Djúpar hugsanir sem ekki kláruðust

Ég rölti um heima í morgun, kveikti upp í kamínunni og lagði mig aftur. Ég horfði upp í hallandi þakið yfir rúminu minu og sökkti mér niður í djúpar hugsanir. Tuttugu mínútur yfir átta hringdi síminn og ég teygði út hendina eftir honum með það í huga að nú væri skemmtilegt símtal framundan. Ég leit á skjáinn á símanum og öll tilhlökkun hvarf á braut. Þegar símanúmerið sem hringir endar á 80 90 og klukkan er að ganga níu að morgni, þá veit ég að það vantar í vinnu, trúlega sama kvöld. Svo var það einnig í þetta skiptið. Hann heitir Erik og hann gekk beint til verks og spurðu hvort ég gæti unnið í kvöld. Ég sem hafði ekki komist að neinni niðurstöðu í mínum djúpu hugsunum og átti svo að rjúka af stað í vinnu.
 
Ég sagði nei, að ég gæti ekki unnið. Þá var ekkert meira með það og við lögðum á. Svo fékk ég samviskubit og hringdi til baka. Ég hafði alla vega sýnt fram á að ellilífeyrisþegi getur sagt nei. Ég sagði Erik að ég hefði getað breytt plönum mínum og ég skyldi koma og núna sit ég í Vornesi. Allir innskrifaðir sitja dagskrárpunkta núna sem þau stýra sjálf og ég fæ hálftíma sem ég get stýrt fyrir sjálfan mig.
 
Í dag spurði ég Katarína í eldhúsinu hversu hátt hitamælirinn mætti fara þegar ég steikti rostbiff og kjötið mætti ekki vera rautt. 75 til 77 gráður svaraði hún en vildi samt athuga það og fór inn í litla herbergið sem þær hafa inn af eldhúsinu. Hún kom um hæl til baka og sagði að þetta væri rétt, 75 til 77 gráður. Það er nú meira hvað þær eru hjálplegar í eldhúsinu þegar ég ráðgast við þær varðandi matargerð. Á ég að nota nokkuð annað krytt en pipar og salt spurði ég svo. Nú urðu þær tvær til að hjálpa mér og sögðu mér að gera það alls ekki, ekkert annað en pipar og salt.
 
Nú er tíminn sem ég ræð mér sjálfur liðinn og ég þarf að koma mér á réttan stað. Ég finn að það hefði verið afar mikið notalegra að vera heima. Suma daga er einhvern veginn erfiðara að fara í vinnu en aðra daga. Ég get ekki sagt að ég sé hér núna af sama góða vilja og ég vil vera. Svo þegar ég fer heim eftir hádegi á morgun verð ég sjálfsagt ánægður með framlag mitt. Það er ekki svo vitlaust að vera ellilífeyrisþegi og geta hlaupið í skarðið þegar á þarf að halda. Ég ætlaði meðal annars að kljúfa við í dag og raða upp í fallegar stæður en ef ég get stuðlað að því að barn fái heim heilbrigða mömmu eða pabba, þá má stæðan svo sannarlega bíða þangað til ég hef tíma. Ég hef jú allt lífið framundan til að dekra við viðinn.

Að þora að láta umheiminn sjá

Við Björn Jóhannsson vorum saman í Skógsskóla í einn vetur fyrir fimmtíu og sex árum. Að hann gerði vísur var af og frá að ég tel en svo hefur verið að sýna sig á síðustu árum að hann birtir oft á tíðum vísur sem hann gerir og alla jafnan eru vísurnar hans með djúpt innihald. Snemma í morgun fór ég ferð fram í baðherbergið og þegar ég kom til baka leit ég í tövuna og leit á nokkur efstu nöfnin á Feisbókinni. Þá las ég þetta ljóð sem Björn hafði birt seint kvöldið áður.
 
                                                     Sat í stofunni og horfði
                                                     á sumt eða ekki neitt.
                                                     Leitaði að ljúfu orði
                                                     langaði að nota það eitt.
                                                     Það orð kom ekki til mín
                                                     falið djúpt í huga mér
                                                     hugsa þó alloft til þín
                                                     því orðið var ætlað þér.
 
Svo hugsaði ég mikið um þetta ljóð, merkingu þess og kraft orðsins. Ég hugsaði líka um þau áhrif sem ljóðið hafði á mig. Svo sofnaði ég aftur um stund.
 
Já, hvort þetta var ekki kunnuglegt. Ég vil segja eitthvað en orðið kemur ekki en ef ég byrja að skrifa, þá getur orðið komið eftir nokkurn tíma, eða eftir margar skrifaðar línur -en oft alls ekki. Ég get baukað við verkefni mín hér á Sólvöllum, eða í vinnunni, eða þegar ég ek bílnum mínum, og þá kemur orðið. Ég ákveð að varðveita orðið og festi það í huga mér með myndum, með öðrum orðum og til og með með tilfinningum. Að kvöldi sest ég svo við tölvuna en orðið er ekki lengur til, eða ef til vill eins og Björn segir í ljóðinu; falið djúpt í huga mér. Og þá verður ekkert meira. Og jafnvel þó að ég muni orðið en hef tilfinninguna ekki lengur til staðar, þá verður heldur ekkert orð.
 
Ég vil ekki skrifa til að romsa upp úr mér staðreyndum, ég vil skrifa til að láta eitthvað flæða fram innan frá. Ég hef skrifað til að reyna að komast í gang án þess að komast í gang. Svo þegar ég les yfir og sé staðreyndarunu á skjánum. Þá gríp ég stundum fyrir andlitið og hendi svo því sem ég hef skrifað.
 
Ég kynntist honum Kristjáni Hálfdánarsyni fyrir tuttugu til þrjátíu árum síðan. Síðan sköruðust leiðir okkar Kristjáns ekki í árafjöld og ég hafði gleymt að ég hafði kynnst þessum hlýlega og prúða manni. En svo allt í einu fyrir nokkrum dögum birtist hann á Feisbókinni og nú erum við Feisbókarvinir. Nú man ég hann svo ákaflega vel eins og hann var. Hann býr í Danmörku. Í dag sagði Kristján að hann hefði verið að lesa bloggið mitt og að það hefði verið gaman að lesa það og ekki síst vegna þess að það hefði augljóslega verið skrifað frá hjartanu. Það var líka meiningin, annars hefði ég hent því.
 
 
"Andinn virðist hafa yfirgefið fólkið" segir í gamalli frásögn um nokkra aldraða munka og gyðingaprest. Þetta skrifaði ég fyrir nokkrum dögum og ég skrifaði einnig: "Og þannig er það með mig núna að andinn neitar alveg að koma en það er trúlega öllum að meinalausu."
 
Þannig skrifaði ég og svo skrifaði ég ekki meira þann daginn og ekki næstu daga á eftir vegna þess að orðið kom ekki. Þegar vinur minn Björn sat í stofunni vildi orðið ekki koma. Samt komu orð, önnur orð, og þegar hann raðaði þeim saman í ákveðna röð fengu þau mjög fallega meiningu. Mér finnst ég sjá hann fyrir mér með tregablandna ásjónu, hugsandi til þess sem hann vill segja orðið til, einhvers sem ekki er lengur meðal oss. Aðrir sjá kannski aðra merkingu, en þannig er það oft með orðið að sá sem notar það af snilld gefur okkur færi á að ætla því merkingu.
 
 "Gaurarnir", gæti ég trúað að sagt hafi verið um þessa mynd af einhverjum. Þarna vorum við ungir í Skógaskóla og Björn átti skinnjakka en ég fékk lánaðan skinnjakka. Við notuðum brilljantín og svo fórum við í myndatöku. Okkur þótti vissar stelpur betri og fallegri en aðrar stelpur en við spáðum ekki svo mikið í merkingu "orðsins" þá. Við notuðum hins vegar sum orð meira en önnur orð.
 
Svo slitum við Björn barnsskónum og gengum út í lífið og einnig stelpurnar sem voru berti og fallegri. Við héldum hvert í sína áttina. Við höfum hittst öðru hvoru gegnum lífið og einmitt við slíkt tækifæri tók stelpa sem hafði verið betri og fallegri þessa mynd af okkur. Við hittum báðir nýjar stelpur sem voru betri og fallegri en nú eru þær farnar þangað sem orðin ná ekki til þeirra. Því sitjum við stundum í stofunni heima og leitum að orðum. Fyrir okkur báða hefur "orðið" fengið merkingu sem við sáum ekki svo vel þá.
 
 
Það sem ég hef skrifað hér hef ég skrifað fyrir mig. Ég hef verið í ákveðnum heimi meðan ég hef skrifað þetta og nú er það skrifað og ég að mestu kominn til baka frá þessum ákveðna heimi. Eitthvað hefur átt sér stað innra með mér meðan ég var að skrifa og það var það sem ég sóttist eftir. Þessi skrif hafa því hvað mig áhrærir skilað gildi sínu og þess vegna gæti ég hent þeim. Að einu leyti hafa þau þó ekki skilað gildi sínu ennþá og það varðar að þora að láta umheiminn sjá þau. Með því að þora að láta umheiminn sjá þau hef ég gengið leiðina á enda.

Veikur eða hvað

Eiginlega hef ég verið að velta því fyrir mér hvort ég sé orðinn veikur. Ég hef nefnilega ekki bloggað í tólf daga og það er alveg á mörkum að mér finnist það í lagi. Þess vegna fannst mér sem það væri öruggast að blogga í kvöld ef það skyldi kannski koma í veg fyrir að ég yrði virkilega veikur. Ég veit hins vegar ekki almennilega hvað ég á að blogga um en ef ég byrja, þá kannski kemur eitthvað.
 
Í allan dag og seinni partinn í gær líka hef ég verið hálf svangur, jafnvel þó að ég hafi borðað. Mér hefur liðið eins og börnunum mínum leið þegar þau sögðu að sig langaði í eitthvað og svo þegar þau voru spurð hvað þau eiginlega langaði í, þá var svarið stundum "bara eikkað". Þannig hef ég verið að mig hefur langað í "bara eikkað".
 
Ég borðaði grjónagraut í kvöldmat sem ég gerði úr hrísgrjónum með hýði. Það er góður grjónagrautur og ég sauð mikið af honum og þessi grjón þarfa að sjóða í 40 mínútur. Það var því best að sjóða mikið í einu. Svo ætlaði ég að gera lummur úr afganginum. En það varð enginn afgangur þar sem ég stóðst ekki að klára grautinn og það var bara hluti af því að langa í "bara eikkað". Svo fór ég á AA fund í Fjugesta og á leiðinni þangað kom freistarinn til mín. Hann sagði að ég skyldi fara í kaupfélagið í Fjugesta eftir fundinn og kaupa "bara eikkað" gott til að borða þegar ég kæmi heim.
 
En fari ég á AA fund, þá gef ég ekki eftir svona vitleysu. Ég fór því ekki í kaupfélagið en þegar ég var hálfnaður heim hugsaði ég sem svo að það hefði verið vitleysa að fara ekki í kaupfélagið. Svo kom ég heim og gekk býsna ákveðnum skrefum að eldhúsbekknum og setti suðuhelluna upp á eldavélina. Síðan tók ég fram pönnukökupönnuna og setti á helluna og kveikti undir pönnunni. Síðan skál, hveiti, lyftiduft, egg, matarolíu, mjólk, smjör og allt sem til þarf til að baka hálfa uppskrift af pönnukökum. Svo bakaði ég pönnukökur og yndisleg angan fyllti húsið. Dásamleg kyrrð settist að bæði í líkama og sál
 
Svo þegar klukkan var níu settist ég við matarborðið með pönnukökudiskinn, kakó og títuberjasultu. Svo hélt ég veislu. Eftir fimm pönnukökur og næstum heilan kakóbolla tókst mér að stoppa. Ekki af því að ég vildi stoppa, heldur af því að ég fann að ég yrði að stoppa. Alveg er það merkilegt að vera á mínum aldri og missa svona stjórn á hlutunum. Jahérnanahér.
 
 *          *          *
 
Einbúinn á Sólvöllum situr ekki auðum höndum nú frekar en endra nær. Nú vinn ég við að kljúfa við. Þetta er eiginlega í fyrsta skipti sem ég klýf við og er ánægður með allt sem að því snýr. Ég meira að segja klýf innanhúss. Hún Fanney Erla Antonsdóttir frá Hrísey sem býr í Ósló gaf mér bók í fyrra sem fjallar um að meðhöndla við með alúð og virðingu. Þessi bók hefur haft áhrif á mig. Einhver vill kannski segja að það sé best að búa á Íslandi og nota heitt vatn sem rennur upp úr jörðinni og losna þar með við að púla við viðinn. En að vinna með viðinn sinn af alúð er nefnilega menning
 
Í nýju viðargeymslunni minni eru básar. Á þessari mynd er bás 1. Ég er liðlega hálfnaður við að fylla hann. Ég er að kljúfa við frá því sumarið 2013. Það á að kljufa við sem fyrst eftir að trén eru felld en hann Håkan fyrrum vinnufélagi minn kenndi mér að ef ég þyrfti að fella tré en hefði ekki tök á að kljufa, þá skyldi ég alla vega brytja stofnana niður. Það sem ég er að kljúfa núna brytjaði Pétur tengdasonur niður fyrir mig. En það sem Håkan sagði hefur mér tekist að hafa að leiðarljósi síðustu tvö árin og ég gat geymt kubbana undir þokkalegu þaki. Nú er þessi viður skraufa þurr og ég er búinn að kynda með honum svona til prufu. Það er alveg dásamlegt. Það er auðvelt að kveikja upp og það slær ekki niður, engin lykt í húsinu og allt er bara gott. Horfa á líflega logana leika bakvið glerið í hurðinni og njóta þess að vera til.
 
Nú var ég búinn að nota þennan nýja við í þrjá daga en svo kom að því að klára gamla súra viðinn. Sá viður er búinn að sjá tímana tvenna, liggja of lengi úti og vera geymdur undir segli sem er léleg meðferð á eldiviði. Þá er ekki hægt að tala um að menningu. En þennan við verð ég að klára og svo aldrei að meðhöndla Sólvallaviðinn svona meir. Nú eru nýir tímar.
 
Þessi mynd er líka úr bás 1. Ég get orðað það þannig að ég er alveg himinlifandi með þetta. Það er notalegt að meðhöndla hvern einasta kupp með eigin hendi, með alúð og virðingu vitandi það að seinna muni þessi kubburinn og allir hinir koma til með að ylja mér og fleirum. Það er mér líka alveg sérstök ánægja að sumir þessara kubba eiga eftir að fara til Stokkholms og lýsa þar upp og ylja. Fjölskyldan sem fær þann við er líka búin að standa við bakið á mér í öllu sem ég hef gert hér á Sólvöllum og hefur einungis örvað mig til dáða. Það hefur enginn sagt að ég sé að gera neina vitleysu hér en þetta er bara fólkið sem hefur verið næst mér og því oftast komið við sögu. Þakka ykkur fyrir það Rósa og fjölskylda.
 
Þakka ykkur líka fyrir Valgerður og fjölskylda þegar þið hjálpuðuð mér, Árný mágkona mín og Gústi mágur og Ottó minn gamli nágranni með henni Dísu sinni. En þegar þið voruð hér var engin viðargeymsla sem kalla mætti höll. Þið verðið bara að koma aftur til að kynnast hér nýjum tímum.
 
Það var aldrei að það fæddist orðaflaumur þegar ég tók mig til. Jahérnanahér.

Batnandi manni er best að lifa

Ég heimsótti hann sögunarMats í morgun. Ég hef alltaf gaman af að hitta þann mann. Hann var í skóginum í gær að sækja sér tré til að saga niður í byggingarefni. Það er eitthvað sjálfbært við líf þessa manns. -Hvað hefurðu marga hektara af skógi? spurði ég hann. Og hann svaraði með sinni hógværu röddu -Þrettán hektara. -Nægir það þér þannig að þú klárar ekki skóginn. -Já þetta svo gömul tré að þau eru hætt að stækka. Eiginlega standa þau bara þarna og þorna.
 
Þá fór ég að skilja betur þennan gríðarlega styrk í viðnum hjá honum. Ég þarf að koma út í skóginn hans og sjá þessei gömlu tré. Væri Mats eins og meiri hluti skógareigenda sem vildi einungis hafa ríflegan ágóða væri hann búinn að fella allan skóginn og planta aftur trjám sem vaxa mikið hraðar en gamla grenið í skóginum hans. Það greni verður heldur aldrei sterkt og það er ekki erfitt að reka þriggjatommuna í slíkan við.
 
Sex metra langt borð hjá Mats, eins og tvö þau efstu eru á kerrunni, og 20 sm breitt og þar að auki meira en tommu þykkt, það eru borð sem síga í og ég ber bara eitt svoleiðis borð í einu jafnvel þó að ég lyfti tveimur.
 
Það var ekki bara til að gera Mats glaðan sem ég keypti við hjá honum í morgun. Nei, nú skyldi koma gólf í eldiviðargeymsluna mína. Í gær sagaði ég niður gangstéttarhellur og lagði þær sem undirstöður undir gólfið sem koma átti. Auðvitað notaði ég hallamál og réttskeið, múrskeið slaghamar og viðarklossa því að allt skyldi gert samkvæmt kúnstunum í mér.
 
Þetta gólf er að vísu ekki nema tíu fermetrar en það er helmingi stærra en öll gömlu viðarskýlin mín og þar að auki meira en helmingi hærra. Það nægir vel fyrir mig og þar að auki á ég eitt gott, lítið skýli sem ég tekið undir við ef ég vil. Hann sagði við mig í dag hann dóttursonur minn í Noregi að ég gæti látið fólk gista þarna ef á þyrfti að halda. Já því ekki það? Það verður alla vega gott loft þarna inni. Hægra megin er svo pláss upp á fjórtán fermetra og þar verður "Guðjóns litla trésmiðja".
 
Ég chattadi við hann Markku vin minn undir kvöldið þegar ég var búinn með þetta gólf. Markku sem er Finni og kyndir með eldiviði eins og ég, hann kann að fara með við. Hann virtist verða hissa þegar ég sendi honum þessa mynd og hann spurði hvað þetta eiginlega væri. Þegar ég var búinn að segja honum að þetta væri mynd af nýju viðargeymslunni minni hvarf hann alveg um tíma. Síðan hafði hann orð á því að það hlyti að verða heldri manna viður sem yrði geymdur í þessari geymslu. Sannleikurinn er sá að margur mundi vilja vera eigandi þessarar geymslu. En það er ekki það sem skiptir máli. Það sem skiptir máli er að mér þykir gaman að gera hlutina svona úr garði og mér þykir gaman að ganga um húsakynni sem ég hef unnið að með alúð.
 
Með það er kominn háttatími hjá mér. Á morgun er hreingerningadagur og annað kvöld byrjar helgi. Ég er nefnilega farinn að halda helgarnar hátíðlegar og án skítagalla. Næsta helgi verður líka haldin hátíðleg. Batnandi manni er best að lifa.

Þar sem góða veðrið ríkir flesta daga

Í gærmorgun sat ég við austurgluggann í svefnherberginu mínu og horfði á hæstu trjátopana eins og ég geri svo oft. Þó að þeir bæru hver i annann gat ég ekki séð að þeir bærðust. Svo leit ég á veðurspána og það átti að verða lélegt ferðaveður þegar liði á daginn. Því ákvað ég að skreppa í Marieberg til að versla áður en það bristi á. Í kaupfélaginu í Marieberg eigraði ég óvenju mikið fram og til baka vegna þess að nú ætlaði ég að kaupa öðruvísi en venjulega, öðru vísi síld, öðru vísi kartöflur, öðruvísi grænmeti og öðruvísi ýmislegt fleira. Nóg er nefnilega úrvalið í Mariebergskaupfélaginu.
 
Ég er  sá gallagripur að þegar ég hef keypt eitthvað sem mér líkar, þá vil ég gjarnan halda áfram að kaupa akkúrat það og ekkert annað. Þannig er það til dæmis með síldina í tveggja lítra fötunum. Þá kryddsíld er ég búinn að kaupa í tvö ár og ég er að verða leiður á henni. Þar sem það eru seldar einar fimmtán til þrjátíu sortir af síld á hillunum þar, þá er þetta auðvitað alveg óþarfi.
 
Þegar ég yfirgaf kaupfélagið með svolítið öðruvísi vörur í pokanum mínum og stórt granatepli til að hafa sem eftirrétt einhvern daginn, þá var reyndar komin alveg þokkaleg stórhríð og nokkurra sentimetra snjór. Þannig geta veður skipast í lofti og veðurfræðingarnir haft rétt fyrir sér. Þegar ég kom heim stóðu trjátopparnir alls ekki grafkyrrir lengur, þeir sveifluðust frekar mjúklega með sporöskjulaga sveiflum og frá þeim barst óveðursgnýr. En niðri á sjálfum Sólvöllunum var logn og tíu sentimetra djúpur snjór.
 
Ég skipti um föt og fór út í nýja húsið mitt til að negla upp panel á innsíðuna. Þriggja tommu saumurinn fékk gríðarlega festu í viðnum sem ég hafði keypt hjá honumm sögunarMats. Viðurinn sem Mats selur er nefnilega kjarnaviður, þungur og harður, og hamarshöggin dundu í byggðarlaginu. Í þeirri kyrrð sem ríkir jafnan í Krekklingesókn, þá finnst mér alveg nóg um þessi gríðarlegu hamarshögg og ég byrja ógjarnan snemma á morgnana þegar ég þarf að negla í þennan við. Ég þarf líka að hafa kúbeinið við hendina því að sumir naglanna kengbogna áður en þeir komast svo langt inn í harðan viðinn. Það er að vísu spurning að þegja yfir þessu.
 
Það hætti fljótlega að snjóa en veðurgnýrinn í skóginum hélt áfram en skógurinn hélt líka áfram af trygglyndi að  skýla Sólvöllum. Ég fann fyrir öryggi í þessum faðmi og það var gott að vera til. Ég smíðaði, útbjó góðan mat, baukaði eitt og annað og tíndi til föt fyrir morgundaginn. Mér ávannst óvenju mikið í gær og það hefur líka verið meiningin frá þrettándanum að komast á góða ferð ferð. Áður en ég lagði mig hafði helminginn af snjónum tekið.
 
Þegar ég var að sofna um miðnætti heyrði ég ennþá veðurgnýinn í skóginum og þegar ég vaknaði um fjögur leytið var það óbreytt. Klukkan átta var ég út í glugga og það hafði hljóðnað og trén bifuðust mjúklega og gátu nú hvílst eftir all nokkur átök. Fyrir löngu síðan hafði ég draum um að rækta skóg á stærstum hluta Íslands til að þar yrði gott veður flesta daga. Síðar hætti ég við það en reyndi að rækta skóg á einhverjum erfiðasta stað á norðurhveli jarðar sagði mikill skógræktarmaður á Íslandi í gamansömum tón.
 
Eftir gróðursetningardaga í Skógum þar sem fólk frá Tumastöðum í Fljótshlíð var til aðstoðar kom maður til mín og bauð mér vinnu á Tumastöðum þegar skóla væri lokið. Oft sá ég eftir því að hafa ekki þegið það en ég veit ekki hvað ég á að segja um það núna. Þá hefði ég ekki eignast þá fjölskyldu sem ég eignaðist og þá væri ég örugglega ekki þar sem ég er núna. Það fór best á því að það fór sem það fór og í staðinn fyrir að rækta skóg á stærstum hluta Íslands flutti ég þangað sem góða veðrið ríkir flesta daga vegna þess að skógur vex á stærstum hluta landsins.

Stundum er ég meiri Íslendingur en annars

Ég hef verið á flakki um héruðin austan við Örebro síðan í helgarbyrjun. Ég lagði af stað á laugardagsmorgun klukkan átta og ætlaði að láta klippa mig. Ég stillti mér upp við dyrnar til rakarans tuttugu mínútur fyrir níu og ætlaði að verða öruggur með að verða fyrstur í stólinn klukkan níu. Þegar ég hafði beðið í fimmtán mínútur las ég áberandi texta á dyrunum þess efnis að það væri lokað á laugardögum. Þá rann upp fyrir mér að það væri laugardagur og ég yrði ekki nýklkipptur á þessu ferðalagi mínu.
 
Þegar ég kom heim í gær, þremur dögum seinna, kom ég við hjá rakaranum og ætlaði að láta ferðalag mitt enda á því að verða vel klipptur. Þegar ég kom að dyrunum fannst mér vera fremur dimmt inni á rakarastofunni en ég lét samt á það reyna og tók i handfangið. Það var læst. Svo las ég aukablað sem hengt var innan á glerið í hurðinni og þar stóð að það væri lokað á þrettándanum. Ef ég get ekki skilið að það er þrettándinn þá get ég heldur ekki skilið að það sé lokað hjá rakaranum.
 
Reyndar finnst mér þetta allt í lagi þó að ruglingslegt hafi það verið. Ég var í vinnu í Vornesi á gamlársdag, á nýársdag og á annan í nýári. Þar virtist enginn af vinnufélögunum átta sig lengur á því hvaða vikudagur væri og gat ég þó verið pabbi þeirra flestra og elsti bróðir hinna. Yngra fólkið var ekkert betra en ég. Núna er ég heima og er að koma á röð og reglu í sjálfum mér og svo ætla ég að láta það koma fram í daglegu lífi mínu hér heima á næstunni.
 
 
Ég tók soðið hangikjöt með í ferðina, einnig flatbrauð og heimabakað rúgbrauð. Átta fullorðnir áttu að borða þetta sem hádegismat í Västerås. Ég get ekki sagt að ég hafi verið alveg rólegur. Ef fólk hefði ekki viljað borða þetta hefði hugmynd mín að þessum hádegisverði verið misheppnuð. En viti menn! Fyrst var fólk svolítið gætið þegar það setti á diskana en þegar til kom fóru allir einu sinni eða tvisvar til að fá sér meira. Það sagði allt sem segja þurfti.
 
Í hópnum var pólskur tónlistarmaður að nafni Kajtek sem hefur verið út um allan heim að spila tónlist. Hann hefur smakkað margan réttinn og honum þykir mjög áhugavert að prufa rétti ólíkra þjóða. -Veistu hver Halldór Pálsson tónlistarmaður er? spurði hann mig. Nei, ég vissi það ekki. -Hann hefur verið lengi í Svíþjóð, sagði Kajtek -og hann er mjög, mjög fær. Þegar ég hitti hann ætla ég að segja honum að reykt lambakjöt sé mjög, mjög góður matur.
 
Heimabakaða rúgbrauðið mitt þótti lostæti hjá yngri sem eldri og einnig flatbrauðið sem Guðrún mágkona og Páll bróðir sendu mér fyrir jól. Stundum er ég meiri Íslendingur  en annars.

Susanne og ég

Susanne vann áður hjá hátæknifyrirtækinu ABB og hún var líka áður fyrr rútu- og vörubílstjóri hjá “Sænska kvenlega bílstjórahópnum” sem er sjálfboðaliðahópur innan sænska hersins.
 
Síðan vildi hún reyna eitthvað nýtt í lífinu og lærði fjármálastjórnun. Eftir það kom hún auga á að það gaf henni mikið að hjálpa eldri sem búa heima. Því las hún til sjúkraliða. Eftir það vinnur hún í heimaþjónustunni í Västerås en sérmenntar sig ásamt vinnunni til almennrar heimahjúkrunar. Hún hefur áhuga fyrir að mennta sig ennþá meira til vera til stuðnings fyrir þá sem eru á lokastigum lífsins.

Það var stuttu eftir miðnætti þann 27. ágúst 2013 sem ég sat við tölvuna heima. Ég hafði unnið mikið og það var óreiða á öllu mögulegu heima hjá mér. Ég var að raða pappír í möppu, það var hljóðlátt heima, tregi í huganum og hugsanirnar liðu hjá. Það klikkaði í tölvunni og ég leit á skjáinn. Það höfðu komið skilaboð.
 
"Sæll Guðjón! Þú ert líka vakandi. Ég hef unnið kvöld og á erfitt með að komast í ró." Þannig hljóðuðu skilaboðin sem ég hafði fengið og milli orðanna sá ég sama trega og ég fann fyrir innra með mér. Þessi skilaboð komu frá Susanne.
 
Við hittumst áður þegar hún vann við afleysingarstörf í Vornesi, á skrifstofunni, sem bílstjóri, í eldhúsinu og með ákveðin samtöl við þá innrituðu. Við höfðum ekki hittst síðan þá, í sjö ár. Ég svaraði skilaboðunum frá henni og við skiptumst á nokkrum orðum þetta kvöld. Dagana á eftir las ég nokkrum sinnum hvernig samtal okkar byrjaði og ég var sannfærður um að við hefðum fundið fyrir því sama bæði tvö; trega og einmanaleika. Síðan leið hver vikan af annarri á vit hins liðna og urðu að mánuðum og það kom nýtt ár með nítjánda febrúar. Klukkan nálgaðist miðnætti. Það klikkaði í tölvunni.
 
"Sæll Guðjón! Hér er náttugla sem hefur hreinsað til í íbúð móður sinnar. Erfitt með allt þetta. Vona að þú munir eftir mér frá Vornesi." Það var aftur frá Susanne. Mamma hennar hafði yfirgefið heimilið endanlega og var flutt á heimili fyrir aldraða og hún hafði gengið frá íbúð hennar. Jú, ég mundi eftir henni frá Vornesi.

Þannig byrjaði það og skilaboðin urðu smám saman þéttari og orðaskiptin þróuðust hægt og rólega til þess að við byrjuðum að þekkja hvort annað á þann hátt sem við höfðum ekki gert áður. Kunningsskapur okkar sem síðar varð innileg vinátta byrjaði innan frá. Susanne bauð mér stað í hjarta sínu og ég játaði þakklátur inngöngu í þessa vistarveru sem hún bauð gætilega og af þeirri hlýju sem aðeins bestu manneskjurnar búa yfir. Hún var þroskaðri en ég þegar ný skref skyldu tekin en ég fylgdi henni þétt í sporin og hún játaðist því líka að vistast í hjarta mínu. Fyrst eftir þetta hittumst við og það var í fyrsta skipti í sjö ár.

Það var við dómkirkjuna í Västerås sem við hittumst og ég fann samstundis þegar við hittumst að nú þekktum við hvort annað á alveg nýjan hátt, innanfrá, og að innileg vinátta okkar var byggð á föstum grunni en ekki á sandi. Það var mjög gott að hittast og allt virtist vera rétt. Það hafði byrjað rétt, þróast rétt og fundur okkar var hlýr og virtist hárrétt áframhald af því sem þegar hafði þróast.

Þegar ég skrifa þetta sitjum við Susanne móti hvort öðru við matarborðið heima hjá henni og tilfinningarnar ólga innra með mér þegar ég skrifa þetta og hugsa gegnum liðna tíð. Við erum bæði nokkuð mótuð af atvikum lífsins og örlögum og það hefur þróðað okkur þannig að við höfum átt auðveldara með að hittast.
 
Susanne, ég þakka þér fyrir að þú tókst frumkvæðið og bauðst mér stað í hjarta þínu. Ég er mikið þakklátur fyrir að við náðum að hittast. Þú ert frábær manneskja.
 
Susanne þegar við hittumst við dómkirkjuna í Västerås. Myndin er tekin á kaffihúsi sem heitir Kalle På Spången, en Kalle På Spången er reyndar enginn annar en hann Kalli Kalli Kalli frá Hóli.
 
Á jólatónleikum með Roger Pontare i Vingåkerskirkju

Tapað og ekki fundið

Ég var búinn að skrifa frekar stutt blogg og setja inn í það þrjár fínar myndir. Svo leit ég aðeins til hliðar og þegar ég leit á tölvuskjáinn aftur var ekkert blogg þar lengur. Þrátt fyrir leit get ég ekki fundið tangur eða tetur af þessu bloggi þannig að það er greinilega týnt og tröllum gefið. Farið hefur fé betra að öllum líkindum. Trúlega hefur bloggið bara verið svo lélegt að ósýnileg hönd hefur séð ástæðu til að grípa inn í. Svo ekki meira um það.
 
Ég sit í matsal starfsfólks í Vornesi og bauka við tölvuna -en með litlum árangri að því er virðist. Ég vann í gær, gamlársdag, hef unnið í dag, nýáradag, og svo kem ég til með að vinna á morgun. Mér finnst ég vera býsna þarfur þjóðfélagsþegn að gera þetta og mér finnst einnig að ég geri ekkert betra með þessa helgi en að rétta út hendina til systkina minna í viðleitni sinni til að gera góða hluti. Eftir þessa vinnudaga er mögulegt að ég leggist í flakk um nærliggjandi héruð.
 
Skammdegið fer að láta undan síga næstu daga þannig að það merkist. Samt er hætt við því að vetur konungur muni setjast að um tíma og leggja kuldakló sína yfir láð og lög enda væri annað óeðlilegt. En það kemur ekki í veg fyrir að vorið nálgast og góðir tímar eru framundan.
 
Ég óska ölluim gleðilegs árs og þakka fyrir hið liðna. Megi okkur öllum vegna vel.
RSS 2.0