Ellikallar

Það var í fyrri viku sem ég fór með Valdísi á heilsugæsluna í Fjugesta, höfðuðstaðarins í Lekebergshreppi. Hún fór þar í biðröð til blóðsýnatöku. Ég fór hins vegar til að sinna erindum og kom að því búnu til baka til að vera henni selskapur. Þegar ég sá inn á biðstofuna sá ég herðarnar á manni sem sat þar og talaði við Valdísi. Það var ekki erfitt að sjá hver þar var á ferð -Anders rafvirki.
 
Hann vann hjá okkur þangað til hann varð ellilífeyrisþegi og þá varð okkar maður Patrik sonur hans, litli yfirmaðurinn sem Anders kallaði hann stundum. Áður en Anders hætti að vinna sagði hann okkur að hann ætlaði eitthvað frameftir árum að sjá um lagerinn, að telja það sem færi út til kúnnanna og það sem síðan kæmi til baka. Það var líka hægt að heyra það milli orðanna að honum fannst best að einhver eldri og rólegri sæi um þá hlið málsins. Einnig að hann óskaði að fá að vera með í starfsseminni eitthvað áfram.
 
Þegar ég birtist aftur þarna á heilsugæslunni benti Valdís á mig og Anders leit við. Ég sá samstundis að hann var unglegri nú en þegar hann var hjá okkur fyrir rúmum fjórum árum. Hann lét vel af ellilífeyrisþegalífinu, sagðist frjáls eins og fuglinn og gera skemmtilega hluti. Þú ert að byggja, sagði hann svo. Já.
 
Svo hélt Anders áfram nokkurn veginn svona: Ég kom á verkstæðið um daginn og þá voru Robin og Jonas að búa sig til að fara út að vinna. Ég spurði hvert þeir væru að fara og þeir sögðust vera að fara til Guðjóns. Ég spurði hvað hann væri að gera og þeir svöruðu því til að hann væri að byggja bílskúr.
 
Þar með kom í ljós að Anders er dyggur vinnustaðnum og kemur þanga til að telja rafmagnsdósirnar og metrana af rafmagnsrörum. Einnig til að sýna sig og sjá aðra og fá fréttir úr byggðinni. Hann virkjar hugann um leið og finnst hann vera svolítið virkur ennþá sem starfsmaður fyrirtækisins sem hann hafði rekið í áratugi.
 
Síðan um áramót hef ég unnið tvær nætur í Vornesi. Þegar ég vann fyrri nóttina voru Rósa og Hannes stödd hér þannig að Valdís var ekki ein. En þegar ég vann seinni nóttina var hún ein. Ég var búinn að segja dagskrárstjóranum að ég gæti ekki unnið þessa nótt en það aftók Valdís og það endaði með því að ég hringdi aftur og sagðist geta unnið. Valdís vill fá að taka ákvarðanir sínar á eigin spýtur og hún vill ekki að ég umgangist hana eins og hún sé orðin ósjálfbjarga. Sannleikurinn er sá að hún er í svo andlegu jafnvægi að hún getur verið ein.
 
Þegar ég svo kom í Vornes til að vinna þessa nótt var klukkan ellefu fyrir hádegi. Þannig byrja dagarnir þegar við vinnum nótt. Ég veit afar vel eftir 17 ár hvað fyrir mér liggur þegar ég kem þangað á þessum tíma og ég fer beint inn á sjúkradeildina þegar ég er búinn að ná mér í lykla. Þegar ég kom þangað inn var þar einn ráðgjafi sem stóð í ströngu og var feginn að fá liðsinni. Á svo sem fimmtán mínútum var ég komin með ein fimm verkefni. Ari þurfti að hringja í félagsmálastofnun, Jón vildi hringja heim til að sættast við fjölskylduna, Kalli þurfti að fá fötin sín þar sem hann átti að fá að fara út í gönguferð. Ég þurfti að hafa uppflutningssamtal með Benna því að hann  átti að fá að flytja af sjúkradeilinni og hjúkrunarfræðingarnir þurftu aðstoð við að búa um rúm fyrir tvo sem verið var að skrifa inn.
 
Svo er það ekki svo einfalt að einhver fái bara símann til að hringja eitthvað og eitthvað. Fyrst verður að tala við hlutaðeigandi hvort það virkilega sé skynsamlegt að hringja svona samtal akkúrat núna. Svo fara fram samningaumleitanir. En einmitt vegna þess að þarna varð mjög mikið á stuttum tíma fann ég hvernig ein stjórnstöðin af annarri fóru hratt í gang upp í höfðinu á mér. Þegar það var svo komið að hádegi hringdi ég heim og þá fann ég hvernig ég hafði fyllst af atorku sem gerði mig ótrúlega hressann. Við Anders eigum því láni að fagna að eiga kost á þessum möguleika, að vera með í drífandi samfélaginu og örvast hugarfarslega. Það eru alls ekki allir sem eiga þessa kost en mundu óska sér og hafa gott af.
 
Ég sagðist hafa hringt í Valdísi þegar kom að hádegi. Ég byrjaði líka að segja frá því daginn eftir á morgunfundi starfsfólks. Þá sagði ég líka sem satt var að Valdís hefði verið svo hress þegar hún kom í símann að ég hefði velt því fyrir mér hvað ég væri alltaf að gera heima fyrst hún yrði svo hress þegar ég væri kominn að heiman. Það var hlegið að þessu, enda var það meiningin af minni hálfu. En þó, það er nauðsynlegt fyrir okkur að vera með í drífandi samfélaginu að því marki sem skynsamlegt getur talist. Ef ekki bæði, þá annað okkar. Það færir líf inn á heimilið. Að örva hugann bætir líka líkamann.
 
Í dag fór Valdís í fótsnyrtingu í Örebro. Það var kominn tími til að hún gæti farið eitthvað til að hafa það huggulegt. Nóg hefur verið af öðru þessa vikuna. Svo var innkaupaferð og að lokum fengum við okkur kaffi á kaffihúsi og býsna góða rabbarbaraköku með. Svo var kakan auðvitað með góðri slettu af vanillusósu. Við erum orðin svolítið kaffihúsafólk og finnst það góð tilbreyting frá kaffinu við matarborðið hér heima.


Kommentarer
Björkin.

Gott blogg mágur minn.Knús í hús..

2013-03-01 @ 16:52:21


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0