Jónsmessuhelgin

Jónsmessuhelgin hefur farið afar rólega fram hér í sveit. Ég er einn heima. Susanne er í heimsókn upp í Dölum, nánar tiltekið í Orsa þar sem úlfar og birnir eru ekki all fjarri. Ég valdi að fara ekki og ég valdi líka að fara ekki til Íslands eins og ég hafði þó hugsað mér. Það bloggaði ég um í gær.
 
Eins og mörgum er kunnugt er Jónsmessan mikil hátíð hér, kallast miðsumarhátíð, og svipar að sumu leyti til verslunarmannahelgarinnar á Íslandi. Það eru til margar mjög gamlar hefðir sem tilheyra þessum degi, hefðir sem að vísu hafa tekið breytingum, en alla vega er þessi helgi byggð á alda gömlum grunni ef svo má segja.
 
Tilheyri maður ekki þeim starfsgreinum sem alltaf verða að vera til staðar, þá vinnur maður ekki um miðsumarhelgina. Samt vinn ég en ég fer afar varlega fram, ég sýni Svíunum fulla virðingu í því. Ég hafði á fimmtudaginn viðað að mér mold á vissum stöðum í skóginum næst íbúðarhúsinu. Ég hafði flutt þangað verkfæri, garðslönguna, og ég hafði skipulagt það þannig að ég bara hyrfi út í skóginn og yrði umhverfinu ósýnilegur.
 
Ég held að allir nálægustu nágrannaranir hafi farið í ferðalög eða heimsóknir því að á fimmtudagskvöldinu var ekki bara hljótt, það var fullkomlega hljótt. Í eins kílómeters fjarlægð í beinni línu er Torp og þar höfðu safnast saman um fimmtán þúsund manns á kristilega samkomu, en þaðan heyrðist ekki hið minnsla hljóð heldur. Mikið var þetta notalegt.
 
Svo kom föstudagurinn, aðal hátíðisdagurinn. Ég gekk að því sem ég hafði undirbúið og skipulagt daginn áður og það skrifaði ég um í gær og birti myndir. Það ískraði í valtaranum og það var óþolandi hávaði í allri kyrrðinni. Ég hellti olíu á ákveðna legu og þá þagnaði hann. Nokkru síðar byrjaði fólkið í Torp að leika við börnin sín og þá varð meira líf í sveitinni. Nágrannarnir norðan við komu líka til að vera í sumarbústanum sínum að kvöldi miðsumardagsins. Þannig lauk föstudeginum, miðsumardeginum, í mikilli kyrrð og friði.
 
*          *          *
 
Laugardagurinn gekk í garð og ég borðaði sameginlegan morgunverð og hádegisverð. Ég gekk út um hádegisbil -en viti menn; ungu nágrannarnir sunnan við voru þá heima eftir allt saman. Ég gekk til þeirra og þau höfðu bara notið kyrrðarinnar eins og ég en ég sá aldrei til þeirra. Þau sáu ekki til mín heldur en samt er minna en hundrað metrar á milli húsanna og ekkert ber á milli. Síðan hélt ég áfram þar sem ég var kominn á föstudeginum og nú var ég ekki alveg jafn hljóðlátur en fór varlega samt.
 
Ég hef notið mín þessa helgi og aðallega vegna þess að ég var svo ákveðinn í því að stuðla að þessari kyrrlátu stemmingu sem ég hef lýst. En eiginlega, þegar öllu er á botninn hvolft, er þetta ekkert öðru vísi en aðrir dagar hér um slóðir að öðru leyti en því að það var bara hljóðlátara en venjulega. Hér er jafnan kyrrð og friður. Mesti hávaðinn er þegar einhver er að smíða og þá heyrast hamarshögg. Þegar ég stend fyrir hamarshöggunum sjálfur finnst mér stundum sem þau séu alveg ærandi. Svo heyrist líka í flugvélum nokkrum sinnum á dag en það bara gengur svo fljótt yfir.
 
Í nokkur hundruð kílómetra fjarlægð í þessu friðsama landi hafa menn fyrir íþrótt að skjóta hver annan. Þegar maður býr í Krekklingesókn er allt slíkt svo fjarlægt, það er eins og það eigi sér stað fjarlægu landi. Það er erfitt að trúa því að þetta eigi sér stað í sjálfu landi skóganna.
 
Einn af nágrönnunum hér vann það sem samsvarar tæpum sex miljónum íslenskra króna í happdrætti á sunnudaginn var. Við hittumst nokkur heima hjá honum í vikunni og allir samglöddust honum og fjölskyldunni svo sannarlega. Það fannst ekki fyrir minnstu öfund. Þau hafa heldur ekki haft það svo létt nú síðustu árin að þau voru vel að þessu komin. Þau buðu upp á MARGRA kílóa smurbrauðstertu.
 
Susanne kemur heim síðdegis á morgun og ég hlakka til. Hún er ánægð með fjölskyldunni sinni í Dölunum og það er vel. Okkur finnst báðum gott að vera ein inn á milli en mér finnst góðs viti að ég sakna hennar. Á morgun, sunnudag, mun ég halda áfram því sem ég hef unnið við í skóginum næst húsinu. Það verður svolítill ævintýraheimur þar skulið þið vita.
 
 
Ég tók vinnuhlé í dag og gekk lengra út í Sólvallaskóginn. Þar fann ég þetta sjónarhorn.

Framhald um dellur og kraftaverk

Fyrir nokkru síðan skrifaði ég blogg sem ég kallaði Dellur og kraftaverk. Nú kemur eiginlega framhald af því bloggi.
 
Þar sem ég sit núna sit ég oft, og beint fyrir framan mig er gluggi móti austri. Þar utan við er bara skógur. Trén sem næst mér eru eru væntanlega um fimmtán metra há en trén sem ber við himinn í svo sem þrjátíu metra fjarlægð eru væntanlega tuttugu og fimm metra há. Laufhafið bærist ekki fyrr en augað nálgast krónurnar efst uppi á hæstu trjánum þar sem það bærist mjúklega. Það hefur varla orðið albjart í dag, veðrið hefur verið rakt en gott. Núna er að byrja að bregða birtu klukkan hálf tíu á sunnudagskvöldi.
 
Eitthvað svipað þessu hef ég skrifað oft, oft áður en það er eins og það sé alltaf nýtt fyrir mér.
 
 
Myndin er nákvæmlega af útsýninu sem ég hef út í gegnum gluggann bakvið tölvuna mína en hún passar samt ekki almennilega við lýsinguna, þó er lýsingin rétt og myndin er rétt. Þannig er það stundum að mynd getur ekki sagt það sem orðin segja en samt er hvort tveggja rétt.
 
*     *     *
 
Það er hátt í tvær vikur síðan ég skrifaði þennan texta og af einhverri ástæðu vil ég ekki fleygja honum. Núna ætla ég að bæta aðeins við hann. Það er hæg rigning, þungbúið eftir góðviðrisdag og það er enn einu sinni farið að bregða birtu. Á þessum tæpum tveimur vikum hef ég haldið áfram að hlú að skóginum, ég hef grisjað, ég hef lagfært göngustígana sem ég gerði fyrir einum átta árum. Mold í hjólbörum, skófla, járnkall i hendi, garðhrífa, hænsnaskítur í fötu, grasfræ í skál, valtari, garðslanga, spígspora fram og til baka.
 
Hreinsa illgresi frá matjurtum, sá meiru, vökva, rölta um með greinaklippurnar, handleika eldivið og að lokum fann ég út að það væri alveg nauðsynlegt fyrir mig að gróðursetja þrjá sólberjarunna í viðbót við á tvo sem til voru. Því lauk ég fyrir nokkrum dögum.
 
Þannig líða margir dagarnir ásamt einhverju öðru sem ég hef ekki nefnt og jafnvel man ekki. Svo setst ég á veröndina, gjarnan með kaffi, horfi á skóginn, geng út í skóginn og finnst ég vera ríkasti maður í heimi. Menn kaupa málverk, listaverk, á miljónir og hundruðir miljóna króna.
 
 
Hér er listaverk þar sem skaparinn sjálfur var að verki. Síðan gaf hann mér möguleika á að vernda listaverkið, hlú að því og hjálpa því að lifa, en mér hefur ekki tekist allt of vel til. Neðst til hægri er grindverk sem ekki passar inn í listaverk skaparans og ennþá síður passar alúmíníumsnúran til vinstri. En alla vega; ég get fundið mér stað á veröndinni þar sem hvorki grindverkið eða snúran skemma myndina. Eina stundina lítur listaverkið út eins og það gerir á myndinni, síðan dregur ský fyrir sólu og listaverkið hefur tekið á sig allt aðra mynd og vestan blærinn skapar enn eina útgáfuna.
 
Að morgni er listaverkið á einn veg, að kvöldi er útlitið allt annað. Á hæglátum rigningardegi er þetta listaverk kannski lang fallegast. Þannig er það; endalaus breytileiki og ég verð aldrei þreyttur áhorfandi.
 
 
Ti hægri: Hvít ylliblóm. Bráðum verður gert ylliblómasaft! Skaparinn leyfði mér að kaupa yllinn, grafa fyrir honum og gróðursetja hann. Jú, ég fæ vissulega að vera með í sköpunarverkinu, svo miskunnsamur er Hann.
 
 
Valtarinn sem tilheyrði önnum dagsins, dökki flekkurinn í miðri mynd einnig.
 
 
Hér vann ég líka í dag en það sér enginn nema ég sem þekki til.
 
 
Viðgerð neðst til vinstri. Eik í miðri mynd ásamt miklum breytileika í gróðri.
 
Ég talaði um dellur í bloggi fyrir tæpum tveimur vikum. Ég hef aldrei jafnað mig eftir delluna sem ég smitaðist af fyrir um það bil sjötíu árum þegar Sveinn bróðir sáði fyrir birkinu. Það er þess vegna sem ég get endalaust bloggað um trén í Sólvallaskóginum.
 
Að sumrinu verð ég bara að vera hér. Skógurinn, matjurtirnar, berjarunnarnir og ávaxtatrén kalla á það. Því hef ég slegið á frest Íslandsferð sem ég var búinn að tala um og ég er búinn að kaupa flugmiða til Íslands þann 13, september og verð þar fram til 1. október.

Hún er ekki á fermingaraldrinum lengur

Hún er ekki á fermingaraldrinum lengur hún Susanne en hún er samt ekki af baki dottin. Hún útskrifaðist sem sjúkraliði árið 2008. Nú síðustu fjögur árin í röð hefur hún af ótrúlegri þrautsegju framhaldsmenntað sig í að annast veika og aldraða. Fyrst tók hún tvö ár í að læra sérstaklega um umönnun veikra í heimahúsum. Það var undir lok þess tímabils sem við hittumst. Hún var þá þegar ákveðin í að læra meira.  Nú síðustu tvö árin hefur hún svo sérmenntað sig í líknarhjálp.
 
Þegar hún lauk fyrra tveggja ára náminu spurði kennarinn hana hvort hún vildi ekki taka hlé í eitt ár en hún var þá þegar ákveðin í að halda áfram án þess að taka hlé. Eftir á að hyggja er ég ekki viss um að hún hefði byrjað á ný ef hún hefði tekið þetta hvíldarár. Í dag mundi ég heldur ekki vilja til þess hugsa að hún ætti eitt ár eftir.
 
Eftir gríðarlega mikið starf, lengi vel í 80 % vinnu og 50 % námi, mest heimanám, og eftir mikla röð mótlætis á síðasta árinu, þá hefur hún staðist prófið. Þetta með mótlæti í lífinu er bara gangurinn hjá öllu venjulegu fólki, en Susanne fékk á sig þessa röð mótlætis á svo stuttum tíma og einmitt þegar henni var svo mikilvægt að hafa frjálsar hendur.
 
Í gærmorgun fór hún til Stokkhólms í eina af þessum mánaðalegu tveggja daga ferðum í skólann þar sem áttu að fara fram próflok. Ég fór með hana á járnbrautarstöðina í Hallsberg og kvaddi hana þar og fann að hún bjó yfir styrk og bjartsýni. Þrjátíuogtveir byrjuðu í þessum hópi fyrir tveimur árum og nú voru átján eftir. Seinni partinn í gær borðaði þessi hópur betri mat á hóteli í Stokkhólmi, hafði smávegis lokaveislu. Lokaatriðið í prófinu var munnlegt þar sem líka var notast við skyggnur.
 
Við töluðum sem allra snöggvast saman snemma í morgun, ég óskaði henni góðs gengis og hún var aldeilis stálslegin. Stuttu fyrir hádegi hringdi síminn og ég sá að það var Susanne. Ég svaraði en fékk ekkert svar á móti. Halló, halló kallaði ég hvað eftir annað en ekkert svar. Ég hlustaði. Ég heyrði að Susanne talaði og ég heyrði að hún var full af sjálfsöryggi og að hún vissi hvað hún var að tala um. Ég heyrði einstaka orð en ég heyrði ekki samhengið. Svo gafst ég upp og lagði á. Þannig gengur það með farsíma, þeir geta allt í einu farið að hringja í einhvern af einhverri hreyfingu eða að hönd er sett í vasa. Susanne hafði ekki hugsað sér að hringja en mér þótti skemmtilegt að heyra hversu vel hún tók sig út með bekknum sínum.
 
Nokkrum mínútum síðar kom sms frá Susanne þar sem stóð: LOKSINS, ÉG HEF STAÐIST PRÓFIÐ.
 
Seint í dag var hún á járnbrautarstöðinni í Hallsberg á ný. Hún var þreytt, henni var létt og eiginlega vildi hún enga myndatöku eins og sést á myndinni. Hún var mikið ánægð og það minnsta sem kallinn gat gert var að gefa henni blómvönd með fallegustu blómunum sem fengust í Skrúðgarðabúðinni í Åbytorp.
 
 
 

Um dellur og kraftaverk

Á fjórða tímanum um nótt fyrr í vikunni þurfti ég að fara ferða minna fram á bað sem kannski er ekki svo rómantískt að segja frá, en allt of syfjaður var ég og átti erfitt með að koma mér af stað. Á leiðinni til baka leit ég út um nokkra glugga því að þó ég væri ógurlega syfjaður var ég mikið forvitinn að sjá hvernig gróðurinn hefði það eftir hægláta rigningu í einn sólarhring. Þó að þessi rigning væri ennþá allt of lítil hafði eitthvað mjög gott átt sér stað. Hæglátt laufhafið austan við húsið leit allt öðru vísi út, ég sá að því leið betur.
 
 
Ég hallaði mér fram að glerinu í þvottahúsglugganum og horfði á eikina sem þar er beint framundan. Ég sá vatnið perla á laufinu, laufinu sem virtist hafa vaxið síðan daginn áður og það var eitthvað svo undur hreint. Þvottasnúran var á milli gluggans og eikarinnar og hún var bara alls ekki á réttum stað. Þessi alúminíumgræja skemmdi útsýnið frá þvottahúsglugganum og þegar útsýnið er af þeim toga sem það er hér um bjarta snemmsumarnóttina, þá bara má það ekki. Snúran hefur flakkað til og frá gegnum árin og er alltaf fyrir.
 
Ég lagði mig aftur og horfði um stund upp í herbergisloftið. Ég hugsaði um dellur sem ég hef fengið gegnum lífið, bókstaflega frá því að ég man eftir mér. Þessar dellur mínar hafa allar gefið mér eitthvað en þær hafa líka gengið yfir. En ein della hefur ekki gengið yfir og það er skógardellan.
 
Ég á í fórum mínum eina minningu sem ég hef reynt að fá skýrari mynd af undanfarna daga. Ég giska á að ég hafi verið fimm ára. Við lágum á hnjánum þrjú systkini nálægt klapparhorni vestan við Smalamýrina á Kálfafelli, nokkrum tugum metra neðan og sunnan við rifsberjarunnana sem voru í skjóli undir öðru og hærra klapparhorni. Hægra megin við mig var Sveinn bróðir og hinu megin við hann hlýtur það að hafa verið Guðný systir mín.
 
Sveinn, kannski ellefu ára eða eitthvað eldri, stjórnaði aðgerðum þarna og við hin horfðum forvitin á því að hann var að gera nokkuð mjög merkilegt. Hann hafði skorið þökur ofan af litlum ferhyrningi og síðan stráði hann birkifræi á moldina. Því næst lagði hann mosa yfir fræin, þar ofan á trélista og ofan á trélistana lagði hann svo þökurnar. Síðan yfirgáfum við svæðið og veturinn leið.
 
Að vori gengum við á ný að klapparhorninu vestan við Smalamýrina og enn var það Sveinn sem var leiðtoginn. Hann tók burtu þökurnar, listana og að lokum tók hann gætilega burtu mosan. En heyrðu manni minn! Það hafði eitthvað skeð þarna í moldinni undir yfirbyggingunni. Eitthvð var að byrja að vaxa þar og á næstu dögum eða vikum byrjuðu að vaxa þar pínulítil birkilauf. Sveinn hafði komið af stað kraftaverki. Þarna smitaðist ég af fyrstu dellunni  minni og ég hef aldrei losnað við hana. Fyrir mér var þetta alveg stórmerkilegt.
 
Ég er hér að tala um nær sjötíu ára gamla minningu og eitthvað er þar öðru vísi en það var í raunveruleikanum. En alla vega; það er minningin mín. Sveinn var í fyrsta lagi tæknilega sinnaður en andlega þenkjandi var hann líka. Hvar hann fékk hugmyndina af því að gera þetta er mér algerlega óljóst, en vestan við bæinn á Kálfafelli, í lágri brekku, var til nokkuð sem kallað var Skógargirðingin. Það var reitur þar sem ungt fólk í sveitinni hafði gróðursett birkiplöntur snemma á síðustu öld.
 
Þessar skógarplöntur urðu að trjám sem hölluðu undan veðri, vindum og snjóalögum, en þau sköpuðu þó alla vega sérstakan heim sem var ævintýraheimur fyrir mig og ég var þar oft. Þar verptu endur og fleiri fuglar og það var ákaflega forvitnilegt. Í Skógargirðingunni varð líka til mikið magn af birkifræjum sem sjálfsáðu sér þar í kring og fræið sem Sveinn notaði til að koma af stað kraftaverkinu þurfti hann ekki að sækja langt.
 
 Hvílík verðmæti
 
 
RSS 2.0