Um dellur og kraftaverk

Á fjórða tímanum um nótt fyrr í vikunni þurfti ég að fara ferða minna fram á bað sem kannski er ekki svo rómantískt að segja frá, en allt of syfjaður var ég og átti erfitt með að koma mér af stað. Á leiðinni til baka leit ég út um nokkra glugga því að þó ég væri ógurlega syfjaður var ég mikið forvitinn að sjá hvernig gróðurinn hefði það eftir hægláta rigningu í einn sólarhring. Þó að þessi rigning væri ennþá allt of lítil hafði eitthvað mjög gott átt sér stað. Hæglátt laufhafið austan við húsið leit allt öðru vísi út, ég sá að því leið betur.
 
 
Ég hallaði mér fram að glerinu í þvottahúsglugganum og horfði á eikina sem þar er beint framundan. Ég sá vatnið perla á laufinu, laufinu sem virtist hafa vaxið síðan daginn áður og það var eitthvað svo undur hreint. Þvottasnúran var á milli gluggans og eikarinnar og hún var bara alls ekki á réttum stað. Þessi alúminíumgræja skemmdi útsýnið frá þvottahúsglugganum og þegar útsýnið er af þeim toga sem það er hér um bjarta snemmsumarnóttina, þá bara má það ekki. Snúran hefur flakkað til og frá gegnum árin og er alltaf fyrir.
 
Ég lagði mig aftur og horfði um stund upp í herbergisloftið. Ég hugsaði um dellur sem ég hef fengið gegnum lífið, bókstaflega frá því að ég man eftir mér. Þessar dellur mínar hafa allar gefið mér eitthvað en þær hafa líka gengið yfir. En ein della hefur ekki gengið yfir og það er skógardellan.
 
Ég á í fórum mínum eina minningu sem ég hef reynt að fá skýrari mynd af undanfarna daga. Ég giska á að ég hafi verið fimm ára. Við lágum á hnjánum þrjú systkini nálægt klapparhorni vestan við Smalamýrina á Kálfafelli, nokkrum tugum metra neðan og sunnan við rifsberjarunnana sem voru í skjóli undir öðru og hærra klapparhorni. Hægra megin við mig var Sveinn bróðir og hinu megin við hann hlýtur það að hafa verið Guðný systir mín.
 
Sveinn, kannski ellefu ára eða eitthvað eldri, stjórnaði aðgerðum þarna og við hin horfðum forvitin á því að hann var að gera nokkuð mjög merkilegt. Hann hafði skorið þökur ofan af litlum ferhyrningi og síðan stráði hann birkifræi á moldina. Því næst lagði hann mosa yfir fræin, þar ofan á trélista og ofan á trélistana lagði hann svo þökurnar. Síðan yfirgáfum við svæðið og veturinn leið.
 
Að vori gengum við á ný að klapparhorninu vestan við Smalamýrina og enn var það Sveinn sem var leiðtoginn. Hann tók burtu þökurnar, listana og að lokum tók hann gætilega burtu mosan. En heyrðu manni minn! Það hafði eitthvað skeð þarna í moldinni undir yfirbyggingunni. Eitthvð var að byrja að vaxa þar og á næstu dögum eða vikum byrjuðu að vaxa þar pínulítil birkilauf. Sveinn hafði komið af stað kraftaverki. Þarna smitaðist ég af fyrstu dellunni  minni og ég hef aldrei losnað við hana. Fyrir mér var þetta alveg stórmerkilegt.
 
Ég er hér að tala um nær sjötíu ára gamla minningu og eitthvað er þar öðru vísi en það var í raunveruleikanum. En alla vega; það er minningin mín. Sveinn var í fyrsta lagi tæknilega sinnaður en andlega þenkjandi var hann líka. Hvar hann fékk hugmyndina af því að gera þetta er mér algerlega óljóst, en vestan við bæinn á Kálfafelli, í lágri brekku, var til nokkuð sem kallað var Skógargirðingin. Það var reitur þar sem ungt fólk í sveitinni hafði gróðursett birkiplöntur snemma á síðustu öld.
 
Þessar skógarplöntur urðu að trjám sem hölluðu undan veðri, vindum og snjóalögum, en þau sköpuðu þó alla vega sérstakan heim sem var ævintýraheimur fyrir mig og ég var þar oft. Þar verptu endur og fleiri fuglar og það var ákaflega forvitnilegt. Í Skógargirðingunni varð líka til mikið magn af birkifræjum sem sjálfsáðu sér þar í kring og fræið sem Sveinn notaði til að koma af stað kraftaverkinu þurfti hann ekki að sækja langt.
 
 Hvílík verðmæti
 
 


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0