Áin sem hvarf

Það var farið að líða á sumarið 2015 og við Susanne vorum á leið upp í Norrland, eitthvað sem mig hafði dreymt um flest árin mín í Svíjóð. Nú var það að verða að veruleika. Þetta var í fyrsta  skipti sem ég kom norður fyrir það sem heitir Orsa í Dölunum og nú vorum við að fara svo mikið lengra norður á bóginn. Ég hafði heyrt mikið um Norrland, lesið um það og skoðað ógrynni af myndum þaðan og nú var ég á leiðinni þangað, barnalega eftirvæntingarfullur.
 
Susanne sat undir stýri og við héldum áfram frá Noppikoski sem er mitt í 120 km breiðum skógunum milli Orsa í Dölunum og Sveg í Härjedalen þegar Susanne sagði; nei þarna er orkuver. Við ákváðum umsvifalaust að sjá þau mannvirki sem þar væri að finna og eftir fáeina kílómetra eftir mjóum og bugðóttum afleggjara vorum við komun á staðinn.
 
 
Þegar við gengum út á stífluna sem heldur uppi frekar litlu lóni varð mér litið niður eftir þurrum árfarvegi, nákvæmlega þeim sem sést á myndinni, og þá varð ég fyrir mjög merkilegri endurupplifun á nokkru sem skeði fyrir einum fimm áratugum síðan.
 
Í íslenskum fréttum var sagt frá baráttu fólks móti byggingum orkuvera í Svíþjóð. Fólkið hópaðist saman á byggingarsvæðunum og stóð almennt í vegi fyrir framkvæmdum. Á nóttunni keðjaði það sig fast við grjóthnullunga og við stórar vinnuvélar og tókst auðvitað að tefja fyrir, en orkuver voru byggð eigi að síður. Ég sem ungur maður skildi ekki almennilega um hvað þetta snerist og í minningunni finnst mér sem það kæmi ekki skírt fram en ég velti því mikið fyrir mér.
 
Þar sem við stóðum þarna á stíflunni og ég horfði niður eftir þurrum jarðveginum rann þetta allt upp fyrir mér. Mér fannst sem það hefði verið einmitt hér sem baráttan fór fram og ég skildi á einu augnabliki fyrir hverju fílkið hafði barist. En samt sem áður var gamla laxveiðiáin með tilheyrandi fjölbreyttu lífríki horfin.
 
Hún var bara hreinlega með öllu horfin og eftir stóð þurr og rauðbrúnn, grýttur farvegur annars vegar þar sem yfirfallsvatn virtist renna þegar svo bar undir, og svo farvegur þar sem skógargróður hafði haslað sér völl. Við höfum komið tvisvar sinnum þarna með fárra ára millibili og í bæði skiptin leit það út eins og myndin sýnir.
 
Þetta var framkvæmt fyrir rúmlega 50 árum og ég verð að segja að ég skil báða aðilana, þá sem börðust fyrir uppbyggingu raforkuvera og þá sem börðust fyrir tilvist laxveiðiárinnar með tilheyrandi lífríki.
 
 
 
 
Uppistöðulónið fyrir Noppikoski orkuverið. Stórt eða ekki stórt, ég get ekki borið sagt um það.
 
 
Það má greina að þessi mannvirki eru ekki alveg ný af nálinni.
 
 
Noppikoski er kapituli út af fyrir sig. Í 120 km breiðu skógunum milli Orsa og Sveg er afar lítil sjáanleg byggð í nánd við veginn. En fast við veginn er þó þetta litla veitingahús ásamt bensínstöð og til og með hleðslustöð fyrir rafmagnsbíla. Þar höfum við Susanne líka fengið góðan mat.
 
What do you want to do ?
New mail
 
What do you want to do ?
New mail
RSS 2.0