Björgunaraðgerðir halda áfram í Sólvallaskógi

Ég sagði í bloggi í fyrradag að þegar ég veifaði Susanne við brottför hennar upp í Dali hefði ég búið yfir leyndarmáli. Það var bara bull því að hér á bæ eru engin leyndarmál. Hins vegar sagði ég henni ekki að ég ætlaði einn út í skóg með keðjusögina til að ljúka verki sem byrjaði daginn áður. Hvernig ég ætlaði að framkvæma þetta hafði ég hugsað mjög vel út og skipulagt. Ég hafði það í kollinum og var mjög öruggur, svo öruggur að ég vildi ekki óróa Susanne með því að segja henni frá því að ég ætlaði að brjóta regluna um að vera ekki einn með mótorsög út í skógi.
 
Þegar í skóginn var komið byrjaði ég á að færa talíuna og festa, stakk járnkallinum niður þar sem ég vildi hafa hann, sleggjuna einnig og meitilinn. Járnkallinn, sleggjuna og meitilinn reiknaði ég ekki með að þurfa nota en það var samt best að vera við því búinn. Síðan signdi ég mig, tók ég keðjusögina og setti hana í gang.
 
 
Neðra sagarfarið var frá deginum áður en það efra var nýtt og af ásetningi sagaði ég ekki alveg í gegn. Síðan gekk ég að talíunni og dró. Ég heyrði brest og þá vissi ég að allt var á réttri leið. Dró síðan aðeins meira og svo tók ég myndina.
 
 
Svo dró ég ennþá meira með talíunni og efri hlutinn stakkst niður í skógarbotninn. Flóknara var það nú ekki og ekki í frásögu færandi. Meðal annars þannig líða dagarnir á Sólvöllum á eftirmiðdegi lífs míns eins og ég segi stundum. Þegar við komum á Sólvelli vissi ég bara um eina eik og það var það sem ég kalla stóru Sólvallaeikina. Allar hinar eikurnar voru þrautpíndar í þéttu mirkviði af reyniviði og greni og ég hafði ekki hugmynd um hvar þær voru eða að þær yfir höfuð væru til. Ég frelsaði þær síðan með grisjun jafnóðum og ég fann þær, klippti burtu skemmdar greinar eða greinar sem héngu niður á jörð, setti stög í sumar þeirra til að rétta þær, gaf sumum áburð og flutti gjarnan mold að rótum. Nú hafa bætst við tíu Sólvallaeikur sem eru allt frá minni tré upp í all stór tré. Svo er mikill fjöldi sem er á leiðinni í að vera minni tré og þá á ég við eina fimm til átta metra.
 
Þær voru mjög þakklátar fyrir góða atlætið, stækkuðu ótrúlega hratt og sargaðar laufkrónur náðu sér fljótt. Samt eru eikur í sjálfu sér hægvaxta tré. Ég byrjaði að ganga um þéttan skóginn árið 2003 og reyndi að sjá hvernig ég gæti með tímanum látið hann líta út. Allt er þetta á réttri leið eins og ég hugsaði mér það þá. Ég vil bara segja að ég veit ekki hvernig eftirmiðdagurinn í lífi mínu gæti verið betri eða þýðingarmeiri á annan hátt í annars órólegum heimi. Þegar ég fór einn með mótorsögina út í skóg í fyrradag átti ég erfitt með að setja hana í gang í þeirri hreinlega heilögu kyrrð sem hvíldi yfir sveitinni.
 
 
Til vinstri er stubbi undan grenitrénu fræga sem nú er fótur fyrir stöng sem er stöguð í nýuppgötvuðu eikina til hægri til að hjálpa henni næstu tvö árin get ég trúað. Kallast það ekki endurhæfing eða eitthvað svoleiðis. Ég get lofað ykkur að eftir tvö ár verður orðin mikil breyting, þá verður hun orðin að minna tré með krónu. Nú er nún reyndar yfir sjö metra há en með sargaða krónu sem erfitt er að ná mynd af. Að vori ætla ég að setja nokkra sekki af góðri mold á svæðið umhverfis þennan veikburða stofn.
 
Svo hef ég verið í skóginum í dag hreinlega að taka til og þar er af nógu að taka. Á morgun, sunnudag, ætla ég að taka það rólega. Horfa á sjónvarpsmessu, tína hafþyrniber og kannski bara að baka handa mér pönnukökur.
 
 
*          *          *
 
 
 
Í dag tók ég líka við í hús til upphitunar á haustdögum. Hjólbörurnar alla leið inn í stofu. En það var þurrt grasið á leiðinni milli húsa og þetta fór ósköp hreinlega fram. Ég bý nú í sveit en ekki á þriðju hæð í blokk.
 
 
Staflinn varð full hár en eftir fyrstu uppkveikjuna verður hann hættur að skyggja á myndina.
 
Þegar ég læt sjaldan heyra í mér verður meira að segja en nú vita þeir sem vilja vita hvað drífur á daga mína um þessar mundir. Gangi ykkur allt í haginn.

Björgunaraðgerðir í Sólvallaskógi

Einhvern tíma í nótt þurfti ég að skreppa fram svona eins og gengur en ég var svo syfjaður að ég mundi óljóst eftir því þegar ég svo vaknaði fyrir alvöru klukkan hálf sjö í morgun. Eftir aðra ferð "fram" lagði ég mig á ný og dró sængina upp undir höku og horfði upp í þakið. Ég var einn heima og mér finnst svo notalegt að vera einn heima öðru hvoru. Okkur Susanne finnst það báðum og við förum ekki dult með það fyrir hvort öðru.
 
Eftir vangaveltur um lífið tók ég farsímann minn og las blogg frá 2010. Þá var verið að byggja á Sólvöllum. Lesturinn var notalegur og það var gott að vera til þó að tregi leitaði á mig. Árið 2010 var verið að byggja á Sólvöllum og enn í dag eru verkefni í gangi þó að ekki sé verið að byggja. Það var vissulega þess vegna sem ég man svo óljóst eftir næturferðinni "fram", ég var þreyttur eftir athafnasemi gærdagsins.
 
Það var nefnilega svo að fyrir nokkrum vikum var ég á rölti á litlu svæði í skóginum þar sem hann er ógrisjaður, mjög þéttur og krónurnar eru slitnar af þéttri sambúðinni og einnig flæktar hver í annarri. En hvað sá ég þarna langt uppi? Jú, eikarlauf. Og síðan veitti ég athygli grönnum eikarstofni sem var mjög nálægt háu greni. Ég varð friðlaus vegna þessarar eikur. Eikur vaxa ekki á einum degi og þarna var ég að uppgötva eik sem hafði verið að berjast fyrir lífi sínu  -hugsanlega í ein tuttugu ár. Tuttugu árum í lífi eikur kastar skógardellumaður ekki á glæ bara sí svona.
 
Ég hreinsaði greinar af greninu langt upp eftir stofninum og eftir því sem ofar dró uppgötvaði ég eikina bara hærri og hærri. Svo liðu all nokkrir dagar og ég gat ekki gleymt henni. Ég varð að fella grenið sem var með skaðaða krónu hátt uppi í hafi af greinum. Í fyrradag bað ég Susanne að koma og vera nálæg því að ég ætlaði að fella hátt tré. Svo sagaði ég í tréð eins og gera skal en það skeði ekki svo mikið. Einhvers staðar uppi þar sem ég ekki sá til var allt fast. Þetta hafði ég svo sem vitað en það hafði heldur ekki skaðað að vona. Ég notaði fleyga og ég notaði talíu en ekkert gekk. Ég varð þreyttur og ráðalaus og það kom kvöld. Um nóttina vaknaði ég og varð andvaka yfir því hvernig ég ætti að leysa þetta með tréð sem ekki vildi falla.
 
Morguninn eftir, sem sagt í gærmorgun, lagði Susanne af stað upp í Dali, en þar ætlaði fjölskyldan hennar að fagna sjöunda afmælisdegi barnabarnsins hennar. Þar sem ég stóð í dyrunum og veifaði þegar hún ók úr hlaði bjó ég yfir leyndarmáli.
 
Mig minnir að það hafi svo oft staðið í barnablaðínu Æskunni fyrir svo sem sextíu og fimm árum; framhald í næsta blaði.
 
Stóra Sólvallaeikin böðuð í morgunsól og sæl eftir kærkomna úrkomu gærdagsins.
 
 
Og aðrar minni eikur á Sólvöllum
 
 
 
 
RSS 2.0