Um eikur og eitt og annað

Það var ögn erfitt fyrir mig að hafa mig af stað í Vornes í gær. Ég vil svo gjarnan bara vera heima og sýsla við það sem mér þykir skemmtilegt og það sem er líka sannarlega þarft að gera. Það er ekkert ónauðsynlegt að stækka húsið sitt og það er alls ekki ómerkileg sýsla að hirða um skóginn sinn og þannig gæti ég haldið áfram. Já, ég má heldur ekki gleyma því að það er ekki allur eldiviður kominn í hús. En þegar ég svo lagði af stað var enginn suðurgluggi að horfa inn um þegar ég bakkaði bílnum til að snúa við. Það var voða skrýtið. Úr því verður bætt eftir þvi sem byggingunni miðar áfram. Það verður meira að segja meira en einn suðurgluggi að lokum til að líta heim til þegar ekið verður úr hlaði á Sólvöllum.

Eftir því sem ég komst lengra á leið varð þetta léttara. Landið var fallegt að vanda, vegirnir frábærir og bíllinn góður. Áður en ég kom í Vornes var það orðið hversu sjálfsagft sem helst að vera að fara í vinnu. Þegar ég kom þangað hringdi ég í Valdísi og svo var bara að setja í gang og verða að liði. Það eru nítján manns innskrifuð í Vornesi þessa helgi og eftir því sem á tímann leið varð mér bara hlýrra og hlýrra til þessa fólks. Þegar ég vinn einn í Vornesi eins og ég geri um helgar á ég auðvelt með að skapa þá tryggð sem sjúklingarnir þurfa til að meðferðin verði góð. Um hádegi kom svo annar maður sem verður einn þangað til um hádegi á morgun þegar ég kem til baka. Klukkan tíu til ellefu í morgun hafði ég grúppu með þessu fólki öllu sameiginlega. Ef öll heimsbyggðin gæti sýnt þá einlægni og talað af þeim djúpa sannleika sem þetta fólk gerði þennan klukkutíma, ja, þá væru ekki til styrjaldir eða allur sá ótti sem fylgir ófriði og ósætti sem ríkir vítt um heimsbyggðina. Ég á góðar minningar um þennan sólarhring og sjúklingarnir þökkuðu óvenju innilega fyrir samveruna.

Um daginn gekk ég undir stóra eik sem stendur meðal húsa í Vornesi. Nokkru áður hafði ringt og þegar ég taldi mig vera kominn vel út fyrir trjákrónuna kom einn af þessum stóru dropum í kollinn á mér sem falla úr trjám eftir rigningu. Ég leit upp og áttaði mig þá á því að eikarkrónan var mikið stærri en ég hafði nokkru sinni áður áttað mig á. Ég stika mjög nákvæmlega og nú stikaði ég þvermálið á þessari trjákrónu og það var heilir 25 metrar. Ef ég þá reikna út fermetrana sem þessi trjákróna teygir sig yfir eru þeir næstum 500. Mig minnir að lóðin í Sólvallagötunni í Hrísey þar sem við áttum heima sé 700 fermetrar. Ég varð alveg steinhissa og ég hafði ekki áttað mig á þessu fyrr þó að Vornes hafi fóstrað mig svo mikið sem raun ber vitni á fimmtánda ár. Ég hef þó séð að ýmsar eikur og lindir hafa vaxið gríðarlega mikið á þessum árum.

Ég tala oft um stóru Sólvallaeikina. Samt er hún ekki svo stór. Hún er heldur ekki nema rúmlega 100 ára. Suður í Smálöndum er til eik sem er 1000 ára gömul og stofninn er 14 metar í ummál. Hún er kannski ekki neinn fegurðarauki lengur þessi öldungur en auðvitað er hlúð að henni. Hér er mynd af þessari eik.


Eins og sjá má er hún komin með belti og hún er orðin hol að innan. Þannig deyja eikur að þær hverfa innan frá. Við höfum séð eikur sem eru svo holar innan að það væri hægt að koma þar fyrir hægindastól. Þessi eik er búin að lifa mörg stríð milli Svía og Dana og mörg önnur stríð. Hún er líka búin að lifa svarta dauða, spönsku veikina og margar aðrar farsóttir og sjá fólk gegnum tíu aldir í bæði gleði og sorg. Hún á það svo skilið að bera belti í ellinni.

Ég þarf að leggja af stað um hádegi á morgun til vina minna í Vornesi. Valdís hálf móðgast þegar ég spyr hana hvort það sé í lagi að ég fari. Samt verð ég auðvitað að spyrja. Þegar ég kom heim um hálf þrjú í dag var hún búin að næstum fylla kerruna af ónýtum panel. Hún var líka búin að hreinsa upp mikið kubbadót eftir smíðina og hún var búin að tína upp mikið af steinum úr nýju sáningunum. Svo var hún líka búin að fylla hjólbörurnar af greinum sem hafa að undanförnu verið að detta úr Sólvallaeikinni. Hún er ekki af baki dottin fiskimannsdóttirin frá Hrísey skuliði vita.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0