Skemmtileg vinna

Það er langt síðan ég talaði um það hér heima að þegar ég hefði unnið nótt í Vornesi ætti ég aldrei að vinna neitt meira þann daginn eftir að ég kæmi heim. Svo kom ég heim um hálf þrjú leytið í dag eftir að hafa verið rúmlega einn sólarhring í Vornesi og þegar ég var búinn að smakka samviskusamlega á því sem hún Valdís bakaði í gær fór ég út í nýbyggingu að sinna viðhaldsvinnu á vélsöginni okkar. Ég tók strax eftir því að mér fór þetta ekki sem best úr hendi og ég missti skrúfjárnið í gólfið, týndi skrúfu og svo þegar ég var búinn að setja nýju klóna á kapalinn tók ég eftir því að það var ekki kló heldur mótstykkið sem ég hafði gengið svo vandvirknislega frá. Ég komst þó svo langt að dytta að einu og öðru og að ganga úr skugga um að sögin væri í besta lagi.

Ég er sjálfsagt ekki nógu vel gefinn til að þegja yfir svona algeru axarskafti. Rafvirki mundi alla vega ekki einu sinni geta hlegið að þessu trúi ég. Ég fann líka að það nálgaðist að mér færi að þyngja í skapi. Utan við dyrnar var Valdís að ryksuga bílinn og þar virtist allt ganga samkvæmt yfirvegun og verklagni. Ég reyndi að raula og vera fullorðinn. Það var líka strax eftir síðustu helgi að ég var að byrja að slípa sparsl á einum 50 fermetrum af gipsónettklæddum veggjum að ég komst að því að þetta væri óendanleg vinna, ógeðsleg og heilsuspillandi. Undarlegir menn sem eyddu ævi sinni í málningarvinnu! Mér sóttist verkið ekki vel og mér fannst sem ég ynni það illa. Svo tók ég kaffipásu, fór úr öllum fötum sem voru hlaðin sparsli og settist inn. Við Valdís töluðum um nágrannann, smiðinn sem varð ellilífeyrisþegi í fyrra og tekur gjarnan að sér smá verkefni. Hann tók að sér að sparsla og slípa hjá öðrum nágranna í fyrra og gerði því góð skil.

Svo hringdi ég í smiðinn og eftir kurteisistal spurði ég hann hvort hann væri ekki góður við að sparsla og slípa. Ég bókstaflega heyrði hvernig raddböndin hjá þessum lítilláta og góða manni drógust saman og röddin varð ótrúlega mjó. Ég hugsaði á augnablikinu að honum þætti þetta álíka ömurlega leiðnlegt og mér svo að ég breytti snögglega um umræðuefni og spurði hann hvort hann væri ekki vanur að eiga við eldhúsinnréttingar. Röddin varð aftur eðlileg og nú varð hann ræðinn og sagði meira að segja að hann gæti vel hjálpað mér við slíkt, það væri alveg sjálfsagt. Við ákváðum svo að tala betur um það innan tíðar og svo kvöddumst við.

Eftir kaffitár sem mig langaði eiginlega ekki í fór ég aftur út og tók mér sandpappír í hönd. Valdís spurði af góðsemi sinni hvort hún gæti hjálpað mér en mér fannst algerlega fráleitt að hún með sinn astma færi að hætta lungunum í sparslkófinu. Nú hafði ég líka tekið ákvörðun. Ég ætlaði að breyta afstöðu minni og gera mér verkið auðvelt. Með sandpappírsgræjurnar á skafti fór ég nú hratt yfir hvern fermetrann af öðrum og sá fyrir mér fallega málað herbergi með vel skipulögðum húsgögnum og ég sitjandi í þægilegum stól frá Varsam. Stólinn ætlaði ég að hafa þannig að að ég gæti horft út um gluggann móti skóginum og með því að snúa honum pínulítið ætlaði ég að horfa móti Kílsfjöllunum og sjá sólina setjast. Svo ætlaði ég að nota útsýnið til beggja átta svo lengi sem mig lysti. Inn á milli ætlaði ég að líta á veggina og hugsa sem svo að það hefði verið ótrúlega skemmtilegt verk að búa þá undir málningu enda væri verkið vel unnið eftir því. Svo ætlaði ég að taka mér bók í hönd og lesa nokkrar línur. Þá heyrði ég að tekið var í útihurðina.

Ég lagði frá mér slípiáhaldið, tók af mér grímuna og fór fram að dyrum. Nei, þarna var smiðurinn nágranninn kominn, glaðlegur og vingjarnlegur að vanda. Svo ræddum við um málningarundirbúning, fórum inn í gamla hlutann og töluðum um eldhúsinnréttinguna og lífið var leikur einn. Hann sagði að okkur hefði tekist að gera húsið alveg ótrúlega fallegt. Hann vildi ekki kaffi því að hann var að fara til Hallsberg til að kaupa 25 lítra sekk af fuglamat. Svo fór hann og ég sneri mér blístrandi að slípivinnunni á ný. Þegar ég var búinn að slípa alla veggi sparslaði ég alla veggi aftur, sumt í annað sinn og sumt í þriðja sinn, og sparslið lét svo mjúkt og hlýðið undir spaðanum og brettinu. Ótrúlega var málningarvinna skemmtileg. Þar með var komið kvöld og ég ákvað að byrja snemma daginn eftir. Allri undirbúningsvinnu er nú lokið og þar að auki er ég búinn að vinna þriggja daga vinnu í Vornesi.

Ég ætla að fara að bursta og pissa og ganga svo til móts við Óla Lokbrá því að ég ætla að byrja snemma í fyrramálið og fara að kaupa kló á sögina og líklega nýtt hjólsagarblað. Svo ætla ég að útbúa áfellur á níu glugga og eina útihurð. En áður en ég sný mér að tannburstanum ætla ég að gera játningu. Ég prófsmakkaði aftur eftir kvöldmatinn afurðirnar frá bakstrinum hennar Valdísar í gær. Það er alveg ótrúlegt hvað ég er alltaf svangur eftir að hafa unnið nótt í Vornesi þrátt fyrir að þar sé ævinlega mikill matur á borðum.

Refskák

Í gær eftir að rafvirkinn hafði verið hér og tengt saman ótrúlegan fjölda rafleiðslna, sett upp rofa og tengla tók ég sparslgræjurnar mér í hönd og slípaði sparsl vandlega og lengi. Þá var ég svo óheppinn að hafa litið á íslensku fréttirnar og gat ekki látið vera að að spyrja skynsemi mína hvað eiginlega væri í gangi hjá íslensku stjórnarandstöðunni. Meðan ég hugleiddi þetta samdi ég í huga mér blogg um það. Svo fór ég á AA fund í Fjugesta í gærkvöldi og þegar ég kom heim hugsaði ég sem svo að það væri bara mannskemmandi fyrir mig að skrifa niður það sem ég hafði samið og ennþá fannst í huga mér. Á AA fundinum voru fimm menn og konur sem öll töluðu innilega frá hjartanu, en þau læti sem stjórnarandstaðan hafði enn einu sinni sett í gang komu ekki frá hjartanu. Þar er um að ræða refskák og refskák kemur ekki frá hjartanu. Þessi refskák er skemmdarverkastarfsemi á Alþingi Íslendinga til að koma í veg fyrir að uppbyggingarstarfið sem hefur verið í gangi á Íslandi geti haldið áfram. Það er auðvitað sárt fyrir stjórnarandstöðu að þeir sem eru í stjórn hafi gert það að verkum að árangursrík störf þeirra séu farin að vekja eftirtekt á fréttastofum út um heim og vera til umræðu á sjónvarpsskjáum miljóna manna og kvenna.

En samt settist ég niður og skrifaði  og það var eins og mig grunaði; ég hafði illt af því. Að hugsa sér að með þessu moldviðri og mörgum öðrum moldviðrum hafa þessir stjórnarandstöðuflokkar fengið hálfa þjóðina til að trúa á refskák sína. Litlir menn og konur með mikinn munn vita að nógu löng refskák gengur inn hjá fólki að lokum. Sorrý.

Ég hætti við að birta bloggið mitt frá í gær og sendi frekar út þessar línur en vil þó bæta einu við. Rafvirkinn spurði eftir ástandinu á Íslandi og þá ekki síst hvernig fólk hefði það. Ég gat ekki hugsað mér að segja honum sannleikann um íslensk stjórnmál en sagði í sem fæstum orðum að margir hefðu það ennþá erfitt eftir hrunið.

Ég hef illt af því að skrifa svona en ef ég sleppi því alveg verður annað sem ég skrifa meira og minna lygi.

Töfrakonan

Á þriðjudaginn var ætluðum við Valdís til Vingåker og fá meðferð hjá konu sem ég kalla töfrakonuna. Hún er bæði nuddkona og nálakona. En nú fór það svo að stuttu áður en við ætluðum að leggja af stað hringdi hún og sagðist þurfa til dýralæknis með hundinn sinn. Það var auðvitað ekkert mál og við ákváðum nýjan tíma á föstudag, það er að segja í gær. Um hálf níu renndum við úr hlaði og ég fann að þessi dagur byrjaði með svolítilli tilbreytingu þó að það væri ekki annað en fara til nuddkonu. Svo ókum við þessa leið sem ég er búinn að aka að minnsta kosti 3000 sinnum austur á bóginn og jafn oft til baka heim. Fyrir Valdísi er þetta hins vegar meira sem nýnæmi. Ég heyri það á spurningum hennar í þau tiltölulega fáu skipti sem við höfum farið þessa leið saman.

Þegar komið er til Vingåker eru aðeins eftir fimm kílómetrar til að vara kominn í hlað í Vornesi. Við lögðum við kaupfélagsverslunina og svo fórum við á nuddatofuna og þegar Valdís hafði hitt töfrakonuna í fyrsta skipti og heilsað henni fór hún í kaupfélagið ásamt einhverju fleiru en ég lagðist á nuddbekkinn. Ég valdi nálar og ástæðan fyrir ferð minni í þetta skipti var stirðleiki í hálsinum. Það eru kannski fleiri jafnaldrar sem kannast við þetta: Það er erfiðara fyrir mig að líta við þegar ég ek að gatnamótum þar sem þarf að líta aðeins aftur með bílnum til að fylgjast með umferð og svo ég tali nú ekki um að bakka, þá eru það bara speglarnir sem gilda.

Fyrir ellefu mánuðum var ég síðast hjá töfrakonunni vegna þess að hryggjarliðir milli herðablaðanna vildu festast og það skapaði óþægindi, enga vonda verki en óþægindi. Ég spurði hana þá hvort hún vildi prufa að laga þetta með nálum. Jú, hún var til í það en tók fram að það yrði engin endanleg lækning en það mundi örugglega hjálpa tímabundið. En málið er bara það að ég hef ekki fundið fyrir þessu síðan.

Þegar ég var búinn að liggja á bekknum í einn og hálfan tíma heyrðist til Valdísar frammi á biðstofunni sem er lítil og þar er aðeins einn stóll. Þá hafði ég fengið bakið nuddað, margar nálar í bak og fyrir og eitthvað fitl við hnakkan og gagnaugun sem ég ekki skildi. Ég þarf ekki að skilja allt svona lagað enda væri hún ekki töfrakona ef ég skildi allar hennar athafnir. En eitt var öruggt; það hafði eitthvað skeð. Mér fannst ég vera þrútinn í andliti, jafnvægið eitthvað úr skorðum gengið og ég hafði á tilfinningunni að ég liti út fyrir að vera timbraður. Og svo ætlaði ég að ganga í gegnum Vingåker á kaffihús og ég leit út fyrir að vera timbraður. Hvað ef einhverjir frá Vornesi yrðu á vegi mínum. Það leit ekki nógu vel út og sögusagnir gátu komist á kreik. :-) Margir í Vingåker vita líka í laumi hver ég er.

Á kaffihúsinu naut ég þess að drekka tvo bolla af kaffi og mér varð hugsað til Valdísar sem var svolítið óörugg gagnvart þessari konu sem ég hafði svo oft talað um sem töfrakonu. Ég var hins vegar ekki í vafa um að það færi vel á með þeim. Ég hef lengi verið alveg viss um að hún er góð kona því að hún hjálpar svo ekki verður um villst. Hún var upphaflega hjúkrunarfræðingur og hitti mikið af veiku fólki og mörgu mikið veiku. Svo fékk hún þá hugmynd að hjálpa fólki áður en það veiktist. Þá valdi nún að læra sjúkranudd og nálastungur og nú er hún ellilífeyrisþegi sem vinnur hálfa daga flesta virka daga vikunnar.

Ég kom á biðstofuna stuttu áður en Valdís átti að vera tilbúinn. Það er nokkuð hljóðbært þangað fram þannig að ég komst ekki hjá því að heyra síðustu orð töfrakonunnar til Valdísar og allt sem ég er búinn að skrifa núna er skrifað til að kom á framfæri þessum lokaorðum: Það er aðeins góð kona sem getur talað til annarrar manneskju eins og hún talaði til Valdísar í lok meðferðarinnar. Þar með er því komið á framfæri. Það verður aldrei gert of mikið að því að tala um það jákvæðasta í fari góðra manna og kvenna.

Ofanritað var ég búinn að skrifa í gær en þegar ég ætlaði að birta það voru höfuðstöðvarnar búnar að loka blogginu tímabundið sem er óvenjulegt. Þá tapaði ég niður stórum hluta af því sem ég hafði skrifað og er nú búinn að endursemja það. Svo er spurningin hvernig heilsan er í dag. Valdís segist vera mun hressari og ég segi bara það að sparslspaðinn og sandpappírinn hafa leikið svo undursamlega í höndunum á mér í dag að ég held að það hljóti að hafa litið út eins og sjónhverfingamaðiur væri á ferðinni. Ég tel mig hafa góða heilsu en ég tel líka að það sé mikilvægt að fara öðru hvoru í eftirlit eins og gert er með bíla.

Landið nýja

Í dag, 17. janúar 2011, eru 20 ár síðan Kuwaitstríðið byrjade, sama dag byrjaði gos í Heklu og hún tengdamóðir mín varð 82 ára. það var líka þennan dag sem ég vaknaði á Hótel Sögu og fékk mér afréttara. Um tveimur tímum síðar brustu síðustu máttarstoðir lífs míns, bikarinn var fullur og það rann út yfir barmana. Með grátstafinn í kverkunum hringdi ég inn á Vog og sagðist hafa gefist upp. Léttirinn var ólýsanlegur.

Þennan dag komu í heimsókn til mín á Sögu þær Rósa dóttir mín og Svandís Svavarsdóttir. Þær komu til að sýna mér samkennd og gleðjast með mér yfir löngu tímabærri ákvörðun. Það dró líka úr skömminni sem er rótgróin í lífi alkohólistans. Þessi heimsókn var afgerandi því ég fékk mikilvæga staðfestingu á því að ég væri að gera alveg hárrétt og þó að ég væri viss um að svo væri þurfti ég að verða ennþá vissari. Einum eða tveimur dögum seinna fór ég til Vestmannaeyja þar sem ég fékk að dvelja hjá Valgerði dóttur minni og fjölskyldu þangað til ég fékk að komast inn á Vog. Ég þorði ekki heim þar sem ég var hræddur um að ef ég næði mér úr timburmönnunum og færi að vinna, að ég tæki til baka mikilvægustu ákvörðun lífs míns. Það mátti bara ekki ske.

Í Vestmannaeyjum sat ég gjarnan við norðurgluggann á daginn meðan ég var einn heima, horfði á eldana í Heklu í fjarlægð og velti fyrir mér örlögum lífs míns. 25. janúar flaug ég frá Eyjum og fór beint frá Reykjavíkurflugvelli inn á Vog ásamt AA manni í Reykjavík og Rósu dóttur minni. Við biðum nokkra stund í rúmgóðu andyrrinu þangað til hjúkrunarfræðingur kom og tók á móti mér. Ég var mikið hugsi, hræddur og leiður. Fram í andyrrið heyrðist kliður frá þeim innrituðu. Ég horfði mikið á þröskuldinn sem ég vissi að ég mundi bráðlega ganga yfir og hugsaði: Þegar ég stíg yfir þennan þröskuld geng ég yfir landamærin til nýja óþekkta landsins sem ég þrái svo mikið.

Á náttborðinu mínu liggur sænsk bók um þessar mundir sem ég lít í flest kvöld og hún heitir á íslensku Lyklar hjartans. Bókmerkið í þessari bók er mynd af mér tekin nokkrum árum áður en ég gekk yfir þröskuldinn til móts við nýja landið. Flest kvöld sem ég lít í þessa bók lít ég einnig á myndina og mig rekur eiginlega í rogastans og ég hugsa: Hvar er hann staddur þessi maður, hvað leynist bakvið þetta tekna, raunalega andlit og þessi líflausu augu? Myndin var tekin á þeim árum sem ég á mörgum erfiðum dögum huggaði mig við það að sólin mundi samt koma upp á morgun líka, hvernig sem allt gengi í dag, og ég mundi lifa til að vera með um það.

Dvölin í fimm og hálfa viku hjá SÁÁ var mikið sorgartímabil. Hver verður ekki sorgmæddur sem áttar sig á því upp úr miðjum aldri að honum hafi mistekist að lifa lífinu sem honum var gefið og ekki heldur tekist að nýta þá hæfileika sem fylgdu gjöfinni? Nýja landið reyndist gott land -nýtt líf. En það tekur tíma að verða fullorðinn maður upp úr miðjum aldri en mér tókst það. Stall af stalli, heiðarbrún af heiðarbún hélt ég áfram móti markmiðinu og víðsýnið jókst við hverja bungu sem ég hafði að baki. Ég er ennþá á þessari leið og vona að mér takist að halda því áfram til míns síðasta dags. Þegar ég staldra við í dag og lít yfir leiðina sem ég hef að baki er útsýnið bjart og gott. Maðurinn á myndinni á bókmerkinu hefur fengið nýja ásýnd og hann má aldrei, aldrei byrja að þræða slóðina til baka.

Á sumarmorgnum þegar sólin kemur upp hríslast hún fagurlega gegnum skóginn í austri utan við gluggann sem ég sit við á þessu augnabliki sem ég er að skrifa. Ég hef janúarkvöldið handan við gluggarúðuna. Ég er hættur að sækja traust í það að sólin muni koma upp á morgun líka hvernig sem á stendur. Ég get hins vegar dáðst að fegurðinni þessa sumarmorgna og notið þess að vera til, og ég get skynjað í vetrarmyrkrinu að ljósið finnist þar líka þrátt fyrir allt. Meira að segja þó að ég sé orðinn sextíu og átta ára get ég óskað mér þess á kvöldin að nóttin líði fljótt því að það verði svo gaman á morgun. Á þann hátt get ég séð ljós í myrkrinu og þá er myrkrið alls ekki svart.

Frammi í stofu situr konan sem hefur fylgt mér í fimmtíu ár. Hún er annars vegar að sauma í dúk og hins vegar að fylgjast með sjónvarpinu. Haustið 1993 var ég upphringdur af manni sem vissi að ég væri að leita að vinnu og hann gekk beint til verks og spurði: Guðjón, geturðu hugsað þér að flytja til Svíþjóðar og vinna þar. Ég leit á snöggt á konuna mína og sagði að maðurinn hefði spurt hvort við vildum flytja til Svíþjóðar til að vinna. Ég varð yfir mig undrandi en hugsaði ekki "nei". Ég sá á viðbrögðum hennar að hún hugsaði heldur ekki "nei". Það var ekki svo algengt að svona tilboð bara dyttu niður úr loftinu, og fyrir fólk sem var að verða fimmtíu og tveggja ára eins og við var það ennþá óalgengara. Og það var alveg öruggt að við mundum ekki fá svona tilboð oftar. Það var útilokað að neita þessu.

Landið nýja kom í tvennum skilningi, í myndmálinu og í raunveruleikanum. Við erum stödd í öðru landi sem er aukavinningur fyrir að hafa gefist upp fyrir ofuraflinu fyrir tuttugu árum, voga að taka góða ákvörðun og framkvæmd hana.

                                                Guð gefðu mér æðruleysi
                                                til að sætta mig við það
                                                sem ég fæ ekki breytt,
                                                kjark til að breyta því
                                                sem ég get breytt
                                                og vit til að greina þar á milli.

Fyrsta bros ungbarnsins

Ég hef um skeið verið að lesa bók skrifaða af Martin Lönnebo, fyrrverandi biskupi, bók sem heitir Lyklar hjartans (Hjärtats nycklar). Ég hef nefnt þessa bók áður á bloggsíðunni minni og höfundinn með. Hún er jú um andlegheit, mikill vísdómur skrifuð af lífsreyndum manni. Það eru sem betur fer margar slíkar bækur að finna eftir ýmsa höfunda en það lætur kannski hrokafullt; ég er vandlátur á þessar bækur án þess þó að skýra það nánar. Að minnsta kosti ekki að sinni. Svona bók get ég ekki hraðlesið. Það getur tekið mig marga mánuði með því að lesa stundum nokkrar síður í einu, stundum nokkrar línur í einu og svo að lesa þessar línu aftur og aftur með tíma til umhugsunar á milli. Ég lenti í svoleiðis í gærkvöldi og ég vil gefa nokkur dæmi um það sem ég las.

Fyrsta bros ungbarnins virðist koma ósjálfrátt, að því er virðist án ástæðu, bros móti hinni algerlega óþekktu tilveru. Jafnvel fyrir fjölskylduna á hinu undursamlega augnabliki þegar brosið breiðist út sem svar við hinum lýsandi kærleiksfullu lútandi andlitum getur það verið tvírætt. Munnurinn kippist við, ætlar hún kannski að byrja að gráta aftur og minna okkur á óhamingju lífsins, það er munurinn? En svo, undur og kraftaverk, fyrsta brosið breiðist út, það er staðfesting á að andlegur skyldleiki er mögulegur. Það segir beint inn í hjartað: Ég treysti ykkur, við tilheyrum hvert öðru, heimurinn er staður sem býður mig velkominn.

Og síðar:

Þetta fyrsta bros móti ástvinum er mesta góðverk manneskjunnar nokkru sinni. Aldrei i lífinu er hægt að gera það betur, en það er hægt að endurtaka það og þegar það skeður blómstrar líf og samfélög, sköpun andlegs skyldleika er í gangi.

Og Martin heldur áfram. Hann talar um meðgleði, það er að segja að geta glaðst í sannleika yfir velgengni annarra og hann talar um öfundsýkina. Svo allt í einu kom ég að þessu stykki og þá stoppaði ég við, las aftur og aftur, lagði bókina til hliðar, hugsaði og las svo einu sinni enn og einu sinni enn.

Þetta er ekki aðeins spurning um einkalífið. Ef neikvæðar, óþroskaðar tilfinningar ríkja í samfélagi, hugmyndafræði eða trúarbrögðum er það tilhneiging  að velja foringja sem einkennast af öfund og hatri. Mannkynssagan er til vitnis um hvað þetta þýðir. Kreppti hnefinn hefur sinn tíma en öpna hendin hefur allan tíma.

Dökka leturgerðin er mín til að leggja áherslu á þá meiningu. Hvað þetta setti grillur í höfuðið á mér. Nokkru fyrr um kvöldið las ég blogg fólks um ólíkar íslenskar fréttir og þessi blogg voru óbreytt frá fyrri dögum, vikum og mánuðum. Þau voru reiði, níð, uppnefningar og stóryrði og augljóslega án þekkingar. Ég ákveð oft að lesa þau ekki oftar því að það fari bara illa með sálarlíf mitt. Svo kemst ég að þeirri niðurstöðu eftir dálítinn tíma að ef ég lesi þau ekki viti ég ekki hvernig klukkan slær nema á yfirborðinu.

Ég hugsaði þarna í gær að ég ætti að þýða þessa texta og setja á bloggsíðuna mína, en komst svo að þeirri niðurstöðu að ég gæti bara haft þetta fyrir sjálfan mig. Í morgun horfði ég svo á sjónvarpsfréttir og þar var talað talsvert um sænska nýnastista eða hvað ég á að kalla þá. Þá ákvað ég að þýða og blogga því spurningar voru vaknaðar hjá mér: Hverja koma þessir reiðu bloggarar til með að velja til forystu við næstu kosningar? Hverja koma reiðir sænskir kjósendur til með að velja við næstu kosningar? Já, kannski þessa menn sem Martin talar um í bók sinni, menn sem einkennast af öfund og hatri.

En aðeins meira frá Martin.

Athugaðu stóru yfirlýsingar tuttugustu aldarinnar og leitaðu eftir hinu hreina brosi. Það finnst aldeilis of sjaldan, niðurbrotsstarfssemin hefur tekið yfir. Hlusta á pólitíska umræðu og þú verður dapur. Og það virðist ekki verða betra, heldur versna.

Ég ætla ekki að verða dapur, ég ætla að leita að hinu hreina brosi. Á morgun ætla ég að komast einu skrefi nær fullgerðu húsi. Þegar ég verð búinn að klæða loftið í forstofunni seinni partinn á morgun ætla ég að kalla á Valdísi og spurja hana hvort við getum verið ánægð með þetta. Að vísu völdum við efnið saman svo að við verðum að sjálfsögðu ánægð með það. Svo fáum við okkur eftirmiðdagskaffi. Húsið okkar er ekki höll byggð af auðæfum, heldur gott hús byggt af nægjusemi. Einfalt líf er gott líf.

Á eftir ætla ég að taka bókina hans Martins og lesa þangað til Óli vinurinn Lokbrá hefur náð yfirhöndinni. Það þurfum við að gera eitt af öðru, lesa betri bók í dag en í gær, leita eftir fölskvalausu brosi og endurgjalda það, eða brosa fyrst í von um að fá það endurgoldið. Vinsamleg afstaða verður ekki einkennandi í mannlegum samskiptum mannkyns ef enginn byrjar.


Ég má til með að birta mynd af Martin Lönnebo. Við Valdís fórum að fylgjast með þessum manni fyrir mörgum árum. Hann á son sem heitir Jonas og hann er þroskaheftur. Jonasi líður oft illa og þá slær hann enninu í vegg og fær sár á ennið. En -stundum brosir hann líka. Best líður honum þegar þeir feðgar fara í hraðar gnguferðir. Martin á orðið erfitt með hraðar gönguferðir, eða svo hraðar sem Jónas vill. Hann er nefnilega orðinn 80 ára. Hann hélt upp á 80 ára afmælið í febrúar 2010 langt upp í Norrland í húsinu þar sem hann bjó sem barn.

"Ekki aðeins þau höfðu sál, heldur hlutirnir í kríngum þau."

Svolítið einkennilegur er ég auðvitað en ég get alveg boðið upp á það. Ég er gamaldags og vil halda í ýmsar dyggðir. Ég get skrifað endalaust um nokkra fermetra sem við erum að byggja. Í gær fór ég út í nýbyggingu og var alveg með það á hreinu hvað ég skyldi gera þann daginn. Það var notalegt að koma þarna út og ég bætti við rafmagnsofninn. Svo byrjuðu smíðarnar. Það var notaleg værð yfir mér og mér lá ekkert á. Ég upplifði sem ég ætti allt lífið framundan. Smiðurinn kemur um mánaðamótin til að hjálpa mér við að skipta alfarið um gólf í gamla hlutanum og ég hef beðið hann að koma við annan mann. Um mánaðamót þýðir auðvitað eins og einni viku eftir mánaðamót. Því veit ég að ég hef góðan tíma til að gera það sem ég þarf að gera áður en þeir koma.

Þegar ég hafði byrjað smíðarnar heyrði ég að Valdís var að sýsla hinu megin við bráðabyrgðaþilið milli þess nýja og þess gamla. Ég vissi vel hvað hún sýslaði. Hún var að pakka inn jólasveinunum sínum og setja niður í kassa. Svo vissi ég að hún settist öðru hvoru framan við sjónvarpið því að hún er mjög sænsk þegar skíðafólk er að koma í mark á þeim endalausu skíðamótum sem nú standa yfir.

Ég mældi listan sem ég þurfti að taka á lengd, listi sem var fjórir komma fimm sinnum sjö sentimetrar og átti að vera tæpur metri á lengd. Ég mældi upp á millimeter, tók vinkilinn og strikaði fyrir. Listinn átti síðan að fara bakvið klæðningu sem fyrst er 12 mm krossviður og á hann kemur 13 mm gipsónett. Listinn átti sem sagt að hverfa bakvið tvær sortir af veggjaplötum og ég hefði líka getað giskað nokkurn veginn á lengdina, sagað síðan með afli og séð að lokum hvernig nokkurra senntimetra löng flís klofnaði af kantinum sem síðast sagaðist. Þetta er mjög algeng sjón. En ég naut þess að saga mjúklega eftir strikinu og svo smellféll listinn á sinn stað. Síðan sneri ég mér að krossviðraplötunni sem átti að festast í listann og mældi nákvæmlega fyrir lengdinni, strikaði föstu striki og sagaði svo á sama mjúklega háttinn og áður. Endinn á krossviðarplötunni sem ég sagaði kemur til með að hverfa bakvið gipsónett þannig að ég hefði líka getað sagað þetta af afli og séð flís detta úr kantinum sem síðast sagaðist. Ég hef líka oft séð það ske.

Ég veit ekki hvort nokkur skilur þessa áráttu mína sem ég hef jú skrifað um áður. En það skiptir mig engu máli. Við eigum ekki lífið að leysa og hvers vegna skyldi ég gera þetta á þann hátt sem mér líður illa með. Ég vil njóta þess að byggja húsið okkar. Þetta er eitt af því sem ég kalla dyggð. Ef ég veit eftir á að húsið er fullt af þjösnalega gerðum atriðum sem eru falin bakvið panel og þilplötur mun mér finnast sem ég hafi ekki byggt bústaðinn okkar af dyggð. Það má njóta lífsins á margan hátt.

Að byrja aftur eftir næstum hálfs mánaðar frí frá byggingarvinnunni var býsna athyglisvert. Það hafði eitthvað skemmtilegt skeð. Tommustokkurinn og blýanturinn eru nú alltaf í vasa mínum, hamarinn alltaf þar sem hann á að vera og sögin alltaf sýnileg. Það var aftur á móti orðið þannig að þegar ég þurfti að mæla, þá þurfti ég að sækja tommustokkinn og blýantinn á einhvern annan stað og þegar ég þurfti að saga var sögin ótrúlega lúmskt falin bakvið eitthvað. Svo þegar ég var búinn að finna hana var ég búinn að týna einhverju öðru. Það er kannski eins og ég sé að lýsa einhverjum þroskaheftum og þá verð ég bara að taka því. Ég var orðinn þreyttur þarna fyrir jólin. Það má segja að þegar menn voru hér í vinnu var hraðinn oft meiri en ég átti auðvelt með að sætta mig við og það þvingaði mig of oft til að framkvæma hlutina á grófari hátt en ég á gott með að sætta mig við.

Allt þetta leið gegnum huga minn í gær og allt í einu datt mér í hug texti úr Heimsljósi, síðasta hlutanum sem heitir Fegurð himinsins. Ég læt hann fylgja hér skrifaðan á þann hátt sem skáldið sjálft gerði. Ólafur Kárason hafði komið heim til gamalla hjóna sem bjuggu á afskekktu heiðarbýli.

"Ekki aðeins þau höfðu sál, heldur hlutirnir kríngum þau. Þóalt allt væri komið af fótum fram, bæarkornið, amboðin, búsáhöldin, var hver hlutur á sínum stað, allt hreint og snurfusað. Það var ekki samloðun efnisins að þakka að hlutir féllu hér ekki í sundur, - hvað mundi verða um þessa tréskjólu ef hætt væri að mjalta í hana kvölds og morgna, hún mundi falla í stafi. Bærinn mundi hrynja þann dag sem hætt yrði að gánga hér um dyr með mjúka átakinu á snerlinum, varkára góðviljaða fótatakinu á pallfjölunum. Hér þekktist ekki að ganga um hlut einsog aungvan varðaði um hann, jafnvel þvaran í pottinum var merkileg sjálfstæð persóna með aðild og rétti; aldrei virtist neitt hafa verið gert hér af handahófi né skeytíngarleysi, lítilmótlegasta handarvik unnið af sérstakri virðíngu fyrir sköpunarverkinu í heild, af alúð einsog þvílíkt verk hefði aldrei verið unnið fyr og mundi ekki verða framar unnið."

Ég er að vísu ónógur með tilliti til þessara dyggu hjóna og þetta að hlutirnir séu alltaf á sínum stað fæ ég oft að þakka konunni minni fyrir.

Páskaferð á níunda áratugnum

Þegar ég var búinn teygja úr mér í morgun og lesa texta dagsins dreif ég mig fram úr, að tölvunni og inn á ríkisútvarðið til að sjá hvernig Íslandi hefði reitt af í illviðrinu í nótt. Síðan fór ég inn á FB til að skoða myndir af Vestmannaeyjafjölskyldunni okkar. Meðan ég flakkaði milli myndanna þar heyrðist hvellur ofan af þaki líkur því sem eitthvað mjög sterkt hefði slitnað. Síðan heyrðust miklir skruðningar þegar einir tíu fermetrar af hálfs meters þykkum snjó rann niður af þakinu. Það var frostlaust og búið að vera alla vega í sólarhring.

Eftir morgunverðinn fór ég út og virti fyrir mér snjóinn á þakinu. Ég sá að við urðum að fá gönguleið fjær húsinu að útidyrunum bakdyramegin, en slóðin sem við höfum haft í tvo mánuði lá meðfram veggnum þar sem nú var hætta á að snjór félli í hana. Svo gerði ég það. Þegar ég hafði lokið mokstrinum og kom inn var Valdís að tala í símann. Annelie og Kjell ætluðu að líta inn eftir smá stund. Gott að vera búinn að moka nýja slóð. Svo komu Annelie og Kjell. Fyrst skoðuðum við nýbygginguna og svo gengum við bakvið húsið eftir nýju slóðinni og inn um þvottahúsdyrnar. Þegar við höfðum verið inni svo sem eina og hálfa mínútu heyrðust miklir skruðningar. Það hafði hrunið af húsinu bakdyramegin, niður í gömlu slóðina, og þar lá nú um 70 sentimetra djúpur hart pressaður snjór. Sá sem hefði orðið undir því hefði ekki verið jafn góður eftir í háls eða hryggjarliðum. Þvílíkt lán að hafa haft þessa fyrirhyggju og hallærislegt hefði það verið að ganga með fólkinu eftir slóðinni sem fylltist einhverri mínútu áður en snjórinn féll.

Á sama tíma og við vorum hér í blíðskapar veðri var vitlaust veður á Íslandi. Talandi um Vestmannaeyjafjölskylduna og myndirnar áðan var líka vitlaust veður á Norðurlandi um páska fyrir meira en tuttugu árum, en þá höfðu Valgerður og Jónatan ákveðið að koma og vera hjá okkur um páska.


Þá var sterklegi maðurinn sem á þessari mynd gætir systra sinna hjá ljósmyndaranum í Vestmannaeyjum um nýliðin jól bara lítill drengur. Líklega var það þannig að veður versnaði fyrr en spáð var, eða alla vega sluppu þau ekki norður yfir Öxnadalsheiði áður en stórhríð skall á. Farsímar voru ekki í hvers manns vasa á þessum árum en við vissum þó að þau höfðu lagt á heiðina og svo var ekki mikið annað að gera en að vona það besta. Ekki kann ég að segja frá ferðinni yfir Öxnadalsheiði, niður í Öxnadal og Eyjafjörð, en get þó sagt að þau lentu í samfloti með hjálpsömu fólki. Að lokum komust þau á Árskógssand og þá þurfti að senda eftir þeim þar sem þau náðu ekki áætlunarferðinni.

Það er eins og venjulega þegar ég skrifa um eitthvað að ég kemst í sterkari tengsl við minninguna og ég átta mig á því núna að mínúturnar liðu afar hægt meðan ekkert spurðist af ferðalöngunum. Það var líka mikill léttir að heyra að þau hefðu komið fram í byggð á ný. Ég mun hafa verið lasinn um þessa páska því að það lenti á Valdísi að fara tvisvar niður á bryggju í hríðarveðri, fyrst til að taka á móti Rósu sem þá var að koma heim úr skóla og svo aftur þegar ferðafólkið að sunnan loks komst út í ey. Valdís segir að það hafi verið alger þrautarganga fyrir hana eins og veður var þá.

Við töluðum við Dísu og Ottó í Hrísey í gær og þá sögðu þau að Gunnhikldur dóttir þeirra væri á leið til Dalvíkur frá Akureyri í virkilegu óþverra veðri. Það leyndi sér ekki að þeim var ekki alveg rótt og við skildum það vel, þekktum það af eigin raun.


Svo aftur til Vestmannaeyjasystkina, Erlu, Kristins og Guðdísar. Það virðist fara vel á þeim á þessari mynd eins og þeirri fyrri. Við vitum líka að það fer vel á með þeim og að þær systur elska stóra bróður afar mikið. Ég efa ekki að það er gagnkvæmt af hans hálfu. Þetta eru falleg börn Valgerður og Jónatan.

Þú mátt alveg kommentera Valgerður og segja aðeins nánar frá þessari ferð. Það væri fóðlegt að rifja þetta svolítið meira upp.

Að þakka fyrir allar góðar stundir

Þegar ég kíkti út í morgun var hæglætissnjókoma. Ég sá í slóðinni heim að húsinu að dýr hafði verið þar á ferðinni. Það er ekki venjan að hundar gangi hér lausir svo að ég lét mér detta í hug svangur refur. Hún Valdís geymir nefnilega kjötsúpupottinn þarna út á ákveðnum palli á kafi í snjó. Kannski hefur lyktin af honum lokkað munnvatn fram á svanga tungu. Það voru þó engin spor á þessum palli.

Ég lagði mig aftur og ákvað að lesa. Það var ekki endilega nauðsynlegt að draga það til kvöldsins. Að lokum hafði ég mig á fætur og eldaði hafragrautinn fyrir okkur og þá var klukkan að nálgast tíu. Þá kom Valdís í umferð, gekk beint að sjónvarpinu og kveikti á því. Það var að byrja messa. Já, einmitt, það var þrettándinn í dag. Síðan var það morgunverður og messa. Hann Per, Álendingurinn sem býr í Reykjavík, sagði á FB í morgun að íslendingar væru þeir einu sem hefðu ekki frí á þrettándanum.

Það var svo sem ekkert svo sérstakt sem stóð upp úr eftir þessa messu, bara venjuleg ágæt messa. En það var sjónvarpsmessa um áramótin og sú messa stendur upp úr, svo sannarlega. Hún byrjaði með því að við sáum á eftir ungri konu sem gekk rösklega fram að kirkjudyrum, opnaði og kallaði út "gjörið þið svo vel". Inn streymdi stór hópur af börnum og ungum unglingum. Þegar konan sem opnaði dyrnar sneri sér við gaf þar að líta mjög unga, ljóshærða konu með prestakraga, svo ung leit hún út fyrir að vera að mér datt fyrst í hug að þarna væri unglingur á ferðinni. Valdís vildi hins vegar meina að hún væri að nálgast þrítugt. Ég er alveg viss um að vegna barnaskarans hefur hún reynt að gera sig eins unglega og mögulegt var. Í kirkjunni sat þá þegar fjöldi fullorðinna sem einnig sat þessa messu.

Unga konan predikaði á alveg frábæran hátt og tókst að gera litríka flugu að boðbera og barnaskarinn starði á hana og hlustaði með gríðarlega stórum augum og galopnum eyrum. Barnakór söng og organistinn var strákur á fermingaraldri sem lék fimlega á þriggja nótnaborða orgel. Undirleik við síðasta sálminn annaðist annar strákur, ennþá yngri, og hann lék á sama þriggja nótnaborða orgelið.

En aftur að deginum í dag. Ég ætlaði að hefja smíðar og mundi ekki einu sinni eftir því að það var þrettándinn fyrr en Valdís kveikti á sjónvarpinu og þá ákvað ég auðvitað að horfa á messuna með henni. Jafnhratt og messunni lauk hófst sjónvarpsþáttur um fjórar konur sem búa einar hver á sinni eyjunni í finnska skerjagarðinum. Mér fannst sem ég yrði að sjá hvernig þessi þáttur byrjaði en hann varð svo forvitnilegur að ég gat engan veginn slitið mig frá honum. Yngsta konan fæddist 1981 og sú elsta 1938. Það kom eitt og annað fram hjá þessum manneskjum sem ég átti alls ekki von á. Þær voru ekki skrýtnar eða undarlegar á nokkurn hátt. Þær voru mjög hugsandi manneskjur og það var fróðlegt að hlusta á heimspeki þeirra.

Ein þeirra sagði að gæði lífsins byggðust á því að eiga mikinn kærleika. Önnur sagði að hún væri oft spurð hvers vegna í ósköpunum hún byggi ein á eyju. Fólk getur spurt eins og það vill, sagði hún, en mér dettur ekki í hug að spyrja fólk sem býr í stórborg hvers vegna það búi þar. Ein þeirra hafði verið spurð af manni sem kom í heimsókn til eyjunnar hennar hvenær hún hefði síðast verið í leikhúsi og ég tók það þannig að það hefði legið pínulítið háð í spurningunni. Það vildi reyndar svo til að hún hafði verið í leikhúsi rúmlega viku áður. Og hún spurði gestkomandi til baka hvenær hann hefði verið síðast í leikhúsi og hann svaraði því til að það væru ein fimm ár síðan. Hann sem sagt hefði átt að hafa vit á að spyrja ekki og aðlaga sig frekar að því andrúmslofti sem á eyjunni ríkti án stórborgarhroka.

Ég bara gat ekki slitið mig frá þessu, svo var komið hádegi og ég var ekki byrjaður að smíða. Víst byrjaði ég nokkru síðar og ég komst þokkalega í gang. Ég hlakka til eins og barnungi að allt húsnæðið verði tilbúið. Þá verður gaman að rölta inn í nýja herbergið og setjast í stól frá Varsam, þessa sem eru með örmum sem gott er að fá tak á og gott fyrir þá sem eru farnir að stirðna aðeins eða komnir eru með nýjan mjaðmalið. Horfa þaðan inn í iðjagrænan skóginn og hafa bók við hendina, líta aftur upp úr bókinni og sjá sólina setjast bakvið Kilsberen. Svo ef það skyldu koma gestir fá þeir að gista í þessu herbergi. Meðan gestir eru þarf ekki að setjast í stólinn frá Varsam til að horfa út um glugga eða lesa. Þegar gesti ber að garði gerum við eitthvað skemmtilegt með þeim í staðinn. Og hvað Valdísi áhrærir þá hefur hún átt tugi tonna af þolinmæði á þessum byggingartíma. Svo förum við út í nýju forstofuna fyrir háttinn, forstofuna sem er með glugga á þrjá vegu og þaðan lítum yfir héraðið til að sjá að allt sé í góðu gengi. Að því loknu verður gott að ganga til náða ásamt Óla Lokbrá og dreyma drauma um góðar stundir sem ellilífeyrisþegi. Svo má bara ekki gleyma að þakka fyrir allar góðar stundir.

Að reisa sig upp af naglanum

Ég man eftir hvolpi á Kálfafelli sem var afar skemmtilegur eins og allir litlir og glaðir hvolpar. Eitt sinn sat hann og skrækti og enginn vissi hvað angraði hann. Hvolpur sem á svo bágt sem þessi átti í þetta skipti tekur maður jú upp og reynir að hugga. Þá kom í ljós hvað angraði hvolðpinn. Hann sat á naglaspýtu.

Það var nokkuð svipað þessu sem ég tók þátt í í dag þó að enginn líkamlegur sársauki væri þó á ferðinni. Internetið hefur verið seinvirkt á köflum og á köflum alveg ónóthæft. Svo hefur það líka verið þannig að það hefur ekki verið hægt að tala í síma og vera út á netinu samtímis. Við vorum orðin mjög þreytt á þessu því að það var svo mikið um tilgangslausa tímaeyðslu að vera út á netinu. Ég tók einu sinni enn leiðbeiningabókina og nú rak ég augun í eftirfarandi: Ef tölvan er seig, það tekur mjög langan tíma að komast inn á heimasíður og annað efni er reynandi að tala við aðstoðarmann og fá hjálp með að festa inni 3G netið. Við Valdís ræddum þetta og svo hringdi ég.

Ungur þolinmóður maður hlustaði á mig og ég sagði honum að tölvan væri óþolandi seig og svo gætum við aðeins gert eitt í einu, verið út á netinu eða talað í símann. Allt í lagi, hann var til þjónustu reiðubúinn. Svo byrjuðum við. Þetta var mjög einfalt, hann sagði til og ég gerði sem hann sagði. Við gerðum margar tilraunir til að festa inni 3G netið en það var af og frá að það tækist. Að lokum ráðlagði hann okkur að kaupa loftnet sem við gætum til dæmis stillt út í glugga og eftir það gætum við reynt aftur. Hann sagðist líka sjá að næsta mastur væri í 6,8 km fjarlægð og það væri eiginlega of mikið. Svo þökkuðum við hvor öðrum fyrir og kvöddumst.

Ég fór fram til Valdísar og gaf skýrslu og við ákváðum að kaupa loftnet. En -allt í einu rann upp ljós fyrir mér. Ég var að tala í símann og samtímis ætluðum við að vinna á netinu. Samtal okkar byrjaði á því að það væri ekki hægt og hann staðfesti að á 2G netinu væri það alls ekki hægt og við vorum einmitt á 2G netinu að gera það sem ekki var hægt að gera. Þarna var ég eins og hvolpurinn fyrir mörgum áratugum og kannski aðstoðarmaðurinn líka. Ég get hins vegar alveg tekið það á mig einan. Ég er eiginlega vaxinn upp úr því að þurfa alltaf að klína á aðra þegar ég dugi ekki sjálfur. Og svo fannst mér þetta allt í einu bara vera spreng hlægilegt.

Ég hringdi aftur, núna úr farsíma og nú kom annar ungur maður í símann, líka þolinmóður, og ég sagði honum hvernig allt væri í pottinn búið. Hann hló ekki en sagði að við skyldum bara prufa. Ég kunni í sjálfu sér að framkvæma þetta eftir svo margar tilraunir sem við höfðum gert í fyrra skiptið. Allt gekk nú eins og í sögu, rétt ljós fengu réttan lit og nú lifir cyanblár litur á fjórða ljósinu á módeminu og það þýðir að 3G er ráðandi. Allt virkar svo hratt eins og það hefur aldrei gert áður. Við erum búin að prufa að tala í símann og surfa samtímis og það gengur betur en orð fá lýst. Ef maður hefur vit á að standa upp af naglaspýtunni og hætta að skæla, þá má búast við árangri.

Eins og það á að vera

Á gamlárskvöld hvarf síðasti snjórinn og frosthrímið af skógunum hér um slóðir. Við sáum eftir þessu því að það var hreinlega komið upp í vana að svona ætti það að vera. En í dag er búin að vera hæg og jöfn snjókoma og viti menn; allt er aftur orðið eins og það á að vera. Mér hefur ekki tekist í vetur að ná góðum myndum af svona jólasnjó. Ég segi jólasnjó því að ég man ekki betur en að í gamla daga hafi oft verið á ferðinni jólakort af slapandi grenigreinum hlöðnum snjó. Það var svo spennandi að skoða. Það var á þeim árum sem ég hélt að ég gæti verið skógarhöggsmaður og endað vertíðina með því að fleyta ægilegu magni af stokkum niður vatnsmiklar ár. En það var líka á þeim árum þegar ég hélt að ég mundi aldrei koma til útlanda þannig að skógarhöggsmaðurinn í mér var bara draumur. Í dag grunar mig að líkamsburðir mínir hefðu aldrei nægt til að stunda þessa hrikalega erfiðu vinnu eins og skógarhögg var á þeim árum.

Í dag er fyrsti dagurinn á nýju ári sem ég hef klæðst smíðagalla, farið út í nýbygginguna og tekið mér hamar og sög í hönd. Það var næstum uggur í mér hvernig það mundi vera að byrja, hvort allt mundi ekki verða önugt við mig. En nei, langt í frá. Það var gaman að komast í gang. Ég að vísu byrjaði seint, ekki fyrr en eftir hádegi. Það hefur verið ýmislegt smá annað sem hefur þurft að gera og við höfum tekið tíma í svoleiðis það sem af er ári. Svo þegar leið á eftirmiðdaginn fór að berast kunnugleg angan út til mín. Ég sá þá fyrir mér rjúkandi potta og djúpa diska fyllta með "Kjötsúpu Valdísar", þennan næringarríka rétt sem Valdísi er svo lagið að gera góðan með miklu, miklu og fjölbreyttu grænmeti. Þetta kvöld var sem sagt eitt af þeim sem ég borða mikið meira en ég get skilið að ég skuli geta komið niður. Núna er líkaminn í fullum gangi við að vinna úr þessu og undirbúa góðan dag á morgun.

Það er mikið gleðiefni hversu fáir hafa farist í umferðinni á síðasta ári. Árið 1970 fórust um 1070 manns í umferðarslysum en á síðasta áru nokkuð undir 300 manns. Alveg frábært. Það er hins vegar öllu leiðinlegra að hann Per Oskarsson leikari og konan hans brunnu inni um hátíðarnar. Það er mikil eftirsjá að Per. Hann var ekki bara góður leikari sem gat komið manni svo fullkomleg á óvart. Hann var líka mikill spekingur. Hann var nefnilega heilmikill heimsspekingur og spekúlant og í viðtölum sem við hann voru höfð gat hann komið verulega á óvart. Ég vona að eitthvað af þessum viðtölum verði endursýnd þegar frá líður og þá ætla ég að fylgjast með. Ég get ekki sagt frá neinu sem heitir af því sem ég hef heyrt hann segja en það var samt forvitnilegt og fróðlegt að hlusta á hann. Það er ekki alltaf það mikilvæga að muna svona lagað en það sem á sér stað innra með manni, áhrifin af orðunum, það er það mikilvæga. Með þau orð í huga ætla ég að fara að bursta og pissa og svo legg ég mig í hreinu rúmfötin sem hún Valdís setti á rúmið í morgun. Það verður góður félagsskapur þegar svefnhljóðin fara að heyrast og Óli Lokbrá og englarnir taka okkur að sér.

Vestmannaeyjafjölskyldan

Við Valdís vorum að skoða myndir á Fb af fjölskyldunni í Vestmannaeyjum. Alveg stórfallegar myndir af fjölskyldunni og þar að auki vandaðar stofumyndir. Mikið rosalega er langt síðan við höfum farið á stofu. Það er líklega ekki síðan Valgerður varð stúdent og kannski stuttu eftir það. Í örfá skipti fórum við á stofu þegar börnin okkar voru börn og líklega var mamma þeirra eitt sinn ein með þau á stofu og ég ekki með. Það eru allt að 30 ár síðan. Svo vorum við að skoða myndir um daginn af frændfólki í Skaftafellssýslunni sem ljósmyndari tók og þær hljóta að hafa verið teknar fyrir um það bil 90 árum. Það er varla að ég trúi því en það bara er svona. Pabbi til dæmis þá ungur maður og hann er fæddur 1896. Hvað fólkið hefur verið duglegt þá og hvað Vestmannaeyjafjölskyldan var myndarleg að fara til ljósmyndara kringum hátíðarnar.


Hérna er árangurinn eftir ljósmyndastofuferðina þeirra í Vestmannaeyjum. Kristinn smiður í Noregi, Guðdís ungkona í Vestmannaeyjum, Valgerður forstöðukona, Erla fermingarstúlka og Jónatan kennari. Hvað er svo hægt að fara fram á meira, er þetta ekki glæsilegt?

Í vor förum við til Vestmannaeyja til að vera við fermingu Erlu. Þá verða tvö ár síðan við vorum við fermingu Guðdísar. Við getum ekki betur séð eftir myndinni að dæma en að á þeim tíma hafi Guðdís breytst úr fermingarstúlku í unga konu eins og ég sagði áðan. Ætlar fólk að fara að hlaupa yfir táningsárin eða hvað? Ég held að það sé meiri vandi að vera unglingur núna en þegar ég fermdist í jakkafötunum hans Þórarins eldri á Seljalandi fyrir 55 árum. Ég var svo heppin þá að hann átti glæný jakkaföt sem pössuðu alveg nákvæmlega á mig, en ég var þá í örum vexti á hæðina en minnkandi á breiddina.

En hvað um það, til hamingju með fínu myndirnar Vestmannaeyingar og hvað þið eruð fín á myndinni. Ég fæ kannski lánaðar fleiri síðar.

Myndir af nafna og fleirum

Ég hef sótt fjórar fötur af eldivið út í dag og annað hef ég hreinlega ekki gert utan kannski að taka lítillega af matarborðinu. Svo var líka smá fundur með smiðnum klukkan ellefu í morgun. En í gær gerði ég ennþá minna og sama í fyrradag. Inn á milli hef ég verið ögn óöruggur yfir því að vera ekkert að gera. Eftir smá gönguferð sem við fórum í dag lagði ég mig með bók. Það fór eins og í hin skiptin sem ég hef byrjað að lesa um helgina, ég fór að sjá stafina tvöfalt, reyndi að rífa mig upp og svo sofnaði ég. Það voru engir draumar en víst ekki alveg hljóður svefn heldur eftir því sem ég hef heyrt síðar. Svo hringdi klukkan. Hvað-hvað, á ég að fara að vinna!!? Ég þreif klukkuna, ýtti niður takkanum en hún hélt áfram að hringja. Hvaða vitleysa var þetta eiginlega að setja á vekjaraklukkuna. Svo hristi ég hana. Það var þá sem ég skildi að það var síminn. Svo böglaðist ég að símanum og svaraði -Guðjón. Það var hún Binna mágkona mín. Hún veit ekki ennþá að hún vakti mig en það get ég vel boðið upp á.

Eftir kvöldmatinn fór ég að skoða myndir frá jólunum. Ég skoðaði þær svolítið fram og til baka. Svo ákvað ég að setja nokkrar af þessum 125 myndum á bloggið mitt. Mjög margar þeirra snúast um yngsta barnabarnið.


Okkur nöfnunum kom vel saman. Málarinn var farinn og rafvirkinn var farinn og þá var hægt að fara að snúa sér að mörgum lokaverkefnum fyrir jólin þarna í Stokkhómi. Þetta er ég búinn að blogga nokkuð um áður. Hér var komið að því að setja saman mjög sniðugt skrifborð, í raun einfalt, en þó að ég sé gjarn á að bara fara í svona samsetningar og ljúka þeim sem snarast, þá fékk ég í þessu tilfelli að snúa mér að teikningunum og lesa mig vel til. Þar kom nafni minn inn í þessa mynd. Hann kom oft og benti mér á skrúfu og sagði na na en hann þvældist ekki fyrir. Svolítið var ég hræddur um að hann mundi reka litlu tærnar í þessar hvössu skrúfur sem með tímanum fóru að standa up úr þessum skrifborðshliðum, en svo fór þó ekki. Þá hefði ég líka fengi samviskubit. En þessi samvinna okkar vakti upp meira en 40 ára gamlar minningar sem ég kem til með að setja á blað innan tíðar.


Hann var jú yngstur og þess vegna fékk hann að opna pakka svolítið fyrr en aðrir. Hér er hann reyndar að hjálpa mömmu og pabba að taka upp eitthvað sem þau fengu frá ömmu hans og þau áttu að nota við jólaborðhaldið.


Mamma mín, viltu dansa við mig eða kannski bara taka mig. Þarna heldur amma á sósukönnunni sem hann hjálpaði til með að taka upp úr pakkanum. Og amma komin með jólasveinahúfu, hvað stendur til?


Við pabbi erum að byrja að æfa okkur á orgelið sem ég fékk frá henni Valgerði móðussystur minni, eða er hann ekki að segja eitthvað svona? Og svo held ég að hann segi líka; þakka þér fyrir moster Valgerður.


Búsáhöld frá mömmu og pabba. Þá get ég bara boðið þeim í mat.


Svo skreytti Pétur gamla arininn. Hann er líklega meira en 100 ára gamall þessi.


Svo var bara að komast í jólaskap fyrir jólamáltíðina. Valdís segist líta svo alvarlega út á þessum myndum en við erum nú amma og afi og megum ekki alltaf vera kæruleysisleg. En hvar er Hannes? Hann er jú að hlaupa innan um svo margt nýtt og spennandi en ég verð að segja að hann fór ótrúlega varlega drengurinn þó að hann liti margt augum fyrsta sinni þetta kvöld.

Nýársdagur 2011

Hvað mig áhrærir ríkir dagur letinnar í dag. Valdís situr hins vegar við sjónvarpið og horfir á skíðakeppni sem fram fer í Þýskalandi. Snjóábreiðurnar og kögrin, stærri og minni, sem skreyttu og skýldu trjánum í skóginum utan við gluggann lengi undanfarið hurfu að fullu og öllu í tveggja stiga hita sem ríkti hér í eina tvo eða þrjá tíma um miðnætti ásamt nokkrum vindi sem kom til að kveðja með okkur gamla árið. Svo þegar nýja árið gekk í garð var skógurinn nakinn en upp undir hálfs meters djúp þekja skýlir allri jörðinni og heldur henni frostlausri.

Dagur letinnar sagði ég. Síðasta ár er eitt af mínum vinnusömustu gegnum tíðina ef ég legg saman launavinnu, byggingarvinnu hér heima ásamt mörgu öðru sem til féll á árinu. Jafnframt hefur þetta verið afburða skemmtilegt vinnuár sem endaði með vinnudegi í Vornesi þar sem ég finn mig alltaf á heimavelli. Þegar ég fór þaðan í gær tók ég með mér ungan mann sem var að ljúka tíma sínum þar og skildi hann eftir á strætisvagnastöð. En áður en ég skildi við hann skruppum við í verslun þar sem flugeldar voru seldir og hann keypti eitthvað box með 100 einhvers konar knallettum eða hvað það nú heitir. Þegar hann var tilbúinn lagði ég tvo pakka af stjörnublysum á borðið og kallaði ellilífeyrisþegablys. Það voru öll okkar áramótaljósakaup. Valdís brenndi upp öðrum pakkanum um tíuleytið framan við verðandi aðalinngang okkar. Hinn liggur óhreyfður fram á borði.

Það var ýmislegt gott efni í sjónvarpi í gærkvöldi og ég gekk dálítið milli sjónvarps og tölvu þar sem ég hlustaði á íslenska forsætisráðherrann, las eina og aðra blaðagreinina og nokkur áhugaverð blogg. Klukkan hálf tólf hófst hin árlega dagskrá frá Skansinum í Stokkhólmi og þar söng vandaður kór ásamt afburða góðum einsöngvurum. Fimm mínútur fyrir tólf byrjaði Jan Malmsjö sinn árlega ljóðalestur

Hringdu, hringdu,
hringdu klukka, hringdu.

Síðan hélt hann áfram með ljóðið og mér fannst sem það smám saman yrði að einhverju sem hann samdi jafnhraðan sem hann úttalaði það. En þegar Jan var nýbyrjaður byrjaði mjög hörð skothríð stutt sunnan við okkur. Valdís opnaði útihurðina og þá merktist vel hversu rosalega þessar sperngingar slógu grjóthart á öllu og bergmáluðu þar að auki í skóginum. Ég leit út um nýja gluggann á stofunni okkar, þennan sem vísar móti skóginum, og þar sá ég hvernig það var eins og eldglæringarnar væru á flökti milli trjástofnanna. Ég einbeitti mér aftur að Jan Malmsjö en gat heldur ekki látið vera að hugsa til alls þess lífs sem þrifist í mildum samhljómi í þessum tiltölulega náttúrulega skógi, líf sem við manneskjurnar tölum gjarnan um sem óspilta náttúru sem sé okkur svo mikils virði. Ég sá fyrir mér elgi, dádýr, héra, refi og úlfa hlaupa þar um í æðisgengnum tryllingi, þvers og krus,stökkvandi á stokka, ísaldarbjörg, húsveggi, girðingar og hvað sem á vegi þeirra yrði. Hundar og kettir sem á annað borð ættu eigendur mundu liggja í óráðsvímu á gólfteppum og gærum og væru að mestu víðs fjarri á sínu árlega róandilyfjafylleríi.

Strax eftir að klukkurnar hans Jan hættu að hringja og mannfjöldin á Skansinum lyfti glösum sínum til að skála fyrir nýju ári byrjuðu þessar miskunnarlausu sprengingar norðan við okkur. Slagkrafturinn í sprengingunum var eitthvað svo mikill þar líka að það var ekki hægt annað en hugsa til þess hvort rúðurnar mundu þola þetta. Einhverjar fáar mínútur stóð sú skothríð yfir en svo varð byggðarlagið hljótt, fullkomlega hljótt. Og það var eins og það lægi allt í einu í loftinu að áður en nóttin væri liðin yrði þetta sama kyrrláta og óspillta sveitin og hún hefði alltaf verið. Ekki þó á sama augnabliki og síðasta skotið reið af, heldur þegar hjörtun sem börðust upp á líf og dauða við að dæla lífgefandi blóðinu um líkamana út í skóginum hefðu náð að róast niður.

Ég var með þetta allt í kollinum þegar ég settist niður við tölvuna til að skrifa áðan. Eiginlega var textinn þá þegar fæddur. Ég velti því fyrir mér eitt augnablik áður en ég byrjaði hvort ég ætti að koma fram úr fylgsninu og opinbera hversu gamaldags ég væri. Ég ákvað að gera það. Sannleikurinn mun gera yður frjálsa sagði mikill boðberi fyrir 2000 árum og ég vann út frá því í Vornesi bæði í gær og í fyrradag, þó að ég ynni þar ekki útfrá Biblíunni, heldur út frá 12-spora kerfinu. Það mál út af fyrir sig gæti svo enst í mörg blogg.

Nú er ég búinn að leggja áherslu á það sem skeði á nágrannabæjunum okkar fyrsta áramótamiðnættið okkar á Sólvöllum. Því ætla ég að segja frá nágrönnum okkar á annan hátt líka. Við höfum hvers annars símanúmer ef við verðum einhvers vísari þegar nágrannar eru að heiman. Áður en við Valdís lögðum af stað til Stokkhólms fyrir jól gengum við fram og til baka um húsið og gættum að því hort ekki væri allt í virkilega góðu lagi. Svo lögðum við af stað og það tók alla vega fyrsta klukkutíma ferðarinnar að meðtaka það að allt mundi vera í góðu lagi.

Fyrsta kvöldið hringdi svo Jónas nágranni og sagði að eitthvað pípti inni í húsinu. Hann gekk upp að loftventli á svefnherberginu okkar og lagði símann upp að loftventlinum. Jú, það bar brunaboðinn sem við höfum í herberginu sem pípti óhuggnanlega. Jónas, sagði ég, Stína og Lars hafa lykil, ég verð að biðja þíg að sækja hann og ráðast til inngöngu. Og svo gerði Jónas. Brunaboðinn er staðsettur næstum beint yfir 1000 W rafmagnsofni og þegar við hættum að kynda í kapisunni hitnaði ofninn meira en áður og það þoldi ekki brunaboðinn. Jónas tók niður brunaboðann og lækkaði heldur á ofninum og svo varð allt í jafnvægi á ný.

Stína og Lars heimsóttu húsið þrisvar meðan við vorum í Stokkhólmi og það var mikils virði í þeim frostum sem þá voru. Þegar allt verður tilbúið varðandi byggingarframkvæmdir okkar verða slíkar eftirlitsferðir ekki jafn nauðsynlegar, en ég er þó jafn viss um að nágrannarnir hafa auga með öllu sem tekur einhverjum breytingum þegar við erum að heiman eins og við gerum líka gagnvart þeirra eigum þegar þeir eru víðs fjarri. Gamlárskvöldið er enginn Þrándur í götu en í einar tíu mínútur síðastliðið miðnætti varð þessi strjála byggð að einhverju óþekktu. Í dag er allt eins og það var áður.


Svona leit okkar áramóta"show" út. Ég hafði spurt Valdísi hvort hún vildi eitthvað til áramótanna en hún sagði nei. Svo kom ég með stjörnublysin og einn lottómiða. Á miðann vann hún 50 kr. Í fyrradag var annar dagur og þá fékk hún blómvönd. Það gerði ég í tilefni af því að hún hafði endst til að vera gift mér í 49 ár. Það er ekki svo lítið og því má bara alls ekki skjóta út í bláinn með flugeldi.
RSS 2.0