Vor, vor, vor

Nú líkar mér það, á morgun er spáð 7 stiga hita, síðan 10 svo 10 og að lokum 9 og það á að vera sól þrjá af þessum fjórum dögum. Ég held bara að það sé komið vor og það er ekki leiðinlegt. Það er farið að þorna um og lóðin á Sólvöllum sem var næstum bara stígvélatæk í gær var víða gangfær á skóm í dag. Já, það er munur að lifa þessa daga. Á morgun fer ég að vinna en ég get ekki neitað því að mér finnst varla að ég hafi tíma til þess. Hitt veit ég að þegar ég fer að borða morgunverð í fyrramálið fer ég bara að hlakka til að hitta alkana og enn glaðari verð ég þegar ég fera að borga reikningana síðar yfir að fá enn eina góða útborgun frá Vornesi.

Ég læt umræðu um framkvæmdir á Sólvöllum bíða betri tíma að öðru leyti en því að ég hef hugann oft út í skógi þessa dagana. Það er nú best að fara til Vingåker og sækja svo sem fjögur stór beyki, það er að segja fjögurra til fimm metra há tré. Mér finnst ég varla hafa tíma til þess frá byggingarvinnunni en skógur er bara svo mikilvægur. Eftir þriggja ára reynslu af þessum flutningum er helst að sjá að stærri trén hafi komið betur út eftir flutninginn en þau minni. Þegar ég held upp á 75 ára afmælið mitt verða stærstu beykitrén að nálgast tíu metra. Það verður ekki slæm veisla.

Í dag blés nokkra metra á sekúndu á Sólvöllum og nú tala ég um veður en ekki smíðar. Ég var að vinna í nýja svefnherberginu og ég veitti því athygli að það hafði lygnt. Síðan fór ég inn í gamla hlutann og þá varð ég var við að það hafði ekki lygnt. Hvað snerist þetta um? Jú, það snerist um vel byggt hús og nú er ég að montast, en þetta er samt alveg dagsatt.

Að svo búnu ætla ég að skrifa síðbúið afmæliskort til gamals granna og síðan er kominn tími til að undirbúa samveruna með honum Óla lokbrá.

Fréttir frá Íslandi

Fyrir nokkrum dögum var sagt frá í fréttatímum og á textavarpi að yfirgnæfandi líkur væru á mikilli olíu á Drekasvæðinu. Talað var um að þetta væri áldeilis góður fengur fyrir hið krísherjaða land Ísland. Talað var um að þessi olía mundi endast í 40 ár og tekljur ríkisins af olíunni mundi nægja fyrir ríkisútgjöldum íslenska ríkisins í fleiri hundruð ár. Þessu voru sem sagt gerð góð og ítarleg skil.

Núna klukkan átta hófst hálftíma langur þáttur frá Íslandi. Þar var fjallað á hógværan hátt um ástæður fyrir því að svo fór sem fór. Engin dómhörð orð voru látin falla um fjármálahrunið en áhrifum þess á fólk og þjóð voru gerð skil. Talað var um möguleika íslensku þjóðarinnar á að ná sér upp úr áfallinu og að láta atburðina verða til góðs að lokum. Sagt var frá mjög góðri menntun þjóðarinnar og þeim möguleikum sem þessi góða menntun gæti gefið þjóðinni. Einnig var gerð grein fyrir íslenskum auðæfum bæði til lands og sjávar en þó ekki minnst á olíuna, enda hefur þessi þáttur líklega verði eldri en fréttirnar sem birtar voru um olíuna hér á dögunum. Lítillega var komið inn á það hvernig gerfiauðurinn gerði hluta fólks að dálitlum kjánum en þó var þátturinn mjög vingjarnlegur í garð íslendinga.

Um vorið

Í gærkvöldi skrifaði ég um bakslagið í vorkomunni en það eru nú samt ljósir punktar í tilverunni. Klukkan er hálf níu og hitamælirinn stendur í +3. Fimm daga spáin á textavarpinu segir síðan að í dag eigi að vera sex stiga hiti, á morgun átta, svo aftur átta, síðan tíu og svo aftur tíu stiga hiti og þá er kominn föstudagur. Hér eru stökkin ekki svo stór. Það er til dæmis ekki 15 stiga hiti einn daginn og frost og snjókoma daginn eftir. Fimm daga spáin er vorleg.

Hér um daginn gekk ég á milli húsa á Sólvöllum og þá allt í einu kom þetta sterka bylgjandi trommuhljóð innan úr skógi. Spætan komin í gang, hugsaði ég og þá auðvitað vaknaði líka vortilfinning. Það er eiginlega óhugsandi að ekki stærri fugl skuli geta framleitt þetta ótrúlega sterka hljóð. En viti menn; strax eftir þessu ótrúlega trommuhljóði var eins og annar fugl hálf trylltist og hljóðið í þeim fugli var ekki ólíkt hljóðinu í spóanum. Ég hef lesið mig til um það að ákveðin tegund spætukonu gefi frá sér þetta hljóð. Rétt á eftir kom fugl með miklum fyrirgangi út úr skóginum og lét mjög undarlega. Flaug beint upp með miklum hljóðum, stakk sér beint niður, settist eitt augnablik á grein, æddi af stað aftur með miklum hljóðum og ég hugsaði sem svo að blessuð spætukonan færi að fljúga aftur á bak líka. Ég var farinn að halda að ég yrði vitni að meiri háttar ástarævintýri þarna en allt í einu varð allt hljótt og sýningunni var lokið. Jahá, svo það var ekki meira en þetta. En sannleikurinn er sá að ég varð vitni að stóru ástarævintýri.

Það eru margar tegundir af spætum sem hafa ólíkt háttarlag. Eitt sinn sem oftar fór ég í gönguferð stutt frá vinnustað mínum Vornesi. Gönguleiðin er upplýst með all háum götuljósum og lamparnir eru flatir að ofan. Fleiri voru þarna á ferðinni merkti ég en enginn var í sjónmáli. Svo heyrði ég í nokkurri fjarlægð að einhver trommaði eins og barið væri á blikkplötu. Ég var alveg viss um að einhver væri nú bara sniðugur og í góðu skapi og gerði þetta sem leik. Kannski var það líka þannig því að allt í einu kom ég að ljósastaur og upp á lampanum sat spæta og notaði hann sem hljóðfæri. Ég sem hélt að spætur trommuðu bara á trjástofna.
Gröngöling; adult hona. Notera det helsvarta mustaschstrecket under ögat.
Þessi spætutegund heitir á sænsku gröngöling. Ein slík flaug á glugga hjá okkur á Sólvöllum og lét lífið.

Nú er kominn morgunverður á mínum bæ og svo er það sjúkraþjálfari fyrir okkur Valdísi bæði. Við ætlum að verða ung lengi, lengi enn.

Hvað ætlaði ég nú að skrifa?

Í dag var ég að vinna á Sólvöllum og það skotgekk sem ég var að gera. Ég var búinn að hita kaffi en svo mátti ég ekki vera að því að fá mér kaffi og sló því aftur og aftur á frest og að lokum ákvað ég að það yrði ekkert kaffi fyrr en ég væri búinn með ákveðinn áfanga. Meðan á þessu stóð var ég líka með fullan kollinn af hlutum sem ég ætlaði að skrifa um á blogginu núna í kvöld. En hvað skeður svo? Ég man ekkert af þessu en ætla samt að blogga og athuga hvort það kemur aftur upp á yfirborðið sem ég var að hugsa um í dag.

Fyrir þó nokkru talaði ég einhvers staðar um það að nú væri vorið gengið í garð með hægt og jafnt vaxandi hitastigi. En ég er spámaður ekki góður. Stuttu seinna komu tveir dagar þar sem næturfrostið var um 12 stig og það var líka frost allan daginn. Síðan tóku við dagar með minna frosti og jafnvel frostlausum dögum. En hvað skeði svo að lokum? Jú, í fyrradag snjóaði heila 18 sm og um átta leytið í gærmorgun var ærleg hundslappadrífa.

Skammt vestan við Örebrú er vatn sem heitir Tysslingen. Þar safnast mikill fjöldi söngsvana vor hvert og talað er um að þar komi við 8000 til 10 000 svanir vor hvert. Mesti fjöldi söngsvana við tysslingen á einum degi taldist fyrir nokkrum árum tæplega 4500. Við Valdís höfum ekki farið til að sjá þetta meira en tvisvar sinnum en það er þó virkilega vert fyrirhafnarinnar að sjá þennan fuglaskara. Það eru nefnilega ekki bara svanir á ferð þar, heldur líka trönur og gæsir í þúsundatali. Myndina fyrir neðan sótti ég í Örebroblað eitt og vona að mér verði fyrirgefin stuldurinn.
Svanarna vid sjön Tysslingen. Foto:Malin Holmberg/SR Örebro

Hér fyrir neðan eru tvær myndir frá vatni sem heitir Hornborgarsjön. Áhugafólk um fugla getur bara skrifað "Hornborgarsjön" á Google og þá kemur upp mikið efni um Hornborgarsjön og trönurnar þar. Milli 12 og 13 þúsund trönur geta verið þar einn einasta dag. Ég man eftir mikilli snjókomu í Hrísey eftir að fuglar lögðust á egg. Dagana þar á eftir sungu fuglarnir sorgarlög svo ekki varð um villst.

Nú eru söngsvanirnir við Tysslingen og trönurnar við Hornborgarsjön ekki lagstir á hreiður. Það gera þessir fuglar líka að mestu á slóðum sem eru í mörg hundruð km og jafnvel þúsund km fjarlægð héðan og viðkoman við þessi vötn er einungis að bíða eftir því að önnur vötn í mikilli fjarlægð geti tekið á móti þeim. Enn engu að síður hlýtur svona veðrátta fyrir þessa fugla að vera skelfileg, jafnvel þó að kornið sé borið í þá í bílhlössum eins og gert er í runveruleikanum og hefur verið gert lengi. En!!, ef þið getið sagt mér hvernig til dæmis svanir við Tysslingen vita hvenær vatn austur í Síberíu er orðið nógu opið til að taka á móti þeim, þá endilega látið mig vita. Myndirnar hér fyrir neðan eru líka teknar í leyfisleysi og ég veit ekki frá hverjum.



Nú er það svo að þetta um fuglana er alls ekki það sem ég var að hugsa um á Sólvöllum í dag. Þetta bara kom þegar ég byrjaði að blogga.

Útihurð

'Utihurð á herberginu 005 by you.
Það var löngu ákveðið mál að þegar þyngsta vinnan væri búin í nýja svefnherberginu á Sólvöllum, þá skyldi skippt á þessari borðviðarhurð móti annarri sem búin er að bíða í það sem við köllum stofuna í gamla húsinu í hátt á annað ár. Þessi þyngsta vinna var flutningur á einangrunarsekkjum, plönkum, spónaplötum, krossviðarplötum og fleiru út og inn um þessar dyr sem auðvitað hefði skemmt nýja hurð. En ekki má gleyma því að borðviðarhurðin var smíðuð úr óhefluðum borðum úr trjám sem uxu í Sólvallaskóginum.
'Utihurð á herberginu 018 by you.
Ég get alveg lofað ykkur því að þegar ég var búinn að setja þessa hurð í stuttu áður en fór að skyggja í dag, að þá gekk ég hvað eftir annað aftur á bak frá húsinu til að virða dýrgripinn fyrir mér. Ég er svo lítill í mér að ég get glaðst alveg takmarkalaust yfir einni útihurð. Þessi útihurð á svefnherberginu er ósköp venjuleg svalahurð. Svo verður einn stóráfanginn til þegar gereftin verða sett á. Þá verður líka mikil breyting.

Vasaganga í þriðja sinn

Það er kannski nóg komið af Vasagöngu á blogginu mínu. En málið er það að ég bloggaði um það í gær að það væri aldrei sagt frá Vasagöngunni í íslenskum fjölmiðlum. En viti menn; í kvöldfréttum sjónvarps var bara sagt all ýtarlega frá Vasagöngunni og sýndar myndir af því stórkostlegasta við þessa göngu. Það er að segja af startinu þegar hátt í 15 000 manns geystust af stað.

Aftur Vasalopp

Sandra Hansson
Það var líka kona sem vann í Vasagöngunni og það var kall sem gaf henni kransinn.



Myndin hér fyrir neðan er af aragrúanum sem er að leggja af stað. Ég er búinn að leita heil mikið að betri mynd af startinu en hef ekki fundið. Það kannski skemmtilegata við þessa skíðagöngu er að aðeins örfáir keppa til sigurs. Mikið lang flestir eru með bara til að vera með og svo er það ekkert smá afrek að mínu mati að ganga 90 km á skíðum á nokkrum klukkutímum. Meira að segja menn yfir átrætt taka þátt í göngunni en þeim dettur ekki í hug að vinna að öðruleyti en því að þátttakan er sigur. Næsta blogg hér fyrir neðan er líka frá Vasagöngunni.

Vasagangan

Þó að það væri sunnudagur vorum við bara nokkuð snemma á fótum í morgun. Það var nefnilega Vasaganga í dag og útsendingin hófst kl 7,30 að sænskum tíma. Ég man ekki betur en ég hafi bloggað um þetta líka í fyrra en nenni ekki að gá að því. Þátttakendurnir voru tæplega 15 000 frá ótal þjóðum nær og fjær. Árlega taka all mrgir íslendingar þátt í þessari göngu en hvernig sem á því stendur kemur aldrei neitt um þetta í íslenskum fjölmiðlum það best ég veit. Hafi ég rangt fyrir mér þá leiðrétti mig einhver. Í vetur sendi ég Boga Ágústssyni mail og kynnti mig auðvitað sem fyrrverandi fréttamann sjónvarpsins í Hrísey og minnti hann á heimsókn hans til Hríseyjar á sínum tíma þar sem við sátum ásamt eiginkonu hans í blíðskapar veðri sunnan undir þáverandi Ráðhúsi í Hrísey. Síðan talaði ég um Vasagönguna og lýsti undrun minni yfir því að þessi gríðarlegi íþróttaviðburður þar sem um 15 000 manns mæta til að taka þátt í 90 km skíðagöngu fengi enga umfjöllun í íslensku sjónvarpi. Bogi svaraði mér um tíu mínútum seinna og sagðist vel muna eftir heimsókninni til Hríseyjar. Hann sagðist mundi taka þetta upp með Vasagönguna en nú er margt annað að fjalla um eins og alþjóð veit. Hins vegar væri það kannski til að létta undir með fólki að senda út svo eftirtektarvert efni.

Ásóknin í þessa göngu er svo mikil að nú er farið að takmarka fjöldann. Það hafa verið allt að 17 000 þátttakendur í göngunni en það er bara of mikið. En ég veit um íslendinga sem voru snemma á fótum í morgun og horfðu á sænsku útsendinguna frá göngunni. Ég nefni engin nöfn fyrir utan að nefna mágkonu mína og svila í Garðabænum. Ég held bara að þeim hafi þótt mikið til um. Ég stal mynd úr Dagens Nyheter og nú fáum við að sjá hvernig mér tekst til með að stela. Ég hef nefnilega aldrei áður notað mynd á þennan hátt. Ef það verður bara texti sem kemur fram í blogginu, þá hefur mér ekki tekist ætlun mín. Myndin hér fyrir neðan er frá bænum Mora (Múra) í Dölunum þar sem göngunni lýkur. Þar sjáum við sigurvegarann, sænskan mann, og fallega Múrakonu sem kastaði kransi um hálsinn á honum rétt áður en hann gekk yfir sigurlínuna. Ef myndaþjófnaðurinn tekst vel kem ég til með að stela annarri mynd.
Daniel Tynell
RSS 2.0