Gamlársdagur á Sólvöllum í Krekklingesókn.

Er mögulegt að ég sé smáskrýtinn eða hvað? Ég sit einn heima og uni því vel. Mig vantar ekkert og ekkert gerir mig órólegan, mér leiðist ekki og ég á enga flugelda. Helst vildi ég að Susanne væri heima en það er bara ekki þannig. Við héldum okkar gamlársdag hátíðlegan fram til klukkan hálf þrjú þegar hún fór í vinnuna. Ég veit að hún býr yfir eiginleika til að fá skjólstæðingana til að finna sig í öruggum höndum á skammtímavistheimilinu þar sem hún vinnur. Þannig er það og svo get ég unað glaður við mitt.
 
Ég var á AA fundi í Fjugesta í gær og þar talaði ég einmitt um þetta að ég get unað glaður við mitt. Margt hefur skeð á lífseiðinni sem ég hefði óskað að hefði farið öðruvísi, sumt alvarlegt og annað minna alvarlegt. En ég lít þannig á að ég eigi að spila sem best úr því sem er, en ekki að gróa fastur í því sem fór á annan veg einhvern tíma áður.
 
Árið sem gengur til enda í kvöld er ár mikilla breytinga hér á bæ og í lífi mínu. Breytingarnar hér á bæ eru bara hálfnaðar eða svo en þær verða mjög góðar að lokum. Mér liggur ekkert á en mér er meira í mun að þessar breytingar verði sem bestar að lokum. Ég var í lítilli verslun í Fjugesta fyrir nokkrum vikum og sá eða sú sem afgreiddi mig óróaði sig yfir að þurfa að láta mig bíða eitthvað. Nokkrar manneskjur voru þar í kringum okkur og ég sagði að mér lægi ekkert á, ég hefði allt lífið framundan. Fólkið leit á mig og hló við. Ég horfði til baka til fólksins og hugsaði með mér í gamni; ætli þau haldi að ég sé orðinn gamall!
 
Árið hefur verið mér gott. Stundum hafa komið tregastundir og stundum sorgarstundir. Ég á auðvelt með að viðurkenna það og segja frá því. Svona stundir koma upp í lífi allra en fólk talar ekki svo mikið um það. En í heild hefur lífið verið mér gott og það er það sem ég met að verðleikum.
 
Ég hef heilsu sem er mér alveg ómetanlegt. Ég er með kviðslit og er búinn að vera all lengi en það hefur ekki verið svo alvarlegt. Aðallega er það svolítið leiðinlegt, sérstaklega þegar ég setst niður meðal fólks og það ropar hátt í kviðarholinu. Svo þarf ég stundum að leggjast á bakið til að fá hlutina þarna niðri til að fara á sinn stað. Ég er kominn á biðlista og mun fá þetta lagfært snemma á komandi ári. Mjaðmarliðurinn sem ég fékk fyrir rúmum sex árum virkar svo vel að ég man aðeins sjaldan eftir að ég sé með mjaðmarlið úr stáli. Ég á því láni að fagna að þegar eitthvað er að þá er það lagað og svo er það í lagi.
 
Það hefur verið óvenju lítið um heimsóknir á árinu en ég get líka lifað við það. Valgerður og vinkona hennar voru hér nokkrar nætur í vor og Rósa og fjölskylda voru hér nokkrar nætur í sumar. Á þessu ári hef ég reynt að klára sem mest en ég hef ekki byrjað á neinu nýju. Fólk hefur gjarnan spurt mig hvort ég sé ekki að byggja neitt núna en svo er ekki, ég er bara að vinna að hinum mörgu innansleikjum sem eftir eru og heildin sem mig hefur dreymt um svo lengi hefur komið nær og nær.
 
Ég get gefið dæmi um hvað ég hef verið að gera hér innan húss. Yfir hluta af íbúðarhúsinu er lágt loft sem ég hef ekki vitað almennilega hvað ég skal gera við. En nú er ég búinn að tæma þetta loft að mestu af öllumögulegu og allar bækur, á að giska ellefu lengdarmetrar af hillum, eru nú þar uppi. Við þetta opnaðist rými hér niðri og á næsta ári langar mig að fara með huggulega dýnu upp á loftið, liggja þar á henni og gera lista yfir bækurnar. Síðan vil ég geta gengið að þessum lista og valið mér bók að lesa, farið upp og sótt hana. Þegar ég flutti bækurnar upp sá ég að ég á mikið af góðum og fróðlegum bókum sem mig sárlangar að lesa. En ég hef allt lífið framundan til að gera þetta, hversu langur tími sem mér verður svo gefinn.
 
Ég þarf vart að geta þess að Susanne flutti inn á árinu. Þessi kona hefur reynst mér svo vel og verið mér svo góð að oft er ég alveg undrandi og að sama skapi afar þakklátur. Þetta er nokkuð stórt að segja frá og ég gæti auðveldlega sagt frá mörgu góðu þar sem hún hefur reynst mér vel. Ég reyni að vera góður til baka. Við vorum all mikið á ferðinni í sumar og ég sem hef oft gegnum árin bloggað um staði norður í landi sem mig hefur lengi langað að heimsækja, hitti allt í einu konu sem er að sama skapi veik fyrir stöðunum sem mig hefur dreymt um. Hún þekkir sig þar ótrúlega víða og ratar þar víða um án þess að þurfa að líta á landakort eða vegskilti. Hugur okkar stefnir þangað upp á nýju ári.
 
Í fyrri hluta janúar ætlum við til Rósu, Péturs og Hannesar Guðjóns. Við ætlum að taka með okkur lambalæri og fá Rósu og Pétur að matreiða það og þar með ætlum við að læra að gera þetta frábæra hráefni að góðum mat. Þetta er fyrsta ferðaáætlunin á nýju ári.
 
Nú er best fyrir mig að fara fram í eldhúsið og baka pönnukökurnar sem ég hef hugsað svo mikið um í dag. Við borðuðum góðan mat í dag, íslenskt lambakjöt sem mér tókst þokklega vel við að matreiða í leirpottinum hennar Susanne. Í kvöldmat ætla ég svo að hafa góða súpu og pönnukökur. Það er mjög vanalegur matur hér um slóðir á fimmtudögum.
 
Ég er vanastur og skrifa allt of mikið þegar ég byrja á annað borð. Held líklega að það sé svo merkilegt sem ég skrifa. Nú læt ég pönnukökurnar stoppa mig við skriftirnar og eftir pönnukökur les ég þetta yfir og ákveð þá hvort ég birti eða ekki.
 
Gleðilegt nýtt ár öll þið sem kíkið á þetta blogg og kærar þakkir fyrir allt sameiginlegt sem við höfum átt í lífinu. Susanne biður að heilsa.
 
Sólin er að ganga til viðar vinstra megin við grenitréð vinstra megin á myndinni. Ég held að ég fari rétt með að dagurinn í dag er tíu mínútum lengri en styttsti dagurinn var fyrir nokkrum dögum síðan.
 
Það eru margar myndir í skóginum um þessar mundir. Þetta birkitré er úti í vetrarmyrkrinu eina tíu metra frá veröndinni sem er utan við svefnherbergisgluggann minn þar sem ég sit núna.
 
Ég vil helst af öllu minnast sumarsins og ferð okkar Susanne upp til Jämtland. Þessi mynd er tekin frá útsýnisturni til norðurs frá Austursund. Þegar við komum þangað upp var mín fyrsta hugsun að við værum komin til útlanda.
 
Þessi mynd er tekin í fjöllunum í vestra Jämtland frá húsi sem við leigðum í fáeinar nætur á Kolåsen, allt of fáar nætur. Myndin er tekin í 500 m hæð yfir hafið og staðurinn er álíka norðarlega og Vestmannaeyjar. Hugur okkar er þegar farinn að beinast þangað aftur þegar við hugsum til komandi sumars.
 
 
Nálægt Kolåsen er kirkja sem nefnist Lappkapellen. Þar er lítill kirkjugarður og við hliðina á kirkjugarðinum er bekkur og á honum er skilti sem á stendur "Hugleiðslubekkurinn". Þar fengum við okkur auðvitað sæti á hugleiðslubekknum og tókum þessa mynd.

Bloggað á annan jóladag

Rúmlega hálf sjö í morgun vaknaði ég við að það plingaði í farsímanum mínum. Ég gáði og það var góðan daginn sms frá Susanne og um að hún væri nú að byrja að vinna. Það er regla hér á bæ að láta vita af sér og það er regla sem líka ríkti milli okkar Valdísar. Susanne vann til tíu í gærkvöld og átti svo að byrja svona snemma. Hún svaf því á vinnustaðnum í nótt. Eftir að hafa svarað henni sofnaði ég aftur.
 
Næst þegar ég vaknaði var klukkan langt gengin í níu. Það var notalega hljótt heima og það eina sem ég heyrði var lágt tif í klukku einhvers staðar á vegg. Eftir stund tók ég farsímann og opnaði. Ég sá að feisbókin hafði sent mér eitthvað frá sama degi fyrir ári. Ég gáði. Þá sá ég að ég hafði skrifað blogg um jól í fyrra og ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að gera það núna líka. En að skrifa um hvað? Svo flaug hugurinn af stað og ég sveif yfir víðáttur bæði í tíma og rúmi.
 
Ég var í Vornesi á þorláksmessukvöld. Þar var engin skata í matinn en það var góður matur samt sem var farinn að smakka jól. Ég tók blóðþrýsting hjá nokkrum á sjúkradeildinni. Kona sem var fjórum yngri en ég lá á bekknum og meðan ég setti mælirinn á arm hennar virti ég hana fyrir mér. Hún man fífil sinn fegri get ég sagt því að ég hef hitt hana nokkrum sinnum áður. Á árum áður rak hún lítið fyrirtæki í fjarlægu landi og var fjárhagslega frjáls, glæsileg, hraust og gerði spennandi hluti í lífinu. Nú lá þarna á bekknum skuggi þeirrar manneskju, rúin af öllu og heilsunni einnig. Hún var slitin, vansæl og þreytt. Þetta er það sorglega við vinnuna mína.
 
Næst kom á bekkinn kona sem gat verið lítið yfir tvítugt. Hún var ung og glæsileg en það fannst samt virkilega ástæða fyrir hana að koma til okkar í Vornesi, alla vega ef hún ekki vildi koma eftir fjörutíu og fimm ár og vera flöktandi skuggi af sjálfri sér eins og eldri konan á undan. Hún leit ekki út fyrir að vera farin að skaðast líkamlega af neyslu sinni. Við höfðum aldrei hittst áður. Ég spurði hana hvað hún ynni við þó að ég vissi ekki einu sinni hvort hún hefði vinnu. Ég er sjúkraliði og vinn á heimili fyrir fólk með alsheimer svaraði hún glaðlega.
 
Jahá, en hvernig er að vinna á svona stofnun, er það ekki erfitt spurði ég. Þessi unga kona varð eitt sólskinsbros og hennar fallegu augu urðu ennþá stærri. Hún sagði að það væri alveg stórkostlegt að vinna með fólk með alsheimer. Það væri skemmtilegt og mjög gefandi. Augnablikin þegar svona er sagt eru gleðinnar augnablik.
 
Daginn eftir kom ég heim rétt fyrir hádegi. Það var aðfangadagur og ég fann angan af jólamat mæta mér þegar ég nálgaðist húsið. Útihurðin var ekki alveg lokuð en til gamans hringdi ég dyrabjöllunni áður en ég gekk inn. Á móti mér kom Susanne með breitt bros á vör. Hún hafði opnað útihurðina svolítið til að ég skyldi finna betur að mér væri fagnað
 
Ég stend oftar við eldhúsbekkinn vegna þess að hún vinnur meira og er auk þess í skóla. Þarna var Susanne búin að vera í fríi í fimm daga og nú fannst henni sem hennar tími væri kominn og ég sá að hún naut þess að standa við eldhúsbekkinn. Annars kallar hún mig oft kallinn í eldhúsinu og ég kann því vel. Við höfum ýmis gamanyrði varðandi þetta sem eru einungis okkar. Eftir svona frí sem verður sex dagar samtals vinnur hún svo langa helgi. Frá föstudagssíðdegi til sunnudagskvölds vinnur hún rúmlega þrjátíu tíma. Þannig helgi er núna og svona er það á fjögurra vikna fresti. Það er þekkt í Svíþjóð að sjúkraliðar vinna mjög stranga vinnu fyrir lítil laun. Málsmetandi fólk skrifar stundum um þetta og talar um það með fjálglegum orðum, einnig að þessu verði að breyta en svo breytist ekki neitt. Það eru líka til menn sem vinna við þetta en þeir eru mun færri. Menn velja almennt betur launaða vinnu.
 
Susanne vinnur á heimili í Örebro sem heitir Rynningevíkin og stendur nærri þeim hluta af Hjälmaren sem heitir Rynningevíkin. Þangað kemur mikið af fólki frá sjúkrahúsinu í Örebro, fólki sem alls ekki getur farði heim en sjúkrahúsið hefur samt ekki aðstæður til að hafa. Fulltrúar frá sjúkrahúsinu koma fyrirvaralaust til Rynningevíkurinnar til að fylgjast með hvort allt sé vel gert og Rynningevíkin fær bestu einkunn fyrir sitt og mjög góða umfjöllun í blöðum.
 
Þangað kemur fólk sem kannski varð af með fót á sjúkrahúsinu nokkrum dögum áður, er kannski lamað, er blint, ratar ekki inn á herbergið sitt, getur ekki borðað hjálparlaust og sumir gera þarfir sínar í bleyju. Aðrir þurfa aðstoð til að komast á klósettið og sumir geta ekki baðað sig sjálfir. Sumir hafa blæðandi magasár eða stjórnlausan niðurgang. Margir þurfa að fá að halda í hönd og segja eitthvað sem er þeim mikilvægt. Sem betur fer er þar líka fólk sem einungis er gamalt og hefur það gott.
 
Það eru nokkrar vikur síðan við Susanne töluðum um vinnuálagið hjá henni og lágu launin. Við töluðum um aðra svipaða vinnustaði með léttari vinnu og við töluðum um aðra vinnu og berti laun og við komumst að því að það væru ýmsar leiðir að velja um. En eftir ummræðuna sagði Súsanne: En veistu það að mig langar bara svo mikið að hjálpa þessu fólki? Ég einfaldlega get ekki hætt. Ég vissulega vissi þetta og Súsanne hefur vitað lengi að ég veit það. Samt kemur þessi umræða upp hjá okkur öðru hvoru. Hún vann áður hjá hátæknifyrirtæki í tuttugu og fimm ár og í dag segir hún að hún geti ekki skilið hvernig henni tókst að gefa svo langan tíma af lífi sínu í þá vinnu.
 
Það er til svo mikið af góðu fólki en við heyrum ekki svo mikið talað um þetta fólk. Ég skrifaði jólabréf sem fjallaði nokkuð um að segja ekki svo mikið frá því góða. Ég kalla þetta bara jólablogg. Ég stend gjarnan við eldhúsbekkinn og hef til mat handa Susanne þegar hún kemur heim frá Rynningevíkinni. Svo þegar hún kemur inn hlær hún við og segir; "kallinn minn í eldhúsinu". Mér þykir vænt um það orðalag.
 
Það nálgast hádegi og það er alger kyrrð hér í sveitinni. Um tíma í morgun heyrði ég í mótorsög. Annars allt kyrrt. Ég valdi að skrifa þetta blogg í staðinn fyrir að koma röð og reglu á í svefnherberginu. Við sofum í öðru herbergi þar sem allt er á tjá og tundri í hinu eiginlega svefnherbergi. Þar sit ég þó og skrifa þetta blogg en óreiðan er fast við bakið á mér.
 
Ég vann aftur í gær, langan vinnudag, og hafði fyrirlestur og þrjár grúppur. Við vorum fá í vinnu en allt gekk vel vegna þess að við höfðum góða samvinnu og komum vel fram við þá sem þurfa á hjálpinni að halda. Vinnan mín um jólin var ánægjuleg og mér mikilvæg þegar öllu er á botninn hvolft. Kveikurinn minn virðist því ekki alveg slokknaður. Jólin kalla á hugleiðngar innra með mér sem mér líður vel með. Það var jólastemming í Vornesi og svo áttum við virkilega góðan aðfangadag hér heima. Þessi jól hafa verið blanda af mörgu góðu. Í vinnu, mat, í félagsskap heima og heiman og í hugarástandi sem hefur framkallað margar hugsanir um hið góða í heiminum.
 
Að lokum; ég er stoltur af hugsunarhætti og manngæsku konunnar sem vill deila lífinu með mér.
 
 
Við Susanne vorum upp í Orsa (Úrsa) um daginn og prufuðum þá þennan kuppaleik sem er alveg stórskemmtilegur. Við þurfum að eignast svona kubba.
 
 
Lotta og Jonas. Ég deildi vinnu með þessu fólki núna um jólin. Þau eru bæði tvö mjög fágaðar og góðar manneskjur. Jónas er svo hár að ég held að ég nái honum bara í höku. En ég ítreka það að þau eru bæði alveg einstakar manneskjur.
 
 
Malin og Sara sáu um jólamatinn í Vornesi. Þessar liðlega tvítugu konur eru báðar með fasta vinnu í eldhúsinu og þær eru líka ljúfar manneskjur og svo eru þær dulegir kokkar. Jólamaturinn var góður eftir því. Það voru fleiri sem unnu að jólamatnum en það voru Malin og Sara sem sáu um jólaborðið á aðfangadag.
 
 
Þetta jólatré stendur i dagstofunni í Vornesi og við hliðina á því stendur jólasveinn.

Að tala um viðburði dagsins

 
Ég sit heima hjá Rósu og fjölskyldu á Celsiusgötunni í Stokkhólmi og er einn heima. Ungur smiður kemur og fer. Núna hefur hann verið að flota innan við svalahurð, en það er verið að setja svalir við íbúðirnar í þessu 120 ára gamla fjölbýlishúsi,  og það er heil mikið átak. Smiðnum fannst greinilega sem ég væri að líta eftir vinnubrögðum hans en svo var alls ekki. Ég sagði honum að þar sem ég er sjálfur gamall smiður þá hefði ég svo gaman af að sjá hvernig ungir smiðir ynnu í dag með nýrri kunnáttu, nýjum efnum og áhöldum. Þá fékk hann svona líka áhuga fyrir mér og ennþá kemur hann og fer og nú segir hann mér hvað hann skal sækja og hvenær hann komi aftur. Hann hefur líka sagt mér að annar ungur smiður sem ég hitti hér í gær sé bróðir hans og búi í Uppsala.
 
Ég fylgdi Susanne á brautarstöðina í morgun, en þar tók hún lest til skólans síns sem er norðarlega í Stokkhólmi. Svo flýtti ég mér til baka til að geta orðið Hannesi Guðjóni og Pétri samferða í skólann hans Hannesar. Þaðan fór Pétur svo í sína vinnu en ég heim til að borða morgunverð. Það var þá sem samskipti mín og smiðsins byrjuðu. Rósa er stödd í New-York við vinnu sem ég get ekki útskýrt, það er einfaldlega of flókið fyrir mig. En ég treysti henni og svo mörgum öðrum fyrir framtíðinni, þessu vel mentaða fólki með miklar hugsjónir. En það eru líka til völdug öfl í þessum heimi sem hefur hugsjónir af allt öðrum toga. Hvernig sem á því stendur er meira talað um það sem miður er gert en það sem vel er gert. Samt er mikið meira sem er gert af hinu góða en því illa. Ég hef líka staðið mig að því að taka lítið eftir fréttum af af voðaverkum hinu megin á hnettinum en fréttum af voðaverkum i París. 
 
Annars hefur þetta blogg mitt tekið allt aðra stefnu en til stóð þegar ég byrjaði. Ég ætladi að þýða á íslensku blogg sem ég skrifaði á sænsku í Stokkholmsferð fyrir mánuði síðan. Við Susanne reynum að gera okkur dagamun úr ferðunum hennar í skólann og hafa svolítið gaman af þeim. Það var eiginlega um það sem þetta eins mánaðar gamla blogg fjallaði. En nú er orðið of seint að fara út í þessa þýðingu. Ég er búinn að skrifa of mikið og vil heldur ekki henda því sem ég er búinn að skrifa.
 
Það er notalegt að sitja hér og skrifa. Þegar ég er heima er mikið sem ég vil koma í verk. Ég hef sagt það einhvers staðar áður að það stendur yfir skipulagsbreyting og sortering á mörgu heima. Ég er líka að fullganga frá mörgu sem var ófrágengið bæði úti og inni. Listinn hér og hyllan þar innan húss, nokkrar hjólbörur af mold á einn stað úti og margar aðrar lagfæringar. Svo vil ég fá rólegri stundir. Þegar ég skrifa þetta síðasta átta ég mig á því að ég hef oft skrifað það áður.
 
En nú er ég ekki heima og því er ekkert sem bíður mín. Það er notalegt og það er tilbreyting. Eftir klukkutíma eða svo fer ég til móts við Susanne á lestarstöðinni. Þar munum við kaupa okkur mat á bakka sem við tökum með í lestina ásamt vel heitu kaffi. Svo borðum við á leiðinni heim, drekkym kaffi og tölum um viðburði dagsins.
 
 
 
 
 
 
Hér fyrir neðan er léleg farsímamynd frá aðal járnbrautarstöðinni í Stokkhólmi um átta leytið í morgun. Margir á leið  í og úr vinnu og margir á leið í skóla.
 
RSS 2.0