Töfrakonan

Á þriðjudaginn var ætluðum við Valdís til Vingåker og fá meðferð hjá konu sem ég kalla töfrakonuna. Hún er bæði nuddkona og nálakona. En nú fór það svo að stuttu áður en við ætluðum að leggja af stað hringdi hún og sagðist þurfa til dýralæknis með hundinn sinn. Það var auðvitað ekkert mál og við ákváðum nýjan tíma á föstudag, það er að segja í gær. Um hálf níu renndum við úr hlaði og ég fann að þessi dagur byrjaði með svolítilli tilbreytingu þó að það væri ekki annað en fara til nuddkonu. Svo ókum við þessa leið sem ég er búinn að aka að minnsta kosti 3000 sinnum austur á bóginn og jafn oft til baka heim. Fyrir Valdísi er þetta hins vegar meira sem nýnæmi. Ég heyri það á spurningum hennar í þau tiltölulega fáu skipti sem við höfum farið þessa leið saman.

Þegar komið er til Vingåker eru aðeins eftir fimm kílómetrar til að vara kominn í hlað í Vornesi. Við lögðum við kaupfélagsverslunina og svo fórum við á nuddatofuna og þegar Valdís hafði hitt töfrakonuna í fyrsta skipti og heilsað henni fór hún í kaupfélagið ásamt einhverju fleiru en ég lagðist á nuddbekkinn. Ég valdi nálar og ástæðan fyrir ferð minni í þetta skipti var stirðleiki í hálsinum. Það eru kannski fleiri jafnaldrar sem kannast við þetta: Það er erfiðara fyrir mig að líta við þegar ég ek að gatnamótum þar sem þarf að líta aðeins aftur með bílnum til að fylgjast með umferð og svo ég tali nú ekki um að bakka, þá eru það bara speglarnir sem gilda.

Fyrir ellefu mánuðum var ég síðast hjá töfrakonunni vegna þess að hryggjarliðir milli herðablaðanna vildu festast og það skapaði óþægindi, enga vonda verki en óþægindi. Ég spurði hana þá hvort hún vildi prufa að laga þetta með nálum. Jú, hún var til í það en tók fram að það yrði engin endanleg lækning en það mundi örugglega hjálpa tímabundið. En málið er bara það að ég hef ekki fundið fyrir þessu síðan.

Þegar ég var búinn að liggja á bekknum í einn og hálfan tíma heyrðist til Valdísar frammi á biðstofunni sem er lítil og þar er aðeins einn stóll. Þá hafði ég fengið bakið nuddað, margar nálar í bak og fyrir og eitthvað fitl við hnakkan og gagnaugun sem ég ekki skildi. Ég þarf ekki að skilja allt svona lagað enda væri hún ekki töfrakona ef ég skildi allar hennar athafnir. En eitt var öruggt; það hafði eitthvað skeð. Mér fannst ég vera þrútinn í andliti, jafnvægið eitthvað úr skorðum gengið og ég hafði á tilfinningunni að ég liti út fyrir að vera timbraður. Og svo ætlaði ég að ganga í gegnum Vingåker á kaffihús og ég leit út fyrir að vera timbraður. Hvað ef einhverjir frá Vornesi yrðu á vegi mínum. Það leit ekki nógu vel út og sögusagnir gátu komist á kreik. :-) Margir í Vingåker vita líka í laumi hver ég er.

Á kaffihúsinu naut ég þess að drekka tvo bolla af kaffi og mér varð hugsað til Valdísar sem var svolítið óörugg gagnvart þessari konu sem ég hafði svo oft talað um sem töfrakonu. Ég var hins vegar ekki í vafa um að það færi vel á með þeim. Ég hef lengi verið alveg viss um að hún er góð kona því að hún hjálpar svo ekki verður um villst. Hún var upphaflega hjúkrunarfræðingur og hitti mikið af veiku fólki og mörgu mikið veiku. Svo fékk hún þá hugmynd að hjálpa fólki áður en það veiktist. Þá valdi nún að læra sjúkranudd og nálastungur og nú er hún ellilífeyrisþegi sem vinnur hálfa daga flesta virka daga vikunnar.

Ég kom á biðstofuna stuttu áður en Valdís átti að vera tilbúinn. Það er nokkuð hljóðbært þangað fram þannig að ég komst ekki hjá því að heyra síðustu orð töfrakonunnar til Valdísar og allt sem ég er búinn að skrifa núna er skrifað til að kom á framfæri þessum lokaorðum: Það er aðeins góð kona sem getur talað til annarrar manneskju eins og hún talaði til Valdísar í lok meðferðarinnar. Þar með er því komið á framfæri. Það verður aldrei gert of mikið að því að tala um það jákvæðasta í fari góðra manna og kvenna.

Ofanritað var ég búinn að skrifa í gær en þegar ég ætlaði að birta það voru höfuðstöðvarnar búnar að loka blogginu tímabundið sem er óvenjulegt. Þá tapaði ég niður stórum hluta af því sem ég hafði skrifað og er nú búinn að endursemja það. Svo er spurningin hvernig heilsan er í dag. Valdís segist vera mun hressari og ég segi bara það að sparslspaðinn og sandpappírinn hafa leikið svo undursamlega í höndunum á mér í dag að ég held að það hljóti að hafa litið út eins og sjónhverfingamaðiur væri á ferðinni. Ég tel mig hafa góða heilsu en ég tel líka að það sé mikilvægt að fara öðru hvoru í eftirlit eins og gert er með bíla.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0