Fjölskyldumót

Á fimmtudag í næstu viku förum við til Stokkhólms. Það er nefnilega þannig að Valgerður kemur með dæturnar tvær til Stokkhólms og verður þar í viku. Og svo að fjölskyldan verði nú öll á sama stað förum við Valdís þangað líka. Dóttursonurinn Kristinn og tengdasonurinn Jónatan verða ekki með í för, en þrátt fyrir það kalla ég þetta fjölskyldumót.

Öll hittumst við síðast þegar við vorum í sumarhúsi á Hallandsási á Skáni fyrir líklega sex eða sjö árum, umkringd beykiskógum og rapsökrum og einmitt þá voru þessir akrar heiðgulir af rapsblómum. Þá voru Guðdís og Erla líflegir stelpuhnoðrar sem hjálpuðu afa sínum við að sortera ruslið sem til féll og ganga frá því í rétta kassa út í geymslu. Og þegar amma þeirra bakaði pönnukökur stóðu þær á stólum sín hvoru megin við hana og hjálpuðu til. Svo var það alla vega hugsað og það fylgdi góður hugur. Við betri tilfelli fóru þær í gulu kjólana sína og voru þá í frábærilega fallegu samræmi við gulan akurinn suður af húsinu.

Nú eru þær unglingar eins og Kristinn var þegar við vorum á Hallandsásnum. Þá fórum við stundum, þau systkinin og ég, til að gá að dýrum út í skógi og ókum þá litla skógarvegi. Kristinn var ekki kominn með bílpróf en honum fannst réttast að hann keyrði bílinn svo að ég gæti frekar hugað að dýrum. Svo ók hann bílnum og ég fylgdist með honum og hugaði að dýrum. Hallandsásinn var mjög nýskur á dýrin sín þessa viku svo að afrakstur var enginn.


Kristinn var hins vegar tíu ára þegar hann kom í fyrsta skipti til Svíþjóðar til að heimsækja Rósu og Pétur og afa og ömmu. Hann varð ellefu ára hjá Rósu og Pétri í Stokkhólmi og hélt upp á daginn með því að fara í tívolí í Gröna lund. Síðan vildi hann ólmur komast upp í Dali til afa og ömmu og það fór þannig að hann fór einn með lest frá Stokkhólmi til Falun, um 240 km leið. Meðan hann var á leiðinni áttum við í baráttu við sjálf okkur yfir að hafa látið okkur detta í hug að láta þennan patta fara þetta einan. Að lokum kom hin langþráða lest á stöðina í Falun og við héldum niðri í okkur andanum. En gleymið áhyggjunum. Út úr lestinni steig ungur maður með ferðatöskuna sína, alveg salla rólegur, og skimaði um eftir okkur. Hvað gerðirðu á leiðinni, spurðum við á leiðinni heim til okkar. Ég talaði við einhverja konu, svaraði hann og þótti ekkert sérstakt. Og á hvaða máli talaðir þú við konuna. Á ensku, svaraði hann og skimaði í kringum sig í þessu nýja landi. Hvar hefur þú lært ensku, varð okkur á að spyrja. Í sjónvarpinu svaraði hann og fannst ekkert sérstakt til um þetta. Jahérnanahér. Hvað amma og afi voru þræl stolt af þessum ellefu ára strák.

Nú er það svo að ég hélt þegar ég byrjaði að blogga að þetta yrðu örfáar línur. En sannleikurinn er sá að ég á heil mikið eftir. Ég verð að hafa framhald á þessu sýnist mér. En að lokum um ferðina til Stokkhólms næstu viku. Þá hitti ég hann Hannes Guðjón nafna minn í fyrsta skipti, tveggja mánaða gamlan stæltan strák. Ætli ég verði ekki feiminn þegar ég heilsa honum, eða hvað?



Þessi mynd var tekin af Hannesi Guðjóni rúmlega tveggja vikna gömlum þegar amma heimsótti hann. Þá var ég á sjúkrahúsi og því ekki með. Þegar hann var búinn að sitja svolitla stund hjá ömmu varð hann lúinn og svaf á örmum hennar í tvo tíma.

Að lokinni heimsókninni í næst viku verð ég með nóg af myndum af öðrum barnabörnum og fleira fólki til að nota á bloggið.

Enginn bloggdagur

Þetta er nú búinn að vera meiri dagurinn. Við fórum í dag inn í Örebro til höfuðstöðva Mammons í sýslunni, Mrieberg. Þar eru mikið á annað hundrað verslanir, ef ekki einar tvöhundruð, í einum bæjarkjarna, og hægt að fá þar nánast allt milli himins og jarðar annað en fasteignir og hamingju. Við ætluðum að kaupa fatasnaga, brunaboða, kjötfars og mjöl en enduðum svo í fjölda verslana og urðum útkeyrð af þreytu. Svo fengum við okkur kaffi og brauðsneið sem var að vísu býsna notalegt þangað mér varð bumbult af krásunum. Nú erum við á Sólvöllum, þögul sitt í hvoru horni og bæði búin að dotta eftir matinn. Hvernig ætti að vera hægt að blogga á svona degi?

Og þó. Það er kominn upp nýr brunaboði í stofuna og það skapar öryggi. Ég er búinn að máta fatasnagana í forstofuna og þarf svo bara að finna mátulegar skrúfur út í geymslu á morgun og festa snögunum upp, augnabliksverk. Ég fékk e-póst frá henni Helenu í bankanum áðan þar sem hún útskýrði hversu einfalt það er að velja nýtt vaxtatímabil fyrir lán í bankanum, bara krossa í á einum stað og skrifa stutta setningu aftan við. Afgangurinn af lambakjötinu frá í gær smakkaðist svo vel. Svo var eitt sem ég nefndi ekki af því sem skeði í Marieberg. Við hittum einn fyrrverandi vinnufélaga minn sem var þar alsæll með níu mánaða gamla dóttur sína. Við hittum líka konu sem vinnur í eldhúsinu á vinnustað mínum, Vornesi, sem vildi endilega vita hvernig mér vegnaði eftir mjaðmaaðgerðina. Þau hugsa heil mikið til mín í Vornesi og þar að auki þarf maðurinn hennar væntanlega að fara í mjaðmaaðgerð og það líklega á báðum mjöðmum. Hún vildi því gjarnan vita svolítið um mjaðmaaðgerð mína.

Þetta lítur sem sagt ekki svo illa út ef ég lít á debit og kredit niðurstöður dagsins. Dagurinn hefur bara verið fínn ef frá er talin búðafýlan sem ég var farinn að finna fyrir. Búðafýla er gjarnan fylgifiskur minn. Ég verð þó að segja að dagurinn hefur ekki boðið upp á að andagiftin kalli á að ég setjist niður til að fljúga upp í hæðir á vængjum orðanna. Maður má nú vera þreyttari dag og dag inn á milli.

Meira um Geysi

Þegar menn voru farnir að hugleiða að hætta leitinni að Geysi var það býsna þrár flugstjóri, sá sem átti að taka við Geysi þegar hann kæmi til Reykjavíkur og fljúga honum vestur um haf, ef hann hefði komið fram, sem ákvað að fara austur fyrir land á Catalina flugbáti til að leita eftir björgunarbáti úr vélinni. Hann ákvað að fljúga yfir Vatnajökul þar sem þar hafði verið skýjað undanfarna leitardaga. Það sem þá skeði hlýtur að hafa verið mjög sterk upplifun. Allt í einu sáu þeir sem fremst voru í vélinni hvar reykur steig til himins frá Bárðarbungu á Vatnajökli, en Bárðarbunga er 2000 metra há. Jú, þarna lá flakið af Geysi, mikið brotið, og öll áhöfnin, sex manns, var sjáanleg og í snjóinn var búið að skrifa stafina OK. Geysir átti að koma inn yfir Vestmannaeyjar frá Luxemburg á leið sinni til Reykjavíkur þannig að mikið hafði borið af leið. Var nú varpað niður birgðum og hugað að björgunaraðgerðum. Ekki var þyrlum til að dreifa, alla vega ekki sem gátu sinnt þessu hlutverki. En nú var tekið til þess ráðs að senda tvo knáa menn á skíðaflugvél frá hernum í Keflavík sem síðan lenti hjá Geysi og átti að taka áhöfnina um borð. Ekki tókst þó betur til en svo að skíði vélarinnar frusu föst við jökulinn jafn skjótt og hún stöðvaðist og enginn mannlegur máttur fékk neitt að gert. Nú voru flugvélarnar á Bárðarbungu orðnar tvær og tvær áhafnir, alls átta manns. Áhöfn Geysis var lítið sár fyrir utan flugfreyjuna sem var all nokkuð slösuð.

Hér kemur svo að kjarna málsins í þessu bloggi dagsins. Akveðið var að skipuleggja björgunarleiðangur frá Akureyri sem fara skyldi á bílum upp að norðanverðum Vatnajökli og ganga þaðan á skíðum upp á Bárðarbungu með þann búnað sem talinn var nauðsynlegur. Hér var ekki um einfalt verk að ræða á þessum árum og það var alveg ljóst að til þessarar ferðar þyrfti að velja þá bestu leiðangursmenn sem Ísland gat boðið upp á. Ekkert sem upp gat komið mátti buga þessa menn. Upp á jökli beið fólk sem væntanlega hefur þá þegar verið hálf bugað og það var nóg. Fyrst var valinn leiðangursstjóri og ég tel að ég fari rétt með að Það var Tryggvi Þorsteinsson skátahöfðingi. Fari ég rétt með, sem ég vona, þá er þetta ljóð til eftir Tryggva:

Þú leitar oft gæfunnar langt fyrir skammt,
þú leitar í fjarlægð, en átt hana samt.
Nei, vel skal þess gæta, hún oftast nær er,
í umhverfi þínu hið næsta þér.

Þessar ljólínur segja nokkuð um manngerðina sem valdist til að stjórna förinni. Síðan voru valdir menn, alls ekki af handahófi, heldur menn sem nutu alls þess trausts sem hægt var að ætlast til af dugmestu mönnum Íslands. Síðan var lagt af stað og komið að Vatnajökli og síðan gengið á skíðum á Bárðarbungu.

Mikið var sagt frá þessu öllu í útvarðsfréttum og ég þori nánast að fullyrða að eyru mín stóðu beint út í loftið til að ná öllu sem skeði. Og ég get ímyndað mér hvort ekki var tilfinningaríkt augnablik við flugvélarnar á Bárðarbungu þegar höfuð leiðangursmanna birtust við sjóndeildarhring.

Þegar leiðangursmenn og áhafnir voru tilbúin til að yfirgefa þennan furðulega stað á einu af hæstu jökulbungum landsins var lagt af stað niður að jökulrótum. Sjúkrasleði var með í för fyrir flugfreyjuna þar sem hún var slösuð. Bandaríkjamennirnir tveir sem höfðu lent skíðaflugvélinni á jöklinum hafa eflaust verið vel þjálfaðir hermenn og frábærir flugmenn þar sem þeir voru valdir til að freista þess að bjarga áhöfn Geysis. En víðátta vatnajökuls og tuga kílómetra skíðaganga, þessar aðstæður urðu þeim ofviða. Að lokum gaf flugfreyjan þeim eftir sjúkrasleðann svo hægt yrði að koma þeim til byggða. Eftir því er mér skilst eftir all langt ferðalag frá flugvélunum kom upp eitthvað sem gerði það að verkum að einhver varð að fara til baka að flakinu, eitthvað hafði gleymst eða farist fyrir sem útilokað var að horfa framhjá. Ábyrgir og dugmiklir menn ljúka verkefni sínu. Einhver varð að fara til baka. Leiðangursstjórinn sá sig tilneyddan og hann gekk að einum leiðangursmanna og sagði: Þorsteinn Svanlaugsson, þú ert maðurinn sem getur gert þetta. Síðan skyldu leiðir. Leiðangurinn og áhafnirnar mjökuðust niður af jöklinum en einn maður, Þorsteinn Svanlaugsson gekk einn móti heiðmyrkrinu, órofa þögninni, Bárðarbungu og flugvélunum tveimur í tunglsskininu, til að sinna því sem ekki varð hjá komist. Hann gekk mót einverunni, einni jökulbungunni af annarri, skuggunum sem lækkandi septembersól myndaði, ef til vill sjáandi skýjabólstra í suðvestri og svo þeirri fullvissu að nú var hann einsamall manna að treysta á. Hann lauk þessu hlutverki sínu.

Árið 1982 þegar ég byrjaði að vinna hjá Hríseyjarhreppi fjölgaði mjög ferðum mínum á skrifstofu sýslumanns á Akureyri. Þar voru nokkrir afgreiðslubásar hlið við hlið en á móti var hins vega afgreiðsludiskur og að baki hans var haldið utan um fasteignir á Eyjafjarðarsvæðinu. Eignum var þar þinglýst og afgreidd veðbókavottorð svo eitthvað sé nefnt. Þar vann nokkuð eldri maður, lágvaxinn og hárið farið að lýsast. Hann hafði sérstaklega hógvært og þægilegt viðmót og það var gott að hitta hann. Hann spurði gjarna frétta úr Hrísey, við ræddum gjarnan um veðrið og veðurspána, hvort farið væri að slá í Glæsibæjarhreppi, um einhverja nýja frétt úr blöðum eða útvarpi og svo framvegis. Þetta var ekki bara kurteisisspjall, þessi maður var of ekta fyrir svoleiðis. Ekki geri ég ráð fyrir því að hann hafi gert sér grein fyrir því hversu gríðarlega virðingu ég bar fyrir honum. Þessi maður var stórmennið Þorsteinn Svanlaugsson, sá sem sneri við á Vatnajökli í september 1950. Allir leiðangursmenn voru í mínum augum stórmenni og eru enn.

Hvað er að vera stórmenni? Það lá við að fjöldi fólks væri farið að sjá útrásarvíkingana sem stórmenni. Fyrir mér er Þorsteinn Svanlaugsson, Tryggvi Þorsteinsson og félagar þeirra í leiðangrinum á Bárðarbungu stórmenni. Þessi skrif eru ekki sögulegs eðlis, heldur minningarbrot og upplifanir blandaðar mikilli virðingu og óneitanlega tilfinningum.

Geysir

Örebroflugvöllur er nánast beint norðan við Sólvelli í svo sem sjö kílómetra fjarlægð. Því er ekki óvenjulegt að kannski upp til fimm flugvélar fljúgi hér yfir dag hvern. Það er okkur ekkert vandamál og við unum því mun betur en ef það færu 200 bílar um veginn framann við bústaðinn. Í gær heyrðum við kunnuglegar drunur koma frá suðri, en þessar drunur boðuðu að ein af stærstu flutningaþotum heims væri í aðflugi. Svona nokkuð þekkjum við orðið og við hikum ekki við að fara út horfa á þessi ferlíki líða svo ótrúlega hægt hér yfir, mjög lágt og það gerðum við í gær. Það var orðið dimmt og það var næstum óraunverulegt að sjá þetta hálf upplýsta bákn svona nærri með öllum þeim gný sem fylgir.

Næstum óraunverulegt sagði ég og seint septemberkvöld 1950 var það líka býsna óraunverulegt þegar Valdemar stöðvarstjóri á Klaustri hringdi heim á Kálfafell eftir að allir voru sofnaðir að því er ég best man. Pabbi fór í símann og kom svo til baka með þeim orðum að millilandaflugvélar í vöruflutningaferð væri saknað og pabbi var beðinn að vera úti fram til klukkan tvö um nóttina eða svo og fylgjast með hvort nokkurrar flugvélar yrði vart. Eftir tiltekinn tíma var óþarft að vera úti þar sem þá væru bensínbyrgðir vélarinnar þrotnar. Síðan fór pabbi út í haustmyrkrið með þremur eldri bræðrum mínum ef ég man rétt. Alla vega meðan þeir voru úti á þessari vakt er ég viss um að ég svaf ekki og það snerist mikið í mínum átta ára heila þessa nótt. Hugsunin um að bensínið mundi klárast var mér ógnvænleg og ég skildi þegar þá hvert það mundi leiða ef flugvél í lofti yrði eldsneytislaus.

Síðan hófst leitin að Geysi, en það hét flugvélin, og er auðvitað minnisstæð öllum sem hafa aldur til og vakti þetta flugslys athygli á heimsmælikvarða. Meðan leitin stóð yfir var kartöfluupptaka á Kálfafelli og bæjunum í kring og safnaðist fólk af þessum bæjum saman og hjálpaðist við að taka upp. Það var verið að taka upp á Kálfafelli um kvöldið þegar þurfti að sækja kýrnar til mjalta, en þennan dag höfðu kýrnar einmitt tekið upp á því að fara upp í heiði eins og sagt var. Mikið hafði verið af flugvélum á ferðinni þennan dag og var ekki annað að sjá en þær væru að leita að Geysi þarna kringum bæina, í gljúfrum, skorningum og meðfram klettum. Hins vegar held ég að þær hafi verið þarna þar sem vonast var eftir að það mundi létta til upp á Vatnajökli og skyldi þá leitinni beint þangað. Þetta flug svo nærri og tengt þessari leit, setti í mig mikinn óhug. Svo kom að þessu skelfilega sem mig hafði grunað eftir að vitað var að kýrnar hefðu farið upp í heiði. Ég átti að sækja þær. Ég átti að fara aleinn upp í heiði þar sem tætlurnar af Geysi gátu hæglega leynst í einhverju giljadraginu. Ég held að þetta hafi verið einhver mesta hræðsla sem greið mig sem barn. Hvort ég sótti svo kýrnar eða ekki get ég ekki munað, en mér var mjög erfitt að segja nokkurri lifandi manneskju frá þessari skelfingu minni.

Svo kom Ísafold og Vörður, blaðið sem var keypt heima. Ég get ímyndað mér að þá hafi Geysir verið fundinn þar sem hann hafði brotlent á Bárðarbungu. En hvað um það, í blaðinu var mikið skrifað um þennan atburð og það voru birtar myndir af allri áhöfninni í einkennisbúnungum og aðvitað af Ingigerði Karlsdóttur flugfreyju með sinn flugfreyjubát á höfði og mér fannst hún alveg ómótstæðilega falleg. Svo falleg var hún að ég, átta ára guttinn, tók Ísafold og Vörð og faldi mig með blaðið til að horfa á flugfreyjuna á Geysi. Þetta var í fyrsta skipti í mínu lífi sem kona kveikti í mér með fegurð sinni. Ég sagði engum frá þessu sem barn eða unglingur en í dag get ég talað um það áhyggjulaus yfir hvað öðrum finnst.

Þegar flugvélagnýr hefur fyllt loftið í haust- og vetrarmyrkri hefur mér oft dottið í hug þetta með Geysi sem þá var ein af stærstu flugvélum íslenska flugflotans. Það er annað tengt þessum atburði sem hefur haft sterk áhrif á mig en þar sem þetta blogg er orðið lengra en til stóð eins og ætíð, þá verður einhvern tíma seinna að koma framhaldsblogg um Geysi.

Haust

Í morgun vöknuðum við, ég ætla ekki að nefna hvað klukkan var þá, og heyrðum regnið dynja á þakinu sem þó er mjög vel einangrað. Ég fór út að glugga móti skóginum, margnefndum austurglugganum, og síðan sagði ég að  þetta væri bara fallegasta haust sem ég myndi eftir. Ég yrði að taka myndir og birta þar sem Rósa dóttir okkar hefur kvartað undan því að sjá ekki nógu mikið af myndum frá Sólvöllum. Síðan gekk ég út að vesturglugganum og sá að í úrkomumælinum var eitthvað yfir 20 mm eftir nóttina. Samt var fallegt. Þessar myndir eru teknar svolítið í aðrar áttir en við erum vön að gera. Nú er það svo að okkur tekst ekki að setja myndir inn á Flickr hér með Sólvallatölvunni svo að það verður bloggið fær æruna.



Það sem í fyrsta lagi gefur þessari mynd haustliti eru eikur og hlynur. Mér sýnist að ég hafi  nú skrifað þetta áður. Í skóginum er mikið til bæði af ekum og hlyni sem eru tveggja til fjögurra metra há. Það virðist nú einsýnt að hlú að þessum litlu trjám til að fá í gang góða fulltrúa haustlitanna. Á til dæmis næstu þremur árum verða þau orðin ansi mikið stærri tré. Og að lokum; þessi mynd er tekin frá austurglugganum.



Þessi mynd er tekin til vestsuðvesturs. Þarna eru það að vísu margar bjarkir sem halda uppi litaskrúðinu, en þær eru líka hlés megin. Þarna er að vaxa skógur á fyrrverandi akurlandi og kemur til með að taka frá okkur útsýni en í staðinn munum við líka fá minni vestlæga vinda.



Tekið til suðsuðvesturs og ekki mikið meira um myndina að segja.



Til suðurs. Í húsinu þarna búa ungu hjónin Stína og Lars med dæturnar Sif og Ölmu. Trén hægra megin á myndinni eru silfurreynir, hlynur og eik. Lauflausu trén við húsið eru bjarkir. Við hliðina á bílnum má greina litla eik sem við fluttum innan úr skógi í júli fyrir tveimur árum. Það sjást líka stuðningshælar kringum hana. Það var aldeilis fáránlegur tími til að flytja tré, en við þráuðumst samt. Við vildum ekki láta nokkurn mann sjá hvað við vorum að gera svo að við fluttum eikina eftir miðnætti í hálfgerðu rökkri. Hún hefur dafnað afburða vel alla daga síðan. Einhvern tíma var Arnold bóndi hjá okkur í kaffi ásamt fleirum og við sögðum frá þessu. Þá sagði Arnold: Það hefði mátt halda að þið væruð að stela. Hann sagði þetta að gmani sínu og eikin er vissulega úr okkar skógi.

Nú er ekki mikið annað að gera en að fara að fá sér fyrsta kaffibolla dagsins og svo út að ganga. Ef það verður rigning er bara að taka fram regngallann sem hangir inni í skáp.

Bara venjulegur dagur

Í gær bloggaði ég ekki og í dag er ekkert að blogga um því að það er bara venjulegur dagur, sunnudagur að vísu, en hvað með það. Ég veit ekki hvort ég á að vera að hamast svona við þetta, en eins og ég hef sagt oft áður er þetta ágætis dagbók og þó að ég hafi ekkert að segja er kannski gott að skrifa dagbók eigi að síður. En núna virðist vera einn svona dagur þar sem ekkert er að segja, alla vega ekkert sem aðrir hafa áhuga fyrir.

Sumt hefur gengi svolítið á afturfótunum hjá okkur í dag. Við vissum í gær að tíminn mundi breytast í nótt er leið þannig að við breyttum vissum klukkum þegar í gærkvöldi. Við sáum fram á stutta nótt og það má segja að með tilliti til þess fórum við of seint að sofa. Valdís ætlaði í kirkju en ég ætlaði ekki á sjálfa messuna, heldur ætlaði ég mæta í kirkjukaffi eftir messu, eða um tólf  leytið. Ég treysti mér ekki að sitja þarna í fleiri klukkutíma. Presturinn er nefnilega að hætta og þetta átti að verða sérstakur kveðjudagur fyrir hann, bæði messan og vandað kirkjukaffi með ræðum.

Svo í morgun hringdi klukkan hjá Valdísi og þá reiknuðum við með að hún væri níu. Valdís fór strax á fætur en ég ætlaði að lúra aðeins lengur þar sem ég hafði alveg tíma til þess. Svo fannst mér ótrúlega hljótt frammi hjá Valdísi þannig að ég tók mig upp til að athuga málið. Þá sat hún þarna í stofunni og las í bók. Við færðum klukkuna öfugt, sagði hún, hún er bara rúmlega sjö. Já, já, allt í einu höfðum við allan heimsins tíma og við færðum klukkurnar í hina áttina. Svo þegar tími var til kominn lagði Valdís af stað í kirkjuna.

Ég setti mig niður við tölvuna og byrjaði að skrifa texta sem ég var byrjaður á áður og nú skyldi ég skrifa það sem á vantaði. Hugurinn flaug og andinn var í gangi og orðin runnu í stríðum straumum inn á síðurnar. Svo var kominn tími til fyrir mig að fara í kirkju og á sömu stundu var ég tilbúinn með textann. Ég sparaði nokkrum sinnum meðan á þessum skrifum stóð. Ég var ánægður með skrif mín og vildi ógjarnan tapa þessum góða texta. Svo flutti ég þessi skrif inn á laust minni til að hafa með mér á Sólvelli og vinna þar áfram með þetta. Sjöhundruð orð hafði ég skrifað á stuttum tíma.

Eftir kirkju, brauðtertu og margar ræður komum við heim aftur og ég ætlaði að sýna Valdísi hvernig ég hefði flutt textann inn á lausa minnið. En hvað var nú þetta. Á lausa minninu var bara gamli textinn. Ég fann hvernig ljótur grunur læstist um bæði líkama og sál. Ég gáði með hraði á harða diskinum, en hvurt í þreifandi! Það var sama þar, bara gamli textinn var þar en þessi sjöhundruð orð sem ég hafði skrifað á hreinu flugi fundust hvergi. Eftir mikla leit og samráð við dóttur og tengdason i Stokkhólmi var bara að viðurkenna að textinn var tapaður.

Þarna sat ég og velti fyrir mér að einhvern tíma hefði mér orðið þungt í skapi yfir þessu. Það leiddi hugann að atviki sem átti sér stað fyrir meira en fimmtíu árum. Það var lestími í Skógum og mér gekk illa. Það var eins og allt væri á móti mér, orðabókin sem ég fann ekkert í, blýanturinn með brotnu blýi, yddarinn sem ekki fannst, strokleðrið sem lenti bakvið miðstöðvarofninn og festist eða eitthvað þessu líkt. Þá varð ég verulega reiður. Svo var lestíminn liðinn og við nemendurnir hittumst inn í skólabyggingunni yfir mat eða kvöldhressingu. Mér var enn heitt í hamsi yfir ógöngum mínum og ég sagði einni skólasysturinni frá þeim. Hún leit undrandi á mig og spurði með áherslu hvort ég virkilega hefði orðið reiður? Ég man enn hvað ég skammaðist mín hræðilega. Af hverju var ég að blaðra frá þessu. Ég vissi að þessi skólasystir mín hafði verið skáti og ég hugsaði sem svo að skátar lærðu að taka á svona hlutum. Hún var greinilega mikið þroskaðri en ég. Bölvaður bjáni ég hafði verið að þegja ekki. Það var í þá daga, og þá þurfti ekki mikið til að ég skammaðist mín, enda ekki sjálfstraustið upp á það besta.

Ég hef ekkert sérstakt að skrifa um í dag eins og fram er komið. Það læðist að mér grunur um að ég eigi eftir að finna textann aftur, þennan sem gekk svo vel að skrifa í morgun. Þá yrði ég glaður.

Skýrsla úr Sólvallaskógi

Í gær skrifaði ég of mikið. Í dag ætla ég að nota margar myndir. Það er nefnilega búið að vera heil mikið líf á Sólvöllum í dag en merkilegt er það þó ef það virkilega er hægt að blogga um lífið á Sólvöllum dag eftir dag. Við skulum nú sjá.

Ég sem er búinn að sofa ekki minna en níu tíma á sólarhring lengi undanfarið er farinn að vakna úthvíldur á morgnana og fyrr en áður. Í morgun reif ég mig af stað upp úr klukkan átta, jah sjáum nú til, og það er stór framför. Ég kveikti upp í kamínunni þó að Valdís telji það sitt verkefni um þessar mundir. Svo vildi ég prufa eitthvað nýtt og fór út í fyrstu göngu dagsins fyrir morgunverð. Á þessari 600 metra göngu minni tók ég ákvörðun; í dag skal ég fara könnunarferð út í skóg. Hann var þarna svo skammt undan og lokkandi. Eftir þessa stuttu göngu (sem er ekki svo stutt fyrir mig um þessar mundir) var matarlystin með eindæmum. Valdís vildi líka koma með út í skóg en fyrst af öllu; sækja byrgðir af eldivið.

Valdís þrumaði af stað með hjólbörurnar og ég hringlaði eitthvað í kringum hana bendandi með hækjunum svona til að það væri nú alveg ljóst hvort okkar hefði typpið. Eftir að lagerrýmið við skorsteininn var orðið fullt af viði lögðum við af stað út í skóg. Fylgjandi myndir sýna að nokkru hvað þar er að hafa og hvort það er fyrirhafnarinnar virði að fara þangað.


Eina 30 metra frá húsinu er þessi hlynur. Blöð hlynsins eru um 15 sm breið og hlynur með fallega lagaða krónu eins og þessi er svo sannarlega staðarprýði. Svo eru hlynir þekktir fyrir að skarta afar fallegum haustlitum og þessi sannar það. Haustlitur þessa hlyns er jú gulur en annars er það breytilegt. Hér á Sólvöllum eru bjarkir búnar að missa meira lauf en til dæmis inn í Örebro. Hér blæs vestanáttin næstum óheft en við höfum líka okkar opna útsýni mót vestri.


Hér stendur Valdís bakvið beyki sem við fluttum úr skógi austur í Södermanland, nálægt Vornesi, og gróðursettum þarna í fyrravor. Það var meðal annars á þessu tré sem ég hældi haustbrumunum sem mest hér fyrir stuttu. Næsta ár má því reikna með að þetta tré fari að vaxa á fullu. Það er því mögulegt að Valdísi takist að fela sig betur á bakvið það eftir eitt ár. Myndin sýnir svo að það þarf ekki að taka það fram að þetta tré stendur stutt frá bústaðnum og væntingar eru um að það verði mikil staðarprýði innan fárra ára. Það er gaman að fylgjast með þessu.


Hér er hægt að sjá hvernig ég læt með hækjurnar, bendandi á hluti og með vit á öllu, eða hvað? Þetta er eik sem stendur lengra inn í skóginum svo sem 80 m bakvið húsið. Ég er búinn að snuðra alveg með ólíkindum í þessum skógi sem tilheyrir okkur en sannleikurinn er sá að við vorum búin að vera hér í þrju ár þegar ég fann þessa eik. Hún var illa á sig komin innan um freka reyniviði og greni sem tók frá henni birtuna. Nú er búið að kynda húsið á Sólvöllum með þessum reyniviði og það er búiða að byggja við Sólvallahúsið með greninu. Eikin er nú þakklát að ná sér á strik og krónan verður lögulegri ár frá ári.


Haustlitaða tréð vinstra megin við Valdísi er beyki flutt úr sama skógi í Södermanland og ég nefndi ofar. Það var gróðursett þarna í hitteðfyrra. Háu grenitrén framan við Valdísi voru í þeirri stærð sem við felldum og notuðum í viðbygginguna. Við bara tímdum ekki að fella þau og fegin erum við í dag. Það hefði verið rányrkja. Þau eru verðugir fulltrúar í þessum skógi í dag ásamt nokkrum öðrum stórum sem við skildum eftir, og þó að það sé meiningin að þessi skógur verði í fyrsta lagi laufskógur, þá fá þau að lifa og safna á sig mosa og þjóðsögum. Miðað við hæðina á þeim trjám sem við felldum í byggingarefni á sínum tíma þori ég að fullyrða að þessi tré eru ekki undir 26 metrum.


Háa, lauflausa tréð þarna framan við Valdísi og sem ber yfir lítið grenitré er ösp. Hún telst til stærri aspa. Ummál hennar í brjóasthæð er 134 sm. Hann Ingvar náttúrufræðingur og kórfélagi Valdísar sagði við mig á göngu um skóginn fyrir nokkrum árum að ef ég vildi vel skyldi ég láta svona aspir lifa. Hann sagði að þær væru mjög mikilvægar fyrir smáverulífið og þar með lífkeðjuna og ég sem taldi allt of mikið af öspum í skóginum. Þær meiga svo sannarlega halda áfram að vera þessi undirstaða. Þegar þessi ösp er full laufguð hefur hún tignarlega krónu.


Þar með erum við að koma út úr skóginum aftur og tréð sem ég stend undir er hlynur. Að standa undir þessari krónu, hvort heldur er að sumri eða núna á tíma haustlitanna, það er svolítið magnað. Þetta er ekkert stórt tré en krónan er þétt og frábær. Hver veit nema það komi hugleiðingabekkur undir þetta tré svona smám saman. Hinu megin við þennan hlyn er þrjár eikur sem lítið ber á, en þær eru heldur stærri en hlynurinn. Öll þessi tré áttu það sameiginlegt að vera innilokuð af greni og reyni eins og svo mörg önnur tré þegar við komum hingað þar til fyrir fjórum árum. Nú eru þau öll að launa fyrir frelsi sitt. Eftir þessa ferð sjáum við að beyki, hlynur og eik halda lengi haustlaufinu. Reyndar er það svo að ungt beyki heldur haustlaufinu þangað til það fer að laufgast næsta vor. margar ungar eikur gera þetta líka.

Hér með er lokið umferð um Sólvallaskóginn og það væri hægt að fara svona umferðir í nokkra daga og það væri alltaf ný upplifun og nýtt að segja frá.

Nýklipptur og fínn

 Nú sló ég tvær flugur í einu höggi um hádegisdbilið. Ég fór í æfingagöngu á rakarastofuna, fékk þar hvíld um stund í góðum stól og líflegt spjall við hann Tony, og svo var það jafn löng ganga til baka heim. Þar með lagði ég mig um stund og hringdi til Íslands og talaði við hana Guðrúnu mágkonu mína og Pál bróður minn og svo fann ég mig úthvíldan eftir þessa tæplega tveggja kílómetra göngu. Og árans munur þegar ég leit í spegilinn. Það klæðir mig nefnilega ekki vel þegar hárið stendur út í loftið á gleraugnaspöngunum framan við eyrun. Nú er þetta alveg slétt og fellt manni minn, hugsaði ég þegar ég virti mig fyrir mér.

Valdís er í Fimmkvennamat. Loksins fann ég eitthvað nafn yfir þetta, það er að segja þegar ákveðnar fimm konur hittast yfir hádegisverði heima hjá hver annarri til skiptis einu sinni í mánuði, og nú skrifa ég þetta nafn með stórum staf framvegis. Í morgun fékk ég mér granatepli með morgunverðinum en Valdís hafði þá þegar borðað sinn morgunverð. Þarna sat ég og fékk mér fyrsta kaffibolla dagsins, horfði á Valdísi brjóta saman þvott og fannst sem ég yrði að leggja eitthvað af mörkum líka. Því spurði ég hana hvort hún vildi granatepli. Já takk, svaraði hún en hún sagðist geta plokkað innanúr því sjálf. Ég hlustaði ekki á það og stillti mig upp við eldhúsbekkinn og byrjaði að plokka innan úr eplinu rauða kjarnana sem flutu þarna í rauðum, girnilegum safa. Svo small eitthvað til. Eitthvað rautt flaut á gleraugunum mínum og svo leit ég niður á hvítan stuttermabolinn sem ég var nýkominn í. Hann var allur í rauðum misstórum doppum að framan. Rauði, girnilefgi safinn var sem sagt ekki við eina fjölina felldur. Ah, sagði ég, ég fer hvort sem er í rauðan rúllukragabol á eftir svo að þetta er allt í lagi. Valdís leit á mig og það stóð ekki á svarinu. Þú bara gengur ekki svona til fara og svo kastaði hún til mín öðrum hvítum stuttermabol. Ég skipti þó ekki um bol fyrr en vinnunni við granateplið var lokið. Svo fékk Valdís sitt granatepli.

Hann Tony rakari sagði dálítið merkilegt meðan hann klippti mig. Þegar hann segir eitthvað merkilegt við mig, og aðra sem hann klipir, hættir hann að klippa, leggur hendurnar á sitt hvora öxl, og svo segir hann þetta með mikilli frásagnarsnilld. Hann hafði sagt að fyrir fjórum vikum hafði hann verið niður í Króatíu. Svolitlu seinna vaknaði forvitni mín og ég spurði hann hvort þetta væri áberandi stríðsskaðað land. Og, sem sagt, þarna lagði hann hendurnar á axlir mér og svaraði spurningunni íhugandi. Nei, hann taldi ekki að hann gæti svarað því þannig, en þegar hann var á sama stað fyrir fjórum árum, þá hefðu margir bæjarhlutarnir litið út eins og myndir frá Berlín að lokinni annarri heimstyrjöldinni. Þvílík breyting, sagði hann. Merkilegt hvað þetta skeður fljótt hugsaði ég, uppbyggingin sem sagt, og sama verður á teningnum á Íslandi þegar fólk leggst á eitt við að byggja upp í staðinn fyrir að rífa niður hvert fyrir öðru það sem verið er að reyna að gera. Einu sinni lofaði ég sjálfum mér að pólitík skyldi aldrei inn í blogg mitt og það skal heldur ekki verða framhald á. En eitt skal ég þó segja að lokum. Allir íslensku stjórnmálaflokkarnir, hver og einn, hefðu þeir komist til valda, hefðu reynt að taka ábyrgð á Iceave vegna þess eins að það er engrar undankomu auðið. Þetta er fullyrðing en ég fullyrði þetta líka. Stolt þjóð kemst ekki undan ábyrgð sinni. Svo heldur sólin áfram að koma upp á morgnana.

Haustdagarnir ganga í garð hver af öðrum og líkir hver öðrum. Séð á Suðurbæjarskóginn virðist vera einhver andvari sem hefur enga vindátt. Hitinn er átta stig og það er rakt. Svona er það gjarnan þessa dagana og vikurnar. Haustlitirnir taka meira og meira völdin en á því sést ekki dagamunur. Þann mun getur maður merkt frá viku til viku. Núna erum við búin að vera heima í Örebro í rúman sólarhring og í kvöld förum við aftur á Sólvelli. Það eru ekki stórar kröfur í þessu lífi en það er samt gott líf. Við vorum að tala við hana Elísabetu nágrannakonu okkar fyrir nokkrum dögum. Þau hjónin eiga líka heima í Örebro og eiga svo bústað við hliðina á okkar í kannski fimmtíu metra fjarlægð. Þau er bæði komin á ellilífeyri. Elísabet talaði um að það væri svo mikilvægt að hafa þennan bústað og hún sagði ennfremur að þau færu bókstaflega ekkert annað en í bústaðinn sinn og það væri bara svo gott að lifa þannig. Elísabet er skurðstofuhjúkrunarkona og maður hennar er byggingatæknifræðingur.

Nú er bloggið orðið allt of langt í dag en ein mynd að lokum.

Þannig líta litir dagsins út í Suðurbæjarskóginum. Myndin er aðeins dregin að til að ná betur litunum á litla myndina. Höfum svo öll góðan dag í sátt og samlyndi.

Mér er farið að líka athafnaleysið

Ég veit bara ekki hvenær áður í lífi mínu ég hef lifað við svo nánast algert athafnaleysi sem núna síðustu tæpar fjórar vikurnar. En viti menn; svei mér ef mér er ekki farið að líka þetta. Ég get horft inn í skóg, yfir til Kilsbergen, á akrana hérna vestan við, hugsa um ýmislegt sem eftir er að framkvæma við bústaðinn og svo mætti halda áfram. Ég hef aldrei verið atorkumaður en verið drjúgur við að seiglast áfram og sjaldan látið venjuegan dag líða án þess að snúa mér að einhverju verkefni. En sem sagt; nú gildir að gera ekkert.

Ég hef ekki talað um heilsu mína i nokkra daga og verð aðeins að koma þar við núna. Þegar ég var mænudeyfður á sjúkrahúsinu í Lindesberg fann ég hvernig verkurinn í vinstri fæti fjaraði út, snögghvarf ekki, heldur fjaraði út. Ég hafði ásett mér að fylgjast vel með þessu og gerði mér í hugarlund að verkurinn mundi snögg hverfa en svo varð ekki. Hann hvarf hægt. Nú eru tæpar fjórar vikur síðan og ég hef engan verk haft síðan verkurinn hvarf þarna við mænudeyfinguna. Vissar æfingar er mér uppálagt að stunda og sumar þeirra ullu sársauka meðan ég hafði stóra flekki af mari á fætinum, en við aðrar aðstæður; alls enginn sársauki. Svo hefur ýmislegt annað í heilsufari mínu brugðið til betri vegar eftir aðgerð. En hvað um það; ég á að fara mjög gætilega næstu vikurnar sem hingað til eftir aðgerð.

Í dag eins og flesta fyrri daga á Sólvöllum í heila viku hef ég horft mikið út um austurgluggann. Ég hef horft mikið á tvö beykitré sem við gróðursettum í fyrra vor. Ég segi tré. Þau eru rúmlega þrír metrar á hæð og við fengum að stinga þau upp í beykiskógi með það fyrir augum að grisja þann beykiskóg og svo gróðursettum við þau í Sólvallaskóginum. Nú erum við með 21 svona beykitré í skóginum hjá okkur, gróðursett á þremur árum, en ekkert á síðastliðnu vori. Það má segja að þessi gróðursetning á beykitrjám sé frumkvöðlavinna hér á svæðinu. Hér í nágrenninu eru engin beykitré.

En aftur að þessu að ég hafi verið að horfa á þessi tré undanfarið. Mig hefur nefnilega klæjað í fingurna eftir að ganga út að þessum trjám, koma aðeins við þau og sjá hvernig brumin líta út. Brumin sem byrja að þrútna í apríl í vor og þroski þeirra núna verður afgerandi um vöxt þessara trjáa á næsta ári. En, -ég má ekki ganga á ójöfnu landi ennþá. Á fjórða tímanum fór ég út í aðra æfingagöngu dagsins. Ég fann hvernig ég drógst næ og nær skóginum og að lokum ákvað ég að þetta væri alls ekki ójafnt land og ég gekk út að beykitrjánum. Gaman, gaman. Brumin á fyrra trénu sem ég kom að litu alveg óvenju vel ut. Ja, hérna. Svo gekk ég að ví næsta og sama þar. Þvílík falleg brum. Ég sá mig í anda í apríl næsta vor fara að ganga út í skóginn til að fylgjast með þessum fallegu brumum þegar þau fara að þrútna út og búa sig undir að opnast, sjá þau að lokum opnast og fylgjast með trjánum vaxa. Svona líf er gott líf.


Það var ekki hægt annað en láta fylgja með eina skógarmynd frá sumrinu, valin af slump á myndasafninu. reyndar gefur að líta eitt af þessum beykitrjám nær okkur og aðeins til hægri á myndinni. Það fyllir ekki mikið ut í þarna í skóginum en tölum saman árið sem við Valdís verðum sjötug, árið sem fólk fer að tala um beykiskóginn á Sólvöllum.

Kjell

Kjell var vinur minn og vinnufélagi minn varð hann líklega í ársbyrjun 1998. Fyrst hitti ég hann 1996 og mér fannst hann ögn merkilegur med sig og þá varð enginn kunningsskapur milli okkar. En sem sagt, síðar urðum við vinir. Kjell dó 1. október eftir ótrúlega sjúkrasögu.

Þegar ég var dagskrárstjóri í Vornesi þurtfi ég eitt sinn sem oftar að taka óvinsæla ákvörðun. Það var ekki eining um þetta, í þessu tilfelli vegna þess að ákvörðunin fjallaði um lifandi manneskju. Svo var fundur starfsfólks klukkan þrjú og ískaldur norðanvindur hríslaðist um fundarherbergið. Ákvörðuninni hafði verið framfylgt. Þá var Kjell nýkominn til vinnu þar sem hann átti að vinna um kvöldið og hann skynjaði aðstæður. Nokkru síðar sat ég einn á vinnuherbergi mínu á efstu hæð og glímdi við verkefni mín. Svo heyrði ég kunnuglegt, hæglátt fótatak í stiganum og svo var bankað á dyrnar. Inn gekk Kjell. Hann settist á móti mér við stórt skrifborð. Finnst þér þú vinna í mótvindi spurði hann. Nei, svaraði ég, það er mótvindur. Já, Kjell talaði um að þegar raunveruleiki og tilfinningar blönduðust saman eins og í þessu máli, þá færi það gjarnan svona. Hann hafði unnið mörg ár sem fulltrúi og samningsaðili hjá verkalýðsfélagi og það hafði mótað hann og gerði honum oft kleyft að ganga inn í óþægilegar aðstæður. Svo ræddum við saman um stund. Að lokum stóðum við báðir upp, gengum að enda skrifborðsins, tókum hvor utan um annan og dunkuðum á hvors annars hrygg. Svo gekk hann álútur út, lokaði rólega á eftir sér hurðinni og fótatakið hvarf með honum þar sem hann fjarlægðist á leið sinni niður stigann.

Þetta var Kjell.

Við Ingemar ókum saman til Stokkhólms í desember síðastliðnum til að heimsækja Kjell eftir risastóra aðgerð. Ég ók bílnum og með hendina á stýrinu sá ég stundum á vísifingri hægri handar plástur sem ég hafði sett á örlitla skrámu, sem sagt ekki vegna þess að skráman væri stór, heldur til að fá ekki blóð í fötin mín. Plásturinn var svo líkur húðinni að hann sást varla. Þegar við komum til Kjell á stóru sjúkrahúsi í sunnanverðum Stokkhólmi sat hann í stól með háu baki, aldeilis umkringdur þvílíkum fjölda af slöngum, pokum og flöskum að við Ingemar urðum forviða yfir hvernig hann hefði verið færður í stólinn úr rúminu. Við stoppuðum þarna all lengi og á tímabilinu kom starfsfólk sem færði hann í rúmið aftur. Þá sáum við hvernig þetta var framkvæmt og það var ekkert einfalt mál. Svo hófust ótrúlega líflegar umræður á ný. Allt í einu varð Kjell að orði að ég væri með plástur á fingri. Við Ingemar urðum svo aldeilis hissa á því að hann í sínu ástandi skyldi yfir höfuð taka eftir þessum næstum ósýnilega smá plástri.

Þetta var líka Kjell.

Klukkan rúmlega ellefu þann 1. október fékk ég sms frá eldri dóttur Kjell þar sem hún bað mig að hugsa til pabba síns því að hann væri að deyja. Ég hugsaði til hans, fór í eina af mínum mörgu æfingagönguferðum og hugsði um Kjell. Svo lagði ég mig og dottaði nokkrum sinnum. Allt í einu heyrði ég eins og vekjaraklukku hringja þar sem ég lá í svefnherberginu heima í Örebro, ekki inn í herberginu, heldur var líkara því að hún hringdi upp undir lofti frammi í stofunni. Ég þekkti þarna hljóðið frá vekjaraklukku í Vornesi sem allir sem unnið hafa nætur þar hafa notað, meðal annars Kjell. Ég varð mjög undrandi, brá við, og athugaði hvað klukkan væri. Hún var tuttugu mínútur yfir tvö. Kjell dó einhverri mínútu áður.

Veskið mitt ó veskið mitt

Ég talaði um það hér um daginn að það hefði verið reist gasstöð sunnan við Örebro sem framleiddi allt eldsneyti fyrir strætisvagnana í Örebro og auk þess alla aðra bíla á vegum borgarinnar. Þetta eldsneyti er lífrænt og ég lýsti yfir stolti mínu vegna þessa.

Fyrir tveimur og hálfu ári keyptum við bíl sem brennir svokölluðu etanol sem er 15 % bensín og 85 % einhvers konar spíritus sem er framleiddur úr lífrænum efnum. Etanol var umdeilt en þeir sem voru með sögðu að ef aldrei yrði byrjað á neinu mundi aldrei verða nein þróun í rétta átt hvað varðar hlýnun jarðar af manna völdum. Svo hljóðnuðu ádeiluraddirnar að mestu. Þegar við höfðum átt bílinn í hálft ár fengum við 10 000 skr ávísun frá ríkinu sem viðurkenningu á vilja okkar til að hlú að Jörðinni okkar. Trygging er einnig lægri af bílnum vegna þessa og smálítið fleira kemur til. Við Valdís erum komin á efri ár en við eigum börn og barnabörn. Þegar við keyptum etanolbílinn tengdum við það barnabörnunum vegna þess að þau voru flest ennþá varnarlaus gegn því sem hendir í umhverfismálum. Gætum við lagt eitthvað af mörkum til að gefa þeim betra loft að anda að sér í framtíðinni, þá væri það alls virði.

Fyrir fáeinum dögum kom í fréttum að allt of margir, ekki allir, etanolbílaeigendur væru farnir að kaupa hreint bensín á bíla sína þar sem það væri hagstæðara fjárhagslega. Þetta fer eftir því hversu dýrt bensín er hverju sinni. Fjandinn sjálfur. Allir etanolbílaeigendur hafa fengið sína 10 000 skr ávísun eins og við og þar að auki önnur þau fríðindi sem við höfum fengið. Stundum hefur verið hagstæðara fjárhagslega að aka á etanol og stundum á bensíni. Við höfum aldrei látið þetta sjónarmið ráða. Nú höfum við fengið eitt barnabarn til viðbótar, hann Hannes Guðjón, og hann er svo ungur að hans ævi er ennþá talin í vikum. Hann Hannes Guðjón er í nákvæmlega jafn mikilli þörf fyrir jafnvægi í hlýindum Jarðar og í nákvæmlega jafn mikilli þörf fyrir að hafa gott loft að anda að sér, algerlega burtséð frá hvort það er eyrinum dýrara eða ódýrara að keyra bílinn okkar einn kílómeter. Hafi maður skoðun þá á maður að hafa skoðun og standa við það.

Nú tala ég um sænska staðhætti. En, -ég veit að þetta gildir fyrir öll lönd í hinum vestræna heimi og við höfum forystu í mörgu. Ef hægt er að spara krónu sendum vi barnabörnunum okkar skít til að anda að sér. Er það mögulegt? Svo er mögulegt að þetta með etanol sé ekki framtíðin en ég tek undir með þeim sem sögðu að ef við byrjum hvergi endum við hvergi.

Ég hef hér talað um barnabörnin okkar. Það er raunar bara myndrænt mál yfir öll börn Jarðarinnar okkar sem ekki hafa neina getu til að hafa áhrif á framtíð sína. En vitanlega þykir mér vænst um barnabörnin mín.

Líkt með þjóðum

Það var 1994 sem ég hitti hann Sigvard upp í Dölum. Hann var þá nærri sjötugu og sagði mér dálitið af Svíþjóð bernskuára sinna. Hann sagði meðal annars fá skólaárum sínum og hvers vegna þau skólaskyldu systkinin, sem voru all mörg, gátu ekki öll gengið í skóla sama daginn. Það var vegna þess að það voru ekki til skór á þau öll. Ég sem hélt að fátæktin sem Tryggvi Emilsson lýsti í bókum sínum hefði bara þekkst á Íslandi á síðustu öld en ekki annars staðar í hinum vestræna heimi. Margt af því sem Sigvard talaði um hefði líka getað verið frásagnir frá Íslandi.

Í kvöld borðuðum við mat sem eiginlega er hálfbróðir blóðmörsins á Íslandi. Þessi matur heitir blóðbúðingur og er eins og blóðmör að öðru leyti en því að það er enginn mör í honum. Blóðbúðingurinn er gjarnan steiktur, kannski alltaf, og svo er hann borðaður til dæmis með kartöflum og alltaf lingonsultu og gjarnan grænmeti líka. Ég veit ekki til að blóðbúðingur sé borðaður með neinum graut eins og blóðmörinn á Íslandi.

Ég las áðan á feisbókinni að í Reykjavík væri rigning og grátt veðurlag, ekkert spennandi. Alveg sama og hér. En ég er þó búinn með mína 2,2 kílómetra í göngu í dag. Þegar ég er kominn út er þetta allt í lagi en það hefur verið fátækt með nágranna á förnum vegi. Við erum þó búin að fá eina heimsókn í dag og tveir bílar hafa farið hjá.


Svo að allt öðru. Í gær bað Valdís mig að hjálpa sér að reikna í sambandi við prjónaskap. Ég hélt nú það sjálfur snillingurinn. Já, já, og hvernig fór það? Hún mátti rekja upp hálf prjónaða peysu seinni partinn í dag. Hvenær haldið þið að hún biðji mig næst?

Ég er búinn að horfa mikið út um austurgluggann í dag, þann sem snýr að skóginum, og skógurinn býr yfir svo mörgu og setur ímyndunaraflið á fulla ferð. Svo var það einnig í dag og ég gat ekki neitað mér um að skrifa það niður. Það var hins vegar langt og mikið og mundi bara þreyta þá sem fylgjast með blogginu mínu.

Þriðji dagur á Sólvölum

Það sagði í blaði í gær að hitastigið fyrri helming október jafnaðist á við októberhita í Síberíu. Hitastigið í dag var svipað og síðustu daga en ósköp var samt gott veður. Það var logn og sól, loftið hreint og gott og skyggni afburða gott. Það voru margar smáar gönguferðir hér á Sólvölum í dag og svo hvíldir inn á milli. Samt sit ég nú hér og finnst ég vera þreyttur. Hún Elísabet, nágranninn norðan við, kom hálf hlaupandi yfir til okkar þegar hún sá okkur úti í gær og spurði hvernig gengi. Hún sagði meðal annars að ég skyldi ekki láta mér detta í hug að eftir tæpar þrjár vikur frá svo miklu inngrípandi í líkamann væri ég ekki ennþá þreyttur. Æ, hvað það var gott að hún sagði þetta, þá má ég vera þreyttur. Hún er nefnilega skurðstofuhjúkrunarkona hún Elísabet og hún veit sínu viti. Í dag hringdi ég í hana Birgittu forstöðukonu í Vornesi. Hún lék svona á alls oddi og stuttu síðar sendi hún mér e-póst þar sem hún endaði á að segja að ég yrði farinn að fara í höfrungahlaup innan skamms. Ja, það er naumast.




Eftir eina gönguferðina var veðrið bara svo gott að það var ekki hægt að fara inn. Þá hellti Valdís á könnuna og svo var haustsólarkaffitími og smá kökubiti með. Þarna undir vesturveggnum var hlýtt og notalegt og útsýnið aðveg frábært, en það verður sýnt síðar. Valdís hefur verið mikið með handavinnu að undanförnu og það er spurning hvort ekki væri hægt að vinna við handavinnu undir húsveggnum í svona veðri. Annars er jafnvel spáð snjókomu á morgun og ég bara mótmæli því ákaft. En ef það verður ekki snjókoma verður væntanlega rigning. En sjáum bara til; það munu koma fleiri sólarstundir undir vesturveggnum áður en langt um líður




Hinu megin við borðið sat svo karlpeningurinn á bænum, drjúgur með sig og með derhúfu og í Nike mýsbuxum. Það verður nú að vera sæmilegt sem sextíuogsjö ára maður klæðist þegar hann tekur frí frá smíðum í bústaðnum sínum og stundar bara stuttar gönguferðir og leggur sig inn á milli. En án alls gamans, þessi útivist í dag, alveg sérstaklega eftir að við höfðum líka setið úti yfir kaffinu og dáðst að sköpunarverkinu, var góð. Ég get sagt fyrir mitt leyti alla vega að lífsneistinn kittlaði óvenju mikið í brjóstinu á eftir. Svo fórum við inn, ég opnaði bók og fór að lesa. Bókin er Híbýli vindanna eftir Böðvar Guðmundsson.



Stóra Sólvallaeikin stendur stendur á traustum rótum. Aðeins er hún farin að fella lauf. Hún haggast ekki þótt það blási en einstaka gömul grein getur hins vegar fallið niður. Það er bara hreinsun náttúrunnar. Í sjálfu sér er þessi eik ekkert stór þó að ég segi það oft. En þó, maður sem stendur upp við hana verður ósköp lítill á mynd miðað við tréð sjálft, bara pínulítill dvergur.





Og hér kemur svo mynd af útsýninu sem við höfðum yfir kaffibollanum í dag, pínulítið dregin að. Ég sagði ofar að loftið hefði verið svo hreint en þó sést það ekki alveg á myndinni. Fjöllin lengst burtu eru í meira en 15 km fjarlægð og sums staðar efst á þessum fjöllum hefur verið felldur skógur á seinni árum. Á þessum skógarhöggssvæðum mátti vel sjá, héðan frá Sólvöllum, stök tré sem þá voru skilin eftir. Það er mælikvarði fyrir gott skyggni hér á Sólvöllum.

Frá dagsins önn á Sólvöllum


Seinni partinn í dag heyrði ég að Valdís fór að skera eitthvað hart á eldhúsbekknum. Hvað ertu að skera? spurði ég. Palsternacka, svaraði hún til baka. Þá varð ég svangur. Þessi góða súpa átti að verða í kvöldmatinn. Og hún er ekki bara góð á bragðið, hún er líka góðfyrir kroppinn. Palsternacka, gulrófur, hvítkál, rósakál, paprika, laukur og krydd. Svo er byrjað að sjóða. Lætur þetta ekki vel? Svo þegar súpan er næstum tilbúin er sett út í svolítið af niðurbrytjaðri Falupylsu til að auka bragðið og til að gera súpuna matarlegri. Ég varð svo glaður að ég þaut út til að ganga nokkur hundruð metra. Nú erum við búin að borða fyrir nokkru og þegar ég jós annan diskinn alveg fleytifullan sagði ég við Valdísi að þetta gæti ég aldrei klárað. Svo kláraði ég. Mikið var þetta góður matur.

Palsternacka fékkst ekki á Íslandi þegar við fluttum til Svíþjóðar að því er við best vitum. Núna fæst hún þar sjálfsagt en við vitum ekki hvað hún heitir. Svo nefndi ég krydd áðan. Þegar Valdís setur ákveðið magn af kryddi í matinn verður hann góður, en ef ég set sama magn verður maturinn ekki góður. Hvers vegna!?!



Sjálfsagt er ég gamaldags. Mér finnst að sum verk séu mín verk vegna þess að þau séu karlmannsverk. Til dæmis að fella tré, saga af þeim greinarnar og brytja þau í lengdir. Að tæma kamarinn meðan hann var og hét, grafa skurði og flytja eldivið úr geymslunni inn í húsið. Að kljufa við í vél geta bæði konur og karlar gert og Valdísi finnst það gaman. Ég ætlaði að flytja mikinn eldivið inn í bústaðinn áður en ég færi á sjúkrahús. En sannleikurinn var bara sá að það var ýmislegt sem ég ekki kom i verk síðustu vikurnar fyrir aðgerð. Það er ég búinn að koma auga á. Ég flutti aldrei þennan eldivið inn í húsið.



Hér á myndinni sjáum við Valdísi sinna einu af þeim verkum sem ég tel til karlmannsverka. Það er að segja að flytja eldivið inn í húsið. Þarna í kúfullum hjólbörunum er hún með eldivið af risabjörk sem stóð of nálægt húsinu og við felldum fyrir rúmlega einu og hálfu ári. Þetta var nokkrum klukkutímum áður en hún byrjaði að brytja í súpuna. Að kveikja upp í kamínunni og að bæta á eldinn, það finnst mér vera verk fyrir bæði karla og konur og það gildir á þessum bæ. Það streymdi mikill hiti frá kamínunni í dag og það annaðist Valdís.




Á þessari mynd gefur að líta eitthvað sem líkist heypoka sem er illa troðið í og síðan rúllar áfram undan norðan golunni. Svoleiðis heypokar er ólögulegir. Eftir að hafa skoðað myndina tók ég ákvörðun. Í framtíðinni skuluð þið svo sannarlega fá að sjá mann sem er beinni í baki og stæðilegri. Þarna er ég í morgun að leggja af stað í mína fyrstu gönguferð. Valdís tók af mér nokkrar myndir og þetta var sú lang besta.




Hvað skyldi nú liggja þarna á matborðinu á Sólvöllum? Jú, það er eikarfræ af stóru Sólvallaeikinni. (ekollon) Valdís tíndi upp nokkur slík í morgun fyrir mig áður en ég byrjaði göngur mínar. Hver ganga fram og til baka er 200 m og í hverjum hring þegar ég geng fram hjá húsinu á norðurleið læt ég eitt eikarfræ í ákveðna tinskál. Þetta er göngubókfærslan mín. Hver ferð hefur sem sagt sitt fylgiskjal, eikarfræ. Svo get ég gengið í mínum hugsunum eða dagdraumum utan að þurfa að vera að leggja fjölda ferða minna á minnið. Afrakstur dagsins var 10 eikarfræ í tinskálinni, sem sagt tveir kílómetrar. Ég setti mynd af þessari gönguleið á bloggið mitt í gær. Ég hefði nú ekki talið það frásagnar vert fyrir all nokkrum árum að ganga tvo kólómetra. Ég er á leiðinni þangað aftur og þá gengur út úr heypokanum reffilegur kall.

Loksins á Sólvöllum

Það var nú tími til kominn að komast í sveitina. Bati minn hefur gengið svo vel að það var engin ástæða til að ég lokaði mig inn í borgarumhverfi þegar við höfum aðgang að svona frábærum stað í sveit. Ég spurði Valdísi oftar en einu sinni hvort henni væri örugglega sama að fara á afskekktari stað en Örebro. Já, svaraði Valdís og aftur já, og hún bjó okkur ríkulega af stað þannig að okkur á ekki að vanhaga um nokkurn skapaðan hlut æði lengi. Ég var að hugsa um að keyra sjálfur en svo rann ég á rassinn og þorði ekki. Það munar kannski full miklu þegar það er ráðlagt að gera það ekki fyrr en eftir átta vikur eftir aðgerð, þá er kannski óþarfi að etja kappi við örlögin eftir tvær og hálfa viku. Hjón í Örebro komu á bílnum sínum og svo fórum við hingað á tveimur bílum og þau svo á sínum bíl heim. Við erum því ekki bíllaus hér.


Mér hefur aldrei tekist vel til með kvöldsólarmyndir, en hvað um það, þetta er staðurinn sem við komum til einum tveimur tímum náður en sól settist. Það var notaleg að koma hingað. Valdís fór í frágang á farangrinum okkar en ég fór út að taka langþráða gönguferð á grasi. Ég gekk út undir Sólvallaeikna við lóðarmörkin og tók mynd þaðan. Brúnleit eikarblöðin sjást þarna efst á myndinni þar sem greinarnar slúta fram yfir mig og myndavélina. Svo horfði ég til baka. Okkar lóð er 72 m breið og ef ég fer í hverri ferð 30 m út á lóð nágranna, þá veit ég að fram og til baka gerir 200 metra. Ég fylgist sko með hvað mikið ég geng. Ég nenni ekki út á veginn fyrr en seinna þegar ég vil ganga lengri vegalengdir. Samkomulag um afnot af nágrannalóðinni geri ég á morgun. Við höfum gott samband við þessa nágranna, hjón undir þrítugu með tvær litlar dætur, Ölmu og Sif.

Ég hlakka til að vakna á morgun, gá til veðurs og taka fyrstu gönguferð dagsins. Ég skal alveg viðurkenna að ég er svolítið þreyttur eftir búferlaflutninga okkar í dag og andagiftin er ekki í toppi. En mikið er ég fegin núna að við höfum Sólvelli.

Í afaleik á blogginu

Það eru bara 200 km til Stokkhólms en ekki er ég ennþá búinn að sjá barnabarnið, hann nafna minn, sem á morgun verður fimm vikna. Svo var það líka með fyrri barnabörn, það leið og beið þangað til við sáum þau. En það er samt heil mikill munur á. Í dag höfum við netið með öllum þeim fjölda möguleika bæði með myndir og texta. Ég verð því bara að fara í afaleik á blogginu og ég er búinn að sækja myndir hingað og þangað að til að nota í blogg dagsins.

Já, hvað segir maður yfir þessari mynd? Kannski færi mér best að segja ekki neitt en ég bara get ekki látið það vera. Ef ekki líf þeirra feðga er í fullkomnu jafnvægi á þessari mynd, þá bara veit ég ekki hvað jafnvægi er. Ótrúlega flott. Hann Pétur er greinilega góður pabbi.

 

Hér er minn maður ekki alveg sáttur og mamma vinnur að því að fá hann í betra skap. Hann veit nú að hann á góða mömmu líka. Ég horfði lengi á þessa mynd áðan og hugsaði með mér, hvernig mundi mér takast upp í svona tilfelli. Það er nefnilega þá sem maður stenst prófið eða ekki. Ég man ekki hvernig mér gekk í svona tilfellum í okkar barnauppeldi, en ég man hvernig það gekk þegar þau voru orðin eldri og ég las fyrir þau. Oftast sofnuðu þau en þeim fannst líka afskaplega skemmtilegt þegar ég sofnaði fyrstur og þau hlupu fram til mömmu sinnar og sögðu að pabbi væri sofnaður. Þá voru þau búin að svæfa pabba, þveröfugt við það sem til stóð. Svo hló ég líka svo mikið þegar ég las Pál Vilhjálmsson fyrir þau að ég gat ekki lesið og þá sofnaði enginn.

 

Þarna er amma komin í heimsókn og hvað gerir ekki nafni minn þegar amma allt í einu er mætt og tekur hann á arminn. Jú, hann hlær fyrir hana ömmu sína, tæplega þriggja vikna gamall drengurinn. Þegar okkar börn voru á þessum aldri var okkur sagt að þetta væri ekki bros heldur eitthvað út frá maganum. Ég segi nú bara; voðaleg vitleysa var þetta. Hér er Hannes Guðjón að brosa í fullri alvöru.

 

En amma hafði líka róandi áhrif. Eftir að hafa verið skemmtilegur með ömmu sinni um stund varð hann þreyttur og svaf í tvo tíma hjá henni. Ömmu fannst svo mikið til um að hún sleppti honum ekki allan tímann. Ég gæti alveg trúað að hún hafi þá verið orðin þreytt í arminum.

Já nafni minn. Ég ætla ekki að verða afi á löppinni endalaust. Ef ég verð duglegur að æfa mig og fá kraft í báða fætur, þá er ekki svo langt að bíða að ég komi með lestinni til Stokkhólms og byrji að kynnast þér. Spurning hvort ég verði ekki feiminn. Það er svo langt síðan ég hef haldið á svo litlu barni.

Að lokum. Meðan ég hef verið að ganga frá þessu bloggi höfum við Valdís talað um tímann þegar við vorum með lítil börn. Svo borðuðum við kvöldmatinn. Þá skeði nokkuð sem ekki hefur skeð afar lengi, hreilnega ekki síðan við vorum með lítil börn. Valdís var með graut eftir matinn, sagógrjónagraut með rúsínum og sveskjum. Oj, hvað það var gott.

Geturðu hjálpað mér að binda húfuna mína?

Eitt sinn bjó hún Svandís Svavarsdóttir í Hrísey og var þá meðal annars kennari dóttur minnar. Eftir að hún hafði hætt kennslu í Hrísey og hafið háskólanám, var hún þar mikið á sumrin í sumarhúsi í Hrísey ásamt fjölskyldu sinni og annarri fjölskyldu til. Þá var sonurinn Oddur Ástráðsson orðinn einn fjölskyldumeðlimanna. Í gær sá ég á feisbókinni að Svandís var orðin amma og faðirinn var Oddur. Við Valdís fengum líka ömmubarn fyrir einum mánuði og einhvern veginn kallaði þetta fram hugsanir og margar minningar.

Í morgun eftir að hafa klætt mig, borðað morgunverð, litið aðeins eftir fréttum og eitthvað smálítið annað fór ég inn í rúm og lagði mig sem ég geri oft þessa dagana. Svo nálgaðist klukkan ellefu og Valdís var komin að sjónvarpinu til að fylgjast með fréttinni um friðarverðlaunin. Ég hafði séð mynd af barnabarni Svandísar á netinu og var eitthvað að velta þessu fyrir mér með barnabörn og framtíð þeirra þar sem ég lá í rúminu. Rétt fyrir klukkan ellefu fór ég fram að sjónvarpi því að ég vildi líka fylgjast með þegar nafn friðarverðlaunahafans yrði birt. Svo var það allt í einu ljóst að verðlaunahafinn var Obama. Heimsfriður, ófriður, illindi, góðgerðarstarfssemi, barátta um völd og nafngiftir og bara nefndu það, allt mögulegt svona flakkaði um huga minn. Ég lagði mig aftur og lét hugsanirnar reika.

Svo kom Oddur Ástráðsson, hinn nýorðni faðir, upp í huga mér og ég upplifði kannski 20 ára gamalt atvik honum tengt. Ég get ímyndað mér að hann hafi verið fimm eða sex ára. Ég var á ferðinni framan við kaupfélagið í Hrísey og við götuna sem liggur þaðan niður að höfninni. Það hlýtur að hafa verið helgi því að það var mjög lítið af fólki á ferðinni og engin athafnasemi yfirleitt virtist vera í gangi að mig minnir. En lengra niður á Hafnargötunni var þó eitt barn á ferðinni. Það var Oddur Ástráðsson sem sjálfsagt hefur verið á leið til einhvers eða frá einhverjum eftir að hafa verið að leika sér, eða þá að foreldrarnir voru ekki svo langt undan. Á þessum árum var líka leikvöllur þarna nálægt. Þegar það var all nokkur spölur á milli okkar kallaði Oddur: Heyrði manni, geturðu hjálpað mér að binda húfuna mína? Ef ekki þetta var frábær beiðni, hvað þá? Ég veit ekki hvort Oddur hafi áttað sig á því að hann hafði einhvern tíma hitt mig, en hann vissi alla vega ekki hver ég var. En hann þurfti að fá hjálp með húfuna sína og svo kom maður, einhver maður, og hann bað hann að hjálpa sér. Þetta snerti mig samstundis. Svo mættumst við Oddur og ég batt húfuna hans og hann horfði á mig með sínum hrekklausu, fallegu barnsaugum og svo svo fullur af trausti til umheimsins. Hann hafði ekki hugmynd um hver ég var, ég var bara manni. Og þakklátur var hann fyrir hjálpina. Líklega hefur hann verið orðinn kaldur á eyrunum. Svo var húfan tilbúin og við gengum hvor í sína áttina en atvikið hefur fylgt mér öll ár síðan. Sum atvik eru bara þannig, þau fylgja okkur og þau þurfa alls ekki að líta svo stór út.

Hugsið ykkur ef við gætum lifað svona, að við gætum öll treyst því að það væri í lagi að fá hjálp hjá óþekktu fólki til að binda húfuna okkar. Að við gætum treyst því að enginn mundi girnast veskið okkar, jafnvel fínu húfuna, að fólk mundi ekki hlæja að okkur fyrir að þurfa hjálp með hana. Þá þyrfti engin friðarverðlaun því að það væri friður og engin börn eða fullorðnir þyrftu að deyja angistarfullum dauða fyrir vopnum manna sem ágirnast.

Í morgun sendi ég nokkrar línu til Odds og spurði hvort ég mætti blogga um margra ára gamalt atvik honum tengt og nefndi hvað það var. Það var svo sjálfsagt og síðustu orðin í svari hans voru um soninn Úlf. Oddur sagði að lokum: Kannski átt þú einhvern tíma eftir að binda húfuna hans. Oddur minn. Til hamingju með drenginn þinn hann Úlf og til hamingju öll fjölskyldan. Þakka þér fyrir að það vorum við sem mættumst þennan morgun á Hafnargötunni í Hrísey.


Frá Hrísey

Ég settist undir stýri í dag

Rétt fyrir hádegi lagði ág af stað í eina af mínum mörgu gönguferðum um þessar mundir. Fyrst lá leið mín ákveðið út í bílageymsluna. Ég opnaði bílinn, stillti mér upp samkvæmt leiðbeiningum og  settist svo í bílstjórasætið. Þetta með að setjast í bílstjórasætið var að vísu ekki í leiðbeiningunum. Það stendur nefnilega skrifað í ákveðnum bæklingi sem ég fékk frá sjúkrahúsinu að keyra bíl skal maður ekki setja í fyrsta sætið í átta vikur. Ég spurði sjúkraþjálfarann og iðjuþjálfann á sjúkrahúsinu all mikið eftir þessu en fékk engin bein svör. Ég fékk mikið "ummm" og "en" og "þannig lagað" fyrir svör, en ekkert meira að byggja á. Ég fékk þó að vita að það væri erfitt að segja að það væri lögbrot að keyra bíl innan þessara átta vikna. Mín niðurstaða eftir þessa umfjöllun þarna á sjúkrahúsdinu var að hér væri það málið að nota heilbrigða skynsemi.

En núna sat ég sem sagt undir stýri í bílnum okkar þarna út í bílageymslunni. Ég tók um stýrið, horfði fram og svo steig ég á kúplinguna. Ja hérna. Var það svona auðvelt. Það var auðveldara núna á fimmtánda degi í bata en það var síðustu mánuðina fyrir aðgerð. Ég lét eftir mér að hugsa þarna undir stýri út í bílageymslunni að ég hefði verið hættulegur í umferðinni marga síðustu mánuðina fyrir aðgerð, ef ekki það var farið að skipta árum. Þessa hugsun lét ég hreinlega ekki eftir mér þá. Ég skal viðurkenna núna að einhvers staðar innra með mér fannst áður hugmyndin um að akstur minn væri ekki í lagi. Þetta er nokkuð sem kemur svo hægt og rólega að maður, að minnsta kosti ég í mínu tilfelli, breiðir afneitunina snyrtilega yfir raunveruleikann. Það er ekkert sem ég skal vera stoltur af.


Nú er þessari gönguferð minni lokið fyrir einhverjum tímum og komið að þeirri næstu. Batinn gengur vonum framar og fjóra síðustu morgnana finn ég dag frá degi stóran mun á að sitja. Úti leikur vestan andvari við afburða fallega haustlitina í Suðurbæjarskópginum og hitinn er níu stig. Eftir kaffibolla með Valdísi ætla ég að fara í gönguferð númer tvö í dag og sameinast um stund þessari fegurð sem okkur er boðið upp á í dag. Við höfum heyrt um mikið hamfaraveður á Íslandi og við vonum að fólk skaðist ekki í þessum látum.

En bíddu nú við, ég nefndi Valdísi. Hvað hefur hún verið að aðhafast í dag? Hún er búin að strauja þvott, þurrka af og skúra með fleiru og svo hef ég verið að vafra innan um verkefnin hennar með göngugrind.

7. oktober

Mér finnst ég vera orðinn svolítið kærulaus. Ég get tekið því svo rólega og bara verið til og líður vel með það. Eða, kannski er farið að ganga fram af sjálfum mér. Það hefur ekki verið vani minn gegnum árin að að bara sitja eða liggja og bora í nefið. Ég fann fyrir þörf fyrir því áðan að taka mér eitthvað fyrir hendur. Ég ætlaði að vera farinn að lesa en ennþá á ég erfitt með að sitja lengi og ég á erfitt með að lesa liggjandi þar sem ég get bara legið á bakinu. En mitt baraferli á eftir að vera í gangi einhverjar vikur ennþá svo að lesturinn fær sinn tíma þegar ég verð þroskaður fyrir það. Nú er ég búinn að setja fartölvuna upp á plastkassa sem stendur á matarborðinu og þá passar hæðin vel fyrir mig standandi. Nú er ég kominn í gang með bloggið. Annars er ég í gangi með ýmislegt og í fyrsta lagi æfingarnar og gönguferðirnar. Ég sendi líka í gær e-póst til hans Bjarna frænda míns Ólafssonar frá Mosum og í dag fékk ég langt bréf frá Bjarna og þurfti að senda honum fáeinar svarlínur til baka. Þessar tölvur eru ekki svo vitlausar ef ég ekki fell í hreina misnotkun. Það er svipað með farsímana. Jón Sveinsson, Nonni, fór til Kaupmannahafnar með haustskipinu. Ég held að ég fari rétt með hér. Síðan sendi hann bréf til mömmu með vorskipinu til að láta hana vita að hann hefði komið fram. Fyrir nokkrum árum fór Rósa dóttir mín til Indlands. Þegar hún gekk út úr flugvélinni sendi hún pabba sínum sms og sagðist vera komin fram. Á milli þessara atvika eru rúm 130 ár.

Í morgun hringdi hann Róbert. Hann spurði hvort ég vildi ekki skreppa á Sólvelli og sjá að allt væri í lagi þar. Ég hélt það nú. Svo kom Róbert klukkan eitt og við fórum á okkar bíl á Sólvelli. Bíllinn okkar er hár og góður fyrir fólk sem er 50 plús. Þá komst ég að því að það er eiginlega betra fyrir mig að sitja í bíl en venjulegum stól. Ég held þó að ég fari ekki að fara með bók út í bíl til að lesa. En þvílík frelsun. Áður var það bara það versta sem ég gerði að sitja í bíl, hvort heldur ég keyrði eða var farþegi. Bara svo að þið vitið; ég er á tólfta degi í bata núna. En aftur um Sólvelli. Þar var allt í sínu besta standi og gott að koma þangað, bjart, hljóðlátt og náttúran inni á gafli. Ég hlakka til að fara þangað til lengri dvalar seinni hluta mánudags.

Í dag hefði hún móðir mín orðið 100 ára. Í dag er barnabarnið okkar í Stokkhólmi, hann Hannes Guðjón, mánaðar gamalt. Hannes Guðjón og Snorri bróðir minn á Seljalandi eiga sama afmælisdag. Hann Sveinn mágur minn á Skagaströnd á líka afmæli í dag. Jahérnanahér. Ég man ekki eftir meiru svona í augnablikinu.

Valdís er í kirkjunni að æfa með kórnum sínum. Hér er hvorki útvarp eða sjónvarp í gangi en ég heyri svolítinn vestan vind daðra við þakið yfir svölunum. Það er spáð ósköp hægu veðri næstu daga og hita sex til sjö stig á daginn.

Gas gas

Eftir að ég horfði á fréttatíma sem hafði alls ekki mikið af jákvæðum fréttum að bjóða upp á var einfaldast að ég sneri mér að tölvunni til að ausa út úr svartsýnissekk mínum. En það reyndar hugsaði égmér ekki að gera þegar ég gekk frá sjóvarpinu og ákvað að blogga. Í leiðinni leit ég á stöðu íslensku krónunnar og sá að sú íslenskahafði styrkst um 0,83 % í dag. Það ætti nú aldeilis að gleðja okkur.

Í morgun fór Valdís til sjúkraþjálfara og ætlaði að taka strætó. Ég ætlaði að fara með henni bæði til að koma mér af stað í fyrstu gönguferð dagsins og einnig til að taka mynd af Valdísi þegar hún stigi inn í strætisvagninn. Hvers vegna ég ætlaði að taka mynd af henni þar kem ég að síðar. En nú er mikilvægt fyrir mig að taka tillit til kólnandi veðráttu og klæða mig eins og fullorðinni manneskju og sönnum afa sæmir. Því tók Valdís fram peysu sem ég fékk í jólagjöf fráValgerði meðan við áttum heima upp í Dölum, í Falun eða Svärdsjö. Nú erlangt síðan éghef farið í þessa peysu og mér fannst ég meiga tilmeð að fá mynd af mér þegar ég var kominn í hana.


Mér fannst reyndar sjálfum að ég liti ömurlega út á þessari mynd en Valdís fullyrti að myndin væri stórfín og það væri bara í mínu eigin höfði sem hún væri léleg. Ég horfði tortrygginn á Valdísi en ákvað að nota myndina.


En nú var kominn tími til að fara út á strætisvagnastöðina því Valdís hatar að vera of sein. Þegar við vorum búin að pjakka okkur áfram eina 100 metra af þeirri 150 metra vegalengd sem liggur út að stoppistöðinni var strætisvagninn að fara af stað. Valdís reyndi að flyta sér og veifaði en strætisvagninn hvarf okkur augum. Nú var eitthvað nýtt á ferðinni en það bara var svona. Valdís dreif sig á hjóli niður í miðbæ, hálfan hluta leiðarinnar og annan strætisvagn þaðan og á leiðarenda. Svo strætisvagn aftur í miðbæinn og svo hjól til baka.


Hér tala ég mikið um strætisvagna og það er líka meiningin að gera það. Í Örebro renna nú glænýir strætisvagnar um allar götur, með nýjum litum og voða fínir.




Ég fór í tvær myndatökuferðir í viðbót til að ná mynd af einum þessara nýju vagna og tókst það að lokum með naumindum. Nú vil ég koma að efninu. Þessir nýju strætisvagnar í Örebro eru nefnilega gasdrifnir allir með tölu.
Síðan á einnig að breyta öllum öðrum bílum á vegum Örebroborgar í gasbíla. Örebro er borg á stærð við Reykjavík. Kassinn á þaki vagnsins ámyndinni er samkvæmt ágiskun minni gastankur.

Hvaðan kemur svo gasið? Jú, það kemur frá stærstu gasstöð sinnar tegundar í Svíþjóð og er hún staðsett aðeins nokkra kílómetra sunnan við Örebro. Frá gasstöðinni liggur svo niðurgrafin lögn í tanka á aðal geymslusvæði strætisvagnana í Örebro. Við Björgvin Pálsson frá Hrísey keyrðum að þessari gasstöð í byrjun ágúst og gerðum smávegis einka úttekt á henni. Byggingarframkvæmdir voru þá á lokastigi. Þar gaf að líta stóra, glæsilega, glansandi tanka og ýmsan útbúnað sem við auðvitað skildum ekkert í. Þar gaf líka að líta mikið hráefni sem nota á í gasgerðina. Þar voru 250 m langir blastsekkir fyllir af grasi. Hvernig hægt er að fylla svo langa plastsekki af grasi skil ég ekki en þeir bjarga sér án míns skilnings á því. Þarna voru líka álíka langar ræmur af korni sem síðar var breytt yfir. Í gasið á einnig að nota kúaskít, matarafganga frá eldhúsum í Örebro ásamt fleiri sortum af skít og gæðaefnum sem geta orðið að eldsneyti. Nú fer varla lengur á milli mála að gasið á strætisvögnuum í Örebro er lífrænt gas. Það sem síðan verður eftir í tönkum gasstöðvarinnar þegar hráefnið er búið að skila frá sér hámarks gasframleiðslu verður dýrindis áburður.

Ég er þræl stoltur af þessu. Í þessu tilfelli hafa menn ekki bara talað endalaust, þeir hafa sett verkefnið í gang og allt virkar. Ég veit að plasthaugurinn i Kyrrahafinu er skuggalega stór en nú þegar ég hef skrifað þetta finnst mér sem hann er öllu minni en mér fannst þegar ég stóð upp frá fréttunum áðan.

Þorsteinn dýralæknir

Hann hringdi til mín í gær hann Þorsteinn dýralæknir Ólafsson, ættaður úr Reykjavík og Gnúpverjahreppi, og var þá staddur í Svíþjóð. Ég vissi að hans var von hingað því að hann hringdi líka í mig fyrir tveimur vikum og talaði um þessa ferð sína. Ekki kom hann í heimsókn til okkar enda leiðin of löng sem hann þurfti að fara til að kíkja inn í kannski tvo tíma.

Það var 1979 sem Þorsteinn var ráðinn sem dýralæknir við einangrunarstöðina í Hrísey. Sem starfsmaður þar þurfti hann auðvitað að vera býsna mikið í Hrísey. Þá dvaldi hann hjá okkur Valdísi. Hann fékk herbergi Valgerðar sem þá var að mestu farin að heiman. Að öðru leyti fékk Þorsteinn að hræra sig eins og hann vildi heima hjá okkur og var einnig í fullu fæði. Hann var afar þægilegur fjölskyldumeðlimur og þegar fólk leit inn hitti hann þetta fólk gjarnan sem hver annar í fjölskyldunni. Þorsteinn er fróður og fólki þótti gaman að hitta hann.

Eitt sinn var hann hjá okkur á konudaginn. Meðan við borðuðum kvöldmat daginn fyrir konudag byrjaði Valdís að tala um það að nú væri það mitt að sjá um konudagsmatinn. Ég gat vel eldað súpu, hafragraut, eldað egg og búið til kaffi en ég vissi að Þorsteinn var góður við matseldina. Eitthvað nudd hefur trúlegaorðið orðið varðandi þetta milli okkar Valdísar og allt í einu segir Þorsteinn; hættið þessu, það er ég sem sé um konudagsmatinn. Þið komið ekkert fram fyrr en ég segi ykkur að gjöra svo vel. Hann hafði aðgang að frystikystunni, ísskápnum, búrinu og hann vissi að flestu leyti hvar hlutirnir voru. Upp úr átta um morguninn heyrðum við að hann var byrjaður í eldhúsinu. Síðar fór að berast matarlykt frá eldhúsinu, matarlykt sem kannski hafði ekki fundist áður á okkar heimili. Þorsteinn hafði nefnilega verið fjöld ára í Noregi meðan á námi stóð og ég vissi að hann kunni fyrir sér í norskri matargerð. Ég fann hversu mikið klúður þetta hefði orðið ef ég hefði átt að standa við eldhúsbekkinn.

Um hádegi bað dýralæknirinn okkur að gera svo vel. Það var fínt gert hjá honum að öllu leyti og maturinn var ólíkur því sem við vorum vön og hann var góður. Þannig leystist einn konudagur heim hjá okkur um 1980.

Eitthvað síðdegi kom til okkar fólk sem mun hafa komið lengra að og við áttum ekki von á. Þorsteinn hafði lagt sig en var einmitt að koma fram þegar fólkið var að koma inn. Hann heilsaði og kynnti sig og þegar hann hafði gert það gaf hann skyringu á veru sinni þarna og sagðist vera heimiliskötturinn. Ég man að ég undraðist hugmyndina en hann sagði þetta svo fullkomlega eðlilega að það féll vel inn í myndina. Síðan áttum við öll góða stund við matarborðið að Sólvallagötu 3 í Hrísey og nutum væntanlega kræsinga Valdísar.

Við hittumst ekki svo oft Steini minn eða tölumst við en alltaf þegar það á sér stað finn ég að þú ert vinur. Þakka þér fyrir.


Þessi mynd er trúlega frá því rétt fyrir ár 2000. Myndavélin okkar Valdísar ver ekki af bestu gerð á þeim árum. En alla vega, þá kom Þorsteinn dýralæknir í heimsókn til okkar. Við spásseruðum með honum um miðbæinn í Örebro og hittum þá á þennan upphækkaða jeppa. Hann er áhugamaður um fjallajeppa og gerði því ítarlega úttekt á þessum sænska upphækkaða jeppa.

Ég er nú svo aldeilis hlessa

Í fyrradag kvartaði ég yfir lélegum svefni og kannski vorkenndi ég mér talsvert í þeim töluðu orðum. En! kvörtunin virkaði. Siðustu tvær næturnar hef ég sofið nánast samfellt allt að tíu tímum og lækningamátturinn sem góður svefn býr yfir leynir sér ekki.

Í gær var ég á göngu hér úti og hitti granna og við tókum tal saman. Það var smá rigningarhraglandi, gola og sjö stiga hiti. Þar sem við stóðum þarna og spjölluðum benti hann allt í einu á gulnuð laufblöð og sagði tregablandið; það er haust. Já, það er víst rétt svaraði ég, en í mér bubblar vor. Hann horfði fyrst á mig sem fáráðling fannst mér, en svo brosti hann og sagðist skilja mig vel.

Í dag er ég búinn að fara i hálfs kílómeters göngu og mun nú fara eina eða tvær gönguferðir til. Valdís kvartar ekki en ég hlýt að vera frekar leiðinlegur fjölskyldumeðlimur um þessar mundir. Hún er mér svo hjálpleg að það er hætta á að ég verði enn meira ofdekraður en ég þegar er.

Verra hefur það nú verið

Ég man ekki hvenær það var að ég talaði um að ég skyldi ekki vera í tíma og ótíma að blogga um heilsu mína og skipti á mjaðmralið. En nú er það reyndar svo að það talsvert af fólki sem vill fylgjast með gangi mála og bata mínum. Það er þá einfaldast að þeir sem hafa tölvur geti litið inn á bloggið. Og hvað geri ég þá? Jú, ég blogga um bata minn.

Í dag er níundi dagurinn frá því aðgerðin var gerð og fjórði dagurinn síðan ég kom heim. Ég man það eins og það hefði gerst í gær þegar ég var í fyrsta skipti fara framúr á sjúkrahúsinu, daginn eftir aðgerðina, og fannst nánast að ef ég ekki gerði nákvæmlega eins og sjúkraþjálfarinn fyrirskipaði, þá mundi fóturinn detta af. Í dag næstum sveifla ég fótunum yfir rúmstokkinn, tek í handföngin á göngugrindinni og svo er ég lagður af stað. Það er nú einhver munur á, munur sem er vert að leggja merki til. En ég er enginn hlaupagikkur, er þó búinn að ganga eina 600 metra utanhúss í dag. En ég er hundþreyttur og sef stundum hálf illa. Ég sef ekki illa vegna verkja, heldur vegna þess að enn sem komið er sef ég bara á bakinu. Það er nokkuð sem ég hef nánast forðast allt mitt líf. Það kom nefnilega snemma í ljós á lífsleiðinni að ég hrýt gjarnan hressilegan þegar ég ligg á bakinu. En nú var bara að mæta þessu vandamáli og svo merkilegt sem það nú er, þá kvörtuðu herbergisfélagar mínir á sjúkrahúsinu ekki undan hrotum mínum. En þó að það gangi að sofa á bakinu, þá vill líkaminn stundum í gömlu stellingarnar, leggjast á hliðina, draga upp undir sig fæturna og mumla svo af ánægju. Að geta ekki gert þetta veldur pirringi sem síðan getur valdið svefnleysi.

Meira um þreytuna. Ég fékk bréf frá sjúkrahúsinu í dag og þar stenur meðal annars að ég hafi misst talsvert blóð. Mér var gefið blóð eftir aðgerðina en sjálfsagt ekki í þeim mæli sem ég tapaði. Því segir í bréfinu að ég muni finna fyrir þreytu enn um skeið

Svo er enn eitt sem dregur úr lífsgæðunum og það eru stórir marblettir aftan á næstum öllum fætinum og þeir eru aumir. Það gerir að verkum að ég á erfitt með að sitja. Því gengur lífið mikið út á að fara framúr, leggja mig, fara í gönguferð, leggja mig, borða, leggja mig og gera æfingar þegar ég ligg. En hversu lélegur er ég þá? Konan sem skutlaði mér upp til Lindesberg er einmitt núna frammi í stofu með Valdísi. Hún mátti stoppa þrisvar sinnum á þessari 40 km leið svo að ég gæti rétt úr fætinum til að gera lífið bærilegra. Og þá segi ég bærilegra. Ég get verið mikið þakklátur fyrir að vera laus við þá verki sem viðstöðulaust þjáðu mig á einn og annan hátt.
RSS 2.0