Glefsur úr Íslandsferð

Þann 25. mars rétt eftir hádegi lögðum við Valdís af stað frá Örebro áleiðis til Stokkhólms sem var fyrsti áfanginn í Íslandsferð okkar. Við vorum þá þegar búin að ákveða að koma við á stað sem við í gríni köllum Hreðavatn og fá okkur þar að borða. Það er alltaf girnilegt að koma inn á Hreðavatni og ég held að fáir standist freistinguna þar þegar litið er yfir borð með litríkum réttum, smurðu brauði og alveg fádæma fallegum tertum og kökum. Valdís byrjaði á snyrtingunni en ég vildi sjá hvernig réttur dagsins liti út. Munnvatnið æddi af stað þegar ég gekk fram hjá þessum fallegu borðum og við eitt þeirra stóð yngri kona og rúllaði fimlega kókosbollur milli handa sér. Ég var léttur í lund þarna í upphafi ferðar og sagði þegar ég gekk framhjá konunni með kókosbollurnar að mikið væri allt girnilegt þarna á borðunum. Takk, takk, sagði hún, tók efni í nýja bollu, rúllaði milli handa sér og dýfði henni svo í kókosmjölið. Brosandi út að eyrum spurði hún hvort ég vildi ekki smakka. Jú takk, auðvitað vildi ég smakka og mér fannst ferðin byrja mjög skemmtilega. Nokkur vingjarnelg orð -og svo undur vingjarnlegt viðmót á móti.

Daginn eftir settumst við í flugvélina á Arlanda. Þriðji farþeginn í sætaröðinni sat við gluggann, frekar stór maður og ögn þungbúinn. Ég settist næst honum og bauð hressilega góðan daginn. Eitthvað hljóð heyrðist í honum, nægjanlega skýrt til að ég skildi að hann var íslenskur. Ekki leit hann á okkur. Það næsta sem honum hraut af munni var "kaffi" þegar flugfreyjan bauð honum upp á veitingar. En hann talaði sko meira skal ég segja ykkur. Í þriðja skiptið sem hann talaði sagði hann: getið þið sleppt mér framhjá. Þar með var það upp talið. Ég taldi mig hafa gert honum tilboð sem hann þáði ekki. Ég hef ekki svo ég muni haft þögulli sessunaut í flugvél.

Ég kom í banka á höfuðborgarsvæðinu og þegar ég kom inn var ég eini kúnninn. Tveir gjaldkerar horfðu beint fram og fjórir þjónustufulltrúar sátu við tölvur. Ég gerði eins og maðurinn sem heilsaði í strætó og sagði góðan daginn. Gjaldkerinn sem var nær mér leit á mig og bauð góðan dag en hinn hélt áfram að horfa fram. Ég sagðist vilja flytja peninga til Svíþjóðar þar sem ég byggi. Þá varð allt meira lifandi og gjaldkerinn sagði að ég þyrfti þá að tala við þjónustufulltrúa, stóð upp og náði í miða með númeri og fékk mér. Andartaki síðar blikkaði ljós hjá þjónustufulltrúa með númerinu mínu og ég gekk þangað inn. Enn var ég eini kúnninn í bankanum.

Ég sagði þjónustufulltrúanum, sem var kona, að ég þyrfti að flytja peninga til Svíþjóðar þar sem ég byggi. Hún sagði að það væri ekki hægt. Ég lét í ljósi undrun mína þar sem ég fengi mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur sem ég hefði ekki snert í þrjú og hálft ár. Hún var treg og fámál og ég varð að gæta mín svo að það þykknaði ekki í mér. Þá sagðist ég vita að það væri ekki hún sem tæki svona ákvarðanir en mér væri nauðugur sá kostur að halda lífi og ég gæti það ekki án peninga. Hún sagðist verða að tala um þetta við yfirmann sinn og fór frá um stund. Þegar hún kom til baka sagði hún að þetta væri mögulegt en hún yrði að athuga málið betur og sagðist skyldi senda mér tölvupóst seinna þennan dag. Ég þakkaði fyrir mig og fór og undraðist hve fámált fólkið væri í bankanum og reiknaði með að það tengdist óöryggi sem bankafólk byggi við um þessar mundir.

Síðdegis fékk ég tölvupóstinn og þá sá ég á nafninu að bankafulltrúinn minn hafði erlent nafn. Hins vegar heyrði ég alls ekki á máli hennar þegar ég var í bankanum að hún væri af erlendum toga. Daginn eftir kom ég í bankann og þá var þar einn viðskiptavinur sem talaði við þjónustufulltrúa. Nú tók ég númerið sjálfur og samstundis blikkaði númerið mitt hjá sama bankafulltrúa og daginn áður. Ég gekk inn og nú byrjaði hún að undirbúa að flytja peningana, fámál eins og fyrri daginn. Mér fannst það kannski ekki alveg viðeigandi, en ég sagðist hafa séð á tölvupóstinum að hún hefði erlent nafn og ég dáðist af góðri íslensku hennar. Þetta klaufalega tilboð til að koma af stað einhverri umræðu virkaði. Við töluðum meira saman en nauðsynlegt var, nokkuð líflega, og nú líkaði mér lífið. Ekki var það verra þegar hún að lokum opnaði skúffu og sótti nafnspjald og fékk mér. Hafðu bara sambandi við mig ef þú þarft á hjálp að halda síðar sagði hún. Ég tjáði henni innilega þakklæti mitt og var mikið ánægður þegar ég yfirgaf bankann.

Ég sat í stólnum hjá hárgreiðslukonu í Breiðholtinu og hugsaði hvað ég gæti nú sagt sem bryti þögnina. Enn fannst mér sem ég væri afar klaufalegur þegar ég spurði hve lengi hún hefði rekið þessa stofu. En það virkaði. Ég fékk að vita hvar hún var fædd, hvenær hún fór til Reykjavíkur til að læra hárgreiðslu og hvers vegna hún fór ekki til baka til bernskuslóðanna eins og til hafði staðið. Rakarinn minn í Örebro talar oft um veiðar en hárgreiðslukonan í Breiðholtinu talaði um líf sitt. Henni þykir hreindýrakjöt mjög gott en rakarinn minn í Örebro selur okkur elgskjöt fyrir jólin.

Þær voru margar fleiri glefsurnar sem ég hefði getað gripið til frá Íslandferðinni en ég vil nú tala um Keflavíkurflugvöll. Mikið, mikið voru allir brosmildir og hjálplegir þar um daginn þegar við vorum á leið til Svíþjóðar aftur. Maður sem var heldur yngri en við fór með mér á skyrtunni út í vindbelginginn til að benda mér á langtímabílastæðið og segja mér til. Hann sparaði ekki við mig tímann. Fleiri buðu aðstoð sína þegar við gengum hjá. Ég var svo ánægður með þetta að ég gaf skít í sessunaut okkar þegar við komum út í flugvél, en hann sat einnig við glugga eins og í sessunauturinn í ferðinni til Íslands. Sessunauturinn á leiðinni út horfði út um gluggann þegar við settumst, hann þurfti ekki að bjóða góðan daginn þar sem ég ávarpaði hann ekki, hann bað ekki um kaffi og hann þurfti ekki að komast fram hjá til að pissa. Ég held að ef hann hefði verið mállaus hefði hann þó alla vega brosað móti okkur þegar við settumst. Hér með er hann þöglasti sessunautur sem ég hef haft í flugvél.

Góð samskipti við fólk eru afar mikils virði -gefa mörg gleðiaugnablik.
Ég á eftir fleiri blogg um Íslandsferð.



Kommentarer
Anonym

Þetta er skemmtilegt blogg hjá þér eins og svo oft áður.

Já og takk fyrir síðast þó stutt væri, mikið var gaman að sjá ykkur.

Ég bið að heilsa Valdísi og vona að sólin haldi áfram að verma ykkur í skóginum, hérna kíkti hún af og til í dag á milli rigningarskúranna.



Bestu kveðjur,

Þórlaug

2011-04-17 @ 01:43:43
Guðjón Björnsson

Þakka þér sömuleiðis Þórlaug og kveðjur til baka til ykkar.

2011-04-17 @ 10:48:27
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0