Einu sinni á ævinni

Ég sagði fyrsta vorið hér í Svíþjóð að allir ættu að eiga kost á því að upplifa slíkt vor að minnsta kosti einu sinni á ævinni. Þetta lætur kannski ekki vel í allra eyrum því að víst er íslenska vorið fallegt og ég man þá daga að þegar ég fékk fara á stuttbuxurnar í fyrsta skipti á vorin var lífið fullkomið. Hreint alveg fullkomið. En í landi þar sem bókstaflega allt verður grænt annað en stöðuvötn og mannvirki og mikið verður blómum vafið á nokkrum vikum, þá gefur það auga leið að það skeður gríðarlegamikið á þessum vikum. Þetta tímabil er vel byrjað núna. Bjarkirnar eru sprungnar út að miklu leyti en laufblöðin eru lítil ennþá. Heggurinn er sprunginn út, hestkastanían er byrjuð að opna brumhnapparna, hlynurinn er að byrja og skógarbortninn verður hvítari og hvítari af skógarsóleyjum fyrir hvern dag sem líður. Svo gæti ég haldið áfram.

Þetta er stórkostlegur tími. Hún Pía veðurfræðingur sagði áðan að það kólnaði heldur á föstudaginn langa en samt á þá að verða 14 til 16 stiga hiti. Það er spáð hlýjum páskum og ég sé fyrir mér hvernig það verður í vikunni eftir páska, en þá fer maður að freistast til að halda að nú sé þetta að verða um garð gengið. Svo er þó ekki. Þá verður veislan bara vel komin af stað og mun halda áfram lengi eftir það. Undrið verður aldrei að vana, það er ennþá sama undrið eftir 17 vor hér og nú er það átjánda gengið í garð.


Kommentarer
Þórlaug

Sæll Guðjón.

Það hlýtur að vera ótrúlega fallegt í skóginum ykkar núna, áttu ekki mynd til að setja í næsta blogg?

Á Akureyri kemur vorið hægt og hægt.

Bestu kveðjur og gleðilega páska.

Þórlaug.

2011-04-20 @ 22:45:43


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0