Veikur eða hvað

Eiginlega hef ég verið að velta því fyrir mér hvort ég sé orðinn veikur. Ég hef nefnilega ekki bloggað í tólf daga og það er alveg á mörkum að mér finnist það í lagi. Þess vegna fannst mér sem það væri öruggast að blogga í kvöld ef það skyldi kannski koma í veg fyrir að ég yrði virkilega veikur. Ég veit hins vegar ekki almennilega hvað ég á að blogga um en ef ég byrja, þá kannski kemur eitthvað.
 
Í allan dag og seinni partinn í gær líka hef ég verið hálf svangur, jafnvel þó að ég hafi borðað. Mér hefur liðið eins og börnunum mínum leið þegar þau sögðu að sig langaði í eitthvað og svo þegar þau voru spurð hvað þau eiginlega langaði í, þá var svarið stundum "bara eikkað". Þannig hef ég verið að mig hefur langað í "bara eikkað".
 
Ég borðaði grjónagraut í kvöldmat sem ég gerði úr hrísgrjónum með hýði. Það er góður grjónagrautur og ég sauð mikið af honum og þessi grjón þarfa að sjóða í 40 mínútur. Það var því best að sjóða mikið í einu. Svo ætlaði ég að gera lummur úr afganginum. En það varð enginn afgangur þar sem ég stóðst ekki að klára grautinn og það var bara hluti af því að langa í "bara eikkað". Svo fór ég á AA fund í Fjugesta og á leiðinni þangað kom freistarinn til mín. Hann sagði að ég skyldi fara í kaupfélagið í Fjugesta eftir fundinn og kaupa "bara eikkað" gott til að borða þegar ég kæmi heim.
 
En fari ég á AA fund, þá gef ég ekki eftir svona vitleysu. Ég fór því ekki í kaupfélagið en þegar ég var hálfnaður heim hugsaði ég sem svo að það hefði verið vitleysa að fara ekki í kaupfélagið. Svo kom ég heim og gekk býsna ákveðnum skrefum að eldhúsbekknum og setti suðuhelluna upp á eldavélina. Síðan tók ég fram pönnukökupönnuna og setti á helluna og kveikti undir pönnunni. Síðan skál, hveiti, lyftiduft, egg, matarolíu, mjólk, smjör og allt sem til þarf til að baka hálfa uppskrift af pönnukökum. Svo bakaði ég pönnukökur og yndisleg angan fyllti húsið. Dásamleg kyrrð settist að bæði í líkama og sál
 
Svo þegar klukkan var níu settist ég við matarborðið með pönnukökudiskinn, kakó og títuberjasultu. Svo hélt ég veislu. Eftir fimm pönnukökur og næstum heilan kakóbolla tókst mér að stoppa. Ekki af því að ég vildi stoppa, heldur af því að ég fann að ég yrði að stoppa. Alveg er það merkilegt að vera á mínum aldri og missa svona stjórn á hlutunum. Jahérnanahér.
 
 *          *          *
 
Einbúinn á Sólvöllum situr ekki auðum höndum nú frekar en endra nær. Nú vinn ég við að kljúfa við. Þetta er eiginlega í fyrsta skipti sem ég klýf við og er ánægður með allt sem að því snýr. Ég meira að segja klýf innanhúss. Hún Fanney Erla Antonsdóttir frá Hrísey sem býr í Ósló gaf mér bók í fyrra sem fjallar um að meðhöndla við með alúð og virðingu. Þessi bók hefur haft áhrif á mig. Einhver vill kannski segja að það sé best að búa á Íslandi og nota heitt vatn sem rennur upp úr jörðinni og losna þar með við að púla við viðinn. En að vinna með viðinn sinn af alúð er nefnilega menning
 
Í nýju viðargeymslunni minni eru básar. Á þessari mynd er bás 1. Ég er liðlega hálfnaður við að fylla hann. Ég er að kljúfa við frá því sumarið 2013. Það á að kljufa við sem fyrst eftir að trén eru felld en hann Håkan fyrrum vinnufélagi minn kenndi mér að ef ég þyrfti að fella tré en hefði ekki tök á að kljufa, þá skyldi ég alla vega brytja stofnana niður. Það sem ég er að kljúfa núna brytjaði Pétur tengdasonur niður fyrir mig. En það sem Håkan sagði hefur mér tekist að hafa að leiðarljósi síðustu tvö árin og ég gat geymt kubbana undir þokkalegu þaki. Nú er þessi viður skraufa þurr og ég er búinn að kynda með honum svona til prufu. Það er alveg dásamlegt. Það er auðvelt að kveikja upp og það slær ekki niður, engin lykt í húsinu og allt er bara gott. Horfa á líflega logana leika bakvið glerið í hurðinni og njóta þess að vera til.
 
Nú var ég búinn að nota þennan nýja við í þrjá daga en svo kom að því að klára gamla súra viðinn. Sá viður er búinn að sjá tímana tvenna, liggja of lengi úti og vera geymdur undir segli sem er léleg meðferð á eldiviði. Þá er ekki hægt að tala um að menningu. En þennan við verð ég að klára og svo aldrei að meðhöndla Sólvallaviðinn svona meir. Nú eru nýir tímar.
 
Þessi mynd er líka úr bás 1. Ég get orðað það þannig að ég er alveg himinlifandi með þetta. Það er notalegt að meðhöndla hvern einasta kupp með eigin hendi, með alúð og virðingu vitandi það að seinna muni þessi kubburinn og allir hinir koma til með að ylja mér og fleirum. Það er mér líka alveg sérstök ánægja að sumir þessara kubba eiga eftir að fara til Stokkholms og lýsa þar upp og ylja. Fjölskyldan sem fær þann við er líka búin að standa við bakið á mér í öllu sem ég hef gert hér á Sólvöllum og hefur einungis örvað mig til dáða. Það hefur enginn sagt að ég sé að gera neina vitleysu hér en þetta er bara fólkið sem hefur verið næst mér og því oftast komið við sögu. Þakka ykkur fyrir það Rósa og fjölskylda.
 
Þakka ykkur líka fyrir Valgerður og fjölskylda þegar þið hjálpuðuð mér, Árný mágkona mín og Gústi mágur og Ottó minn gamli nágranni með henni Dísu sinni. En þegar þið voruð hér var engin viðargeymsla sem kalla mætti höll. Þið verðið bara að koma aftur til að kynnast hér nýjum tímum.
 
Það var aldrei að það fæddist orðaflaumur þegar ég tók mig til. Jahérnanahér.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0