Valborgarmessa

Í dag er Valborgarmessa sem jafnast eitthvað á við síðasta vetrardag eða sumardaginn fyrsta á Íslandi, en ég skal viðurkenna að ég veit varla hvernig þetta er hugsað hér. Hins vegar segir fólk hér ekki gleðilegt sumar. Það eru haldnar brennur víða, eða þannig að fólk brennir hrís og greinar sem fellur til við klippingu runna og trjáa og það sem til fellur þegar fólk rakar lóðina sína eða garðinn. Síðan brennir fólk burt veturinn. Kórar syngja gjarnan og stjórnmálamenn halda tal. Þannig lítur það út en við Valdís erum heima.

Við höfum aldrei brennt hrís eða greinum á Valborgarmessu. Það bara hefur ekki passað við daginn og svo er það hjá mörgum. Fólk brennir gjarnan seinna. Í ár brennum við engum greinum þar sem við höfum tvær gryfjur út í skógi sem taka við öllum greinum sem til falla í ár og hafa gert nokkur fyrri ár. Ekki veit ég af hvaða ástæðu þessar gryfjur eru þarna en við höfum tekið þá ákvörðun að telja þær ekki hafa menningarlegt gildi. Í gær, föstudag og á miðvikudaginn var, felldum við samtals tólf tré. Að hluta til voru þau fellt til að hafa í eldinn eftir tvö ár en eignlega voru þau meira felld í grisjunarskini. Í nefndum gryfjum verður mikið góður jarðvegur innan fárra ára. Við köstum líka kalki í þær öðru hvoru.
 
Það er snarvitlaus tími til að fella tré núna en ég tók til mín orð fyrrverandi vinnufélaga á mínum aldri sem sagði að ef maður getur af einhverri ástæðu ekki fellt tré á réttum árstíma, þá fellir maður þau þegar maður hefur tíma. En þá verða þau líka seinna tilbúin sem eldiviður. Ég ætla að taka stund og stund í að afgreina þessi tré og bera greinarnar í gryfjurnar. Síðan bindum við vonir við að Rósa og Pétur verði okkur innan handar við að koma viðnum heim. Við erum að vísu að laga til í kringum okkur eftir byggingarhamagang vetrarins, en málið er þó að byggingarframkvæmdirnar eru enn í gangi og það liggur mikið við. Það þarf að sparsla, mála, leggja parkett og setja síðan upp eldhúsinnréttingu.

Þetta verður að komast í kring áður en konan sem hefur fylgt mér í fimmtíu ár gefst upp á mér. Ég er að vísu nýbúinn að kaupa góðan blómvönd, en góðir vendir geta ekki bjargað mér fyrir horn endalaust. En í fullri alvöru; málarinn kemur á þriðjudaginn. Tiltektin varð ekki umflúin og það vorum við sammála um. Í staðinn réðum við málara. Ég er búinn að nota talsverðan tíma til að naglhreinsa borðvið sem var undir einangruninni í gamla gólfinu, saga hann niður í lengdir og kljúfa. Síðan er ég búinn að raða megninu af þessm við undir þak og síðan er hægt að taka hann og kynda með hvenær sem er. Það er kannski spurning hvort það er dyggð eða bjálfaháttur að eyða vinnu í þetta. Ég vel þó að nora orðið dyggð. Við viljum fara vel með. Það hefði líka verið hægt að flytja þetta allt á næstu endurvinnslu, með nöglum og í einni voðans óreiðu. Síðan hefði því verið brennt með nöglum í kraftverkinu í Örebro sem kyndir upp allt Örebrosvæðið. Mér finnst það næstum villimannlegt ef við brenndum hér heima ónaglhreinsuðum eldiviði. Allan gamla panellinn utan af gamla húsinu fluttum við naglhreinsaðan á endurvinnsluna í Örebro. Hann var allt of mettaður af málningu til að nota sem eldivið heima. Dyggðir er hægt að iðka á margíslegan hátt.

Í gærmorgun sá ég að fæðingin varkomin af stað. Ég reiknaði með að ég mundi líta barnið þegar ég kæmi á kreik í morgun. Svo þegar ég kom út í morgun var það alls ekki svo. Það var bara rétt að byrja að sjást í höfuðið og svo var það enn þegar rökkrið settist að nú í kvöld. Hvað er nú maðurinn að fara? Jú, ég er að tala um beykið sem er byrjað að springa út. Það er spennandi tími. Ég hélt að þessi ótrúlega fallegu, litlu blöð mundu opnast í dag, en svo varð þó ekki. Ég kenni um þurrum jarðvegi eftir tveggja vikna hita og það verður varla um annað að ræða en við Valdís stígum regndansinn á lóðinni á morgun þann 1. maí.

Ungir menn

Árið 2009 hittumst við í Skógum meiri hluti nemenda sem útskrifuðust frá Skógaskóla árið 1959. Eitt og annað hafði fólk með sér til að sýna hvert öðru og þá sá ég hjá henni Soffíu skólasystur minni mynd af mér og öðrum ungum manni, mynd sem ég á ekki sjálfur hvernig sem á því nú stendur, en hins vegar kannaðist ég við tilurð myndarinnar þegar ég sá hana. Sennilega hef ég týnt mínu eintaki. Svo hittumst við all mörg úr þessum hópi aftur í Perlunni einn laugardagseftirmiðdag í byrjun apríl þegar við Valdís vorum í Íslandsferð okkar. Um það bloggaði ég á sínum tíma og birti myndir. Þá bað ég um að fá myndina senda í tölvupósti. Svo í morgun þegar ég leit í tölvupóstinn var myndin komin. Það var stórgóð byrjun á degi fannst mér þegar ég virti þessa mynd fyrir mér og hugsaði hálfa öld til baka og minnast lífsins eins og það var þá. Síðan ákvað ég að nota þessa mynd á bloggið og láta hugann fljúga um löngu liðin ár. Og þó, kannski væri bara best að nota þessa mynd á jólakort um næstu jól :) Eða hvað? Ég á fullt af öðrum myndum til að nota á bloggið mitt.


Til dæmis þessa hér. Við systkini mín nokkur sem nálæg voru á höfuðborgarsvæðinu og systur Valdísar ásamt mágum og mágkonum hittumst í Perlunni, einnig í sömu Íslandsferð, og áttum þar saman síðdegisstund yfir brúnni tertu. Það er svolítill munur á okkur Valdísi konu minni á þessari nýju mynd eða var fyrir hálfri öld. Ég verð þó að segja að mér finnst ég ekki gamall og ef ég er ekki að elta það sem síður er hef ég mikið með það að gera hversu gamall mér finnst ég vera. Svo held ég að útlitið fari eftir sömu hugsun. Ég tel þetta góða heimspeki og ég gæti vel sagt nokkur dæmi um það að mér finnst ég ekki vera gamall. Ég er ánægður með útlit okkar á þessari mynd.


Hérna erum við tveir Kálfafellsbræður, reffilegir kallar eða hvað, og það er Páll bróðir sem ræðir málin við Valdísi. Ég á fleiri myndir af þessum tertufundi í Perlunni þann 13. apríl og mun nota eitthvað af þeim á næstunni.

En heyrðu, myndin sem ég talaði um í byrjun hefur slæðst hérna með. Alveg merkilegt!


Hér eru tveir brilljantíngreiddir menn í byrjun vetrar 1959. Sjáið ártalið. Svona litu ungir menn út á þeim árum. Hvað ætli nútíma unglingum þyki um þessa mynd? Ég man það örugglega að það var mikilvægt að þessi mynd tækist vel. Ekki man ég hvað mér þótti til um hana þá, en í dag finnst mér hún vera alveg frá bær. Það er Björn vinur minn Jóhannsson úr Reykjavík sem er þarna til vinstri með mér á myndinni. Ég er feginn að þessi mynd hefur varðveitst og að hún hefur borist til mín á ný. Ég var svo búinn að steingleyma að hún hefði verið tekin

Það voru stórir draumar um lífið á þessum árum og ég man vel að ég ætlaði að nota mína bestu hæfileika til góðs bæði fyrir mig og mannkynið. Allt fram undir það að þessi mynd var tekin ætlaði ég að verða læknir. Síðan hefur runnið mikið vatn til sjávar, lífið varð ekki eins og draumarnir höfðu stefnt að og aldrei varð ég læknirinn. En þegar ég nú lít yfir farinn veg græt ég ekki og margt gott og nytsamt hefur áunnist sem ekki var með í draumunum. Skólaárin voru góð ár og lífið var forvitnilegt og spennandi, strákarnir góðir og hressir félagar og skólameyjarnar svo fallegar að það gat verið erfitt að einbeita sér að fullu námi.

Ég er enn að læra og ætla að halda því áfram enn um sinn. Í hvert skipti sem ég les góða setningu, staldra við og hugleiði hana er ég að læra. Í hvert skipti sem ég hitti manneskju sem hefur áhrif á mig er ég að læra. Í hvert skipti sem ég fer í vinnuna og heyri sjálfan mig allt í einu segja eitthvað sem kemur mér á óvart finn ég að ég hef lært eitthvað nýtt. Lífið verður lærdómsríkt og spennandi svo lengi sem ég einbeiti mér að því að gera gott úr því.

Á páskum

Það var ekki lélegur páskamaturinn hjá henni Valdísi. Léttreyktur lambshryggur sem var það keyptur í Fjarðarkaup fyrir rúmri viku. Það eru nú ein 17 ár síðan við höfu lagt okkur þann veislumat til munns. Og ekki var eldhúsaðstöðunni til að dreifa við matargerðina í dag. Innréttingin liggur snyrtilega uppstöfluð á miðju stofugólfinu og þar fær hún að vera þangað málarinn hefur lokið við sitt. Eftir málningarvinnuna verður parkettið lagt á með hraði og svo kemur hann Lennart nágranni og við ætlum að hjálpast við að setja upp innréttinguna -líka með hraði. Ef til vill verður hann með mér í parkettinu líka. En hvað um það; ég skulda Valdísi stóran blómvönd núna. Hún hafði að vísu eldavél en bara pínulítinn skáp við hliðina á henni. Það voru öll þægindin.

Á fimmtudagsmorguninn var ég snemma úti áður en ég fór í vinnuna og vatnaði nýfluttum heggum. Spætan trommaði fínlega inn í skóginum og dreymdi fallega drauma um elskuna sem mundi bráðlega falla fyrir biðilshljóðum hans. Væntanlega hefur hún komið því að trommuhljóðin hafa varla heyrst síðan. Fjöldi söngradda barst líka innan úr skóginum og frá næstu trjám og allar þessar raddir virtust syngja um ástina. Niður á gamla túninu vestan við veginn sást í löng eyru hérans standa upp yfir bunguna á túninu. Ég held bara að hann hafi verið ástfanginn líka. Veðrið var frábært. Frá þessu fór ég í vinnuna.

Í gær heilsaði Broddi upp á mig út í skógi en nokkrum tímum áður slengdist lítill snákur á ótrúlegri ferð ufir veginn framan við bílinn. Ég hélt að ég mundi keyra yfir hann og fór út til að gá. Enginn snákur var sjáanlegur og því var ég saklaus. Í dag var ég úti í skógi að skoða skógarsóleyjarnar og allt í einu þeyttist lítil slanga ótrúlega snöggt inn í grastopp og sást svo ekki meir. Mér dauðbrá en slangan faldi sig með þessum ótrúlega hraða vegna þess að hún var mikið hræddari við mig. Víst væri sárt að verða bitinn af höggormi en hættan á því er þó mikið minni en að ég fái nagla upp í fótinn á byggingarsvæðinu sem enn svo lengi er til staðar sums staðar við húsið. Ég fékk nokkrum sinnum nagla upp í fótinn sem stráklingur og vont var það en þau sár greru þó öll um síðir. Það er ósnortin náttúra að hafa slöngur fyrir granna en þó best að hafa þær í hæfilegri fjarlægð frá húsinu.


Hún Sigríður Pálsdóttir skólasystir mín frá Skógum spurði í morgun hvort skógarsóleyjar séu til á Íslandi. Satt best að segja hélt ég að svo væri. Ég leit í Skrúðgarðabókina sem ég las bæði áfram og aftur á bak í Hrísey meðan ég var á bólakafi í skrúðgarðadellunni. Þar kom fram að mögulegt sé að rækta skógarsóleyjar í steinabeðum en ég fékk ekki skilið af lestrinum að skógarsóleyjar vaxi viltar á Íslandi. Á sænsku heita þær vitsippor og um þær hafa verið gerð mörg ljóð. Ég held að Roland Cedermark syngi um vitsippuna og spili undir á harmonikku. Ég fann það þó ekki en set hér með einn hlekk um nokkuð allt annað. Það er enginn páskaboðskapur en sýnir hvað fólk gerir til sveita í Svíþjóð sér til tilbreytingar.

http://www.facebook.com/l.php?u=http%3A%2F%2Fgoo.gl%2F0Ytu1&h=ef737



Stóra Sólvallaeikin er byrjuð að opna brumin og þegar hún fer af stað skeður mikið.


Ung beyki fella ekki haustlaufið fyrr en við laufgun árið eftir og hér gefur að líta eitt slíkt tré. Ég fylgist grannt með beykinu og ætla að vera með um laufgunina því að nýútsprungin beykiblöð er alveg ótrúlega falleg.

Hér með er kominn háttatími fyrir þann sem ætlar að vakna korter fyrir sex að morgni.

Broddi

Hún Þórlaug stórvinkona okkar spurði um daginn hvort ég ætlaði ekki að sýna myndir úr Sólvallaskóginum. Nú hef ég verið að vinna alla daga þessa viku og sannleikurinn er sá að ég hafði engan kraft afgangs til að taka myndir eða blogga. Í vikulokin, í gærkvöldi, var ég bara búinn að vera. En nú er það svo að við þurfum að gera skattaskýrslu og undan því verður ekki komist. Í gærkvöldi var skattasýrslukvöld og ég var farinn að dotta yfir tölum yfir byggingarkostnað sem Valdís las upp og ég tikkaði inn á farsímann sem var reiknivél kvöldsins.

Ég veit að ég sofnaði rétt um klukkan ellefu. Einhvern tíma í nótt vaknaði ég vegna þess að ég var alveg í spreng. Þegar ég kom til baka í rúmið alveg grútsyfjaður birtust mér tölur frá kvöldinu og allt í einu fékk ég áhyggjur af peningum. Þetta var í óraunveruleika næturinnar og þegar ég vaknaði rétt um klukkan níu var raunveruleikinn tekinn við og peningaáhyggjur voru foknar út i hafsauga. Búinn að sofa í tíu tíma hugsaði ég, og var makalaust hissa. Þá hef ég verið þreyttur kom ég fram til. Þá var bankað á útihurðina. Ég fór í buxurnar á flugi og setti skyrtuna yfir herðarnar.


Þegar ég kom fram að útihurðinni sá ég að hún Stína nágranni var komin með systurnar Siw tveggja ára til vinstri og Ölmu til hægri og hún er oðin stærðar stelpa, fimm ára. Og með þeim var amma frá Dalsland sem var í heimsókn. Nú voru Siw og Alma svokallaðar páskakerlingar, málaðar og færandi heimagerð páskakort. Við slík tækifæri á fólk að eiga sælgæti. Þegar þær tóku varlega eina og eina karamellu úr fötu hjá Valdísi fannst Valdísi það ganga of hægt. Hún tók því fulla hnefa úr sælgætisfötunni og setti í körfuna hjá systrunum. Þá sagði Stína mamma að Valdís væri klikkuð eins og venjulega. Svo var voða gaman og þessar fjórar konur héldu af stað í átt að næsta húsi þar sem þær auðvitað bönkuðu upp á.

Það var gott að vakna svona og nú var bara að borða morgunvderð og svo drifum við okkur inn til höfuðstöðvar Mammons í Marieberg þar sem við keyptum eitt stykki eldhúsinnréttingu. Hjálplegt var fólkið þar, menn og konur frá unga aldri upp til fólks á miðjum aldri. Svo héldum við heim á leið með minningar um mörg bros og eldhúsinnréttingu á kerrunni. Meðan ég bar inn bakaði Valdís pönnukökur og svo borðuðum við pönnukökur með rjúkandi kakói. Namm, namm. Á morgun verður væntanlega annar í pönnukökum.

En nú komum við að myndunum sem ég ætla að sýna henni Þórlaugu. Ég fór út með myndavélina en Valdís var líka búin að taka myndir í þessu skini í vikunni. Þegar ég stóð við hlyn hérna bakvið húsið heyrði ég skrjáfa í lyngi fyrir aftan mig og hvað gat það nú verið? Það var nokkuð alveg óvænt sem ég segi ekki meira um í bili.


Þessa mynd tók Valdís af skógarsóleyjarhafi í vikunni. Ég vona að þær komi sæmilega út þegar ég birti bloggið, en það er ekki svo auðvelt að ná góðri mynd af svona breiðu af smáum blómum.


Hér er svo nærmynd sem Valdís tók líka. Þessi snyrtilegu blóm brosa svo ótrúlega fallega á hlýjum sólskinsdegi og þær eru svo indæll vorboði.


Hér er hlynurinn sem ég var að mynda þegar ég heyrði einhvern vera að snuðra fyrir aftan mig. Hlynurinn myndar blómin fyrir laufgunina en blómin eru þó svo mörg að tilsýndar er hann búinn að fá á sig daufan grænan lit. Þegar blöðin svo eru fullvaxinn eru þau um 15 sem í þvermál. Þá myndar krónan skemmtilegt þak þegar staðið er undir henni.


Hér gefur að sjá útsprungið brum á hestkastaníu eins og það leit út í dag.


Hér eru frælengjur á hengibjörk. Þessa keyptum við fyrir einum þremur eða fjórum árum og nú virðist hún vera fullbúin að fjölga sér og það í ríkum mæli. Eins og vel sést er stofn stærri trjánna nakinn langt upp vegna þess að þegar við komum hingað var skógurinn allt of þéttur bakvið húsið og of mikið greni í honum líka. Nú eru sjálfsánar plöntur og plöntur sem við höfum gróðursett að byrja að fylla vel upp í þetta. Þegar við höldum upp á 75 ára afmælin okkar með opnu húsi í heilt sumar verður skógurinn orðinn mikið fallegri en hann er í dag. Það tekur tíma að gera skóginn sinn fallegan.


Hér er aftur venjuleg björk sem stendur á vesturmörkum lóðarinnar við veginn. Þannig lítur það út í dag. Sé horft á hreinan birkiskóg er han orðinn all grænn en í skógi eins og hjá okkur sem er mjög blandaður er græni liturinn ekki orðinn ráðandi þar sem til dæmis eik er aðeins sð byrja að springa út. Öspin er sein og askur ennþá seinni. Askur laufgast seinast allra lauftrjáa hér og fellir laufið fyrstur. Beykið er í þann veginn að springa út og því fylgist ég vel með. Við horfum mikið á einstaklingana og ekki bara skóginn. Að fylgjast með einstaklingunum gerir vorkomuna svo mikið stórkostlegri, skemmtilegri og meira spennandi.

Að lokum komum við svo að honum sem snuðraði í bláberjalynginu á bakvið mig áðan. Það var reyndar hann Broddi.


Það best ég veit er það mjög snemmt að broddgeltir skuli vera komnir á kreik en það skal ég kynna mér. Þessi friðsælu, sérkennilegu dýr sem ekki hafa breytst í hundrað miljón ár eða hvað það nú er, eru velkomin alls staðar. Ég sótti Valdísi og þegar við gengum að honum varð hann bara að jafnri kúlu. Svo þegar við stóðum kyrr hjá honum lyfti hann höfðinu og leit upp til okkar. Það var eins og hann vildi sjá framan í okkur.

Í dag hefur verið um og aðeins yfir 20 stiga hiti. Vikan hefur öll verið hlý. Þessi hlýja vorkoma er mjög snemma á ferðinni. Veðurspáin gerir ráð fyrir þessu veðri áfram.

Einu sinni á ævinni

Ég sagði fyrsta vorið hér í Svíþjóð að allir ættu að eiga kost á því að upplifa slíkt vor að minnsta kosti einu sinni á ævinni. Þetta lætur kannski ekki vel í allra eyrum því að víst er íslenska vorið fallegt og ég man þá daga að þegar ég fékk fara á stuttbuxurnar í fyrsta skipti á vorin var lífið fullkomið. Hreint alveg fullkomið. En í landi þar sem bókstaflega allt verður grænt annað en stöðuvötn og mannvirki og mikið verður blómum vafið á nokkrum vikum, þá gefur það auga leið að það skeður gríðarlegamikið á þessum vikum. Þetta tímabil er vel byrjað núna. Bjarkirnar eru sprungnar út að miklu leyti en laufblöðin eru lítil ennþá. Heggurinn er sprunginn út, hestkastanían er byrjuð að opna brumhnapparna, hlynurinn er að byrja og skógarbortninn verður hvítari og hvítari af skógarsóleyjum fyrir hvern dag sem líður. Svo gæti ég haldið áfram.

Þetta er stórkostlegur tími. Hún Pía veðurfræðingur sagði áðan að það kólnaði heldur á föstudaginn langa en samt á þá að verða 14 til 16 stiga hiti. Það er spáð hlýjum páskum og ég sé fyrir mér hvernig það verður í vikunni eftir páska, en þá fer maður að freistast til að halda að nú sé þetta að verða um garð gengið. Svo er þó ekki. Þá verður veislan bara vel komin af stað og mun halda áfram lengi eftir það. Undrið verður aldrei að vana, það er ennþá sama undrið eftir 17 vor hér og nú er það átjánda gengið í garð.

Sumarveður

Mikið var þetta kvöld fljótt að líða. Fyrsti vinnudagur minn síðan í byrjun febrúar og fyrsti dagurinn þegar hitinn fór í 20 stig. Og svo var kvöldið þetta notalega kvöld þegar maður vill bara halda áfram að vera úti alveg fram í myrkur. Í gærkvöldi fluttum við tvo hlyni út úr skóginum eins og ég hef sagt áður. Eftir að ég kom heim í dag fluttum við einn hlyn til, rúmlega fjögurra metra háan. Valdís réði sér ekki í dag. Hún rakaði laufi og hrísi  af stórum hluta af lóðinni og þegar ég kom heim sat hún úti með handavinnuna sína. Þetta er búinn að vera frábær apríldagur og spáin fyrir næstu daga er sú sama. Á miðvikudag í næstu viku á síðan að verða kaldara, spáð sjö til níu stiga hita. Bjarkirnar eru að springa út í lauf og hlynirnir eru að verða all grænir ásamt ýmsu fleiru sem er á fullri ferð. Tún og haustsánir akrar eru hvanngræn og bændur vinna hörðum höndum að vorsáningunni. Búið er að setja upp viðvörunarskiltið "Trönur" í Leppe en þó að Leppetrönurnar séu komnar varð ég þeirra ekki var í dag. Hér með lýkur dagbókarfærslu dagsins.

Sumarið er komið til að vera

Sumarið er komið til að vera sagði veðurfræðingurinn áðan og ekki harma ég það. Snemma í fyrramálið fer ég í vinnu, en nú er langt síðan ég hef verið á þeim slóðum. Ég held bara að ég verði feiminn að koma þangað eftir ellefu vikna fjarveru. En nei, ég verð ekki feiminn. Ég kann mig í Vornesi og ég veit að ég verð boðinn velkominn þangað. Mér finnst sjálfum að þessi vinna sé eina vinnan sem ég raunverulega kann. Ég hef gert ýmislegt um dagana sem ég hef kunnað verr en að vinna með alkohólistana. Það hefur skeð áður að ég hef komið til vinnu í Vornesi eftir langt hlé, en um leið og ég kem inn fyrir veggina þar er ég á heimavelli. Sjúklingarnir verða forvitnir. Margir, flestir, hafa heyrt um mig án þess að hafa hitt mig og það eru sérstsaklega sjúklingarnir sem koma nú til með að óska mig velkominn.

Ég hef lítið gert í dag finnst mér. Það er líka sunnudagur. Við vorum þó í IKEA í Marieberg í dag og pöntuðum eitt stykki eldhúsinnréttingu. Þegar við komum heim dreif ég mig í að færa tvo hlyni úr skóginum og á vesturmörk lóðarinnar í staðinn fyrir hlynina sem hérarnir átu í fyrra. Þetta er ég búinn að segja áður, en málið var bara að fyrir mér var það sumarkoma að gera þetta í 17 stiga hita. Hlynirnir verða til inni í skóginum eins og flugurnar kringum góðan mat undir berum himni. Og hratt vaxa þeir og auðveldir eru þeir til flutnings.

Á morgun ætla ég að hringja í málara. Við urðum sammála um það í dag að láta þá vinnu í hendurnar á öðrum. Það er margt að gera á Sólvöllum og það er best að deila út vissum verkum til þeirra sem eru fljótari og betri fagmenn á sviðinu.

Nú finn ég að hárið á mér er orðið þurrt eftir þvottinn og þar með get ég hætt að skrifa og lagt mig á koddann þar sem Óli Lokbrá bíður mín. Ég held að hann sé þegar orðinn félagi Valdísar sem situr í djúpum stól þar sem hún var að horfa á íþróttir. Við heyrumst næst þegar við heyrumst.

Ingólfur Margeirsson

Ég var að blogga í gærkvöldi eftir heils dags vinnu við eldivið. Þá komu skilaboð frá Rósu dóttur minni; hefurðu heyrt um Ingólf Margeirsson? Nei, það hafði ég ekki gert. Þá sendi hún mér tvo hlekki á fréttir um andlát hans. Bara spurningin fékk mig til að gruna hvað hefði skeð.

Ég man það eins og það hefði skeð í gær þegar ég var að slá og snyrta á lóðinni í Sólvallagötunni í Hrísey í september 1993. Það vildi alltaf vera frekar ruslaralegt í suðvestur horninu og einmitt þar var ég. Svo kom Valdís í dyrnar og kallaði til mín að Ingólfur Margeirsson hefði hringt og vildi tala við mig.

Þegar ég kom í símann gekk hann beint til verks og sagði að ég væri að leita að vinnu. Jú, það stemmir. Hvað segirðu um að fara til Svíþjóðar og vinna þar?

Jahá, hvað segir maður þá? Fimmtíu og eins árs - alls ekki talandi á sænsku. Er þetta grín? Ég vissi reyndar að þetta var ekki grín og vegna þess að það var Ingólfur sem spurði tók ég þetta alvarlega. Ég vissi að hann hafði lífsreynslu sem ég hafði ekki, lífsreynslu sem gerði það að verkum að hann vissi hvað hann var að tala um og hann var að tala um það við mig. Hratt runnu hugsanirnar gegnum hugann og af einhverri ástæðu stóð Valdís fyrir framan mig og fylgdist grannt með samtalinu. Svo leit ég á hana og sagði henni að Ingólfur spyrði hvort við vildum prufa að flytja til Svíþjóðar til að vinna.

Valdís sagði ekki nei og viku seinna var þetta afráðið. Nú sit ég hér á sunnudagsmorgni og minnist Ingólfs. Vinalegum skógarsóleyjunum fjölgar dag frá degi í skóginum hér að baki húsinu en Ingólfur er horfinn, farinn í sína síðustu ferð hér í jarðríki. Við höfðum all mikið samband þangað til við fluttum út. Einstaka sinnum fór tölvupóstur milli okkar og sérstaklega einu sinni sendi hann mér langt tölvubréf með fréttum af mönnum og málefnum, til dæmis að hann hefði keypt fyrrum húsið okkar í Hrísey, Bjarg. Ég hugsa að það sé upp undir ár liðið síðan ég fékk tölvupóst frá honum þar sem hann spurði eftir heimilisfangi og síma og þar sagði hann líka að Jóhanna kona sín hefði verið á ferðinni í Svíþjóð. Ég fæ hugsanlega aldrei svar við því hvað hann var að hugleiða þá.

Áhrif Ingólfs á líf okkar Valdísar er meira en flestra eða allra annarra sem komið hafa við sögu. Til dæmis ef Ingólfur hefði ekki hringt í september 1993 sæti ég ekki hér við austurglugga við skógarjaðar í mið Svíþjóð og minntist hans með nokkrum orðum. Þá hefði ég ekki heldur unnið við eldivið í gær. Það sem hann kom af stað með þessu símtali er ferð sem enn stendur yfir, ferð sem ekki bauðst fólki almennt á okkar aldri og ferð sem hefur gert okkur kleift að kynnast víddum í lífinu sem voru auðvitað utan alls mögulegs raunveruleika fram að nefndu símtali. Þakka þér fyrir Ingólfur og góða ferð.

Skömmu fyrir brottförina til Svíþjóðar borðuðum við kvöldmat heima hjá Ingólfi, Jóhönnu og Jónasi sem þá var bara lítill drengur. Eftir matinn var Jónas háttaður og lagður í litla rúmið sitt. Svo komu Ingólfur og Jóhanna fram til okkar og sögðu að Jónas vildi segja góða nótt við okkur líka. Þegar við komum inn til hans þar sem hann lá svo ljúfur og prúður í rúminu sínu teygði hann hendurnar upp á móti okkur og hann vildi taka utan um hálsinn á okkur til að segja góða nótt. Þegar við komum aftur fram til þeirra hjóna sagði ég frá þessu. Þá sagði Ingólfur á þá leið að þeim hefði tekist að gefa þessum dreng tryggð og öryggi í lífinu og hann nyti þess í dag, það merktist vel hjá honum. Á því augnabliki runnu margar hugsanir gegnum hiuga minn -hvernig hafði okkur, mér, tekist til við að skapa tryggð og öryggi?

Glefsur úr Íslandsferð

Þann 25. mars rétt eftir hádegi lögðum við Valdís af stað frá Örebro áleiðis til Stokkhólms sem var fyrsti áfanginn í Íslandsferð okkar. Við vorum þá þegar búin að ákveða að koma við á stað sem við í gríni köllum Hreðavatn og fá okkur þar að borða. Það er alltaf girnilegt að koma inn á Hreðavatni og ég held að fáir standist freistinguna þar þegar litið er yfir borð með litríkum réttum, smurðu brauði og alveg fádæma fallegum tertum og kökum. Valdís byrjaði á snyrtingunni en ég vildi sjá hvernig réttur dagsins liti út. Munnvatnið æddi af stað þegar ég gekk fram hjá þessum fallegu borðum og við eitt þeirra stóð yngri kona og rúllaði fimlega kókosbollur milli handa sér. Ég var léttur í lund þarna í upphafi ferðar og sagði þegar ég gekk framhjá konunni með kókosbollurnar að mikið væri allt girnilegt þarna á borðunum. Takk, takk, sagði hún, tók efni í nýja bollu, rúllaði milli handa sér og dýfði henni svo í kókosmjölið. Brosandi út að eyrum spurði hún hvort ég vildi ekki smakka. Jú takk, auðvitað vildi ég smakka og mér fannst ferðin byrja mjög skemmtilega. Nokkur vingjarnelg orð -og svo undur vingjarnlegt viðmót á móti.

Daginn eftir settumst við í flugvélina á Arlanda. Þriðji farþeginn í sætaröðinni sat við gluggann, frekar stór maður og ögn þungbúinn. Ég settist næst honum og bauð hressilega góðan daginn. Eitthvað hljóð heyrðist í honum, nægjanlega skýrt til að ég skildi að hann var íslenskur. Ekki leit hann á okkur. Það næsta sem honum hraut af munni var "kaffi" þegar flugfreyjan bauð honum upp á veitingar. En hann talaði sko meira skal ég segja ykkur. Í þriðja skiptið sem hann talaði sagði hann: getið þið sleppt mér framhjá. Þar með var það upp talið. Ég taldi mig hafa gert honum tilboð sem hann þáði ekki. Ég hef ekki svo ég muni haft þögulli sessunaut í flugvél.

Ég kom í banka á höfuðborgarsvæðinu og þegar ég kom inn var ég eini kúnninn. Tveir gjaldkerar horfðu beint fram og fjórir þjónustufulltrúar sátu við tölvur. Ég gerði eins og maðurinn sem heilsaði í strætó og sagði góðan daginn. Gjaldkerinn sem var nær mér leit á mig og bauð góðan dag en hinn hélt áfram að horfa fram. Ég sagðist vilja flytja peninga til Svíþjóðar þar sem ég byggi. Þá varð allt meira lifandi og gjaldkerinn sagði að ég þyrfti þá að tala við þjónustufulltrúa, stóð upp og náði í miða með númeri og fékk mér. Andartaki síðar blikkaði ljós hjá þjónustufulltrúa með númerinu mínu og ég gekk þangað inn. Enn var ég eini kúnninn í bankanum.

Ég sagði þjónustufulltrúanum, sem var kona, að ég þyrfti að flytja peninga til Svíþjóðar þar sem ég byggi. Hún sagði að það væri ekki hægt. Ég lét í ljósi undrun mína þar sem ég fengi mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur sem ég hefði ekki snert í þrjú og hálft ár. Hún var treg og fámál og ég varð að gæta mín svo að það þykknaði ekki í mér. Þá sagðist ég vita að það væri ekki hún sem tæki svona ákvarðanir en mér væri nauðugur sá kostur að halda lífi og ég gæti það ekki án peninga. Hún sagðist verða að tala um þetta við yfirmann sinn og fór frá um stund. Þegar hún kom til baka sagði hún að þetta væri mögulegt en hún yrði að athuga málið betur og sagðist skyldi senda mér tölvupóst seinna þennan dag. Ég þakkaði fyrir mig og fór og undraðist hve fámált fólkið væri í bankanum og reiknaði með að það tengdist óöryggi sem bankafólk byggi við um þessar mundir.

Síðdegis fékk ég tölvupóstinn og þá sá ég á nafninu að bankafulltrúinn minn hafði erlent nafn. Hins vegar heyrði ég alls ekki á máli hennar þegar ég var í bankanum að hún væri af erlendum toga. Daginn eftir kom ég í bankann og þá var þar einn viðskiptavinur sem talaði við þjónustufulltrúa. Nú tók ég númerið sjálfur og samstundis blikkaði númerið mitt hjá sama bankafulltrúa og daginn áður. Ég gekk inn og nú byrjaði hún að undirbúa að flytja peningana, fámál eins og fyrri daginn. Mér fannst það kannski ekki alveg viðeigandi, en ég sagðist hafa séð á tölvupóstinum að hún hefði erlent nafn og ég dáðist af góðri íslensku hennar. Þetta klaufalega tilboð til að koma af stað einhverri umræðu virkaði. Við töluðum meira saman en nauðsynlegt var, nokkuð líflega, og nú líkaði mér lífið. Ekki var það verra þegar hún að lokum opnaði skúffu og sótti nafnspjald og fékk mér. Hafðu bara sambandi við mig ef þú þarft á hjálp að halda síðar sagði hún. Ég tjáði henni innilega þakklæti mitt og var mikið ánægður þegar ég yfirgaf bankann.

Ég sat í stólnum hjá hárgreiðslukonu í Breiðholtinu og hugsaði hvað ég gæti nú sagt sem bryti þögnina. Enn fannst mér sem ég væri afar klaufalegur þegar ég spurði hve lengi hún hefði rekið þessa stofu. En það virkaði. Ég fékk að vita hvar hún var fædd, hvenær hún fór til Reykjavíkur til að læra hárgreiðslu og hvers vegna hún fór ekki til baka til bernskuslóðanna eins og til hafði staðið. Rakarinn minn í Örebro talar oft um veiðar en hárgreiðslukonan í Breiðholtinu talaði um líf sitt. Henni þykir hreindýrakjöt mjög gott en rakarinn minn í Örebro selur okkur elgskjöt fyrir jólin.

Þær voru margar fleiri glefsurnar sem ég hefði getað gripið til frá Íslandferðinni en ég vil nú tala um Keflavíkurflugvöll. Mikið, mikið voru allir brosmildir og hjálplegir þar um daginn þegar við vorum á leið til Svíþjóðar aftur. Maður sem var heldur yngri en við fór með mér á skyrtunni út í vindbelginginn til að benda mér á langtímabílastæðið og segja mér til. Hann sparaði ekki við mig tímann. Fleiri buðu aðstoð sína þegar við gengum hjá. Ég var svo ánægður með þetta að ég gaf skít í sessunaut okkar þegar við komum út í flugvél, en hann sat einnig við glugga eins og í sessunauturinn í ferðinni til Íslands. Sessunauturinn á leiðinni út horfði út um gluggann þegar við settumst, hann þurfti ekki að bjóða góðan daginn þar sem ég ávarpaði hann ekki, hann bað ekki um kaffi og hann þurfti ekki að komast fram hjá til að pissa. Ég held að ef hann hefði verið mállaus hefði hann þó alla vega brosað móti okkur þegar við settumst. Hér með er hann þöglasti sessunautur sem ég hef haft í flugvél.

Góð samskipti við fólk eru afar mikils virði -gefa mörg gleðiaugnablik.
Ég á eftir fleiri blogg um Íslandsferð.

Heima á ný

Í gær lauk Íslandsdvölinni með því sem er eitthvað það versta við Íslandsferðir; að vakna alveg óhuggulega snemma. Það er eitthvað sem ég fer að hugsa til löngu fyrir brottför ef ekki bara í upphafi ferðar. En alla vega, þetta tókst og við liðum í loftið á tilsettum tíma.

Svíþjóð tók vel á móti okkur og þá vorum við að verða búin að gleyma fóteferðatímanum. Þegar við komum út undir bert loft á Arlandafrlugvelli var logn, 14stiga hiti og sólin brosti móti okkur. Alveg var það dásamleg tilfinning og gleðin kitlaði notalega í brjóstinu. Rósa dóttir okkar var mætt með bílinn okkar á Arlanda og einhvern veginn var allt kunnuglegt og það var notalegt að vera á leiðinni heim.

Hannes Guðjón brosti líka þegar við komum til Stokkhólms og eftir nokkra dvöl þar héldum við áleiðis til Örebroléns. Innan tíðar tók Óli Lokbrá sér pláss í bílnum og það var erfitt að komast undan mildum áhrifum hans. Kannski veit hann ekki að það er erfitt að aka bíl í nærveru hans en það var einfaldlega svo að það var mjög erfitt. Því var ekki um annað að gera en að stoppa á góðum stað, hreifa sig og drekka vatn. Eftir það náði hann engu valdi á mér en konan sem sat við hliðina á mér var eitthvað á valdi hans heyrðist mér. Það fór líka betur á því að það var hún sem gaf  Óla tök á sér.

Þegar við komum til Sólvalla var farið að kvölda og hitinn heldur minni. Krókusarnir tóku á móti okkur á framlóðinni en bakvið húsið brostu hvítar skógarsóleyjarnar, en þeirra tími er að byrja. Seljurnar voru þaktar sínum heiðgulu reklum og heggurinn var að byrja að laufgast. Það var strax ljóst að ég yrði að fara eina hringferð um skóginn áður en deginum lyki. Konan sem hafði hvílst við hlið mér í bílnum lagði mat á borð í bráðabyrgða matkróknum sem var líkur því sem hann var þegar við lögðum í Íslandsferðina. Við vorum greinilega heima.

Einhvern veginn var að mörgu að hyggja og ég fór ekki í skógargönguna fyrr en birtu var að byrja að bregða. Þó sá ég að brumhnappar voru orðnir þrýstnir, sérstaklega á hestkastaníunni sem bar stolt sína stóru brumhnappa sem glönsuðu af límkenndu efni eins og þeir væru aldeilis nýlakkaðir með glæru lakki. Mikið meira af eikarplöntum höfðu sloppið heilar frá elgjum og dádýrum nú en í fyrra. Það gladdi mig mjög.

Útlitið á Sólvöllum var gott við heimkomuna, betra en við áttum von á, en það er þó talsvert átak framundan við að taka til eftir byggingarframkvæmdir. Í dag hef ég verið að naglhreinsa efnið sem kom úr gamla gólfinu og kastað var út um það bil fyrir tveimur mánuðum. Við ætlum að nota það til upphitunar næsta vetur. Ég ætlaði að komast á fulla ferð í dag en tókst það ekki alveg en ég er þó alla vega kominn af stað. Valdís hefur hins vegar tekið upp úr töskum, þvegið þvott og komið ýmsu í röð og reglu. Í gærkvöldi vorum við ákaflega þreytt og Óli hafði okkur í greipum sínum í eina tíu tíma samfleytt.

Veðurstofan spáir 14 til 20 stiga hiti um helgina og froskar og salamöndrur eru að koma á stjá og búa sig undir samlífið. Myndir voru sýndar af áköfum ástarleikjum stórra hópa svo að þið getið rétt ímyndað ykkur hvort það kom ekki vorfiðringur í ellilífeyrisþegann líka.

Í kollinum á mér er geymt efni frá Íslandsferð sem ég hef hugsað mér að koma á prent einhvern næstu daga.

Dagur í Vestmannaeyjum

Á tæpri viku eru ýmis veður búin að ganga yfir í Vestmannaeyjum, það er búin að vera vindur, haglél, þoka og mikið meiri vindur. Það er búið að tala mikið um ölduhæð því að slíkt hefur áhrif á ferðir Herjólfs. Og nú sit ég hér og það blæs þéttings vindur á suðurglugganum með verulegum rokum inn á milli og Herjólfur hélt sig heima seinni partinn í dag. Jafnvel gæti orðið svo á morgun líka.


Fyrir mér er það skylduatriði að ganga á Eldfell í hverri einustu ferð minni til Vestmannaeyja. Nú vildi ég æfa mig svolítið í gönguferðum fyrstu tvo dagana sem ég dvaldi hér þannig að ég lét Eldfellsgöngu bíða þangað til ég væri kominn almennilega í gang. Svo þegar ég taldi mig reiðubúinn í þessa "þrekgöngu" var svarta þoka þannig að ég vissi að ég mundi ekki sjá nema 20 til 40 metra þarna uppi, en þá var líka ekki hægt að fresta för. Ég hafði einu sinni áður farið á Eldfell í þoku og vissi af þeirri reynslu að það var alls ekki svo vitlaust að gera það. Svo lagði ég í hann. Ég birti myndina ofan sem ég tók í fyrradag til að fólk geti áttað sig á hvað Eldfell í þoku hefur upp á að bjóða. Svo get ég bætt þvi við að ég gróf svo sem tíu sentimetra djúpa holu með hendinni og á því dýpi var yl að finna.

Burtséð frá veðri og vindum heldur lífið í bænum áfram og nú kem ég að mikilli andstæðu við þessa Eldfellsgöngu mína sem var bara aukaatriði í Vestmannaeyjaferð okkar. Síðast þegar við komum hingað var verið að ferma hana Guðdísi dótturdóttur en við komum hingað að þessu sinni til að vera viðstödd ferminguna hennar Erlu.


Kristinn dóttursonur kom heim úr kirkjunni um hálf ellefu leytið til að sækja okkur, tvö sett af öfum og ömmum, og þegar við fórum út úr bílnum við kirkjuna reif vindurinn í bílhurðir og hreytti regninu inn í betri fötin okkar. Þegar inn í kirkjuna kom hljóðnaði veðrið að öðru leyti en því að það blés dálítið frískt inn um opinn glugga þar sem afi og amma á Reyni sátu. Síðan hófst mjög fallegur sálmasöngur og veðrið gleymdist fyrir utan gnauðið í glugganum.

Fyrir predikunina var skýrt barn. Ég hreifst af föðrunum sem lifði sig svo inn í athöfnina að hann þurfti að þurrka tár af hvarmi, nokkuð sem karlmenn vilja helst ekki gera vegna þess að það er ekki karlmannlegt. Samt er það karlmannlegt að þorað að gera það. Svo söng kórinn aftur og svo talaði presturinn. Þegar hann talaði um að hann hefði slegið golfkúlu svo langt frá holunni á golfvelli vestur í bandaríkjunum að kúlan hefði lent inn á öðrum golfvelli fór ég að brjóta heilann um hvað hann væri eiginleg að tala um yfir fermingarbörnum.

Svo sagði hann frá löngu þekktum golfleikara í Bandaríkjunum sem var á góðri leið með að vinna ákveðinn stórsigur annað árið í röð -á sama golfvelli. Þeim golfleikara varð líka á að slá kúluna langt úr leið. Þar sem hann gekk aleinn að kúlunni rúllaði kúlan frá þeim stað þar sem hún fyrst stoppaði, væntanblega niður einhvern halla, en þetta sá enginn nema hann. Hann hefði getað þagað en hann gerði það ekki. Hann sagði frá því að kúlan hefði runnið til og honum var dæmt einhvers konar víti og hann vann ekki leikinn. Hann valdi heiðarleikann og hefur væntanlega sofið vel nóttina eftir.

Svo söng kórinn meira og ég hreifst af fallegum söngnum og fallegum sálmum og versum. Ég hreifst af athöfninni allri. Ég varð hrærður inn á milli og þegar presturinn bað alla að biðja með sér bæn sem mamma kenndi mér þar sem hún sat við rúmstokkinn yfir mér fyrir meira en 60 árum varð ég svo klökkur að ég gat ekki byrjað fyrr en inn í miðri bæn.

Vertu Guð faðir faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni.
Hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.

Kannski finnst einhverjum að þetta sé kellingarlegt af karlmanni. Ég er þó ekki viss um að honum Guðlaugi Friðþórssyni sem synti heim í fimm eða sex tíma í frosti og vetrarmyrkri eftir að bátur hans fórst þyki það kellingarlegt. Hann sem talaði við múkkann og Guð á leiðinni heim og horfði á stjörnuna sem lýsti yfir honum allan tímann. Akkúrat þetta hugsaði ég í kirkjunni og styrktist í því að hið góða væri til og einnig það að heiðarleiki golfleikarans væri nokkuð að taka til fyrirmyndar.


Nú er búið að ferma hana Erlu dótturdóttur og svo tók hann Kristinn bróðir hennar þessa mynd þar sem afar og ömmur slógu skjaldborg um hana í fermingarveislunni hennar. Nú verð ég að nefna nöfn. Frá vinstri Valdís amma, Erla amma á Reyni, Erla fermingarstúlka, Jón afi á Reyni og Guðjón afi. Gangi þér allt í haginn Erla mín. Þar veit ég að ég fer rétt með fyrir hönd okkar allra á þessari mynd.



Meðan á fermingarveislunni stóð bætti í vindinn og það gekk á með éljum og skúrum. Slíkt tilheyrir í Vestmannaeyjum og þó að það sé fermingardagur stöðvar Guðinn sem hann Guðlaugur Friðþórsson talaði við á sundinu ekki framgang veðursins. Eftir athöfn og veislu fórum við nokkur í skoðunar- og ljósmyndaferð. Myndirnar neðan eru ávöxtur þeirrar ferðar, teknar af mér og Jónatan tengdasyni mínum og föður fermingarstúlkunnar.


Þarna má segja að brimið stefni á Herjólfsdal. Hann Sveinn sjómaður og föðurbróðir fermingarstúlkunnar taldi þetta ekki mikið brim en það mundi að öllum líkindum verða meira á morgun þegar Herjólfur ætti að fara að hita upp vélarnar fyrir morgunferðina til Þorlákshafnar.


Þessi mynd og næstu fjórar eru teknar austan við Stórhöfða.








Þarna niður undir fjörunni má greina ellilífeyrisþega á brúnum vetrarjakka. Hann þorði ekki að hafa á sér húfuna þar sem hún hefði getað fokið á haf út. Þessa mynd tók auðvitað Jónatan tengdasonur ellilífeyrisþegans.

Ég þarf að blogga aftur um þennan dag og birta myndir af fleira fólki en það verður að bíða heimkomunnar til Svíþjóðar. Kukkan er orðin hálf eitt og allt er hljóðnað í húsinu. Fermingardeginum er lokið og vindurinn gnauðar á húsinu. Vinurinn Óli Lokbrá er greinilega tilbúinn að taka á móti mér og ég hugsa að það sé best að biðja að lokum bænina sem presturinn bað okkur að biðja með sér í dag.

Lagt á brattann

Það er orðið afar langt síðan ég hef farið í gönguferð sem gönguferð getur klallast. Byggingarvinna mín og afleysingavinna hafa ráðið öllu og ég hef lengi hugsað sem svo að byggingarvinnan sé mikil hreyfing. Svo er það líka en ég smíða ekki af þeim krafti að það komi í staðinn fyrir rösklegar gönguferðir en ég tel hins vegar að smíðarnar séu alveg nóg og fjölbreytt hreyfing ef borið er saman við æfingar alls konar sem fólk iðkar. Svo skal ég vera heiðarlegur og viðurkenna að ég var farinn að hafa pínulitlar áhyggjur af gönguferðaleysi mínu og hreinlega skorti á hollri útivist.

En nú erum við í Vestmannaeyjum og ég var löngu búinn að lofa mér því að tíminn í Vestmannaeyjum skyldi meðal annars vera tími rösklegra gönguferða. Útivistin í dag byrjaði með gönguferð okkar hjóna í Eldheima, eða svæðið þar sem grunnar nokkurra húsa hafa verið grafnir upp að hluta. Hundur heimilisins var með í för og hafði bandið strekkt allan tímann. Ég gat ekki látið vera að hugsa aðeins um hvernig það eiginlega væri að finna lykt af svo mörgu og var nokkuð öruggur um um að það mundi bara gera mig mikið ruglaðan.

Eftir að hafa skoðað húsin sem lentu undir ösku eftir misjafnlega mörg ár sem bústaður fjölskyldna, haldandi utanum uppeldi barna og skýla kertaljósum á jólum, urðu þau fyrir ofursterkul ljósi sem lagði hlutverk þeirra og tign að velli og nú er hlutverk þeirra að vera fornminjar í uppgreftri. Haldandi í hálf æstan, forvitinn, þefandi hundinn hugsaði ég hvort hann virkilega fynndi lyktina af löngu liðnu ártatuga lífshlaupi í þessum húsum.

Eftir saltkjöt og baunir hófst önnur gönguferð dagsins og nú lagði ég á brattann milli Eldfells og Helgafells. Ég var ákveðinn í því að nú gengi ég þangað til ég fynndi lækningamátt göngunnar dreifast um líkamann. Ég sem er með mjaðmalið vinstra meginn sem ég keypti af sænska ríkinu fyrir 400 krónur var ekki alveg laus við einhver ónot í mjöðminni, ekki verk en einhvers konar ónot. Svo fékk ég stingi af göngunni hingað og þangað, milli rifbeina, í handleggina og það var einmitt þetta sem ég ætlaði að ganga af mér.

Þessi brekka á veginum upp á milli Eldfells og Helgafells er alltaf lengri en ég geri mér grein fyrir, en hún er þó bröttust á fyrstu þrjú hundruð metrunum eða svo. Það var í þessum bratta sem ég varð móður og fékk ákafa þörf fyrir að stoppa, snúa mér við og líta yfir bæinn. Haha, hugsaði ég og vissi vel að ég var að reyna að plata sjálfan mig og kastaði mæðinni ögn og lagði svo af stað aftur. Í ein tvö skipti til viðbótar þurfti ég að líta yfir bæinn og síðan sá ég að brattinn minnkaði og ég hætti stoppunum.

Það var þegar ég hreinlega sá að það voru eftir svo sem 150 metrar að lokum brekkunnar sem það skeði. Ég fann hvernig hlýr straumur af einhverju streymdi niður lagfærðu mjöðmina og niður í fótinn, niður í hinn fótinn líka og síðan hurfu stingirnir sem höfðu hlaupið um mig hingað og þangað. Þessi dásamlega vellíðan sem er verðlaun þess að nenna að fara í gönguferð sem er nógu löng til að vera læknandi gagntók mig allan og lífið í brjóstinu brusaði í samhljómi við Eldfell og Helgafell, í samhljómi við goluna sem streymdi frá Atlandshafinu, kvikurnar sem ég sá brotna í fjörum, í samhljómi við tví tjaldsins og bifandi sinustráin í vegkantinum.

Það var eins og það væri leikið á hljóðláta hörpustrengi innra með mér og ég hugsaði sem svo að það hefði verið svona hljóður hörpuleikur sem róaði niður órólegan Sál konung þegar Davíð lék fyrir hann á hörpuna fyrir 2800 árum. Einmitt svona eiga góðar gönguferðir að vera, lífgefandi og færandi betri heilsu og tilfinningu fyrir lífinu.

Eftir viðkomu hjá minnismerkinu tengdu skipsskaðanum þegar fjórir menn fórust og hann Guðlaugur Friðþórsson synti í land, hélt ég áfram göngunni kringum Helgafell. Um stund var ég í huganum bundinn þessum atburði sem er svo ótrúlegur að það er ekki hægt annað en verða hrærður af því að koma þarna við. Síðan var ég alveg órtrúlega ánægður með að hafa tekið á mig rögg og farið í þessa gönguferð. Ég var svo ánægður með það að í huganum lofaði ég hundinum sem nú var heima að fara með hann í aðra gönguferð áður en dagurinn tæki enda.

Nú er lokið þriðja í gönguferð í dag og ég held bara að hundurinn sé mér þakklátur. Forvitni hans af lykt var síst minni en í ferðinni í morgun. Meira að segja upp í miðjum hlíðum Eldfells virtist vera mikið um áhugaverða ilmsteina og ósýnilega bletti. Ég nefnilega fór hálfa leið á Eldfell til að æfa göngu mína þangað upp, en ég kem ekki til Vestmannaeyja án þess að ganga Eldfell. Ég hef gengið þangað bæði í hvassviðri og þoku. Hvassviðrisferðin var kannski ekki notaleg en gerði mig, þá kall aðeins á sjötugs aldri, svolítið stoltan að hafa ekki látið aftra mér. Þokuferpðin var hins vegar alveg dásamleg ferð þar sem steinar, litir og brattar urðu að einhverju magnþrungnu og stórkostlegu sem setti hugmyndaflugið á fulla ferð, nokkuð sem ég bý yfir enn í dag.

Ungt fólk í Perlunni

Það er ótrúlegt en það er bara staðreynd -það eru 52 ár síðan um 40 nemenda hópur fólks útskrifaðist frá Skógaskóla. Það var 1959. Í gær kom um helmingur þessa hóps saman í perlunni og spjallaði saman yfir kaffibolla og brauðbita og spjallaði um hvaðeina milli himins og jarðar. Ég verð nú bara að segja að þessi hópur var ótrúlega bjartur yfirlitum og að kvarta yfir örlögum sínum var hreint alls ekki með á dagskránni. Það var uppörvandi að geta verið með um þetta og ég er þakklátur fyrir að skipuleggjendur dagsins skyldu miða þessa dagssetningu við heimsókn mína til Íslands.


Þarna er Guðbrandur úr Mýrdal og næstur Björn Jóhannsson úr Reykjavík. Síðan situr Íris Bryndís frá Ljósafossi fyrir endanum og Bergur úr Meðalandi brosir breitt móti Gunnþórunni frá Kópaskeri. Milli þeirra situr Sigríður Þórarinsdóttir frá Spóastöðum í Biskupstungum.


Kristín Guðmundsdóttir, Kiddý, frá Hvolsvelli er líklega að tala við Guðbjörgu frá Kópaskeri á þessari mynd en Bjarni frændi minn Ólafsson úr Kóavogi spjallar hins vegar við Sigrúnu Erlendadóttur, Soffíu Ólafsdóttur úr Garði og Sigríði Pálsdóttur einnig úr Garði. Að lokum er Kristinn Kjartansson úr Reynishverfi í Mýrdal lengst til vinstri og hann fylgist með Guðbjörgu og þar með lokast hringurinn á þessari mynd.


Skaftfellingurinn Kristinn Kjartansson mundar myndavélina sína. Lengst til hægri eru þær Kristín Eggertsdóttir úr Vík og Edda Michelsen frá Hveragerði. Bjarni Ólafsson frændi minn, Ingvar Árnason frá Skógum og Bergur Ingimundarson eru fyrir miðri mynd að ræða málin. Svo var ég sjálfur þarna kominn úr sveitinni austur undir Skeiðarársandi, Fljótshverfi, en þar sem ég er bakvið myndavélina er ég ósýnilegur



Hvað á ég svo að segja um þessa samkomu okkar þarna í Perlunni? Jú, til dæmis að ég var stoltur af að tilheyra þetta þó stórum hópi af myndarlegu, bjartsýnu og glöðu fólki. Þarna var skrifstofufólk, hjúkrunarfræðingur, kennarar á menntaskóla- og háskólastigi, bankakona, verslunarmaður, loftskeytamaður, matreiðslukona, tannsmiður, áfengisráðgjafi, mæður og feður, ömmur og afar. Ég heyrði engan tala um heilsuleysi, eymd eða erfiðleika. Margir af þessu fólki, sjálfsagt allir, hafa gengið í gegnum erfiðleika, sorg eða veikindi -en- enginn hafði látið það buga sig, enginn var brennimerktur af því. Lítið bara á myndiranar, þær tala sínu máli.

Já krakkar mínir. Ég held að það sé einhver villa í útreikningum eða ártölum. Það er einfalt að reikna út hversu gamalt fólk á að vera í dag sem skrifaðist út úr gagnfræðaskóla fyrir 52 árum. En sem sagt, andlitin eru ekki mótuð af aldri. Kona úr hópnum sagði eftir að við hittumst austur í Skógum fyrir tveimur árum að við hefðum einu sinni verið ung og falleg en að nú værum við falleg. Það var fallega sagt og við getum sjálf gert mikið til að standa undir því.

Ég tel það mikla gæfu að hafa hafnað í heimavistarskóla á sínum tíma. Það var ekki bara bóklegt nám sem þar fór fram. Mikið höfðum við gott af því að hann Snorri gerði okkur spengilegri með leikfimikennslunni, sérstaklega okkur sem komum úr sveitum þar sem engin leikfimi var. Mikið höfðum við gott af því að læra að umgangast í heimavistarskóla með 100 nemendur og að læra að pressa og strauja fötin okkar. Mikið vorum við heppin að hafa hann Jón Hjálmarsson sem vildi okkur svo vel að hann gerði sig oft á tíðum óvinsælan með viðleitni sinni til að vernda okkur frá öllu illu. Ég gæti haldið lengi áfram með þessa upptalningu en ég segi bara að ég er mikið þakklátur fyrir þennan tíma.

Þakka ykkur öllum fyrir samveruna í Perlunni í gær og mér þykir vænt um ykkur öll.


Ps. Ég segi hvaðan fólkið er ættað en ekki hvar það býr í dag. Ef ég fer með rangt mál vil ég gjarnan að einhver kommenteri og leiðrétti mig.

Á Íslandi

Ég hélt kannski að ég mundi komast í bloggstemmingu í Íslandsferðinni en eftir þessa tæpu viku hefur mér ekki tekist það. Kannski finn ég mig ekki í réttu umhverfi til þess og svo er jú býsna margt sem á að gera en einhvern veginn gengur ekkert hratt að komast yfir að. Ísland er býsna grátt í dag og ég er búinn að fara stutta ferð austur í Skaftafellssýslu á bernskuslóðirnar og sú ferð var farin í gráu veðri nema þá á leiðinni austur þar sem hálfa Heklu gaf að líta.

Ég heimsótti hana Málfríði frænku mína á Sólvang og hún er einmitt að austan þessi móðursystir mín. Sú heimsókn vakti margar hugsanir sem enn búa með mér fjórum dögum seinna. Hún lifir ein eftir af fimmtán alstystkinum og einum hálfbróður þessi bráðum níutíu og þriggja ára gamla kona. Hvernig er að hugsa út í það spurði ég hana og hún strauk á sér handarbakið og svaraði á þá leið að það væri nú bara svona. Svo var ekkert meira með það.

Þegar ég kom inn á herbergið til hennar var hún að þræða saumnál en gleraugun lágu á borðinu. Saumnálina þræddi hún en þegar ég spurði hana eftir gleraugunum sagðist hún sjá betur með þeim og svo setti hún þau upp. Hún sýndi mér líka saumaskapinn sinn og mér var óskiljanlegt hvernig hún fór að því að sauma svo haglega sem hún gerði. Hún var gersamlega afslöppuð og virtist í sátt við lífið. Manstu þegar þið Snorri genguð heim frá Seljalandi í norðaustan hvassviðrinu spurði hún.

Já, ég mundi vel eftir því. Ég veit hvorki um vindstyrk eða hitastig en ég veit að það var rokhvasst norðaustan, beint í fangið, og mikið frost. Líklega var þetta á gamlársdag og ég gæti trúað því að ég hafi verið tólf ára og Snorri tíu ára. Við gengum frá Seljalandi í Fljótshverfi þar sem við höfðum verið gestir einhverja daga og heim til okkar að Kálfafelli, eina sjö kílómetra gæti ég trúað. Helgi bróðir hennar fylgdi okkur hálfa leiðina en svo sáum við um okkur sjálfir seinni hlutann. Öll vötn voru gaddfreðin. Stundum reyndum við að ganga aftur á bak til að hlífa framhlutanum því að fötin náðu engan veginn að halda á okkur hita. Það var eins og það gæti ekki annað en blásið inn á kroppinn þar sem buxur og úlpa mættust. Annars vorum við klæddir eins og best var á kosið á þeim tíma.

Hún móðursystir mín sagði svo að mikið lifandis ósköp hefði hún verið fegin þegar mamma hringdi til hennar og sagði að við værum komnir á leiðarenda. Ekki get ég skilið hvað lá á að láta ykkur fara út í þetta voðalega veður hélt hún áfram. Varla hefur verið svo nauðsynlegt að fá ykkur heim að það þyrfti að gera það sagði hún ennfremur. Svo endurtók hún nokkrum sinnum hvað hún hefði orðið fegin þegar mamma hringdi til hennar og sagði henni að við værum komnir heim. Svo sýndi hún mér saumaskapinn aftur.

Hún fór ofan í skúffu og sótti passísálmana og sagði að þeir væru lesnir frammi í setustofu á hverjum degi. Mér finnst voða gott hjá þeim að gera þetta sagði hún og það koma margir til að hlusta. Hefurðu lesið passíusálmana spurði hún og var nú búin að fletta upp á passíusálmi númer eitt. Ég sagðist ekki hafa lesið þá skipulega en gripið niður í bókinni hingað og þangað og svo að ég hefði ekki komist hjá því að heyra þá þegar þeir voru lesnir í útvarpinu gegnum árin.

Svo byrjaði hún að syngja passíusálm númer eitt. Ég horfði á hana svona afslappaða eins og hún var og velti fyrir mér lífshlaupi hennar. Hún giftist aldrei og eignaðist engin börn en mörg börn gistu samt heimilið hennar á Seljalandi. Það virtist mikið ljóst að hún leið ekki af neinum leyndarmálum sem fylgdu henni inn í ellina. Hún virtist í fullkomnum samhljómi við það sem hún var að gera, að syngja fyrir mig passíusálm númer eitt, og hún gerði það greinilega af mikið góðum vilja. Hún vildi honum frænda sínum vel, þeim sem bjó nú í Svíþjóð og hafði gengið heim til sín frá henni í illviðri fyrir einum 56 árum. Hún gat ekki þekkt mig með nafni þegar ég kom inn til hennar en þegar hún heyrði nafnið sagði hún að ég byggi víst ennþá í Svíþjóð. Jú ég gerði það og hún reiknaði með að það færi vel um mig þar.

Ég var orðinn hissa á hvað passíusálmur númer eitt var langur en það var allt í lagi þar sem þessi góði ásetningur hennar að syngja fyrir mig vakti margar hugsanir. Þessar hugsanir fylgja mér enn fjórum dögum seinna og eru þegar hluti af því að gera mig að svolítið fullorðnari manni. Að lokum söng hún síðasta versið og lagði svo aftur bókina með virðingu, lagði hana niður í skúffu og sagði svo: Ég söng sum versin oftar en einu sinni en mér fannst það allt í lagi þar sem þú mundir ekkert setja þig á móti því. Það er bara gott að heyra þetta sagði hún og ég var henni alveg sammála, og í raun og sannleika var ég henni alveg sammála.

Ég hlustaði á útvarpið hérna heima hjá henni systur minni áðan. Sú systir mín heitir í höfuðið á henni Málfríði móðursystur minni á vistehimilnu Sólvangi í Hanfarfirði, þessu eina systkini sem eftir er af 16 systkinum. Það var sagt frá því í útvarpinu að sólin okkar væri þúsund sinnum efnismeiri en allt annað sem fyrirfynndist í sólkerfinu okkar og að hún mundi endast í fimm miljarða ára héðan í frá. Mér fannst þetta vissulega athyglisvert og talaði ítillega um það við hann Sigurð mág minn áður en hann fór í vinnuna.

Svo var ég einn eftir og ég borðaði morgunverð og hlustaði á útvarpið. Það var umræða um þjóðmál og allir vissu allt um hvað var gert vitlaust og hvað þyrfti að gera. Mér þótti merkilegt að þetta spaka fólk skyldi ekki vera löngu búið að leysa Gordíonshnútana þar sem viskan var ótæmandi. Ég varð þreyttur á þessu og slökkti á útvarpinu. Mér fannst tímanum betur varið við að skrifa um hana Málfríði móðursystur mína sem söng fyrsta passíusálminn fyrir mig á mánudaginn var.

Nú ætla ég út að hitta konuna mína og annað fólk. Ég gisti hjá systur minni og konan mín gisti hjá systur sinni. Ég vona að allir verði góðir við alla í dag og að margir syngi fyrsta passíusálminn fyrir einhverja sem þeim þykir vænt um og auðvita fyrir alla hina líka.
RSS 2.0