Blandað efni

Mig minnir að það hafi verið 1985 sem við eignuðumst tölvu. Hún var sett saman á Íslandi og var kölluð Atlantis. Ég var fyrstu árin eftir það sæmilegur við að bjarga mér með stýrikerfi og því um líkt en síðan dalaði sú kunnátta mín og varð að engu. Nú get ég notað tölvu ef allt er í lagi, það er að segja ég get farið inn á Facebook, ég get bloggað, borgað reikningana okkar, notað ritvinnslu og eitthvað fleira. En ef eitthvað ekki virkar rek ég bara upp ramakvein en það hjálpar ekki nokkurn skapaðan hlut nema ef Rósa dóttir mín heyrir kveinið.

Einn sænskur Facebookvinur heitir Markku. Eins og nafnið ótvírætt gefur til kynna er hann finnskur. Markku er mikill áhugamaður á allt sem viðkemur samskiptum á tölvum og hann hefur að atvinnu að leiðbeina fyrirtækjum rekstrarlega. Í gær gerði hann Apple að umræðuefni á Facebook og ég mátti til með að kommentera, ekki sem spekingur, en ég gat hins vegar sagt honum að við ættum orðið iPad frá Apple. Hvað iPad er get ég ekki útskýrt, en við fengum þennan grip að gjöf frá Ford þar sem við vorum svo snögg að kaupa nýja týpu af Ford C-max, en þeim var í mun að koma þessari týpu af Ford sem fyrst á götuna.

Markku svaraði þessu á þann hátt að ég varð svolítið grobbinn. Hann sagði: "Þetta er jú frábært Guðjón! Þú bloggar, bæði á íslensku og sænsku, þú ert þátttakandi á Facebook, fylgist með á Íslandi "á öllum sviðum" á netinu og nú hefurði tekið skrefið inn í plötunnar (iPad) heim. Þú hefur staðsett þig rangt tölfræðilega;) Á þínum aldri á maður varla að hafa aðgang að Internet. Þér sé heiður..." Markku les íslenska bloggið mitt með því að þýða það á ensku með þýðingarforriti sem hann finnur á Google og eftir það á hann létt með að lesa það.

Samt skal ég nú viðurkenna að ég geri einungis það einfaldasta á FB og svara ekki öllu sem mér er sent. Það er ekki af því að ég er félagsskítur, heldur vegna þess að ég vil ekki flækja mig inn í eitthvað sem er tímafrekt. Það tekur tíma að blogga en hvers vegna ekki. Ég er einmitt nýlega búinn að blogga um að það sé hægt að þjálfa sig í því að blogga, að skrifa. Það ske líka skemmtilegir hlutir í því sambandi. Ég hef verið upphringdur af fólki sem ég ekki þekki en vill þó segja mér frá því að það lesi bloggið mitt og hvetur mig til að halda áfram. Ég fæ líka öðru hvoru e-póst af sömu ástæðu. Auðvitað hefur Guðjón ellilífeyrisþegi gaman að þessu.

Ég heyrði í morgun brot af svo athyglisverðu samtali við Ingvar Carlsson fyrrverandi forsætisráðherra og formann sænska Alþýðuflokksins. Mér fannst þetta svo athyglisvert að ég leitaði þáttinn uppi á tölvunni núna í kvöld til að hlusta betur á hann. Ég hlustaði af kostgæfni og horfði á þennan mann sem er trúlega vel á áttræðis aldri og fannst sem ég sæi vel á honum að eftirlaunaaldurinn væri honum gjöfull. Mér fannst það lofa mér góðu ef ég held áfram að ávaxta pund mitt sæmilega. Mér fannst hann bera þetta svo augljóslega með sér. Ingavar tók við af Olof Palme sem hér hefur vrið minnst látlaust í allan dag þar sem það eru 25 ár liðin frá því að hann var myrtur.

Sænski Alþýðuflokkurinn tók við af hægri flokkunum eftir mikið bankahrun í byrjun tíunda áratugarins. Þetta bankahrun, kreppa, var allt að því jafn alvarlegt og hið íslenska. En það er einn regin munur á þessum tveimur kreppum og munurinn er sá að sænsku bankarnir höfðu lánað allt of mikið fé til ungs fólks til húsbygginga og hrundu þess vegna. Íslenska kreppan er hins vegar afleiðing af því að menn offjárfestu glæfralega og stálu þar að auki peningunum í svo ótrúlegum mæli. Fasteignir Svíanna stóðu áfram þrátt fyrir kreppuna. Það virðist hins vegar ganga erfiðlega að fá stolna féð til baka.

Við gripum til afskaplega sársaukafullra sparnaðaraðgerða (niðurskurðar), sagði Ingvar, í staðinn fyrir að taka lán fyrir ríkisútgjöldunum. Þess vegna þarf ungt fólk í dag ekki að borga lánin sem við tókum þá. Við skiluðum af okkur afar góðum fjárhag 2006 og í dag gorta Svíar sig af sænska efnahagsmódelinu, sem er ávöxtur sársaukafullu aðgerðanna 1994 og árin eftir það.

Þessar sársaukafullu sparnaðaraðgerðir með uppsögnum, erfiðleikum, atvinnuleysi og hatri á þeim sem stjórnuðu, áttu sér stað fyrsta árið sem við Valdís bjuggum í Svíþjóð. Göran Persson varð aðallega fyrir hatrinu en í dag eru Svíar þakklátir fyrir góðan efnahag. Ég er ekki stjórnmálamaður en það virðist vera svo að endurreisn upp úr kreppu sé vætt í tárum. Við Valdís vorum heppin. Svartnes lokaði eftir að við höfðum verið hér í eitt ár -en viti menn; við fengum bæði vinnu þrátt fyrir kreppuna

Ég ætla ekkert að segja hér frá ferð okkar til Örebro seinni hluta dagsins að öðru leyti en því að það kemur við veskið manns að fara í gleraugnaleiðangur. Og mikið voru þessar konur hjálplegar sem stjönuðu við mig og ekki fengu þær mig til að finnast sem ég væri kominn á efri ár. "Horfðu með föstu augnaráði á nefið á mér meðan ég mæli fyrir ljósopunum" sagði sú sem var nýráðin. Svo horfði ég með föstu augnaráði á fallega nefið á henni og hugsaði sem svo að það væru margir búnir að skoða það í dag.

Ég treysti á þig afi

Ég er jú búinn að fara mörgum orðum um nýbyggingu og endurbyggingu og einangrun. Nú er það orðið svo að við bara kyndum sáralítið með rafmagni á nóttunni, kveikjum upp í kamínunni á morgnana og svo er heitt allan daginn. Svo er kveikt sem snöggvast  upp aftur á kvöldin. Þetta kemur til með að spara mikla vinnu við eldivið og annað sem er mikið meira atriði; þetta er mikið umhverfisvænna. Að hita upp hús með eldivið er jú talið nokkuð umhverfisvænt en fer þó vissulega eftir þeim útbúnaði sem eldað er í.

Eftir að rokkið var orðið úti seinni partinn í dag var ég að saga veggjastoðir í vélsöginni okkar, en þær eiga að koma innan á nokkra metra af gömlum veggjum. Þessar stoðir eru settar innan á veggina til styrkingar á það litla sem eftir er að styrkja og það sem meira atriði er; til að einangrunin í öllu húsinu sé samsvarandi. Og þar sem ég var þarna úti að saga var ég að hugsa um þann mun sem nú þegar er orðinn og enn er þó svolítið eftir að viðbótareinangra. Mikill gríðarlegur munur þetta verður þetta hugsaði ég og fann til mikillar ánægju með framkvæmdirnar.

Mér er tíðrætt um umhverfi. Ég hugsaði líka um umhverfi meðan ég var þarna úti og þegar ég var búinn að saga breiddi ég vandlega yfir það byggingarefni sem eftir var úti. Kyrrðin og rökkrið framkölluðu ró og góðar hugsanir. Útfrá því sem ég hef nú þegar komið inn á hugsaði ég til hans nafna míns, Hannesar Guðjóns, og heyrði hann beina biðjandi orðum til mín.

Viltu gera það fyrir mig afi að gera þitt besta til að það verði eitthvað eftir handa mér þegar ég verð fullorðinn og vil eignast fjölskyldu. Viltu einnig reyna að hafa áhrif á aðra fullorðna svo að það verði eitthvað eftir handa jafnöldrum mínum líka. Kannski verð ég trúr Íslendingur og þá hugsa ég að ég og jafnaldrar mínir viljum að það verði eftir svo sem einn foss sem við getum tekið skynsamlega ákvörðun um. Það væri líka voða gaman að það yrði eftir svolítill jarðhiti svo að við þurfum ekki að fara á fornleifasafn með börnin okkar til að upplifa hann. Varla verðið þið sem eruð fullorðin endilega að vera svo peningasjúk að þið klárið þetta allt saman.

Ég treysti á þig afi.

Og hvernig verður afa ellilífeyrisþega við þegar hann heyrir barnsröddina bera fram þessa bæn þar sem hann er að paufast úti í myrkrinu. Jú, hann verður svolítið votur um hjartað og hugsar sem svo að hann geti ekki bara skotið við skollaeyrum. Við eigum fleiri barnabörn sem ég hef ekki nefnt en þau eru komin á þann aldur að það er að verða þeirra að skilja þetta og taka ábyrgðina líka. Það sem ég er búinn að skrifa núna er raunar orsökin til að ég vil lifa eins og við gerum. Við berumst ekki mikið á en gleðjumst samt oft yfir áföngum. Við erum búin að hafa bílinn í mánuð og erum enn að nota fyrstu áfyllinguna og munum gera næstu viku en höfum samt þurft að hreyfa okkur all mikið. Ég gæti talið fleira upp en sleppi því. Við getum öll lagt eitthvað af mörkum og við Valdís erum enn að þróa umhverfisvænleika okkar.

Loft í skralli - loft í bata

Stundum er ég kannski full smáatriðasamur varðandi framkvæmdir okkar á Sólvöllum en það er líka fólk sem er virkilega að fylgjast með því sem fram fer og auðvitað verða að fylgja þessu dálítið faglegar myndir öðru hvoru. Nú eru þáttaskil eins og svo oft og smiðirnir sem hér hafa verið munu ekki koma næstu vikurnar að minnsta kosti og mögulega er vinnu þeirra lokið hér.


Hér er loft í skralli. Ég var búinn að segja frá gólfframkvæmdunum og þegar ég gerði það sagði ég líka frá því að þegar síðasta platan var komin í gólfið þá féll loftið niður -af manna völdum. Síðan fékk ég þrjá daga, einn til að hvíla mig og tvo til að undirbúa vinnu við nýtt loft.


Hér er loft í bata. Þessum límtrésbita var stungið upp á loftið í haust meðan gaflinn á gamla húsinu var opinn og þar hefur hann fengið að hvíla síðan. Þó að þessi limtrésbiti taki helminginn af þunga þaksins vildum við styrkja sperrurnar og breikkuðum (eða á maður að segja síkkuðum) þær því um helming. Við einfaldlega tylltum fjögurra tommu battingi neðan á sperrurnar og negldum síðan 12 mm krossvið í lím á báðar hliðarnar. Toppinn tengdum við saman á sama hátt eftir að við höfðum rifið burt gömlu laskana sem voru skrúfaðir á toppinn. Eigum við eitthvað að ræða styrkleika eða hvað? Nei, sleppum því.


Því næst gengum við frá loftrýminu yfir einangrunina og notuðum við í það 45 mm breiða lista og 3 mm masónit. Þarna eigum við eftir tvö sperrubil innst í þessu rými. Það er plægður panell í þakklæðningunni en það þekkti ég ekki fyrr en við komum til Svíþjóðar. Sum panelborðin þarna innst eru dekkri og það er ekki fúi heldur vegna þess að þessi borð eru yst úr tré og eru dekkri þess vegna.


Því næst fór ótrúlegur fjöldi af einangrunarsekkjum þarna upp og hér er er fyrsti búturinn af 17 sm steinullarmottu komin í sperrubil. Ofan við einangrunina og masónitplötuna er loftræstingin vel frágengin.


Og svo var bara einangrað og einangrað þangað til komin voru langbönd á sperrurnar og þverbönd á langböndin og þrjú lög af einangrun. Þarna eru þeir Anders og Jóhann að vinna við síðasta steinullarlagið og plasta svo þakið jafnóðum. Maðurinn sem er að lalla eitthvað þarna lengst til vinstri er ellilífeyrisþegi og fer gjarnan í verkin sem öðrum leiðist og ekki er hægt að vinna bara svona af gömlum vana.


Þarna er komin upp 26 sm einangrun og plastdúkurinn er á sínum stað. Innan á plastdúkinn erum við svo búnir að setja nokkur af borðunum sem eiga að halda uppi loftklæðningunni. Þetta er mikið sterkt og gott loft. Íslenski fáninn er lengst til vinstri og það sér Valdís um. Það var líka hún sem bjó um rúmið sem við sjáum þarna innan við dyrnar og það var hún sem bauð smiðunum í lokin upp á súkkulaði/döðlutertu með þeyttum rjóma og perum ofan á. Góð var hún og svo stór var hún að hún entist með kaffinu í tvo daga. Þegar þessi mynd var tekin í gær, fimmtudag, voru smiðirnir farnir og ég skipti þá samstundis niður í fyrsta gír á lága drifinu. Anders er á förum til Tælands en Jóhann er bara tvítugur og ætlar að vinna fram að sumarfríi og eiga góðar stundir með fallegum jafnöldrum sínum af hinu kyninu.

Nú er loksins búið að vinna allt það erfiðasta við einbýlishúsið á Sólvöllum í Krekklingesókn. Það verður að vísu dálítið verk að setja upp loftplöturnar en Anders býðst til að koma og hjálpa okkur við það þegar hann kemur frá Tælandi og við frá Íslandi. Kannski verður það svo. Ég ætla nú að bauka við smíðar á mínum hraða við ýmislegt sem eftir er. Það var bún að vera mikil vinnutörn síðustu dagana og þegar smiðirnir fóru var eins og það færi vindur úr mér. Eftir rúma viku förum við að vinna af alvöru við eldhúsið þarna lengst inni til vinstri. Þá ætlar gólflagningamaður að vera búinn að setja flísar á eldhúsgólfið en undir þær setur rafvirkinn hitamottu. Það verður líka talsverð vinna við loftið yfir eldhúsinu. Hvað á að kalla þetta loft er spurning. Hugsanlega svefnloft við tækifæri, lesloft, loft fyrir kommóðuna með dýru sköttunum okkar eða hver veit.

Ég vil svo bara segja að lokum; mikið rosalega eru iðnaðarmennirnir sem hafa unnið hjá okkur duglegir. Þeir eru líka samvinnuþýðir og þægilegir menn. Anders skildi eftir helling af verkfærum sem ég geti haft gagn af næstu vikurnar. Vel gert af honum. Þetta með dýru skattana átti að vera brandari.

Svona er lífið

Hér á bæ okkar Valdísar eru þvílíkar framkvæmdir í gangi að ég ætla bara ekki að tala um það sem stendur. Þó að þetta sé bara pínulítið brot af því sem margir aðrir framkvæma eru það eins og ég sagði þvílíkar framkvæmdir á okkar mælikvarða.

Í gærmorgun þegar ég kom fram í þvottahús og leit út í skóginn sá ég fjögur dádýr og voru tvö þeirra bara eins og tíu metra að baki húsinu. Ég vakti Valdísi og þar sem við horfðum á þau tók Valdís allt í einu eftir því að það virtist vanta neðsta hlutann á annan framfótinn á öðru dýrinu sem næst húsinu var. Og mikið rétt, dýrið haltraði og það var greinilega eitthvað mikið að. Og svo var hörku frost. Tvö dýranna fóru af stað og hurfu en þessi tvö færðu sig rólega út að skurðinum í svo sem þrjátíu metra fjarlægð inn í skóginn. Þar stóðu þau á móti hvort öðru, sleiktu andlit hvors annars og það var hreinlega eins og þau væru að kyssast og kela.

Það var eiginlega sorglegt að sjá það þar sem ég var þá þegar búinn að taka ákvörðun. Ég ætlaði að hringja í Lars veiðimann, nágranna í öðru húsinu til suðurs, og segja honum að þetta virtist of alvarlegt til að bara horfa á það. Lars var ekki heima við en sagðist mundi tala um þetta við Ívar veiðimann sem á heima í öðru húsinu norðan við. Nokkru síðar sá ég Ívar ganga suður veginn skimandi í allar áttir. Svo hugsaði ég ekki meira um það, þetta var komið í hendur manna sem gátu annast það og við vorum að byggja.

Ekki hef ég frétt af því hvernig Ívari gekk en í morgun sá ég bara eitt dádýr út um þvottahúsgluggann og það haltraði ekki. Kannski fann Ívar skaðaða dýrið eða að refurinn annaðist verkið. Þeir veikustu verða fyrsta bráðin fyrir hungruð rándýr. Vissulegsa hefði aðferð Ívars orðið miskunnsamari til að stytta þjáninguna.

Hugsum okkur sumardag. Dádýrsmamman og kið hennar eru á beit í skóginum og lífið leikur við þau. Friðsæla stundin tekur þó snöggan enda þegar refurinn stekkur fram frá föllnu tré og grípur kiðið taki. Mamman gengur til orrustu en þá birtist annar refur og yrðlingar dansa á vígvellinum. Dádýrsmamman getur ekkert gert annað en að gelta þessu háa hvella gelti í mikilli örvæntingu og hjartað berst óstjórnlega. Kiðið brýst um í lengstu lög en að lokum liggur það máttvana í lynginu og lífi þess er lokið.

Heil refafjölskylda seður hungur sitt og þegar veislan er vel hafin hverfur ráðlaus dádýrsmamman á braut og sorgin umlykur hjartað. Eftir einhvern klukkutíma er refafjölskyldan mett og leggst til hvíldar. Allir fjölskyldumeðlimirnir finna næringuna fylla kroppinn yndislegu lífi, lífi sem ólgar, sólin skín, allt er dásamlegt hjá þessari fjölskyldu og allar óskir eru uppfylltar. Ekkert vantar. Dádýrsmamman fjarlægist og sorgin dvínar en næstu daga lítur hún snöggt upp þegar hún verður vör hreyfingar en þrátt fyrir væntingar er það ekki kiðið hennar sem er að koma.

Þegar refafjölskyldan vaknar eftir miðdegisblundinn teygja allir úr sér, yrðlingarnir sem ennþá njóta þess að vera mettir verða brátt leikfullir og ærslast. Lífið er gott. Undir kvöldið étur þessi fjölskylda það sem eftir er af kiðinu. Það getur orðið bið á næstu góðu máltíð.

Fjölskylda stendur upp frá borðum og allir eru einnig mettir þar. En það er ekki nóg. Það þarf að gera ráðstafanir, fara í vinnu, þéna meira því að það þarf að auka neysluna svo að hjól atvinnulífsins gangi hratt og hraðar en nokkru sinni fyrr. Og til að hjól atvinnulifsins snúist nægjanlega hratt til að skila meiri arði en nokkru sinni fyrr þarf að auka neysluna upp í margfalda framleiðslugetu móður Jarðar. Þá á lífið að verða gott.

Hvað er svo neysla? Fyrir refafjölskylduna var það að verða mett og hvílast í sólinni. Sagan er sjálfsagt orðin gömul og löngu slitin um fólkið við vatnið í Afríku sem mætti ekki til skips daginn eftir fyrsta góða veiðidaginn. Skipstjórinn frá Vesturheimi sem var að kenna þeim að fiska varð alveg steinhissa. Þegar hann gekk í land til að athuga hverju þetta sætti komst hann að því að allir voru mettir og ánægðir vegna þess að afli gærdagsins var meira að segja svo mikill að hann mundi duga til næstu daga líka. Þeir sem vissu ekki að fyrirbærið "hjól atvinnulífsins" væri til voru ánægðir með þetta.

Refurinn drap dádýrskiðið en ég vil drepa mömmuna líka. Ég vil líka drepa elgina og skjóta allan gæsahópinn sem flýgur yfir en samt er ég saddur. Þess vegna vil ég líka klára málminn úr fjallinu. Svo vil ég klára allan fosfór sem jörðin hefur að geyma og ef ég get grætt á því að klára eitthvað annað líka verð ég að gera það. Ég vil eiga tvo bíla og ég vil eiga sumarbústað í fjöllunum og ég vil eiga snekkju og í staðinn fyrir Sólvelli vil ég eiga höll. Svo vil ég eiga hjákonu.

Nei. Ég auglýsi eftir nýrri forskrift að því sem kalla mætti gott líf.

Fínn tími til að blogga

"Það verður fínn tími fyrir þig að blogga í kvöld" sagði Valdís seinni partinn í dag, það er forkeppni í vali fyrir söngvakeppni sjónvarpsstöðva. Já, ég skal viðurkenna að ég sit ekki yfir þessum þáttum með augun á stilkum og eyrun opin gegnum höfuðið. Hins vegar heyri ég álengdar hvað fer fram og öðru hvoru geng ég að sjónvarpinu til að sá og heyra betur. Svo er það að vísu ekki að þessu sinni þar sem sjónvarpsherbergið, skrifstofan, setustofan og svefnherbergið er eitt og sama herbergi þessa dagana eins og nég hef sagt við eitthvað annað tilfelli. Þess vegna er sjónvarpið ekki nema eins og tvo metra frá hægra eyranu og ég kemst ekki hjá því að heyra vel það sem þar fer fram.

Fínn tími til að blogga sagði Valdís. Já, en hvers vegna að vera endalaust að blogga? Jú, víst get ég bloggað eins og einhver annar horfir á val í söngvakeppni sjónvarpsstöðva, eða skreppur á barinn eða fer upp í fjöllin á skíðahótel eða bara hvað annað sem er. Ég er nú búinn að blogga síðan í desember 2006 og bloggin eru orðin 690. Það er mikið af myndum í þessum bloggum en þrátt fyrir það get ég ímyndað mér að þessi 690 blogg séu orðnar einar 500 til 600 síður.

Það er ekki erfitt að skilja að það sé hægt að æfa hástökk, þrístökk eða hundrað metra hlaup. En ætli það sé hægt að æfa að blogga -að skrifa. Ég get fullyrt að svo sé. Í byrjun hugsaði ég sem svo að í kvöld er ég í góðri stemmingu til að blogga og því er best að blogga. Önnur kvöld fann ég að andinn var ekki nálægur og þá bloggaði ég ekki. En svo byrjaði ég allt í einu að bjóða mér byrginn og blogga þó að mér fyndust öll sund lokuð. Og viti menn; ég komst að þvi að það væri hægt að æfa það líka svona eins og hástökk eða þrístökk. Þar að auki sé ég ekki annað en mér fari mun betur að blogga en að vera hér úti á lóð með tvær stengur og spotta á milli og æfa hástökk. Svo má segja að mörg af þessum æfingabloggum hafa verið afar innihaldslaus og ég hefði eins getað sleppt að birta þau.

Nú er ég kominn að nýjum þætti í mínu bloggandi og það er að æfa að blogga með sjónvarpið dynjandi í tveggja metra fjarlægð frá hægra eyranu. Þetta er líklega þriðja eða fjórða kvöldið sem ég geri það og ég er alveg með það á hreinu að það er einnig hægt að æfa það. Að hugsa sér svo þegar ég verð búinn að æfa dyggilega þennan þátt líka hvort andagiftin yrði ekki fullkomin ef ég sæti í fjallakyrðinni uppi á Lómagnúp við Skeiðarársand, á Esjunni eða Kaldbak við Eyjafjörð og með allt það útsýni sem þessi fjöll bjóða upp á. Það hlytu að verða dýrar bókmenntir sem mundu fæðast þar.

Sem endahnút á þessum hugleiðingum mínum get ég líka spurt mig hvort ég geti ekki skrifað allt þetta án þess að birta það. Jú, ég gæti vel gert það. En -þá yrði það alls ekki sama æfing sem ég fengi út úr þeim skrifum þar sem ég væri huglaus. Á þann hátt mundi ekki skipta máli hvernig ég skrifaði, ekki á sama hátt, og það er þess vegna sem ég hef birt þau þó að þau hafi stundum verið býsna innihaldslaus og ekki skrifuð af andagift.

Alveg er þetta merkilegt. Ég er búinn að blogga án þess að skrifa um byggingarframkvæmdirnar okkar. Það er vissulega æfing líka. Við erum nefnilega bæði svo ánægð með það sem við erum að gera hér á Sólvöllum í Krekklingesókn að það er erfitt að vera þögull um það. Ég veit að ég tala hér fyrir okkur Valdísi bæði því að ég hef spurt hana um það í fullri alvöru.

Svo má ég til að tala aðeins um þetta með tvær stengur með spotta á milli. Á bernskuárunum á Kálfafelli var hástökk æft af kostgæfni. Þar var ekki notast við tvær stengur með spotta á milli. Til að halda kirkjunni Kálfafelli niðri i miklum veðrum voru gildar keðjur á hverju horni frá þakskeggi og niður í einhverja festingu sem grafin var í jörð. Við systkinin sem vorum hændust að hástökkinu festum nefnilega annan endann á spottanum í eina af þessum keðjum og svo hélt einhver í hinn endan. Svo var það alla vega oft. Hástökkstækni okkar var kannski ekki alveg viðurkennd af þjálfurum. Alla vega var Snorri íþróttakennari í Skógum fljótur að breyta hástökkstækni minni enda breyttist árangur minn í hástökki verulega með þeirri tækni sem hann kenndi mér. Þökk sé þeim góða manni.

Nýr áfangi

Það er gaman að áföngum. Einum áfanga er lokið og þá er gaman að líta yfir og gleðjast yfir að nú er þetta búið og það lítur vel út, er vel gert eða hvað það nú getur heitið eftir því í hverju áfanginn er fólginn. það getur líka verið að vinnan við að ná áfanganum hafi verið erfið og þegar honum er loksins náð taka við betri tíðir. Við erum búin að ná mörgum áföngum hér á Sólvöllum og sannleikurinn er sá að fyrir mér eru áfangarnir meira virði í dag en áður á lífsleiðinni. Ég bar þetta undir Valdísi þegar ég hafði skrifað það og hún var á sama máli.


Á þessari mynd er áfanga náð. Allir gólfbitarnir eru komnir á sinn stað og við Anders litum yfir og huguðum að því hvort nokkru var ábóta vant. Þessi áfangi var skemmtilegur og það var gaman að standa við annan hvorn endann og líta eftir bitaröðinni. Reglulega vandað og sterkt gólf og hvílíkur munur miðað við það gamla. Það var kannski ekki svo erfitt að vinna við þessa bitauppsetningu þó að Anders ynni hratt sem knúði mig líka til að vinna hraðar en ég geri þegar ég er einn. En áfanginn þarna á undan var öllu erfiðari. Það var að jafna botninn og fá á hann réttan halla. Vopnin við þá vinnu voru garðhrífa, reka og fata. En nú komum við að áfanganum sem kom á eftir þessum sem myndin er af. Þar með er komið að næstu mynd.


Gólfið er allt komið á sinn stað og mörgum handtökum er lokið. Mikið rosalega var gaman að ganga langsum og þversum yfir þetta nýja gólf. Hér sjáum við í áttina að nýju herbergi og nýrri forstofu.


Hér sjáum við aftur í aðra átt, að eldhúsi, og nú er hægt að ganga einu sinni enn eftir endilöngu gólfinu og sannreyna að það er stabílt og hljóðlátt. Hvílíkt gólf og undir þessum gólfplötum er næstum 20 sm einangrun. Ja hérna, hvílíkt og annað eins. Ekki var þetta með í myndinni þegar við yfirgáfum Hrísey. Ótrúlegt! Nú er bara að kasta upp eldhusinnréttingu og fá rafvirkjan til að koma og ganga frá öllum rörum sem sér í hingað og þangað, leggja svo parkettið og bara njóta alls þessa.

Eða hvað? Kannski er rétt að taka eina mynd upp á við.



Nei! Nei! Gólfið er þá ekki síðasti áfanginn. Hér er loft sem er búið að tæta niður. Úff! Endalaust puð!


Það var nefnilega þannig í dag að þegar áfanganum "nýtt gólf" var náð var hádegismatur. Valdís hafði eldað grjónagraut handa okkur öllum. Eftir það dubbuðum við Anders okkur upp með hamra og kúbein og þegar Anders var búinn að fara eina ferð þvert yfir loftið með stingsögina sína var bara að rífa það niður. Panelfjölin sem ég held þarna á er búin að þjóna íbúum þessa húss í 43 ár. Nú er hún á leiðinni í miðstöðina hjá Anders.

En nú er hægt með sanni að segja að síðasti stóráfanginn er hafinn. Á mánudag kemur bíll með byggingarefni frá BFs byggingarvöruverslun og þeir Anders og Jóhann ráðast í að innrétta loftið að nýju. Þá verður mitt hlutverk líklega að mestu handlangarans og "reddarans" því að tveir hraðvirkir menn þurfa að hafa allt til taks til að ná árangri. Nýja loftið verður allt öðru vísi loft. Það sjáum við síðar.

Nú er Anders farinn með loftpanelinn heim til sín, við erum búin að sópa gólfið að nýju, troða einangruninni sem kom af loftinu í poka og koma öllu fyrir eins og það getur best verið þar til á mánudag. Nú er svo gaman að ganga á nýja gólfinu að við eigum endalaus erindi eftir endilöngu húsinu og án þess að telja eftir okkur. Eins og oft áður; það er gaman að þessu. Um helgina ætla ég að mestu að hafa sumarfrí og aðeins að framkvæma smá verk sem ættu ekki að taka meira en svo sem fimm klukkutíma. Á morgun ætla ég að bjóða Valdísi í mat inn í Marieberg. Það verður hluti af fríhelginni og Valdís á það skilið fyrir þolinmæðina og alla matarbitana sem hún hefur vikið að okkur köllunum sem höfum atað allt út og verið með hávaða og læti í kringum hana.

Alveg er það merkilegt

Já, það er dálítið merkilegt þegar þessi smiður er hérna að vinna að þá er ég að rembast við að vera ekki svo rosalega mikið seinvirkari en hann. Hann er jú 14 árum yngri en ég, þannig að á mínum aldri get ég kannski ekki vænst þess að hafa við honum. Og sterkur er hann og þegar ég sagði það við hann um daginn dró hann upp ermina og sagði að handleggirnir væru mjóir og aumingjalegir.

Í fyrradag, mánudag, var hann hérna og okkur gekk alveg rosalega vel. Svo var ég allan gærdaginn að ná mér og eldsnemma í morgun kom rafvirki og þá fékk ég mörg verkefni að framkvæma á örstuttum tíma. Svo þegar smiðurinn kom 15 mínútum eftir að rafvirkinn fór var ég þegar orðinn móður. Þess vegna fékk ég smiðinn til að byrja á kaffi svo að ég fengi örlítinn tíma á stólnum. En svo settum við í gang og það var afkastadagur í dag get ég látið ykkur vita. Hvað við höfum gert er ennþá leyndarmál og verður alla vega þangað til annað kvöld. Svo fór ég bara á AA fund og lét Valdísi sjá um tiltektina.

Það er vetur hér og spáð hressilegu frosti, eða upp í tuttugu stigum á köflum næstu daga. En það er alla vega logn og það er oft sól og fallegt veður. Dádýrin eru nú nærgöngulli en nokkru sinni fyrr og það er ekki gott að vita hvernig elskulegum eikum reiðir af hér utan við skurðinn þessa dagana. En hvað mundi ég ekki gera sjálfur ef ég væri svangur og kaldur og í vandræðum með mat. Hún Kristjana kennari og skólastjóri á Klaustri kenndi okkur það fyrir meira en 50 árum að þá leggði maður sér hið ólíklegasta til munns.

Valdís er komin undir sængina hér fyrir aftan mig og er að lesa. Ég ætla að slást í hópinn en á ekki von á að síðurnar verði margar sem ég les. Óli er svo lunkinn með mig þegar ég á annað borð er kominn með höfuðið á koddann. Góða nótt.

Hörku vetur en allt á fullu

Það er kominn hörku vetur aftur, töluverður snjór og mikið frost. Í veðurspá fyrr í kvöld var spáð frosti sem er 10 til 20 stigum undir meðallagi á þessum árstíma. Það var komið svo gott veður að það var ögn erfitt að trúa að það mundi vetra svona hressilega á ný. En á Sólvöllum heldur lífið áfram og við látum ekki deigan síga. Vinnudagurinn byrjaði upp úr hálf sjö í morgun og endaði upp úr hálf sjö núna í kvöld. Ég byrjaði svona snemma til að vera tilbúinn með verkefnin mín áður en Anders kæmi. Það er alltaf sama kapphlaupið með það. En bíllinn hans bilaði hér á föstudaginn var og hann þurfti að skrá sumarbílinn sinn í morgun og aka svo hingað á sumardekkum og þá fékk ég smá framlengingu og var tilbúinn þegar hann kom.

Við Anders byrjum ekki vinnudag hér nema til þess að ljúka miklu og svo var það líka í dag. En eins og vant er hef ég líka fengið harðsperrur að launum. Það er ekki mikil hætta á að ég fái harðsperrur þegar ég vinn einn og vinn með mínum kjörhraða. Valdís tók myndir og fóðraði kallinn sinn og þess á milli prjónaði hún peysu á fjögurra ára stúlku sem er stjúpbarn vinkonu hennar.


Ég bað Valdísi að taka þessa mynd í gær til að fá það staðfest og geta sýnt fram á að ellilífeyrisþeginn er alls ekki stirðnað gamalmenni. Ég er þarna að koma plastdúk inn undir annað gólf og athugið! Ég tók mig upp hjálparlaust. Ég læt stundum eins og ég erfiði mikið en á þann hátt geri ég líka oft grín að sjálfum mér.


Þessi maður liggur hins vegar ekki í gólfinu, hann er að hugsa. Sá sem er lengra í burtu er ekki beinlínis á fullri ferð heldur ef ég sé rétt.


Anders stoppaði heldur ekki lengi. Þarna er hann kominn á fulla ferð aftur. Allir gólfbitar eru komnir á sinn stað og nýr áfangi er á næsta leyti.


Hér erum við búnir að velta út samanbrotnum plastdúknum sem á að verja gólfið uppgufun úr jörðinni. Síðan huldum við allt gólfið með honum.


Þessi mynd er tekin undir gólfbitana. Ofan á plastdúkinn settum við svokallaðar lecakulor sem líkjast grófum Hekluvikri. Þær eiga að hindra þann hita sem sleppur niður gegnum 20 sm einangrunina að sleppa niður í jörðina. Ég hef gaman að því að láta þetta líta vel út þó að það eigi kannski enginn maður eftir að sá það eftir að gólfinu verður lokað.


Svo bíða gólfplöturnar eftir að botninn undir einangrunina og einangrunin komi á sinn stað. Svo skulu þær á. Að vísu ætlar rafvirkinn fyrst að setja slatta af rafmagnsrörum milli bitanna. Bráðabyrgðabrú er komin þarna á milli herbergja þannig að við Valdís erum með hálfgert víðáttubrjálæði sem stendur. Hér með lýkur kennslustund í gólfgerð.

Meðan ég var að skrifa þetta var sagt frá sauðnautum í Härjedalen. Sauðnautin eru ekki árennileg dýr og kunnugur maður sagði að maður skyldi halda sig í hæfilegri fjarlægð frá þeim. Maður einn sagði frá því þegar hann heyrði mikið fnæs rétt hjá sér og þegar hann leit upp sá hann sauðnaut rétt hjá sér. Svo sagði hann hlæjandi frá skelfilegum flótta sínum frá sauðnautinu og sagðist hafa hlaupið svo rosalega að hann hélt jafnvel að hann hefði hlaupið á vatni.

Nú er mál að hvílast.

Vaxtaverkir

Það var á mánudaginn var sem ég var alveg undrandi yfir afköstum smiðanna okkar. Þeir (ég líka) hentu 40 m2 af gólfi með einangrun og öllu tilheyrandi út á tún og skildu okkur eftir með bústað sem er þrískiptur. Það er að segja einar dyr liggja inn í tveggja ára gamalt svefnherbergi sem nú er einnig setustofa, sjónvarpsherbergi, handavinnuherbergi og skrifstofa. Förum við út um þessar dyr og fyrir tvö horn til hægri komum við inn í þriggja ára gamla forstofu, þvottahús og baðherbergi og förum við út um þær dyr og fyrir þrjú horn, líka til hægri, komum við inn í nýja forstofu og verðandi stofu/gestaherbergi. Þessi stofa og gestaherbergi er nú í hlutverki eldhúss og geymslu. Það er svo miðjan sem tengir þetta allt saman sem nú hefur nakið malargólf. Kannski verður einhver hissa á því að við leggjum okkur niður við að búa svona en þá segi ég bara þetta: Komið í pönnukökukaffi í júní næstkomandi, eða hreinlega um miðjan maí, og eftir það verður enginn hissa.


Svona er hægt að hafa það í bráðabyrgðaeldhúsi eftir morgunverð, drekka fyrsta kaffibolla dagsins og þann besta og horfa á móti Kilsfjöllunum. (Pínulítil uppstilling var þetta nú fyrir myndatökuna man ég).


Þarna er svo konan sem lætur sig hafa það. Stundum segir hún að hún geri ekkert af því sem gert er hér en það er ekki rétt. Hún hjálpar mér oft sem handlangari en það er annað sem er mikilvægara; hún sér mér fyrir góðu fæði sem gerir það að verkum að ég get haldið áfram við að byggja draumahúsið. Þetta er líka í bráðabyrgðaeldhúsinu.

Frá því að smiðirnir tveir yfirgágfu okkur á mánudaginn var hef ég rembst eins og rjúpan við staurinn við að gera allt tilbúið til að byrja á nýja gólfinu. Það er að segja að rífa upp stórgrýti og koma út, jafna gólf, flytja til möl í fötum, jafna aftur og fá réttan halla á botninn áður en hann verður klæddur með plastdúk. Einnig að panta efni og flutning, bæta við pöntunina. Að fá rafvirkjan til að koma og ræða þá nýju mynd sem þetta hús hefur fengið á sig og sitthvað fleira. Svo leið að fimmtudagskvöldi og að morgni ætluðu tveir smiðir að koma og all stór vörubíll með efnið í nýja gólfið.

Spáin var mikil snjókoma og fólk almennt varað við því að vera á vegum úti. Ég reyndi að hafa allt klárt og Valdís minnti mig á að ég hefði ætlað að panta eitthvað sérstakt og ég gat ekki almennilega viðurkennt að ég hefði ekki munað eftir því. Ég fékk ekki samband við neinn af þeim snjóruðningsmönnum sem ég þekkti til þannig að ég sá sæng mína útbreidda og vissi hvað mér félli í hlut að morgni. Að lokinni átta stunda djúpri samveru með Óla Lokbrá hafði ég mig út um hálf sjö leytið og reyndi að vera svolítið spengilegur. Ég tók snjóskófluna og fót út í hliðið og byrjaði að moka upp undir 30 sm djúpum snjó.

Þegar ég var búinn að moka eins og einum fimmtánda af því sem ég þurfti að moka kom kom ókunnug snjóruðningsvél og ég gekk út að vegi. Ég rétti upp hendina og viti menn; þessi ókunnuga vél stoppaði og langt þar uppi opnaðist hurð og þar gaf að líta hæglátan mann sem horfði niður til mín og mér fannst ég sáralítill við hliðina á þessari mikla tæki.

Getur þú hjálpað mér, spurði ég. Bráðum kemur vörubíll með byggingarefni og ég get ekki tekið á móti honum nema að losna við eitthvað af þessum snjó. Alveg sjálfsagt, svaraði hægláti maðurinn þarna uppi, ég skal gera það í bakaleiðinni eftir fáeinar mínútur. Svo hélt hann áfram. Þá kom smiðurinn Anders og var einn og sagðist varla hafa komist í annað eins á sænskum vegum. Hann ætlaði líka að vera hér hálftíma fyrr en bara náði ekki. Eftir nokkrar mínútur kom snjóruðningsvélin til baka og hann hreinsaði stórt svæði á örfáum mínútum. Hvað á ég að borga? Ekkert. þú ert að byggja og það kostar mikla peninga. Ég býð upp á þetta. Ég kannaðist við að hafa séð þennan mann áður en vissi ekki hvar en hann vissi greinilega að við vorum að byggja. Ég gerði hann að bónda hér í nágrenninu og ég var honum þakklátur. Svo fór hann.

Þá hringdi Mats á vörubílnum og spurði hvort hann ætti að beygja við skiltið Västanbäck. Já, gerðu það og svo skal ég vera úti við veg. Ég sneri mér að Anders og við byrjuðum að tala saman og þá hringdi síminn. Það var Mats á vörubílnum og hann sagðist ekki komast upp brekkuna og það væri snjóruðningstæki í brekkunni. Ég skal fara og biðja hann að færa sig og bíða þar til þú ert kominn upp brekkuna. Svo lagði ég af stað og þá bakkaði snjóruðningstækið upp brekkuna, Mats bakkaði niður á jafnsléttu og tók svo tilhlaup á brekkuna.

Þegar Mats hafði stoppað á veginum við hliðina á húsinu og komið út úr bílnum sagði hann að hann hefði varla komist í annað eins á vegunum hingað til. Svo fórum við að losa bílinn og ég skildi ekkert í því hvað ég dansaði mikið á rudda svæðinu. Ég rann til og tók miklar sveiflur og komst svo að því að skálarnar sem snjóplógurinn hvílir á skildi eftir flughála flekki. Eins gott að detta ekki því að þá gæti gerfimjöðmin farið úr liði. Svo gætti ég meiri varúðar. Vörubíllinn fór og við Anders fórum inn í grautinn og árdegiskaffið. Valdís var mætt í bráðabyrgðaeldhúsið og það angaði af kaffi og hafragrauturinn rauk í pottinum.

Eftir það fórum við að smíða.


Gólframmi er kominn innan á fótstykkin undir húsinu og Anders er að ljúka við dregara sem liggur eftir því miðju. Steinnökkvinn undir súlunni er efsti hlutinn af undirstöðu sem ég gróf fyrir og steypti fyrr í vetur við hinar verstu aðstæður þar sem grafa þurfti gegnum gólfið og undir gömlu bitana. Alveg það sama er að segja um steypuhnullunginn undir hamrinum hans Anders. En núna er ég svo feginn að ég framkvæmdi þetta þá en þurfti ekki að gera það núna. Þegar hér var komið í dag var ég kominn með harðsperrur eftir hamaganginn frá í morgun. Ég útskýrði það sem vaxtaverki fyrir Valdísi og Anders. Gardínan yfir kollinum á Anders er til að hylja sárið eftir glugga sem einu sinni var.


Þannig leit það út um þrjú leytið þegar Anders hætti. Bitarnir næst okkur eru helmingi þéttari en lengra frá. Það er gert vegna þess að þar sem bitarnir eru þéttari skal flísaleggja en á hitt skal koma parket. Um helgina ætla ég að plasta botninn undir þessum hluta, það er að segja að leggja plast á jörðina. Það skal fyrirbyggja að uppgufun frá jörðinni skemmi gólfið. Ég ætla líka að gera þetta, þetta, það og hitt sem svo aldrei sést en verður að gera.

Hvílíkur vinnukraftur

Í gær sagði ég í bloggi að það yrði sjálfsagt ekkert bloggandi hér næstu dagana en þetta var bara þvílíkur dagur að ég get hreinlega ekki haldið mér saman. Það komu tveir smiðir til að vinna í dag og það voru engar smíðar. Mennirnir rifu gólf og grófu með haka og skóflu. Þeir víla svoleiðis ekkert fyrir sér þessir smiðir þó að vinnan fari aðeins út fyrir fagið. Að vísu reyndi ég að stjórna hakanum. Yngri smiðurinn sem er liðlega tvítugur er of ungur til að vita hvað haki heitir og til hvers verkfærið er. Hann veit það núna. Það voru teknar margar myndir og sjáum hvað þær segja.


Hér er Jóhann, sá rúmlega tvítugi. Panellinn er kominn út á bala, einangrunin í haug úti og þeir sem byggðu þetta hús notuðu mikinn veggjapappa, bæði undir og yfir einangrun. Síðustu pappaflygsurnar eru á leiðinni út.


Ef einhverjum dettur í hug að þessir menn hafi ekki unnið alveg á fullu í dag þá sannar þessi mynd hið gagnstæða. Jóhann er þarna búinn að þjóta út með pappann sem hann var að plokka upp á fyrri mynd og er þarna á leiðinni inn aftur -hreinlega á fullu.


Anders er þarna með fullt fangið af borðum sem við ætlum að nota til kyndingar. Hann fær hins vegar allan panelinn vegna þess að hann er lakkaður. Anders er með vatnsmiðstöð og kyndiklefa og því telur hann að það sé skaðlaust fyrir hann að nota lakkaðan panel til hitunar.

 
En við kyndum með kamínu sem er inn í íbúðinni, sést þarna til vinstri, og þess vegna notum við hvorki lakkaðan eða málaðan við.


Anders sækir þarna síðasta viðarbútinn sem borinn var út í dag áður en við fórum að grafa. Ég byrjaði daginn snemma til að við værum tilbúin þegar þeir kæmu. Og þegar þeir komu fór allt á fulla ferð. Þeir eru svo ósérhlífnir og duglegir þessir menn að það kom mér alveg á óvart. Ég hef aldrei kynnst slíkum vinnuhraða fyrr en þeir byrjuðu að vinna hjá okkur í fyrra, ég hélt bara að menn sem ynnu í tímavinnu gerðu ekki slíkt. Þegar klukkan var þrjú og þeir hættu var ég gersamlega búinn að vera. Svo settumst við inn í kaffi hjá Valdísi í bráðabirgðaeldhúsinu í nýju viðbyggingunni. Hún hafði hitað kanelsnúða og ósætt vínarbrauð í örbylgjuofninum þannig að það ilmaði dásamlega. Allir voru kátir og þótti kaffið gott og brauðið hjá Valdísi var þó best. Ég var mest kátur vegna þess hversu mikið hafði áunnist í dag. Á morgun kemur Anders og við steypum nokkrar undirstöður. Ég var orðinn svo hress eftir kaffið að ég fór með mestu gleði tvær ferðir til Örebro til að sækja sement. Þegar það var búið var Valdís tilbúinn með helling af góðum mat. Einn dagur á Sólvöllum er liðinn.


Það er hægt að segja að allt líti fremur óhrjálega út á myndunum ofan. Það gerði það líka undir nýbyggingunni þangað til ég var búinn að ganga þar frá öllu. Þá leit það svona út. Við litum þangað inn í dag þar sem nú er opið þangað inn frá svæðinu sem við rýmdum í dag. Þeim leist vel á og Jóhann hinn ungi sagði hvað eftir annað, mikið rosalega lítur þetta þrifalega út. Svoleiðis á það líka að vera.

Kannski er ég svolítið auðtrúa

Við höfum talað um að setja upp loftvarmadælu til að hita upp Sólvelli. Loftvarmadæla hefur marga mikla kosti en hún hefur líka einn mikinn galla. Hún er vélknúin og það heyrist ákveðið hljóð frá henni sem mér líst ekki nógu vel á. Margir segja að maður venjist því og hætti að heyra hljóðið. En hver segir að það sé allt í lagi að hætta að heyra það. Guðjón segir ekki ég. Þess vegna verður sennilega ekki sett upp loftvarmadæla á Sólvöllum, heldur byggt á góðri einangrun og viðarupphitun.

Við vorum spurð um daginn hvaða raflagnafyrirtæki ynni fyrir okkur. Þegar spyrjandinn heyrði það fengum við skilmerkilega að vita að þetta væri dýrasta raflagnafyrirtæki í allri Svíþjóð. Ég varð nú svolítið hissa og mér brá líka, en ég varð einnig ögn tortrygginn. Nei, þetta stemmir ekki hugsaði ég eina mínútuna og aðra mínutuna hugsaði ég sem svo að kannski væru þetta orðnir voðalegir okrarar. Gamall nágranni okkar inni í Örebro sem er rafvirki spurði okkur eitt sinn hvaða raflagnafyrirtæki við hefðum og þegar hann heyrði það sagði hann; já fyrirtækin hérna í Örebro eru mun dýrari þannig að þið gerðuð alveg rétt í því að ráða fyrirtæki frá Fjugesta. Okkur fannst gott að heyra þetta.

Stuttu eftir þessa heimsókn talaði ég við Patrik rafvirkja sem vinnur hjá okkur og veitir raflagnafyrirtækinu forstöðu. Þegar ég heyrði röddina fannst mér sem svo að þessi rödd hljómaði ekki eins og hjá manni sem gæti verið ósvífinn. Ég nefndi við hann hvort það væri til nokkur þumalputtaregla til að sjá út hvað það kostaði að leggja rafmagn í einbýlishús. Svo virtist ekki vera. Ég hugsaði sem svo að ef næsti reikningur færi yfir 28 000 kr yrði ég óánægður. Svo kom reikningurinn og hann var upp á 12 500 krónur. Þetta var ekki lokareikningur en gert ráð fyrir að 15 % stæðu eftir þangað til meira yrði unnið hjá okkur. Það er auðvelt að láta hafa áhrif á huga sinn ef maður er auðtrúa.

Varðandi loftvarmadæluna, þá hafði ég talað um hana við Patrik alla vega í ein þrjú skipti. Niðurstaðan varð alltaf sú sama að réttast væri að bíða og sjá. Síðast þegar við töluðum um þetta, og það var eftir að við heyrðum að þeir væru svona dýrir, sagði Patrik að hann væri jú umboðsmaður fyrir þessar dælur og ætti því að mæla eindregið með því að við keyptum eina slíka, en ég bara get ekki gert það hélt hann áfram. Þið hafið einangrað svo vel og vandað bygginguna og þið hafið viðarkamínuna þannig að ég get ekki mælt með því með góðri samvisku. Þið getið þá alltaf ákveðið ykkur síðar og þá verður ekkert vandamá að setja hana upp. Það verður bara að bora eitt gat gegnum vegg og rafmagnstengingin er þegar til staðar úti.

Fyrirgefðu Patrik að ég næstum trúði því að þú værir óttalegur okrari.

Pabbi Patriks er Anders sem nú er ellilífeyrisþegi en vann hjá okkur áður en hann hætti að vinna og þá var hann forstöðumaður fyrirtækisins. Anders hefur þegið margan kaffibollann hjá Valdísi, brauð með dönsku salamí og einnig ungverska gúllassúpu sem honum finnst mjög góð. Eitt sinn þegar við spjölluðum um ellilífeyri yfir kaffibolla sagði hann að konan hans hefði lítið unnið meðan börnin voru lítil og hún hefði ekki unnið fulla vinnu fyrr en á seinni árum. Þetta hefur áhrif á upphæð ellilífeyris í Svíþjóð. En hann sagði að konan hans hefði áhyggjur af því að hún mundi skaffa svo mikið minna eftir að þau færu á ellilaun. Svo sagði Anders eftirfarandi: En ég segi henni alltaf að peningarnir hennar og peningarnir mínir, það séu peningarnir okkar. Fallega sagt eða hvað?

Ég skrifa þetta til að viðurkenna að ég er svo ófullkominn að mér getur orðið á í messunni. Ef ég byggi á Íslandi og hlustaði á allan þann áróður og vélabrögð sem mér heyrist að þar sé í gangi held ég að ég yrði alveg geggjaður. Og ef ég gæti þjálfað mig í að heyra það ekki eins og sagt er með loftvarmadælurnar er ég heldur ekki viss um að það væri í lagi. Ég gæti trúað að ég mundi reyna að leysa málið með því að fara að hafa samband við kunningja og vini á sama hátt og gert var áður en sjónvarp tók yfirhöndina.

Já, þetta voru nú bar spekúleringarnar mínar í kvöld. Í fyrramálið kemur Aners smiður og eftir það verður lítill tími til bloggunar á næstunni en þeim mun meiri vinna.

Afi minn, viltu vera svo góður að . . .

Seinni partinn í gær og í gærkvöldi var ég þreyttur eftir að hafa gert ótrúlega lítið, undarlega þreyttur. Því lagði ég mig um hálftíu leytið og endilangur í rúminu hafði ég ekki einu sinni kraft til að lesa eitthvað gott. Rétt fyrir klukkan tvö í nótt vaknaði ég og fann strax að nú mundi ég ekki sofna strax aftur. Áhyggjur sóttu að mér og ég fór að trúa því að við færðumst of mikið í fang og það var ég sem var leiðtoginn í öllu saman. Ég vissi að þetta var þessi óraunveruleiki sem ég og svo margir aðrir geta lent í um miðja nótt og bara að gera sér grein fyrir því er til hjálpar. Eftir einhvern klukkutíma sofnaði ég aftur.

Rúmlega átta í morgun var ég að komast á hreyfingu móti nýjum degi. Enn var ég ekki alveg ánægður en tókst nokkurn veginn að hrista það af mér. Morgunverðurinn hjá okkur var seinn morgunverður og svona smám saman komst ég í sæmilega í gang. Ég gekk markvisst til verks við að halda áfram að tæma gamla húsið. Ég reif lausan stóran skáp sem tilheyrði bráðabyrgðainnréttingunni í eldhúsinu. Valdís gekk í gegnum það sem var á hillunum sem ég hafði tekið úr skápnum og dreift víða og að lokum var þessi skápur aftur kominn í gagnið til bráðabyrgða í nýbyggingunni. Þá var komið að ísskápnum/frystinum og aftur dreifði ég hillum og innihaldi víða og svo gekk Valdís í gegnum það. Og að lokum var ísskápurinn/frystirinn kominn í gagnið frammi í nýju forstofunni og Valdís meira að segja búinn að afþíða hann.

Inn í þessi verkefni blandaðist ýmislegt annað en ég var þó einhvern veginn ekki upp á mitt besta. Samt hafði ég lesið ýmislegt gott áður en ég fór á fætur því að ég er vel meðvitaður um að það er mikilvægt að næra andann líka. Allt í einu var tekið í annað eyrað á mér af einhverjum ósýnilegum krafti og ég leiddur út að austurglugga. Þar var ég hreinlega látinn líta út á móti skóginum. Það var aðeins farið að bregða birtu. Já, einmitt! Ég sem er oft að gorta af þessum skógi hef ekki verið þar í fleiri mánuði enda má segja að það hafi lengi verið ófært að taka sig í gegnum hann nema þá á skíðum. Samt eru fleiri dagar, næstum vikur, síðan það var komin brúkleg færð um hann.

Valdís! kallaði ég, ég ætla einn hring í skóginum. Svo lagði ég af stað og ég var ekki kominn nema rétt yfir brúna á skurðinum þegar ég fann að nú var ég að gera eitthvað mikilvægt. Ég kom að gamalkunnum eikarplöntum, rúmlega mittis háum, sem elgurinn át ofan af í fyrra. En sjáum nú til, nú hafa þær fengið að vera í friði. Þá ná þær nú að komast upp í þá hæð í sumar að líkurnar á að sleppa næsta vetur eru mikið meiri. Svo studdi ég mig upp við stórt grenitré sem hefur stækkað mikið síðan við keyptum Sólvelli og þá er ég að tala um næstum þrjátíu metra tré. Ég leit yfir slóðina sem ég hafði gengið og ég leit fram á við til að ákveða hvert ég færi næst. Ég var mitt á meðal kunningja minna.

Það var eitthvað svo ótrúlega magnað sem átti sér stað á þessari göngu minni og heimsókn til margra grænna kunningja. Ég varð allur annar maður og ég get einfaldlega ekki sagt það með öðrum orðum en þeim að ég varð alveg ótrúlega hamingjusamur. Og þegar ég kom til baka var sjónvarpið á og það voru að byrja fréttir. Þar voru sagðar svo góðar fréttir að ég varð ennþá glaðari. Þar var sagt frá nýrri aðferð sem unnið er að langt norður í landi við að gera tréflísar að kolum og voru þessi kol nefnd græn kol í fréttinni. Verið er að reisa stóra verksmiðju þarna norðurfrá og viðskiptavinir suður í Evrópu bíða bara eftir að framleiðslan hefjist. Með í fréttinni var þess getið að þessa aðferð verður væntanlega hægt að þróa út í það að framleiða einnig hráolíu úr þessum grænu kolum. Svo kom önnur frétt fast á hælanna á þessari og hún var þess efnis að tískuföt eru í vaxandi mæli framleidd úr endurvinnanlegum efnum. Jahérnanahér.

Nokkur síðustu árin sem ég var fastráðinn í Vornesi áttum við bíl, Renó clíó, sem var mjög sparneytinn. Bíllinn var allt of lítill fyrir mig í þessar ferðir en haltur og skakkur lét ég mig hafa það. Ég hins vegar var oft þessi síðustu ár búinn að lofa mér og Valdísi því að þegar ég yrði ellilífeyrisþegi og færi að aka minna skyldum við eignast rúmbetri bíl. Svo varð ég ellilífeyrisþegi, vann mikið og ók eiginlega ekkert minna. Samt eignuðumst við betri bíl og til að halda áfram að reyna að vera umhverfisvæn keyptum við bíl sem brenndi etanoli. Etanol er 85 % sérstakur spíritus og 15 % bensín og var talið mun umhverfisvænna og er talið enn.

Í dag eigum við bíl sem er líklega enn umhverfisvænni en etanolbílinn, en það er mjög sparneytinn díselbíll. Ótrúlega sparneytinn. Meðan ég var á skógargöngunni um dimmumótin gekk ég framhjá nokkrum trjám sem eru dæmt til að verða að eldivið við fyrsta tækifæri. Við höfum kynt mikið með við síðan við eignuðumst Sólvelli en vegna lítillar einangrunar á húsinu höfum við kannski ekki verið svo umhverfisvæn á þessu sviði. Nú stendur það til bóta þar sem við byrjum á mánudaginn kemur að auka einangrunina á síðasta hluta hússins okkar þannig að eftir það verður húsið einangrað all nokkuð meira en í meðallagi. Eftir það förum við að hita upp mjög umhverfisvænt.

Ég get alveg heyrt hann litla Hannes Guðjón nafna minn segja við mig: Afi minn, viltu vera svo góður að taka þátt í því að gera Jörðina okkar svo umhverfisvæna að ég geti seinna meir eignast fjölskyldu og lifað eðlilegu lífi án þess að eiga á hættu að fara illa í óhreinindum sem verða til löngu áður en ég get farið að hafa áhrif á það sjálfur. Þetta var fyrsta hugsunin sem greip mig þegar ég frétti að þessi drengur væri kominn nokkra mánuði á leið. Hin barnabörnin okkar eru komin á þann aldur að þau eru farin að, eða í þann veginn að fara að taka ábyrgð á þessu líka.

Núna er ég svo þægilega þreyttur að það boðar góða drauma þegar ég geng til fundar við Óla vin okkar Lokbrá. Það skeði kraftaverk í skóginum í dag og þess vegna verður það fyrsta verk mitt í fyrramálið að fara einn hring þar meðal vinanna minna grænu. Ég hlakka til að geta gengið þar um með honum nafna mínum og kynna þessa vini fyrir honum.

Leyndarmálið

Ég er eitthvað búinn að ía að því undanfarið að við séum að pukra með eitthvað. Valdís spurði mig fyrr í kvöld hvort ég ætlaði ekki að fara að segja frá síðustu kaupunum okkar. Og það er nú það, á ég þá ekki að eiga neitt leyndarmál? Nei, sannleikurinn er sá að það er svo lang einfaldast að eiga engin leyndarmál. Þá er hægt að sofa vel á nóttunni og eiga góðar stundir með Óla Lokbrá.

Jú, málið er nefnileg það að við keyptum nýjan bíl á þriðjudaginn var og þó að þetta að kaupa bíl sé orðið svo ótrúlega hversdagslegt, þá held ég að ég verði nú að kynna þennan bíl svolítið. Við áttum áður bíl sem heitir Ford focus C-max og eins og sjálfsagt allir vita fólksbíll sem er álíka hár að setjast inn í og óhækkaður jeppi. Þar að auki brennir sá bíll etanoli sem talið er umhverfisvænt. Sá bíll er sá besti sem við höfum átt fram til þessa.

En nú erum við komin á Ford focus C-max sem er með díselvél og hafi fyrri bílinn verið sá besti fram að þessu, þá er núverandi svo mikið betri að sá fyrri hverfur algerlega í skuggann. Nýi bíllinn er afar líkur þeim fyrri í útliti en eiginleikarnir eru hreinlega allt aðrir. Hann líður áfram á þann hátt að stundum er ég ekki viss um að hann sé í gangi og hann liggur á veginum eins og hugur manns. Það þótti mér líka með fyrri bílinn en hér er bara eitthvað allt annað á ferðinni. Hann brennir innan við fimm lítrum af dísilolíu á 100 km og er þess vegna viðurkenndur sem umhverfisvænn bíll. Því þurfum við ekki að borga af honum skatt fyrstu fimm árin og fleiri kostir fylgja í kaupunum. Eitt og annað fleira gæti ég talið upp en ég læt það vera. Nú er komið að sýningu á bílnum.


Nýi bíllinn okkar utan við Ford verslunina í Örebro. Við prufukeyrðum svartan bíl sem stóð við hliðina á þessum og við féllum umsvifalaust fyrir honum.


Engin orð þarf yfir þetta. Eitthvað svipað og í öllum öðrum bílum.


Hér er þokkalegt pláss fyrir fætur og ef miðsætið er fært langt aftur þannig að ekki sé hægt að nota það er hægt að færa hin tvö það mikið aftur að hægt er að teygja hressilega úr fótunum. En svoleiðis er það kannski orðið í fjölda bíla, hver veit? Ekki ég.

Að sleppa út englinum sínum

Fyrir um tveimur árum breyttum við miklu hér innanhúss í sambandi við að nýtt svefnherbergi, baðherbergi og þvottahús komust í gagnið. Þá fluttum við eldhúsið og settum upp nokkuð góða bráðabyrgða innréttingu. Snemma í fyrra var Valdís hjá Rósu og Pétri og vann þá að því að kynnast honum Hannesi Guðjóni. Á þeim tíma lauk ég við að ganga frá þessari bráðabyrgðainnréttingu eftir langa bið og ég eyddi meiri vinnu og efni í það en til stóð. Ég á ósköp erfitt að setja mér takmörk hvað svona lagað varðar.

Í dag er ég að byrja að rífa þessa innréttingu burt því að á mánudaginn kemur smiður sem ætlar að hjálpa mér að skipta um gólfið í gamla húsinu eins og það leggur sig. Eftir það verður gólfið af sömu gæðum og í þeim viðbyggingum sem við höfum komið upp. Tuttugu sendimetra einangrun í gólfinu, það verður ekki lélegt. Síðan lyftum við upp og endurbyggjum hluta af loftinu í þessum gamla hluta og eftir það er verður allt húsið sem nýtt. Einbýlishús upp á rúmlega 100 m2 með útsýni til lágra fjalla langt í vestri sem heita Kilsbergen, með skjólgóðan skóginn að baki húsinu og í skógarbotninum vaxa bláber, hindber og jarðarber sem smakkast svo ljúflega með rjómaögn eftir matinn á hlýjum sumarkvöldum.

En hvað er ég nú að skrifa. Það varð allt öðru vísi en ég hafði í huga þegar ég byrjaði. Og þó. Ég fékk í morgun e-póst frá honum Ove dagskrárstjóra í Vornesi þar sem hann spurði hvort ég gæti unnið með honum seinni hluta fimmtudags í næstu viku vegna þess að þá yrði allt annað ráðgjafalið á námskeiði. Ég sagði honum sem var að það gæti ég ekki þar sem ofangreind vinna mundi þá standa yfir og þá yrði ekkert annað gert af minni hálfu á meðan. Svo bætti ég við að við værum að byggja á þeim aldri sem svo margt fólk bara ætti orðið sitt húsnæði og byggi þar í ró og næði á eftirmiðdegi lífs síns.

En ég sagði líka að þegar þetta yrði tilbúið með vordögum eða snemmsumars kæmum við til með að fá góð ár að launum hér á Sólvöllum fyrir þann svita og blóð sem við hefðum fórnað fyrir þá góðu aðstöðu sem við hefðum komið okkur upp. En ég hafði með í þessu "ef Guð lofar" og "að við hefðum tekið þá áhættu að hann gerði það". Að þessu skrifuðu sendi ég e-póstinn til Ove og fór svo að vinna en var dálítið hugsi.

Þetta með blóð og svita minnti mig á frásögn sem ég las um daginn í bókinni hans Martins Lönnebo sem ég hef all oft minnst á áður. Þegar ég las þá frásögn tók ég hlé á lestrinum og reyndi að taka til mín boðskapinn og ég skynjaði hvað þessi frásögn bjó yfir miklum boðskap. Þegar ég hins vegar skrifaði línurnar til Ove var ég ekki í svo alvarlegum hugleiðingum en að skrifa þetta fékk mig þó inn á nokkuð æðri hugleiðingar.

Hinn aldraði Martin Lönnebo segir svo frá.

Yngri kunningi minn, góður Vasagöngumaður og prestur, horfði á rallykeppni. Einn bílanna rann til og kramdi barn til bana. Mamma barnsins stóð hjá, hvít eins og klakastólpi. Vinur minn, sem var sóknarprestur í söfnuðinum, áleit það vera skyldu sína að ganga til konunnar og segja einhver hughreystandi orð. Þegar hann kom til hennar og skynjaði örvæntingu hennar gat hann ekki sagt eitt einasta orð. Hann lagði arma sína utan um hana. Síðan stóðu þau þarna og biðu eftir sjúkrabílnum sem virtist aldrei ætla að koma. Hvað eftir annað reyndi hann að tala, en úr munni hans kom ekki eitt einasta orð. Við jarðarförina sagði konan við hann: Þakka þér fyrir prestur, þú bjargaðir lífi mínu. Blóðið var í þann veginn að renna úr líkama mínum, en þú stóðst þarna og hélst því eftir.

Og hvað segir maður svo? Það væri kannski best að segja ekki neitt. En þetta segir þó að nálægð, þó lítið eða ekkert finnist til að segja, er áhrifamikil -sterk, og virðist geta bjargað lífi. Ég fer gjarnan í vinnu í Vornesi þegar þar að kemur til að vera nálægur þegar maður eða kona í örvilnan leitar lífs og sátta og vill verða betri manneskja. Ég veit að þegar hún kemur þangað er hún einnig komin að sársaukamörkum en að komast að sársaukamörkum getur gert manneskjuna að einhverju afar verðmætu. Leiðin þangað er hins vegar mörgum þyrnum stráð. Síðan á endurfæðingin sér stað. Ég fæ jafnvel samviskubit í þau fáu skipti sem ég get ekki farið í Vornes til að vera nærstaddur þegar faðir eða móðir, systir eða bróðir, dóttir eða sonur vill sleppa út englinum sínum.



Aftur að húsinu því að nú er ég búinn að skrifa það sem bærðist í huga mér í dag. Við erum að flytja allt úr eldhúsinu og stofunni, sem hvort tveggja er í gamla hlutanum, inn í nýtt stórt herbergi og nýja forstofu. Því verki þurfum við að hafa lokið fyrir mánudag. Í dag tók ég stól og settist niður í nýja herberginu og reyndi að fá tilfinningu fyrir því hvað það mundi bjóða upp á þegar öllu þessu umstangi verður lokið. Ég er áður búinn að giska á hvernig það verður en núna var ég frekar að athuga það í reynd. Það kemur nú til með að bjóða upp á góða hvíld fyrir þann sem þarf á hvíld að halda. Á aðra hönd horfði ég út í skóginn og hugsaði mér vormorgun þegar sólin er að koma upp bakvið veltigrænt laufþykknið skammt austan við húsið. Svo sneri ég stólnum ögn, leit til vesturs, og hugsaði mér Kilsbergen í birtuflóði morgunsólarinnar. Jú, það verður gott að hvílast í þessu herbergi.

Hlutirnir riðlast

Hlutirnir fara ekki alltaf eins og ætlað er og meira að segja ekki hjá mér. Eftir að ég kom heim úr vinnunni í fyrradag, sunnudag, hugsaði ég um framhald byggingarvinnu og skipulagði mánudaginn, gærdaginn. Ég vandaði mig við þetta og gekk í gegnum það hvað eftir annað. Svo byrjaði ég undirbúning. Í gærmorgun lá ég á bakinu í volgu rúminu, horfði upp í loftið og gekk í gegnum þetta einu sinni enn. Gluggaáfellurnar runnu gegnum hendurnar á mér ein eftir aðra og svo grunnmálaði ég þær. Síðan byrjaði ég að setja þær upp. Þetta verður stór dagur hugsaði ég og setti vinstri fótinn yfir rúmstokkinn og þá var klukkan átta. Áður en fóturinn náði niður á gólfið hringdi síminn fram í borðkróknum.

Nei, nei, nei, hugsaði ég, þetta má bara ekki vera Ove. En það var mikið verra. Það var sjálf Birgitta. Það var ennþá alvarlegra enda kom í ljós að hún hringdi vegna þess að Ove var slæmur í maga. Ekki bætti úr skák að konan sem átti að vinna kvöldið var með sama sjúkdóm. Allt þetta varðaði Vornes. Hvað gerir maður þá? Eftir tregt samtal við mig ákvað Birgitta að tala við Finnan Jorma sem er líka ellilífeyrisþegi. Ég sagði henni þó að ef það gengi ekki skyldi hún hringja aftur. Svo hringdi hún aftur. Jorma var með flensu. Svíar geta ekki og Finnar geta ekki og þá gengur auðvitað hnarreistur Íslendingur fram á leikvanginn. Vornes er svolítið eins og leikskóli þar sem margir mætast og eru nálægt hver öðrum og umgangspestir eiga auðvelt með að ráða húsum.

Valdís stappaði í mig stálinu og sagði að við yrðum bara fegin þegar reikningarnir yrðu borgaðir í næsta mánuði. Hún sagði að það færi vel um sig eina heima með saumana sína ásamt lestri og sjónvarpi. Húsið mundi klárast samt sem áður. Svo lagði ég af stað í Vornes eftir að við höfðum farið til Fjugesta í verslunarerindum. Sagarblaðið var alla vega keypt og það var forsenda fyrir vinnunni sem ég hafði skipulagt í smáatriðum.

Eins og ég hef oft sagt áður er gott að koma í Vornes -sem betur fer. Þar er fólk sem getur litið í eigin barm, fólk sem vill verða betri manneskjur, fólk sem getur unnið úr krítik, tekið góðum ráðum, fólk sem á sér ósk um að verða betri manneskjur. Það tekst ekki öllum en mörgum og þeir sem ekki ná alla leið losna fæstir við Vornes úr lífi sínu framar. Að hugsa sér ef ráðamenn gætu tileinkað sér þessa eiginleikana, eiginleikana sem fólkið á sem hefur komið að ystu sársaukamörkum í lífs síns. Og svo eru margir sem líta niður á þetta fólk. "Sá yðar sem saklaus er kasti fyrsta steininum" var sagt fyrir 2000 árum.

Nú er orðið nokkuð áliðið kvölds og ég er á leiðinni að skipuleggja á ný það sem riðlaðist í gær. Það eru sömu verkefni og sömu handtök og það er bara að virkja á ný það sem ég var búinn að undirbúa fyrir gærdaginn. Ég hlakka til að ná upp í nótt þeim svefni sem ég tapaði síðastliðna nótt og kannski ætti ég að setja hinn fótinn framúr fyrst í fyrramálið ef það gæti komið í veg fyrir að það verði einhver veikur í Vornesi. Í dag áttum við erindi til Örebro en skýrslugerð um það verður skotið til framtíðar. Eitthvað verðum við að hafa út af fyrir okkur líka.
RSS 2.0