Sögu vil ég segja stutta

Þegar ég varð sænskur ellilífeyrisþegi árið 2007 byrjaði ég líka að taka út íslenska lífeyrinn minn hjá lífeyrissjóðunum. Ég ætlað nefnilega að hætta að vinna þá og fara að taka lífinu með mikilli ró og gera umönnun á eigninni Sólvöllum að aðal atvinnu minni. Ellilífeyrinn frá tryggingastofnun ætlaði ég síðan að byrja að taka út árið 2009 þegar ég fyllti 67 ár eins og ég gerði.
 
Í þeirri fullvissu að ég þyrfti ekki að gefa upp á sænskri skattaskýrslu ellilaun frá Íslandi gerði ég það heldur ekki. Svo liðu árin. Þegar ég fékk sænsku skattaskýrsluna heimsenda til undirskriftar í vor, þá leit ég á nokkur atriðið i leiðbeiningahefti sem alltaf fylgir henni. Þar rak ég allt í einu augun í það að mér bæri að gefa upp tekjur frá öðru landi og í vissum tilfellum gæti þurft að greiða skatt af þeim tekjum. Á sjálfri skattaskýrslunnin fann ég svo ferning til að krossa í ef ég fengi svona tekjur. Í þann ferning krossaði ég þá í fyrsta skipti og svo var ég ánægður með mig.
 
Fyrir nokkrum vikum fékk ég bréf frá Adam nokkrum hjá sænsku skattayfirvöldunum sem tjáði mér að ég þyrfti að gera grein fyrir þessum tekjum og ég svaraði því samviskusamlega í bréfi. Nokkru síðar fékk ég aftur bréf frá Adam þar sem hann tjáði mér að ég þyrfti að greiða skatt af lífeyristekjunum frá íslandi. Mér sortnaði fyrir augum, sjáandi það að ég þyrfti þá væntanlega að greiða skatt af öllum árunum frá maí 2007. Það er álíka upphæð og þarf til að kaupa nýjan fólksbíl af miðlungsstærð og greiða út í hönd.
 
Ennþá einu sinni sendi ég Adam upplýsingar og þá um nákvæmar tekjur staðfestar með pappírum frá Íslandi og hversu mikið ég hefði greitt í skatt þar árið 2014. Skattgreiðsluna á Íslandi átti síðan að draga frá sænsku álagningunni. Hér er enginn persónuafsláttur þannig að það munaði lítið um það. Og í siðasta bréfinu frá Adam fékk ég svo nákvæman útreikning á því hversu mikið ég átti að greiða í þennan óvænta skatt fyrir árið 2014. Það voru heil mánaðarlaun á all góðum launum. Og svitinn rann.
 
En! -á tveimur stöðum í bréfinu kemur fram að þetta gildi aðeins fyrir þá sem fluttu til Svíþjóðar eftir 5. apríl 2008 og byrjuðu að fá ellilaun frá Íslandi eftir sama tíma. Ég var langt á undan í báðum tilfellum.
 
En nú var ég orðinn svo var um mig að það tók mig tíu daga að byrja að trúa þessum góðu tíðindum. Um helgina samdi ég bréf til Adam þar sem ég útskýrði fyrir honum að ég væri sigurvegari í báðum tilfellunum. Í dag, mánudag, hringdi ég til hans og það var í þriðja skiptið vegna þessa máls, og ég sagði að ég væri með tilbúið erindi til að senda honum og hvernig allt væi í pottinn búið.
 
Já sagði hann, þá þarft þú ekki að borga skatt af þessu eða neinu öðru frá Íslandi og munt aldrei þurfa að gera það. Þá loksins gekk það upp fyrir mér svo óyggjandi væri að ég hafnaði ekki í gjaldþroti. Ég var farinn að vita með höfðinu að svo væri en það gekk ekki niður til hjartans fyrr en hann sagði það berum orðum.
 
Ég verð að segja um Adam að hann var aldeilis ótrúlega viðræðugóður og þægilegur embættismaður í öll skiptin sem við töluðum saman í síma. Bréfin frá honum voru líka notalega skrifuð og ég held reyndar að hann hafi grunað allan tímann að ég mundi af einhverjum ástæðum ekki þurfa að greiða þennan skatt. Allt þurfti bara að vera á hreinu.
 
Ég segi frá þessu í of löngu máli en ég hef líka gaman af að skrifa um þetta og hvernig það leystist. Svo skrifa ég líka um þetta þar sem það er gott fyrir fólk sem er að fá greiðslur milli landa að geta séð þetta. Ég nefnilega veit að ýmsir eru óvissir varðandi þetta mál.
 
Gangi ykkur allt í haginn.
 
Ps. Og svo hætti ég aldrei að vinna.
RSS 2.0