Lagt á brattann

Það er orðið afar langt síðan ég hef farið í gönguferð sem gönguferð getur klallast. Byggingarvinna mín og afleysingavinna hafa ráðið öllu og ég hef lengi hugsað sem svo að byggingarvinnan sé mikil hreyfing. Svo er það líka en ég smíða ekki af þeim krafti að það komi í staðinn fyrir rösklegar gönguferðir en ég tel hins vegar að smíðarnar séu alveg nóg og fjölbreytt hreyfing ef borið er saman við æfingar alls konar sem fólk iðkar. Svo skal ég vera heiðarlegur og viðurkenna að ég var farinn að hafa pínulitlar áhyggjur af gönguferðaleysi mínu og hreinlega skorti á hollri útivist.

En nú erum við í Vestmannaeyjum og ég var löngu búinn að lofa mér því að tíminn í Vestmannaeyjum skyldi meðal annars vera tími rösklegra gönguferða. Útivistin í dag byrjaði með gönguferð okkar hjóna í Eldheima, eða svæðið þar sem grunnar nokkurra húsa hafa verið grafnir upp að hluta. Hundur heimilisins var með í för og hafði bandið strekkt allan tímann. Ég gat ekki látið vera að hugsa aðeins um hvernig það eiginlega væri að finna lykt af svo mörgu og var nokkuð öruggur um um að það mundi bara gera mig mikið ruglaðan.

Eftir að hafa skoðað húsin sem lentu undir ösku eftir misjafnlega mörg ár sem bústaður fjölskyldna, haldandi utanum uppeldi barna og skýla kertaljósum á jólum, urðu þau fyrir ofursterkul ljósi sem lagði hlutverk þeirra og tign að velli og nú er hlutverk þeirra að vera fornminjar í uppgreftri. Haldandi í hálf æstan, forvitinn, þefandi hundinn hugsaði ég hvort hann virkilega fynndi lyktina af löngu liðnu ártatuga lífshlaupi í þessum húsum.

Eftir saltkjöt og baunir hófst önnur gönguferð dagsins og nú lagði ég á brattann milli Eldfells og Helgafells. Ég var ákveðinn í því að nú gengi ég þangað til ég fynndi lækningamátt göngunnar dreifast um líkamann. Ég sem er með mjaðmalið vinstra meginn sem ég keypti af sænska ríkinu fyrir 400 krónur var ekki alveg laus við einhver ónot í mjöðminni, ekki verk en einhvers konar ónot. Svo fékk ég stingi af göngunni hingað og þangað, milli rifbeina, í handleggina og það var einmitt þetta sem ég ætlaði að ganga af mér.

Þessi brekka á veginum upp á milli Eldfells og Helgafells er alltaf lengri en ég geri mér grein fyrir, en hún er þó bröttust á fyrstu þrjú hundruð metrunum eða svo. Það var í þessum bratta sem ég varð móður og fékk ákafa þörf fyrir að stoppa, snúa mér við og líta yfir bæinn. Haha, hugsaði ég og vissi vel að ég var að reyna að plata sjálfan mig og kastaði mæðinni ögn og lagði svo af stað aftur. Í ein tvö skipti til viðbótar þurfti ég að líta yfir bæinn og síðan sá ég að brattinn minnkaði og ég hætti stoppunum.

Það var þegar ég hreinlega sá að það voru eftir svo sem 150 metrar að lokum brekkunnar sem það skeði. Ég fann hvernig hlýr straumur af einhverju streymdi niður lagfærðu mjöðmina og niður í fótinn, niður í hinn fótinn líka og síðan hurfu stingirnir sem höfðu hlaupið um mig hingað og þangað. Þessi dásamlega vellíðan sem er verðlaun þess að nenna að fara í gönguferð sem er nógu löng til að vera læknandi gagntók mig allan og lífið í brjóstinu brusaði í samhljómi við Eldfell og Helgafell, í samhljómi við goluna sem streymdi frá Atlandshafinu, kvikurnar sem ég sá brotna í fjörum, í samhljómi við tví tjaldsins og bifandi sinustráin í vegkantinum.

Það var eins og það væri leikið á hljóðláta hörpustrengi innra með mér og ég hugsaði sem svo að það hefði verið svona hljóður hörpuleikur sem róaði niður órólegan Sál konung þegar Davíð lék fyrir hann á hörpuna fyrir 2800 árum. Einmitt svona eiga góðar gönguferðir að vera, lífgefandi og færandi betri heilsu og tilfinningu fyrir lífinu.

Eftir viðkomu hjá minnismerkinu tengdu skipsskaðanum þegar fjórir menn fórust og hann Guðlaugur Friðþórsson synti í land, hélt ég áfram göngunni kringum Helgafell. Um stund var ég í huganum bundinn þessum atburði sem er svo ótrúlegur að það er ekki hægt annað en verða hrærður af því að koma þarna við. Síðan var ég alveg órtrúlega ánægður með að hafa tekið á mig rögg og farið í þessa gönguferð. Ég var svo ánægður með það að í huganum lofaði ég hundinum sem nú var heima að fara með hann í aðra gönguferð áður en dagurinn tæki enda.

Nú er lokið þriðja í gönguferð í dag og ég held bara að hundurinn sé mér þakklátur. Forvitni hans af lykt var síst minni en í ferðinni í morgun. Meira að segja upp í miðjum hlíðum Eldfells virtist vera mikið um áhugaverða ilmsteina og ósýnilega bletti. Ég nefnilega fór hálfa leið á Eldfell til að æfa göngu mína þangað upp, en ég kem ekki til Vestmannaeyja án þess að ganga Eldfell. Ég hef gengið þangað bæði í hvassviðri og þoku. Hvassviðrisferðin var kannski ekki notaleg en gerði mig, þá kall aðeins á sjötugs aldri, svolítið stoltan að hafa ekki látið aftra mér. Þokuferpðin var hins vegar alveg dásamleg ferð þar sem steinar, litir og brattar urðu að einhverju magnþrungnu og stórkostlegu sem setti hugmyndaflugið á fulla ferð, nokkuð sem ég bý yfir enn í dag.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0