Morgunfrú í nóvember

Í gær var hann Pär veðurfræðingur hetjan í blogginu mínu. Ég talaði um að hann hefði verið í ákveðnum sjónvarpsþætti. Það var ekki mín athygli sem dró mig að sjónvarpinu í það skipti sem hann var í þessum þætti þar sem hann bauð til kvöldverðar. Valdís var búin að taka eftir því að hann yrði þarna og þegar hún sagði mér frá því var ekki að sökum að spyrja, þetta varð ég bara að horfa á. Svo fékk ég í dag umfjöllum (kommentar) um bloggið mitt frá í gær. Hún er frá manni sem heitir Markku (sagt Markú) og ég komst í kynni við fyrir nokkru. Maður sem hefur þetta nafn er tengdur Finnlandi, það fer ekki milli mála. En það sem veldur því að ég tala hér um Markku er nokkuð alveg sérastakt að mínu mati. Hann fann eitthvað þýðingarforrit á Google sem hann notar til að lesa íslensku textana mína og ég sé vel á umfjöllunum hans að hann skilur þá virkilega. Hann horfði líka á þáttinn þar sem Pär bauð fólki til kvöldverðar, en tók hins vegar fram að hann horfði ekki svo mikið á þessa þætti. En Pär varð hann einmitt að horfa á eins og ég.

Nú kem ég að allt öðru, en það eru veðurfréttir. Í fyrsta skipti síðan 1847 er nú nóvember hlýrri en október sama ár. His vegar var október mikið kaldari en í meðalári. Í einum af borgarhlutum Stokkhólms hefur morgunfrúin sprungið út, en með réttu er hún merki þess að sumarið sé á næsta leyti. Pär segir að vissulega geti maður orðið glaður yfir að sjá lítið blóm springa út, en í þessu tilfelli boðar það ójafnvægi. Mín skoðun er að okkur beri að hlusta á varnaðarorð manna eins og Pär, þá mun okkur vegna vel.

Fyrir nokkrum árum fór ég með íslenska konu á endurvinnslustöð í Örebro. Hún var að flytja héðan til suðlægari byggðarlaga í Svíþjóð og þurfti að henda ýmsu eins og gengur þegar flutt er. Ég er smásmugulega nákvæmur þegar ég er að sortera í gámana og þessi kona var þarna á endurvinnslustöð í fyrsta skipti á ævinni. Við þurftum að fara fleiri en eina ferð gegnum stöðina vegna þess að það kenndi margra grasa á kerrunni. Þegar við vorum svo búin að losa kerruna og farangursrýmið í bílnum eftir þeim kúnstarinnar reglum sem giltu og lögðum af stað heim, þá sagði konan; mér finnst eins og ég hafi verið að gera svo mikið gagn. Það er einmitt þetta sem við þurfum að upplifa, að við séum að gera Jörðinni okkar svo mikið gagn þegar við gerum okkar besta til að skaða hana ekki. Þá munum við geta skilað henni minna skaðaðri til barna okkar og barnabarna.

Að lokum um ungan sama, en það er nokkuð sem ég hef bloggað um áður fyrir all löngu síðan. Það var þáttur um sama og í þættinum var talað við ungan sama sem var að reka hreindýrahjörð. Það var komið kvöld og menn voru sestir niður til að hvílast. Ungi saminn hélt á kaffibolla og talaði um hógvær um líf sitt og annað því skylt. Þegar maður rekur hreindýrahjörð og hefur stjórn á henni, þá finnst manni að maður sé "tuff", sagði hann. Hann sagði einnig að við ættum að skila landinu, sem við höfum að láni, til afkomenda okkar án þess að skaða það. Og hann sagði að einu merki um líf föður hans væru kannski einhver útkulnuð eldstæði. Annað er það ekki og faðir minn skaðaði ekki landið sem hann hafði að láni og nú hefur mín kynslóð tekið við því af honum föður mínum. Þessi sami  talaði eins og sannur heimsspekingur.

Pär veðurfræðingur

Um fjögurleytið fór ég í fjögurra km gönguferð í vetrarmyrkri og sjö stiga hita. Myrkrið er ekki svo alvarlegt þegar vegurinn er góður. Ég hélt mig nefnilega á nýmalbikuðum vegi sem liggur hér um víða velli og mjög slétta. Götuljós eru ekki komin upp þarna ennþá. Fyrir áratugum var þetta svæði víðáttumikill flugvöllur en hefur verið akurlendi undanfarin mörg ár.

Ég hafði verið slakur við gönguferðir undanfarna daga og var óánægður með það, þar sem það er mjög mikilvægt fyrir mig að æfa vel og dyggilega svo að minn nýi mjaðmaliður fái sterkan umbúnað. Ég hafði verið að smíða hér heima en það gekk ekki vel fyrir mér og ég varð smám saman meðvitaður um orsökina. Og orsökin var léleg samviska vegna gönguferðanna. Eftir nokkrar mínútur í veðurblíðunni og hreinu loftinu fann ég styrkinn taka yfir og það var svo innilega notalegt að finna útiloftið tæma lungun af óhreinindum og leti.

Hann Pär veðurfræðingur var í sjónvarpsþætti í gærkvöldi. Þáttur þessi gengur út á að fræðast af einhverjum glöggum manni í sjónvarpssal og að lokum býður sá hinn sami til kvöldverðar og kynnir gesti sína og hvers vegna þeir eru boðnir. Birtar eru myndir af gestunum við viðeigandi stól við borðið. Pär er á fimmtugs aldri og veðurfræðin er honum mjög hjartfólgin. Hann er líka einn af þessum mönnum sem elska Jörðina okkar og nánast sjá hana sem stórkostlega lífveru. Það eru nefnilega til menn sem tala um andlegheit þegar þeir tala um Jörðina okkar. Þetta virðist ekki gert af neinum ásetningi, það bara verður svona þegar þeir tala um Jörðina sem þeir elska.

Pär er ekki í minnsta vafa um að mannkynið á sinn þátt í hlýnun jarðar og hann veit líka að höfn eru orðin veik af menguninni frá okkur og fiskunum þar líður ekki vel. Það er illkynja mengun hversu ríkan þátt sem hún svo hefur í hlýnuninni.


Pär veðurfræðingur (myndinni stal ég en tel það ekki umhverfisvandamál heldur hegðunarvandamál)

En komum nú aftur að kvöldverðinum hjá Pär í gærkvöldi. Sá sem skyldi sitja honum næstur til hægri var Copernicus, sá hinn sami og kom fram með það á miðri 16. öld að Jörðin væri alls ekki miðja alheimsins, heldur væri það Jörðin sem gengi umhverfis sólu. Það er algengt að þessir gestgjafar bjóði löngu framliðnu fólki bara ef það á erindi og auðvitað átti Copernicus erindi í umræðu yfir kvöldverði hjá Jarðarvininum Pär veðurfræðingi. Hleyp ég nú yfir tvo næstu gesti en kem að þeim síðasta, þeim sem átti að sitja næstur Pär til vinstri. Við byrjuðum frá hægri. Kona sem átti að sitja þar var ekki fædd og því var myndin af henni teiknuð. Þessi kona er verðandi barnabarnið mitt, sagði Pär. Og hvað skeður þegar svona óvænt uppákoma lítur dagsins ljós. Alla vega ég fékk gæsahúð.

Ég á engin barnabörn ennþá sagði Pär, en ég er viss um að ég eignast þau og það eru barnabörnin mín sem taka við Jörðinni eins og ég skil við hana. Þess vegna á verðandi barnabarn mitt erindi í umræðuna yfir kvöldverði mínum ásamt Copernicusi og þeim öðrum.

Ég var með lélega samvisku fram eftir degi vegna þess að ég stóð mig ekki í stykkinu varðandi gönguferðirnar. Því var ég neikvæður og hálf fúll þegar við Valdís skruppum í bæinn um hádegisbilið. Við fórum fyrst í verslun sem gjarnan er kölluð gamlingjadagheimilið. Það er áhaldaverslun með meiru með gríðarlegu vöruúrvali og það er sagt að eldri menn fari þangað bara til að skoða í hillurnar. Síðan fórum við tvær hæðir niður og þar fór Valdís í matvöruverslun en ég beið í breiðum gangi þar framan við. Ég horfði á fólkið sem kom frá versluninni og var afgreitt gegnum fjöldamarga kassa sem stóðu hlið við hlið eins og í öðrum stórum verslunum. Mikill meiri hluti af vörunum var í plasti. Sumir settu nokkra hluti saman í minni plastpoka og dembdu svo öllu saman í venjulega plastinnkaupapoka. Það var sem sagt mikið plast og ennþá meira plast. Þarna stóð ég við hækju mína og velti fyrir mér í þunglyndi mínu hvort allt þetta fólki hefði virkilega ekki heyrt talað um plastpokafjallið í Kyrrahafinu sem eitri höf heimsins. Og annað ennþá verra. Þetta var að meiri hluta eldra fólk og var það virkilega svo að það átti engin barnabörn til að elska og erfa síðar að Jörðinni.

Í gönguferð minni síðdegis hreinsaðist ég allur og sá að ég hafði verið dómharður. Hvað hafði ég gert til að hjálpa Pär veðurfræðingi við að fræða samborgara mína um hættulegt líferni okkar, ekki bara hvað varðar plastpokafárið í stórmarkaðinum, heldur um lifnaðarhætti okkar almennt. Ég hef bloggað um þetta áður og ég finn á mér að ég á eftir að gera það oftar.

Lipurmenni hann Gústav

Fyrir helgi kom ég til Fordverkstæðisins í Örebro með vetrardekkin á kerru. Það féll í hlut Gústavs, sem er einhvers konar móttökustjóri þar, að líta á dekkin og meta gæði þeirra. Jú, tvö dekk voru að komast á síðasta snúning og í fyrstu ákvað ég að kaupa ný en hætti svo við. Gústav sagðist skyldi geyma kerruna bak við lás og slá þar til þeir gætu skipt um hjól undir bílnum sem gert var í dag. Að vísu erum við Valdís vön að skipta um hjól sjálf vor og haust en brugðum út af því að þessu sinni.

Það hafa verið svolitlar uppákomur með þennan blessaðan Ford okkar og það hefur ekki verið ókeypis. En Gústav hefur verið ótrúlega þægilegur vegna þessa og gefið afslætti á ýmsu og fyrirtækið sendi einhverja bónusávísun um daginn vegna viðskipta okkar við þá. Niðurstaðan er nú held ég sú að lokum að tapið á uppákomunum er orðið afar lítið. Svo stóðum við þarna hlið við hlið í dag, ég og Gústav, og hann jafn viðmótsþýðut og alltaf áður. Þá gat ég ekki látið vera að segja honum að hann væri sérstaklega góður í öllu viðmóti og ég væri honum þakklátur fyrir það. Gústav átti ekki von á þessu og varð hreinlega hálf feiminn en þakkaði svo fyrir og sagði að það væri ekki algengt að fólk segði þetta svona opinskátt. Hann sagði hins vegar að ef verk ekki stæðust eða varahlutir kæmu ekki í tíma, þá væri algengara að fólk segði álit sitt. Ég fann að honum hlýnaði um hjartaræturnar.

Ég á ekki erfitt með að segja fólki að það geri vel þegar við á og mér finnst það sjálfsagður hlutur. Þórarinn Tyrfingsson sagði sumarið sem ég vann á Vogi að það væri mikilvægt að segja eitthvað jákvætt um sjúklingana, en maður mætti samt ekki skrökva að þeim. Ég reyndi að æfa þetta. Svo kom ég til Svíþjóðar og fór að vinna í Svartnesi. Eitt sinn kom lítil rúta frá miðlungs stórum bæ í Mið-Svíþjóð og hún var hálf full af fólki sem hreinlega var tínt upp af miðbæjartorginu þar. Þetta fólk var af þeiri stétt sem kallast oft því ljóta nafni rónar. Nokkrir af þeim lentu í minni grúppu. Þetta fólk hafði án alls efa ekki heyrt neinar jákvæðar umsagnir sig á mörgum undanförnum árum og það var kannski ekki létt að hitta á jákvæða punkta til að benda því á. Það var líka þvingað í meðferð og var því erfitt viðureignar. Það var mjög misjafn sauður í þessu fé í grúppunni minni, meðal annars læknir einn úr Dölunum, afskaplega ljúfur maður og prúður þó að honum hefði mistekist með áfengið. Hann stakk í stúf við flesta aðra í grúppunni.

Eitt sinn þegar grúppunni var lokið vék hann sér til hliðar og beið þess að aðrir færu út. Ég skildi að hann vildi segja eitthvað. Þegar allir voru farnir út og við búnir að loka hurðinni sagðist hann endilega vilja segja mér nokkuð þó að það væri kannski ekki í hans verkahring að tala um það. Og svo kom það: Þú hefur alveg einstakan hæfileika til að finna eitthvað jákvætt að segja um hverja einustu manneskju og segja það þannig að fólk taki það til sín.

Já, og hvað segi ég þá. Hann var jú læknir síðan ein 20 ár til baka en ég var nýgræðingur í mínu fagi. Við töluðum saman þarna eins og jafningjar einhverja mínútu og svo var hann sjúklingur á ný. Enginn annar maður hefur verið mér meiri skóli í ráðgjafastarfinu en þessi prúði alkohólisti, læknirinn upp í Dölum. Ég skildi að mér hafði tekist að æfa vel eiginleikann sem Þórarinn Tyrfingsson benti á, ég hafði fengið það staðfest og það var mér mikilvægt. Ég æfði þetta á alkohólistum en get nú notað það meðal venjulegs fólks þegar mér finnst það eiga við. Gústav fékk að njóta þess.

Þetta lítur kannski út eins og grobb en það er það alls ekki. Mér finnst mikilvægt að segja það og hef oft ætlað að gera það eftir að ég fór að blogga. Nú er það sagt. Á tímanum sem við Valdís bjuggum í Falun hitti ég lækninn nokkrum sinnum. Við bárum virðingu hvor fyrir öðrum. Og hvers vegna er það mikilvægt fyrir langt genginn alkohólista að heyra jákvæðar umsagnir um sig. Jú, þetta fólk hefur tapað sjálfsvirðingunni, sjálfstraustinu, sjálfsmyndinni, finnur sig ekki duga til neins, vera öðru vísi en aðrir og fleira og fleira. Bara þetta getur fengið manneskjuna til að drekka aftur. En -að ég segi að það sé virkilega athyglisvert að hlusta á manneskjuna þegar ég heyri að hún segir sannleikann, það er kannski það besta sem hefur skeð í mörg ár. Sama manneskja brýtur ekki reglurnar fyrir framan nefið á mér næstu dagana.

Bjartur er samur við sig

Sælir eru þeir sem eru búnir að borga reikningana sína því að þeir þurfa ekki að vera hræddir um að týna peningunum sínum, sagði ég áðan við Valdísi. En þá var ég einmitt að enda við að ganga frá reikningum mánaðarins í greiðslu. Þá veit ég að ég er frjáls maður í einn mánuð til. Svo er ég að lesa Sjálfstætt fólk og hann Bjartur í Sumarhúsum sá sjálfstæði mannsins á sinn hátt. Það er ótrúlegt hvernig Laxness bara gat dottið í hug að setja texta á blað eins og hann gerði. Hvaðan eiginlega fékk hann þetta allt saman? Ég var í gær nað lesa um pex þeirra sumarhúsahjóna um það hvort saltaður steinbítur, soðning, væri mannamatur eða ekki. Og Bjartur talaði um stórar fyrirætlanir sínar við Rósu sína en hún virtist ekki heyra hvað hann sagði. Hins vegar kom hún af stað eftirfarandi samtali:

   "Bjartur, sagði hún eftir stutta þögn. Mig langar í kjöt.
   Kjöt? spurði hann hissa. Á miðju sumri?
   Það kemur vatn í munninn á mér þegar ég sé kind.
   Vatn, endurtók hann. Jæja, ætli það sé ekki nábítur?
   Þessi saltsteinbítur er ekki hundum bjóðandi.
   Ég held að þú sért að verða eitthvað undarleg, heillin.
   Á Rauðsmýri var alltaf kjöt tvisvar í viku.
   Minstu ekki á andskotans hrossakjötið þess.
. . .
   Þar var aldrei slátrað öðru en gamalám og húðarbikkjum í fólkið. Það var þrælakjöt.
   Hvar er þá þitt kjöt?
   Frjáls maður getur lifað á soðningu. Sjálfstæði er betra en kjöt."

Og ekkert kjötið fékk Rósa í Sumarhúsum enda varð hún ekki glöð. Þrátt fyrir það get ég ráðlagt lestur þessarar bókar.

Við Valdís borðuðum hins vega lambakjöt um helgina og vinnan í eldhúsinu hélt áfram. Í dag hefur hins vegar ekki mikið áunnist annað en að skipuleggja framhaldið. Ég fór á trésmíðaverkstæði í dag með tvær skápahurðir sem ég þarf að fá lagfærðar ögn. Þegar ég kom þangað voru einungis tveir smiðir þar inni og einn ofur rólegur viðskiptavinur. Eins og hálfri mínútu síðar vorum við orðnir sjö. Maður á mínum aldri vatt sér inn með hurð i fanginu og honum fylgdu tveir yngri menn. Þar með upphófst ótrúlegur óróleiki þarna inni og maðurinn með hurðina fór mikinn og lýsti einhverju með miklu handapati sem ég hirti ekki um að hlusta á þar sem stór hjólsög hvein rétt við hliðina á þeim. Eftir nokkurra mínútna dvöl þarna inni fóru þessir þremenningar út og andrúmsloftið varð kyrrt á ný. Sögin hélt áfram að hvína og ungur smiður tók á ný að mata hana með smíðaviði. Ég fékk afgreiðslu hjá hinum manninum. Síðan gekk ég að sterklegri hurðinni sem borin hafði verið inn. Hún var hressilega brotin við skrána og greinilega var um innbrot að ræða. Kannski einhvern hafi vantað peninga fyrir reikningum sínum um mánaðamótin. Hann verður væntanlega ekki frjáls maður á næstunni, jafnvel þótt hann hafi haft eitthvað upp úr krafsinu og fari huldu höfði. Óttinn og samviskan verða væntanlega hans förunautar.

Nú er lítið annað að gera en hefja hinn hefðbundnu verk í baðherberginu fyrir háttinn og svo lít ég í bókina um Sumarhúsafólkið. Það er  merkilegt með hann Bjart, hann hefur ekki breytst hætis hót síðan ég las bókina fyrir einum 25 til 30 árum. Þrátt fyrir það get ég heils hugar ráðlagt ykkur að lesa hana.

Barbro og Gunnar á Kirkjubæjarklaustri

Í síðasta bloggi talaði ég um sænsk hjón, Barbro og Gunnar, sem voru okkur samferða með Norrænu á leið til Íslands árið 2002 og við ætluðum að sýna þeim Sænautasel á Jökuldalsheiði, og auðvitað Sænautavatn með. En það mistókst og svo höfðum við smá kveðjustund við Mývatn og reiknuðum ekkert með að hittast meira í þessari Íslandsferð. En það verður aðeins að segja frá augnablikinu þegar við hittumst þarna eftir ferðina yfir öræfin. Við Valdís komum fyrst til Mývatns og nokkru síðar renndu þau í hlað. Þegar Barbro steig út úr bílnum héldum við fyrst að hún hefði fengið sér all vel í tána. Hún hreinlega flögraði um kringum bílinn og baðaði út höndunum. Svo kom í ljós að þetta voru áhrifin af fyrstu kynnum hennar af Íslandi. Síðan steig Gunnar út úr bílnum en hann reyndi að sína aðeins meiri stillingu þrátt fyrir að hann væri líka frá sér numinn eftir ferðina. Kolsvartir hraundrangar trjónandi upp úr sandflákum, stórgrýttir hnjúkar og ásar, víðáttur, sjóndeildarhringur í órafjarlægð, grænn dýamosi í skorningum og fleira og fleira nýstárlegt hafði fangað hug þeirra allan. Reykur úr einkennilega litum leirkeldum við Námaskarð hafði einnig vakið athygli þeirra. Svo drukkum við kaffi og borðuðum stórar brauðsneiðar með reyktum fiski úr Mývatni.

Að lokum kvöddumst við og skiptumst á símanúmerum ef við skyldum vilja hafa samband síðar, annað hvort á Íslandi eða eftir að heim til Svíþjóðar væri komið. Við Valdís héldum til Hríseyjar og þar var að fara í gang Hríseyjarhátíð. Annað kvöldið sem við vorum í Hrísey vorum við á samkomusvæðinu og horfðum á skemmtiatriði. Þá studdi einhver hönd á öxl okkar, og viti menn; Barbro og Gunnar voru mætt á svæðið og stóðu þarna allt í einu mitt á meðal okkar. Þau höfðu sögur að segja. Þau höfðu farið aftur í Námaskarð og gengið um leirhverasvæðið og Gunnar sagði að það hefði ekki einungis verið magnað, honum fannst það líkjast hugmyndum hans af helvíti. Þau höfðu farið í hvalaskoðunarferð frá Húsavík og séð marga hvali og þannig héldu þau áfram. Þegar þau voru komin í hús á Akureyri kíktu þau í bækling um Hrísey sem Valdís hafði gefið þeim og þá áttuðu þau sig á Hríseyjarhátíðinni og hvar okkur var að finna. Það var engum blöðum um það að fletta að þau drifu sig af stað aftur og óku út á Sand og náðu einni af mörgum ferjuferðum þetta kvöld og svo hittumst við í Hrísey.

Frá Hrísey héldum við Valdís á Skagaströnd til Guðnýjar systur, síðan til Reykjavíkur og að lokum á Kirkjubæjarklaustur þar sem Valgerður var þá skólastjóri. Að kvöldi dags á Klaustri fékk ég sms. Það var frá Gunnari og hann sagði að þau væru í Vík og færu þaðan áleiðis austur morguninn eftir. Hann spurði hvar á landinu við værum. Ég svaraði og með leyfi Valgerðar og Jónatans bauð ég þeim til morgunverðar heima hjá þeim morguninn eftir. Það voru glaðar manneskjur sem komu til þessa vel útilátna morgunverðar og þau spurðu hvort þetta væri dæmigerður íslenskur morgunverður. Þeim var svarað því að þessi morgunverður væri venju fremur vel útilátinn. Þau voru þarna um stund í góðu yfirlæti og virtust himinlifandi yfir þessari óvæntu uppákomu.

Aðeins fóru kveðjur á milli okkar og þeirra hjóna þegar til Svíþjóðar var komið en það var ekki fyrr en árið eftir sem við spurðum þau hvar væri skemmtilegast að vera í Smálöndum ef við legðum leið okkar þangað. Við Valdís höfðum verið með áætlanir um Smálandaferð í nokkur ár. Þau sögðust eiginlega ekki geta svarað því en sögðust hins vegar stinga upp á að við gistum hjá þeim einar þrjár nætur og þau skyldu kynna fyrir nokkur hluta Smálandanna. Það varð úr og meðan á þessari heimsókn okkar til þeirra stóð, töluðu þau mikið um Íslandsferðina. Þau voru afar þakklát yfir að hafa hitt okkur og kannski var það meiningin hjá Gunnari þegar við hittum hann á hafnarbakkanum í Bergen, að kynnast einhverjum sem gæti verið svolítill tengiliður milli þeirra og Íslands. Eitthvað það allra besta við ferðina var morgunverðurinn á Klaustri. Að fá að koma inn á íslenskt heimili og eiga stund með íslenskri fjölskyldu, það var ekki á óskalistanum því að það var ekki mögulegt. Það varð eigi að síður. Það stórkostlegasta við íslenskt landslag voru öræfin á Norðausturlandi og síðan Frá Vík og austur til Seyðisfjarðar, sérstaklega sanda- og jöklasvæðin á Suðausturlandi.

Hugmyndin að þessum línum fékk ég þegar ég bloggaði um Bjart og fjölskyldu að Sumarhúsum í fyrradag. Ef einhver skyldi vilja vita hvaða áhrif ferðalag útlendinga um Ísland hefur á viðkomandi, þá reyndi ég að koma því aðeins á framfæri. Barbro og Gunnar voru frábært fólk að kynnast.

Saga kringum Sænautavatn

Ég sagði í síðasta bloggi að ég hefði þá nýlokið við að skrifa blogg um viss íslensk stjórnmálaöfl og svo framvegis og ég hefði skrifað það í hreinni reiði. Síðan þegar ég hafði skrifað það, hafði ég fengið útrás og sá ekki ástæðu til að birta það.

Er þetta Ísland í dag hugsaði ég þegar skrifunum lauk í það skiptið og ég hallaði mér aftur á bak í stólnum og fann fyrir létti yfir að þessum skrifum var lokið. Síðan minntist ég sumardags eins 2002 þegar við Valdís sáum Ísland rísa úr sæ þar sem við nálguðumst Seyðisfjörð með ferjunni Norrænu. Ég var ákveðinn í einu; að koma við hjá Sænautavatni og hugsa til sögunnar um hann Bjart í sumarhúsum og fjölskyldu hans. En eftir því sem ég best veit hafði Halldór hugsað sér Sumarhús Þar sem ég hafði áður séð fallandi bæjarrústir í nágrenni Sænautavatns, Sænautasel. Síðast þegar ég kom þarna voru menn byrjaðir að reisa þar ný hús í stíl gömlu íslensku sveitabæjanna.

Á hafnarbakkanum í Bergen þegar við biðum eftir því að fá að komast um borð í ferjuna sáum við sænskan miðaldra mann sem gekk glaðlega milli bílanna og geislaði af löngun til að kynnast einhverjum komandi ferðafélaga. Þetta var kennarinn Gunnar og í nálægum bíl sat Barbro kona hans, félagsdmálafulltrúi í Smálöndunum. Hún kom líka á vetvang þegar hún sá að Gunnar hafði hitt fólk sem var tilbúið í félagsskap. Gunnar og Barbro urðu góðkunningjar okkar í ferðinni til Íslands og ég var ákveðinn í því að segja þeim eftir bestu getu eitthvað um hið mjög svo afskekta heiðarbýli við Sænautavatn.

Þegar við komum upp á öræfin og komum að skiltinu Sænautavatn ókum við Valdís inn á afleggjarann að vatninu og Gunnar og Barbro fylgdu á eftir okkur. Eftir eina tvo kílómetra áttaði ég mig á því að vegagerðarmenn höfðu fært veginn og ég hafði ekki hugmynd um hversu mikið. Það varð því úr að við færum ekki að heiðarbýlinu sem mig langaði þó svo mikið að heimsækja. Mig langaði að heimsækja Bjart og dreyma mig inn í sögu heiðarbóndans sem ætlaði að verða sjálfstæðasti maður Íslands af eigin krafti en tókst ei. Gunnar og Barbro voru manneskjur sem hefðu drukkið í sig allt sem við hefðum getað sagt þeim um þetta heiðarbýli og hina hörðu lífsbaráttu sem fólk háði. En úr því sem komið var ákváðum við að halda áfram til Mývatns og skipta okkur ekkert af hvert öðru fyrr en við mundum hittast á litlu veitingahúsi við Mývatn, veitingahúsi sem ég man ekki lengur hvað heitir. Þar ætluðum við að fá okkur kaffi og vænar brauðsneiðar og reikna síðan með því að leiðir okkar mundu skilja þar.

Heiðarbærinn fannst mikið í hugskoti mínu á leiðinni til Mývatns og ég fór gegnum ýmislegt sem ég hafði ætlað að segja vinum okkar frá. Það voru margir og ólíkir fulltrúar í fjölskyldu Bjarts. Það var þreytta konan sem barðist áfram til að halda lífinu í börnunum sínum, þeim sem fengu að lifa, og reyna að koma þeim til manns. Það var Nonni litli sem ætlaði að gera heiminn betri með því að syngja fyrir hann.

   . . .
   "Mamma. Í fyrra sumar, þá sá ég einu sinni fossinn í bæjargljúfrinu og hann rann uppámóti í vindinum, hann rann afturábak yfir fjallið.
   Elskan mín, sagði hún þá, -mig dreymdi svolítið um þig.
   Ha?
   Mig dreymdi að huldukonan tók mig með sér í hann Bæarklett og rétti mér könnu af mjólk og sagði mér að drekka, og þegar ég var búinn að drekka, þá segir huldukonan: Vertu góð við hann Nonna litla, því hann á að sýngja fyrir allan heiminn.
   Hvernig? spurði hann.
   Ég veit það ekki, sagði móðir hans.
   Svo hvíldi hann við brjóst móður sinnar um stund og vissi ekki um neitt í öllum heiminum, nema hjárta móður sinnar sem sló. Að lokum reis hann upp.
   Mamma. Af hverju á ég að syngja fyrir allan heiminn?
   Það er draumur, sagði hún.
   Á ég að syngja fyrir heiðina?
   Já.
   Fyrir mýrina?
   Já.
   Og á ég líka að syngja fyrir fjallið?
   Svo segir huldukonan, sagði móðir hans."
   . . .

Heiðarbóndinn Bjartur í Sumarhúsum varð ekki sjálfstæðasti maðurinn í landinu. Þegar lífið hafði barið hann sundur og saman, svo heiftarlega að hann að lokum sá sér þann kost vænstan að taka ofan og lúta höfði, þá hafði hann misst jörðina Sumarhús. Hann hélt því að enn afskekktara heiðarbýli, Urðarseli. Þangað fannst ekki einu sinni hestvagnaslóð. Eitt systkinanna, Ásta Sóllilja, tákn ástarinnar í sögunni, stúlkan sem Bjartur hafði hrakið að heiman forðum tíð vegna þess að hún varð ófrísk. Nú voru komnar á sáttir en hún var mikið veik. Hún var þarna með í för en komst ekki lengra af eigin kröftum. Þá tók Bjartur til sinna ráða.
. . .
"Síðan tók hann Ástu Sóllilju í fang sér og sagði henni að halda vel um hálsinn á sér, teymdi af stað. Þegar þau voru komin hátt upp í brekkurnar, hvíslaði hún:
   Nú er ég aftur hjá þér.
   Og hann svaraði:
   Haltu þér fast um hálsinn á mér, blómið mitt.
   Já, hvíslaði hún. Alltaf-meðan ég lifi. Eina blómið þitt. Lífsblómið þitt. Og ég skal ekki deyja nærri nærri strax.
   Síðan héldu þau áfram."

Bjartur og fjölskylda voru með í för á fjallvegunum á leið til Mývatns þennan sumardag árið 2002 þó að ferðin að Sænautavatni hefði mistekist. Eftir að hafa lesið Sjálfstætt fólk í fyrsta skipti finnst mér oft sem fólkið hefði verið til í raun. Ég held líka að Halldór Laxness hafi verið svo sannur í skrifum sínum að það sé hægt að segja að það hafi verið til. Þegar ég nú skrifa þetta finn ég fyrir sterkri þörf fyrir að lesa bókina einu sinni enn. Hvílíkur auður fyrir íslendinga að eiga þessar gersemar sem Halldór skildi eftir sig. Nú er lag að lesa góða bók.

Þegar við Valdís að lokum komum að Mývatni og hittum Gunnar og Barbro voru það varla sömu manneskjur sem við hittum. Ferðin um fjallvegina og öræfin hafði tekið þau svo sterkum tökum að þau voru sem ölvuð. Þeirra fyrsti dagur á Íslandi hafði tekist með afbrigðum vel þó að mér hefði mistekist að kynna fyrir þeim fjallabóndann Bjart. Ég komst síðar að því að vegurinn hafði verið færður 13 kólómetra frá gamla fjallabýlinu.

Ja hérnana hér

Við Valdís ákváðum síðdegis í gær að fara heim og fara í meiri háttar hreingerningu og smávegis lagfæringar hér heima. Rimlagardínuna sem ég var of taugaveiklaður til að geta gert við daginn sem hann dóttursonur minn og nafni fæddist dró ég undan kommóðu í gærkvöldi svo að ég mundi án alls efa muna eftir að gera við hana í dag. Viðgerðin tók mjög langan tíma en nú er ég kominn með góða kunnáttu í því að setja nýjan músastiga í rimlagardínur og ég mun því taka gardínuna í eldhúsinu, sem er farin að láta á sjá, taka hana til viðgerðar án þess að kvíða fyrir því í marga daga. Batnandi manni er best að lifa.

Hreingerningin lenti mest á Valdísi og það sem sú manneskja tók til hendinni í dag. Það var alveg með endemum. Mér stóð varla á sama krafturinn í konunni. Svo mikil var ferðin á henni að ég sá mér ekki annað fært en leggja frá mér hina hækjuna líka og ganga um hækjulaus. Annars hefði ég bara verið fyrir. Þegar hreingerningunni var að verða lokið studdi Valdís sig allt í einu við skúringagræjuna og sagði; þetta verður nú jólahreingerning líka. Ég nýt þeirra hugmyndar núna þegar ég er að skrifa þetta og ég vona að hún geri það líka.

Síðan fór Valdís á kóræfingu út í kirkju og ég á AA fund í Fjugesta með honum Hans vini mínum. Ég kalla hann alla vega Hans. Hér erum við nú að búa okkur undir það að bursta og pissa og leggja okkur því að við eigum von á heimsókn klukkan tíu í fyrramálið, en sú heimsókn er ennþá leyndarmál, verður kannski alltaf. Þetta er búinn að vera afbragðs góður dagur ef Valdís hefur ekki gert sér illt með hreingerningatörninni. Það er orðið áliðið.

Áður en ég fór á fundin og strax eftir fundinn skrifaði ég ógnar langt blogg um íslensk stjórnmál. Ég lét reiði mína gasa í þessu bloggi en þegar ég var búinn að gera gróft uppkast taldi ég mig hafa fengið útrás og ákvað að birta það ekki. Ég ætla bara að segja að ákveðin stjórnmálaöfl eru ábyrg fyrir því að greiðslur okkar Valdísar frá Íslandi hafa lækkað að verðgildi um nákvæmlega 50 %.

Að öðru leyti er ég harð ánægður með minn hlut. Ég sagði áðan að ég hefði lagt frá mér hina hækjuna líka. Já, heilsa mín er ólýsanleg og ég þurfti bara að borga 400 krónur til að fá hana. Allt það dásamlega fólk sem kom nálægt mjaðmaaðgerðinni minni á fjörutíu ára afmælisdaginn hennar Rósu, og allt fyrir utan þessar 400 krónur borgaði sænska ríkið. Rósa kallaði það afmælisgjöfina frá sænska ríkinu. Við Rósa og Pétur og Valdís erum ekki nýsk á að borga skatt. Við fáum mikið fyrir hann. Hins vegar mun ég samkvæmt góðum ráðum nota hækjurnar enn í einar fjórar vikur til viðbótar.

Þjóðfundur og framtíð mannkyns

Kannski er ég meira gamaldags en gengur og gerist og ætti þá jafnvel að hafa vit á að fara mátulega hljóðlega með það. En nú þegar ég las í morgun frétt í íslensku blöðunum um þjóðfund, þá fannst mér sem ég gæti látið alla vega þá sem hugsanlega lesa þetta blogg vita hvernig minn gamaldags hugsunarháttur lítur út.

Ég byrjaði að vinna í Vornesi í febrúar 1996 og þar sem við bjuggum þá í Falun sem er í 240 km akstursfjarlægð frá Vornesi bjó ég þar alla þá virku daga sem ég vann. Þetta þýddi að ég fór í flestum tilfellum heim á föstudögum og fór til baka á sunnudagskvöldum eða mánudagsmorgnum. Fyrri hluta árs 1996 skiptum við um sjónvarp. Normandi tækið sem við keyptum í Hríesy var þá orðið 16 ára að ég held, og nú fengum við nýmóðins Sony tæki. Ég fann engan mun á gamla Normandi tækinu og nýmóðins Sony tækinu annan en þann að það var hægt að lesa textavarp í Sony. Það uppgötvaði ég þó ekki fyrr en löngu seinna. En nú bar vel í veiði. Ég bjó einn í húsi í Vornesi lengi vel og þess vegna fór ég með gamla Normandi þangað og gat nú horft á sjónvarp að vild þegar ég var ekki að vinna. Ég horfði í fyrsta lagi á fréttir því að í þessum nýja landshluta, Södermanland, var margt nýtt að sjá og var ég mikið á gönguferðum eða að ég fór í smá bíltúra á kvöldin til að sjá mig um.

Í fréttum hér var mikið talað um atvinuleysi árið 1996. En það komu líka fréttir um þær miklu framfarir í Norrköping að pósturinn væri kominn með tölvu til að lesa sundur póst og þar með væri hægt að segja upp 14 manns. Út frá ágóðasjónarmiði fyrirtækis gat ég skilið að þetta væri framför en alls ekki út frá sjónarmiði þeirra sem misstu vinnuna. Þessi frétt var svo endurtekin nokkrum dögum síðar en ég gat samt ekki skilið, -ekki til fullnustu. Þetta horfði ég á í 16 ára gamla sjónvarpinu sem flutt var til Svíþjóðar frá Hrísey. Síðan árið 1996 hafa komið þúsundir frétta um tækni sem gerir kleyft að segja upp fólki.

Þegar kreppan skall á, kreppa sem ég hef svo sem ekki orðið var við á annan hátt en að íslensku greiðslurnar okkar Valdísar eru nú bara hálfvirði, töluðu stjórnmálamenn hér í landi um lausnir. Forsætisráðherrann sagði eitt sinn, eða oft, í sjónvarpsviðtali að bjartsýni fólks þyrfti að aukast aftur svo að neyslan færi í gang og auka þyrfti framleiðsluna. Þá ykist vinnan og þá ykist kaupmátturinn og þá ykist neyslan enn meira og framleiðslufyrirtækin færu á fullt á ný.

Allir sem fylgjast með vita að ef allir jarðarbúar lifðu eins og við vesturlandabúar gerum, þá þyrftum við nokkrar jarðir til viðbótar til að geta skaffað hráefni og mat til neyslunnar og þá er enn óleyst hvað gera skal við allan úrganginn hvort sem það eru hálf notuð sjónvörp, bílar, heimilistæki eða útblássturinn frá bílunum okkar með meiru. Öll jarðarinnar börn sem búa við lélega heilsugæslu, samgöngubresti, hungur, menntunarleysi og allt mögulegt fleira vilja komast þaðan og nálgast þau lífsgæði sem við vesturlandabúar lifum við. En við ströndum bara á því að það er ekki hægt. Flestir þeir sem missa vinnuna vegna tækniframfara eiga kannski kost á nýrri vinnu ef þeir eru nógu duglegir. En hvað mneð getu jarðarinnar?

"Þjóðfundur um íslenskt þjóðfélag, endurmat þeirra grundvallargilda sem samfélagið er reist á og skýrari framtíðarsýn" . . . er yfirskrift Þjóðfundarins sem nú stendur yfir í Reykjavík. Ég vil undirstrika endurmat þeirra grundvallargilda sem samfélagið er reist á. Eftir því sem ég skil best hefur íslenski Þjóðfundurinn vakið heimsathygli. Ég vona að niðurstaðan verði svo mikilvæg að hún veki líka heimsathygli. Ég held að heimurinn þurfi þess með. Ég á fjögur barnabörn og þrjú þeirra eru ennþá varnarlaus gegn því sem við eldri aðhöfumst.


Ps
Normandi sjónvarpið varð 26 ára og bilaði aldrei. Mér fannst það alltaf jafn gott þar við sem unnum í Vornesi horfðum á það. Að lokum varð það fyrir og það var flutt í viðeigandi gám á haugunum. Nýja Sony tækið er orðið 13 ára. Til að koma máli mínu á framfæri hefði ég þurft mikið lengra blogg en þetta.

Góður hversdagsleiki

Ég varð svo hugfanginn af skóginum sem ég fór um í gær að ég þurfti að taka mig taki til að hafa ekki bloggið allt of langt í gær. Og ekki minna hugfanginn af því hvað ég er orðinn fíkinn í að ganga. Ég talaði um furur sem eru tveir til fjórir metrar á hæð og að þær eru svo fallegar í þeirri stærð. Það fékk mig til að taka myndavélina með í dag og staðfesta það sem ég sagði. En það dugði ekki með þessa einu gönguferð. Ég fór af stað aftur í gær og fór nú í þveröfuga átt við fyrri gönguferðina og hafði hug á að mæta sporunum mínum frá því fyrr um daginn. Ég virtist óstöðvandi, en skynsemin sagði að ég mætti ekki fara svo langt að ég kæmist ekki til baka aftur. Því sneri ég við fyrr en ég vildi og áður en ég mætti sporunum mínum eins og ég sagði áðan.

Að vera út í skógi er hrein lystisemd. Ég sé ekki alltaf langt, eða öllu heldur, sé oft voða stutt. En það er ekki málið. Hins vegar er líka alltaf gaman þegar komið er út úr skóginum og við blasir langt útsýni eða stöðuvatn sem er innrammað af háum skógi. Svona stöðuvötn eru mjög gjarnan spegilslétt og þá verður dýpi þeirra eins djúpt og himingeimurinn ofan við er hár. Þetta eru engin ný sannindi en það er bara svo heillandi. Þá er auðvelt að verða dreyminn, eða hugfanginn, eða aldeilis orðlaus. Mér líkar vel, ég vil ekki segja allra best, og þó. Stundum er alla vega allra, allra best að vera einn út í skógi, jafnvel þar sem ég sé minnst í kringum mig. Ef ég er í góðu jafnvægi verð ég einn með öllu þessu lifandi kraftaverki. Trjánum sem umlykja mig, skógargróðrinum, hérunum, músunum og dádýrunum sem lifa á því sem náttúran býður upp á. Þá skiptir engu máli þó að ég sjái ekki til fjalla í fjarska.

Birkir frændi minn á Selfossi sendir mér stundum myndir úr heiðunum ofan við Kálfafell. Í sumum tilfellum er sem ég hafi setið á steininum sem næstur er á einhverri myndinni og ég get fundið fyrir heimþrá þegar ég sé óheft útsýnið til allra átta. Svo kemst ég að þeirri niðurstöðu að ég mundi gjarnan vilja geta heimsótt þessar slóðir oftar en ég geri en ég vilji þó heldur búa þar sem gróðurinn er óendanlegur. Þegar ég kom fyrst í Dalina á miklu frostatímabili í febrúar 1994 fannst mér sem ég hefði verið þar áður. Ég var næmur fyrir umhverfinu þá, það man ég vel, ég sem hafði haft löngun til víðáttumikilla skóga allt frá unglingsárum. Þarna var ég kominn mitt inn í djúpa skógana eins og þeir gerast bestir í Dölunum. Tveimur árum síðar fór ég að vinna í Vornesi sem er 200 kílómetrum sunnar. Á þeirri leið er nánast órofið skógarsvæði á 80 kílómetra kafla. Mér leið alltaf vel þegar ég ók gegnum þetta skógarþykkni.

Myndavélin var með í dag og hér fyrir neðan eru nokkrar myndanna.


Víst er það landslag, eða hvað? Það er bara lifandi. Þessar ungu furur þöktu fleiri hektara en að baki þeim er hálf gamall skógur blandaður furu og greni. Hálf gamall skógur, kannski 60 til 80 ára. Sólvellir eru spölkorn hinu megin við hæstu trén sem greina má lengst frá fyrir miðri mynd.


Skógarbotn í nærsýn, svo ótrúlega fallegur þó að komið sé fram í nóvember.


Skógarbotn séð lengra til. Trén þarna eru bæði greni og fura. Svo var þarna ein ólánleg björk fyrir mér. Hefði ég verið frárri á fæti hefði ég farið yfir skurð sem er við vegkantinn til að ná betri mynd út í kyrran skóginn. Ég ákvað þarna að á þessum stað skyldi ég seinna, þegar ég er laus við hækjur, fara í rannsóknarferð um þetta heillandi svæði.


Þvílík fín fyrirsæt þessi stafafura (held ég) sem hefur vaxið eina 60 sentimetra á árinu og hvað hún brosti fallega við myndavélinni og mér. Meðan vaxtarsprotinn enn er jurtakenndur á furunum eru þeir eftirlætisfæða elgsins. Hann bara fær ekki betra. Og þó að allra, allra flestir beri mikla virðingu fyrir elgnum sjá skógarbændur eftir nýsprotunum í hann. Sagan segir að þegar fururnar eru orðnar of háar fyrir kálfana, þá beygi mæðurnar tréð þangað kálfarnir ná að bíta toppinn af.

Hversdagsleikinn tekinn við

Nú get ég ekki lengur bloggað um fjölskyldumót, börn og barnabörn því að við erum komin heim og hversdagsleikinn er tekinn við. Bara um leið og ég skrifaði orðið hversdagsleiki núna fékk ég á tilfinninguna að ég hefði oft á árum áður notað orðið grár hversdagsleiki. Það hreinlega dettur mér ekki í hug að gera núna. Hann verður ekki grár nema ég geri hann gráan sjálfur, alla vega ekki svo lengi sem ég held þokkalegri heilsu. Og meðan ég var verstur í mjöðminni fyrir aðgerð var hversdagsleikinn alls ekki grár.

Eftir gríðarlegan svefn í nótt ætlaði ég að laumast á fætur, kveikja upp í kamínunni, og laumast svo út í gönguferð. En Valdís varð mín vör og kom strax á eftir mér. Þar með varð það morgunverður fyrir gönguferð ásamt því að taka aðeins eftir því hvað veðurspáin sagði um næstu daga. Það er spáð um það bil 0 til 2 stiga hita fram á laugardag en á sunnudag er spáð hlýnandi hvernig svo sem það verður í reynd. Ég mundi ekki harma að það yrði hlýrra um skeið og það yrði svolítið þurrara um leið. Annars er allt í lagi með lágskýjað, svalt og rakt og fara bara í auka peysu í staðinn.

Að lokum lagði ég af stað í gönguferðina og ég var alveg með það á hreinu hvert ég ætlaði að fara. Það er þannig í þéttu, víðáttumiklu skóglendi að það getur tekið mjög langan tíma að kynnast sínu næsta nágrenni. Við höfum líka sinnt allt öðrum hlutum á Sólvöllum hingað til og lagt þetta til hliðar. En nú sinni ég engu öðru á Sólvöllum en að kynnast næsta nágrenni. Skammt norðan við bústaðinn, kannski 250 metra, liggur mjór skógarvegur til vinstri þvert á veginn okkar í þessari litlu byggð þar sem Sólvellir eru. Þennan veg hef ég ekki rannsakað svo mikið en nú hef ég næstum lagt hann undir mig og geng einhverjum hundruð metrum lengra dag frá degi. Eiginlega má segja að þessi vegur hefur heldur ekki boðið sérstaklega upp á að maður vilji ganga hann sér til ánægju. Í ágúst síðastliðnum gengum við Valdis nokkur hundruð metra inn á veginn með nokkrum hríseyingum sem þá voru í heimsókn, en eins og ég sagði, það var ekkert sérstakt sem lokkaði.

En nú er að verða breyting þar á. Undanfarna daga hefur verið stór dráttarvél með viðeigandi timburvagn með áföstum krana þarna á ferðinni. Maður um fertugt vinnur þarna við að flytja út úr skóginum við sem önnur vél felldi áður. Þetta er ekkert virkilegt skógarhögg, heldur nauðsynleg grisjun. Í raun sést ekki svo mikið að það sé verið að grisja. Það er eiginlega eins og skógurinn þynnist ekki, heldur verður hann snyrtilegri. Það er líka áhugavert að sjá hversu miklir viðarstaflar eru að myndast þarna við veginn, einungis frá þessari grisjun. Öll stærri tré standa eftir. En ef ég hugsa þetta útfrá gönguleiðarsjónarmiði, hvað þá? Jú, leiðin verður mikið skemmtilegri og það opnast skemmtilegur skógarbotn til að horfa inn í.

Ég stoppaði þar sem maðurinn á dráttarvélinni stoppaði þarna á veginum og bauð upp á spjallstund. Ég sló nú ekki hendinni á móti því. Hann staðfesti grun minn um að það væri Arnold nágranni sem ætti þennan skóg. Eins og ég hef sagt einhvern tíma áður á Arnold rúmlega 600 hektara skóg en við Valdís 6000 fermetra. Samt sagði Arnold einu sinni við mig að ég skyldi hlú að eikunum í MÍNUM SKÓGI. Hvað ég varð montinn. En við vorum þá þegar farin að hlú að eikunum í OKKAR SKÓGI og það má vel greina árangur þess nú þegar. Nú dett ég aftur og aftur út úr efninu. Það er svona að vera málgefinn. Þegar ég hafði gengið þennan mjóa skógarveg eina 700 metra, gæti ég trúað, þá greindist hann í tvo vegi eins og Y. Ég valdi hægri, ekki vegna þess að útrásarvíkingarnir voru hægri menn, svo hjálpi mér Guð, heldur vegna þess að þá byrjaði ég að ganga í skógi sem nálgaðist að vera bakvið Sólvelli. Þar hafði greinilega verið grisjað í fyrra eða hitteðfyrra og það gerði leiðina mikið meira aðlaðandi sem áhugaverða gönguleið. Vinstra megin við veginn voru nú aðallega furur af stærðinni 15 til 20 metrar í staðinn fyrir greni áður. Hægra meginn við veginn voru þéttvaxnar furur af stærðinni tveir til fjórir metrar, af þeirri stærð sem furur eru einna fallegastar. Fallegur skógarbotninn blasti vel við í hærri furuskóginum en var hulinn í þeim lága.

Þarna var ég búinn að ganga einum 400 metrum lengra en í gær og mál að snúa við. Og -mig grunar að þar sem ég sneri við hafi ég verið minna en háfan kílómetra austan við Sólvelli. Fyrir mér var þessi leið full af margbreytileika og ég hef grun um að þarna eigi ég eftir að vera oft á ferðinni lengi áfram. Næsta blogg mitt verður að vera framhald af þessu, en þangað til; góðar stundir.

Fjölskyldumót -lokaorð

Það virðist kannski nóg komið um þessa daga okkar í Stokkhólmi en lokaorð verða það nú samt. Þegar fjölskylda hittist ekki oftar en við gerum, og á ég þá sérstaklega við þau frá Vestmannaeyjum, þá verður að nota það út í ystu æsar í þau skipti sem það á sér stað. Valgerður er orðin vön Stokkhólmi en systurnar Guðdís og Erla minna. Í gær sagði ég að ég hefði farið með systurnar á safn en Valdís og Valgerður fóru hins vegar í smá verslunarferð í miðbæ Stokkhólms á sama tíma. Við tókum strætisvagn báðar leiðir til og frá safni og á leiðinni heim fór vagninn sem við vorum í einmitt um aðal miðbæjartorgið í Stokkhólmi, Sergilstorg. Og viti menn; hverjir komu ekki inn þar aðrir en Valdís og Valgerður. Þetta þótti systrunum nú aldeilis skemmtilegt, að hittast svona óvænt í strætisvagni í Stokkhólmi. En það átti sér líka stað annar svona atburður í Stokkhólmi. Þær mæðgur voru allar á ferðinni eftir einhverri gangstéttinni og hver kom ekki þar móti þeim annar en skólastjóri frá Vestmannaeyjum sem er kunningi þeirra. Það var ekki alveg það sem þær áttu von á. Já, það er gott að það ske skemmtilegir hlutir sem fólk á ekki von á.


Pétur á auðvelt með að gantast við þær systur og fá þær til að hlæja eins og sést á myndinni. Ég er ekki svo laginn við svoleiðis. Þær hljóta að hafa haft það með sér heim að Pétur er býsna skemmtilegur kall en afi og amma eru mikið eldri. Eins og ég talaði líka um í gær völdu þær að fara á deild á safninu þar sem sérstaklega eru sýndar uppfinningar kvenna. Þar er mynd af konu sem var húsmóðir á mannmörgu heimili í Suður-Svíþjóð um og eftir árið 1700. Það var einmitt þá sem kartöflurnar komu til Svíþjóðar og notuðust þær þá gjarnan sem skrautjurt segir þarna í texta. Á þeim árum notuðu bæði menn og konur púður og í púðrinu var arsenik. Það var kannski svo einstaklega umhverfisvænt. En þessi kona fann það út að það var hægt að gera púður úr kartöflum og það var víst mun heilnæmara eins og gefur að skilja. Smám saman fann konan líka út að það var hægt að borða kartöflur. En svo komum við kannski að því mikilvægasta, einmitt þá, þótt það láti undarlega í fyrstu. Það var hægt að gera bæði öl og brennivín úr kartöflum. Jahá, og hvað með það? Jú, þá var hægt að baka brauð úr korninu til að metta með svöng börn, konur og menn. Það þótti þessari miklu húsmóður mikilvægt og við getum líklega verið sammála. Það var held ég ekki spurning að þær systur áttuðu sig á boðskapnum í þessu og þær sáu að uppfinningar kvenna snerust meira um mjúku málin en karla um vélar og eitthvað sem var stórt í sniðum. Að vísu var það kona sem fann upp uppþvottavélina.

Ég hef grun um að þarna á myndinni sitji Valgerður við tölvuna og hafi sinnt um stund vinnunni heima í Vestmannaeyjum.


Hér er hún Erla að leika "Í bljúgri bæn" á blokkflautu sem Rósa átti þegar hún var á þeim aldri sem Erla er á þarna á myndinni. Þær mæðgur skildu svo blokkflautuna eftir til afnota fyrir Hannes Guðjón þegar þar að kemur. Þessi flautuleikur var hluti af skírnarathöfninni hans nafna míns.


Hann afi er ögn letilegur þarna í stólnum í baksýn og átti reyndar ekkert að vera með. Það er ungviðið sem ég er að sýna. Nafna mínum líkaði þessi stelling mjög vel og það var ekki slæmt að hvíla á örmum hennar Guðdísar frænku sem kom frá Íslandi til að heimsækja hann.

Eitt sem ég verð að segja um þær systur. Í gær, sunnudag, voru þær Valgerður og Úsha, sú sem þær gistu hjá, á stórri matarkynningu. En þær systur fóru í stóra verslunarmiðstöð, bara tvær, en verslunarmiðstöðin var að vísu tengd húsinu sem þær bjuggu í undir Stokkhólmsdvölinni. Þar dunduðu þær dá lengi og svo urðu þær svangar og fengu sér hamboregara. Ég hefði viljað vera fluga á vegg og fylgjast með þeim systrum prufa vængina i hinum stóra heimi. Ég vil geta þess að þær höfðu farsíma en fjári hefði ég orðið hræddur á þeirra aldri. Úff!


Þá getum við farið að loka þessu. Mæðgurnar frá Vestmannaeyjum eru kannski einmitt núna þegar ég er að ljúka við að skrifa þetta á mánudegi að koma um borð í Herjólf á leiðinn heim, en þær lögðu af stað frá Stokkhólmi í morgun. Við Valdís fórum heim í fyrradag, laugardag, og nú er Stokkhólmsfjölskyldan ein eftir í litlu íbúðinni sinni á Kungsholmen í Stokkhólmi. Ég þakka ykkur öllum fyrir þessa samveru sem ég ber í hjarta mínu núna þegar ég er að skrifa þetta og mun gera lengi, lengi framvegis.

Við Valdís erum komin á Sólvelli og við byrjuðum á því að kveikja upp í kamínunni sem núna er búin að gera húsið hlýtt eftir meira en viku fjarveru héðan. Valdís var hjá sjúkraþjálfara í morgun og var dauðþreytt þegar við komum hingað. Hún lagði sig þess vegna þegar við vorum búin að fá okkur góðan kaffibolla meðan kamínan sendi frá sér fyrstu hitageislana. En ég fór í all langa gönguferð og kom heim í myrkri. En nú er sem sagt hlýtt og bjart hér inni og gott að vera og una við minningarnar og smá sýsl. Á morgun verða gönguæfingar því að núna fer ég að setja kraft í fætur mína. Ég finn að ég er tilbúinn í það.

Eftir fjölskyldumót í Stokkhólmi

Nú er mál til komið að byrja aftur að blogga og ég ætlaði upphaflega að byrja þegar í morgun. En ég hef verið flakkandi um allt í huganum það sem af er degi og hreinlega ekki verið tilbúinn. Nú er ég sestur við bloggið og þá er von.

Það voru upplifunarríkir þrír dagar í Stokkhólmi af mörgum ástæðum. Ég get ekki látið vera að byrja að tala um yngsta barnabarnið, hann dótturson minn og nafna, Hannes Guðjón. Þetta var í fyrsta skipti sem ég hitti hann og fyrst svaf hann vært í vagninum sínum svo að ég varð að sýna þolinmæði og bíða þess að hann vaknaði. Já, og hvað á ég svo að segja. Það er langt síðan ég hef tekið svo ungt barn á arma mína og við nafni minn höfðum sex áhorfendur þegar ég tók við honum í fyrsta skipti. Það gekk vel og innan skamms tókum við tal saman og hjöluðum báðir. Hann hló líka fyrir afa sinn og það er alveg einstök tilfinninga að fá bros og til og með hlátur frá svona ungri og fallegri mannveru. Það er eins og það komist á samband sem ekki er nokkur leið að lýsa á blaði. Allir sem hafa reynslu af þessu skilja það og það verður að nægja.

Ég tala oft um þroska, orða það oft með því að segja "að verða fullorðnari". Ég held hreinlega að ég hafi verið þroskaðri nú fyrir barnabarn en ég hef verið áður og því voru áhrifin sterkari. Einnig að hún Rósa, yngri dóttir mín var orðin þetta fullorðin þegar hún fékk sitt fyrsta barn, það gerði einnig sitt.

Svo að Valgerður kom frá Vestmannaeyjum með systurnar tvær, Guðdísi og Erlu, það gerði þessa Stokkhólmsdaga ennþá mikilvægari. Það verður bara að viðurkennast að fjarlægðin gerir að við hittumst of sjaldan. Þó höfum við náð að hittast tvisvar á þessu ári þar sem Guðdís fermdist í vor.

Það var teklið mikið af myndum í Stokkhólmi og nú ætla ég að láta þær tala.


Síðasta daginn okkar Valdísar í Stokkhólmi, í gær, laugardag, var nafnið hans Hannesar Guðjóns staðfest, við getum kannski líka sagt að hann var skírður þó að enginn prestur væri viðstaddur. Í staðinn fyrir vatn fékk hann blómakrans á höfuðið. Eins og svo mörg önnur börn var hann ekki ekki alveg rólegur við þessa athöfn, en viti menn; svo sungu viðstaddir "Ó, Faðir, gjör mig lítið ljós" og Pétur lék undir á gítar. Þá varð hann svo undur rólegur. Ég verð nú að segja að þetta hafði áhrif á mig. Við vorum tíu þarna viðstödd, Rósa og fjölskylda, Valgerður og dætur, Elísabet vinkona þeirra í stokkhólmi og Embla dóttir hennar, og svo við Valdís.


En þó að hann yrði svona rólegur undir sálmasöngnum var alveg dásamlegt að hvíla sig á arminum hans pabba á eftir. Fyrsta barnið sem var skírt í þessum skírnarkjól var Valgerður og síðan mörg önnur börn, bæði í Hrísey og Reykjavík og meira að segja í Svíþjóð fyrir mörgum árum.


Þarna hvílir Hannes Guðjón á örmum Vestmannaeyjafjölskyldunnar, og sjáið minn mann, hann horfir beint inn í myndavélina og er hvergi banginn. Mikið var gaman að þið voruð hér Vestmannaeyingar. Daginn áður fór ég með systrunum á Tæknisafnið í Stokkhólmi. Við fengum kort af húsinu og þegar ég spurði þær hvort þær hefðu sérstakar óskir, þá svöruðu þær því til að þær vildu koma á deildina "Uppfinningar kvenna". Því skoðuðum við þetta um uppfinningar kvenna áður en við enduðum þessa safnheimsókn með hressingu á veitingahúsinu þar.


Nú snúum við okkur aftur að deginum hans Hannesar Guðjóns eftir útúrdúrinn um safnið. Hér eru þær Valgerður og Elísabet málvísindakona og vinkona Rósu og Péturs í Stokkhólmi. Elísabet er ekki bara vinkona þeirra, heldur mikið góð vinkona þeirra. Hún er líka Guðmóðir Hanneasar Guðjóns.


Vestmannaeyjasysturnar Erla og Guðdís ásamt Emblu dóttur Elísabetar Guðmóður Hannesar Guðjóns. Honum leið mikið vel á þessari gæru og því var svo vinsælt að taka myndir af honum þar. Hann talaði mikið og munnurinn sýndi mörg tilbrigði þegar hann tjáði sig og veifaði höndunum.


Amma og afi alveg grútmontin en reyna að fara vel með það. Ég skal bara viðurkenna að ég er orðinn svo tilfinningasamur með aldrinum að stundum verð ég að taka málhvíld til að jafna mig.


Þarna fengu pabbi og mamma hann til að hlæja og það var alveg ofsa gaman.


Þessi mynd var tekin daginn áður og ég held bara að hann sé þarna að enda við að segja: Mikið er alltaf gott að koma aftur og aftur til hennar mömmu.

Ef einhver skyldi vilja sjá fleiri myndir finnst mikið af þeim á myndasafninu hennar Valdísar
www.flickr.com/photos/valdisoggudjon

Haust

Hún Jenný veðurfræðingur var með veðurspána eftir níufréttirnar í sjónvarpinu í morgun -og hvílík spá. Þarna lagði hún hendina yfir Evrópu, allt frá Norðursjávarströndinni og niður til ítalíu og svo sagði hún með þungri röddu: Nú breiðir haustið sig yfir alla Evrópu. Svo fórum við Valdís í bæinn að útrétta smávegis og vorum þar á röltinu í klukkutíma. Þegar liðið var á þennan klukkutíma var farið að blása með leiðindum þar og skilti sem hafa verið til friðs allt sumarið og haustið stóðust ekki rokurnar. Þau ultu um koll sum hver og önnur leystust í sundur og spjöld og blöð fuku á nærliggjandi veggi. Ég stopppaði við og studdi mig á hækjurnar tvær en þá vildi húfan fara að fjúka af mér. Ekki þorði ég að sleppa svo mikið sem annarri hækjunni og ætlaði frekar að láta húfuna fara en fara sjálfur að velta um koll. Svo lygndi og ég slapp fyrir horn þar sem Valdís beið eftir mér og við komum okkur heim. Þegar heim var komið var logn komið á ný.

Þvílíkt orðalag hjá ungum veðurfræðingi þarna í morgun, og þar að auki var þetta kona. Bara burt með þig, eða eitthvað slíkt hugsaði ég og mér fannst þetta ónotalegt. Ég sem hef verið að velta því fyrir mér hvenær ég megi láta eftir mér að fara að hlakka til vorsins. Fjölskyldan okkar frá Vestmannaeyjum er í heimsókn í Stokkhólmi og meira að segtja þar, í borg sunda og skógi vaxinna eyja, á jafnvel að snjóa í dag og á morgun. Fólk heimsækir ekki Svíþjóð til að upplifa snjó og hálku. Hins vegar geta útlendingar haft gaman af því að koma til Íslands og upplifa misjöfn veður. Það var ekki ósjaldan ef maður beið eftir Hríseyjarferjunni á bryggjunni út í ey þegar veður gerðust leiðinlegust eftir vorkomuna, norðaustan all hvass, rigningarhraglandi og hiti fjögur stig, að fólk í regnfatnaði stóð frammi í stafni, skrækti og gól og skelli hló þegar ferjan stakk stefninu lengst niður og sjórinn gekk inn yfir bátinn. Þetta var fyrir þessa útlendinga algerlega ný veröld og þeim leið vel þarna meðan hríseyingar og aðrir landsmenn stungu sér í skjólið og ylinn niður í lúkar.

Hann Kjell vinur minn fór líka til Íslands í desember fyrir nokkrum árum og ég fékk sms frá honum meðan á heimsókninni stóð þar sem hann sagði: Ég er búinn að vera blautur í fæturna allan tímann. Svíar klæða sig vel til fótanna þykir mér, en skóbúnaður Kjell og ferðafélaga dugði ekki fyrir desemberveðrið þennan vetur. Svo kólnaði, sagði Kjell seinna, og stórhríðin lagði sig yfir byggðirnar kringum Hótel Esju svo að ekki sá nema stutt niður í Laugarneshverfið. Síðan kom lítil rúta og skyldi flytja svíana niður í Laugardagslaug. Hvílík fyrra þótti þeim að ætla að fara í útisundlaug í þessu veðri. Síðan lagði þessi rúta af stað og þræddi milli fastra smábíla og skrönglaðist til í snjósköflunum sem myndast höfðu á stuttum tíma á Reykjaveginum. Þegar í Laugardalslaugina var komið gengu þau inn um ákveðnar dyr og þar með inn í veröld sem þau vissu ekki að væru til.

Kjell sagði að hann hefði prufað einn af þessum heitu pottum en alls ekki þann heitasta. Þegar hann leit upp til himins sá hann brjálað veðrið geysa þar uppi og raunveruleikinn virtist algerlega hafa brenglast. Hálftímarnir liðu fljótt í þessu makalausa umhverfi en að lokum var mál að mæta aftur í litlu rútuna sem beið þeirra þarna úti í stórhríðinni. En viti menn; þegar þau komu út hafði hríðinni slotað og blautur snjór beið þeirra að trampa í þannig að svíarnir héldu áfram að vera blautir í fæturna. Kjell sagði þetta hafa verið mikla upplifun, upplifun sem hann alls ekki vildi vera án.

Hann talaði meira um þessa heitu potta. Það sat fólk í ennþá heitari pottum og honum fannst vafasamt að fólkið sæti þar vegna þess að það væri svo notalegt. Honum datt alla vega ekki í hug að leggja það á sjálfan sig. Ég man líka eftir þessu, að ég prufaði heitasta pottinn fyrir fjölda ára. Mér fannst það langt í frá því að vera notalegt en reyndi þó að aðlagast hitanum. Maður við hliðina á mér sagði að sér þætti sem vatnið mætti vera hálfri gráðu heitara. Ég lagði engan trúnað á þetta enda hafði hann varla sleppt orðinu þegar hann spýttist upp úr vatninu af þvílíkum krafti að handriðið fyrir aftan hann var langt fyrir neðan hann þegar hann flaug yfir það. Svo heitt var honum að það var ekki að tala um að rölta upp tröppurnar. Mér fannst þetta skemmtilegt en ég beið ekki svona lengi sjálfur. Ég tók mig upp úr pottinum meðan ég var fær um að gera það í rólegheitum.

Nú er komið að því að pakka niður fyrir Stokkhólmsferð á morgun. Ég held svei mér að það rætist úr veðrinu. Það gerði él áðan, um fjögur leytið, en nú er bæði logn og úrkomulaust. Þetta lítur bara vel út.

Íslensk tónlist

Í morgun þegar við borðuðum morgunverð var eitthvað kunnuglegt lag í útvarpinu. Ég að vísu skildi ekkert lengi vel, eða ekki fyrr en Valdís sagði að þetta leika þeir bara hvern einasta dag í Örebroútvarpinu. Jaaaaá! alveg rétt, sagði ég með síðbúinn fattarann, þetta var íslenska lagið frá söngvakeppninni í vor. En þetta er alveg rétt og ég skal viðurkenna alveg á stundinni að ég þekki ekki verðlaunalagið norska lengur, jafnvel þó að síðbúni fattarinn fengi hversu langan tíma sem helst. Það hlýtur bara að vera öfugt lag sem vann, eða hvað? Þegar Selma var númer tvö í keppninni og sænska lagið vann, þá var lag Selmu notað hér í fleiri ár á eftir. Að vísu var sænska lagið þá líka í gangi oft, oft og í mörg ár. En er ekki bara gaman að þessu með íslensku lögin. Þið sem kannski lesið þetta, látið það bara út ganga sem skemmtileg tíðindi sem það vissulega er.

Svíþjóðarfararnir lögðu af stað frá Vestmannaeyjum með Herjólfi klukkan fjögur í dag. Á morgun upp úr hádegi koma þær mæðgur svo til Stokkhólms svo að þá fer að lifna yfir þar í borg. Ekki verður fjörið minna þar þegar við Valdís komum þangað með tveggja hæða morgunrútunni frá Lindbergs á fimmtudagsmorgun. Valdís er búin að stjana svo mikið við mig að nú er tími til kominn fyrir hana að fá gista á hóteli og þurfa ekki að standa í morgunverðargerð, skúringum eða tiltekt. Og ekki er verra að hótelið er ekki nema 60 eða 80 metra frá útihurðinni hjá Rósu og Pétri.

Það er haust og það er svo undur hreint loftið úti og gönguferðirnar mín um Suðurbæjarengið í dag voru alveg makalaust hressandi. Við verðum ekki meira á Sólvöllum fyrr en eftir Stokkhólmsferðina. Ég verð líka að vera öðru hvoru á ferðinni hér heima því að það er verið að framkvæma svo mikið á rennsléttu Suðurbæjarenginu, gatnagerð og byggingarvinna, að ég verð að vera öðru hvoru þarna á eftirlitsferðum. Valdís fór hins vegar á klippistofu niður í bæ í dag og fékk hárið klippt og snyrt. Ég gerði þetta hins vegar fyrir helgi. Við verðum ekki illa til fara þegar við stígum af í Stokkhólmi á fimmtudaginn.

Fjöskyldumót framhald

Í gær hætti ég þar sem Kristinn dóttursonur, ellefu ára gamall, var kominn með lestinni frá Stokkhólmi upp í Falun og þaðan heim til okkar í Svärdsjö. Þar voru þá margir íslendingar og Kristinn varð fljótur að eignast þar vinkonu, hana Elísabetu Gísladóttur. Hann meira að segja fékk að sitja með henni einn dag í skóla. En svo var það þetta með dýr sem var svo yfirmáta spennandi. Við fórum út að keyra á skógsvegum án árangurs lengi vel fyrir utan svartan kött sem við sáum lámast yfir veginn og ekki vakti neinn fögnuð. Annað síðdegi vorum við á svipuðum slóðum og vorum að leggja af stað heim á leið þegar við komum í skógarrjóður þar sem lítil hæð var á hægri hönd. Og loksins. Þarna í hæðinni fékk Kristinn að sjá stóra elgskú með kálf. Hann réði sér varla fyrir kæti og ég held að við Valdís höfum líka verið álíka glöð yfir að þetta tókst. Í annað skipti vorum við á leið til Falun og völdum fáfarnari minni veg. Þarna eru dádýr sagði Valdís allt í einu úr aftursætinu. Við stoppuðum og gátum stutta stund horft á nokkur dádýr í þokkalegri fjarlægð. Þegar þeirri sýningu lauk leit Kristinn aftur í til ömmu sinnar og sagði: Mikið varstu nú góð amma mín að taka eftir þessu.

Við fórum með Kristin í það sem við kölluðum óvissuferð, stefndum á Björnparken, Bajarnargarðinn, langt norðvestur í Dölunum, og Rósa og Pétur voru einnig með. Innan skamms varð Kristinn leiður á þessari óvissudellu í okkur og var orðinn þungur á brún og röddin djúp og örg. Allt í einu tókum við eftir að hann snarlifnaði við, bara á einu andartaki, og sagði gerbreyttri röddu: Það er næst til hægri Pétur (ég held að Pétur hafi keyrt bílinn). Kristinn hafði séð vegskilti þar sem stóð Björnparken og þar var ör til hægri. Síðan sá hann marga skógarbirni og óvissuferðin varð góð.

Sumarið 1996 var ég að vinna í Vornesi þegar Valgerður kom í heimsókn með Guðdísi, en hvorugt okkar Valdísar hafði þá hitt hana áður. Á leiðinni heim eftir vinnutörn velti ég því fyrir mér hvernig það yrði að hitta þetta barnabarn. Skyldi hún vilja koma til mín og hvernig mundi okkur verða til vina? Þegar ég kom inn heima og heilsaði, þá þrýsti hún sér upp að mömmu sinni og leitaði vars. Hann var greinilega skrýtinn kallinn sem kom þarna. Margar lestir fóru daglega fram hjá húsinu sem við bjuggum í og Guðdísi fannst lestirnar spennandi eða hreinlega að við gerðum henni þetta spennandi. Við sögðum lest, lest og hún kom hlaupandi svo að við gætum lyft henni svo að hún sæi yfir svalahandriðið. Þegar Guðdís kom heim til sín eftir Svíþjóðarferðina vissi hún ekki að það var lest sem rúllaði eftir teinunum, við höfðum óvart kennt henni að það væri lest lest.

Erla mín, nú ert þú eftir, smiðurinn sem kom í heimsókn fyrir rúmlega tveimur árum. Þá komu öll systkinin í heimsókn, Kristinn með Karlottu kærustuna sína, Guðdís þá 12 ára og Erla 10 ára. Kristinn kom á Sólvelli og hjálpaði mér að rífa utanhússpanel af vegg, vegg sem þá var orðinn undir þaki vegna viðbyggingar. Erla sagðist vilja hjálpa líka og hún greip hamar og fór að naglhreinsa. Það gekk kannski ekki eins og hjá smið til margra ára en eitt er víst; hún gaf sig ekki. Svo sýndi hún afa og ömmu hvernig maður fer í splitt.

Þarna voru þær systur sem sagt Guðdís og Erla verðandi unglingar. Það var í fyrsta skipti sem þær tóku eftir fólki, landslagi, náttúru og fleiru sem fullorðnir taka kannski frekar eftir. Þær voru búnar að fá dýraáhugann sem bróðir þeirra hafði haft 13 árum áður þegar hann kom í heimsóknina til Svärdsjö. Þær hrifust af víðaáttumiklum ökrunum sem mikið er af í landbúnaðarhéraðinu þar sem Sólvellir eru. "Mikill morgunverður hér" sögðu þær þegar við fórum framhjá þessum ökrum og þá voru þær farnar að meta akrana í heitum hafragraut og fersku brauði. Svo fóru þær nokkrum sinnum með okkur um Sólovallaskóginn og voru forvitnar um trjátegndir og annað sem fyrir augu bar. Já, það var skemmtileg heimsóknin þeirra sumarið 2007.

Eitt atriði enn um þá heimsókn. Annelie vinkona Valdísar á synina Adam og Samúel og þeir eru á svipuðum aldri og þær systur. Hún kom með synina til að veita systrunum frá Íslandi svolítinn félsagsskap og hafði talað um það við þá á leiðinni að vera nú skemmtilegir við íslensku stelpurnar. Svo komu þau út úr bílnum og bræðurnir reyndu dauðfeimnir að fela sig bakvið mömmu sína. Það tók hún ekki í mál en feimnir voru þeir samt og svo urðu íslensku stúlkurnar feimnar líka. Þau stóðu öll fjögur og horfðu steinhljóð hvert á annað og enginn vissi hvernig ætti að brjóta þennan hræðilega múr. Allt í einu fléttaði Guðdís saman fingurna og sneri svo upp á handleggina en Erla fleygði sér á jörðina og fór í splitt. Yngri bróðirinn hoppaði upp og lét sig svo detta á rassinn en hinn benti á hann og rak upp tröllahlátur. Svo varð öllu léttara yfir samkomunni. Fyrirgefið Guðdís og Erla að ég segi svona frá þessu, en þetta var bara reglulega sniðugt og svo undur eðlilegt.

Hér með líkur þessum annálum af barnabörnum í heimsóknum í Svíþjóð en síðar koma nýir annálar eftir nýjar heimsóknir
RSS 2.0