Á páskum

Það var ekki lélegur páskamaturinn hjá henni Valdísi. Léttreyktur lambshryggur sem var það keyptur í Fjarðarkaup fyrir rúmri viku. Það eru nú ein 17 ár síðan við höfu lagt okkur þann veislumat til munns. Og ekki var eldhúsaðstöðunni til að dreifa við matargerðina í dag. Innréttingin liggur snyrtilega uppstöfluð á miðju stofugólfinu og þar fær hún að vera þangað málarinn hefur lokið við sitt. Eftir málningarvinnuna verður parkettið lagt á með hraði og svo kemur hann Lennart nágranni og við ætlum að hjálpast við að setja upp innréttinguna -líka með hraði. Ef til vill verður hann með mér í parkettinu líka. En hvað um það; ég skulda Valdísi stóran blómvönd núna. Hún hafði að vísu eldavél en bara pínulítinn skáp við hliðina á henni. Það voru öll þægindin.

Á fimmtudagsmorguninn var ég snemma úti áður en ég fór í vinnuna og vatnaði nýfluttum heggum. Spætan trommaði fínlega inn í skóginum og dreymdi fallega drauma um elskuna sem mundi bráðlega falla fyrir biðilshljóðum hans. Væntanlega hefur hún komið því að trommuhljóðin hafa varla heyrst síðan. Fjöldi söngradda barst líka innan úr skóginum og frá næstu trjám og allar þessar raddir virtust syngja um ástina. Niður á gamla túninu vestan við veginn sást í löng eyru hérans standa upp yfir bunguna á túninu. Ég held bara að hann hafi verið ástfanginn líka. Veðrið var frábært. Frá þessu fór ég í vinnuna.

Í gær heilsaði Broddi upp á mig út í skógi en nokkrum tímum áður slengdist lítill snákur á ótrúlegri ferð ufir veginn framan við bílinn. Ég hélt að ég mundi keyra yfir hann og fór út til að gá. Enginn snákur var sjáanlegur og því var ég saklaus. Í dag var ég úti í skógi að skoða skógarsóleyjarnar og allt í einu þeyttist lítil slanga ótrúlega snöggt inn í grastopp og sást svo ekki meir. Mér dauðbrá en slangan faldi sig með þessum ótrúlega hraða vegna þess að hún var mikið hræddari við mig. Víst væri sárt að verða bitinn af höggormi en hættan á því er þó mikið minni en að ég fái nagla upp í fótinn á byggingarsvæðinu sem enn svo lengi er til staðar sums staðar við húsið. Ég fékk nokkrum sinnum nagla upp í fótinn sem stráklingur og vont var það en þau sár greru þó öll um síðir. Það er ósnortin náttúra að hafa slöngur fyrir granna en þó best að hafa þær í hæfilegri fjarlægð frá húsinu.


Hún Sigríður Pálsdóttir skólasystir mín frá Skógum spurði í morgun hvort skógarsóleyjar séu til á Íslandi. Satt best að segja hélt ég að svo væri. Ég leit í Skrúðgarðabókina sem ég las bæði áfram og aftur á bak í Hrísey meðan ég var á bólakafi í skrúðgarðadellunni. Þar kom fram að mögulegt sé að rækta skógarsóleyjar í steinabeðum en ég fékk ekki skilið af lestrinum að skógarsóleyjar vaxi viltar á Íslandi. Á sænsku heita þær vitsippor og um þær hafa verið gerð mörg ljóð. Ég held að Roland Cedermark syngi um vitsippuna og spili undir á harmonikku. Ég fann það þó ekki en set hér með einn hlekk um nokkuð allt annað. Það er enginn páskaboðskapur en sýnir hvað fólk gerir til sveita í Svíþjóð sér til tilbreytingar.

http://www.facebook.com/l.php?u=http%3A%2F%2Fgoo.gl%2F0Ytu1&h=ef737



Stóra Sólvallaeikin er byrjuð að opna brumin og þegar hún fer af stað skeður mikið.


Ung beyki fella ekki haustlaufið fyrr en við laufgun árið eftir og hér gefur að líta eitt slíkt tré. Ég fylgist grannt með beykinu og ætla að vera með um laufgunina því að nýútsprungin beykiblöð er alveg ótrúlega falleg.

Hér með er kominn háttatími fyrir þann sem ætlar að vakna korter fyrir sex að morgni.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0