetta voru hjón með eina litla telpu og konan heitir Martina. Það kvenmannsnafn höfðum við aldrei fyrr heyrt. Við fengum líka að vita hvað hinn tilboðsaðilinn hét. Það var einstæð móðir og hún hét líka Martina.
 
Í dag fórum við Valdís inn í Marieberg. Ég fór reyndar lengra og keypti vatnsbretti til að geta gengið endanlega frá kringum glugga og dyr á Bjargi. Valdís endaði í stórri matvöruverslun og þar mætti hún þrisvar sinnum konu sem henni fannst kunnugleg. Þessi kona horfði líka á hana en hvorug spurði hver hin væri. Þegar ég svo fór út að bíl  með vörurnar sem Valdís hafði keypt vék sér að mér kona og spurði hvort við ættum að þekkjast.
 
Ég sagðist bara ekki vera viss og gerði mér alls ekki grein fyrir hver hún var en fannst þó andlitið kunnuglegt. Er mögulegt að ég hafi keypt íbúð af þér og Valdísi? spurði hún. Einmitt, Martina eða hvað? Jú, það var Martina. Ég var feginn að fá tækifæri til að spyrja hana hvernig þeim liði í fyrrverandi íbúðinni okkar. Alveg ljómandi vel svaraði hún. Um hverfið fínt, nágrannarnir frábærir og leikskólinn frábær einnig. Allt bara eins gott og það getur verið. Ég var feginn að heyra þetta. Mér kom það svo sem ekkert við, en það sem þau borguðu okkur var það mikið að við Valdís höfðum alltaf óskað þess að þau væru ánægð. Svo hitti ég Valdís yfir kaffibolla inn í verslunarmiðstöðinni þegar vörurnar voru komnar í bílinn og þegar ég hafði sagt frá áttaði hún sig á því hver kunnuglega konan hafði verið.
 
Nú er ég búinn að eyða mörgum orðum í það sem er svo sem alls ekki merkilegt. Og þó, þetta var svolítið atriði fyrir okkur.
 
*
 
Ég sá svolítið umhugsunarvert á feisbókinni í morgun, birt af sænskri konu sem fyrir mörgum árum ákvað að breyta ógöngum lífs síns í velgengni. Henni tókst það heldur betur verð ég að segja. Þetta umhugsunarverða sem ég sá hljómar svona:
 
Að kvarta og kveina er eins og að sitja í ruggustól - þú hefur eitthvað að gera en þú kemst ekki neitt.
 
Mér varð á að hugsa að þetta væri oft hægara sagt en gert. Svo fórum við Valdís í Marieberg og ég í byggingarböruverslunina. Þar hitti ég Bengt og ég spurði eftir Bert bróður hans. Bert hefur glímt við mikil veikindi í nánast 20 ár. Samt situr hann á skrifstofunni í verslun sinni og glímir við þau verkefni sem lenda inn á hans borði. Heima er hann kannski ekki svo líflegur, taldi Bengt, en hér þrífst hann. Við ræddum þetta fram og til baka og vorum sammála um að afstaðan og það sálræna væri gríðarlegur þáttur í batanum, en kannski ekki alltaf svo einfalt að virkja.
 
Hvernig er Valdís spurði svo Bengt. Ég sagði honum í stuttu máli það sem ég sagði í bloggi i hitteðfyrradag. Æ æ, sagði Bengt og spurði svo hvort hún hefði eitthvað að sýsla við. Jahá, hún er alla vega í Marieberg núna svaraði ég og ætlar að fara þar í apótekið og nokkrar verslanir. Hvað segirðu! sagði hann af undrun. Þarna sérðu, það er afstaðan og þetta sálræna sem skiptir máli og svo stakk hann vísifingri í bringubeinið á mér. Það var eitthvað gott við þetta samtal okkar Bengts. Við vorum báðir leikmenn en höfðum sömu heimspeki um ýmislegt í lífinu. Við töldum okkur báða standa nærri þeim sem hefur tekist að hafa jákvæða afstöðu og að virkja sálrænu kraftana.
 
*
 
Ég er búinn að lesa oft, oft í dag textann í Kyrrð dagsins sem er tileinkaður Lí Pó, en hann fæddist rétt eftir árið 700. Lí er kínverkst eftirnafn sem þýðir dagrenning.
 
Þú spyrð hvers vegna ég búi mér hús í skógi upp til fjalla,
og ég brosi og er þögull; jafnvel sál mín er þögul:
hún býr í hinum heiminum sem enginn á.
Ferskjutrén blómgast, vatnið rennur.

Húsið okkar er ekki upp til fjalla en það er í jaðri skógar sem er tuttugu til þrjátíu metra hár. Mér finnst líf mitt gæla ögn við innihald þessa texta en ég ætla ekki að fara út í það. Ég vil ekki skemma innihaldið með því að fjalla um það sem ég er ekki tilbúinn að takast á við. En alla vega; það er eitthvað merkilega frábært við þennan texta.

Í léttari dúr

Það er spurning hvernig ég eigi að eyða kvöldinu, hvort ég eigi að festa mig við sjónvarpið, kannski að lesa, eða kannski að blogga í svolítið léttari dúr en í gær. Ég vel það síðastnefnda. Þegar ég vaknaði í morgun hafði ég sofið án minnstu truflunar í átta tíma. Ég spurði Valdísi hvernig hún hefði sofið. Í einum dúr sagði hún utan að hún hefði rumskað eitthvað en sofnað strax aftur. Eftir svona svefn eiga meira að segja ellilífeyrisþegar að vera vel upp lagðir. Það fór líka svo að þegar við höfðum tekið langan og rólegan tíma til að borða morgunverð, þá stóð Valdís upp og sagði: Jæja!
 
Hvað nú spurði ég og hún svaraði að bragði að hún ætlaði að baka kanelsnúða. Það gengur ekki í sveitinni að eiga ekkert ef það kemur fólk. Ég bauð henni hjálp mína en hún ráðlagði mér að fara út og smíða. Já, ég sagðist þá líka ætla að koma mér af stað. Þá var ég þegar búinn að hreinsa átta sentimetra snjó af helstu gönguleiðum hér á Sólvöllu og sækja blaðið. Nú fór ég út með myndavélina því að ég var ákveðinn í að ljósmynda verkefni dagsins. Svo fór ég út og tók tvær myndir.
 
Þegar ég kom til baka inn til að leggja frá mér myndavélina sá ég þetta á eldhúsbekknum. Mér fannst myndefnið stórskemmtilegt og það varð líka þessi fína mynd af því. Hveiti, sykur, smjör (alls ekki smjörlíki) og egg. Efniviðurinn í kanelsnúðana. Eitthvað annað þurfti Valdís að gera áður en hún braut eggið en það var alla vega komið á sinn stað. Stuttu seinna var eldhúsbekkurinn kominn í mikla óreiðu. Þannig er það við bakstur.
 
Seinna í dag þegar ég kom í eina af mínum ferðum inn, þá voru snúðarnir komnir í poka og svolítið var á diski á  matarborðinu. Svo borðuðum við volga snúða.
 
Enn seinna í dag þegar ég kom einu sinni enn inn blasti þetta við mér. Hjónabandssæla. Svo borðuðum við volga hjónabandssælu.
 
Eftir sjúkrahúsferð okkar í gær bjó hún þetta til. Við köllum þetta kjötkökur Valdísar enda er þetta uppskrift hennar. Svo var kominn kvöldmatur og við borðuðum kjötkökur Valdísar með soðnum kartöflum, rauðrófum og rauðkáli. Þá var Valdís sem betur fer búin að ganga makindalega frá sér í djúpa stólnum og sofna svolitla stund.
 
Það má fara að ætla að það sé skörp verkaskipting á okkar heimili enda munu næstu fimm myndir sanna það. Krydd ásamt ýmsu öðru skilar ekki góðum árangri í mínum höndum. Það er kannski vegna þess að það er ekki krydd í pönnukökum sem við erum búin að ákveða að innan skamms verði ég kominn með réttindi á pönnukökur. Valdís ætlar að kenna mér að baka pönnukökur, að hætti Valdísar, áður en langt um líður. En þetta með verkaskiptinguna. Ég er býsna góður við að ganga frá öllu á kvöldin og mér finnst gaman að sjá eldhúsbekk sem er vel frágenginn. Þegar ég fer í að ryksuga, skúra og þrífa get ég næstum fengið smá æði. Eiginlega finnst mér nú orðið að þetta síðastnefnda sé kallmannsverk.
 
*
 
Nú vendum við kvæðinu í kross.
 
Þetta var fyrri myndin sem ég tók í morgun þegar ég fór út til minna verka. Ég er búinn að eyða mörgum stundum í að smíða gerefti á dyrnar og gluggana á Bjargi, grunna þau og mála eina umferð. Húsið er alls ekki farið að verja sig fyrr en gereftin eru komin upp og svo gerir það húsið líka mikið, mikið fallegra.
 
Síðdegis og við önnur birtuskilyrði tók ég svo þessa mynd frá sama stað. Það hefur eitthvað mikið breytst. Framhliðin er búinn að fá sinn endanlega svip utan að þakrennuniðurföllin eru ekki komin upp. Þau koma á hvítu hornin. Það var að byrja að skyggja þegar ég var tilbúinn að taka þessa mynd, en mig langaði mikið að hafa myndir af undan og eftir til að geta borið saman. Ég rétt náði því.
 
Önnur myndin sem ég tók í morgun var þessi.
 
 Og um dimmumótin tók ég þessa nákvæmlega frá sama stað. Harla er ég ánægður með samanburðinn. Það vantar þó eitt stykki á milli glugganna til vinstri á myndinni. Það var um seinan þegar ég áttaði mig á því.
 
Í haust gekk einn nágrannanna framhjá. Hann sagði að það væri greinilegt að ég hefði staðsett húsið eftir trjánum og honum fannst það reyndar ögn broslegt. En það var mjög skemmtilegt hvernig þetta passaði allt saman. Hefði ég staðsett húsið einum meter lengra til hægri hefði það verði komið of nærri lóðamörkum nágrannanna. Hefði ég staðsett það einum meter lengra til vinstri hefði það byrjað að hindra vatn að renna frá íbúðarhúsinu þegar skýföll koma. Hvað var þá eftir? Jú, að hafa það nákvæmlega þar sem það er. Útlitsins vegna hefði húsið líka mátt vera einum meter lengra, en hvort tveggja var, að þá hefði það farið of langt bæði til hægri og vinstri og einhvers staðar verður að setja stærðarmörkin.
 
Ég er óttalegur dellukall. Hér er sýnishorn af nokkrum gereftanna. Ég lími lista aftan á þau öll. Annars vegar til að gera húsið fallegra og hins vegar til að gera gereftin stabílli og sterkari. Það er mikið að sníða og fella þegar unnið er svona. Lengst til hægri er gerefti yfir glugga og öll hin eru hliðargerefti. Ég hefði getað útbúið gereftin á tveimur dögum eins og ég hef unnið undanfarið, en ég hef gert þetta á tveimur vikum. Þegar svona er gert fær hvert stykki sinn persónuleika. Ég geri ráð fyrir að það þurfi svolítið smiðsauga til að átta sig á þessari gereftagerð.
 
Fari einhver að hlæja býð ég upp á það. Ég sagði einhvern tíma að ég vil njóta af því að byggja á Sólvöllum. Ég geri það meðal annars á þennan hátt. Fyrr á öldum voru menn lengi að byggja og byggðu jafnframt afar falleg hús. Í dag er ekki tími til að gera þetta, aðallega af fjárhagslegum ástæðum, og húsin eru því mörg líkari kössum fyrir vikið. Hann Anders smiður sem hefur hjálpað okkur sagði eitt sinn að hann mundi aldrei geta gert reikning fyrir svona vinnu, en hnn ber virðingu fyrir þessu föndri mínu samt sem áður og hlær ekki að því.
 
Nú sé ég að ég kem til með að hafa tíma fyrir sjónvarpið líka. Valdís er að horfa á fréttir og seinna kemur annað léttara efni sem við getum horft á saman. Dagur á Sólvöllum er að kvöldi kominn

Svo lék hún á alls Oddi það sem eftir lifði dags

Á aðfangadag birti ég blogg sem að mestu var eignað Valdísi og sjúkdómi hennar á síðastliðnu ári. Ég las það blogg rétt í þessu og varð fyrir all sterkum áhrifum af að minnast þess sem þar stendur. Þegar það var skrifað vorum við rétt vongóð þrátt fyrir ýmislegt sem okkur fannst ekki vera eins og það ætti að vera. Síðan versnaði ástandið og Valdís hafði samband við krabbameinsdeildina á sjúkrahúsinu nú á nýju ári og þar var henni vel tekið sem og alltaf áður. Hún var send í sneiðmyndatöku sem að því er við best vissum sýndi að æxlið í vinstra lunganu hafði ekki stækkað.
 
Við mættum hjá krabbameinslækninum, henni Maríu, og hún sagði að til að hún gæti gert sér einhverja grein fyrir því hvað málið snerist um, þá þyrfti hún að fara niður í lungun til að skoða og taka sýni. Svo var það gert tæpri viku seinna. Seinna þann sama dag sagði María að nú yrðu sýnin ræktuð, en einnig að hún hefði satt best að segja ekki séð neitt sem vekti illan grun hjá henni. En þó tók hún það fram að hún gæti ekki fullyrt neitt fyrr en hún hefði fengið niðurstöður af ræktun sýnanna. Þetta var á fimmtudag í næst síðustu viku, þann 24. janúar. Ég heyri af mér á miðvikudag eða fimmtudag í næstu viku sagði hún. Þá yrðu niðurstöður af sýnunum tilbúnar.
 
Það virtist sem þessi miðvikudagur eða fimmtudagur væru mjög, mjög langt framundan. Þessi bið var óþægileg fyrir okkur bæði og auðvitað hlýtur biðin fyrir Valdísi að hafa verið mikið erfiðari en mín. Rósa og Hannes komu og dvöldu helgina sem þar kom á milli og það voru þvílík verðmæti að fá þá heimsókn. Hannes vildi ekki fara heim aftur þegar komið var að brottför þeirra og við vissum að hann væri einhver bjartasti sólargeislinn í þessu öllu saman. Tíminn leið hægt og ég fann oft að Valdís var hljóðari og meira hugsi en mér líkaði. Mánudagskvöldið 28. janúar sagði hún allt í einu: Í kvöld er ég órólegri og hræddari en ég hef verið allan tímann síðan þetta byrjaði. Ég sveiflaðist tilfinningalega eftir hennar líðan eins og loftvog gerir í misjöfnum veðrum.
 
Svo kom miðvikudagurinn, fyrri dagurinn sem María ætlaði hugsanlega að láta heyra frá sér. Hún hringdi ekki. Svo kom fimmtudagurinn og það var komið fram yfir hádegi og Maria hringdi ekki. Þá hringdi Valdís í ákveðið fólk á sjúkrahúsinu sem hún má alltaf hringja til og þau ætluðu að tala um þetta við Maríu. Stuttu síðar var hringt til baka og Valdís var boðuð í viðtal til Maríu klukkan eitt eftir hádegi í dag, mánudaginn 4. febrúar. Miskunnarlausar grunsemdir hrönnuðust upp fyrst hún gat ekki talað um niðurstöðurnar í síma og skammdegið svartnaði. En einmitt þá reisir Valdís sig upp og segist þurfa inn í Marieberg til að sinna nokkrum erindum. Svo lék hún á alls Oddi það sem eftir lifði dags. Ég skrifaði um þetta í mínu síðasta bloggi
 
Svo liðu dagarnir með misjöfnum þunga og loks var kominn mánudagurinn 4. febrúar. Valdís var óróleg og við vorum bæði óróleg. Að lokum sátum við á biðstofunni og biðum eftir Maríu. Svo kom hún með hughreystandi bros á vör og við gengum inn til hennar. Hún hafði ekki svo langan formála og tilkynnti að það væri komið æxli í hitt lungað líka. Það var henni þungt að segja þetta og það var þungt að meðtaka það.
 
Ég ætla ekki að tíunda allt sem sagt var þarna, en að lokum sagði Valdís að það væri svo mikil óreiða í höfðinu á sér á þessari stundu. Þá sagði María að hún skyldi láta þessa óreiðu hafa sinn gang, það væri mikilvægt. Síðan lýsti hún hvað við tæki. Valdís verður sett á krabbameinslyf, töflur sem hún á að taka á hverjum morgni í ótakmarkaðan tíma, og svo verða viðbrögðin látin ráða hversu lengi, kannski alltaf. Það verður engin sjúkrahúslega, en ný athugun fer svo fram eftir fjórar vikur til að meta árangurinn. Hjúkrunarfræðingurinn Rose-Marie talaði einnig við okkur og útskýrði hvernig Valdís ætti að taka nýju lyfin og sagði ennfremur að hún skyldi hringja þegar í stað ef einhverjar spurningar vöknuðu. Þetta fólk býr yfir mikilli manngæsku.
 
Eftir áfallið í dag er fjallkonan mín orðin róleg og glöð. Við komum við í búðum á leiðinni heim og keyptum meðal annars vel útilátnar rækjusneiðar sem við tókum með heim. Já, og svo létum við bæði klippa okkur líka. Svo hituðum við kaffi þegar við komum heim og borðuðum þessar vel útilátnu brauðsneiðar með. Ég þurfti að vera giftur henni í meira en hálfa öld, henni Valdísi minni, til að átta mig á hennar allra sterkustu hlið. Sú hlið er ótrúlega sterk. Þó að bænin mín um nóttina forðum, sem ég skrifaði um á aðfangadagskvöld, hafi ekki verið heyrð eins og ég óskaði mér, þá breytir það engu með gildi bænarinnar fyrir mig. Ég er svo óralangt frá því að skilja allt í þessum heimi hvort sem er.
 
Í gær borðuðum við síðbúinn hádegisverð hjá Annelie og Kjell. Þau eru mikið yngri en við, eða á aldur við Valgerði. Þær Annelie og Valdís kynntust fljótlega eftir að við komum til Örebro árið 1997 og þær hafa verið órjúfandi vinkonur síðan. Í þeirri vináttu hafa verið fólgin mikil verðmæti.
 
 

Fótsporin í sandinum

Það var í fyrradag, miðvikudaginn 31. janúar, að það var fremur þungt kvöld hér á Sólvöllum. Svo kom sms í símann hennar Valdísar. Hún var að enda við að horfa á eitthvað í sjónvarpi og svo tók hún símann og athugaði smsið. Svo sagði hún: mikið var þetta fallegt af henni. Ég spurði hvað það hefði verið, hún las og sagði að þetta hefi komið frá henni Evu. Eva var með smsinu að óska Valdísi góðs gengis og lauk því með orðunum; "þú manst eftir sporunum í sandinn, þú veist hver ber þig áfram."
 
Ég fór inn að tölvu og fann Fótsporin í sandinum á sænsku, skrifaði út og fékk Valdísi. Ég á þetta einhvers staðar sagði hún þá og ég kannast vel við það. Ég hugsaði með mér setja þessa frásögn yfir á íslensku og birta í blogginu mínu. Ég hef gert það áður en það gerir engum illt að ég geri það aftur.
 
 
 *
Fótsporin í sandinum
 
Nótt eina dreymdi mann nokkurn draum. Hann dreymdi að hann gekk ásamt Guði eftir ströndinni. Á himninum birtust allt í einu atvik úr lífi hans. Hann veitti því athygli að á hverju tímabili í lífi hans voru sporin í sandinum eftir tvenna fætur: annars vegar voru það hans spor og hins vegar Guðs.
 
Þegar síðasti hluti af lífi hans birtist leit hann til baka á fótsporin í sandinum. Þá sá hann að oft undir lífsferlinu sáust bara spor eftir eina fætur. Hann veitti því einnig athygli að þetta átti sér stað þegar hann var mest einmana og átti í mestum erfiðleikum.
 
Þetta olli honum sannarlega áhyggjum og hann spurði Guð út í þetta. "Herra, þú sagðir mér þegar ég ákvað að fylgja þér að þú mundir aldrei yfirgefa mig, heldur vera við hlið mér alla leiðina. En ég hef tekið eftir því að á allra erfiðustu tímabilum lífs míns hafa það bara verið fótspor eftir eina fætur. Ég get ekki skilið að þú skyldir yfirgefa mig þegar ég var í mestri þörf fyrir þig."
 
Herrann svaraði: "Mitt kæra barn, ég elska þig og mundi aldrei yfirgefa þig á stundum þrauta og þjáninga. Þegar þú sást bara spor eftir eina fætur - þá bar ég þig."
 *
 
 
Ég man vel þegar ég las þessa frásögn í fyrsta skipti. Það var þegar ég var nýlega byrjaður að vinna í Vornesi að ég staðnæmdist við þunna svarta steinplötu sem hékk þar á vegg og á þessa steinplötu var þessi frásögn letruð. Þegar ég las síðutu fjögur orðin var sem eitthvað gæfi eftir í brjósti mér og ég varð snögglega grátklökkur. Það er dýrleg gjöf að geta hrifist þannig við að lesa fallegan texta -taka myndmálið inn í hjartað. Mér finnst oft að ég þurfi að verða betri maður og ég vona að þetta blogg um Fótsporin í sandinum bæti einum góðum pússlkubb í sálarpússlið mitt.
 
Þarna lengst frá í myndinni er hún Eva. Þetta er frá því þegar við fórum út að borða jólamat á afmælisdeginum hennar Valdísar. Með henni á myndinni er Elín dóttir hennar og maðurinn hennar, hann Sven. Eva, þú mátt alveg treysta því að smsið þitt gladdi og lyfti upp kvöldstemmingunni hér á Sólvöllum þetta umrædda kvöld. Orðin voru svo einföld og vel meint að þau gátu ekki annað en glatt og þau komu á nákvæmlega réttum tíma.
 
Seinni partinn í gær sagði Valdís allt í einu; ég þarf að skreppa inn í Marieberg. Þá fórum við auðvitað inn í Marieberg og í verslunarmiðstöðinni þar eru vegalengdirnar ærið langar á tveimur hæðum. Mér hættir allt of oft til að fara einhverjum skrefum á undan Valdísi og svo stoppa ég og bíð. En í gær gekk hún hraðari skrefum en hún hefur gert lengi og stundum horfði ég á eftir henni og hugsaði eitthvað á þá leið að hvað hefði eiginlega átt sér stað með þessa konu. Mér fannst það ekki leiðinlegt.
RSS 2.0