Valdís hélt að ég hefði sofnað

Það var langur vinnudagur á sveitasetrinu í dag og síðan var það vefrslunarferð. Ég ákvað að því loknu að setjast framan við sjónvarpið og horfa alla vega á fréttirnar og slappa notalega af. Óli kom auðvitað og daðraði svolítið við mig og fékk mig til að loka augunum og Valdís hélt hreinlega að ég hefði sofnað. Ha ha, auðvitað steinsofnaði ég. Svo vaknaði ég við það að besti grínleikari landsins og sá sprellikall sem hefur oftast fengið mig til að skellihlæja, Robert Gustavsson, var kominn á skjáinn. Ég svo sem horfði á hann um stund en hló bara ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég held bara að ég hafi verið of hrokafullur til að hlæja að honum. Ég var þreyttur og brást við því með hroka. Ekki get ég, fyrrverandi skaftfellskur smalamaður, viðurkennt að ég sé þreyttur. Nehei. En ég viðurkenni að ég sé ánægður með að húsið verður formlega fokhelt í næstu viku ef ekkert sérstakt kemur til.

En ég náði því þó áður en ég sofnaði yfir fréttunum að fjárhagur sveitarfélaga er svo góður í ár að það eru milljarðatugir í afgang hjá þeim og krepputímabili er því lokið samkvæmt útreikningum snillinga. Kannski það sé ellilifeyrisþegum að þakka sem halda áfram að vinna og byggja fyrir umframpeningana og skaffa vinnu. Enn einu sinni er unga starfsfólkið í Vornesi veikt og ég kem til með að vinna um nstu helgi. Það er að vísu búin að vera meiningin síðan snemma í vor en nú þurfti meira að koma til.

Jorma, finnskur maður og nýbakaður ellilífeyrisþegi sem unnið hefur í Vornesi í nokkur ár kom í heimsókn í gær á fjórhjólinu sínu. Hann býr í Vermlandi. Meðan hann sat hér hringdi forstöðukonan í Vornesi í hann gegnum farsímann og reyndi að semja við hann um helgina. Ég vissi að hún ætlaði að tala um þetta við hann og skildi vel hvað þeim fór á milli. Nokkrum augnablikum eftir að Jorma lagði á hringdi hún í mig og ég byrjaði á að spyrja hana hvort hún hefði náð sambandi við Jorma. Hún kvaðst hafa gert það og hann væri tilbúinn að vinna. Nú var það Jorma sem hlustaði á okkur og hann horfði skáhalt upp í loftið og glotti við.

Þannig létum við ellilífeyrisþegarnir eins og smá strákar sem halda að þeir séu rosa sniðugir. Við Jorma komum til með að hittast í Vornesi um helgina. Eftir helgi er spáð afar góður veðri, þessu fallega veðri sem september býður svo oft upp á. Haustlitirnir taka sífellt meira völdin og laufið er byrjað að klæða skógarbotninn þar sem það ætlar að verða að nýrri næringu næsta sumar og einhver sumur þar á eftir.

Fyrr í kvöld þegar ég var of snobbaður til að hlæja að Robert Gustavssyni gerði ég tilraun til að blogga. Ég komst ekki einu sinni svo langt þá að byrja á fyrirsögn. Nú er kvöldværð komin yfir mig og ég hlakka til að leggja mig á koddann og ennþá meira til að takast á við nýjan dag á morgun.

Mikið að ske

Í dag var eiginlega dagur 5 í viðbyggingu, það er að segja dagur þar sem hefur skeð svo mjög mikið í einum dagsáfanga. En málið er bara að ég má ekki vera að því að blogga því að ég þarf að ganga á vit Óla vinar míns og vera vel úthvíldur snemma í fyrramálið það sem ég þarf að skreppa til Örebro að sækja byggingarefni.

Að öðru leyti get ég sagt í stuttu máli að það var héla á þakinu í morgun um hálf sjö leytið þegar ég dró mig þangað upp. En dagurinn varð bæði hlýr og mikið fallegur. Þeir eru oft fallegir septemberdagarnir og dagurinn í dag með. Smiður í dag, smiður á morgun og væntanlega smiður á föstudag. Það er gaman hjá ellilífeyrisþegunum og Valdís bakaði lummur úr grjónagrautnum sem varð afgangs í hádeginu.

Ekki til setunnar boðið

Já, það er ekki til setunnar boðið. Klukkan nálgast óðfluga tíu slagið og ég er búinn að heita mér því að vera lagstur á koddann fyrir klukkan tíu. Það á að gera mikið hér á morgun og ég tel mig búinn að gera talsvert í dag. Smiðurinn kemur á morgun og ætlar að leggja þakpönnur á og hvort ég verð með honum veit ég ekki, en eitt er víst að þó ég verði ekki aðstoðarmaður hans á morgun er mikið afgangs handa mér. Það er svo sem enginn vandi að leggja pönnur á þak en þar sem byggingar mætast í vinkil verður heilmikil sögun. Hann er vanur svoleiðis. En hvað um það, Óli Lokbrá kallar og ég geng á vit hans. Góða nótt.

Serstaklega til Þórlaugar

Já Þórlaug, innlegg þitt á bloggið mitt næsta hér fyrir neðan var eitthvað til að hugsa um. Ég áttaði mig til dæmis á því að eitthvað sem er alveg á því hreina í mínum huga þegar ég blogga, er ekki endilega jafn klárt fyrir þá sem lesa. Hér á Sólvöllum er ég alveg hæst ánægður með það sem hefur verið gert þó að sumt af því sé gert á öðrum árstíma en einu sinni var hugsað. Við vorum einar fimm vikur út í skógi í vor við að grisja, hreinsa, mala greinar og hlú að á einn og annan hátt. Þetta var mikilsverð vinna og mun skila sér meira síðar, til dæmis eftir fimm ár. Sólvellir eru líka búnir að fá nýtt heimalandslag, landslag sem okkur hefur dreymt um öll ár síðan við keyptum. Og svo er húsbyggingin á góðri leið en það er sá þatturinn sem lendir á annarri árstíð en upphaflega var gert ráð fyrir. Hins vegar ber því ekki að neita að það verður okkur léttara ef miðað er við fjárhag. Ég mun vinna mikið meira að byggingunni sjálfur fyrst þessdi dráttur varð á. Svo er ég búinn að vinna það mikið í Vornesi að það sem af er byggingu, þá hef ég enn sem komið er unnið fyrir öllum kostnaði á árinu. Ég kem meira að því síðar.

En svo er nefnilega eitthvað hitt sem við höfum ekki gert á þessu annars afar fallega sumri. Við fengum dálítið af heimsóknum sumarið 1996 þegar við áttum heima í Falun. Það var regla varðandi þær heimsóknir að fara einn hring um vatnið Siljan með viðkomu í bænum Mora og borða á Hótel Gösta. Í einni þessara ferða vorum við þrjú, ég, Valdís og Binna systir hennar. Þegar við vorum vel á heimleið við suðaustanvert vatnið sá ág skilti sem á stóð Vidablick sem ég mun kalla Víðablik. Þetta þótti mér athyglisvert og ég stakk upp á að við heimsæktum þetta Víðablik. Þegar við komum á áfangastað vorum við á hæð einni sem er 352 m yfir sjávarmáli. Þar gaf að líta útsýnisturn einn sem reyndist 28 m hár og ég stakk upp á því að fara upp.

Þær systur völdu að sitja á bekk þar á jörðu niðri en ég lagði á brattann og gekk að mér fannst ótrúlega marga hringi áður en upp var komið. Þar hafði ég útsýni yfir gamlar furur og þetta útsýni er mér ógleymanlegt. Slíkt hafði ég aldrei séð áður. Fyrst leit ég til norðurs, sá yfir Siljan og síðan í mishæðótt landslag þar norðan við og mér fannst ég sjá óralangt. Ég leit til vesturs og sá verulega langt, styttra til suðurs og styttst til austurs. Hvert sem ég leit gaf að sjá gróið land eða stöðuvötn. Þetta gróna land var ýmist iðjagræn akurlönd eða skógur. Svo mikinn gróður hafði ég aldrei litið af einum og sama stað. Ég var algerlega heillaður. Ég veit að sjónlínan til norðvesturs frá Víðabliki til staðar sem heitir Älvdalen er 60 km og þangað sést alla leið. Síðar las ég um það að fyrir 360 milljónum ára hafði fallið gríðarlegur loftsteinn á jörðina og hann skall niður þar sem nú er ákveðið vatnasvæði sem Siljan er hluti af. Hitinn í ægilegu sárinu sem myndaðist var svo mikill að að jörðin sauð þar í 100 000 ár.

Við vorum þátttakendur í hópferð um Skán fyrir fáeinum árum. Við ferðuðumst þar allmikið og einn daginn heyrðum við þegar leiðsögumaðurinn sagði við bílstjórann að það væri alveg tími til að fara upp á Suðurásinn eins og það heitir. Á leiðinni upp mátulegan halla sagði leiðsögumaðurinn að við værum á leiðinni upp í skánsku Alpana. Mig minnir að hæðin hafi verið 168 m. Þegar upp var komið vorum við stödd mitt inn í gömlum beykiskógi, beykiskógi sem var nákvæmlega eins og friðaður beykiskógur á að vera. Botninn var brúnn vegna ljósleysis eins og það er í ekta beykiskógi en þeir sem til þekkja vita að áður en beykið springur út í lauf er botninn þakinn ógnarlegum fjölda af skógarliljum og öðrum vorgróðri.

Við gengum stuttan spöl frá rútunni og vorum brátt stödd á barmi mikillar gjár þar sem gott útsýni var til austurs. Þessi gjá myndaðist í einhverjum umbrotum fyrir einum miljón árum ef ég man rétt og útsýnið til austurs var beykivaxnar mjúkar hæðir svo lant sem augað eygði. Í minningunni var hópurinn stutta stund álíka hljóður og ég hafði verð einn mörgum árum áður uppi í turninum á Víðabliki.

Mér er vel ljóst að ég er búinn að blogga um báða þessa staði áður.

Það eru sjálfsagt einir þúsund staðir í Svíþjóð sem geta gefið okkur Valdísi svona sterka upplifun ef við sækjum þá heim. Bæði þessi atvik og mörg önnur lifa enn sem sólskinsbjartar minningar og það væri skemmtilegt að safna fleirum slíkum til að hafa sem veganesti inn í elliárin. Þakka þér fyrir þessa athugasemd Þórlaug, hún fékk mig til að hugsa og setja hugsunina í orð.

Beykiskógur á Skáni
Þessa mynd tókum við í "sænsku Ölpunum" á ferð okkar þar fyrir nokkrum árum. Fyrir miðri myndinni er gjáin sem ég talaði um ofar.

Haustlitir

Vorið er liðið og sumarið er liðið og það er komið haust. Haustið er hins vegar ekki liðið og eiginlega eru haustlitirnir bara rétt byrjaðir þó að það sé búið að vera töluvert lauffall. Það er um þetta leyti sem mér verður alltaf hugsað til þess hvernig ég hafi ávaxtað sumarið. Ég hef ekki ávaxtað sumarið sem skyldi og það mesta sem ég hef gert í vor og sumar hef ég gert með það fyrir augum að fá rólegra sumar að ári. Ég hef talað um Hurtigruten, Stokkhólmsskerjagarð, beykiskógana á Skáni, Härjedalen, Torneälven, Jämtland og svo hefur sumarið liðið og engan þessara staða höfum við heimsótt svo að ekki sé talað um að við höfum siglt norska Hurtigruten.

Í dag var ég á faralds fæti og fór til Eskilstuna, um 100 km austan við Örebro, og hitti þar helling af góðu fólki. Valdís var heima og gætti búsins. Á báðum leiðum hugsaði ég um þetta, að hafa ekki ávaxtað sumarið, og ég dáðist að náttúru þessa lands sem ég hafði vanrækt heilt sumar. Við höfum nú ekki verið svo léleg neitt annað sumar held ég við að skoða landið sem við höfum verið núna í ár. Það er eins gott að klára það sem fyrir liggur á þessu ári og fara svo að njóta ellilífeyrisáranna ögn meira. Fyrst af öllu verður þó ferð til Íslands og Vestmannaeyja að vori. Þá verður hún Erla dótturdóttir okkar fermd. Annars er ég alveg til í að vinna eitthvað áfram á næsta ári ef þau vilja hafa mig áfram í Vornesi þá líka.

Ég fékk svo góða einkunn í gær varðandi aldur minn að ég get ekki séð að ellihrumleiki minn fyrirbyggi að ég geti unnið með fólk eitthvað áfram. Ég fékk líka svo góðar móttökur í Eskilstuna í dag að ég finn mig færan í flestan sjó varðandi vinnuna mína. En það er einmitt meðan við erum það hress sem við erum sem við eigum að skoða landið og leika okkur. Við vorum á leið til Stokkhólms um miðjan mánuðinn og stoppuðum á stað sem við köllum oft Hreðavatnsskála og fengum okkur að borða. Þar var þá hópur aldraðra á ferð, tvær stórar rútur, og þetta fólk var að borða allt í kringum okkur. Alveg var frábært hvað þetta fólk var glatt og vel útlítandi. Konurnar voru greinilega nýbúnar að fara á hárgreiðslustofu og kallarnir voru fínrakaðir og mjúkir um vangann að sjá. Það má mikið vera ef það var ekki töluvert kelerí á náttstað þeirra um kvöldið og kannski smávegis kitl í nárann líka.

En nú er kominn svefngalsi í mig svo að það er best að ég fari að bursta og ..... áður en ég geng á vit Óla vinar míns Lokbrá. Ég sagði áðan að ég hefði dáðst að náttúru þessa lands og eftir að ég kom heim úr ferð minni sá ég mynd á fésbókinni, mynd sem einmitt er tekinn svo nálægt staðnum þar sem ég var í dag. Ég hitti þar líka ljósmyndara þessarar myndar og þegar ég svo sá myndina eftir heimkomuna bað ég leyfis að fá að nota hana á bloggið mitt sem mér var svo velkomið að gera. Myndin er tekin heldur seinna að hausti 2006 og sýnir sænskt haust í sinni allra fegurstu mynd.

Kvöldhugleiðingar í Stokkhólmi

Á tólfta tímanum á laugardagsvköldi heima á nýja heimili Rósu, Péturs og Hannsar Guðjóns í Stokkhómi. Allir eru lagstir til hvílu og ég heyri svefnhljóð frá Valdísi þannig að nú sit ég einn að kvöldkyrrðinni. Í morgun fór ég í sturtu og reyndi að sturta af mér svo miklu sem ég gat af eymdinni sem ég bloggaði um í morgun. Þegar ég var þar að ganga frá mér eftir sturtuna heyrði ég gítarleik og söng framan úr íbúðinni. Pétur pabbi spilaði á gítar fyrir Hannes Guðjón og hann, mamma og amma sungu öll Litlu andarungarnir. Mér fannst þetta svo undur fallegt og fallega gert og síðar í dag spurði ég hvernig Hannes hefði tekið þessu. Jú, hann hafði bara staðið kyrr og hlustað.

Þetta var svo ólíkt því sem ég kynntist í mínu uppeldi og ég hugsaði sem svo að ef slíkt hefði verið viðhaft á Kálfafelli á mínum bernskuárum þyrði ég kannski að taka undir þegar fólk syngur. Ég er ekki að kvarta undan mínum uppvexti þó að ég segi þetta og ég tel bara að sú uppfóstran sem ég fékk hafi skilað mér vel áfram á lifsleiðinni. Allra flestir foreldrar gera sitt besta og gera það vegna þess að þeir telja það rétt. Hins vegar hef ég kynnst mörgum á síðustu sautján árum sem elta gamla hluti frá uppvexti eða öðru frá æskuárunum og eiga alltaf erfitt uppdráttar svo lengu sem þeir ná ekki sátt. Svo eru aðrir sem hafa lent í ennþá verri hlutum en tekst að sættast vegna liðinna atburða og fyrirgefa og lifsleið þeirra verður greið.

En nú ætla ég að sleppa þessum hugleiðingum en minningin fá í morgun er sem ég sagði áður falleg. Ég hef ekki hreyft mig út úr húsi í dag en þó fengið að upplifa meðal annars þetta fallega frá í morgun. Annars finnst mér alltaf Stokkhólmur vera mikið falleg og skemmtileg borg, hvort heldur er að sumri eða vetri. En ég held að ég sé samt sammála Valdísi um að ég vildi ekki eiga heima hérna. Þó runnu á mig tvær grímur um daginn þegar Rósa benti á fallegt hús með útsýni yfir eitt af Stokkhólms fallegu sundum og hún spurði hvort við vildum ekki sækja um elliheimilispláss þar. Þetta heillaði mig eitt augnablik en svo komu aðrir hlutir að hugsa um.

Það var vetur fyrir svo sem sextíu árum að við stóðum nokkur úti á hlaði á Kálfafelli. Það var hörkufrost, stjörnubjart, tunglssjós og mjög hljóðbært. Við hlustuðum eftir hljóðum frá hestvagnahjólum fjöruferðarmanna sem þá áttu að vera á leið heim. Þessar vetrarferðir voru farnar á ís og til að sækja rekavið sem var mikil búbót í þá daga. Ég get ekki munað hvort menn voru eina eða tvær nætur burtu í þessum ferðum. Páll bróðir var með í þessaari ferð. Við töldum okkur heyra hljóðin og þá hlutu þeir að vera að nálgast byggð eftir óralanga ferð frá strönd Atlantshafsins á ísum. Það var ævintýraleg hugsun fyrir mig, rosalega ævintýraleg. Þegar Páll kom heim var ég sofnaður.

Þetta var á þeim árum þegar ég taldi að ég mundi aldrei koma í Öræfin vegna þess að þau voru hinu megin við Skeiðarársand, þennan voðalega sand með Skeiðará og Núpsvötnum og öllum hinum vötnunum. Einmitt þetta kvöld sem við stóum þarna má reikna með að útsýnið til Öræfajökuls hafi verið frábærilega fallegt. Í mínum augum var ferði til útlanda fyrir einhverja allt aðra en mig. Nú er ég hjá barnabarninu mínu hér í Stokkhólmi og að fylgjast með athöfnum og vexti þessa barns sem fær mig til að hugsa um margt frá minni barnæsku.

Við sungum ekki á Kálfafelli en ég hafði mikið gaman af að skoppa um hraun og holt og hæðir og vissir staðir eru mér sem nokkurs konar helgidómur í minningunni eftir mitt einfararölt þar fyrir meira en hálfri öld. Ég var nú mikll einfari held ég og ég er það enn í dag, en ég vil þó segja í hófi. Mér þykir vænt um að hitta sjálfan mig í einrúmi og eiga við mig kunningsskap og sjálfsskoðun. Ef ég ekki gerði það hefði mér til dæmis ekki tekist að koma saman þessum línum. En nú er líka kominn tími fyrir mig að ganga á vit Óla Lokbrá og þá munu líka fara að berast frá mér svefnhljóð innan skamms. Ég prófles þetta í fyrramálið.

Þar fékk ég að taka niður hattinn

Ég fór inn á netið áðan og las meðal annars grein eftir Illuga Jölulsson. Þar sem það er of flókið fyrir mig að útskýra um hvað geinin fjallað sleppi ég því. Það virðist vera svo margt og mikið flókið sem á sér stað þessi misserin í fósturlandinu. En talandi um þessa grein þá minnti hún mig á kaffihúsheimsókn í Stokkhólmi á miðvikudaginn var þegar ég fór með Rósu og fjölskyldu hingað til að taka við lyklunum að nýrri íbúð. Ég fékk þá það heiðursverkefni að gæta dóttursonarins meðan á þessum lyklaskiptum stóð.

Og þar með er ég kominn út í allt aðra sálma. Þessi drengur er svo vakandi yfir öllu sem skeður þar sem hann er á ferð að hann verður auðvitað að snúa fram í vagninum sínum til að vera virkilega þátttakandi í lífinu í kringum sig. Meira að segja menn sem koma álengdar eftir gangstéttinni, algerlega frosnir í andliti yfir ábyrgð sinni í lífsbaráttunni, þeir bráðna upp og borsa og heilsa honum nafna mínum. Auðvitað gera konur með álíka mikla ábyrgð og þessir frosnu menn hið sama, heilsa og geisla sínu blíðasta brosi. En þær gera nokkuð sem mennirnir gera mikið síður; þær nikka til mín líka.

En nú að kaffihúsheimsókninni aftur. Þegar við komum þarna inn sat á kluggasyllu við útidyrnar ung kona sem minnti á eitthvað en ég sleppti því jafn fljótt og ég tók eftir því. Nokkru síðar sá ég Rósu og Pétur á tali við hana og svona smám saman sannaðist þetta með að mín fyrsta tilfinning var rétt. Unga konan er barnabarn Jökuls Jakobssonar og faðir hennar rekur kaffihúsið. Hún ber svip feðra sinna og getur meira að segja ekki leynt því erlendis.

Nú kem ég að fyrirsögninni. Það er svo hræðilegt að ég varð að koma mér í gang með því að skrifa um eitthvað annað fyrst. Ég sem hef oft í bloggum mínum talað um mína hestaheilsu og að ég geti ekki yfir neinu kvartað og að ég finni mig ekki ári eldri en 35 eða 48 eða bara nefndu það. Nú var erindi okkar Valdísar, fyrst til Uppsala og svo hingað heim á hið nýja heimili Rósu, Péturs og Hannesar Guðjóns, að vera hjálpleg við flutninginn. En þegar búið var að koma allri búslóðinni hér inn af fluttningamönnunum og við vel byrjuð að taka upp úr kössum og taka til hér inni fóru þau hin út að kaupa mat sem við ætluðum að borða hér heima. Ég bað um lasanja.

Það er skemmst frá því að segja að þegar ég var rétt byrjaður að borða fannst mér ég finna fyrir einhverju einkennilegu innra með mér. Af græðgi minni hélt ég samt áfram og ég var líka vel svangur. Það er bara of seint fyrir mig að segja núna að ég hefði átt að hætta strax við þessa máltíð. Ég varð fárveikur. Ég hjálpaði ögn til þetta kvöld en eftir það vildi ég helst ekki vera á vegi nokkurs manns sem þó var erfitt að komast hjá. Ég fékk að taka niður hattinn og beygja mig fyrir almættinu. Ég get orðið lasinn líka og aðstoð mín takmarkaðist mjög. Á tímabili fyrir mörgum árum hafði ég ofnæmi fyrir nokkrum matartegundum en ég hélt að það heyrði sögunni til. Ég get alveg lofað að ég vil ekki sjá lasanja nálægt mér núna enda maginn ennþá aumur og ég kraftlaus.

Þau hin fóru í verslunina Míomublur til að skoða svefnsófa. Rósa og Pétur þurfa á einum svoleiðis að halda og við einnig þegar nýja viðbyggingin verður tilbúin á Sólvöllum. Valdís er líka fulltrúi minn í þessari verslunarferð. Míomublur eru líka í Marieberg í Örebro þar sem við munum koma til með að kaupa okkar sófa. Ég lá fyrir þegar þau fóru en fann á mér að ég þyrfti líka að snúa mér að einhverju öðru með. Núna er ausandi rigning en þau hafa mörg andyrrin að taka sig inn um og bíða af sér regnið. Ég sný mér að kojunni aftur.

Ps
Valdís hringdi og þagði þau vera inni á kaffihúsi og nú yrði það kaffi þar til þurrt yrði. Kaffi fyrir mig -nei ekki enn!

Í Uppsala

Ég fór með Rósu, Pétri og Hannesi Guðjóni til Stokkhólms í dag. Þau voru að taka við íbúðinni sem þau keyptu í júníbyrjun, líta betur á hana og skipuleggja. Valdís var eftir í Uppsala og hélt áfram að undirbúa komu flutningamanna sem koma hér klukkan átta í fyrramálið til að taka búslóðina.

Meðan gengið var frá lokaatriðum íbúðakaupanna hjá fasteignasalanum vorum við nafni minn á rölti um götur Stokkhólms. En áður en við lögðum af stað til Stokkhólms höfðum við verið að pakka niður og ganga frá ýmsu og þegar við komum frá Stokkhólmi segi ég alveg satt að ég var mikið þreyttari en Hannes Guðjón. Það sem þessi börn geta aðhafst án þess að verða þreytt, það er með ólíkindum. Nú má kannski ætla að ég hafi unnið meira en hann en nú skal ég sýna ykkur myndir sem sýna aldeilis hið gagnstæða.


Hér er hann með grænu töskuna á fullri ferð og og það var ekki bara einu sinni sem hann fór með hana yfir gólfið. Nei, hann þaut með hana fram og til baka hvað eftir annað. Þessi drengur er eins árs og átta daga gamall.


Þegar hann hafði lokið vinnu sinni með grænu töskuna tók hann til við þá rauðu. Lengi vel bjástraði hann með þessa tösku á fullri ferð og gaf sig hvergi.


Nú var það svarta taskan og hér gæti hann vel verið að þjóta inn um dyr á Arlanda á leið sinni til Íslands. Það eru mörg skrefin fyrir þennan stutta mann að taka sig þvert yfir stóra íbúð með þessar töskur í eftirdragi. Fyrir hann var þessi töskuvinna alveg bráðnauðsynleg og afar skemmtileg meðan við hin héldum áfram við að pakka niður og ganga frá til flutnings.


Svo auðvitað verður maður að halda sér hreinum til að geta sofið vel og tekið til við ólíkar athafnir í fyrramálið. Pabbi hjálpaði honum að baða sig og það virðist fara vel á með feðgunum.

Ferðalag

Núna milli hálf eitt og eitt leggjum við af stað til Uppsala. Það verður gott að líta aðeins upp og sýna sig og sjá aðra, athuga hvort Hannes Guðjón þekkir okkur sem ég geri ráð fyrir að hann geri. Við heyrumst svo eða sjáumst eða skjáumst á einn eða annan hátt á næstunnni. Gangi ykkur allt í haginn.

Dagur 4 viðbygging

Ég var ekki einu sinni byrjaður að borða ristuðu brauðsneiðina með þykka álegginu þegar Anders renndi í hlað í gærmorgun upp úr klukkan sjö og það var ekki beðið boðana. Nú byrjum við á að smíða sperrurnar sagði yfirsmiðurinn og svo var gengið til verka.

Í árslok 2002 var bóndi innskrifaður í Vornesi, hinn grandvarasti maður að verða sjötugur. Og ég get sagt að hann var grandvar ekki síst vegna þess að hann vildi gera eitthvað í sínum málum og halda áfram að vera grandvar og góður maður. Ég hafði sagt frá því í fyrirlestri í Vornesi að við værum að skoða kaup á sumarhúsi. Ég gef oft dæmi um það sem fólk getur gert ef það er ekki er að sulla í brennivíni eða einhverjum óþverra í tíma og ótíma.

Þegar þessi maður kom svo í sína síðustu endurkomu nokkrum dögum áður en við endanlega gengum frá kaupunum langaði hann að tala við mig. Hann vildi bara ýta undir að við gerðum þetta, keyptum sumarhúsið, og sagði að með þessa stærð af skógi gætum við kynt upp einungis með viði úr skóginum. Svo sagði bóndinn annað. Þegar maður verður 65 ára eða svo fer jafnvægið að breytast. Ef þú ætlar að gera eitthvað fyrir þetta hús skaltu vera búinn með alla þakvinnu fyrir þann tíma. Eftir 65 ára aldur er best að vera ekki svo mikið að hlaupa upp á þaki. (Ég er vel meðvitaður um að ég hef sagt þetta í bloggi áður)


Ekki er hægt að segja að Sólvellir séu með háu þaki en það er þó vel í meðallagi bratt. Nú var Anders yfirsmiður eini aðkomusmiðurinn þennan morgun þannig að ég var í alvöru aðstoðarsmiður fram að hádegi og meira að segja negldi nokkra nagla, sagaði og handlangaði sperrunum af vinnupallinum mín megin yfir til Anders. Pallurinn var óstífaður og riðaði því all mikið þegar ég hreyfði mig á honum og það var þá sem ég minntist orða grandvara bóndans. En nú var bara málið að mér fannst þetta allt í lagi bara þegar ég var búinn að ganga nokkur skref þarna uppi og venjast pallinum.


Samt skal ég viðurkenna að Anders var liprari þarna uppi og hann leyfði sér að hlaupa. Ég man líka eftir því að þegar við vorum að vinna á þökum í gamla daga að þá var oft betra að hlaupa uppi á þökum í vissum tilfellum. Alla vega var það allra versta að vera stirður í hreyfingum upp á þki.


Í hádeginu kom Lars og þeir félagar fóru út að borðinu í skóginum og borðuðu sinn hádegismat þar. Þar sem Lars var mættur var ég ekki aðstoðarsmiður lengur. Ég var gerður að handlangara og sendli. Það eru harðar reglur í mannanna ríki og það er ekkert annað val fyrir ellilifeyrisskráðan áfengisráðgjafa en að láta leiðast af auðmýktinni. Þar að auki er ég kominn af skaftfellskum landpóstum og er því ekki í neinum vandræðum með að skipta um hlutverk. Þessir menn skiptust á að vera landpóstar, ferðafélagar og bændur.

Þegar Lars var hér um daginn sagði ég frá orðum bóndans um jafnvægið og hann sem er 61 árs sagi að þetta væri nú nokkuð til að virða. Maður yrði að verða gætnari með aldrinum. Lars er duglegur eins og Anders, hann talar gætilega, er þroskaður maður af lífsreynslu sinni og metur mikils það góða í lífinu, bæði það stóra og smáa. Þessir menn, Anders og Lars, eru ólíkir en afar duglegir báðir eins og ég hef áður talað um og það er eitthvað gott við þá báða sem gerir að verkum að það er heiður að vinna með þeim og hafa þá í vinnu.


Það er spennandi að sjá húsið sitt fæðast. Valdís var á ferðinni með myndavélina og hún bakaði vöfflur svo að öll sveitin angaði. Svo bauð hún upp á vöfflur með rjóma. Áður en þeir félagar fóru hjálpuðumst við að við koma 6,5 metra löngum límtrésbita upp á loftið yfir gamla hlutanum. Þar fær hann svo að bíða þar til ákveðið verður að endurbyggja loftið þar.


Já, þetta með að hafa jafnvægi upp á þaki, vera hress og meta bæði það stóra og smáa í lífinu eins og ég talaði um að Lars gerði á áberandi hátt, það er mikils virði. Þeir gera þetta reyndar báðir smiðirnir hvor á sinn hátt. Eftir að Anders hlóð 150 múrsteinum upp í grunninum í 32 stiga hita í sumar og við höfðum báðir verið að, sagði hann áður en hann fór: Vertu svo gætinn og ekki vinna þig í hel. Ég verð að viðurkenna að mér fannst þetta hlýlega sagt. Það var núna eins og venjulega þegar smiðurinn eða smiðirnir eru farnir að þá er þriggja tíma vinna eftir hér heima við að ganga frá, sækja byggingarefni, ljúka einhverju og taka til.

Í tvö síðustu skipti sem ég hef verið í vinnunni í Vornesi hefur verið mikið kvef þar. Hóstaregnið gekk þá á andliti mínu þannig að stundum var bara að þurrka af með erminni. Ekki fékk ég kvef. Ég var að í þrettán tíma í gær og vaknaði svo klukkan sjö í morgun vel úthvíldur. Ég hef mikið að vera þakklátur fyrir. Ég er líka mikið þakklátur fyrir nýja mjaðmaliðinn sem ég fékk frágenginn og ísettan frá sænska ríkinu fyrir 400 krónur. Sá liður breytti miklu í lífi mínu.

Núna þegar ég er að skrifa þessar lokalínur er kona bakvið mig að búa um rúmið. Við hittumst í Sjálfstæðishúsinu í Reykjavík 17. ágúst fyrir 50 árum.

Ljúf náttúra

Mikið ef ég var ekki svolítið eftir mig í dag eftir skriðdýrsvinnuna undir húsinu í gær við gröft og með malar- og steypufötur fram og til baka. Alla vega var ég ekki neitt sérstaklega uppkjöftugur fram eftir degi og eftir það fannst mér ekki taka þvi að vera með rembing. Ég var ekki farinn að gera nokkurn skapaðan hlut klukkan tíu þegar sjónvarpsmessan byrjaði og eftir messuna fór ég afar rólega af stað. Að lokum var ég þó búinn að gera það sem mér lá á hjarta að gera áður en Anders smiður kemur í fyrramálið.

Valdís lagði plastpoka útfyrir dyrnar og þegar hún gerir það veit ég að ég á að fara með hann í moltukassann úti í skógi. Þegar ég fór í þá ferð var búið að gera hressilega hellidembu og gulnuðum birkilaufum hafði fjölgað á lóðinni og í skógarbotninum. Undanfarið hef ég bara farið hraðferð í moltuna og svo hraðferð til baka aftur. Í dag fór þessu öðru vísi. Ég fór rólega út að kassanum og svo hélt ég rólega áfram lengra út í skóginn að mörkum okkar skógar. Þegar ég var kominn þangað stoppaði ég, dró djúpt andann og fann angan af gróðri og jörð fylla líkamann. Það var kyrrt og það var einhvern veginn allt fullt af þægilegu umhverfi og andrúmslofti. Ég undraðist hvers vegna í ósköpunum mér hefur fundist undanfarið sem ég hefði ekki tíma til að gera þetta.

Ég horfði á grenitré sem höfðu vaxið einhver ósköp sumar og ég var þess fullviss að þau hefðu vaxið meira en nokkru sinni fyrr í Sólvallasögu okkar. Ég horfði á grenitrén tvö, þau stærstu þegar við felldum tré í fyrstu viðbygginguna 2006. Mikið var ég glaður að við skildum þau eftir þó að þau hefðu auðvitað gefið af sér marga góða planka. Ég gekk í kringum þau og horfði á þau frá auðu svæði en vegna hæðar sinnar var erfitt að sjá hvað þau höfðu vaxið mikið í sumar. Þessi tré hljóta að vera að nálgast 30 metra. Þarna hafa þau staðið hlið við hlið í ein 80 ár eins og þau væru trygg hjón og ekki haggast hvort frá öðru. Þau eru aldursforsetar í þessum skógi okkar ásamt furunni sem fór að halla í storminum 1969 og hallar enn.

Næsta sumar og framvegis þurfum við að eigna þessum skógi góðan tíma í staðinn fyrir að standa á haus í byggingarvinnu. Að vísu eignuðum við honum nokkrar vikur í vor en þá höfðum við ekki sinnt honum að marki í tvö ár. Gerum við það bjóðum við upp á það að geta átt mörg svona góð augnablik í þessum skógi lík því sem ég upplifði í þessari gönguferð í dag.


Þegar verið er við þetta borð er varla hægt að segja að komið sé út í skóginn. En samt gefur það eitthvað svo góða stemmingu að vera þarna og borða pönnukökur. Ég held meira að segja að hann Hannes Guðjón hafi fundið fyrir þessari stemmingu líka þegar hann var þarna með okkur að borða pönnukökurnar hennar Valdísar. Það er í nánd við þennan stað sem við höfum verið við göngustígagerðina undanfarið.


Þessa mynd tók ég 12. nóvember í fyrra þegar ég var á gönguferðum að æfa mig upp eftir mjaðmaaðgerðina. Ég fór þá oft framhjá þessum stað og fannst þessi sýn svo makalaust falleg. Svo tók ég myndavélina með og tók sýnina með mér heim. Það er eins og það sé eitthvað heillandi og leyndardómsfullt þarna inn á milli trjánna. Þetta er í skóginum hans Arnolds og þetta er dæmi um vel hirtan barrskóg. Nú þarf ekki að hirða hann lengur, hann sér um sig sjálfur með hóflegri birtu niður við jörð sem dregur úr óhóflegum botngróðri. Að þessu markmiði vinnum við í Sólvallaskóginum og svo lengi sem við erum ung í anda munum við hafa kraft til þess. Konan sem var hér á Sólvöllum á undan okkur var ein hér síðustu fimmtán árin og hún var hér síðast árið sem hún var 84 ára. Samkvæmt því eigum við mörg ár eftir hér.

Að skjalfesta einn daginn enn

Daginn í dag verð ég nú bara að skjalfesta. Á mánudaginn var kom Anders smiður í síðdegisheimsókn og við gengum kringum húsið. Svo stóðum við utan við þann hlutann sem er kominn undir þak þegar Anders varð að orði: Heyrðu, heldurðu ekki að það væri ráð að grafa þarna innan við miðstöpulinn undir gamla gaflinum og steypa þar sterka undirstöðu. Þessi gafl kemur til með að halda uppi límtrésbitum og þaki í báðar áttir. Þetta verður vel byggt hús ef við gerum svona lagði hann áherslu á.

Mér fannst þetta alveg frábær hugmynd og mér létti. Ég var nefnilega búinn að velta því heilmikið fyrir mér hvort þetta væri virkilega í lagi. Límtrésbiti er kominn upp sem heldur uppi nýja þakinu og við ætlum að stinga öðrum límtrésbita inn á gamla loftið á mánudaginn og nota hann síðar til að hækka til lofts í því sem við köllum stofu í gamla hlutanum. Þar með verður gamli gaflinn kominn í það hlutverk að bera mikið uppi í báðar áttir. Ég er viss um að Anders hefur líka verið búinn að velta því fyrir sér hvað bæri að gera varðandi þetta.

Þegar ég var búinn að láta í ljósi gleði mína yfir þessari hugmynd varð mér líka ljóst að það þyrfti einhver að framkvæma þetta, enda spurði Anders hvort ég treysti mér til að gera það sjálfur. Ekkert mál eða eitthvað svoleiðis varð mér að orði. Samt var það alls ekki svo einfalt því að það kom í mig geigur yfir því að þurfa að skríða þarna undir eins og hundur á flótta. Samt hvarflaði ekki að mér að nefna það einu orði að hann gerði þetta.

Á hverjum morgni síðan þetta barst í tal á mánudaginn var hef ég hugsað ögn þungum huga til holunnar sem ég ætti eftir að grafa undir húsinu. Það var ekkert sem lá á en eitthvað sem þyrfti að gera í september mánuði. Í morgun þegar ég var að læðast fram hugsaði ég sem svo að það væri best að byrja á ansans holunni til að eiga hana ekki alla eftir. Það væri verkefni sem ylli engum hávaða svona snemma laugardagsmorguns og því heppilegt að byrja daginn þar.

Og svo varð -og holan er grafin og steypan komin í hana. Eftir á að hyggja var þetta hið skemmtilegasta verk en það segir kannski nokkuð til um það hve mikill einfeldningur ég er.


Það er vont að taka mynd á svona stað en ennþá verra að grafa holu við svona aðstæður. Ég skreið undir húsið með stórt kúbein sem fylgdi með í Sólvallakaupunum og notaði það fyrir haka. Stunguspaða hafði ég líka með og eitt áhald enn sem ég kem að síðar. Svo hafði ég svarta sterka plastfötu með. Þrjár hjólbörur eða tólf fötur af möl komu úr þessari margumræddu holu og margir fastir steinar. Steinarnir sem eru þarna eru líklega búnir að vera á þessum stað í tíu þúsund ár og þeir eru stærri en sýnist og vel fastir og góð undirstaða. Ég er einnig búinn að fínhreinsa þá að hætti fornleifafræðinga.


Ég bað Valdísi að taka mynd af mér við vinnuna þarna og þetta er árangurinn. Ég held að það sjáist í skó lengst til vinstri á myndinni. Ég veit ekki hvort þessi vinnubrögð eru nokkuð í líkingu við vinnuna við tónlistarhúsið en það er alla vega meira sakrifað um þessi vinnubrögð. Neðst á myndinni má sjá eitt verkfæranna sem ég notaði við gröftinn, en það er einhvers konar ausa sem notuð var við afgreiðslu á mjöli til dæmis í kaupfélaginu í Hrísey um 1960 og eitthvað síðar.


Þarna eru fyrstu tvær steypuföturnar komnar niður og þá var farið að vera eitthvað vit í þessu. Sívalningurinn til vinstri er steypufyllt átta tommu steinrör, eitt þeirra sem borið hefur uppi húsið í 43 ár. Við köllum þetta plinta og nú er þessi plinti að fá góða styrkingu.


Það er ekki allt vistlegt við byggingarvinnuna en komið bara í kaffisopa á Þorláksmessu. Þá verður vistlegt að koma að Sólvallahúsinu með ljós í gluggum, útiljós á tveimur stöfnum og angandi jólakökulykt frá eldhúsi Valdísar. Það verður ógleymanlegt Þorláksmessukvöld.


En það er ekki bara fjórir fætur, drulla, möl og grjót á Sólvöllum þessa dagana. Það eru líka bjartar hliðar, mest bjartar hliðar. Þarna er Valdís að slá bletti á milli nýsáninga. Við sáðum í stóra blettinn aftan við hana um mánaðamótin og þar spírar fræið vel nú á haustdögunum. Ég er alveg rosalega ánægður yfir að holan er orðin full af steypu og tilbúið að slá upp mótum á hana til að geta svo steypt lítinn vegg sem mun hafa það að hlutverki að halda uppi hluta af einbýlishúsi. Ég er nú ekki heldur meira en 68 ára. Svo kemur rúsínan í pylsuendanum: Þegar ég var búinn að klæða mig úr drullugum gallanum og kom inn var Valdís búin að baka jólaköku úr spelthveiti. Góður var því eftirrétturinn á eftir gúllasinu, nammi namm.

Dagur 3 viðbygging

Það best ég veit er útiverkum sem tefja byggingarvinnu lokið. Það var á mörkum að ég tímdi að taka tíma í það frá byggingarvinnunni en daginn sem hann Arnold kom til að segja að hann væri hættur akuryrkjubúskap hristi ég af mér óákveðnina. Í dag var dagur þrjú í byggingarvinnunni þó að ég hafi unnið að því fleiri daga sem ég lauk við í dag.


Það er verðandi forstofa sem ég helgaði þennan dag, föstudaginn 10 september. Það eru tveir vinnupallar í vegi fyrir myndatöku frá ljósastaurnum þannig að þessi mynd er ekki svo sniðug. En ég hef sagt það áður að eftir hvern áfanga mun ég taka mynd þaðan.


Veggirnir eru komnir upp og þverbönd yfir og undir glugga og hurð. Viðurinn sem kominn er undir þak þornar nú og setur sig. Á mánudag kemur Anders við annan mann og við ætlum þá að vera þrír við að  setja þakið á forstofuna. Þá fer viðurinn í henni að setja sig og þorna líka.


Hér er aðeins meiri nærmynd. Hvaða spírur þetta eru sem standa þarna út í loftið er ennþá byggingarlistarleyndarmál okkar Sólvallaaðstandenda. Það er mögulegt að það verði opinberað á myndum frá degi fjögur á mánudag. En alla vega, þarna fyrir miðju er op fyrir nýmóðins útihurð fyrir okkur Sólvallabúa á sunnudögum og til móttöku á gestum og gangandi sem kunna að skjóta upp kollinum. Þetta átti nú að vera brandari því að þessar dyr komum við sjálfsagt til með að nota flesta daga.


Í geymslunni þarna hinu megin við íslenska fánann er verðandi hurð geymd, einnig flestir gluggar í nýbyggingarnar. Vinnan á þessari forstofu frá gólfi og upp úr er mín og það hefur verið skemmtileg vinna og það verður rosalega gaman að setja útihurðina í. Á mánudagskvöldið kom hann Anders smiður í heimsókn og þá var ég búinn að reisa nokkrar stoðir í forstofuveggina. Hann kom breitt brosandi heim að húsinu þar sem ég var að þá að vinna í forstofunni og varð að orði: Ef ég kem ekki til að gera hlutina gerir þú þá bara sjálfur.

Það liggur nokkuð í því og fyrst það tókst ekki að gera þessar byggingar klárar fyrri hluta sumars hef ég ekkert á móti því að spara útgjöld með eigin vinnu að vissu marki þar sem það er ekkert sérstakt sem rekur á eftir. Þó að ég vinni mikið hægar en þessir menn er ég samt á góðum launum auk þess að þykja þetta gaman. Þegar þakið verður komið á forstofuna á mánudagskvöldið kemur förum við Valdís til Uppsala.

Svo minni ég á nýja heimasímanúmerið okkar sem er 0046 585-77 41 77

Völundarhús

Mikið var ég feginn þegar síðasti viðurinn komst undir þak í gær. Mikið var ég líka feginn þegar síðasta handtakið var gert við göngustígana. En mest var ég feginn þegar ég var búinn að grafa upp og laga frárennslislögnina. Þetta með frárennslislögnina var nefnilega þannig að þegar hann Jonas fór á skurðgröfunni inn á frágengið svæði og grafan sökk sem mest í rennblauta jörðina, þá seig lögnin undan gröfunni. Ég hafði ekki hugmynd um það fyrr en eftir á og þá var ekki um annað að gera en að taka stunguspaðann og grafa niður á lögnina á sex metra svæði, lyfta henni og setja sand undir. Það var ánægjulegt að það var grunnt niður ná lögnina þegar ég gróf en ef hún hefði legið all nokkuð dýpra hefði hún heldur ekki sigið undan gröfunni. Það eru landfræðilegar ástæður fyrir því að lögnin er ekki á meira dýpi á þessum stað. Það eru ástæður fyrir mörgu hér á Sólvöllum, en einhvern tíma fyrr í lífi mínu hefði ég haft ástæðu til að fara í vont skap yfir þessum grefti. Þetta var nefnilega í annað skiptið sem ég þurfti að gera þetta vegna gröfuvinnu hér. En batnandi manni er best að lifa og ég gleðst yfir því að hafa þroskast frá svona vitleysu og fengið betri stjórn á lundarfari mínu.


Hugmyndin að láta sláttutæka gögustíga liðast um skóginn fæddist hægt og rólega. Fyrst var búið til svæði fyrir borð út í skóginum og þá þurfti að hafa góða gönguleið þangað. Svo varð sú gönguleið svo fín að við bættum aðeins við hana. Svo komu Hannes og Rósa og þá varð ljóst að þetta var stór sniðugt. Þá spurði Rósa hvort það væri ekki hægt að gera stíg "þangað" líka. Auðvitað var það hægt og þá bættum við meiru við en meiningin hafði verið að gera á þessu ári. En hvers vegna þessa stíga? Jú, í gær kom hann Lars nágranni með litlu Siw sem er 16 mánaða. Siw fór út á stíg sem ekki var tilbúinn en henni fannst þetta svo óskaplega gaman og hljóp og hljóp. Svo datt hún og fór að gráta. Lars pabbi fór og sótti hana en það var komið í ljós að stígarnir eru skemmtilegir fyrir börn.


Ég valdi fyrirsögnina Völundarhús og þessi mynd skýrir það kannski. Ég veit að þetta verður skemmtilegra fyrir fleiri en börn. Þetta verður líka fínt fyrir okkur sem erum eldri og aldeilis frábært fyrir ellilífeyrisþega sem oft fer út í skóg til að huga að vexti kunningja sinna þar. Svo verða líka ber meðfram stígunum.


Þegar fjögurra ára Alma systir Siw frétti af stígunum kom hún hlaupandi. Hún hleypur oft sú stúlka og nú fór hún að hlaupa stígana, í fyrsta lagi þá sem enn voru mold og ekki tilbúnir. Svo fór hún inn til Valdísar að fá sér að drekka. Það er nú eitt það skemmtilegasta sem hún gerir að fá að drekka með Valdísi og segja henni frá ævintýrum sínum.


Eftir góða hressingu kom svo Alma út með Valdísi og þær lögðu lokahönd á stígagerðina, þær völtuðu. Eins og ég hef sagt áður eru það tvö verk sem eru skemmtilegust við jarðvegsbætur, en það er að sá grasfræinu og valta. Eiginlega er nú mest gaman að valta en ég læt Valdísi þó völtunina eftir og sái sjálfur.


Svo var alveg rosalega mikið komið að því að koma viðnum undir þak og það var meira að segja eftir að kljúfa svolítið. Það er óbúmannslegt að koma ekki viðnum sínum undir þak tímanlega en nú er því lokið að þessu sinni, mun seinna en í meðalári.

Það verða engar myndir af lagfæringu á frárennslislögn. Það minnir bara á kúk.

Að lokum; við erum komin með heimasíma og númerið er 0585-77 41 77, eða eins og hringt er frá Íslandi 0046 585-77 41 77

Frá aðalmiðstöð

Á þriðjudaginn var, í fyrradag, var ég einn að smíða vestan við húsið, var hálf boginn að negla, þegar ég sá allt í einu mannsfætur og hund rétt við nefið á mér. Það lá við að ég tæki svolítið viðbragð en hélt þó sönsum. Þarna var á ferðinni maður úr nágrenninu, maður aðeins yngri en við, sem oft hefur talað við okkur yfir grjótgarðinn milli lóðar og vegar og að vísu líka komið hingað heim. Það varð spjall um daginn og veginn eins og gengur en mér fannst eins og hann hefði huga á nánara spjalli en venjulega. Þegar ég spurði hvernig það gengi með blóðþrýstinginn sagði hann að enn væri verið að ná jafnvægi með lyfjagjöfina.

En svo var eitthvað fleira á ferðinni. Hann hafði farið til læknis vegna þess að honum fannst hann verða of þreyttur við litla áreynslu. Læknirinn komst að því að það kæmi til af hjartsláttartruflunum. Hann hafði því fengið rafstuð tvisvar sinnum vegna þessa og hann hélt að það hefði hjálpað eitthvað. En læknirinn vildi ekki láta þar við kyrrt liggja og fór að tala um gangráð. Þar var málið nú í biðstöðu. Eitthvað fleira angraði manninn en svo var komið að hundinum.

Hann hafði líka verið hjá lækni og kom í ljósað hann var með æxli við endaþarminn. Eftir þrettán ára samvistir var nú ljóst að þeim dögum færi fækkandi. En hundurinn er brattur, sjáðu, sagði granninn en í því hringdi síminn. Ég heyrði vel á samtalinu að það var að heiman. Þegar hann hafði lagt á sagði hann: Þetta var aðalmiðstöð. Svo lögðu þeir af stað heim, maður og hundur og hvorugur gekk heill til skógar. Sérstaklega maðurinn gekk hægum frekar þungum skrefum.

Aðeins meira um þetta með aðalmiðstöðina. Við hittumst eitt sinn inn í skógi og tókum tal saman. Þá var líka hringt frá aðalmiðstöð og hann sagði eftir samtalið: Þú sérð að ég er undir eftirliti. Í hvorugt skiptið var hann háðskur og þar að auki, eftir spjallið um heilsufarið, skil ég betur að aðalmiðstöð vilji vita hvernig honum vegni gönguferðirnar. Svo hélt ég áfram að smíða um stund en tók svo þá erfiðu ákvörðun um að fara í önnur verkefni daginn eftir.

Svo kom dagurinn eftir, miðvikudagur, og ég læddist út um sjö leytið og fór að flytja mold á hjólbörum út í skóg. Eftir sjö hjólbörur af blautri og þungri mold var ég orðinn þreyttur sem mér líkaði ekki. Var ég að verða lasinn eða hvað? Nei, en var ég kannski ímyndunarveikur eftir heimsókn nágrannans deginum áður. Ég ákvað að fara að flytja inn það sem eftir væri af eldivið úti. Það væri léttari vinna. Í því opnaði Valdís útidyrnar og spurði hvort ég væri orðinn bilaður. Ég benti á höfuðið á mér og spurði nokkuð háðskur hvort henni dytti í hug að þessi maður væri bilaður. En með það fór ég inn og borðaði mikinn morgunverð. Ég á ekki að vera háðskur móti Valdísi.

Það er skemmst frá því að segja að eftir klukkutíma morgunverð komst ég í gang af þvílíkum krafti að ég varð ekkert ánægður þegar Arnold bóndi stoppaði við heimkeyrsluna og gekk inn á lóðina til mín. Þegar við vorum farnir að spjalla saman fannst mér þó reglulega gaman að kallinn skyldi líta við. Þá var ég að tína eldivið í hjólbörurnar. Mér finnst svolítið skammarlegt að viðurinn liggi úti ennþá varð mér að orði. Já, það má kannski segja það, svaraði hann, en þú hefur líka í mörgu öðru að snúast. Þarna, gott að einhver sá að ég hef í mörgu að snúast.

Svo töluðum við um búskap. Ég er búinn að taka ákvörðun, sagði Arnold. Og hvað nú Arnold? Ég er búinn að taka stóra ákvörðun, ég er hættur búskap og ég er búinn að leigja Mikka öll mín akurlönd. Ja hérna. En er það ekki bara fínt Arnold og svo hefur þú skóginn. Jú, það er fínt. Þá get ég sleppt áhyggjunum og ef það rignir þegar ég lít út um gluggann á morgnana, þá nær það ekki lengra. Það er þá ekkert sem þvingar mig út í skóg. Svo hringdi síminn og ég heyrði vel að það var frá aðalmiðstöð. Ég er hérna upp á brekkunni að tala við Íslendinginn sagði hann í símann. Þegar hann hafði lagt á sagði hann að það hefði verið konan.

Arnold er maðurinn sem fór á fólksvagen bjöllu til Kumla til að biðja sér konu snjóaveturinn 1966. Þau eru ennþá hjón og búa í hvíta húsinu niður við malbikaða veginn. Ég sagði Valdísi frá þessum hringingum frá aðalmiðstöðvunum og hún spurði þá hvort ég væri ekki feginn að hún væri ekki alltaf að hringja á eftir mér. Jú, ég var það, en ýmsar aðstæður geta samt valdið því að þessara hringinga sé þörf. Síðan skrapp ég með hana til Örebrú og fór með gmlan panel í endurvinnsluna um leið.

Eftir heimkomuna fór ég enn í moldarflutning í göngustígana. Það er nú sérkapítuli sem bíður morguns en þessir göngustígar eiga ábyggilega eftir að verða til ánægju fyrir fleiri kynslóðir.

Meira um afmæli

Hannes Guðjón dóttursonur sem varð eins árs þann 7. september var á bloggsíðunni minni í fyrradag. Ég ætlaði þá að nota nýja mynd af honum með því bloggi en það var þá eins stundum skeður hjá mér að ég ræð ekki við tæknina. Það varð því engin ný mynd í það skiptið. En nú er ég búinn að fá þá hjálp við þetta og ég er hér með tvær myndir sem voru teknar af honum á afmlisdaginn.


Hér er hann að skoða peysu sem hann fékk frá ömmu og afa. Ég verð að viðurkenna að amma á heiðurinn af að hafa keypt peysuna en hér er eins og drengurinn sé í alvöru að leggja peysuna að kroppnum til að sjá hvort ekki sé bara allt í lagi með hana -eða að dást að fjölbreyttum myndunum. Þarna eru margs konar gerðir af húsum og peysan hlýtur bara að vera spenandi. Amma hefur nú valið alveg stórsniðuga peysu. Svo er hann í annarri peysu með mjög fallegu munstri og hún er frá Valgerði móðursystur. Það verður gott að hafa góðar peysur í vetur til að vera í á leiðinni í leikskólann. Í leikskólann? Og það er eins og drengurinn sé fæddur fyrir svo stuttu síðan.


Pabbi og Hannes að lesa og enn er hann í peysunni frá Valgerði móðursystur. Hann er að fletta bókinni eða hvað? Það lítur virkilega út fyrir það. Við amma förum að heimsækja Hannes og þau öll eftir helgina. Í næstu viku flytja þau aftur til Stokkhólms. Hannes er að verða Stokkhólmari.

Afmælisdagur

Hann Hannes Guðjón nafni minn og barnabarn á eins árs afmæli í dag. Ég var hérna úti að smíða í dag og þá datt mér allt í einu í hug blogg frá 8. september í fyrra þar sem ég skrifaði um fæðingaerfiðleika mína þann 7. september fyrir einu ári. Ég ákvað að birta þetta blogg aftur og hér kemur það.


Ég sem hélt að ég væri svo yfirvegaður og sterkur á taugum. Það var hreinlega ákveðið að hún Rósa dóttir mín skyldi fæða barn í gær og ég með þessa nefndu eiginleika mína ætlaði aldeilis að vera yfirvegaður og sýsla smá hér heima, til dæmis að gera við rimlagardínur sem hanga milli glerja hjá okkur eins og á flestum öðrum sænskum heimilum. Fyrst fórum við þó til sjúkraþjálfara og með bílinn í reglubundna þjónustu. Svo skyldi ég með rósemi taka upp tólið þegar pabbinn hringdi, ef Valdís yrði þá ekki á undan mér að svara. Svo kom síðdegið og mér hafði tekist að gera við eina gardínu og var byrjaður á þeirri næstu. Það er ekkert einfalt að gera við þessar gardínur og hvað þá seinni varðaði, þá þurfti að skipta um það mesta í henni, meðal annars músastigana sem halda rimlunum í skefljum. Jæja, svo hringdi síminn -en það var ekki pabbinn. Það var hin dóttir okkar, verðandi móðursystir, Valgerður. Það leyndi sér ekki að hún var líka með hugann við það sem í vændum var. Ég var ekki eins rólegur og ég ímyndaði mér að ég væri. Ég taldi tímana sem ég gerði ráð fyrir að hún væri búin að vera á fæðingardeildinni og ég hrökk við vegna þessa að mér fannst sem síminn ætlaði að fara að hringja eða farsíminn ætlaði að fara að pípa sms skilaboð. Loks var ég búinn að setja báða músastigana í gardínuna, lyfti henni upp til að sjá að allt passaði sem það ekki gerði. Öðru megin höfðu tveir rimlar lent í sama þrepi á tveimur stöðum og hinu megin hafði ég gert böndin of stutt þegar ég festi þeim í efri endann.

Ekki æsti afinn sig út af þessu, klippti burt músastigana og byrjaði upp á nýtt. Síminn hélt áfram að vera nagandi hljóður. Smám saman hafði mér tekist að setja enn nýtt sett af músastigum í gardínuna og ég lyfti henni upp til að fullvissa mig um að núna hafði það tekist. Þetta leit vel út og nú prufaði ég að snúa rimlunum -en, það virkaði ekki. Eftir margar tilraunir sem ekki virkuðu gekk ég út að glugga, opnaði og kíkti ofan í aðra gardínu til að sjá hvernig frágangurinn ætti að vera þarna uppi. Það hefði ég átt að gera fyrr, að athuga áður en ég byrjaði hvernig ætti að vinna verkið. Það var komið miðnætti og ég þurfti að kaupa enn eitt nýtt sett af músastigum og gera þriðju tilraun og bíða sem sagt til næsta dags.

Með farsímann á náttborðinu og herbergishurðina opna svo að við skyldum heyra í heimasímanum lagði ég mig. Valdís hafði þá lagt sig fyrir nokkurri stundu og líka með sinn farsíma á sínu náttborði. Einhvers staðar milli svefns og vöku heyrði ég að lokum farsímann dingla sms hjá Valdísi og augnabliki síðar pípti minn farsími. Snögg viðbrögð,  kveikja ljósið, opna farsímann. Það var greinilega pabbinn sem hafði sent sms frá farsíma mömmunnar. Það hafði fæðst hraustur, fallegur strákur, 18 merkur og 53 sentimetrar klukkan 22,19 og það var þann 7. september. Núna var komið vel framyfir miðnætti. Við lásum þessi fallegu skilaboð hvað eftir annað og gleðin tók völdin.

Merkilegt hvað ég hef orðið meyr með aldrinum. Hér með var andlegum fæðingarhríðum afans lokið. Ég er sannfærður um að amman upplifði eitthvað svipað. Nú er kominn nýr dagur með nýjum möguleikum og óskum um að allt gangi vel. Það eru tólf ár síðan síðasta barnabarn okkar fæddist hjá dótturinni í Vestmannaeyjum. Ég beið þá líka og mikið var ég feginn að heyra að allt hafði gengið vel, en ég held að ég sé fullorðnari maður í dag og það segi ég af alvöru. En svona upp á grín segi ég að ég er ekki eldri.

Þannig leit það út. Yfirvegun mín var ekki jafn mikil og ég taldi mig búa yfir.




Þessi mynd var tekin á Sólvöllum nokkrum vikum áður en barnabarnið fæddist þegar verðandi mamma og pabbi grilluðu lambakjöt. Skuggarnir segja að það sé síðdegi. Það var oft grillað á Sólvöllum í fyrrasumar og það voru góðir dagar.


Þessi mynd er tekin um það bil ári eftir þeirri fyrri. Það skeður mikið á einu ári. Hér er Hannes farin að hjálpa ömmu sinni við að slá Sólvallalóðina.

Um eikur og eitt og annað

Það var ögn erfitt fyrir mig að hafa mig af stað í Vornes í gær. Ég vil svo gjarnan bara vera heima og sýsla við það sem mér þykir skemmtilegt og það sem er líka sannarlega þarft að gera. Það er ekkert ónauðsynlegt að stækka húsið sitt og það er alls ekki ómerkileg sýsla að hirða um skóginn sinn og þannig gæti ég haldið áfram. Já, ég má heldur ekki gleyma því að það er ekki allur eldiviður kominn í hús. En þegar ég svo lagði af stað var enginn suðurgluggi að horfa inn um þegar ég bakkaði bílnum til að snúa við. Það var voða skrýtið. Úr því verður bætt eftir þvi sem byggingunni miðar áfram. Það verður meira að segja meira en einn suðurgluggi að lokum til að líta heim til þegar ekið verður úr hlaði á Sólvöllum.

Eftir því sem ég komst lengra á leið varð þetta léttara. Landið var fallegt að vanda, vegirnir frábærir og bíllinn góður. Áður en ég kom í Vornes var það orðið hversu sjálfsagft sem helst að vera að fara í vinnu. Þegar ég kom þangað hringdi ég í Valdísi og svo var bara að setja í gang og verða að liði. Það eru nítján manns innskrifuð í Vornesi þessa helgi og eftir því sem á tímann leið varð mér bara hlýrra og hlýrra til þessa fólks. Þegar ég vinn einn í Vornesi eins og ég geri um helgar á ég auðvelt með að skapa þá tryggð sem sjúklingarnir þurfa til að meðferðin verði góð. Um hádegi kom svo annar maður sem verður einn þangað til um hádegi á morgun þegar ég kem til baka. Klukkan tíu til ellefu í morgun hafði ég grúppu með þessu fólki öllu sameiginlega. Ef öll heimsbyggðin gæti sýnt þá einlægni og talað af þeim djúpa sannleika sem þetta fólk gerði þennan klukkutíma, ja, þá væru ekki til styrjaldir eða allur sá ótti sem fylgir ófriði og ósætti sem ríkir vítt um heimsbyggðina. Ég á góðar minningar um þennan sólarhring og sjúklingarnir þökkuðu óvenju innilega fyrir samveruna.

Um daginn gekk ég undir stóra eik sem stendur meðal húsa í Vornesi. Nokkru áður hafði ringt og þegar ég taldi mig vera kominn vel út fyrir trjákrónuna kom einn af þessum stóru dropum í kollinn á mér sem falla úr trjám eftir rigningu. Ég leit upp og áttaði mig þá á því að eikarkrónan var mikið stærri en ég hafði nokkru sinni áður áttað mig á. Ég stika mjög nákvæmlega og nú stikaði ég þvermálið á þessari trjákrónu og það var heilir 25 metrar. Ef ég þá reikna út fermetrana sem þessi trjákróna teygir sig yfir eru þeir næstum 500. Mig minnir að lóðin í Sólvallagötunni í Hrísey þar sem við áttum heima sé 700 fermetrar. Ég varð alveg steinhissa og ég hafði ekki áttað mig á þessu fyrr þó að Vornes hafi fóstrað mig svo mikið sem raun ber vitni á fimmtánda ár. Ég hef þó séð að ýmsar eikur og lindir hafa vaxið gríðarlega mikið á þessum árum.

Ég tala oft um stóru Sólvallaeikina. Samt er hún ekki svo stór. Hún er heldur ekki nema rúmlega 100 ára. Suður í Smálöndum er til eik sem er 1000 ára gömul og stofninn er 14 metar í ummál. Hún er kannski ekki neinn fegurðarauki lengur þessi öldungur en auðvitað er hlúð að henni. Hér er mynd af þessari eik.


Eins og sjá má er hún komin með belti og hún er orðin hol að innan. Þannig deyja eikur að þær hverfa innan frá. Við höfum séð eikur sem eru svo holar innan að það væri hægt að koma þar fyrir hægindastól. Þessi eik er búin að lifa mörg stríð milli Svía og Dana og mörg önnur stríð. Hún er líka búin að lifa svarta dauða, spönsku veikina og margar aðrar farsóttir og sjá fólk gegnum tíu aldir í bæði gleði og sorg. Hún á það svo skilið að bera belti í ellinni.

Ég þarf að leggja af stað um hádegi á morgun til vina minna í Vornesi. Valdís hálf móðgast þegar ég spyr hana hvort það sé í lagi að ég fari. Samt verð ég auðvitað að spyrja. Þegar ég kom heim um hálf þrjú í dag var hún búin að næstum fylla kerruna af ónýtum panel. Hún var líka búin að hreinsa upp mikið kubbadót eftir smíðina og hún var búin að tína upp mikið af steinum úr nýju sáningunum. Svo var hún líka búin að fylla hjólbörurnar af greinum sem hafa að undanförnu verið að detta úr Sólvallaeikinni. Hún er ekki af baki dottin fiskimannsdóttirin frá Hrísey skuliði vita.

Lítill athafnadagur í dag

Í dag hef ég ekki unnið mér neitt til frægðar. Smiðurinn kom í morgun og vann tvo tíma til að ljúka stóra áfanganum sem stóð yfir í gær og fyrradag. Ég hef ekki gert svo mikið annað í dag en að leita að tommustokknum og blýantinum og hringsnúast svo kringum sjálfan mig. Ég var meira að segja farinn að tala um það við Valdísi að ég væri þreyttur. Ég held nú samt að það hafi verið meira vatnsskortur en þreyta sem hrjáði mig. Það er merkilegt að vera 68 ára og gleyma suma daga að drekka nægilega mikið af vatni. Hann segist líka lenda í þessu stöku sinnum hann Ingemar vinnufélagi og ellilífeyrisþegi og þá verði hann svo voðalega þreyttur. Reyndar hef ég grun um að það lendi margir í þessu.

Ég bætti úr mínum vatnsskorti um miðjan dag og þá fékk ég kraft í mig til að fara með gamlan, ónýtan panel á endurvinnslustöðina og kaupa stoðir og sperruefni í forstofuna. Það hefur safnast mikið upp sem þarfa að koma í endurvinnsluna og í næstu viku verða góð tækifæri. Ég ofhlóð svo kerruna af byggingarefninu sem ég keypti í leiðinni til baka, sérstaklega þannig að hún var of afturþung. Svo keyrði ég hingað með hálf lélega samvisku og afskaplega rólega. Valdís gerði innkaup meðan ég sýslaði í endurvinnslunni og byggingarvöruversluninni. Við reynum að sameina ferðirnar eftir bestu getu ellilífeyrisþegarnir og vera þannig bæði umhverfisvæn og sparsöm. Hins vegar verð ég ekki svo umhverfisvænn um helgina því að það verður tveggja glugga vinna hjá mér um helgina, það er að segja tvær nætur.

Ég er svo yfir mig hrifinn af veðurspá sænsku veðurstofunnar sem spáir fram til 11. september og það á að vera þurrt og hlýtt. Norska veðurstofan gerir sama en reynir þó að spá 0,2 mm úrkomu tvo daga í næstu viku. Það er svo lítið að ég hlusta ekki á það. Ég gekk út að kerrunni snemma í morgun og pollur af vatni sem var ofan á yfirtrekkinu var frosinn. Samt sýndi mælirinn í skuggahorninu tveggja stiga hita klukkan sjö. Annars er landið fagurt og grænt ennþá og haustsánu akrarnir eru byrjaðir að grænka.

Klukkan er tíu og mál fyrir mig að ganga til fundar við Óla Lokbrá. Ég á möguleika á að sofa í tíu tíma áður en ég legg af stað í vinnu á morgun og ég skal vera alveg heiðarlegur og segja að mig langar til að sofa þessa tíu tíma, taka svo rólegan morgunverð og sýsla aðeins eitt og annað áður en ég vinka Valdísi bless og bið hana að fara varlega. Ég get eiginlega ekki skilið það að ég sé ellilífeyrisþegi.

Dagur 2 nýbygging

Ég sagði eitthvað á þá leið í blogginu í gærkvöldi að ég ætlaði ekki að ljóstra upp um það hvað dagur 2 bæri í skauti sér. Það var þó uppi mjög ákveðin áætlun um markmið dagsins og hún stóðst að fullu og öllu að öðru leyti en því að ég var ekki búinn að taka til á byggingarsvæðinu eins og ég hafði hugsað mér þegar ég fór á AA fund í Fjugesta klukkan sjö. Ég verð bara ákveðnari og ákveðnari í því með aldrinum að það eigi ekki allt að vera í rusli á Sólvöllum þó að það standi yfir einhverjar framkvæmdir.

En hvað um það, um hálf átta í morgun brunuðu tveir bílar í hlað og út stigu galvaskir menn. Þar var margnefndur Anders smiður, hinn nítján ára gamli Johan lærlingur og hinn 61 árs gmli Lars smiður og verktaki. Það eru nefnilega margir litlir byggingarverktakar á Örebrosvæðinu og þeir þekkjast meira og minna. Þegar einhver þeirra þarf á aðstoð að halda hringir hann til einhvers hinna og fær aðstoð. Anders hringdi því til Lars fyrr í vikunni og hann lofaði að koma í dag. Hann hringdi líka í Bússa bróður sinn og hann sendi Johan lærling. Þar með voru þeir orðnir þrír. Anders hefur áður aðstoðað og á eftir að aðstoða þessa menn þegar svo stendur á hjá þeim. Góð svona samtrygging eða hvað?


Þannig leit það út um ellefu leytið. Allar sperrur komnar upp, útlitið spennandi og lífið alveg sérstaklega skemmtilegt. Nú var komið að pásu og nokkrum augnablikum eftir að þessi mynd var tekin voru þeir allir sestir á fótstykkið á gaflinum með matarföturnar sínar.


Þessi mynd er tekin um tólf leytið og Valdís stendur þarna þrumu lostin af undrun og trúir varla sínum eigin augum. Hamarshöggin dundu ótt og títt.


Þannig leit það út upp úr hádegi en þeir tóku að vísu matartíma seint. Þennan þakpappa hafði ég aldrei séð áður og þegar ég sá hann fyrst velti ég því fyrir mér hvort Bengt í byggingarvöruversluninni væri bara að gera grína að mér þegar hann sendi okkur þennan þakpappa með vörubílnum um daginn. En smiðirnir fullyrtu að svona liti þakpappi út nú til dags og hann væri þræl sterkur. Ég fylgist víst ekki alveg með þróuninni. Svo er hann festur á með heftibyssu á nokkrum mínútum en þegar ég byggði fyrri viðbyggingu á Sólvöllum sat ég klukkutímum saman á þakinu með pappasauminn og sló mig í fingurgómana. Sú negling hefði aldrei tekið enda ef við hefðum ekki fengið aðstoð.


Svo er það myndin frá ljósastaurnum sem ég hef talað um að birta á hverjum degi þegar eitthvað skeður. Ég sé að vísu að ég hef ekki staðið alveg við staurinn þegar ég tók þessa mynd, en nálægt þó. Þeir smiðir voru þá nýfarnir úr hlaði og mér leið eins og litlu barni þegar ég virti þetta fyrir mér í kyrrðinni sem skapaðist þegar þeir fóru. Núna mátti rigna á þetta þak og það mundi ekki leka.

Það var klukkan hálf þrjú sem panellinn var kominn á þessa hlið líka og þá var Lars smiður farinn að tala um að það væri mikið góð lykt þarna uppi á þakinu. Það var alveg rétt því að Valdís ætlaði að bjóða upp á heitar vöfflur með rjóma með eftirmiðdagskaffinu og hún var með eldhúsviftuna í gangi við baksturinn. Þessir menn taka engar pásur og ekki þurfa þeir að stoppa til að reykja. En þeir borða oft enda vinna þeir þannig að þeir hljóta að þurfa mikið eldsneyti. Þeir voru mjög ánægðir með vöfflurnar hjá Valdísi og borðuðu mikið af þeim. Ég bara gat ekki látið hjá líða að þykja vænt um þessa menn sem afköstuðu svo miklu í vinnunni hjá okkur, þegar ég horfði á þá borða vöfflurnar af svo góðri lyst.

Kannski kemur Anders á morgun en ef ekki veit ég hvað ég á að gera. Hann kemur svo á þriðjudaginn og þá byrjum við á forstofunni. Það verður þá dagur þrjú.


Áður en Valdís bakaði vöfflurnar fór hún að tína kantarellur undir stóru Sólvallaeikinni. Þetta er önnur umferðin á þessu síðsumri.



Svona leit út í skálinni og þá átti enn eftir að bætast við. Það verða fleiri umferðir af kantarellutínslu og Valdís vill eiga þetta steikt í frystinum til að nota í sósur við betri tilfelli.


Svo má ég til með að gera smá grín að mér í lokin. Ég verð svolítið viðutan þegar aðrir eru að smíða í kringum mig á Sólvöllum og hér var ég bara handlangari í dag. Ég hef ekkert að gera við hliðina á svona hraðvirkum köllum. Ég er þarna að mata þá með panel upp á þakið og ef að er gáð er langt á milli fótanna á áfengisráðgjafanum og ætli það sé ekki til þess að forðast að velta um koll í öllum hraðanum.
RSS 2.0