Björgunaraðgerðir í Sólvallaskógi

Einhvern tíma í nótt þurfti ég að skreppa fram svona eins og gengur en ég var svo syfjaður að ég mundi óljóst eftir því þegar ég svo vaknaði fyrir alvöru klukkan hálf sjö í morgun. Eftir aðra ferð "fram" lagði ég mig á ný og dró sængina upp undir höku og horfði upp í þakið. Ég var einn heima og mér finnst svo notalegt að vera einn heima öðru hvoru. Okkur Susanne finnst það báðum og við förum ekki dult með það fyrir hvort öðru.
 
Eftir vangaveltur um lífið tók ég farsímann minn og las blogg frá 2010. Þá var verið að byggja á Sólvöllum. Lesturinn var notalegur og það var gott að vera til þó að tregi leitaði á mig. Árið 2010 var verið að byggja á Sólvöllum og enn í dag eru verkefni í gangi þó að ekki sé verið að byggja. Það var vissulega þess vegna sem ég man svo óljóst eftir næturferðinni "fram", ég var þreyttur eftir athafnasemi gærdagsins.
 
Það var nefnilega svo að fyrir nokkrum vikum var ég á rölti á litlu svæði í skóginum þar sem hann er ógrisjaður, mjög þéttur og krónurnar eru slitnar af þéttri sambúðinni og einnig flæktar hver í annarri. En hvað sá ég þarna langt uppi? Jú, eikarlauf. Og síðan veitti ég athygli grönnum eikarstofni sem var mjög nálægt háu greni. Ég varð friðlaus vegna þessarar eikur. Eikur vaxa ekki á einum degi og þarna var ég að uppgötva eik sem hafði verið að berjast fyrir lífi sínu  -hugsanlega í ein tuttugu ár. Tuttugu árum í lífi eikur kastar skógardellumaður ekki á glæ bara sí svona.
 
Ég hreinsaði greinar af greninu langt upp eftir stofninum og eftir því sem ofar dró uppgötvaði ég eikina bara hærri og hærri. Svo liðu all nokkrir dagar og ég gat ekki gleymt henni. Ég varð að fella grenið sem var með skaðaða krónu hátt uppi í hafi af greinum. Í fyrradag bað ég Susanne að koma og vera nálæg því að ég ætlaði að fella hátt tré. Svo sagaði ég í tréð eins og gera skal en það skeði ekki svo mikið. Einhvers staðar uppi þar sem ég ekki sá til var allt fast. Þetta hafði ég svo sem vitað en það hafði heldur ekki skaðað að vona. Ég notaði fleyga og ég notaði talíu en ekkert gekk. Ég varð þreyttur og ráðalaus og það kom kvöld. Um nóttina vaknaði ég og varð andvaka yfir því hvernig ég ætti að leysa þetta með tréð sem ekki vildi falla.
 
Morguninn eftir, sem sagt í gærmorgun, lagði Susanne af stað upp í Dali, en þar ætlaði fjölskyldan hennar að fagna sjöunda afmælisdegi barnabarnsins hennar. Þar sem ég stóð í dyrunum og veifaði þegar hún ók úr hlaði bjó ég yfir leyndarmáli.
 
Mig minnir að það hafi svo oft staðið í barnablaðínu Æskunni fyrir svo sem sextíu og fimm árum; framhald í næsta blaði.
 
Stóra Sólvallaeikin böðuð í morgunsól og sæl eftir kærkomna úrkomu gærdagsins.
 
 
Og aðrar minni eikur á Sólvöllum
 
 
 
 


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0