Jólin sungin inn í Krekklingekirkju

Kirkjan okkar heitir Krekklingekirkja (Kräcklingekyrka). Þar var konsert í kvöld sem kallast "að syngja inn jólin" þar sem nú er komin aðventa. Fram komu tveir "Hafa það gott kórar" og þar með kórinn hennar Valdísar. Kirkjan var full af fólki og það má segja að þetta var að stórum hluta fjöldasöngur. Ég verð að segja það að Svíar eru duglegir við að syngja. Ég sat frekar framarlega í kirkjunni og þegar það var fjöldasöngur dundi mjög sterkur söngur að baki mér en framan við okkur voru kórarnir. Já, þetta var nú skemmtileg blanda.

Ég harmaði næstum að ég var ekki alinn upp við söng. Þegar ég er meðal fólks þar sem nákvæmlega allir syngja fullum hálsi, þá finnst mér erfitt að vera ekki svolítill söngvari líka. Meira að segja hluti þeirra sem sungu í fjöldasöngnum að baki mér rödduðu sönginn. Ég vil ekki segja að ég hafi verið öfundsjúkur, en það var þó á mörkunum ef ég er alveg heiðarlegur, og þetta er ekki í fyrsta skipti. Svo er annað við svona tækifæri sem ég dáist að. Allt í einu kemur fólk úr sal og gengur fram með ólík hljóðfæri og spilar og syngur. Svo fer það í sæti sín og stuttu seinna kemur fram annað fólk úr sal með enn önnur hljóðfæri. Þannig var þessi konsert lífgaður upp með sérstökum atriðum. Það var mikið um svona óvæntar uppákomur í kirkjunni okkar í Örebro meðan við vorum þar.


Svona geta tveir "Hafa það gott kórar" litið út þegar jólin eru sungin inn í sænskri kirkju. Myndavélin réði nú illa við aðstæðurnar, en það má þó greina Valdísi aftan til í kórnum fyrir miðri altaristöflunni.


Svo dró ég svoítið að til að ná KiddaVillasysturinni frá Hrísey betur fram á myndinni. Það varð auðvitað á kostnað myndgæðanna sem ekki voru of góð fyrir. Nú er Valdís nokkuð til vinstri á myndinni bakatil.

Þetta var alveg frábær slökun eftir langa vinnuhelgi í Vornesi. Svo fengu allir kaffi og kökur á eftir.

Koppången -miklir snillingar sem lifa meðal okkar

Ég sá á FB um daginn að það er búið að gera íslenskan texta við Koppången og á umslaginu er lagið sagt sænskt þjóðlag. En sannleikurinn er sá að höfundurinn er frá Orsa (Úrsa) í norðvestur Dölunum, Per-Erik Moraeus eller Perre som man säger också, og lagið er alls ekki gamalt. Við Valdís vorum á stórum jólatónleikum í Örebro fyrir nokkrum árum og þar kom fram hljómsveit sem heitir Orsa spelmän. Spelmän eru þeir sem leika á fiðlur. Orsa spelmän eru nokkrir menn sem flestir eru frá Orsa og alla vega þrír þeirra eru bræður og einn þeirra er Perre, höfundur Koppången. Á þessum jólatónleikum lýsti Perre hvernig lagið Koppången varð til. Það sem gerir Orsa spelmän öðruvísi en annað hljómsveitarfólk er að þeir eru yfirleitt klæddir í leðursvuntur þegar þeir koma fram -og svo eru þeir bara algerir snillingar.

Annars er Koppången stórt mýrarsvæði 20 km norður af Orsa, nokkuð sem við Valdís bara verðum að heimsækja þegar ég verð alvöru ellilífeyrisþegi. Þetta svæði þykir mjög sérstakt og er meðal annars vinsælt útivistarsvæði og Perre þótti sem lagið gæti ekki fengið betra nafn við sitt hæfi. Lagið Koppången er séð sem alger perla í Svíþjóð. Hér er svolítið um höfundinn og útivistarsvæðið Koppången.

Koppången

Lagið er séð sem alger perla í Svíþjóð sagði ég. En hún norska Sissel hefur líka spreitt sig á því og tókst vel til eins og hún gerir alltaf.

Sissel syngur Koppången


Hann Kalle Moraeus, einn Orsabræðranna, er landskunnur snillingur og leikur á öll möguleg hljóðfæri. Hér leikur hann lagið Koppången á fiðlu.

Kalle Moraeus leikur Koppången á fiðlu



Hér er mynd af meiri hlutanum af Orsa splmän. Bræðurnir þrír eru til vinstri og höfundur Koppången er næst lengst til vinstri. Maðurinn lengst til hægri er ekki frá Orsa. Hann er lang stærstur enda er hann frá Storviken.

Fyrsti í aðventu er á leiðinni

Mér ber að fara að leggja mig. Ég fór um hálf tíu í gærmorgun og kom heim um hálf þrjú í dag og svo fer ég aftur á morgun um hálf ellefu. Og hvert er ég þá að fara? Í morgun var ég tvisvar sinnum með 28 manns í einum sal og þar ræddi fólk saman. Fólk sagði frá því hvað hefði farið úrskeiðis í lífinu, hvaða væntingar hefðu brugist og hvers vegna, hvaða annmarka það sæi í sinni egin persónu og hvaða breytingum væri mikilvægast að vinna að nú þegar og í framtíðinni. Þetta fólk á sér drauma um að verða betri mömmur og pabbar, að verða betri bræður eða systur, dætur eða synir, að verða betri þjóðfélagsþegnar. Ég var hjá þessu fólki fyrr í dag og fer til þess aftur á morgun.

Ef öll heimsbyggðin gæti talað saman á þennan hátt væri framtíð barnabarnanna okkar mikið björt. Ég spurði þetta fólk hvernig því yrði tekið ef þau slægju með teskeiðinni í bollann í kaffitímanum á vinnustaðnum og styngju upp á því að tala um sorgina yfir því að hafa mistekist með svo mikið af væntingum sínum, að tala um sorgina yfir að hafa mistekist að virkja bestu hæfileika sína. Ungur maður varð til svars og sagði að þá mundu allir standa upp og fara að vinna. Þegar þetta fólk á sínar bestu stundir saman er fölskvalaus heiðarleiki hafður að leiðarljósi

Svo kom ég heim og sá stjörnur og jólaljós sem Valdís hefur verið að dunda við að setja upp. Ég byrjaði á því að fara út í geymslu til að sækja útiseríuna sem á að vera yfir aðalinnganginum. Ég vissi að Valdís óskaði þess, en ég vissi líka að hún mundi ekki fara fram á að hún kæmi upp fyrr en eftir helgi. Svo hjálpuðumst við að setja hana upp og svo er fyrsti í aðventu á morgun.


Ég held að ég segi einhvers staðar frá því fyrir hver jól að þessi sería yfir aðalinnganginum hafi líka verið notuð í mörg ár í Hrísey og hún lýsti upp fyrir jólin hjá okkur í Svärdsjö. Síðan lýsti hún upp yfir svölunum hjá okkur í Falun og einnig yfir svölunum hjá okkur í Örebro. En það er alls ekki það eina sem ég segi frá hvað eftir annað og vissar staðreyndir verða heldur ekki verri þó að sagt sé frá þeim oftar en einu sinni.


Þarna er komið heim að húsinu. Myndin er alls ekki nein gæðamynd og ekki sú fyrri heldur, en þær verða að duga að þessu sinni. Það lítur út fyrir það samkvæmt þessum myndum að það sé mikið myrkur í sveitinni. Eiginlega ofgera báðar þessar myndir myrkrinu og eitt er víst; við sjáum stjörnurnar á himinhvolfinu á heiðskýrum kvöldum ef við bara viljum.

Það var annar í íslensku hangikjöti í dag þar sem við borðuðum helminginn af hangikjötinu sem við ekki borðuðum á afmælisdaginn hennar Valdísar.

Nú þarf ég að fara að bursta og pissa og leggja mig svo að ég geti á morgun, úthvíldur og hress, rétt út hendina til fólksins sem talaði um lífið í morgun. Svo kem ég heim fyrir hádegi á mánudaginn og vinn aðeins tvo dagvinnudaga í næstu viku. Það sem sagt finnst mikið ljós í myrkrinu ef að er gáð.


Ætlar þú eitthvað út um helgina?

Sumarið var 1960 og þá vann ég í trésmiðjunni Meið í Hallarmúla í Reykjavík. Vinnufélagi kom til mín og spurði hvort ég ætlaði eitthvað út um næstu helgi. Ég reiknaði með því en þó er ég alls ekki viss um að það hafi verið ákveðið af minni hálfu, en mannalega varð ég að láta þar sem ég fékk þessa spurningu. Má ég vera samferða? spurði hann næst. Já,auðvitað eða eitthvað í þá áttina svaraði ég. En er þá ekki í lagi að konan mín verði með? var næsta spurning. Jú, jú, hvað heldurðu? Ekki man ég orðalagið en ég giska á að samskiptin hafi verið eitthvað á þessa leið. Stuttu seinna sagði vinnufélaginn að mágkona hans mundi líka slást í hópinn. Ja, hérna. Þetta var að verða magnað lið.

Um helgina fórum við svo í Sjálfstæðishúsið í Reykjavík sem þá var við vestanverðan Austurvöll, bakvið Póst og síma sem þar var þá og er kannski enn. Mágkona vinnufélagans fyrrverandi á afmæli í dag og hún er búin að fylgja mér í 51 ár. Það er mikil tryggð sem þessi manneskja býr yfir. Í dag er hún búin að vera á söngæfingu með kórnum sínum, við erum búin að fá okkur smá snarl inn í Örebro og núna erum við nýbúin að borða íslenska hangikjötið sem hún Guðrún mágkona mín og Páll bróðir gáfu okkur þegar við vorum á Íslandi senemma í vor.


Það var í þá daga skal ég segja ykkur. Þykkt mjúklega liðað hár annars vegar og brilljantín með tilbúnum lið hins vegar. Jakkinn sem ég er í á myndinni fékk ég að láni hjá vinnufélaganum sem spurði hvort ég ætlaði út um helgina.


Fiskimannsdæturnar frá Hrísey löngu áður en karlmenn byrjuðu að teygja út fingurna til þeirra. Til Vinstri er Brynhyldur kona vinnufélagans sem fór með í Sjálfstæðishúsið. Til hægri er Valdís kona mín sem á afmæli í dag og yfirgaf mig aldrei eftir nefnda Sjálfstæðishúsferð. Í miðjunni Árný Björk sem enn var heima hjá mömmu og pabba í Hrísey þegar þessi ævintýri áttu sér stað.


Nokkur ár eru þarna liðin frá fyrstu fundum og fjölskyldan orðin fjölmenn. Frá vinstri: Vilhjálmur Kristinn, Guðjón, Valgerður, Valdís og Rósa. Myndin er tekin rétt eftir 1970 á lóðinni heima hjá foreldrum Valdísar. Brilljantínið var þarna lagt á hylluna til frambúðar.


Fyrsta fermingin, ferming Valgerðar. Ekki var þá búið að mála nýja húsið í Sólvallagötunni en veggurinn samt valinn sem bakgrunnur. Ég á sokkaleistunum og í útvíðum buxum og ég held bara að Rósa sé líka á sokkaleistunum. Ég veit að Valdís var þarna búin að vinna hörðum höndum við að undirbúa fermningarveislu og var ekki búin að vera sérhlífin skal ég fullyrða.


Svo fór hún út í heim og er búin að prufa margt.


Hún fékk lítið barnabarn til að elska þegar hin barnabörnin voru komin á legg eða fullorðin eins og dóttursonurinn Kristinn.


Á götu í Stokkhólmi síðastliðið sumar með lítinn Hannes í kerru sem greinilega hefur fengið sér blund.

Meðan við áttum heima í Svärdsjö í Dölunum skruppum við Gísli Stefánsson eitt sinn sem oftar saman til Falun sem það heitir og þar var Valdís í skóla fyrir fullorðna til að læra sænsku. Það var snemmsumars og veðurblíða. Valdís ásamt nokkrum öðrum fullorðnum nemendum skólans var úti við og fólk spjallaði þarna ákaft saman, fólk frá nokkrum löndum hingað og þangað að í heiminum sem hélt nú uppi líflegum samræðum á sænsku. Fyrst vorum við Gísli alveg þögulir þar sem við horfðum eiginlega undrandi á þetta glaðværa fólk en síðan sagði Gísli: Það verður nú bara að segjast eins og er að þetta lítur skemmtilega út, allir svo glaðir og líður greinilega mjög vel.

Já, þar rataðist Gísla af munni nákvæmlega það sem ég hefði viljað segja. Ég var einmitt að velta því fyrir mér þegar hann sagði þetta að það sem Valdís var að upplifa þarna meðal þessa fólkis var í raun alveg útilokað.

Já, ég ætlaði eitthvað út um helgina, fór, og kom ekki einn til baka.

Það er 19. nóvember

Þegar leið næstum að hádegi var hitamælirinn kominn í tæplega tíu stiga hita og sólin hamaðist við að þurrka burt dögg næturinnar. Svo fórum við Valdís að sinna verkefnum dagsins eftir bæði síðbúinn og langan morgunverð.


Fyrst af öllu var það þessi vikulegi viðburður að bera út til viðrunar okkar tveggja mánaða gömlu ullarrúmföt. Vissulega ætti að vera hægt að komast af án þess að gera svo nána grein fyrir heimilisástæðum eins og því hvaða rúmföt við notum og hvernig við þrífum þau. En sannleikurinn er sá að alla vega hér í landi veit ekki nema minni hluti þjóðarinnar að svona rúmföt yfirleitt fyrirfinnast. Ég bloggaði um þetta fyrir all nokkru síðan og var mér þá hugsað til íslensku ullarinnar og datt hreinlega í hug að einhver fengi áhuga á þessum rúmfötum og sæi þar möguleika. Svo virðist þó ekki vera þó að verðið á þessari lúxusvöru sé langt, langt yfir verði á ullarpeysum og teppum og gæti gefið tekjur sem liggja á allt öðru plani.

Hvers vegna rándýr ullarrúmföt? Þar koma til margar ástæður. Til dæmis að fyrir fólk með gigtarsjúkdóma, slitinn líkama og óreglulegan svefn eru þau alger munaður. Seljendurnir fullyrða líka að rykmaurar þrífist mjög illa í þeim. Eitthvað það versta sem ég hef átt við að stríða varðandi að vera annþá að vinna er að ég hef verið hræðilega syfjaður við akstur til og frá vinnu. Eins og gefur að skilja er það stórhættulegt. Ég hef ekki þurft að kvarta undan því á seinni árum að ég hafi sofið illa. En hvað skeði þegar við fórum að nota ullarrúmfötin. Ég hætti á stundinni að vera syfjaður við aksturinn. Það hlýtur að þýða það að þó að ég hafi sofið vel og lengi, þá hef ég ekki hvílst í samræmi við það.
Hér með lýkur umfjöllun um ullarrúmföt.
_________________________________________






Frá því í fyrra hef ég reynt að forðast að taka myndir af húsinu þannig að þetta horn sjáist. Ég hef verið með dálitla minnimáttarkennd fyrir því. Fyrir eins og 15 mánuðum þegar Peter gröfumaður kom með vélskófluna fulla af möl og ætlaði að jafna í holuna þarna bað ég hann að gera það ekki. Jahá, heyrðist í Peter og svo ypti hann öxlum. Þá sagði ég honum að ég ætlaði að ganga vel og snyrtilega frá öllu undir gamla húsinu og þá virtist hann ekki hissa lengur. Hins vegar var það fyrsta í röðinni að gera húsið vel íbúðarhæft eins og það er nú orðið.


Hér er verkið komið af stað. Þegar við keyptum litla, einfalda 40 m2 sumarbústaðinn stóð hann á 13 steinstöplum eins og þeim sem sjást á myndinni. Síðan þétti ég þessa steinstöpla um helming um leið og við byggðum við húsið í fyrsta skipti. Núna stendur allur eldri hlutinn sem er 70 m2 á 35 svona steinstöplum. Áður en við byggðum við húsið öðru sinni í fyrra til að gera það að íbúðarhúsi, og þá á grunni að sjálfsögðu, talaði ég við byggingarfulltrúann okkar um þessa steinstöpla og hann sagði einfaldlega: engin hætta, engin hætta, þetta jafngildir venjulegum húsgrunni. Það var nákvæmlega það sem ég furfti að heyra og jafnframt var ég ákveðinn í því að finna einhverja lausn til að loka þessu.


Það var ýmislegt bogur við þetta og þurfti ákveðinn frágang bæði yfir og undir til að geta fest verðandi sökkul undir húsið. Og við þessar aðstæður kom Valdís auðvitað með myndavélina til að taka mynd af ellilífeyrisþeganum. Það gladdi mig að sjálfsögðu að hún vildi taka af mér mynd þegar framkvæmdin var sem "allra erfiðust". En einmitt þegar ég lá þarna fann ég góða lykt sem gladdi mig. Já, Valdís er söm við sig.


Þarna er svo sökkullinn. Þetta er svokölluð sökkulplata og aftan á hana límdi ég 70 mm einangrunarplast til að fá meiri stælingu á hana og líka til að einangra undir húsinu.


Það var orðið dimmt þegar sökkullinn var kominn á sinn stað ásamt frágangi á bakvið hann til að halda honum í skefjum. Það er eins og eitthvað passi ekki þarna í horninu hægra megin en það er sjónvilla. Ef ekki sökkullinn hefði passað hefði ég einfaldlega hent honum til hliðar og búið til nýjan. Á Sólvöllum eru hlutirnir látnir passa. Á morgun ætla ég svo að leggja 60 mm eingangrunarplast framan við sökkulinn til að varna frosti að komast inn undir húsið. Svo fylli ég með grófum sandi að sökklinum og á þá fyllingu á að koma stétt eins og framan við aðalinnganginn. Þar ætlum við að fá okkur kvöldhressingu í framtíðinni og horfa um leið á sólina setjast bakvið Kilsbergen. Við höfum ákveðið að ganga frá sökklum undir það sem eftir er af húsinu á næsta ári.

Af hverju er svo ellilífeyrisþegi að basla svona. Þetta er fyrir fólk sem er á yngri árum. Já, það er kapítuli sem ég fer ekki inn á núna. Hins vegar lásum við Valdís ævisögur í hitteðfyrra. Við lásum meðal annars um hann Svein í Kálfskinni. Þegar maður les um Svein og hans framkvæmdaævi verður þetta baukandi mitt voðalega lítilfjörlegt og jafnvel kjánalegt, líkist aulalegu basli. Já, svo má kannski láta það heita. En ég er afar þakklátur fyrir heilsu mína eins og ég hef oft sagt áður. Í vikunni kom maður í meðferð og var íklæddur náttfötum og slopp frá morgni til kvölds. Ég vissi hvað hann var gamall en hann spurði mig hvað ég væri gamall. Þegar ég hafði sagt honum það sagði hann að bragði: Þá hlakka ég til að verða edrú. Hann er ári yngri en ég. Kannski hef ég gott af mínu baukandi.


Ég var að tala um góða lykt áðan. Hér er skýringin. Lyktin var af pönnukökunum sem hún Valdís var að baka í laumi þegar ég lá í mölinni undir húsveggnum. Hún sat hreint ekki auðum höndum því að þegar ég kom inn í pönnukökurnar var allt skrúbbað og skúrað og húsið lyktaði af hreinlæti og pönnukökum.

Fyrir 51 ári vorum við Valdís stödd í herbergi í fjölbýlishúsi að Skaftahlíð 16 í Reykjavík þar sem ég leigði þá hjá henni Guðrúnu frænku minni frá Fagurhólsmýri. Við opnuðum litla öskju og horfðum niður í hana og í henni voru tveir trúlofunarhringar. Við höfðum talað um að setja hringana upp á afmælisdegi Valdísar þann 24. nóvember. Ég man ekki almennilega hvort það var barnaskapur að geta ekki beðið en alla vega; við settum upp hringana þann 19. nóvember.

Sagan um teið

Það var á mánudagskvöldið sem ég spurði Valdísi hvort hún vildi te. Já, svaraði hún. Svo tók ég tepoka af handahófi úr smá kassa upp í hyllu og lagaði ég te í tvö bolla. Eftir þessa tedrykkju var ekkert annað að gera en bursta og pissa og svo bara að ganga til fundar við Óla Lokbrá. Þegar ellilífeyrisþegi þarf að vakna klukkan hálf sex að morgni til að fara í vinnu, ja, þá gildir að leggja sig snemma. Þegar ég hafði svo lagt mig á koddann og dregið ullarvoðina upp undir hægra eyrað, þá bara sveif ég á náðir Óla lokbrá og englana sem talað er um í bæninni: Sitji Guðs englar saman í hring / Sænginni yfir minni.

Oftast þegar klukkan hringir er ég búinn að vera vakandi í nokkrar mínútur en í þetta skipti var ég langt inn í hljóðu draumalandinu þegar pípandi klukkan reif mig upp frá værðinni eftir sjö tíma svefn. Svo dreif ég mig á fætur þó að ég hefði getað sofið einhverja stund til. Þegar ég lagði af stað var ég hversu hress sem helst og ég spilaði á stýrið með fingrunum eins og það væri píanó og var alveg til í að syngja. Dagurinn byrjaði vel og dagurinn varð góður.

Á þriðjudagskvöldið spurði ég Valdísi hvort hún vildi te. Já, svaraði hún. Svo tók ég tepoka af handahófi úr smá kassa upp í hyllu og lagaði ég te í tvo bolla. Svo var það bara eins og önnur kvöld þegar það er vinna að morgni, bursta og pissa og leggja sig og nú var ég ákveðinn í því að leggja mig vel fyrir hálf tíu því að dagurinn hafði verið hreinn annríkisdagur.

Þegar ég lagðist á koddann og hlakkaði til að endurtaka upplifunina frá kvöldinu áður, þá stóð sú upplifun alls ekki til boða. Ég var hversu vel vakandi sem helst, púlsinn var kröftugur og frekar hraður var hann líka, og það var eins og einhvers konar klukka langt inn í mér tikkaði hljótt en þó með gjallandi hljóði; kling-klong, kling-klong og ég fann að Óli og englarnir komust ekki nálægt mér. Átti þetta nú að verða svona kvöld og ég að vakna snemma að mnorgni.

Tilraunir til að breyta um stellingar, skreppa á klóið og slappa nú vel af og biðja bænir, komu ekki að neinu gagni. Seint og um síðir sofnaði ég, en eftir í mesta lagi tveggja tíma svefn vaknaði ég og var alveg i spreng. Púlsinn var samur og um kvöldið, gjallandi klukkuhljóðið hafði ekki gefið sig og mér fannst sem ég hefði ekki hvílst neitt. Eftir klósettferðina tók það mig langan tíma að sofna á ný. Valdís var eitthvað óvær líka.

Svo vaknaði ég aftur eftir kannski tæpa tvo tíma og var enn í spreng. Púlsinn var nú heldur mildari og klukkan langt inn í mér hafði nánast hljóðnað. Eftir þessa aðra ferð mína fram sofnaði ég með værð. Þegar vekjaraklukkan hringdi fannst mér sem ég hefði loksins verið komin inn í draumalandið þar sem kyrrðin og værðin ráða ríkjum, en það var vinna í dag. Leiðin þangað var nú mikið lengri en daginn áður og dagurinn varð allur seigari.

Á leiðinni heim velti ég því fyrir mér hvað eiginlega hefði verið á seiði. Allt í einu! Teið! Ég ákvað að rannsaka litla kassann með teinu þegar ég kæmi heim. Ég tók hann niður og horfði niður í hann. Þar voru tvær tegundir af tei, lausir pokar og pokar í umslögum. Einmitt! Fyrra kvöldið var tepokinn ekki innpakkaður en seinna kvöldið var pokinn innpakkaður. Ég bókstaflega upplifði tegerðina þessi tvö kvöld og ég var ekki í vafa. Ég sem hafði ætlað að gera það að hefð hér á bæ að drekka bolla af tei á kvöldin. En -í gærkvöldi var ekkert te og við sofnuðum við bæði inn í draumalandið þar sem kyrrðin og værðin ráða ríkjum.

Að lifa í nægjusemi

"Að lifa í nægjusemi við lítil efni, leita fegurðar
í stað munaðar, og fágunar frekar en tísku;
að vera virðingarverður en ekki virtur,
efnaður en ekki ríkur; að læra mikið,
hugsa í hljóði, tala af mildi, vera hreinn og beinn;
að hlusta á stjörnurnar og fuglana. . . . "

William Ellery Channing (1780 - 1842)

Það er hægt að fullyrða að hér eru ekki settar fram fjárhagslega kostnaðarsamar veraldlegar kröfur. Þessar línur eru búnar að vera til sýnis á matarborðinu okkar í allan dag og við Valdís erum búin að vekja athygli hvors annars á þeim. Ef til vill hefðu þessi vísdómsorð hljómað öðru vísi ef höfundurinn hefði verið uppi á okkar öld, en þau eru kannski ennþá meira áhugaverð fyrir það að þau eru samin á sínum tíma fyrir okkur sem lifum á öld þar sem það er erfitt að vilja ekki bara eignast meira og meira, dýrara og vandaðra.

Ég var að vanda forvitinn um höfundinn og vegna þess að ég lifi á okkar öld og hef tölvu á þar til gerðu borði, þá gat ég slegið nafninu upp á Google wikipedia. Þar fann ég upplýsingar um bandarískan prest sem var ekki alveg í takt við hefðbundnar kenningar kirkjunnar og fann sér því annan farveg fyrir lífsstarf sitt í nýjum söfnuði. Hann vann einnig að því að upphefja þrældóminn í Bandaríkjunum, vann móti áfengisneyslu og að bæta aðbúnað fanga. Hann var sem sagt ekki maður án hugsjóna. Hann dó 100 árum áður en ég leit dagsins ljós.

Takist mér að gera þessi vísdómsorð að mínum innri hugsjónum verð ég mjög ríkur maður. Mér finnst ég reyndar þegar vera ríkur á margan hátt. Hins vegar yrði það trúlega all undarlegt atvik ef ókunnur maður kæmi allt í einu í heimsókn, spyrði mig hvort ég hefði tíma og hvað ég væri að gera, og ég mundi svara; ég er að hlusta á stjörnurnar og fuglana, en þú færð tíma eigi að síður. Þó að margir yrðu hvumsa við er ég ekki í vafa um að einhver mundi segja að hér væri nokkuð sem fróðlegt væri að ræða.

Sum vísdómsorðanna í bókinni Kyrrð dagsins fara hvað mig áhrærir fyrir ofan garð og neðan, en þessi orð á ég eftir að lesa nokkrum sinnum í framtíðinni.

Hvernig maður getur orðið gamall og hress

Hann Carl Ludvig á hundrað ár afmæli í dag, fæddur 11-11-1911. Hann var sjö ára þegar fyrri heimstyrjöldinni lauk en hann man ekki eftir því. Hann man hins vegar eftir því að það var mikið af góðum graut einn dag sem einmitt var þessi dagur, og það var ekki á hverjum degi því að þá var matarskortur í landinu. Hann veit hvernig á að ná háum aldri og þannig var það að hann var að yfirgefa föður sinn vegna þess að hann var að flytja niður á Skán. Þá var Carl Ludvig 32 ára.

Þeir vissu báðir að þeir mundu ekki sjást oftar í lífinu og það var þá sem faðir hans sagði við hann: Mundu svo drengurinn minn að hvíla þig alltaf þegar þú ert þreyttur. Þegar þetta var, var Carl Ludvig búinn að vera doktor í tvö ár. Carl Ludvig hefur síðan hvílt sig þegar hann hefur orðið þreyttur og segir lífslengdina og heilsuna sem hann býr við vera þessu heilræði að þakka. Hann sást ekki á skjánum þegar fólk i sjónvarpssal átti samtal við hann, en röddin var skýr og minnið var skarpt.

______________________________________


Það er þetta með aldur, það getur haft ólíkar ásjónur. Þegar Valdís hætti að vinna á sínum tíma fékk hún forláta klukku, og þó bara ósköp venjulega klukku frá verkalýðsfélaginu sínu. Svo var klukka þessi bara hengd upp á vegg og þar gerði hún sitt gagn. Þegar við fluttum á Sólvelli lenti hún niður í kassa og svo upp á vegg þar aftur. Þegar við byggðum svo við Sólvelli og endurbyggðum gamla húsið lenti klukkan hennar Valdísar ofna í kassa einu sinni enn.

Svo kom að því að mála og hann Ulf kom og hjálpaði með þann þáttinn. Svo þegar hann var búinn að mála eitt herbergi og eldhúsið varð hlé á málningarvinnunni og við gengum frá í herberginu sem nú var tilbúið og eldhúsinnréttingin var sett upp. Enn einu sinni var klukkan hengd upp á vegg og það var Valdís sem kom því í verk.

Svo var kominn tími til að mála fleiri herbergi og Ulf kom aftur. Við höfðum verið að fá okkur kaffi þegar hann allt í einu gekk að klukkunni, tók hana niður og las aftan á hana. Svo leit hann á okkur og spurði hvort við vissum eitthvað um klukkuna. Nei, það var mest lítið annað en að hún hafði átta kanta, var nokkuð dökk og gekk fyrir einu batteríi. Þá fræddi Ulf okkur á því að grjótið í þessari klukku kæmi frá Grythyttan sem er um 50 km fyrir norðan okkur og það er einmitt fæðingarstaður hans. Það var honum því kært að geta frætt okkur um klukkuna.

Svo hélt hann  áfram. Skífan er gerð úr steini sem varð til sem botnfall á hafsbotni fyrir 2000 miljón árum og það eru aðeins til þrjár námur í heiminum þar sem þessi steinn finnst. Þar með varð þessi klukka fyrir okkur sem allt önnur klukka og mikið skemmtilegri, og við sem höfðum haft hana í nokkur ár upp á vegg og skipt um batterý í henni nokkrum sinnum. Við höfðum aldrei tekið eftir þessu.


Hér er svo forláta klukkan úr 2000 miljón ára gamla grjótinu frá Grythyttan. Þegar við fáum fólk í heimsókn frá Íslandi förum við gjarnan með það til Grythyttan í mat. Síðast fórum við þangað með hóp Hríesynga fyrir tveimur og hálfu ári.

______________________________________


Fyrir nokkrum árum var Valdís upp í Dölum að æfa með þáverandi kórnum sínum, en þá áttu þau að syngja í gamalli kalknámu á Siljansvæðinu sem á seinni árum hefur verið notuð sem hljómleikasvæði á sumrum. Tvo daga sem þau æfðu var ég einn á flakki um Siljansvæðið í mikilli veðurblíðu og las ég þá talsvert um þetta svæði. Ég las um gríðarlega stóra loftsteininn sem féll niður á Siljansvæðið fyrir 360 miljón árum og gerbreytti landslaginu. Ég las líka um það að á ákveðnum stað væri hægt að skoða gríðarlega stóra steinblokk sem hafði henst upp í loftið í óskapaganginum ásamt mörgum öðrum álíka stórum steinblokkum. En þessi ákveðna steinblokk var sýnileg þar sem hún hafði fyrir öllum þessum árum numið staðar nánast með endann upp.

Ég fór á svæðið og vildi sjá þessa steinblokk sem var jú tugir og hundruð metra á ólíka vegu. Svo var ég kominn á staðinn og horfði á undrið. Svo klöngraðist ég nær undrinu, lagði hendi á valinn stað og hugsaði: Hér legg ég hendina á þessa steinblokk sem þeyttist upp í loftið eins og korktappi árdaga þegar Svíþjóð var suður undir miðbaug. Ég verð að viðurkenna að ég fann fyrir hrifningu. Það var sólskin, grafakyrrð utan gutlandi vatnshljóð frá lítill á sem rennur þarna um og ég var aleinn mitt í mótun landsins frá því fyrir hundruðum miljóna ára.

______________________________________


En að lokum; þar er ekki aldrinum fyrir að fara. Þá þrifust draumar um lífið framundan, um möguleika, sólskinsdaga og lífshamingju sem hægt væri að hafa áhrif á með skynsemi, góðum gerðum og nýtingu sinna allra bestu hæfileika.



Brilljantín og liðir í hári. Og bestir og fallegastir Bjössi minn.

Hvernig var sumarið?

Í fyrradag heyrði ég fólk tala svo mikið um erfiðar minningar í sjónvarpinu að ég hljóp til og leitaði að góðum minningum og þær var meðal annars að finna á myndasafninu okkar frá liðnu sumri. En svo er þær auðvitað að finna innra með sjálfum mér líka en það er svo áþreifanlegt og einfalt að setja þær fram í myndum.

Nú eru sem sagt liðnir tveir dagar síðan og ennþá er ég heima og geri ekki neitt. Það er ekki alveg þykjustuveiki sem heldur mér heima en ef ég er alveg hreinskilinn, þá er gott að vera heima og gera ekki neitt, hvorki smíða eða föndra. Og okkur "miðaldra" fólkinu kemur bara vel saman. Við að vísu tölum ekki saman frá morgni til kvölds en trúlega bara mátulega mikið. Valdís fór með kórnum sínum að syngja fyrir aldraða í Fjugesta um miðjan dag og var framlagi þeirra tekið með ánægju. En fyrir mitt leyti, þá fannst mér sem ég hefði gott af því að setja texta við myndirnar frá í fyrradag.


Það fer ekki milli mála að það var góður síðsumareftirmiðdagur þegar þessi mynd var tekin. Sólin farin að lækka á lofti, skuggar trjánna að lengjast og broddgeltirnir að komast á stjá. Bjarkirnar bakvið bílinn eru norrænar, tignarlegar og stoltar og eigendurnir ennþá meira stoltir. Annars er auðvitað spurning hvort nokkur getur talið sig eiganda að fegurð náttúrunnar.


Það var hjálapsamur lítill maður sem dag einn á miðju sumri vildi aðstoða afa með tommustokknum sínum sem þegar var brotinn. Ekki flýtti hjálpin beinlínis fyrir en það er nú bara þannig sumu er ekki hægt annað en taka með gleði og þá er líka hjálp í því.


Svo einhvern annan dag var kannski eitthvað sem ekki vildi vera eins og ÉG vildi hafa það þegar öfugur fótur fór á undan. Þá var býsna gott að fara út í skóg og leita uppi stað eins og þennan þar sem ólíkir einstaklingar blönduðu saman bestu hæfileikum sínum. Þá var best að stoppa og bara vera með. Að vísu flýtti ég mér til baka í þessu tilfelli til að sækja myndavélina. Það sem ekki vildi vera eins og ÉG vildi í það skiptið, kannski öfug mæling á gerefti eða áfellu, gleymdist auðvitað um leið.


Og litli maðurinn, þá tæplega tveggja ára, sá sem gerði sitt besta til að hjálpa til með brotna tommustokknum um daginn, hann var svo ratvís í skóginum. Það var svo vel hægt að greina þegar hann sá að slóðin var ekki lengur fyrir framan hann. Og hvað gerir maður þá. Jú, auðvitað; "maður bakkar aðeins og leitar uppi slóðina aftur og svo höldum við bara áfram mamma og afi. Komið þið bara á eftir mér." Við fylgdum honum bæði eftir og urðum óneitanlega hissa þegar eiginleikinn að rata virtist vera innbyggður í barnið. Já, þetta með innbyggðan eiginleika er nokkuð til að hugleiða.


Það var komið vor þegar þessi byggingarvinna var í gangi og þó að þessi vinnubrögð væru svolítið öfugsnúin og hæpin til að vekja góðar minningar, þá var samt gaman að framkvæma hana. Það var nefnilega búið að spekúlera svo mikið í því hvort þetta yrði fínt eða ekki. Vinnan fram að sjálfri klæðningunni var líka mikið verri en þetta. Heyrðu mig! Svo varð það svona líka fínt eftir allt saman.


Þegar maður er lítill er svo gott að fólkið manns gleymir manni ekki. Ef ég stend svolitla stund við dyrnar er ég viss um að einhver kemur og opnar. Líklega var það ljósmyndarinn sem opnaði í þetta skiptið. Alla vega var drengurinn ekki látinn vera eftirlitslaus á ferðinni í þetta skipti frekar en önnur.


Við fórum ekki mikið á síðasta sumri en þessi mynd er þó tekin í Stokkhólmi. Valgerður var í heimsókn og þær systur sáu um að Hannesi leiddist ekki og Valdís kom á eftir þeim og tók alla ábyrgð á kerrunni og innkaupunum sem í henni liggja. Svo hló hún auðvitað að þeim sem fóru á undan henni.


"Konan sem kyndir ofninn minn." Það var á snemmsumarmánuðum sem ég fór ótrúlega marga tugi ferða, ég held reyndar yfir hundrað, með mold í hjólbörum út í skóg til að búa til slóðir, völundarhús, þar sem hægt er að labba, hlaupa og leika sér. Svo svo sáði ég í þetta grasfræi frá honum Ingemar skrúðgarðameistara. Ég vissi allan tímann hver mundi koma til með að slá þessar slóðir, alla vega að byrja með. Svo þegar hún var búin að slá í þetta skiptið fór hún inn og bjó til mat handa mér. Að flytja mold í hjólbörum daglangt er alls ekki leiðinlegt þegar málefnið er gott.


Fólk á ferð og rísterta á borði. Þetta fólk, Johanne, Kristinn og Guðdís voru í þann veginn að leggja af stað til Noregs. Maðurinn sem sést í bakgrunninum er ellilífeyrisþegi.


Já, alveg rétt, þarna var hann broddi kominn, eða var það kannski hún brodda. Það er nú meira hvað þessi dýr eru friðsamleg og velkomin. Fari maður fram fyrir broddgölt sem ætlar að flýja fer hann svo sem einu sinni í aðra átt og ef hann er stoppaður aftur, nú þá er hann ekkert að þessu og stillir sér upp til sýnis.


Einmitt! Það var við þessa eldhúsinnréttingu sem Valdís bjó til matinn eftir að hún var búin að slá völundarhúsið í skóginum. Það var nú meiri framförin á Sólvöllum þegar þessi innrétting kom í gagnið. Ég held að ég verði að koma með aðra mynd.


Ég veit upp á hár hvað hún er að gera þegar þessi mynd var tekin. Hún var að búa sér til te. Framfarirnar á Sólvöllum voru margar og miklar og þegar ég verð eldri maður ætla ég að búa til myndaröð af öllu umstanginu hér.

Svo reyndi ég að vera svolítið riddaralegur í gærkvöldi og ryksugaði gólfin hingað og þangað eftir þörfum. Reyndar geri ég það oft. Stuttu síðar voru tvö gulnuð laufblöð á gólfum sem ég hafði ryksugað. Það er sérkennilegt með þessi gulnuðu laufblöð sem eru búin að ljúka hlutverki sínu. Hljóðlaust og friðsamlega koma þau inn og svo bara eru þau þarna og minna á að það er sumarið sem er liðið. Og þetta er búið að ske aftur og aftur, vikum saman, og einhvern vegin er það svo að þau eru bara velkomin. Þau eru hreinleg og hávaðalaus og þau eru vinaleg með nærveru sinni svo lengi sem þau eru ekki allt of mörg. Sérstaklega eru eikarlaufin vinaleg því að þau liggja alls ekki marflöt á gólfinu. Þau vinda upp á sig og hafa eitthvað svo fallegan stíl. Ég mátti bara til með að segja frá þessu með laufblöðin.

Ég hafði um nokkur hundruð myndir að velja í þetta og þessar valdi alveg af handahófi og sumarið var gott. Nú er komið kvöld á Sólvöllum.

Hundleiðinlegt mál

Ég las í morgun sænska grein um uppbygginguna á íslenska efnahagskerfinu og því get ég ekki orða bundist. Greinin heitir Stoltir Íslendingar reisa sig fljótt við. Nú, ef að vanda lætur, koma einhverjir íslenskir spekingar til með að skrifa greinar um þetta og hakka það niður sem sem sagt er í sænsku greininni. Þeir sem koma til með að gera það, ef að vanda lætur, hafa aldrei staðið í eldlínunni en telja sig samt sem áður hafa efni á því að vita betur. Í sænsku greininni er mest byggt á upplýsingum frá norska manninum Svein Harald Øygard sem var um tíma bankastjóri Seðlabanka Íslands. Svein Harald stóð til dæmis í eldlínunni upp úr 1990 þegar Norðmenn þurftu að taka á honum stóra sínum í þáverandi fjármálakreppu. Síðan hefur hann unnið störf sem krefjast þess að maður viti hvað maður er að gera.

sænska greinin

Í gærmorgun var sænski fjármálaráðherran mikið á skjánum og þá talaði hann nokkrum sinnum um Ísland. Hann sagði að ef Grikkir hefðu tekið á sínum fjármálavandræðum á sama hátt og íslendingar gerðu, þá væru engin vandræði þar. Það mundi að vísu ennþá vera kreppa en engin óviðráðanleg vandræði. Gegnum misserin hefur Anders Borg oft vitnað í það hvernig Íslendingarnir brugðust við og af góðu einu. Hann er fjármálaráðherra Svíþjóðar, þess lands sem hefur bestu eða einhverja allra bestu stjórn allra landa á ríkiskassanum. Ef ekki ríkiskassinn er í lagi verður heldur ekkert annað í lagi hjá neinu þjóðfélagi segir Borg. Anders Borg hefur staðið í eldlínunni þó að hann sé aðeins 43 ára og hann er mikils virtur.

Þó að Anders Borg sé mikils virtur og hafi staðið í eldlínunni síðan 2006 geri ég ráð fyrir að orð hans séu ekki í hávegum höfð hjá íslenskum hagfræðingum og próffesorum sem aldrei hafa staðið í eldlínunni. Íslenska stjórnarandstaðan og innilegir áhangendur hennar með raðir af háskólagráðum hafa allt frá síðustu stjórnarskiptum matað þjóð sína á þann hátt að núverandi ríkisstjórn hafi gert allt eða það mesta vitlaust og það litla sem hafi verið gert rétt hafi verið gert fyrir óeigingjarna baráttu hrunflokkanna. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að núverandi ríkisstjórn hafi gert allt rétt. Djúp efnahagskreppa leysir sig aldrei í einu vetvangi og alltaf lenda einhverjir í vandræðum. En sálfræðilega unninn áróður sem leiðir til sundurlyndis hjálpar ekki Íslendingum. Hann gerir þá óörugga, fær þá til að líða illa langt umfram það sem þörf er á og skapar ranghugmyndir.

Ég trúi betur mönnum sem hafa sýnt í verki að þeir vita hvað þeir eru að gera

betur en þeim sem vita hvað á að gera

eða bara plokka niður það sem hefur verið gert

Ég hef heyrt marga segja að þessir menn séu alveg asskoti klárir. Skrýtið að þeir skuli ekki hafa verið í eldlínunni.

Ég er ekki á Íslandi og ætti bara að halda mér saman. Ég var líka í vafa þegar ég byrjaði á þessum línum og þegar ég var byrjaður fann ég hvernig púlsinn varð hraðari og það var eins og húðin yrði heitari. Þá lá við að ég henti því sem ég var byrjaður á. Svo hélt ég áfram. Áróður í einu landi á ekki að fá fólk til að líða illa. Því líður nógu illa samt.

Ég hef oftast kosið sænska alþýðuflokkinn, þann sem  Håkan Juholt er að reyna að taka yfir núna, en ég hef ekki kosið hann tvö síðustu kjörtímabil -og mér dettur alls ekki í hug að kjósa hann núna. Ég mun heldur ekki kjósa Vinstri flokkinn. Ég mun kjósa hægri flokkinn Moderaterna eða Umhverfisflokkinn. Ég er ekki meiri vinstri maður en svo.

Mannraunir

Það er mikið sem hefur verið á ferðinni í kollinum á mér síðan í gærkvöldi. Þá voru í sjónvarpi viðræður fólks á milli, og það var svo mikilvægt í viðræðunni að koma því að, að í bernsku eða æsku hefði eitthvað svo hrikalegt skeð. Ég var eitthvað á rjátli hér innanhúss og heyrði brot úr þessari umræðu. Þá fór ég inn að tölvu og fór að skoða myndir frá liðnu sumri. Ég komst að því að sumarið hafði skilið eftir góðar minningar. Svo heyrði ég frá sjónvarpinu talað um fleiri myrkar æskuminningar.

Þá fór ég fram til Valdísar og hafði orð á þessum hræðilegu minningum sem þetta fólk byggi við. Það eiga tveir eftir að tala í viðbót sagði Valdís. Nú settist ég við sjónvarpið og mikið rétt, nú komu tvær manneskjur á skjáinn sem áttu góðar minningar. Það var orðið seint þegar ég var búinn að vista tíu myndir með sumarminningum inn á bloggið og ég var þá enn að hugsa um þetta með minningar.

Svo kveiktum við á morgunsjónvarpi í morgun og þar kom púðrið. Á skjáinn var allt í einu kominn blaðamaður sem hefur skrifað bók um fótboltamanninn Zlatan sem allir litlir strákar, fjölmargir hálffullorðnir menn og margir fullorðnir menn vilja svo mikið líkjast. Hann er nefnilega mikill og flinkur fótboltamaður. Hann er fótboltahetja Svþíþjóðar. Ég hef oft talið Zlatan hrokafullan og í leik fyrir nokkrum árum, leik sem ég reyndar horfði á að hluta, fannst mér hann alveg hrikalega hrokafullur. Svo tók hann víti í þessum leik og hann skaut langt, langt yfir markið eins og ég gerði sjálfur í fótboltaleik á Skógum fyrir 54 árum. Mér fannst það gott á hann. (Þroskaður ég eða hvað?)

Skrifari bókarinnar lýsti í sjónvarpsþættinum nokkrum atvikum í lífi Zlatans sem drengs. Heima var pabbi, fórnarlamb styrjalda í fyrrverandi Tékkslóvakíu, sem alltaf var fullur og mikið vansæll og ísskápurinn alltaf tómur af mat. Stundum var Zlatan í heimsókn hjá mömmu sem alltaf skammaðist og umturnaðist yfir öllu og barði Zlatan meðal annars með sleif. Sleifin brotnaði og vegna þess að það var verið að berja hann með sleifinni þegar hún brotnaði og þá hljóp hann út í búð til að kaupa nýja sleif handa mömmu. Zlatan saknaði alls sem börn vænta sér af foreldrum og meðal annars þess að foreldrarnir komu aldrei á völlinn. Hann vissi að það var nákvæmlega einskis að vænta frá þeim. En hann æfði fótbolta og í fótboltanum hafði hann fundið tilveru sína og hann var þá þegar ákveðinn í því að hann skyldi verða eitthvað. Pabbi kom aldrei á völlinn til að peppa upp strákinn sinn.

Dag einn var Zlatan valinn í úrvalslið. Þetta barst fljótt út. Þegar Zlatan kom í fyrta skipti á æfingu á völlinn með úrvalsliðinu sá hann eitthvað óvænt út undan sér. Hann leit þangað -og . . . . pabbi minn! ertu kominn!? Þegar pabbi hafði heyrt að sonurinn væri kominn í úrvalsliðið, þá bara skeði eitthvað. Hann hætti að drekka, varð besti vinur sonarins og hvatti hann til allra dáða. Bókin um Zlatan er talin geta orðið besta hvatningin sem unglingar í erfiðleikum geta fengið í dag. Það eru bundnar vonir við hana.

Zlatan, fyrirgefðu að ég dæmdi þig rangt.

Sagan um Zlatan er mikið raunalegri en hægt er að segja í þessum línum. En svo kom annar maður á skjáinn og hann er ættaður af svipuðum slóðum og Zlatan. Hann hefur skrifað eigin sögu og sú var allt öðru vísi en Zlatans, en jafnvel mun raunalegri. Sögur þessara manna voru svo sorglegar að það var erfitt að sitja ógrátandi framan við sjónvarpið. En þeir höfðu öðlast nokkuð sem allir vilja öðlast. Þeir höfðu öðlast ríkt líf -og - "þeir voru sáttir". Raunir fólksins frá í þættinum í gær voru voða litlausar í samanburði við raunir manna tveggja í dag.

Guð - gef mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.


Ég hef mikið orðið var við það í vinnunni minni að þeir sem geta ekki sleppt atburðum frá því liðna, þeim vegnar heldur ekki vel. Það er eins og það geti orðið að vana að velta sér endalaust upp úr því sama og bara sitja fastur þar. Svona fólk kemur aftur og aftur í meðferðina, svo sorglegt sem það nú er, og það er sem það verði erfitt fyrir þetta fólk að verða fullorðið. Önnur línan í æðruleysisbæninni ofan; "til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt", er lykillinn að þessu. Það er hægt að fyrirgefa án þess að elska, fyrirgefa til að brenna ekki sjálfur upp innan frá. Þegar fólk byrjar að leggja hugsun og tilfinningu í "til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt", þá fer eitthvað að ske.

Hvort velur þú réttlæti eða innri frið? er algeng spurning. Svarið verður oft blandað orðunum "en" eða "ef" eða orðunum báðum. En og ef eru bæði orð vafans og þá er persónan ekki tilbúin að sleppa "réttlætinu" og velja innri friðinn.

Einbúi langt frá mannabyggðum

Hér sit ég heima, geri ekki neitt og tel mér trú um það að ég sé svolítið lasinn. Ég átti að vera í vinnu í dag en þokkalega tímanlega í gær hringdi ég til hans Ingemars ellilífeyrisþega og spurði hann hvort hann væri til í að taka daginn minn í dag. Jú, Ingemar varð bara glaður og hann ætlaði að vinna vinnuna mína í dag.

Í fréttum hér, bæði í blöðum og sjónvarpi, er talað um mikla aukningu af bakteríu sem heitir Mycoplasma pneumoniae og er talað um að hún herji almennt á Norðurlöndin um þessar mundir. Þessi baktería breiðist út sem faraldrar öðru hvoru en er nú í óvenju miklu hámarki. Sjúklingarnir á vinnustað mínum hafa verið nánast illa haldnir af kvefi, höfuðverk og hósta og það hefur vel mátt greina á hósta þeirra að það sem dylst í hálsi þeirra er enginn veislumatur. Ekki veit ég hvort það er þessi tiltekna bakteria sem þar er á ferð. Ég hef farið mjög varlega en varð að lokum fórnarlamb, en þó með mikið minni einkenni en fólkið sem ég hef svo mikið hrærst innan um á síðustu mörgum vikum.

Ég hef notað handspritt og mikinn handþvott og venjulega slepp ég en að þessu sinni fékk ég að láta í minni pokann. Ég umgengst Valdísi með varúð og fer alls ekki höndum um hana um þessar mundir. Ég vil ekki hafa það að hún smitist líka. Hún segir líka 7-9-13 og segist ekki vera móttækileg fyrir pestina og ég vona að hún verði sannspá.

Það er langt síðan ég hef tekið tvo daga í að gera ekki nokkurn skapaðan hlut. Það liggur við að ég hafi ekki kunnað almennilega við mig í gær og í dag. Ég hef lengi verið meðvitaður um að þegar dagurinn rennur upp sem ég bíð eftir, dagurinn þar sem ég ætla ekki að hafa neitt fyrir stafni, verði skrýtinn dagur. En ég veit að ég verð fljótur að aðlaga mig að því. Mér dettur heldur ekki í hug að leggjast í áralanga leti þegar hægist um, en að taka öðru hvoru dag og dag þar sem ég bara geri ekki neitt -það lítur vel út.

Ég hef í dag einbeitt mér talsvert að vísdómsorðabók sem ég bloggaði um í fyrradag. Það er nú svo að líklega flest vísdómsorðin fjalla um að hafa hljóðar stundir, að æða ekki í óróleika um allar trissur, að láta eftir sér að vera einn og að vera nægjusamur. Að láta eftir sér að virða fyrir sér spegilslétt vatn, blóm í haga og að alltaf gefa sér góðan tíma til þessa. Þegar ég hef lesið hver vísdómsorð fyrir sig hef ég gjarnan skrifað nafn höfundarins inn á Google og auðkennt það með Wikipedia. Síðan velti ég fyrir mér hver höfundurinn hefur verið og að lokum hvernig ég stend mig sjálfur í samhengi við vísdómsorðin.

____________________________________________



"Öll sönn og heilbrigð lifsnautn
sem okkur stendur til boða
hefur verið okkur alveg jafn tiltæk
frá upphafi vega og hún er nú -
okkur býðst hún einkum í friði."

John Ruskin (1819 - 1900)

John Ruskin fæddist í Englandi og var breskur listaganrýnandi, ljóðaskáld og rithöfundur. Hann var prófessor í listum við Oxford háskóla og hann hneigðist til vinstri í pólitík. Hann myndaði hreyfingu ásamt fleiri hugsuðum sem hafði að markmiði að ganga til baka frá iðnbyltingunni, taka aftur upp handverk og snúa sér að þeirri fagurfræði sem því fylgir. Kannski að stjórnmálamenn nútímans eða framtíðarinnar fari að lesa verk þessa hugsuðar þegar þeir komast að því að lífsheimspekina verði að taka til endurskoðunar ef okkur eigi að vera líft á móður Jörð.

John virðist hafa verið staðfastlega samkvæmur sjálfum sér. Hann var ríkur maður og á eftirmiðdegi lífs síns gaf hann háar upphæðir peninga til meðal annars mentastofnana. Og hvað lífsnautnina áhrærir þá segir hann: "okkur býðst hún einkum í friði."
________________________________________


Indælast í lífinu er hið kyrrlátasta . . .
lífshamingjan felst i hugarró,

Cicero (106 - 43 f. kr.)

Svona gat mönnum dottið í hug að segja fyrir rúmlega 2000 árum.
_________________________________________



Lærðu að vera einn.
Glataðu ekki kostum einverunnar
og félagsskap sjálfs þín.

Sir Thomas Browne (1605 - 1682)

Enn einn Englendingur, rithöfundur vel lærður í afar mörgu eins og til dæmis læknisfræði, trúarbrögðum, vísindum og fleiru. Það fer ekki milli mála að menn voru líka þrælmenntaðir fyrr á öldum.

Ég hef oft sagt að ég mundi vilja vera í litlum bústað í viku, bústað staðsettum til dæmis langt upp í Norrland í svo sem 10 km fjarlgð frá næsta byggðu bóli. Þar mundi ég vilja koma nær sjálfum mér, náttúrunni og alheiminum. Ef einhverjum dettur í hug að nú sé Guðjón að verða stórskrýtinn þá hef ég verið það lengi því að þessi draumur er alls ekki nýr. Að vera hræddur við að hitta sjálfan sig er vandamál sem ég er laus við. Kannski væri hægt að fá lánaðan afréttarkofa á Síðumannaafrétti. Kannski er líka einn slíkur í nothæfu ástandi í Núpstaðaskógum. Það eru margir sem mundu vilja prufa þetta en sjálfsagt mundu ekki allir voga. Ég mundi voga. Þetta er hliðstæða við eyðimerkurgöngu sem margir þekktir menn lögðu að baki á sínum tíma.

En þrátt fyrir allt, þó að Sir Thomas Browne hafi ekki þekkt til farsímans, þá held ég að ég mundi vilja geta sent frá mér sms daglega til að láta mína nánustu vita að ég hafi ekki verið étinn af skógarbirni.

Það er gaman að sökkva sér í þetta en ég held samt að ég bloggi ekki meira um vísdómsorð að sinni. (Hver veit þó?)

Hún Guðdís barnabarn í útlöndum

Sjónvarpsmessan í morgun var fín, reglulega fín. Eiginlega var það umræðufundur á að giska tólf manna og kvenna frekar en sjónvarpsmessa, og var tekinn upp á lýðháskóla mjög langt norður í landi. Það voru miðaldra maður og ung kona sem sáu um messuna en annars höfðu þau öll sem viðstödd voru sín hlutverk í þessari guðsþjónustu.

Fyrr í morgun þegar við komum á fætur var efni á einni stöðinni þar sem yngra fólk var allt í öllu, fólk á svipuðum aldri og ungi presturinn. Það var mikill farði á andlitunum þar, hárið uppsett sem um galdra væri að ræða, hælarnir á hæð við mjólkurfernu eða hver veit hvað og fólkið var alveg rosalega nýtískulegt í öllu sínu fasi. "Og hamingjusamt var það svo að það hálfa hefði dugað." Ég er ekki að gera grín að ungu fólki en ég er að tala um tíðaranda.

Svo hófst guðsþjónustan. Þegar ungi presturinn hóf sitt 15 mínútna tal varð allt svo ekta. Andstæðurnar milli guðsþjónustunnar og morgunefnisins á allt annarri stöð voru afskaplega miklar. Þegar allt verður svo satt og ekta verð ég votur í augnkrókunum. Ætli ég sé ekki eitthvað lasinn í augunum?

En nú kemur að því. Mitt í þessu minntist ég messu frá 9. október. Það var þá sem andagiftin greip mig sterkum tökum og ég ætlaði að tala um hana Guðdísi dótturdóttur mína í bloggi mínu þann dag. Stúlka í þeirri messu minnti mig nefnilega á hana Guðdísi. Svo beið ég kvöldsins og andagiftin yfirgaf mig og það varð ekkert blogg um hana dótturdóttur mína.


En hér er nú Guðdis komin þrátt fyrir tafir. Myndin af þessari ungu konu var tekin á Sólvöllum í júlí síðastliðnum, en þá var hún búin að vera í viku á handboltamóti niður við Gautaborg. Svo kom hún með lest hingað til Örebro. Á myndinni er hún að borða rístertu hjá henni ömmu sinni. En hún var ekki bara á leiðinni hingað á Sólvelli konan sú. Nei! Heldur var hún á leiðinni til enn annars lands til að vinna, til að sýna sig og sjá aðra og til að sækja lífsreynslu.


Hann Kristinn bróðir Guðdísar og Johanne kærastan hans komu hingað til að sækja hana. Hún fór frá okkur gegnum Ósló til Bergen þar sem Kristinn og Johanne búa. Guðdís ætlaði að búa hjá þeim í mánuð og vinna í fiski. Þessa mynd fékk ég lánaða hjá Kristni, en hún er tekin í Ósló einmitt á leiðinni til Bergen. Mér sýnist á stúlkunni að henni leiðist ekkert. Hún er á ferðalagi út í heimi.


Nú verð ég að tala svolítið meira um heimsókn Guðdísar til okkar. Hafi ég átt von á því að til okkar kæmi krefjandi táningsstelpa, þá verð ég bara að segja það að Guðdís var algjör andstaða slíks. Hún var ljúf og góð og ánægð með að vera með okkur gamalmennunum. Við fórum þrjú inn til Marieberg í Örebro. Þar ætluðu Guðdís og amma hennar að fara á svolítið búðarrölt, enda eru eitthvað töluvert á annað hundrað verslanir að velja um þar. Ég, afi, fór heim á Sólvelli um tíma og það var ákveðið að þær hringdu þegar þær væru tilbúnar. Þá ætluðum við að fá okkur eitthvað gott á kaffihúsi.

Að fá sér kaffi, og svo ég tali nú ekki um þegar maður fær sér aðeins með því, heitir á sænsku að fíka. Svo hringdi Valdís og sagði að þær væru tilbúnar og að ég gæti komið. Ég spurði hvað við ættum þá að gera og Guðdís heyrði það og ég heyrði hana segja hátt og skýrt að nú vildi hún fíka með afa. Fyrr um daginn voru þær búnar að fá sér hamborgara í stærsta verslunarhúsinu í Marieberg, en þá var afi ekki með. Afi er nefnilega enginn sérstakur hamborgaramaður. Sjáið innkaupavagninn. Þær hafa ekki keypt svo mikið. Það grisjar í gegnum vörurnar á vagninum.


Við fórum frá Marieberg í Sveppinn inn í sjálfri Örebro til að "fíka". Þaðan er gott útsýni yfir næstum alla borgina. Sveppurinn er neysluvatnsgeymir sem geymir 3200 tonn af vatni í 58 metra hæð. Stór hattur sem stendur á mjórri fæti og er því eins og svampur í laginu. Þar uppi er kaffihús en alls ekki er hægt að segja að það sé jafn mikill íburður þar og í Perlunni í Reykjavík. Og sjáið bara. Þarna hallar Guðdís sér móti ömmu sinni og er eitt breitt bros. Guðdís mín! það var frábært að fá þig í heimsókn skaltu vita og okkur þykir vænt um þig.


Ekki veit ég hvar þessi fallega mynd er tekin en ég tók hana úr myndasafninu hans Kristins bróður hennar Guðdísar. Hafmeyjan á myndinni hefur fætur en hún horfir yfir víkina þarna eins og virkileg hafmeyja.


Kristinn og Johanne verða auðvitað að vera með í þessu bloggi. Ekki veit ég heldur hvar þessi mynd er tekin, en ég fann hana líka í myndasafninu hans Kristins. Eitt virðist ljóst á þessari mynd, en það er að maðurinn og konan virðast alls ekki ósátt. Þau eru ljúf og falleg.

Meðan Guðdís var hjá okkur var hún Erla systir hennar á handboltaæfingu niður í Þýskalandi. Ég þarf að blogga um hana líka. Hún var fermd síðastliðið vor og þá bloggaði ég um hana: http://gudjon.blogg.se/2011/april/ferrming.html  Ég held bara Erla mín að þú verðir að koma um jólin til að ég geti bloggað um þig aftur. Okkur þykir nefnilega vænt um þig líka.

Eilífðin er núna

"Eilífðin er núna. Ég er í henni miðri,
hún er allt umhverfis mig í sólskininu;
ég er í henni, eins og fiðrildið í ljósfylltu loftinu.
Ekkert er í vændum; það er núna."

Richard Jefferies (1848-1887)

Þegar við Valdís vorum á Íslandi snemma í vor fengum við bók með texta, vísdómsorðum, fyrir hvern dag ársins. Við fengum þessa bók frá henni Fríðu systur og Binnu mágkonu minni. Lengi vel var þessi bók á kommóðu rétt hjá matarborðinu en nú orðið er hún á matarborðinu. Valdís ýtir bókinni oft yfir til mín þegar við borðum, annars mundi ég ekki muna eftir henni nema öðru hvoru. Það er gott að eiga trygga konu. Textinn ofan er frá 29. október. Ég las hann nokkrum sinnum yfir áðan en komst ekki almennilega í samband við hann fyrr en Valdís tók hljóðið af sjónvarpinu. Hún nefnilega getur hlustað á sjónvarpið án þess að það heyrist í því. En þegar það var orðið hljótt í húsinu og ég heyrði ekkert annað en suðið fyrir eyrunum, þá fannst mér sem það skipti ekki máli þó að það væri ekki sólskin eins og höfundurinn segir í sínum djúpvitru orðum.

Hver annars var hann þessi maður. Ég gáði á Wikipedia. Jú, hann varð aðeins 35 ára en honum auðnaðist þó að skrifa mjög mikið og hann er sagður hafa verið náttúruhöfundur. Ég taldi mig svo sem vita hvað orðið náttúruhöfundur (naturskribent) væri en ég sló því líka upp og komst þá að því að ég yrði að fara í háskóla ef ég ætti að skilja allar útskýringar sem fylgdu orðinu. Ég lét því mína eigin vitneskju nægja. Richard átti heima á Englandi og samkvæmt heimildum Wikipedia kom hann einu sinni til Frakklands. Annars er ekki að sjá að hann hafi verið víðförull þó að honum hafi ratast vís orð af munni. "Ekkert er í vændum; það er núna."
______________________________________________



"Öllu djúpt hugsandi fólki
er eiginlegt að lifa einföldu lífi
og leita einfaldleikans."

Martin Marty

Þetta eru vísdómsorðin 31. október. Martin Marty eða Martin Emil Marty fæddist 1928 og er bandarískur, lúterskur trúarbragðafræðingur. Hann á líka mikil ritverk að baki. Nú á tímum þegar öll vandamál eiga að leysast með því að auka neyslu almennings til að koma hjólum atvinnulífsins af stað og gera marga ríkari á kostnað Jarðarinnar okkar sem er að kikna undan erfiðinu, þá eru þessi orð gríðarlega mikill vísdómur.
______________________________________________


"Djúpt í sál okkar, að baki sársaukanum,
baki allra truflana lífsins, er víðfeðm kyrrð,
veraldarhaf rósemdar, sem ekkert fær truflað,
ómælisfriður náttúrunnar sjálfrar,
ofar öllum skilningi."


C.M.C. í endursögn R.M. Bucke

Þetta er frá 28. október. Í fáfræði minni veit ég ekki hvað þetta C.M.C. þýðir en enn einu sinni fór ég inn á Wikipedia og leitaði að R.M. Bucke. Þar fékk ég upp nafnið Richard Maurice Bucke sem fæddist í Englandi 1837 og lifði fram til ársins 1902. Hann lifði ekki svo lengi að hann heyrði talað um þotur, að hann horfði á sjónvarp eða að hann upplifði fyrstu ferð manna til tunglsins. Hann upplifði ekki heldur al-Qaida, Usama bin Ladin eða hin fjölmörgu stríð sem háð hafa verið eftir hans daga. En hann raðaði saman orðum í ótrúlega fallegt samhengi. Hér er mynd af þessum manni en ég sé alls ekki hver ljósmyndarinn er þannig að ég get ekki nefnt hann.



Samkvæmt myndinni býr hann yfir góðlegum, yfirveguðum persónuleika. Kannski eru hugmyndir mínar gamaldags en ég er ekki að meina að við skulum hverfa aftur til fortíðar. Hins vegar hugsa ég að það væri gott fyrir okkur öll að staldra við, loka fyrir allan eril og glaum og hugleiða um stund hvað býr að baki hugans eða "Djúpt í sál okkar, að baki sársaukanum". Á meðan getum við til dæmis stutt okkur við ísaldarslípaðan stein, hallað okkur upp að gömlum trjástofni eða setið á stubb í skógi. Og líka bara tekið okkur kyrra stund á koddanum okkar. Hver eru verðmæti lífsins?

Þessi bók mun nú hafna á blogginu mínu alla vega einu sinni enn.

Snemmvetrarannir

Valdís hefur verið að raka laufi af og til undanfarna daga og þar að auki er ekki langt síðan hún sló lóðina. Í fyrradag og í dag höfum við verið að bera laufið út í skóg og þar á það að gera mikið gagn. Hann Ingemar garðyrkjumeistari í Örebro ráðlagði mér fyrir nokkrum árum að nota laufið af lóðinni til að setja kringum eftirlætistré og gera jarðveginn kringum þau þar með rakaheldnari. Svo höfum við gert síðan og þar að auki hef ég borið hænskaskít undir laufið í ár og í fyrra. Ég hef svo oft nefnt beykitrén að ég þori varla að nefna þau oftar, en það eru í fyrsta lagi þau sem fá að njóta þessara sérstöku gæða. En hvers vegna? Jú, þau eru nýbúar í landinu okkar og við bindum við þau vonir sem alveg sérstaka granna og skrúðgarðaprýði innan mjög fárra ára ef okkur tekst að gera þeim svo gott að þau vaxi sérstaklega mikið. Ég tek fram að fagfólk er í ráðum hvað þetta varðar.


Er þetta ekki fallegt haustlauf. Þessi mynd er tekin af beyki skammt austan við húsið. Þetta lauf á eftir að verða hrokknara og brúnna, en beykilaufið hélt lengst græna litnum í haust og nú er það svo að ung beykitré fella ekki haustlaufið fyrr en það laufgast aftur að vori.


Þetta er sama tré hérna skammt austan við húisið. Það verður nokkurn vegin svona þangað til í apríl-maí að vori.


Hér gefur að líta tvö beykitré og svona er það, og er allt árið, þau skera sig alltaf úr og eru áberandi. Eftir að við gróðursettum sex fyrstu beykitrén vorið 2006 fórum við í ferðalag niður á Skán og þar lentum við mitt inn í víðáttumiklum beykiskógum. Eitt kvöld fór ég í gönguferð út frá hótelinu og gekk eftir dal með lágum brekkum á báðar hendur. Á láglendinu voru tún en brekkurnar voru þéttvaxnar háum beykiskógi. Ég var að giska á hæðina á þessum frábæru trjám og taldi að þau hlytu að vera allt að 40 metra há. Það nefndi ég samt ekki við neinn en mikið varð ég ánægður yfir því að hafa gróðursett beyki á Sólvöllum. Þegar ég kom heim skrifaði ég "bokträd" inn á Google og komst þá að því að þau geta orðið 45 m há. Mér hefði því verið óhætt að nefna það að ég giskaði á 40 metrana. Það verða afkomendur okkar sem fá að upplifa það hér á Sólvöllum en við stóðum alla vega fyrir því að þau byrjuðu að vaxa í Sólvallalandinu.


Konan sem kyndir ofninn minn orti Davíð Stefánsson en hér er konan sem rakar lóðina sína. Þarna vorum við búin að moka upp stórum haug í stóran bláan plastpoka þó að pokinn sem við sjáum er hvítur og nú er hún að safna haugnum saman aftur.


Það má líka setjast niður og hvíla sig á Sólvöllum. En útivistin er góð og viðheldur betri heilsu. Ég held að við höfum bæði haft gott af þessari snemmvetrarvinnu og öllu því hreina lofti sem við drógum niður í lungun. Það er mikið lauf fallið niður aftur en það sem þegar er komið út í skóg þarf ekki að raka aftur.

Ég var búinn að hugsa mér -en svo fór allt úr skorðum

Ég var búinn að hugsa mér að halda upp á þriðjudagsmorguninn var með því að gleðjast með sjálfum mér. Svo vaknaði ég þennan morgun og var þá í vinnunni og ég gladdist með sjálfum mér strax þar sem ég lá í rúminu. Það eru mörg gleðiefnin ef ég nenni að hugsa um þau en það væru líka mörg hörmungarefnin ef ég vil taka á mig allar heimsins áhyggjur. En ef ég tek á mig allar heimsins áhyggjur breytir það ekki heiminum nema því að ég einbeiti mér að því að bæta hann. Í rauninni finnst mér að ég vinni að því að bæta heiminn þar sem ég legg mig heils hugar fram við að stuðla að því að börn fái heim pabba eða mömmu sem vilja verða betri manneskjur. Eða líka að foreldrar fái heim stálpuð börn sem voru horfin út í myrkrið en koma nú heim og segja við mömmu og pabba: Ég elska ykkur.

En nú viltist ég af leið og fór að tala um allt annað en til stóð og ég hafði alls ekki verið með í huga þegar ég byrjaði. En svona er það oft; það fæðist eitthvað sem alls ekki var með í myndinni þegar fyrsta orðið var skrifað. Ég var að halda upp á eitthvað og hvað var nú það? Jú, tímabilið sem ég vinn fulla vinnu síðustu mánuði þessa árs var nákvæmlega hálfnað á þriðjudagsmorguninn var. Það var þess vegna sem ég gladdist áður en ég dreif mig á fætur og tók eina eftirlitsferð gegnum ganga og sali á meðferðarheimilinu Vornesi.

Nú er spurning hvernig ég á að halda áfram þar sem ég fór inn á allt annan hliðarstíg eftir tvær fyrstu setningarnar. Kannski var einhver dulin meining bakvið þessa óundirbúnu stefnubreytingu mína. Það var eitt sinn fyrir einum 15 árum að það var handleiðsla í Vornesi. Handleiðarinn vildi enda handleiðslu dagsins á því að við segðum öll frá því hvað okkur fyndist við vera að gera með því að vinna þar. Þegar kom að mér byrjaði ég á því að segja að við vrum að vinna að því að breyta Svíþjóð. Þá hlógu þau öll mikið og ekki minnst handleiðarinn. Hann tók bakföll af hlátri.

Ég skal gefa eitt dæmi því til sönnunar að ég hafði alveg hárrétt fyrir mér þegar ég sagði það sem fékk alla viðstadda til að hlæja að mér. Þetta var 1996, annað árið eftir að 12-spora meðferð byrjaði í Vornesi. Þá voru þrír AA fundir á viku í borginni Eskilstuna í Södermanland í Svíþjóð. Í dag eru rúmlega 30 fundir á viku í Eskilstuna og fólk giskar á að það séu níu til 35 manns á hverjum fundi. Þeir sem eru á fundunum eru edrú. Þetta er bara dæmi frá einum bæ í Södermanland. Ef þetta er ekki að breyta ástandinu í einu landi, ja, hvað er það þá? Meðferðarheimilið er ekki AA en meðferðarheimilið vísar fólki þangað.

Þeir sem hafa verið í meðferð í Vornesi og eru edrú eftir það koma fjórum sinnum til baka á svonefnda endurkomudaga og eru þrjá daga hverju sinni. Eitt sinn var tvítug mamma fjögurra ára telpu í endurkomu. Hún sagði frá því að eftir nokkrar vikur heima hafi þær mæðgur legið í sófa, horfst í augu og talað saman. Litla telpan tók þá í hár mömmu sinnar, greiddi það bakvið eyra hennar og sagði: Mamma mín, nú ertu mín virkilega mamma.

Í annað skipti var kona um fertugt í endurkomu. Ég hafði verið handleiðarinn hennar. Hún kom með stórt umslag til mín og sagði að það væri frá börnunum sínum. Þau vildu gefa mér það sem væri í umslaginu þar sem mamma þeirra hefði gefið mér svo gott orð. Upp úr umslafginu dró ég þrjár eða fjórar blýantsteikningar. Tvær þeirra hafði ég í mörg ár í römmum upp á vegg í samtalsherberginu mínu.

Fyrir einum tólf árum var maður á mínum aldri í meðferð. Við urðum all vel kunnugir. Einhverju ári eða fáum árum seinna hringdi hann til að spyrja mig einhvers. Svo töluðum við líka um það hvað við hefðum fyrir stafni í frítímum okkar. Ég sagðist vera að lesa bók um Stokkhólm, eina af bókaseríu um Stokkhólm eftir mann sem hét Per Anders Fogelström. Áttu þessar bækur? spurði hann. Nei, svaraði ég og sagðist hafa fengið bókina á bókasafni í Örebro. Við höfðum báðir mikinn áhuga á þeirri sögu sem þessar bækur hafa að segja.

Daginn eftir kom innritaður sjúklingur til mín og sagði að það væri einhver ókunnur maður að spyrja eftir mér. Þegar ég kom fram að aðalinnganginum var maðurinn frá símasamtalinu deginum áður þar kominn með brúnan pakka í hendinni. Hérna Guðjón, hér eru bækurnar hans Fogelström um Stokkhólm, mig langar að lána þér þær. Hann hafði þá lagt 97 km að baki með nokkrar bækur sem hann vildi lána mér. Og hvers vegna? Jú, hann vildi mér vel.

Tíminn sem ég hef lofað að vinna fulla vinnu í Vornesi er hálfnaður sem fyrr segir. Síðan ætlaði ég að hætta. Þegar ég byrjaði þetta blogg ætlaði ég að skrifa um það. En svo bara skeði eitthvað. Núna í lok þessa bloggs er ég ekki frá því að ég vilji vinna fáeina daga í mánuði, til dæmis fjóra daga. Við sem vinnum á meðferðarheimilinu gerum fólk ekki edrú en samt er það nú svo að meðferðarheimilið gengur ekki nema fólk vinni þar. Kannski get ég gert einhverjum gagn og meðverkað í að gera heiminn betri. Ég verð að ræða þetta við Valdísi.
RSS 2.0