Blandað efni

Mig minnir að það hafi verið 1985 sem við eignuðumst tölvu. Hún var sett saman á Íslandi og var kölluð Atlantis. Ég var fyrstu árin eftir það sæmilegur við að bjarga mér með stýrikerfi og því um líkt en síðan dalaði sú kunnátta mín og varð að engu. Nú get ég notað tölvu ef allt er í lagi, það er að segja ég get farið inn á Facebook, ég get bloggað, borgað reikningana okkar, notað ritvinnslu og eitthvað fleira. En ef eitthvað ekki virkar rek ég bara upp ramakvein en það hjálpar ekki nokkurn skapaðan hlut nema ef Rósa dóttir mín heyrir kveinið.

Einn sænskur Facebookvinur heitir Markku. Eins og nafnið ótvírætt gefur til kynna er hann finnskur. Markku er mikill áhugamaður á allt sem viðkemur samskiptum á tölvum og hann hefur að atvinnu að leiðbeina fyrirtækjum rekstrarlega. Í gær gerði hann Apple að umræðuefni á Facebook og ég mátti til með að kommentera, ekki sem spekingur, en ég gat hins vegar sagt honum að við ættum orðið iPad frá Apple. Hvað iPad er get ég ekki útskýrt, en við fengum þennan grip að gjöf frá Ford þar sem við vorum svo snögg að kaupa nýja týpu af Ford C-max, en þeim var í mun að koma þessari týpu af Ford sem fyrst á götuna.

Markku svaraði þessu á þann hátt að ég varð svolítið grobbinn. Hann sagði: "Þetta er jú frábært Guðjón! Þú bloggar, bæði á íslensku og sænsku, þú ert þátttakandi á Facebook, fylgist með á Íslandi "á öllum sviðum" á netinu og nú hefurði tekið skrefið inn í plötunnar (iPad) heim. Þú hefur staðsett þig rangt tölfræðilega;) Á þínum aldri á maður varla að hafa aðgang að Internet. Þér sé heiður..." Markku les íslenska bloggið mitt með því að þýða það á ensku með þýðingarforriti sem hann finnur á Google og eftir það á hann létt með að lesa það.

Samt skal ég nú viðurkenna að ég geri einungis það einfaldasta á FB og svara ekki öllu sem mér er sent. Það er ekki af því að ég er félagsskítur, heldur vegna þess að ég vil ekki flækja mig inn í eitthvað sem er tímafrekt. Það tekur tíma að blogga en hvers vegna ekki. Ég er einmitt nýlega búinn að blogga um að það sé hægt að þjálfa sig í því að blogga, að skrifa. Það ske líka skemmtilegir hlutir í því sambandi. Ég hef verið upphringdur af fólki sem ég ekki þekki en vill þó segja mér frá því að það lesi bloggið mitt og hvetur mig til að halda áfram. Ég fæ líka öðru hvoru e-póst af sömu ástæðu. Auðvitað hefur Guðjón ellilífeyrisþegi gaman að þessu.

Ég heyrði í morgun brot af svo athyglisverðu samtali við Ingvar Carlsson fyrrverandi forsætisráðherra og formann sænska Alþýðuflokksins. Mér fannst þetta svo athyglisvert að ég leitaði þáttinn uppi á tölvunni núna í kvöld til að hlusta betur á hann. Ég hlustaði af kostgæfni og horfði á þennan mann sem er trúlega vel á áttræðis aldri og fannst sem ég sæi vel á honum að eftirlaunaaldurinn væri honum gjöfull. Mér fannst það lofa mér góðu ef ég held áfram að ávaxta pund mitt sæmilega. Mér fannst hann bera þetta svo augljóslega með sér. Ingavar tók við af Olof Palme sem hér hefur vrið minnst látlaust í allan dag þar sem það eru 25 ár liðin frá því að hann var myrtur.

Sænski Alþýðuflokkurinn tók við af hægri flokkunum eftir mikið bankahrun í byrjun tíunda áratugarins. Þetta bankahrun, kreppa, var allt að því jafn alvarlegt og hið íslenska. En það er einn regin munur á þessum tveimur kreppum og munurinn er sá að sænsku bankarnir höfðu lánað allt of mikið fé til ungs fólks til húsbygginga og hrundu þess vegna. Íslenska kreppan er hins vegar afleiðing af því að menn offjárfestu glæfralega og stálu þar að auki peningunum í svo ótrúlegum mæli. Fasteignir Svíanna stóðu áfram þrátt fyrir kreppuna. Það virðist hins vegar ganga erfiðlega að fá stolna féð til baka.

Við gripum til afskaplega sársaukafullra sparnaðaraðgerða (niðurskurðar), sagði Ingvar, í staðinn fyrir að taka lán fyrir ríkisútgjöldunum. Þess vegna þarf ungt fólk í dag ekki að borga lánin sem við tókum þá. Við skiluðum af okkur afar góðum fjárhag 2006 og í dag gorta Svíar sig af sænska efnahagsmódelinu, sem er ávöxtur sársaukafullu aðgerðanna 1994 og árin eftir það.

Þessar sársaukafullu sparnaðaraðgerðir með uppsögnum, erfiðleikum, atvinnuleysi og hatri á þeim sem stjórnuðu, áttu sér stað fyrsta árið sem við Valdís bjuggum í Svíþjóð. Göran Persson varð aðallega fyrir hatrinu en í dag eru Svíar þakklátir fyrir góðan efnahag. Ég er ekki stjórnmálamaður en það virðist vera svo að endurreisn upp úr kreppu sé vætt í tárum. Við Valdís vorum heppin. Svartnes lokaði eftir að við höfðum verið hér í eitt ár -en viti menn; við fengum bæði vinnu þrátt fyrir kreppuna

Ég ætla ekkert að segja hér frá ferð okkar til Örebro seinni hluta dagsins að öðru leyti en því að það kemur við veskið manns að fara í gleraugnaleiðangur. Og mikið voru þessar konur hjálplegar sem stjönuðu við mig og ekki fengu þær mig til að finnast sem ég væri kominn á efri ár. "Horfðu með föstu augnaráði á nefið á mér meðan ég mæli fyrir ljósopunum" sagði sú sem var nýráðin. Svo horfði ég með föstu augnaráði á fallega nefið á henni og hugsaði sem svo að það væru margir búnir að skoða það í dag.


Kommentarer
Markku

Spännande Gudjon. Alltid intressant att läsa din blogg.

2011-03-01 @ 13:26:33


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0