Hversdagsleikinn tekinn við

Nú get ég ekki lengur bloggað um fjölskyldumót, börn og barnabörn því að við erum komin heim og hversdagsleikinn er tekinn við. Bara um leið og ég skrifaði orðið hversdagsleiki núna fékk ég á tilfinninguna að ég hefði oft á árum áður notað orðið grár hversdagsleiki. Það hreinlega dettur mér ekki í hug að gera núna. Hann verður ekki grár nema ég geri hann gráan sjálfur, alla vega ekki svo lengi sem ég held þokkalegri heilsu. Og meðan ég var verstur í mjöðminni fyrir aðgerð var hversdagsleikinn alls ekki grár.

Eftir gríðarlegan svefn í nótt ætlaði ég að laumast á fætur, kveikja upp í kamínunni, og laumast svo út í gönguferð. En Valdís varð mín vör og kom strax á eftir mér. Þar með varð það morgunverður fyrir gönguferð ásamt því að taka aðeins eftir því hvað veðurspáin sagði um næstu daga. Það er spáð um það bil 0 til 2 stiga hita fram á laugardag en á sunnudag er spáð hlýnandi hvernig svo sem það verður í reynd. Ég mundi ekki harma að það yrði hlýrra um skeið og það yrði svolítið þurrara um leið. Annars er allt í lagi með lágskýjað, svalt og rakt og fara bara í auka peysu í staðinn.

Að lokum lagði ég af stað í gönguferðina og ég var alveg með það á hreinu hvert ég ætlaði að fara. Það er þannig í þéttu, víðáttumiklu skóglendi að það getur tekið mjög langan tíma að kynnast sínu næsta nágrenni. Við höfum líka sinnt allt öðrum hlutum á Sólvöllum hingað til og lagt þetta til hliðar. En nú sinni ég engu öðru á Sólvöllum en að kynnast næsta nágrenni. Skammt norðan við bústaðinn, kannski 250 metra, liggur mjór skógarvegur til vinstri þvert á veginn okkar í þessari litlu byggð þar sem Sólvellir eru. Þennan veg hef ég ekki rannsakað svo mikið en nú hef ég næstum lagt hann undir mig og geng einhverjum hundruð metrum lengra dag frá degi. Eiginlega má segja að þessi vegur hefur heldur ekki boðið sérstaklega upp á að maður vilji ganga hann sér til ánægju. Í ágúst síðastliðnum gengum við Valdis nokkur hundruð metra inn á veginn með nokkrum hríseyingum sem þá voru í heimsókn, en eins og ég sagði, það var ekkert sérstakt sem lokkaði.

En nú er að verða breyting þar á. Undanfarna daga hefur verið stór dráttarvél með viðeigandi timburvagn með áföstum krana þarna á ferðinni. Maður um fertugt vinnur þarna við að flytja út úr skóginum við sem önnur vél felldi áður. Þetta er ekkert virkilegt skógarhögg, heldur nauðsynleg grisjun. Í raun sést ekki svo mikið að það sé verið að grisja. Það er eiginlega eins og skógurinn þynnist ekki, heldur verður hann snyrtilegri. Það er líka áhugavert að sjá hversu miklir viðarstaflar eru að myndast þarna við veginn, einungis frá þessari grisjun. Öll stærri tré standa eftir. En ef ég hugsa þetta útfrá gönguleiðarsjónarmiði, hvað þá? Jú, leiðin verður mikið skemmtilegri og það opnast skemmtilegur skógarbotn til að horfa inn í.

Ég stoppaði þar sem maðurinn á dráttarvélinni stoppaði þarna á veginum og bauð upp á spjallstund. Ég sló nú ekki hendinni á móti því. Hann staðfesti grun minn um að það væri Arnold nágranni sem ætti þennan skóg. Eins og ég hef sagt einhvern tíma áður á Arnold rúmlega 600 hektara skóg en við Valdís 6000 fermetra. Samt sagði Arnold einu sinni við mig að ég skyldi hlú að eikunum í MÍNUM SKÓGI. Hvað ég varð montinn. En við vorum þá þegar farin að hlú að eikunum í OKKAR SKÓGI og það má vel greina árangur þess nú þegar. Nú dett ég aftur og aftur út úr efninu. Það er svona að vera málgefinn. Þegar ég hafði gengið þennan mjóa skógarveg eina 700 metra, gæti ég trúað, þá greindist hann í tvo vegi eins og Y. Ég valdi hægri, ekki vegna þess að útrásarvíkingarnir voru hægri menn, svo hjálpi mér Guð, heldur vegna þess að þá byrjaði ég að ganga í skógi sem nálgaðist að vera bakvið Sólvelli. Þar hafði greinilega verið grisjað í fyrra eða hitteðfyrra og það gerði leiðina mikið meira aðlaðandi sem áhugaverða gönguleið. Vinstra megin við veginn voru nú aðallega furur af stærðinni 15 til 20 metrar í staðinn fyrir greni áður. Hægra meginn við veginn voru þéttvaxnar furur af stærðinni tveir til fjórir metrar, af þeirri stærð sem furur eru einna fallegastar. Fallegur skógarbotninn blasti vel við í hærri furuskóginum en var hulinn í þeim lága.

Þarna var ég búinn að ganga einum 400 metrum lengra en í gær og mál að snúa við. Og -mig grunar að þar sem ég sneri við hafi ég verið minna en háfan kílómetra austan við Sólvelli. Fyrir mér var þessi leið full af margbreytileika og ég hef grun um að þarna eigi ég eftir að vera oft á ferðinni lengi áfram. Næsta blogg mitt verður að vera framhald af þessu, en þangað til; góðar stundir.


Kommentarer
Rósa

Við Pétur fórum þessa leið (að vísu fórum við til vinstri við ypsilonið, eins og vinstrafólki sæmir) og þetta er heillangt. Duglegur þú að fara í langa gönguferð.



Kveðja,



R

2009-11-11 @ 19:56:57
Guðjón Björnsson

Nú geng ég lengra og lengra

lengra í dag en í gær.



En ég gaf skýringu á hægri sveiflunni

2009-11-12 @ 00:20:42
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0