Að tala um viðburði dagsins

 
Ég sit heima hjá Rósu og fjölskyldu á Celsiusgötunni í Stokkhólmi og er einn heima. Ungur smiður kemur og fer. Núna hefur hann verið að flota innan við svalahurð, en það er verið að setja svalir við íbúðirnar í þessu 120 ára gamla fjölbýlishúsi,  og það er heil mikið átak. Smiðnum fannst greinilega sem ég væri að líta eftir vinnubrögðum hans en svo var alls ekki. Ég sagði honum að þar sem ég er sjálfur gamall smiður þá hefði ég svo gaman af að sjá hvernig ungir smiðir ynnu í dag með nýrri kunnáttu, nýjum efnum og áhöldum. Þá fékk hann svona líka áhuga fyrir mér og ennþá kemur hann og fer og nú segir hann mér hvað hann skal sækja og hvenær hann komi aftur. Hann hefur líka sagt mér að annar ungur smiður sem ég hitti hér í gær sé bróðir hans og búi í Uppsala.
 
Ég fylgdi Susanne á brautarstöðina í morgun, en þar tók hún lest til skólans síns sem er norðarlega í Stokkhólmi. Svo flýtti ég mér til baka til að geta orðið Hannesi Guðjóni og Pétri samferða í skólann hans Hannesar. Þaðan fór Pétur svo í sína vinnu en ég heim til að borða morgunverð. Það var þá sem samskipti mín og smiðsins byrjuðu. Rósa er stödd í New-York við vinnu sem ég get ekki útskýrt, það er einfaldlega of flókið fyrir mig. En ég treysti henni og svo mörgum öðrum fyrir framtíðinni, þessu vel mentaða fólki með miklar hugsjónir. En það eru líka til völdug öfl í þessum heimi sem hefur hugsjónir af allt öðrum toga. Hvernig sem á því stendur er meira talað um það sem miður er gert en það sem vel er gert. Samt er mikið meira sem er gert af hinu góða en því illa. Ég hef líka staðið mig að því að taka lítið eftir fréttum af af voðaverkum hinu megin á hnettinum en fréttum af voðaverkum i París. 
 
Annars hefur þetta blogg mitt tekið allt aðra stefnu en til stóð þegar ég byrjaði. Ég ætladi að þýða á íslensku blogg sem ég skrifaði á sænsku í Stokkholmsferð fyrir mánuði síðan. Við Susanne reynum að gera okkur dagamun úr ferðunum hennar í skólann og hafa svolítið gaman af þeim. Það var eiginlega um það sem þetta eins mánaðar gamla blogg fjallaði. En nú er orðið of seint að fara út í þessa þýðingu. Ég er búinn að skrifa of mikið og vil heldur ekki henda því sem ég er búinn að skrifa.
 
Það er notalegt að sitja hér og skrifa. Þegar ég er heima er mikið sem ég vil koma í verk. Ég hef sagt það einhvers staðar áður að það stendur yfir skipulagsbreyting og sortering á mörgu heima. Ég er líka að fullganga frá mörgu sem var ófrágengið bæði úti og inni. Listinn hér og hyllan þar innan húss, nokkrar hjólbörur af mold á einn stað úti og margar aðrar lagfæringar. Svo vil ég fá rólegri stundir. Þegar ég skrifa þetta síðasta átta ég mig á því að ég hef oft skrifað það áður.
 
En nú er ég ekki heima og því er ekkert sem bíður mín. Það er notalegt og það er tilbreyting. Eftir klukkutíma eða svo fer ég til móts við Susanne á lestarstöðinni. Þar munum við kaupa okkur mat á bakka sem við tökum með í lestina ásamt vel heitu kaffi. Svo borðum við á leiðinni heim, drekkym kaffi og tölum um viðburði dagsins.
 
 
 
 
 
 
Hér fyrir neðan er léleg farsímamynd frá aðal járnbrautarstöðinni í Stokkhólmi um átta leytið í morgun. Margir á leið  í og úr vinnu og margir á leið í skóla.
 


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0