Eilífðin er núna

"Eilífðin er núna. Ég er í henni miðri,
hún er allt umhverfis mig í sólskininu;
ég er í henni, eins og fiðrildið í ljósfylltu loftinu.
Ekkert er í vændum; það er núna."

Richard Jefferies (1848-1887)

Þegar við Valdís vorum á Íslandi snemma í vor fengum við bók með texta, vísdómsorðum, fyrir hvern dag ársins. Við fengum þessa bók frá henni Fríðu systur og Binnu mágkonu minni. Lengi vel var þessi bók á kommóðu rétt hjá matarborðinu en nú orðið er hún á matarborðinu. Valdís ýtir bókinni oft yfir til mín þegar við borðum, annars mundi ég ekki muna eftir henni nema öðru hvoru. Það er gott að eiga trygga konu. Textinn ofan er frá 29. október. Ég las hann nokkrum sinnum yfir áðan en komst ekki almennilega í samband við hann fyrr en Valdís tók hljóðið af sjónvarpinu. Hún nefnilega getur hlustað á sjónvarpið án þess að það heyrist í því. En þegar það var orðið hljótt í húsinu og ég heyrði ekkert annað en suðið fyrir eyrunum, þá fannst mér sem það skipti ekki máli þó að það væri ekki sólskin eins og höfundurinn segir í sínum djúpvitru orðum.

Hver annars var hann þessi maður. Ég gáði á Wikipedia. Jú, hann varð aðeins 35 ára en honum auðnaðist þó að skrifa mjög mikið og hann er sagður hafa verið náttúruhöfundur. Ég taldi mig svo sem vita hvað orðið náttúruhöfundur (naturskribent) væri en ég sló því líka upp og komst þá að því að ég yrði að fara í háskóla ef ég ætti að skilja allar útskýringar sem fylgdu orðinu. Ég lét því mína eigin vitneskju nægja. Richard átti heima á Englandi og samkvæmt heimildum Wikipedia kom hann einu sinni til Frakklands. Annars er ekki að sjá að hann hafi verið víðförull þó að honum hafi ratast vís orð af munni. "Ekkert er í vændum; það er núna."
______________________________________________



"Öllu djúpt hugsandi fólki
er eiginlegt að lifa einföldu lífi
og leita einfaldleikans."

Martin Marty

Þetta eru vísdómsorðin 31. október. Martin Marty eða Martin Emil Marty fæddist 1928 og er bandarískur, lúterskur trúarbragðafræðingur. Hann á líka mikil ritverk að baki. Nú á tímum þegar öll vandamál eiga að leysast með því að auka neyslu almennings til að koma hjólum atvinnulífsins af stað og gera marga ríkari á kostnað Jarðarinnar okkar sem er að kikna undan erfiðinu, þá eru þessi orð gríðarlega mikill vísdómur.
______________________________________________


"Djúpt í sál okkar, að baki sársaukanum,
baki allra truflana lífsins, er víðfeðm kyrrð,
veraldarhaf rósemdar, sem ekkert fær truflað,
ómælisfriður náttúrunnar sjálfrar,
ofar öllum skilningi."


C.M.C. í endursögn R.M. Bucke

Þetta er frá 28. október. Í fáfræði minni veit ég ekki hvað þetta C.M.C. þýðir en enn einu sinni fór ég inn á Wikipedia og leitaði að R.M. Bucke. Þar fékk ég upp nafnið Richard Maurice Bucke sem fæddist í Englandi 1837 og lifði fram til ársins 1902. Hann lifði ekki svo lengi að hann heyrði talað um þotur, að hann horfði á sjónvarp eða að hann upplifði fyrstu ferð manna til tunglsins. Hann upplifði ekki heldur al-Qaida, Usama bin Ladin eða hin fjölmörgu stríð sem háð hafa verið eftir hans daga. En hann raðaði saman orðum í ótrúlega fallegt samhengi. Hér er mynd af þessum manni en ég sé alls ekki hver ljósmyndarinn er þannig að ég get ekki nefnt hann.



Samkvæmt myndinni býr hann yfir góðlegum, yfirveguðum persónuleika. Kannski eru hugmyndir mínar gamaldags en ég er ekki að meina að við skulum hverfa aftur til fortíðar. Hins vegar hugsa ég að það væri gott fyrir okkur öll að staldra við, loka fyrir allan eril og glaum og hugleiða um stund hvað býr að baki hugans eða "Djúpt í sál okkar, að baki sársaukanum". Á meðan getum við til dæmis stutt okkur við ísaldarslípaðan stein, hallað okkur upp að gömlum trjástofni eða setið á stubb í skógi. Og líka bara tekið okkur kyrra stund á koddanum okkar. Hver eru verðmæti lífsins?

Þessi bók mun nú hafna á blogginu mínu alla vega einu sinni enn.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0