Enginn bloggdagur

Þetta er nú búinn að vera meiri dagurinn. Við fórum í dag inn í Örebro til höfuðstöðva Mammons í sýslunni, Mrieberg. Þar eru mikið á annað hundrað verslanir, ef ekki einar tvöhundruð, í einum bæjarkjarna, og hægt að fá þar nánast allt milli himins og jarðar annað en fasteignir og hamingju. Við ætluðum að kaupa fatasnaga, brunaboða, kjötfars og mjöl en enduðum svo í fjölda verslana og urðum útkeyrð af þreytu. Svo fengum við okkur kaffi og brauðsneið sem var að vísu býsna notalegt þangað mér varð bumbult af krásunum. Nú erum við á Sólvöllum, þögul sitt í hvoru horni og bæði búin að dotta eftir matinn. Hvernig ætti að vera hægt að blogga á svona degi?

Og þó. Það er kominn upp nýr brunaboði í stofuna og það skapar öryggi. Ég er búinn að máta fatasnagana í forstofuna og þarf svo bara að finna mátulegar skrúfur út í geymslu á morgun og festa snögunum upp, augnabliksverk. Ég fékk e-póst frá henni Helenu í bankanum áðan þar sem hún útskýrði hversu einfalt það er að velja nýtt vaxtatímabil fyrir lán í bankanum, bara krossa í á einum stað og skrifa stutta setningu aftan við. Afgangurinn af lambakjötinu frá í gær smakkaðist svo vel. Svo var eitt sem ég nefndi ekki af því sem skeði í Marieberg. Við hittum einn fyrrverandi vinnufélaga minn sem var þar alsæll með níu mánaða gamla dóttur sína. Við hittum líka konu sem vinnur í eldhúsinu á vinnustað mínum, Vornesi, sem vildi endilega vita hvernig mér vegnaði eftir mjaðmaaðgerðina. Þau hugsa heil mikið til mín í Vornesi og þar að auki þarf maðurinn hennar væntanlega að fara í mjaðmaaðgerð og það líklega á báðum mjöðmum. Hún vildi því gjarnan vita svolítið um mjaðmaaðgerð mína.

Þetta lítur sem sagt ekki svo illa út ef ég lít á debit og kredit niðurstöður dagsins. Dagurinn hefur bara verið fínn ef frá er talin búðafýlan sem ég var farinn að finna fyrir. Búðafýla er gjarnan fylgifiskur minn. Ég verð þó að segja að dagurinn hefur ekki boðið upp á að andagiftin kalli á að ég setjist niður til að fljúga upp í hæðir á vængjum orðanna. Maður má nú vera þreyttari dag og dag inn á milli.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0