Ég skal syngja á þínum herðum elsku pabbi

 
Við á Celsiusgötu 3 í Stokkholmi fórum til nágranna í gær til að borða léttan hádegisverð. Rósa og Pétur smurðu flatbrauð til að leggja til eitthvað óvenjulegt í þennan hádegisverð. Þegar við fundum lyktina af hangikjötinu og sáum það á flatbrauðinu, þá minnti það okkur á fermingarveislur í Hrísey fyrir áratugum. Ef við munum rétt, þá skar fólk heilu hangikjötslærin í álegg og svo var mikið af flatkökum í veislunum, flatbrauð með hangikjöti. Maðurinn ég sem er hættur að byggja er þó að hugsa um að byggja reykaðstöðu en það verður varla kallað bygging. Bara skápur til að hengja upp í, dallur til að brenna í og rör til að leiða reykinn á milli. Ég var góður við  að reykja rauðmaga þegar við bjuggum á Bjargi og ég ætti að geta endurnýjað þá kunnáttu. Svo þarf ég líka að drífa í því að baka flatkökur. Svíum þykir þær góðar og þær eru öðruvísi en annað brauð hér eins og rúgbrauðið er líka. Svo þegar hangikjötið er með, þá er það fullkomnað. Mér fellur býsna vel að vera öðru vísi.
 
 
Léttur hádegisverður er alls ekki svo lítill hádegisverður, en þetta er hjá Tina og Joakim sem búa bara handan við hornið. Oskar sonur þeirra er í leikskóla með Hannesi. Eftir hádegisverðinn fórum við Pétur í búð þar sem ég keypti rafmagnsrakvél og hún er svo rosalega fullkomin að það eiginlega nægði fyrir mig að sveifla henni eitthvað í nágrenni við höfuðið og svo voru þessi ílustrá á efri vörinni horfin.
 
 
Hann nafni minn hóf í gærmorgun, annan jóladag, samsetningu heimskautaflugvélarinnar sem ég gaf honum í jólagjöf. Hann gekk hratt og ákveðið til verks og sýndi að æfinginn skapar meisrarann. Hann er orðinn þaulvanur samsetningamaður.
 
 
Hann hafði vinnulýsinguna við hendina og var svo fljótur að finna allt út að þegar hann var búinn að framkvæma, þá var ég að byrja að skilja eða finna hlutana sem hann var búinn að nota. Í það eina skipti sem ég ætlaði að segja til þá komst hann ekki hjá því að reka vitlsysuna ofan í mig aftur.
 
 
Heimskautaflugvél er mikið og gott tæki. Það varð hlutverk mitt að undirbúa matarborðið fyrir kvöldmatinn og þá setti ég bakka á lítið innskotsborð og heimskautaflugvélina á bakkann. Þar með var þessi nýja flugvél lent á Bakkaflugvelli. En hún stoppaði ekki lengi þar því að eigandinn hélt henni í stanslausum rekstri og flaug henni víða í áríðandi verkefnum.
 
 
Svona stellingar virðast vera þægilegustu stellingarnar fyrir suma, annars væru þær varla valdar. Það var Hannes sjálfur sem valdi að sitja á háhesti þegar þeir feðgar ákváðu að syngja saman. Við Páll bróðir töluðum um það um daginn hvað það væri mikilvægt í uppeldi að syngja en það var þó ekki til siðs í okkar uppeldi. Eitt sinn þegar Hannes var sóttur á leikskólann voru börnin að föndra og þá söng Hannes "Krummi krunkar úti". Þá hafði einn af leikskólakennurunum sagt að í annað skipti hefði hann verið að syngja þegar þau voru líka að föndra og börnin í hans hópi hefðu lagt föndrið frá sér til að geta hlustað betur á hann. Eflaust er eitthvað meðfætt í þessu sambandi en ég er alveg öruggur í þeirri vissu minni að uppeldið er stærsti þátturinn.
 
 
Hannes varð stríðinn þegar ég bað um að fá að taka mynd af honum með heimskautaflugvélina og hann bara sneri sér undan og þóttist vera fúll. Svo kom Rósa mamma til hjálpar og samningar náðust. Jólin hafa verið mjög bundin við Hannes Guðjón enda ekkert eðlilegra. Rósa er þarna í kjól úr efni sem hún keypti í Sádi-Arabíu en kjóllinn var saumaður hjá vinkonum hennar í Stokkhólmi.
 
Þegar draumur minn um að verða læknir hafði gufað upp eftir tíu ára tilveru, þá ætlaði ég að verða flugmaður og kynnast heiminum. Ekki varð ég frekar flugmaður en læknir en dætur mínar hafa verið duglegri við að kynnast heiminum en ég. Mín heimskönnun er mjög bundin við Sólvelli en ég harma þó ekki örlög mín.
 
Þegar ég er að enda þetta blogg sit ég í lest á milli Stockholms og Västerås. Það er snjóföl og sólskin og nokkuð frost. Akrar, skógar, trjáþyrpingar og byggðarlög þjóta hjá. Lestarferð er reyndar líka að kanna heiminn. Að lokum kem ég til með að klífa úr bílnum mínum á Sólvöllum, kveikja upp í kamínunni, ganga um kring og sjá til að í mínum litla heimi sé allt í lagi. Svo byrjar hversdagsleikinn með bauki mínu og einu og einu bloggi framvegis. Allt er gott í kringum mig og ég hef haft mjög góð jól. Ég þarf ekki meira og lífið er gott. Aðrir sem eru yngri vinna við að að þróa tilveruna á einn og annan hátt og það er spennandi fyrir ellilífeyrisþega að fylgjast með.

Jólasagan um vetlingana og rúllukragapeysuna

Í sóðasta bloggi sagði ég frá því að ég hafi verið að vinna á aðfangadag. Síðdegis, eða klukkan fjögur, tók ég lest til Stokkhólms frá Vingåker, litlum bæ stutt frá Vornesi. Ég fékk far með henni Malin í eldhúsinu til Vingåker en bílinn skildi ég eftir í bílageymslu í Vornesi. Ég var mættur i Vingåker heilum klukkutíma áður en lestin kom þangað, en ég varð gera svo þar sem vinnu Malin var lokið þann daginn.
 
Vingåker er eins og ég sagði lítill bær og biðsalurinn við lestarstöðina er lítill og ómannaður og mér brá þegar ég uppgötvaði að hann var læstur. Það var vetur og jafnframt mesta frost sem þessi vetur hafði boðið upp á. Heill klukkutími, hvernig mundi það ganga. Ég þekki vel til í Vingåker en þeir sem ég þekki þar er stórfjölskyldufólk sem fær marga í heimsókn á aðfangadag og að hringja og biðja um aðstoð krafðist þess að ég væri í nauðum staddur. Ég hefði að sjálfsögðu gert það en ekki fyrr en það hefði verið farið að sverfa rækilega að mér.
 
Brautarpallurinn er um 200 metra langur. Ég lagði frá mér farangurinn og hóf rösklega göngu fram og til baka, aldeilis án afláts. Einn maður kom á hjóli og heilsaði en hann tilheyrði þeim sem hefðu þurft að vera innskrifaðir í Vornesi. Þrátt fyrir rösklega gönguna og góð föt sem ég var í fann ég hvernig frostið leitaði inn í brjóstholið og ég skynjaði að þetta mundi enda með ósköpum. Mér fannst ég vera bæði of gamall og lífsreyndur til að lenda í þessari hremmingu. Einhverjar mínútur varð ég reiður út í þetta bæjarfélag með læsta biðsalinn og gaf staðnum nafnið -og lesið nú með smáu letri- ég gaf Vingåker nafnið "helvítis hundhola", sagt nákvæmlega eins og ég hef skrifað það.
 
En mjög fljótt dró ég það til baka. Það voru jól og dagurinn hafði verið aldeilis frábær og jólahelgin hafði virkilega verið hluti af lífi mínu þennan dag.
 
Hún Árný mágkona mín í Garðabænum er kona með trygga lund. Þær voru til skamms tíma þrjár systurnar sem voru svo ríkar af þessu trygglyndi og þær tvær sem lifa búa yfir því áfram. Ég fæ oft að njóta þess. Kaldur á lestarstöðinni í Vingåker varð mér hugsað til systurinnar sem hefur verið kölluð heim. Nei, það sæmdi mér ekki að láta niðrandi reiði fá mig til að gefa litlu bæjarfélagi ljótt nafn, bæjarfélagi sem bara hafði reynst nér vel í nítján ár.
 
Á síðustu stundu áður en ég hafði farið í vinnuna hafði ég fengið pakka frá systurinni í Garðabænum. Ég tók þann pakka strax upp og ákvað að taka innihaldið með mér í ferðalag mitt sem nú stendur yfir. Það var grá rúllukragapeysa og mjög fallega prjónaðir vetlingar. Ég tók ákvörðun. Ég gekk að farangri mínum og fór úr vetrarjakkanum, síðan úr jakkanum og síðast tók ég af mér húfuna. Þar sem ég nú stóð þarna á skyrtunni og góðum nærbol tók ég rúllukragapeysuna yfir höfuðið og síðan fljótt á með húfuna. Síðan á mig með jakka og vetrarjakka og svo fallega prjónuðu vetlingana frá henni Árnýju mágkonu minni.
 
 
 
Þegar ég hóf göngu mína á ný um lestarpallinn og fann ískuldann hverfa út úr brjóstholi mínu, þá ákvað ég að segja henni mágkonu minni frá þessu á viðeigandi hátt. Hún hefur glímt við erfið veikindi í hendi um lengri tíma og er nýkomin úr mikilli aðgerð varðandi það. Við slíkar aðstæður er fólk í mestri þörf fyrir þann kraft sem hvorki verður mældur eða veginn. Það er krafturinn sem aðeins er hægt að veta með hlýlegum orðum og með hlýjum hugsunum. Mágkona mín, þakka þér svo mikið fyrir jólapakkann sem þú sendir mér þrátt fyrir að þú gengir ekki heil til skógar.
 
Þegar hlý lestin rúllaði að lokum af stað frá Vingåker var ég í góðu jólaskapi. Vingåker var fyrir mér góður og fallegur bær og aldraða, ókunnuga konan sem settist á móti mér á næstu lestarstöð borðaði með mér konfekt sem jólasveinninn í Vornesi gaf mér fyrr um daginn. Áður en við Malin lögðum af stað frá Vornesi spurði ég þessa tuttugu og tveggja ára gömlu ráðskonu í eldhúsinu hvernihg það hefði verið að vinna við það að gefa rúmlega þrjátíu alkohólistum og fíkniefnaneytendum jólamat að borða. Hún sagði að þetta væri í annað skiptið sem hún fengi að gera það og hún sagði einnig: "Ég verð svo hrærð." Ég sá vel að hún varð hrærð við að segja þetta og svo urðum við bæði hrærð og ekki í fyrsta skipti þennan dag. Það voru nú einu sinni jól.

Í göfugri vinnu á jólum

Stærstan hluta af því sem stendur í þessu bloggi skrifaði ég á svo sem tuttugu mínútum meðan sjúklingarnir í Vornesi sátu einir og sáu sjálfir um ákveðinn dagskrárlið á Þorláksdagskvöld. Ég lauk því svo á jóladagsmorgun í Stokkhólmi.
 
Það er eins og ég sé á alveg hárréttum stað núna, á mínum gamla vinnustað í Vornesi. Ég átti dálítið erfitt með að yfirgefa heimili mitt í morgun á Sólvöllum. Ég finn betur og betur eftir því sem árin líða hversu verðmætt heimilið er. Það hefur vaxið gegnum áratugina. Þess vegna skeður það oft að ég lít aðeins inn aftur og lít eftir að allt sé í góðu standi. Svo gerði ég í morgun og þá einmitt hugsaði ég um þetta að það hefði aldrei áður verið eins mikilvægt að vera viss um að ég skildi vel við. Þetta var einfaldara þegar við vorum tvö. Það var að vísu ekki nógu mikið í röð og reglu í þetta skiptið, en að allt væri í lagi með rafmagn, vatn, glugga og ýmislegt annað, það var afar mikilvægt.
 
Síðasti hluti jólahreingerningar minnar átti sér stað í gær og í fyrradag. Það var úti. Ég reif tvö af gömlu litlu viðarskýlunum og hlóð þeim á kerru ásamt mörgu, mörgu öðru sem ég hafði ekkert að gera með lengur. Meðan ég var að þessu fann ég að síðasta byggingin mín var mikilvæg. Ég þurfti ekki lengur að hugsa sem svo; ja, þetta kannski get ég notað til að skýla einhverju með. Nei, nú hlóð ég kerruna bara eins og mögulegt var og með mikilli gleði losaði ég hana svo á endurvinnslustöðinni í Fjugesta.
 
Í morgun leit ég út um þvottahúsdyrnar og naut þess að líta yfir svæðið þar sem þessi skýli höfðu staðið og ýmilsegt dót sem ég hafði raðað í kringum þau. Svæðið var hreint og tilfinningin var góð. Það var hrein nautn að horfa á það. Það var fín jólagjöf. Eitt skýli er enn eftir þar og það mun ég líka fjarlægja snemma á nýju ári. Svo er skýli á öðrum stað og eitt og annað hingað og þangað og allt þetta má nú hafna í endurvinnslunni í Fjugesta og síðar brenna upp í kyndistöð bæjarins. Mér fannst ég vera ögn duglegur strákur að hafa hrundið þessu í framkvæmd og að hafa komist svo langt með það sem ég hafði komið.
 
Síðan eiginlega byrjuðu jólin hjá mér og ég hélt af stað í Vornes. Ég fékk afar góðar móttökur af innskrifuðum og starfsfólki. Þeir innskrifuðu sögðu gjarnan eins og oft áður, þeir sem ekki hafa hitt mig; já, ert það þú þessi Íslendingur! Sjúklingar sem hafa ekki hitt mig áður hafa gjarnan fengið að heyra að ég hafi ægilegt augnaráð sem sjái í gegnum fólk og þess vegna sé ekki hægt að ljúga að mér. Það er allt í lagi að fólk trúi því. Allir sem skrifast inn á Vornes og öll önnur meðferðarheimili, yngri sem eldri, af hærri stigum og af lægri stigum, hafa skrökvað mikið. Jólin eru góður tími til að gera umbætur á persónuleika sínum, hreinsa sálina og geta orðið ferskt vitni að því að sólin taki að hækka á lofti rétt einu sinni enn.
 
Ég gerði einu sinni það sem þetta fólk er að gera og ég veit hvernig því líður. Sá sem hugsanlega reynir að sýna af sér mesta karlmennsku eða jafnvel drýgingi, það er oftast nær sá sem finnur best hvernig tárin renna kringum hjartað. En svo birtir af degi og smám saman stígur fram nýr og hreinni persónuleiki með ljós í ásjónu sinni og það er í fallegu augnaráði sem batinn birtist best. Það er gott að vinna í Vornesi um jól.
 
Ofanritað er frá Þorláksdagskvöldi en síðan tekur við það sem ég skrifaði í Stokkhólmi.
 
Við getum kallað hann Jónas og hann er tuttugu og eins árs og hann er mjög indæll strákur. Hann var í Vornesi fyrir svo sem ári síðan en mistókst með nýja lífð sem hann leitaði eftir. Síðan hefur hann lent á sjúkrahúsi oftar en einu sinni og maðurinn með ljáinn hefur staðið þétt við hlið hans. Núna er hann aftur í Vornesi og er klæddur náttfötum og slopp. Mamma hans sendi Vornesi blómabakka með einfaldri, fallegri skreytingu. Þessi blómabakki er ætlaður Vornesi vegna þess að elskandi mamma vonar allt það besta.
 
En á einu horni þessa blómabakka er miði ætlaður Jónasi sérstaklega og á honom stendur: "Þú getur ekki valið hvernig þú munt deyja. Eða hvenær. Þú getur bara valið hvernig þú skalt lifa. Núna. Ég elska þig Jónas."
 
Þegar ég las miðann frá mömmunni varð ég mjög hrærður og gat ekki annað. Ég þekki Jónas og veit hversu auðvelt er að þykja vænt um hann, hvað þá fyrir mömmu hans. Mér þykir líka vænt um andstæðurnar í lífi mínu. Frá því að vera skítugur við að brjóta niður lítil og slitin viðarskýli á Sólvöllum og safna brotunum á kerru, til að líta yfir verkið og vera glaður, og svo til að koma til starfa á stað þar sem fólk sem á undir högg að sækja heygir baráttuna við manninn með ljáinn. Þegar ég skrifa þessar línur á jóladagsmorgun er ég heima hjá fjölskyldu í Stokkhólmi og ég hef fengið jólasendingu og kveðjur frá fjölskyldu í Vestmannaeyjum og fleirum. Ég finn mig eiga mjög auðugt líf og eins og mamma Jónasar skrifaði á miðann; Ég get bara valið hvernig ég skal lifa. Núna.
 
Jól eru mikilvæg fyrir mig og ég óska öllum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs. Ég er lélegur við jólakort og ýmsar gamalgrónar venjur sem margt fólk rækir af trúfestu. Þó að þetta sé ekki mín sterka hlið, þá þykir mér vænt um ykkur sem ekki fenguð kort frá mér og því segi ég enn og aftur -gleðileg jól.
 
 
 
 
Þessar myndir eru gott dæmi um leiðina til batans. Óreiðan er fjarlægð og henni komið fyrir þar sem hún á betur heima, þar sem hún kemur að gagni, hvort heldur til að hita upp hús í Fjugesta eða hún er sett í lífsreynslubankann til að vera leiðarljós í lífinu framvegis. Svo tekur miðsvetrarsólin þátt í sjónarspilinu með láréttum geislum sínum og eftir fáeina mánuði mun hún vekja lífið og gera það fallegra, kannski fallegra en nokkru sinni fyrr.
 
 
 

Skoftesta er fyrirmyndin

Það var í ársbyrjun 1999 sem við Valdís keyptum það sem við kölluðum bústaðsréttaríbúð í Örebro. Nokku eftir það endurnýjuðum við búslóðina að miklu leyti á tveimur árum eða svo. Það síðasta sem mér fannst okkur vanta var sófasett sem ennþá er hér frammi í dagstofunni. Ég man vel eftir því þegar sófasettið var komið heim til okkar og við vorum búin að stilla því upp á sinn framtíðarstað að mér fannst að nú væri þessi þáttur kominn í fullkomið lag og mér fannst sem okkur vantaði ekkert meira. Og þannig hélt það áfram að vera svo lengi sem við áttum heima í Örebro. Ég var ánægður með okkar og mér fannst aldrei eftir að sófasettið var komið í hús að það vantaði nokkuð fleira.
 
Óvænt ákveð ég í haust að byggja 25 m2 hús. Það hús er nú risið og er að talsverðu leyti jafn vel byggt og það ætti að verða íbúðarhús. Það er vissulega vinna eftir við húsið til að það komi fyllilega að tilætluðu gagni en húsið er risið og það skýlir nú þegar fyrir veðri og vindum eins og því er ætlað að gera. Sumir spyrja mig hvort ég ætli aldrei að hætta að byggja og nú ætla ég að gefa svar. Ég hef nákvæmlega sömu tilfinningu núna og ég hafði forðum í Örebro; að nú er byggingum á Sólvöllum lokið og tilfinningin er afar góð. Hér er allt sem þarf. Nú fer ég að leggja lokahönd á margt og núna finn ég á öllu að þeir draumar sem ég hef bloggað um á síðustu árum, sérstaklega um að ferðast í þessu fallega landi og kynnast því til hlítar, þeir eru á næsta leyti.
 
Í dag reif ég tvö af litlu gömlu viðarskýlunum, þessum sem voru svo lág að ég rak skallan ósjaldan upp í þakið þegar ég sótti við. Núna er viðargeymslan svo há að ég þarf að fara einar þrjár til fimm tröppur upp til að geta rekið mig uppundir. Og það er ekki bara þetta með að reka höfuðið upp undir. Nei, það fer að líta jafn vel út á Sólvöllum og mig hefur lengi dreymt um. Sumir segja að það líti nógu vel út en það á að líta betur út. Það er svo einfalt að gera það og þá er bara að gera það. Það er gott umhverfismál fyrir þá fallegu sveit sem ég bý í.
 
 
Þegar það lítur svona vel út framan við Sólvallahúsin, hvers vegna þá ekki að láta líta jafn vel út bakvið þau?
 
 
Þetta er frá býlinu Skoftesta sem liggur nokkur hundruð metra frá Sólvöllum og þar búa Anki og Johan. Það er snyrtilegasta býli sem ég hef nokkru sinni augum litið. Skoftesta er í raun fyrirmynd mín. Anki og Johan sýna það að svona er hægt að gera og ég vil sýna að það geta fleiri fetað í sömu fótspor. (Ljósm Pétur tengdasonur)
 
Það er erfitt að ná mynd af Skoftesta býlinu þannig að snyrtimennskan sjáist vel og þetta er besta myndin þó að mér finnist hún ekki nógu góð.

Ef við bíðum öll eftir að aðrir geri það gerir það enginn

Ég var búinn að vera á flakki um héruð í tvo daga og kom heim eftir dimmumótin í gær. Eitthvað mitt fyrsta verk var að kveikja upp í kamínunni og þá auðvitað byrjaði ég á að losa skúffuna sem askan fellur niður í. Ég fór ekki langt í þetta skiptið heldur gekk aðeins austur fyrir húsið þannig að ljóskastarinn á þvottahússtafninum byrjaði að lýsa og það sást langt austur fyrir húsið, alla leið inn í skóg. Um leið sá ég að grasið náði mér nánast í ökla og ég hugsaði sem svo að hér þyrfti að fara að slá. Það var 19. desember og það hefði þurft að slá. Það verður sina á stórum hluta lóðarinnar að vori en það verður bara góður áburður í því. Valdís hefði verið búin að slá fyrir löngu og jafnvel hefði hún slegið aftur núna.
 
Svo kveikti ég upp og ylurinn barst horna á milli. Ég rölti um heima hjá mér og fann að ég hafði það ótrúlega gott en ég velti samt fyrir mér hvað ég ætti ógert fyrir jól. Það fannst pínu lítill órói innra með mér, órói yfir því að ég hefði kannski átt að gera hitt og þetta en svo held ég að mér hafi tekist að losna við þennan óróa þegar leið á kvöldið. Mér ber að sætta mig við það að núna eru jólin þau jól sem ég held en ekki jólin okkar Valdísar. Hún hafði alla tíð jólin í föstu formi, áratug eftir áratug, öðru vísi en ég hefði gert það. Það voru jól eins og hún vildi hafa þau og ég tók þátt í því með henni. Nú er það liðið og ég sé mér ekki fært að vera annar en ég er. Samt er það ekki alveg svo einfalt.
 
Það komu fimm manns í heimsókn í dag og ég tók á móti þeim á minn hátt. Ég tel mig hafa gert það með sóma og það urðu áhugaverðar umræður um menn og málefni, um heilsufar og hvernig best væri að hlú að okkar eigin heilsu. Ég hef svo oft talað um heilsuna mína að ég ætla að gefa grið núna og sleppa því utan að segja það að ég hef algera forréttindaheilsu. Þegar gestirnir mínir voru farnir gekk ég í næst næsta hús sunnan við og hitti hann Lars eldri. Ég spurði hann eftir honum Ívari, en vegna þess að ég hafði ekki verið heima vissi ég ekki hvernig aðgerðin sem gerð var á honum í fyrradag hefði gengið.
 
Jú, Lars eldri staðfesti það að nefið hafði verið tekið af honum Ívari, bara eins og það lagði sig. Það var svo sem vitað en núna var það staðreynd. Hvernig heldurðu að það verði að horfa framan í fólk á eftir? Svo sagði Ívar við mig um daginn og ég heyrði hvernig hann komst við þegar hann sagði það og ég sá sorgina í augnaráði hans. Það er margt í heimi hér sem segir mér svo ekki verður um villst að ég er forréttindamaður. Ég hef það afar gott. En ekki meira um heilsu því að ég finn að ég get hafnað á öfugum vegarhelmingi ef ég held áfram.
 
Ég heyri klukku tifa á vegg og þó að hún virðist ekki fara hratt, þá verður fyrr en varir kominn nýr dagur. Á morgun ætla ég að tína svo mikið sem ég get á stóru kerruna sem hann Lars eldri lánaði mér í dag. En ef sjónvarpsmessan lofar góðu þegar hún byrjar, þá ætla ég að taka mér tíma til að horfa á hana. Að öðru leyti ætla ég að eigna allra næsta umhverfi mínu kraftana á morgun. Ég ætla meðal annars að taka eitt eða tvö af gömlu viðarskýlunum og brytja niður með stingsöginni minni og setja á kerruna. Ég er búinn að byggja nýtt hús og hef enga afsökun fyrir því að taka ekki ærlega til í kringum mig. Það er bara langþráður draumur að gera snyrtilegt og fínt á Sólvöllum. Geri ég svo getur öllum sem hér dvelja liðið betur í umhverfi sem skapað er af umhyggju.
 
Það er þetta sem liggur augljóslega fyrir núna. Svo þarf ég að taka annan dag og enn annan dag í svipaða tiltekt. Svo þarf ég að taka nokkra daga í að innrétta austurendann í nýja húsinu mínu og gera hann þannig geymslufæran að ég geti farið að raða þar upp góðum eldiviði. fyrr en varir verður svo komið fram yfir miðjan janúar og á þeim tíma mun eitthvað nýtt koma fram sem ég þarf að gera. Þegar líða tekur á mars mánuð fer ég með keðjusögina úr í skóg og grisja. Í þetta skipti til að gera greiðari gönguleiðir í "Sólvallaskóginum". Það er stórt orð Sólvallaskógurinn.
 
Eitt sin kom fólk í heimsókn og ég fór með það út í skóg, fólk sem ekki hafði verið hér áður. Ég gekk með þessu fólki ákveðna leið og fór svo inn á leið sem við vorum búin að ganga og gekk hana til baka. Þannig tókst mér að gera gönguna um Sólvallaskóginn ótrúlega langa og fólkinu þótti mikið til um stærð Sólvallaskógarins. Það var af minni hálfu hvít lygi því að skógurinn var ekki svona stór. Þetta segir hins vegar hversu auðvelt það er að gera þennan litla skóg að fínu ævintýralandi. Sköpun þessa ævintýralands er á verkefnalista mínum og það verður afar skemmtilegt verk.
 
Svona verk eru öllum til góðs. En svo eru ekki öll verk mannanna. Við þurfum í bæði kvöld og morgunbænum okkar að biðja fyrir stjórnmálamönnum þessa heims. Við þurfum að biðja þeim heilla. Takist þeim að stjórna i þessum heimi án valdagræðgi, fjármálagræðgi, án kynþáttafordóma og án nauðgana og pyndinga, þá getur margt ævintýralandið orðið til í þessum heimi. En hræðilega margir þessara svokölluðu stjórnmálamanna heimsins virðast ekki vera færir um annað og því þurfum við að hafa þá með í bænum okkar þegar við erum búin að biðja fyrir mannkyninu og framhaldi alls slífs á jörðinni, biðja fyrir þeim sem líða af sorg, ótta, fátækt og af sjúkdómum. Það er margt sem við þurfum að gera og ekki bara bíða eftir að einhverjir aðrir geri það.
 
 
Víst verða jól á Sólvöllum þó að það verði ekki jafn mikið jóladót tekið upp úr kössum og áður var gert.
 
 
Það vantar hús til hægri á þessa mynd en víst er það ljóst þegar þessi mynd er skoðuð að það er hægt að gera Sólvelli að meira ævintýralandi en þegar hefur verið gert. Því get ég spurt sjálfan mig:
 
Af hverju ekki?
 
Jú, ég ætla að gera það.

Nýi lifsstíllinn leysir afl úr læðingi

Það er nú orðið meira kæruleysið á Sólvallakallinum, ég er bara hættur að nenna að blogga. Það ríkir hér rólegur hversdagsleiki og í dag er fyrsti dagurinn sem er eins og mér finnst hann eigi að vera í því sem ég er að glíma við núna, að koma einföldu skipulagi á innanhúss á Sólvöllum. Það hefur ekkert verið einfalt mál og ég hef velt hlutum fyrir mér af töluverðu óöryggi og lagt þá frá mér hingað og þangað en þeir hafa hvergi passað. Ég veit líka að ég mun aldrei þrífa vel í kringum mig svo lengi sem smáhlutum er stillt á alla mögulega staði. Valdís gerði það og gaf sér tíma til þess en ég er ekki með neina húsmóðureiginleika til að gera svo. Ég er að einfalda hlutina og það er farið að sjást þegar ég lít yfir. Það er ekki án tilfinninga sem svona löguð breyting er gerð á mínum bæ en hún er óumflýjanleg.
 
Í dag sótti ég gegnsæan plastkassa með góðu loki út á loftið á Bjargi. Núna er ég farinn að tína hluti i þennan kassa og svo má alltaf líta á kassann og til og með líta ofan í hann ef áhugi verður fyrir því síðar meir. Ýmsar myndir hef ég tekið úr römmum og raðað inn í ákveðin fjölskyldualbúm sem Valdís gekk mjög vel frá á sínum tíma. Ég hef bara aukið við það sem er í þessum albúmum og svo hef ég hent flestum römmunum nema þeir séu sérlega góðir. Þannig gengur það hér á bæ og ég reyni að hafa það í huga líka að bera virðingu fyrir því sem verið hefur og ana ekki áfram.
 
Það er nokkuð sem mér leiðist við nútímasamfélagið og það er að halda utan um pappíra. Allt mögulegt er geymt í tölvum en svo þarf að geyma pappíra líka! Ég hef tæmt möppur í dag sem skattalega þarf ekki að geyma lengur. Svo hef ég verðið að raða samviskusamlega inn í þær og mér finnst annað hvert blað sem ég er með í höndunum varða Tryggingastofnun ríkisins. En sennilega finnst mér það vegna þess að ég er með hálfgert ofnæmi fyrir TR. Sorrý.
 
Rusl er tæmt hér á tveggja vikna fresti. Síðast var tunnan ekki tæmd. Hún stóð þá upp við vegg á lítilli geymslu þar sem sláttuvélin er til húsa. Og hvers vegna? Jú, hún var tóm. Ég fór í dag með fyrsta ruslapokann í tunnuna eftir tæpar þrjár vikur. Hún var tóm þegar ruslabílinn var hér á þriðjudaginn var og ég lá þá með höfuðið á koddanum og hlustaði með vellíðan á hann fara hjá. Það er ekki af nýsku sem það fer ekki meira í tunnuna hjá mér en þetta. Það er af nægjusemi og það er vegna þess að ég bý til moltu og sortera vel.
 
Skammdegið er þannig núna að það verða að vera kveikt ljós um hábjartan daginn og það er vegna þess að hann er alls ekki hábjartur. En vetrarmyrkrið er alls ekki svart, það er vel hægt að búa við það og það væsir ekki um mig. Í gær var ég í Íslendingaveislu inn í Örebro. Þar var all margt um manninn og gott að vera. Það var þar margt á borðum sem tilheyrir Íslandi og þetta var ágætis tilbreyting. Samt ætlaði ég eiginlega ekki að nenna að fara en ég fór samt. Svo var ég mjög ánægður með að hafa farið.
 
Á morgun þarf ég að skrifa jólakort og kannski jólabréf. Ég talaði líka um það í fyrra að Valdís hefði verið dugleg við að senda fólki smávegis en þar er ég algert dauðyfli. Mig bara skortir allt ímyndunarafl til þess og það setur að mér kvíða ef ég reyni að einbeita mér að því. En Valdís hafði þetta ímyndunarafl og svo var þetta fyrir hana það sama og það er fyrir aðra að spila bridge, dansa eða fara á fótboltavöllinn til að hrópa á liðið sitt í keppni. Það eru margar breytingarnar á Sólvöllum eftir að vissar hefðir hafa verið í gildi í meira en hálfa öld hér og á öðrum stöðum þar sem við höfum búið.
 
Snemma á Þorláksdag fer ég í vinnu í Vornesi og vinn svo þangað til seinni partinn á aðfangadag. Þá skil ég bílinn eftir í Vornesi og tek ég lest til Stokkhólms og verð kominn nógu tímanlega þangað til að borða jólamatinn með fjölskyldunni á Celsíusgötunni. Það verður annar jólamaturinn minn þann dag. Svo verð ég þar yfir jólin.
 
Klukkan nálgast níu að kvöldi og ég fer að slá botninn í þetta. En fyrst um nýja lifsstílinn sem ég held að ég hafi nefnt í síðasta bloggi. Í dag var það dagur átta. Gangan sem ég talaði um um daginn er engir sjö kílómetrar eins og ég helt fram þá, heldur sex. Það hef ég þegar mælt nákvæmlega. En hvað um það. Á degi tvö var ég bara stirðari á göngunni en á þeim fyrsta, ennig á degi þrjú og það var ekki fyrr en á degi sex sem gangan fór að verða léttari. Í dag á degi átta fann ég að skaftfellsku smalafæturnir voru að lifna við og ég var átta mínútum fljótari að ganga þessa sex kílómetra en ég var fyrsta daginn.
 
Að svo búnu óska ég öllum bjartrar og góðrar jólaföstu og gangi ykkur allt í haginn.
RSS 2.0