Snemmsumardagur á Sólvöllum.

Þessi dagur hefur bara verið góður þó að ég hafi verið með bílinn í þjónustu stóran hluta úr deginum og orðið af með helling af peningum. En þeir sögðu líka á verkstæðinu að bíllinn væri hér með fær í allan sjó í heilt ár ef ekki meira. Það gladdi mig og svo hélt ég heim á leið síðdegis. Eftir heimkomuna byrjaði ég á því að taka svolítið til úti við og síðan fór ég í gönguferð fram og til baka um Sólvallalandið. Fari ég um það í krókum og fram og til baka virðist það bara nokkuð stórt. Samt er það ekki einu sinni hektari.
 
 
 
Hlynurinn er það fyrsta sem grænkar svo um munar og hlynir setja mikinn svip heima við þegar setið er á veröndinni austan við húsið. Þeir eru sterkir og vindþolnir og vaxa hratt og beint ef ekkert er í vegi þeirra. Og svo eru þeir fallegir.
 
 
Beykitrén sem ég flutti frá Vingåker í Suðurmannalandi, í nágrenni við Vornes, árin 2006 til 2008 eru orðin að trjám. Ég veit ekki hver eru flutt hvaða ár þannig að nú segi ég að þau hafi öll verið flutt árið 2007. Ég hef haft mikla ánægju af þessum trjám og þótt fróðlegt að sjá hversu vel þau dafna. Eitt tré af 20 er dautt. Það er vel sloppið þar sem ýmsir töldu að þau mundu ekki lifa hér. Þetta tré er að nálgast tíu metrana.
 
 
Nærmynd af hengibjörkinni sem er búin að vaxa mjög hratt á einum tólf árum. Tvær til eru í pöntun og hlakka ég mjög til að þær komi og ég mun vanda þeim vel móttökurnar. Ég er löngu búinn að grafa fyrir þeim og setja góða mold í nýju heimkynnin þeirra.
 
 
Til vinstri heggur en það ber lítið á blómunum í kvöldsólinni. Til hægri er eik sem var nánast spíra, snúin og illa löguð, þegar við komum hingað. Þó að hún standi heim við húsið vissum við ekki af henni til að byrja með þar sem hún var umvafin reyniviði og greni sem voru að gera útaf við hana. Trén launa ríkilega allan velgjörning og þessi eik er orðin stórt og myndarlegt tré á ótrúlega stuttum tíma. Eikur eru að verða í algjörum meiri hluta trjáa á Sólvöllum. Það vantar mikið á að eikarblöðin séu búin að ná fullri stærð ennþá en samt eru þau orðin mjög falleg.
 
 
Það verða blóm á alparósinni í ár líka þó að hún hafi farið hálf illa út úr þurrkunum að áliðnu sumri í fyrra. Það verður að vanda gott að fá sér kaffibolla og kannski góða köku hjá henni þegar blómin verða sem fallegust.
 
 
Sannleikurinn er bara sá að bílar eiga ekki að vera í sjónmáli á svona stað. Til hægri eru hlynir sem ég hef gróðursett við vesturmörk lóðarinna til að skýla fyrir vestanátt, allt að skökku björkinni fyrir miðri mynd en hún er á lóð nágrannans. Allir hlynirnir eru sóttir út í skóginn utan sá sem næstur er. Hann er hins vegar ekkert betri þó að hann sé aðkeyptur. Moldarhaugurinn sem er nær í mynd er sameign mín og nágrannans sunnan við. Moldarhaugur sem er aðeins lengra frá er haugur sem er til kominn vegna vinnu sama nágranna við bílastæði fyrir fjölskylduna.
 
 
Hafið þið nokkurn tíma heyrt að húsi sé stillt upp þannig að það passi við tvö stór birkitré. Ef ekki þá hafði þið heyrt það núna. Ég veit að fólk sér að það er óslegið á Sólvöllum en það er að yfirlögðu ráði vegna mosa á lóðinni, bara svo að þið vitið.
 
 
Eplatré í blóma. Blómgunin eyðilagðist í fyrra eins og ég hef svo oft sagt þar sem um þetta leyti gerði hörkufrost á nóttunni. Núna er mikill hiti bæði daga og nætur og góður raki í jörðu. Því vænti ég mikillar berjauppskeru síðsumars og kannski verða nokkur góð epli í boði líka.
 
 
Hlynur aftur. Blöðin eru á að giska lófastór þessa dagana en eiga eftir að verða á stærð við undirskálar. Þá verður komið alvöru sumar. Það er virkilega gott að vera ellilífeyrisþegi á Sólvöllum og umsýslan við að halda þessu í horfinu og reyndar að fá á það betri mynd frá ári til árs heldur mér í formi. Samkvæmt farsímanum mínum geng ég fimm til tíu km á dag þegar ég er í þessu og mér líkar það betur en tækjasalurinn.
 
Ég tók þessar myndir núna undir kvöldið og samkvæmt þeim er mikill vöxtur á öllu. En á myndinni fyrir neðan má sjá að það er ekki allt í vexti á Sólvöllum. Það fór svolítið öðru vísi en ég ætlaðist til á rakarastofunni í dag en nú er ég alveg stór sáttur við útlitið.
 
 
 
 
 
 
RSS 2.0