Meira, mikið meira

 
 
Aðeins norðan við vestur í rúmlega 100 metra fjrlægð frá Sólvöllum er op á milli tveggja skógarfláka og gegnum þetta op sést til þess sem heitir Kilsbergen.
 
 
 
Myndirnar eru báðar teknar frá glugganum yfir matarborðinu heima. Önnur myndin er dregin mikið að.
 
Þar voru reistar 16 vindmyllur í fyrra, 185 metra háar upp á spaðann lengst uppi og einmitt þannig að þær sjást allar frá matarborðinu okkar. Ég giska á að fjarlægðin héðan að heiman sé fimmtán kílómetrar. Þegar ég heyrði og las um það að rafmagnsframleiðslan nægði fyrir 40 000 heimili fannst mér í lagi að þær væru staðsettar einmitt þar sem án vafa væri fallegasti útsýnispunkturinn frá matarborðinu. Í lok april fórum við Susanne til Kilsbergen til að virða fyrir okkur dýrðina.
 
Þó að Kilsbergen séu ekki há, 200 til 220 metrar yfir haf þar sem vindmyllurnar eru, þá alla vega auka þau á fjölbreytnina í umhverfinu séð héðan frá Sólvöllum. Hér heiman að virðist þetta vera mjúklega bungótt svæði og að vindmyllurnar séu byggðar þar sem hæsta svæðið byrjar að halla móti vestri.
 
Þegar þangað upp er komið er veruleikinn allt annar. Þar eru all skarpar hæðir sem stinga upp kollinum og á þessa kolla eru vindmyllurnar byggðar. Kollar sem væntanlega hafa verið mýkri hluti af landslaginu áður og skógi vaxnir einnig.
 
Þegar upp er komið frá mjóum sveitavegum byggðarlagsins í kring, er allt í einu komið á breiða, sterklega, slétta og vel byggða vegi sem tengja svæðið innbyrðis. Þegar að vindmyllunum er komið eru ótrúlega stór plön við hverja og eina af þeim, mjög slétt og klædd vegamöl eins og vegirnir. Það verður að segjast að þarna uppi er allt mjög vandað í frágangi. Ekkert var hálf gert og nánast hvergi var að sjá neitt drasl sem hafði verið skilið eftir, engir afgerandi grjóthaugar eða moldarhlöss.
 
Ég gekk upp á sökkulinn sem gengur út frá sjálfri turnspíru einnar vindmyllurnar og ætlaði að líta upp að toppnum, en heyrðu! það var útilokað. Allt í einu voru 185 metrar orðnir gríðarlega háir. Ég gekk eina 20 eða 30 metra út frá turninum en það var eiginlega sama þar, ég sá ekki toppinn, fékk bara hálsríg. Til að sjá toppinn varð ég að horfa á hinnar vindmyllurnar sem voru í hundraða metra fjarlægð.
 
Ég, mðurinn sem hefur talað fyrir vistvænu rafmagni og vistvænum lífsháttum almennt, var nú orðinn gersamlega orðlaus. Ég var nánast reiður á tímabili. Allt var þetta svo vel unnið, fágað og fínt, hvort heldur var byggingarnar sjálfar, vegirnir og sjálft umhverfið. Og þó, það leyndi sér ekki að hér hafði verið ráðist inn í náttúru sem hafði verið að skapast frá síðustu ísöld, í tíu þúsund ár. Þar hafði viðkvæmt lífríkið af mikilli hógværð og í samvinnu við sól, vatn og vinda gert sér bústað, bústað þar sem við mannfólkið getum fengið að vera með svo lengi sem við förum fram af sömu hógværð og öflin sem hæglátlega hafa skapað hann.
 
Menn höfðu flutt þangað 8000 tonn af stáli og tilheyrandi vélbúnaði frá ólíkum heimshlutum. Menn höfðu fellt gamlan skóg, sprengt og rutt og stórvirkar vélar höfðu mulið klappir niður í vegaefni. Þungir steypubílar rúlluðu fram og allt í einu höfðu gríðarstór byggingatæki ruðst inn á svæðið, svo stór tæki að þau gátu lyft þúsundum tonna upp í alla þessa hæð. Hver þessara vindmylla vegur nefnilega um það bil 500 tonn. Þar af vegur sjálft vélahúsið uppi á toppnum 130 tonn og hæðin upp í nafið á því er 117 metrar.
 
Fléttur og skófir og örverur sem við sjáum ekki lúta í lægra haldi og sýnilega lífið einnig. Það líf sem vill búa þar framvegis verður að byrja upp á nýtt, nánast eins og við mannfólkið ætluðum að setjast að á annarri plánetu.
 
Þrátt fyrir á margan hátt mikla aðdáun af minni hálfu varð mér hugsað til þess hvað mannkynið eiginlega sýslar með á þessum tímum þar sem ofnotkun er stunduð á móður jörð, aðsetri framtíðarinnar. Að þessar vindmyllur gætu framleitt rafmagn fyrir 40000 heimili verkaði svo stórkostlegt. En hvað í sannleika sagt snýst það um og hvers vegna erum við statt og stöðugt í svo hratt vaxandi þörf fyrir meira rafmagn? Og rafmagnið er bara einn þátturinn í óseðjandi neysluþörf.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0