Í göfugri vinnu á jólum

Stærstan hluta af því sem stendur í þessu bloggi skrifaði ég á svo sem tuttugu mínútum meðan sjúklingarnir í Vornesi sátu einir og sáu sjálfir um ákveðinn dagskrárlið á Þorláksdagskvöld. Ég lauk því svo á jóladagsmorgun í Stokkhólmi.
 
Það er eins og ég sé á alveg hárréttum stað núna, á mínum gamla vinnustað í Vornesi. Ég átti dálítið erfitt með að yfirgefa heimili mitt í morgun á Sólvöllum. Ég finn betur og betur eftir því sem árin líða hversu verðmætt heimilið er. Það hefur vaxið gegnum áratugina. Þess vegna skeður það oft að ég lít aðeins inn aftur og lít eftir að allt sé í góðu standi. Svo gerði ég í morgun og þá einmitt hugsaði ég um þetta að það hefði aldrei áður verið eins mikilvægt að vera viss um að ég skildi vel við. Þetta var einfaldara þegar við vorum tvö. Það var að vísu ekki nógu mikið í röð og reglu í þetta skiptið, en að allt væri í lagi með rafmagn, vatn, glugga og ýmislegt annað, það var afar mikilvægt.
 
Síðasti hluti jólahreingerningar minnar átti sér stað í gær og í fyrradag. Það var úti. Ég reif tvö af gömlu litlu viðarskýlunum og hlóð þeim á kerru ásamt mörgu, mörgu öðru sem ég hafði ekkert að gera með lengur. Meðan ég var að þessu fann ég að síðasta byggingin mín var mikilvæg. Ég þurfti ekki lengur að hugsa sem svo; ja, þetta kannski get ég notað til að skýla einhverju með. Nei, nú hlóð ég kerruna bara eins og mögulegt var og með mikilli gleði losaði ég hana svo á endurvinnslustöðinni í Fjugesta.
 
Í morgun leit ég út um þvottahúsdyrnar og naut þess að líta yfir svæðið þar sem þessi skýli höfðu staðið og ýmilsegt dót sem ég hafði raðað í kringum þau. Svæðið var hreint og tilfinningin var góð. Það var hrein nautn að horfa á það. Það var fín jólagjöf. Eitt skýli er enn eftir þar og það mun ég líka fjarlægja snemma á nýju ári. Svo er skýli á öðrum stað og eitt og annað hingað og þangað og allt þetta má nú hafna í endurvinnslunni í Fjugesta og síðar brenna upp í kyndistöð bæjarins. Mér fannst ég vera ögn duglegur strákur að hafa hrundið þessu í framkvæmd og að hafa komist svo langt með það sem ég hafði komið.
 
Síðan eiginlega byrjuðu jólin hjá mér og ég hélt af stað í Vornes. Ég fékk afar góðar móttökur af innskrifuðum og starfsfólki. Þeir innskrifuðu sögðu gjarnan eins og oft áður, þeir sem ekki hafa hitt mig; já, ert það þú þessi Íslendingur! Sjúklingar sem hafa ekki hitt mig áður hafa gjarnan fengið að heyra að ég hafi ægilegt augnaráð sem sjái í gegnum fólk og þess vegna sé ekki hægt að ljúga að mér. Það er allt í lagi að fólk trúi því. Allir sem skrifast inn á Vornes og öll önnur meðferðarheimili, yngri sem eldri, af hærri stigum og af lægri stigum, hafa skrökvað mikið. Jólin eru góður tími til að gera umbætur á persónuleika sínum, hreinsa sálina og geta orðið ferskt vitni að því að sólin taki að hækka á lofti rétt einu sinni enn.
 
Ég gerði einu sinni það sem þetta fólk er að gera og ég veit hvernig því líður. Sá sem hugsanlega reynir að sýna af sér mesta karlmennsku eða jafnvel drýgingi, það er oftast nær sá sem finnur best hvernig tárin renna kringum hjartað. En svo birtir af degi og smám saman stígur fram nýr og hreinni persónuleiki með ljós í ásjónu sinni og það er í fallegu augnaráði sem batinn birtist best. Það er gott að vinna í Vornesi um jól.
 
Ofanritað er frá Þorláksdagskvöldi en síðan tekur við það sem ég skrifaði í Stokkhólmi.
 
Við getum kallað hann Jónas og hann er tuttugu og eins árs og hann er mjög indæll strákur. Hann var í Vornesi fyrir svo sem ári síðan en mistókst með nýja lífð sem hann leitaði eftir. Síðan hefur hann lent á sjúkrahúsi oftar en einu sinni og maðurinn með ljáinn hefur staðið þétt við hlið hans. Núna er hann aftur í Vornesi og er klæddur náttfötum og slopp. Mamma hans sendi Vornesi blómabakka með einfaldri, fallegri skreytingu. Þessi blómabakki er ætlaður Vornesi vegna þess að elskandi mamma vonar allt það besta.
 
En á einu horni þessa blómabakka er miði ætlaður Jónasi sérstaklega og á honom stendur: "Þú getur ekki valið hvernig þú munt deyja. Eða hvenær. Þú getur bara valið hvernig þú skalt lifa. Núna. Ég elska þig Jónas."
 
Þegar ég las miðann frá mömmunni varð ég mjög hrærður og gat ekki annað. Ég þekki Jónas og veit hversu auðvelt er að þykja vænt um hann, hvað þá fyrir mömmu hans. Mér þykir líka vænt um andstæðurnar í lífi mínu. Frá því að vera skítugur við að brjóta niður lítil og slitin viðarskýli á Sólvöllum og safna brotunum á kerru, til að líta yfir verkið og vera glaður, og svo til að koma til starfa á stað þar sem fólk sem á undir högg að sækja heygir baráttuna við manninn með ljáinn. Þegar ég skrifa þessar línur á jóladagsmorgun er ég heima hjá fjölskyldu í Stokkhólmi og ég hef fengið jólasendingu og kveðjur frá fjölskyldu í Vestmannaeyjum og fleirum. Ég finn mig eiga mjög auðugt líf og eins og mamma Jónasar skrifaði á miðann; Ég get bara valið hvernig ég skal lifa. Núna.
 
Jól eru mikilvæg fyrir mig og ég óska öllum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs. Ég er lélegur við jólakort og ýmsar gamalgrónar venjur sem margt fólk rækir af trúfestu. Þó að þetta sé ekki mín sterka hlið, þá þykir mér vænt um ykkur sem ekki fenguð kort frá mér og því segi ég enn og aftur -gleðileg jól.
 
 
 
 
Þessar myndir eru gott dæmi um leiðina til batans. Óreiðan er fjarlægð og henni komið fyrir þar sem hún á betur heima, þar sem hún kemur að gagni, hvort heldur til að hita upp hús í Fjugesta eða hún er sett í lífsreynslubankann til að vera leiðarljós í lífinu framvegis. Svo tekur miðsvetrarsólin þátt í sjónarspilinu með láréttum geislum sínum og eftir fáeina mánuði mun hún vekja lífið og gera það fallegra, kannski fallegra en nokkru sinni fyrr.
 
 
 


Kommentarer
Björkin

Falleg skrif mágur minn.Snertir örugglega við mörgum.Góða nótt.

2014-12-25 @ 23:11:56


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0